Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2006
Lykilorð
- Skaðabætur
- Umönnun
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2006. |
|
Nr. 237/2006. |
Gísli Sigurðsson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Stellu Ingibjörgu Leifsdóttur og Davíð Jóni Ingibjartssyni (Lilja Jónasdóttir hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Umönnun. Börn.
A slasaðist alvarlega í umferðarslysi þegar hún var tólf ára gömul og greiddi V stúlkunni bætur vegna tjóns hennar. S og D, foreldrar A, kröfðust bóta fyrir tjón sem þau höfðu sjálf beðið vegna hins bótaskylda tjónsatviks. G og V mótmæltu kröfunni með vísan til meginreglu skaðabótaréttar um að einungis sá, sem slysatburður bitnar beint á, geti krafist skaðabóta úr hendi tjónvalds eða úr ábyrgðartryggingu hans. Að virtri dómaframkvæmd og athugasemdum er fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga var því hafnað að sýkna bæri G og V sakir þess að hinn bótaskyldi atburður hefði ekki bitnað á þeim beint. Fallist var á kröfu S og D um bætur vegna tekjutaps sem S varð fyrir fyrstu mánuðina eftir slys A. Þau kröfðust jafnframt endurgreiðslu á útlögðum kostnaði í sex nánar tilgreindum liðum og voru tveir þeirra teknir til greina, en öðrum hafnað þar sem þeir væru ekki sennileg afleiðing slyss A. Loks kröfðust þau bóta að fjárhæð 4.000.000 krónur fyrir líklegt tekjutap næstu 2030 árin af því að A muni aldrei geta staðið á eigin fótum og verði alltaf upp á foreldra sína komin. Í mati örorkunefndar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi mátt vænta frekari bata af afleiðingum slyssins eftir 1. janúar 1999 og hafði A þá ekki náð þeim aldri að framfærsluskyldu S og D að lögum væri lokið. Talið var að gögn málsins leiddu nægilega í ljós að þessi kröfuliður ætti nokkurn rétt á sér að því virtu hverja vinnu aukin þörf fyrir umönnun og þátttaka í endurhæfingu A á þessum tíma lagði á S og D. Að öllu virtu var þessi liður tekinn til greina með 500.000 krónum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, og Hjördís Björk Hákonardóttir.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. maí 2006. Þeir krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjenda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. júlí 2006. Þau krefjast þess að aðaláfrýjendur verði óskipt dæmdir til að greiða 5.360.003 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.297.750 krónum frá 8. desember 2001 til 31. mars 2005, en af 5.360.003 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.
I.
Atvik málsins eru þau að tólf ára gömul dóttir gagnáfrýjenda, Aðalheiður Erla, lenti í umferðarslysi 28. mars 1996 og slasaðist alvarlega. Var henni metinn 65% varanlegur miski og 100% varanleg örorka af völdum slyssins. Aðaláfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt stúlkunni bætur vegna tjóns hennar og hefur þeim þætti verið lokið með samkomulagi. Í máli þessu krefjast gagnáfrýjendur bóta fyrir tjón, sem þau sjálf hafi beðið vegna hins bótaskylda tjónsatviks. Málavöxtum er að öðru leyti lýst í héraðsdómi.
Aðaláfrýjendur mótmæla að þeim sé skylt að bæta tjón, sem gagnáfrýjendur kunni að hafa orðið fyrir. Vísa þeir til þess að meginregla skaðabótaréttar sé sú að einungis sá, sem slysatburður bitnar beint á, geti krafist skaðabóta úr hendi tjónvalds eða úr ábyrgðartryggingu hans. Aðrir, sem verði óbeint fyrir tjóni vegna slyss, eigi hins vegar ekki rétt til bóta frá þeim. Aðalheiður Erla hafi fengið tjón sitt gert upp að fullu og eigi foreldrar hennar ekki rétt til sérstakra bóta sér til handa. Málsástæður aðaláfrýjenda í þessum þætti málsins eru nánar raktar í héraðsdómi. Í niðurstöðu hans er jafnframt vísað til þriggja dóma Hæstaréttar þar sem nákomnum ættingjum þeirra, sem höfðu orðið fyrir bótaskyldu líkamstjóni, voru dæmdar bætur fyrir umönnun og útlagðan kostnað. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður hafnað þeirri málsvörn aðaláfrýjenda að sýkna beri þá sakir þess að hinn bótaskyldi verknaður hafi ekki bitnað á þeim beint.
