Hæstiréttur íslands
Mál nr. 461/2017
Lykilorð
- Viðurkenningarkrafa
- Skaðabætur
- Gjaldþrotaskipti
- Skipting sakarefnis
- Tómlæti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari, Ingimundur Einarsson héraðsdómari og Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi „að sú aðgerð Íslandsbanka að krefjast gjaldþrotaskipta á búi áfrýjanda á árinu 1992 hafi leitt til skaðabótaskyldu Íslandsbanka gagnvart áfrýjanda og að krafan hafi ekki verið fallin niður fyrir tómlæti þegar Halldóri H. Backman hrl. var falin meðferð kröfu áfrýjanda á hendur Íslandsbanka á árinu 2000.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var sakarefni málsins skipt hinn 16. nóvember 2016 og snýst ágreiningur aðila um það hvort stefndi beri ábyrgð á tjóni áfrýjanda sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Íslandsbanka hf. 14. maí 1992 og eftir atvikum hvort krafa hans sé niður fallin vegna tómlætis. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Það athugist að eins og mál þetta er vaxið verður ekki séð að sú ákvörðun héraðsdóms 16. nóvember 2016 að skipta sakarefni málsins á grundvelli undantekningarákvæðisins í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi haft í för með sér hagræði fyrir úrlausn þess.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2017.
Mál þetta höfðaði Sigurður Pétur Hauksson, Leirubakka 12, Reykjavík, með stefnu birtri 9. maí 2016 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Málið var dómtekið 24. mars sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir og leiðir af því að Íslandsbanki hf. krafðist gjaldþrotaskipta á búi stefnanda sem leiddi til þess að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta þann 14. maí 1992. Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, til vara að bótaskylda verði einungis viðurkennd að hluta. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins.
Við fyrirtöku málsins 16. nóvember 2016 var ákveðið að skipta sakarefni málsins samkvæmt heimild 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Verður í þessum dómi einungis leyst úr því hvort stofnast hafi bótakrafa stefnanda á hendur Íslandsbanka hf. þegar bankinn krafðist gjaldþrotaskipta á búi stefnanda í maí 1992. Verði á það fallist verður einnig leyst úr þeirri málsástæðu stefnda að bótakrafan hafi fallið niður vegna tómlætis. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti. Þessari skiptingu sakarefnis verða gerð nánari skil í niðurstöðukafla dómsins.
Rekja verður atvik þessa máls allt frá árinu 1992. Þá rak stefnandi tölvuþjónustu á Akranesi undir nafninu PC-tölvan. Vegna vanskila var fasteign hans, Kirkjubraut 11, seld á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992. Hæstbjóðandi var Íslandsbanki hf. með boð að fjárhæð 13.500.000 krónur. Var boðið samþykkt. Bankinn greiddi lögveðskröfur og skuld við Landsbanka Íslands á 1. veðrétti. Námu þessar kröfur samtals 13.122.321,80 krónum. Þá töldust greiddar 377.678,20 krónur upp í kröfu bankans á 2. veðrétti og var honum lögð út eignin sem ófullnægður veðhafi. Greiddist krafa hans á 2. veðrétti ekki að fullu og ekkert upp í kröfur hans á 3., 4. og 5. veðrétti. Bankinn seldi fasteignina í október 2002 fyrir 20.000.000 króna.
Í kjölfar nauðungaruppboðsins krafðist bankinn gjaldþrotaskipta á búi stefnanda. Ekki hefur komið fram í málinu hvenær þessi krafa barst skiptaráðanda, en hún var tekin fyrir í skiptarétti Akraness 13. maí 1992. Degi síðar, 14. maí 1992, var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta.
Í skiptastefnu segir að borist hafi krafa Íslandsbanka hf. um að bú stefnanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Árangurslaus aðför hafi farið fram 24. apríl 1992 vegna skuldar að fjárhæð 11.853.516,99 krónur. Í máli þessu var lagt fram ljósrit sem virðist vera úr skiptabók Akraness, en er óstaðfest. Þar er bókuð fyrirtaka á framangreindri gjaldþrotabeiðni þann 13. maí 1992. Stefnandi var sjálfur mættur og óskaði eftir fresti í einn mánuð. Lögmaður gjaldþrotabeiðanda mótmælti því að frestur yrði veittur og krafðist úrskurðar. Þá lýsti lögmaðurinn þeirri ósk að haft yrði samráð við hann um ráðningu bústjóra, sér væri kunnugt um gerninga stefnanda sem kynnu að vera riftanlegir. Var yfirlýsing lögmannsins um þetta efni færð sem bókun í skiptabókina. Segir einnig að stefnandi hafi mótmælt þessari bókun. Málið var tekið til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp eins og áður segir 14. maí.