II.
Kröfu gagnáfrýjenda má í meginatriðum skipta í þrennt. Fyrsti liður hennar að fjárhæð 895.460 krónur er skýrður svo að gagnáfrýjandinn Stella hafi orðið fyrir verulegu tekjutapi fyrstu mánuðina eftir slysið. Dóttir hennar hafi um tíma legið á gjörgæsludeild á sjúkrahúsi, en síðan tekið við tími endurhæfingar þar sem hún hafi þurft mikinn stuðning foreldra. Kveðst þessi gagnáfrýjandi hafa hafið nám í byrjun árs 1996, en þó unnið mikið með því. Eftir slysið hafi námið ónýst. Launaseðlar hennar í nokkra mánuði fyrir og eftir slysið hafa verið lagðir fram í málinu. Verður ekki vefengt að gagnáfrýjandinn hafi á þeim tíma, sem hér um ræðir, innt af hendi mikilvægt vinnuframlag við umönnun og endurhæfingu dóttur sinnar og að tekjutap hennar verði skýrt með því. Að öllu virtu þykir mega taka þennan lið bótakröfunnar til greina í heild sinni.
Gagnáfrýjendur krefjast þess í annan stað að þeim verði endurgreiddur útlagður kostnaður í sex nánar tilgreindum liðum, samtals að fjárhæð 464.543 krónur. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um þennan hluta kröfunnar staðfest. Ber aðaláfrýjendum samkvæmt því að greiða gagnáfrýjendum kostnað vegna tveggja af þessum liðum með samtals 24.719 krónum.
Loks krefjast gagnáfrýjendur bóta að fjárhæð 4.000.000 krónur fyrir það að dóttir þeirra muni aldrei geta staðið á eigin fótum og verði alltaf upp á foreldra sína komin. Það muni óhjákvæmilega skerða tekjur þeirra í framtíðinni. Í stefnu er fjallað um líklegt tekjutap gagnáfrýjenda af þessum sökum „næstu 20-30 árin“, en við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var það skýrt svo að átt væri við að upphaf þess tímabils væri miðað við slysdag. Andmæli aðaláfrýjenda gegn þessum kröfulið eru rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Aðalheiður Erla hlaut margs konar meiðsl og þar á meðal heilaskaða af völdum slyssins. Ekki er fullljóst hvenær endurhæfingu hennar mátti teljast lokið, en þó er víst að það var ekki innan þess tímabils, sem krafa samkvæmt fyrsta lið að framan tekur til. Í mati örorkunefndar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið að vænta frekari bata af afleiðingum slyssins eftir 1. janúar 1999. Stúlkan hafði þá enn ekki náð þeim aldri að framfærsluskyldu gagnáfrýjenda að lögum væri lokið. Gögn málsins leiða nægilega í ljós að þessi kröfuliður eigi nokkurn rétt á sér að því virtu hverja vinnu aukin þörf fyrir umönnun og þátttaka í endurhæfingu stúlkunnar á þessum tíma lagði á gagnáfrýjendur. Fram er komið að þau nutu þá að einhverju marki umönnunarbóta frá Kópavogskaupstað, sem greiddar voru gagngert vegna slyssins, en ekki liggur nánar fyrir hver fjárhæð þeirra var. Gagnáfrýjendur mótmæla að skaðabætur verði lækkaðar af þessum sökum, enda hafi þess ekki verið krafist í málatilbúnaði aðaláfrýjenda í héraði. Kemur þetta atriði samkvæmt því ekki til frekari álita. Að öllu virtu verður þessi liður tekinn til greina með 500.000 krónum.
Gagnáfrýjendur höfðu uppi kröfu samkvæmt síðasta liðnum, sem rakinn er að framan, með bréfi 8. nóvember 2001. Verður upphafsdagur dráttarvaxta á þeim hluta kröfunnar miðaður við þann dag þegar mánuður var liðinn frá dagsetningu bréfsins. Aðrir liðir kröfunnar bera dráttarvexti frá 31. mars 2005 er málið var þingfest.
Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða samtals 400.000 krónur upp í málskostnað gagnáfrýjenda á báðum dómstigum, sem renna í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Gísli Sigurðsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði gagnáfrýjendum, Stellu Ingibjörgu Leifsdóttur og Davíð Jóni Ingibjartssyni, 1.420.179 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 500.000 krónum frá 8. desember 2001 til 31. mars 2005, en af 1.420.179 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Aðaláfrýjendur greiði samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renna í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 30. mars 2005.
Stefnendur eru Stella Ingibjörg Leifsdóttir og Davíð Jón Ingibjartsson, Bakkaseli 4, Reykjavík.
Stefndu eru Gísli Sigurðsson, Víðimel 76, Reykjavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða þeim kröfu að fjárhæð 5.360.003 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 4.297.750 krónum frá 8. desember 2001 til þingfestingardags, en af 5.360.003 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og þeim dæmdur málskostnaður.
MÁLSATVIK
Málavextir eru þeir að hinn 28. mars 1996 slasaðist dóttir stefnenda, Aðalheiður Erla Davíðsdóttir, sem þá var á 13. ári, mjög alvarlega þegar jeppabifreið með kerru í eftirdragi keyrði á hana þar sem hún var að ganga yfir aðrein Bústaðavegar að Kringlumýrarbraut á leið úr skóla og reiddi reiðhjól sitt sér við hlið. Við áreksturinn kastaðist Aðalheiður upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og lenti síðan langt út af henni hægra megin. Aðalheiður var flutt meðvitundarlaus á slysadeild með brot á hægri lærlegg, mjaðmagrindarbrot og alvarlega höfuðáverka. Gert var að beinbrotum hennar en henni var síðan haldið sofandi í öndunarvél í viku vegna höfuðáverkanna. Aðalheiður fékk mar á heila á tveimur stöðum, blæðingu í heilahólf, í litla heila og heilastofn. Vegna áverkanna lamaðist Aðalheiður að miklu leyti á hægri hlið líkama síns og var lengi í endurhæfingu vegna þessa.
Afleiðingar slyssins hafa þó aðallega komið fram í miklum breytingum á atgervi dóttur stefnenda. Höfuðáverkar Aðalheiðar hafa skilið eftir sig varanleg taugasálfræðileg einkenni sem lýsa sér helst í náms- og aðlögunarerfiðleikum, mjög takmarkaðri færni til atvinnuþátttöku, meðferð á peningum, umgengni við annað fólk og skorti á nærfærni og tillitssemi við aðra.
Með matsgerð dags. 4. júní 2001 var Aðalheiður metin með 50% varanlegan miska og 60% varanlega örorku. Á grundvelli matsins greiddi réttargæslustefndi skaðabætur til dóttur stefnenda. Greiðslan var þó móttekin með fyrirvara en stefnendur óskuðu eftir frekari mati örorkunefndar á tjóni dóttur sinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 50/1993. Með álitsgerð, dags. 15. apríl 2003, komst örorkunefnd að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski Aðalheiðar væri 65% og varanleg örorka 100%. Í báðum matsgerðunum er tekið fram að félagsfærni Aðalheiðar hafi skerst verulega við slysið og myndi, að öllum líkindum, verða háð stefnendum sem eftir lifði.
Stefnendur kveða að strax eftir slys dóttur sinnar hafi heimilislíf þeirra raskast mjög mikið. Stefnendur hafi eytt heilu vikunum við hlið dóttur sinnar þar til hún var útskrifuð af spítalanum hinn 6. maí 1996. Hafi þá tekið við strangt tveggja mánaða ferli endurhæfingar á Grensásdeild. Að loknu því tímabili hafi stefnendur hafist handa við að koma lífi dóttur sinnar í samt horf, þ.e. undirbúa hana undir að halda áfram í skóla en Aðalheiður hafi þurft á sérkennslu að halda vegna áverka sinna. Stefnendur hafi m.a. flutt búferlum til þess að vera nær Hjallaskóla í Kópavogi, en þar muni vera mjög góð aðstaða og þjónusta fyrir börn með miklar sérþarfir. Til þess að sinna Aðalheiði hafi stefnandinn Stella þurft að seinka iðnrekstrarfræðinámi sínu um 2 ár og stefnandinn Davíð þurft að draga verulega úr vinnu sinni og hafi því heimilistekjur skerst nokkuð við það.