Upplýsingar um gjaldþrotaskiptin liggja frammi í málinu í óbeinum frásögnum í öðrum skjölum, svo og í bréfi lögmanns þess sem skipaður var skiptastjóri. Bréfið er dags. 15. september 2007. Skiptum var lokið þann 30. september 1996. Ekkert greiddist upp í forgangskröfur eða almennar kröfur. Kröfur Íslandsbanka voru samþykktar við skiptin, nema krafa samkvæmt tryggingarvíxli að fjárhæð 9.966.196 krónur. Þeirri kröfu var hafnað að svo stöddu og gerði bankinn enga athugasemd við þá afstöðu.
Síðar voru skiptin endurupptekin vegna málshöfðunar stefnanda, sem síðar verður getið, en ekki kom til úthlutunar úr búinu.
Á meðal þeirra málsástæðna sem stefndi teflir fram er að stefnandi hafi sýnt tómlæti um að halda uppi kröfu sinni. Eins og áður segir lauk skiptum á þrotabúinu 30. september 1996. Þann 3. júlí 1997 sendi stefnandi bankastjóra Íslandsbanka bréf þar sem hann rekur innheimtuaðgerðir bankans gegn sér. Lýkur bréfinu með því að hann krefst skaðabóta að fjárhæð 113.000.000 króna. Síðar leitaði stefnandi til Fjármálaeftirlitsins og gerði athugasemdir við vinnubrögð bankans. Verða bréfaskiptin ekki rakin frekar.
Á árinu 2000 leitaði stefnandi til Halldórs H. Backman lögmanns.
Þann 31. janúar 2001 höfðaði Halldór H. Backman mál fyrir hönd stefnanda á hendur Íslandsbanka. Í málinu var krafist endurgreiðslu á 23.074.054,20 krónum auk vaxta. Þá var þess krafist að viðurkennt yrði að sannvirði eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi hefði numið 39.000.000 króna á nauðungaruppboði 20. febrúar 1992 og að eftirstöðvar áhvílandi veðskulda stefnanda við stefnda, sem hvíldu á 2. til 5. veðrétti eignarinnar að Kirkjubraut 11 á Akranesi, alls að fjárhæð 18.344.868,93 krónur, yrðu færðar niður að fullu.
Við meðferð þessa máls var aflað matsgerðar og síðan yfirmatsgerðar um sannvirði fasteignarinnar Kirkjubrautar 11 á uppboðsdegi, 20. febrúar 1992. Matsbeiðni var lögð fram á dómþingi við fyrirtöku málsins 5. júní 2001. Var dómkvaddur matsmaður þann 11. júní. Var matsgerð lögð fram á dómþingi 8. október 2001. Var krafist yfirmats og voru yfirmatsmenn dómkvaddir 25. október 2001. Yfirmat var lagt fram í dóminum 4. janúar 2002. Í yfirmatsgerð var talið að markaðsverð eignarinnar hefði verið 39.000.000 króna þann 20. febrúar 1992, en staðgreiðsluafsláttur hefði verið 3-5%.
Málið var dæmt í héraði 10. maí 2002. Því var áfrýjað og gekk dómur í Hæstarétti 15. apríl 2003. Þar var kröfu um viðurkenningu á sannvirði fasteignarinnar vísað frá héraðsdómi. Segir í forsendum dómsins að krafa stefnanda um niðurfærslu veðskulda sé á því reist að sannvirði fasteignarinnar hafi numið tiltekinni fjárhæð. Þurfi að taka afstöðu til þessarar málsástæðu og hafi stefnandi ekki hagsmuni af því að fá sérstaka viðurkenningu um sannvirðið. Þá var bankanum gert að greiða stefnanda 851.253 krónur auk vaxta. Loks var mælt fyrir um að eftirstöðvar veðskulda sem hvílt höfðu á 2. og 3. veðrétti, alls að fjárhæð 2.728.316 krónur, skyldu færðar niður að fullu. Jafnframt var færð niður að fullu víxilkrafa bankans á hendur stefnanda að fjárhæð 9.966.196 krónur, sem tryggð var með tryggingarbréfum á 4. og 5. veðrétti. Var í dóminum byggt á niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar og fjárhæðin 39.000.000 lækkuð um 5% í 37.050.000.