Þó svo að dóttir stefnenda hafi nú að mestu náð sér líkamlega eftir slysið sé ekki hægt að segja hið sama um hana andlega. Aðalheiður þurfi ákaflega mikla umönnun og mikið eftirlit. Fyrir slys hafi Aðalheiði sóst námið vel og hún fengið góðar einkunnir en nú kosti námsástundun hennar mikla vinnu, bæði fyrir hana sjálfa en þó sérstaklega fyrir stefnendur þar sem Aðalheiður þurfi mikla aðstoð við allt heimanám en einnig sé erfitt að halda henni að verki. Haustið 1999 hafi hún hafið nám á almennri braut (fornámsbraut) í Menntaskólanum í Kópavogi. Þó svo að hún hafði náð samræmdu grunnskólaprófi hafi hún ekki verið talin ráða við bóknámsbraut.
Þar sem ljóst hafi verið að umönnunarkostnaður Aðalheiðar myndi verða stefnendum mikill baggi fóru þau fram á við stefnda, VÍS, með bréfi dags. 8. nóvember 2001, að þeim yrðu greiddar umönnunarbætur og útlagður kostnaður vegna þess tjóns sem slys dóttur þeirra hafði valdið þeim persónulega. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi borið fyrir sig að tjón stefnenda væri ekki bótaskylt þar sem ekki væru lagaskilyrði fyrir hendi auk þess sem aðstæður stefnenda væru ekki sambærileg þeim dómafordæmum þar sem umönnunarbætur hefðu verið greiddar. Af þeim sökum hafi kröfu stefnenda verið hafnað.
MÁLSÁSTÆÐUR
Stefnendur byggja mál sitt á því að stefndi Gísli hafi með gáleysislegum akstri sínum þann 28. mars 1996 ekki eingöngu valdið dóttur stefnenda tjóni heldur einnig valdið stefnendum sjálfum tjóni vegna þess tekjutaps og þess mikla kostnaðar sem stefnendur hafa þurft að bera í baráttu sinni fyrir endurhæfingu dóttur sinnar. Í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga segi að sá sem bótaábyrgð beri á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hljótist og enn fremur þjáningabætur. Bætur þessar séu ekki bundnar við þann sem fyrir sjálfu slysinu verði heldur einnig þá sem verða fyrir almennu fjártjóni vegna afleiðinga slyssins. Hafi dómar Hæstaréttar staðfest slíkt.
Vegna slyssins hafi líf stefnenda og fjölskyldu þeirra umbreyst og í stað þess að vera með 21 árs gamla dóttur, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti að vera tilbúin að lifa sjálfstæðu lífi, séu stefnendur með 21 árs gamalt smábarn sem þurfi ákaflega mikla umönnun og eftirlit. Aðalheiði hafi verið lýst sem mjög hömlulausri manneskju með mikla þráhyggju. Hún framkvæmi án þess að hugsa um afleiðingar þess og án þess að gerðir hennar hæfi aldri hennar. Hún hafi mikinn áhuga á hinu kyninu en fái oftast ekki áhugann endurgoldinn. Slík vonbrigði valdi Aðalheiði miklu þunglyndi og sjálfsvígshugsunum. Slíkt atferli hafi ólýsanleg áhrif á stefnendur sem þurfi að sitja heilu kvöldin með dóttur sinni, hugga hana og ræða málin.
Hömluleysi Aðalheiðar sé þó að mati stefnenda aðalorsakavaldur hins mikla eftirlits sem þörf sé á. Hömluleysið komi fram í flestum hennar gjörðum, þó mest í mannlegum samskiptum og fjármálum. Sem dæmi um hömluleysi Aðalheiðar megi nefna að stefnendur hafi keypt handa henni GSM-síma, sem ætlað hafi verið sem nokkurs konar öryggistæki. Hömluleysi Aðalheiðar hafi þó leitt til þess að símareikningur stefnenda hækkaði um 50.000 krónur á mánuði. Stefnendur hafi brugðist við með því að loka á símtöl úr símanum þannig að Aðalheiður hafi einungis getað sent SMS-skilaboð, ef hún lenti í vandræðum. Reikningur stefnenda vegna SMS-skilaboðanna sé nú um 20.000 krónur á mánuði þar sem Aðalheiður sendi um 60 SMS á sólarhring. Af þeim sökum sé að mati stefnenda varanleg gæsla og umönnun dóttur þeirra alger forsenda fyrir því að hún geti lifað eins venjulegu lífi og mögulegt er. Niðurstaða örorkunefndar staðfesti slíkt. Ef aðstoðar stefnenda nyti ekki við væru allar líkur á að dóttir þeirra færi sér eða öðrum að voða.
Að mati stefnenda verði fjártjón þeirra ekki bætt með aðstoð hins opinbera, en ekki sé starfrækt nein eftirmeðferð á Íslandi fyrir heilaskaddaða. Öll endurhæfing og þjálfun Aðalheiðar sé því í höndum stefnenda en ljóst sé að sú þjálfun sé nauðsynleg forsenda þess að Aðalheiður geti þroskast á eðlilegan hátt. Þá hafi ekki verið gert ráð fyrir tjóni stefnenda í örorku- og miskabótum til Aðalheiðar. Sé því ljóst að hluti þess tjóns sem varð vegna slyss Aðalheiðar sé enn óbætt.
Bótakröfu stefnenda kveða þeir byggða á eftirfarandi 3 þáttum:
Tekjutap
Óumdeilt sé að stefnendur hafi orðið fyrir miklu tekjutapi fyrstu mánuðina eftir slysið. Samkvæmt samanburði á launum stefnanda Stellu á 6 mánaða tímabili fyrir og eftir slys sjáist að meðallaun hennar hafi lækkað úr 74.565 krónum í 29.792 krónur, eða um 60%. Tekjutap stefnanda Stellu á tímabilinu frá slysi til desember 1997, þ.e. þegar Stella ætlaði að hefja nám í Tækniháskóla Íslands, reiknist því 895.460 krónur (kr. 44.773 x 20). Krafist er dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
Útlagður kostnaður
A)Verslunarskóli Íslands
Í fyrsta lagi sé um að ræða reikning fyrir skólagjöldum frá Verslunarskóla Íslands að fjárhæð 25.900 krónur, en stefnandinn Stella hafi hafið nám við skólann í janúar 1996 en þurft að bregða námi í mars þegar dóttir hennar lenti í fyrrgreindu slysi. Önnin hafi ónýst fyrir henni og þar með skólagjöldin sem hún hafi verið búin að greiða.
Krafist er dráttarvaxta frá 8. desember 2001.
B)Newbold College
Í öðru lagi sé um að ræða kostnað vegna tveggja ferða í Newbold College-enskuskólann í Englandi, en stefnendur hafi ákveðið að senda dóttur sína í skólann til að auka sjálfstraust hennar. Stefnendur telja ótvírætt að dvölin þar hafi orðið Aðalheiði til góðs. Algengt sé að unglingar fari einir í þennan skóla en sökum veikinda Aðalheiðar hafi stefnandinn Stella farið með henni sumarið 2000 en fjölskyldan farið öll saman sumarið 2001. Kostnaður vegna skólaársins 2000 hafi verið 875 sterlingspund fyrir skólagjöldum, eða 104.125 krónur miðað við þágildandi gengi, og 20.435 krónur vegna flugfargjalda. Kostnaður vegna skólaársins 2001 hafi verið 1.400.50 sterlingspund vegna skólagjalda, eða 166.659 krónur og 84.855 krónur vegna fluggjalda. Heildarkostnaður stefnenda vegna skólagöngu Aðalheiðar í Newbold College sumurin 2000 og 2001 hafi því numið 376.074 krónum.
Krafist er dráttarvaxta af 250.000 krónum frá 8. desember 2001 en af mismuninum, 126.074 krónum, er krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
C)Kostnaður við endurhæfingu stefnenda
Í þriðja lagi sé krafist bóta vegna útlagðs kostnaðar á endurhæfingu stefnandans Stellu en vegna þess mikla álags sem slys Aðalheiðar hafi haft á heimilislíf stefnenda hafi hún þurft að leita aðstoðar sjúkraþjálfara og sálfræðings. Samtals hafi stefnendur greitt 21.850 krónur fyrir þessa aðstoð.
Krafist er dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
D)Kostnaður vegna námskeiðs
Í kjölfar slyss dóttur stefnenda hafi þeim verið bent á af læknum og hjúkrunarfræðingum að fara á námskeið hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins um afleiðingar höfuðáverka. Þetta námskeið hafi verið stefnendum nauðsynlegt til að fræðast um hið breytta hegðanamynstur dóttur sinnar og til þess að fá ráðleggingar fagfólks um hvernig best væri að lifa með því. Kostnaður á hvern þátttakanda hafi verið 8.000 krónur, eða 16.000 krónur fyrir stefnendur.