Halldór H. Backman stefndi Íslandsbanka öðru sinni fyrir hönd stefnanda og var stefnan birt 14. maí 2002. Var krafist skaðabóta að fjárhæð 60.000.000 króna. Meðferð málsins dróst talsvert fyrir héraðsdómi af ýmsum orsökum. Hætti Halldór H. Backman að vinna fyrir stefnanda í maí 2003 og komu nokkrir lögmenn að málinu fyrir hann í framhaldinu. Dómur var kveðinn upp 19. febrúar 2010. Var bankinn sýknaður þegar af þeirri ástæðu að krafan hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað. Stefnandi áfrýjaði og gekk dómur í Hæstarétti 20. janúar 2011. Varð niðurstaðan sú sama og í héraði, krafan fyrnd. Hæstiréttur heimilaði endurupptöku málsins og var það dæmt á ný í Hæstarétti 10. nóvember 2011. Enn var bankinn sýknaður þar sem hugsanleg krafa væri fallin niður fyrir fyrningu.
Eftir að þessi dómur var upp kveðinn leitaði stefnandi til stefnda eftir tilvísun Halldórs H. Backman. Átti hann sjálfur tölvupóstsamskipti við tjónadeild stefnda á árinu 2011, en lögmaður skrifaði kröfubréf fyrir hann og sendi þann 20. febrúar 2012. Þessu kröfubréfi svaraði stefndi 10. maí 2012. Var því hafnað að stefndi bæri ábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þann 16. apríl 2013. Nefndin kvað upp úrskurð 11. júní 2013 og féllst þar á kröfur stefnanda með þessum orðum: Viðurkenndur er réttur [stefnanda] til bóta úr lögmæltri ábyrgðartryggingu [Halldórs H. Backman] hjá [stefnanda] að því marki sem sýnt er fram á fjártjón sökum þess að skaðabótakrafa hans [Íslandsbanka] fyrndist.
Stefnandi höfðaði þessu næst mál á hendur Halldóri H. Backman og Vátryggingafélagi Íslands hf. Krafðist hann skaðabóta vegna þess að Halldór hefði höfðað áðurgreint mál of seint. Tryggingafélaginu var stefnt þar sem Halldór hefði ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Fyrst var kröfum á hendur tryggingafélaginu vísað frá dómi með úrskurði 2. apríl 2014, en hann var staðfestur í Hæstarétti 9. maí 2014. Dómur gekk í málinu á hendur Halldóri í héraði 19. maí 2015 og var hann sýknaður þar sem krafa á hendur honum væri fyrnd. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í dómi sínum 22. mars 2016.
Þetta mál var höfðað eins og áður segir með stefnu birtri 9. maí 2016.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að starfsmenn stefnda hafi í það minnsta gefið honum rangar upplýsingar, hafi þeir hreinlega þá ekki blekkt hann. Þá hafi stefndi dregið of lengi að taka afstöðu til bótakröfu hans á hendur Halldóri H. Backman.
Stefnandi byggir á því að hann hafi átt rétt á greinargóðum, óvefengjanlegum og réttum upplýsingum um starfsábyrgðartryggingu Halldórs H. Backman frá stefnda og þar með á hvaða lagagrundvelli krafa hans væri. Þá hafi stefnda borið að taka afstöðu til bótakröfu hans mun fyrr en hann gerði. Styður stefnandi þetta við grunnreglur vátryggingaréttar, sbr. t.d. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004.
Stefnandi byggir einkum á tveimur atriðum varðandi brot stefnda á upplýsingaskyldu sinni, þ.e. að kröfubréfi lögmanns hans hafi verið svarað allt of seint og um það leyti sem krafan á hendur Halldóri H. Backman féll niður fyrir fyrningu. Hins vegar á því að hann hafi verið blekktur með því að í svarbréfi stefnda hafi verið vísað til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, en síðan hafi stefndi byggt á því fyrir dómi að beita ætti lögum nr. 20/1954.
Ekki þarf að skýra þessar málsástæður stefnanda nánar hér, þar sem sakarefni málsins hefur verið skipt.
Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir Íslandsbanka til að krefjast töku bús hans til gjaldþrotaskipta í maí 1992. Þetta hafi verið viðurkennt í dómi Hæstaréttar 15. apríl 2003 í málinu nr. 461/2003. Forsenda fyrir niðurstöðu dómsins hafi verið sú að skýra bæri 3. og 4. mgr. 32. gr. eldri laga um nauðungaruppboð nr. 57/1949 svo, að miða bæri sannvirði fasteignarinnar á uppboðsdegi við niðurstöðu yfirmatsmanna. Þar með hafi ekki verið skilyrði til gjaldþrotaskipta.