Krafist er dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
E)Kostnaður vegna þjálfunar
Á árunum eftir slys dóttur stefnenda hafi þau greitt fyrir iðju- og sjúkraþjálfun hennar hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Samtals nemi reikningar þessir 12.209 krónum, en þjálfun þessi hafi verið óumdeilanleg nauðsyn fyrir dóttur stefnenda. Kostnaðurinn hafi ekki verið greiddur af ríkinu þar sem ekki hafi verið búið að meta dóttur stefnenda öryrkja á þessum tíma og hafi því stefnendur þurft að leggja út fyrir honum. Að mati stefnenda fellur þessi kostnaður beint undir sjúkrakostnað 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993.
Krafist er dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
F)Kostnaður vegna stoðtækja
Við slysið hafi annar fótur dóttur stefnenda styst. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að fá sérstakt innlegg í skó hennar. Kostnaður vegna þessa hafi numið 12.510 krónum. Að mati stefnenda falli þessi kostnaður einnig beint undir sjúkrakostnað 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993.
Krafist er dráttarvaxta frá þingfestingardegi.
Útlagður kostnaður stefnenda nemi því alls 464.543 krónum.
Áætlað fjártjón
Eins og ljóst sé muni dóttir stefnenda aldrei geta staðið á eigin fótum og alltaf verða upp á foreldra sína komin. Slíkt muni óhjákvæmilega skerða tekjumöguleika þeirra í framtíðinni.
Vegna slyssins sé Aðalheiður mjög klaufsk og stöðugt að ganga á búsmuni og eyðileggja þá. Hún missi mjög mikið af diskum og glösum þannig að þeir brotni.
Aðalheiður hafi einnig orðið uppvís að því að brjóta vísvitandi hluti í reiðiköstum án þess að geta gefið nokkrar skýringar á athæfi sínu, t.d. hafi hún tekið í sundur rándýra myndavél stefnenda og sparkað gat á hurð á heimilinu.
Þar sem mjög erfitt sé að meta tjón stefnenda sé bótakrafa þeirra áætluð 4.000.000 króna. Stefnendur telja kröfulið þennan síst ofreiknaðan þar sem hafa verði í huga að í þessum lið felist tekjutap hvors um sig næstu 20-30 árin, eða það sem eftir sé af starfsævi þeirra beggja. Ljóst sé að með 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 sé dómstólum veitt nokkurt svigrúm til þess að telja tjón til annars fjártjóns, svo lengi sem tjón sé sannað og það falli ekki undir aðra sérgreinda bótaliði skaðabótalaga.
Vísað er til meginreglu skaðabótaréttar og almennu skaðabótareglunnar sem og þeirra lagagreina sem fram koma í kaflanum um málsástæður.
Vísað er til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88., 90. og 97. gr.
Kröfur um dráttarvexti, styður stefnandi við reglur III. og IV. kafla nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga 91/1991.
Sýknukrafa stefndu er byggð á þeirri meginreglu skaðabótaréttar, að aðeins sá sem slysatburður bitnar á beint, þ.e. slasast sjálfur, geti krafist skaðabóta úr hendi tjónvalds eða ábyrgðartryggjanda hans. Aðrir sem verði óbeint fyrir tjóni vegna slyssins, svo sem fjölskylda slasaða eða aðrir ættingjar, eigi hins vegar ekki rétt til skaðabóta fyrir tjón sitt í tengslum við slysið, svo sem vegna rasks á persónulegum högum sínum, óþægindum og aukinni fyrirhöfn vegna hins slasaða eða auknum útgjöldum í tengslum við slys hans.
Með lokauppgjöri dags. 8. október 2003 hafi tjónþoli umrædds slyss, dóttir stefnenda, Aðalheiður Erla Davíðsdóttir, fengið greiddar að fullu þær skaðabætur sem hún hafi átt rétt á að lögum úr hendi stefndu og eigi foreldrar hennar engan rétt til sérstakra bóta sér til handa.
Ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 tiltaki að sá sem valdi líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hljótist. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 segi að með orðunum „annað fjártjón“ í 1. mgr. 1. gr. sé átt við útgjöld sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt er að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. Annað fjártjón í skilningi 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé því tjón sem falli á tjónþola sjálfan. Löggjafinn hafi því ekki verið að breyta langvarandi réttarframkvæmd að það sé eingöngu tjónþolinn sjálfur sem eigi kröfu til bóta vegna líkamstjóns.
Í þeim tilvikum sem aðstandendur hafi fengið dæmdar umönnunarbætur hafi slíkar bætur grundvallast á því að fyrir hendi hafi verið læknisfræðileg þörf tjónþolans eða heilsufarsleg nauðsyn hans á viðkomandi aðhlynningu aðstandandans. Bæturnar hafi þannig verið sama eðlis og sjúkrakostnaður eftir slys. Ekki hafi verið sýnt fram á læknisfræðilega þörf dóttur stefnenda á slíkri umönnun. Þegar slík læknisfræðileg nauðsyn eða þörf sé ekki fyrir hendi eða sé ekki skilyrði bata og endurhæfingar, sé ekki lagagrundvöllur fyrir bótakröfunni. Heilsufarslegt ástand dóttur stefnenda sé orðið stöðugt og því verði ekki séð, að grundvöllur sé til sérstakra bóta til foreldra eða annarra aðstandenda tjónþola, þótt hún búi þar áfram á heimili. Bætur tjónþola umrædds slyss fyrir varanlega örorku mæti kostnaðinum við framfærslu hennar og umönnun enda eigi örorkubætur fyrst og fremst að vera til framfærslu í lífinu.
Kröfu stefnenda um bætur vegna tekjutaps næstu 20-30 ár að fjárhæð 4.000.000 króna sé jafnframt mótmælt sem tölulega órökstuddri með öllu. Skorti bæði sönnun um læknisfræðilega þörf á stuðningi foreldra Aðalheiðar með henni alla ævi og hvað slíkur stuðningur myndi þá kosta í raun og veru. Þá sé alls óvíst að Aðalheiður muni þurfa að búa heima hjá foreldrum sínum næstu 20-30 árin eins og stefnendur haldi fram.
Kröfu stefnenda vegna innleggs dóttur stefnenda og iðju- og sjúkraþjálfunar hafna stefndu með vísan til þess að uppgjör um örorkubætur sem ætlaðar séu til framfærslu dóttur stefnenda hefur þegar farið fram.
Varðandi ferðakostnað fjölskyldunnar til Englands verði ekki heldur séð að sumarferðir til enskunáms þangað hafi verið læknisfræðileg nauðsyn i tengslum við endurhæfingu Aðalheiðar eftir slysið.
Kostnaður við sjúkraþjálfun og sálfræðiaðstoð móður vegna álags á heimilinu vegna slyss dótturinnar sé of fjarlæg og ófyrirsjáanleg afleiðing slyss til að geta talist vávæn eða sennileg afleiðing þess.
Sama gildi um skólagjald fyrir stefnanda Stellu í Verslunarskóla Íslands sem nýttist ekki og kostnað vegna námskeiðs stefnanda hjá Greiningarstöð ríkisins árið 1997. Sé um að ræða of ófyrirsjáanlegar og óbeinar afleiðingar slyss til að skylt sé að bæta þær. Að auki séu framangreindar kröfur fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndu hafni því bótaskyldu vegna þessa.
Að lokum sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt og þess krafist að telji dómurinn stefndu bótaskylda verði dráttarvextir ekki reiknaðir fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Vísað er til meginreglna skaðabótaréttar varðandi sýknukröfu, skaðabótalaga nr. 50/1993 og 99. gr. umferðarlaga nr. 99/1987. Til stuðnings kröfu um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum segir að sá sem bótaábyrgð beri á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hljótist og enn fremur þjáningabætur. Það er meginregla í skaðabótarétti að einungis þeir sem verða sjálfir fyrir tjóni á líkama geti átt rétt til skaðabóta en ekki þeir sem verða fyrir afleiddu tjóni. Dómstólar hafa þó í einstökum tilvikum dæmt aðstandendum slasaðs manns umönnunarbætur vegna afleidds tjóns þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar H 162. 1992, H 238. 1987 og H 74. 1989. Allir þessir dómar varða atvik sem áttu sér stað fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Í athugasemdum í greinargerð fyrir 1. gr. frumvarps þess er varð að skaðabótalögum segir að ekki sé gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu að því er varðar bætur fyrir það sem nefnt var röskun á stöðu og högum fyrir gildistöku laganna og segir að heimilt verði að bæta slíkt sem „annað fjártjón“. Þá segir að ákvæðið um bætur fyrir annað fjártjón sé einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki teljist til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs. Dómurinn telur að með vísan til þessara lögskýringargagna svo og framangreindra dóma megi fallast á það með stefnendum að þeir geti átt bótakröfu á hendur stefndu, sýni þeir fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til slyss dóttur þeirra.