Stefnandi byggir á því að með dómi Hæstaréttar 10. nóvember 2011, í máli nr. 291/2010, hafi verið viðurkennt að skaðabótakrafa sem hann hefði átt á hendur Glitni banka væri fyrnd.
Stefnandi byggir á því að eignin hafi verið lögð bankanum út og hafi kaupverðið numið 13.500.000 krónum, en raunvirði hafi verið 39.000.000 króna. Gjaldfallin skuld stefnanda hafi í mesta lagi numið 11.600.000 krónum. Við þessar aðstæður hafi bankanum borið að gæta hagsmuna stefnanda, sbr. 3. og 4. mgr. 32. gr., sbr. 57. gr. laga nr. 57/1949.
Stefnandi byggir á því að ábyrgð bankans hafi náð til greiðslu skaða- og miskabóta, sbr. 2. mgr. 20. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Er ítarlega fjallað í stefnu um grundvöll fjárkröfu og þau gögn sem stefnandi hefur aflað. Ekki er ástæða til að fjalla um þessi atriði á þessu stigi, en í málinu er aðeins krafist viðurkenningar bótaskyldu og ekki verður leyst úr þeirri kröfu að fullu í þessum dómi.
Í munnlegum málflutningi mótmælti stefnandi sérstaklega þeirri málsástæðu sem stefndi tefldi fram í greinargerð sinni, að krafan hefði fallið niður fyrir tómlæti. Benti stefnandi á bréf sitt til Íslandsbanka, dags. 3. júlí 1997, en það eitt dugi til að hnekkja þessari málsástæðu.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að ekki hafi verið sannað að stefndi eða starfsmenn hans hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið því að stefnandi glataði kröfu á hendur Halldóri H. Backman fyrir fyrningu, hafi hann yfirleitt átt slíka kröfu. Fjallar stefndi ítarlega um þessa málsástæðu í greinargerð sinni, en ekki er þörf á að rekja það allt í þessum dómi.
Gagnvart því sem fjallað er um í þessum þætti byggir stefndi á því að ósannað sé að stefnandi hafi átt skaðabótakröfu á hendur Halldóri H. Backman. Byggir stefndi á því að ekki sé sannað að stofnast hafi skaðabótakrafa til handa stefnanda á hendur Íslandsbanka samkvæmt 2. mgr. 20. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni þótt krafa á hendur bankanum hafi fyrnst í höndum Halldórs. Engin skaðabótakrafa hafi því stofnast á hendur Halldóri, sem hefði getað glatast fyrir fyrningu af völdum stefnda.
Þá byggir stefndi á því að skaðabótakrafa á hendur bankanum hefði verið fallin niður fyrir tómlæti stefnanda, þegar hann fól Halldóri H. Backman innheimtu hennar.
Stefndi mótmælir þeirri skýringu stefnanda á dómi Hæstaréttar í máli nr. 461/2002, að þar hafi verið staðfest að skilyrði hafi ekki verið til þess að taka bú hans til gjaldþrotaskipta. Um það hafi ekki verið fjallað í þessum dómi.
Varðandi tómlæti þá vísar stefndi til þess að stefnandi hafi fyrst haft uppi skaðabótakröfu á hendur bankanum með bréfi 3. júlí 1997. Bankinn hafi hafnað kröfunni. Þá hafi verið liðin fimm ár frá því að bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Á þessum fimm árum hafi stefnandi ekki haft uppi andmæli við eða kröfur á hendur bankanum. Þá hafi hann ekki mótmælt töku búsins til gjaldþrotaskipta. Þá hafi hann ekki gert neitt til að fá kröfur bankans færðar niður samkvæmt 32. gr. laga nr. 57/1949.
Eftir ritun þessa bréfs hafi stefnandi enn verið aðgerðarlaus í þrjú ár, þar til hann leitaði til Halldórs H. Backman. Þetta sinnuleysi stefnanda valdi því að hugsanleg krafa hans á hendur bankanum hafi verið fallin niður fyrir tómlætis sakir þegar stefnandi leitaði til Halldórs H. Backman á árinu 2000.
Niðurstaða
Fyrst skal gerð stutt grein fyrir sakarefni máls þessa og skiptingu þess eins og hún var ákveðin 16. nóvember sl. Málið er skaðabótamál á hendur Vátryggingafélagi Íslands byggt á því að starfsmenn félagsins hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið því að stefnandi höfðaði of seint málið sem áður er getið á hendur Halldóri H. Backman.