Stefnandi Stella krefst bóta vegna tapaðra tekna sinna frá slysdegi til desember 1997 að fjárhæð 895.460 krónur. Við útreikning kröfu sinnar styðst þessi stefnandi við launaseðla frá vinnuveitanda sínum og kemur fram af gögnunum að launatekjur hennar lækkuðu um 60% á umræddu tímabili. Fallist er á þennan kröfulið eins og hann er fram settur.
Þá krefja stefnendur um greiðslu á því sem þau telja útlagðan kostnað samtals að fjárhæð 464.543 krónur. Krafa þessi er í 6 liðum og varða fjórir þeirra kostnað vegna skólagjalda stefnanda Stellu sem ekki nýttist henni, kostnað vegna ferða stefnenda og dóttur þeirra til Englands og skólagjöld þar, kostnað vegna endurhæfingar stefnenda og námskeiðs sem þau sóttu. Ekki verður fallist á það að kostnaður þessi hafi verið sennileg afleiðing slyss dóttur stefnenda þannig að falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og er þessum fjórum liðum því hafnað. Hins vegar verður fallist á að kostnaður við iðju- og sjúkraþjálfun dóttur stefnenda að fjárhæð 12.209 krónur og kostnaður vegna innleggs í skó að fjárhæð 12.510 falli undir sjúkrakostnað í skilningi 1. gr. 1. mgr. skaðabótalaga og eru þessir tveir liðir samtals að fjárhæð 24.719 krónur teknir til greina.
Loks gera stefnendur kröfu um 4.000.000 króna í bætur fyrir áætlað fjártjón þeirra vegna þess að dóttir þeirra verði alltaf upp á þau komin og muni það skerða tekjumöguleika þeirra í framtíðinni.
Fram kemur í álitsgerð örorkunefndar frá 15. apríl 2003 að dóttir stefnenda muni líklegast búa áfram heima á meðan foreldra njóti við. Varanleg örorka hennar vegna slyssins er 100% eða alger og mun vinnugeta hennar væntanlega vera bundin við hlutastarf á vernduðum vinnustað í framtíðinni. Þá kemur fram í læknisvottorði Borghildar Einarsdóttur frá 25. nóvember 2005 að ljóst sé að stúlkan hafi þurft mikinn stuðning og umönnun foreldra sinna allt frá því slysið varð og þurfi enn.
Dómurinn telur stefnendur hafa sýnt fram á að af slysinu hafi leitt umtalsverðar breytingar á högum þeirra og að það hafi áhrif á tekjumöguleika þeirra til frambúðar. Er því fallist á kröfu þeirra um bætur samkvæmt þessum lið sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.
Samkvæmt þessu verða stefndu dæmdir til að greiða stefnendum 1.920.179 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Með greiðslu bóta hinn 12. febrúar 2002 og 8. október 2003 greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. dóttur stefnenda bætur vegna tjóns hennar. Við lokauppgjör var gerður fyrirvari vegna krafna stefnenda í því máli sem hér er dæmt. Verður því ekki fallist á það með stefndu að kröfur stefnenda séu fyrndar vegna ákvæða 99. gr. umferðarlaga.
Stefnendur hafa fengið gjafsóknarleyfi og greiðist allur málskostnaður þeirra, 698.880 krónur þar með talinn virðisaukaskattur, úr ríkissjóði.
Stefndu greiði 698.880 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Gísli Sigurðsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnendum, Stellu Ingibjörgu Leifsdóttur og Davíð Jóni Ingibjartssyni, 1.920.179 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 31. mars 2005 til greiðsludags.
Stefndu greiði 698.880 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda, 698.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.