Í málinu á hendur Halldóri H. Backman var byggt á því að hann hafi með saknæmum og ólögmætum hætti dregið of lengi að höfða mál á hendur Íslandsbanka til heimtu skaðabóta fyrir að krefjast gjaldþrotaskipta á búi stefnanda þótt bankinn ætti enga fjárkröfu á hendur honum.
Í skaðabótamáli því sem hér er til meðferðar hefur sakarefni verið skipt þannig að nú skal leyst úr því hvort byggt verði á því að stefnandi hafi átt skaðabótakröfu á hendur Íslandsbanka og hvort stefnandi hafi þegar glatað slíkri kröfu vegna tómlætis þegar hann leitaði til Halldórs H. Backman á árinu 2000.
Ekki var leyst úr því í dómi Hæstaréttar í máli nr. 291/2010 hvort stefnandi hefði átt skaðabótakröfu á hendur Glitni banka eða Íslandsbanka.
Íslandsbanki krafðist gjaldþrotaskipta á búi stefnanda einhvern tíma á tímabilinu frá 20. apríl til 13. maí 1992. Úrskurður var kveðinn upp 14. maí 1992. Bankinn hafði orðið hæstbjóðandi á nauðungaruppboði á fasteign stefnanda með 13.500.000 króna boði. Af þeirri fjárhæð greiddi bankinn 479.511 krónur til lögveðshafa, 12.642.810,80 krónur til samningsveðhafa á 1. veðrétti, en tók 377.678,20 krónur undir sjálfum sér. Bankinn taldi þar með að talsvert af kröfum sínum á hendur stefnanda væru ógreiddar og krafðist gjaldþrotaskipta, er kyrrsetning hafði verið reynd án árangurs.
Stefnandi mætti við fyrirtöku á gjaldþrotabeiðninni í skiptarétti, en ekki verður séð að hann hafi hreyft andmælum við kröfunni. Athugasemd er bókuð eftir honum við fullyrðingar lögmanns skiptabeiðanda um ráðstafanir sem væru riftanlegar.
Skiptum á þrotabúinu var lokið á árinu 1996 án þess að nokkuð greiddist upp í forgangskröfur eða almennar kröfur. Þann 3. júlí 1997 skrifaði stefnandi bankanum bréf þar sem hann krafðist bóta vegna aðgerða bankans gegn honum og þess að bankinn greiddi eðlilegt verð fyrir Kirkjubraut 11. Í bréfinu segir að bankinn hafi ekki staðið rétt að málum þegar hann notaði tryggingarvíxil til að krefjast gjaldþrotaskipta og beri því ábyrgð á þeirri aðgerð svo og á þeim skaða sem aðgerðin hafi valdið honum.
Kröfur Íslandsbanka á hendur stefnanda voru færðar niður með dómi. Mál til niðurfærslu krafnanna var höfðað löngu eftir að skiptum á þrotabúi stefnanda lauk. Nokkrar af kröfum bankans í þrotabú stefnanda voru viðurkenndar af skiptastjóra og var þeirri viðurkenningu ekki andmælt. Niðurfærsla krafna samkvæmt 32. gr. laga nr. 57/1949 getur ekki haft áhrif á þær aðgerðir sem þegar hafa farið fram. Niðurfærslan tekur gildi þegar hún er viðurkennd, ekki fyrr. Þannig getur niðurfærsla krafna bankans á hendur stefnanda ekki raskað gildi gjaldþrotaskipta á búi stefnanda, sem lokið var áður en kröfurnar voru færðar niður. Þar sem kröfur bankans höfðu ekki verið færðar niður þegar gjaldþrotaskipti hófust átti hann á þeim tíma lögvarða kröfu á hendur stefnanda. Voru aðgerðir hans lögmætar. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að byggja á því í þessu skaðabótamáli stefnanda á hendur Vátryggingafélagi Íslands að Íslandsbanki hafi borið skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnandi hlaut af gjaldþrotabeiðni bankans og gjaldþrotaskiptameðferðinni.
Þar sem ekki er fallist á að Íslandsbanki hafi verið bótaskyldur gagnvart stefnanda hefur hann ekki tapað neinum kröfum vegna þess að mál hans á hendur bankanum var höfðað svo seint að krafan var talin fyrnd. Hefur hann þá heldur ekki orðið fyrir tjóni af þeim aðgerðum stefnda Vátryggingafélags Íslands sem hann byggir á í þessu máli. Verður því að sýkna stefnda alfarið af kröfum stefnanda, þótt einungis hluti sakarefnisins hafi verið ræddur í þessum hluta málsmeðferðarinnar.
Eftir þessum úrslitum verður ekki hjá því komist að dæma stefnanda til að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað. Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Péturs Haukssonar.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.