Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/2009
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Dagsektir
- Málsástæða
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 202/2009. |
Lambeyri ehf. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Vagni Þormari Stefánssyni og Guðrúnu Elvu Ármannsdóttur (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Fasteignakaup. Dagsektir. Málsástæður. Dráttarvextir.
V og G gerðu samning við L ehf. um að félagið tæki að sér að byggja hús fyrir þau eftir teikningum sem L ehf. lagði sjálft til. Samkvæmt samningi aðila skyldi húsið afhent 15. október 2005 og skyldu dagsektir reiknast frá 30. nóvember 2005, væri verkinu ekki skilað á tilsettum tíma. Húsið var ekki afhent fyrr en 28. febrúar 2006 og stefndu V og G félaginu til greiðslu dagsekta samkvæmt samningnum. Í málinu hélt L ehf. því fram að honum bæri ekki skylda til að greiða dagsektirnar þar sem dráttur á skilum hússins væri fyrst og fremst af ástæðum sem V og G bæru ábyrgð á. Í dómi Hæstaréttar kom fram að um viðskipti aðilanna giltu lög nr. 40/2002 um fasteignakaup. Talið var ósannað að L ehf. hefði ekki verið unnt að hefjast handa við smíði hússins á verkstæði sínu á þeim verktíma sem samningur aðila gerði ráð fyrir þótt byggingarleyfi lægi ekki fyrir. L ehf. átti samkvæmt samningi aðila að leggja til byggingarnefndarteikningar og varð byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en þær lágu fyrir. Af gögnum málsins mátti ráða að teikningarnar voru dagsettar 22. september 2005 og yrði V og G því ekki um kennt hversu dróst að gefa leyfið út. L ehf. hafði ekki sannað að V og G bæru ábyrgð á þeim afhendingardrætti sem varð, né að hann hefði tilkynnt þeim að hann ætti rétt á framlengingu verktímans vegna ástæðna sem þau bæru ábyrgð á, eða vegna veðurfars eða annarra atvika sem réttlætt gætu afhendingardrátt af hans hálfu. Þá var ekki fallist á það með L ehf. að V og G hefðu glatað rétti sínum til að krefjast dagsekta sökum þess að þau hefðu greitt kaupverð hússins að fullu, þar sem sú málsástæða hafði ekki verið höfð upp af hálfu L ehf. í héraði og komst hún því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var L ehf. dæmt til að greiða V og G dagsektirnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar með sér samning 16. mars 2005, sem þeir nefna verksamning. Samkvæmt samningnum skyldi áfrýjandi byggja hús fyrir stefndu á verkstæði sínu eftir teikningum sem hann lagði sjálfur til. Í samningnum er lýst frágangi hússins að utan og innan. Þá skyldi áfrýjandi annast flutning hússins á grunn, sem hann skyldi sjálfur mæla fyrir og steypa á lóð stefndu í landi Minni-Akra, Akrahreppi, Skagafirði. Stefndu skyldu, auk þess að greiða kaupverð hússins, annast gröft úr grunni, fyllingar í grunn og frágang á plani þannig að unnt væri að bakka inn í grunninn með húsið. Í 4. gr. samningsins er mælt fyrir um að undirbúningur verksins skyldi hefjast strax en aðal verktími yrði frá júlí til október 2005. Í 3. gr. er kveðið á um að húsið skyldi afhent 15. október 2005, en þar segir jafnframt: ,,Ljúki verktaki ekki verkinu á tilsettum tíma, reiknast dagsektir frá 30. nóv. 2005 kr. 13.500 ... fyrir hvern almanaksdag eftir það.“ Í 7. gr. er mælt fyrir um hvernig með skuli fara ef breytingar verða á verki, en þar segir: ,,Skylt er að biðja skriflega um breytingar á verkinu og eins er skylt að gefa skriflega allar ákvarðanir, sem verktaki óskar eftir, vegna misræmis milli lýsingar og teikninga, efnisákvörðunar, skekkju í útboðsgögnum eða annarra atriða sem verktaki telur óskýr.“
Verulegar tafir urðu á verkinu og einstökum þáttum þess. Stefndu sóttu um byggingarleyfi með bréfi 1. september 2005. Leyfið var veitt 7. október 2005, jarðvegsvinnu við grunn lauk 24. sama mánaðar og sökkull hússins steyptur 29. nóvember sama ár. Grunnur var tilbúinn til þess að flytja mætti húsið á hann í lok desember og húsið flutt 25. janúar 2006. Það var tilbúið til afhendingar 28. febrúar sama ár.
Aðilar eru sammála um að afhending hússins hafi farið fram síðast nefndan dag og að dagafjöldi sá sem krafa stefndu um dagsektir miðast við sé 89 og fjárhæð þeirra því 1.201.500 krónur. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að honum beri ekki skylda til að greiða dagsektir þar sem dráttur á skilum hússins sé fyrst og fremst af ástæðum sem stefndu beri ábyrgð á.
II
Um viðskipti aðila gilda lög nr. 40/2002 um fasteignakaup. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga er um neytendakaup að ræða, enda reisir áfrýjandi hús í atvinnuskyni til sölu á almennum markaði, en stefndu keyptu húsið til persónulegra nota fyrir sig og fjölskyldu sína. Ákvæði laga nr. 40/2002 eru ófrávíkjanleg við þessar aðstæður ef samningur um annað yrði óhagstæðari fyrir stefndu, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Ákvæði 3. gr. í samningi aðila um dagsektir er til hagsbóta fyrir stefndu, enda þarf ekki að sýna fram á að tjón hafi orðið þegar dagsekta er krafist. Í málinu er eingöngu deilt um rétt til dagsekta og koma því ákvæði um skaðabætur í lögum nr. 40/2002 ekki til athugunar, hvorki reglur um stjórnunarábyrgð í 34. gr. til 36. gr. né aðrar bótareglur. Verður leyst úr ágreiningi um rétt til dagsekta eftir almennum reglum kröfuréttar.
Áfrýjanda var samkvæmt samningi aðila skylt að afhenda húsið 15. október 2005, en gerði það ekki fyrr en 28. febrúar 2006. Ósannað er að honum hafi ekki verið unnt að hefjast handa um smíði þess á verkstæði sínu á þeim verktíma sem samningur aðila gerði ráð fyrir þótt byggingarleyfi lægi ekki fyrir. Áfrýjanda bar að leggja til byggingarnefndarteikningar og varð byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en þær lágu fyrir. Kemur fram í gögnum málsins að til grundvallar byggingarleyfi hafi legið teikningar dagsettar 22. september 2005. Verður því ekki af þessu ráðið að stefndu sé um það að kenna hversu dróst að gefa leyfið út. Áfrýjandi hefur ekki sannað að stefndu beri ábyrgð á þeim afhendingardrætti sem varð. Hann hefur heldur ekki sannað að hann hafi tilkynnt stefndu að hann ætti rétt á framlengingu verktímans vegna ástæðna sem stefndu bæru ábyrgð á eða vegna veðurfars eða annarra atvika sem réttlætt gætu drátt á afhendingu af hans hálfu.
Áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti reist málatilbúnað sinn meðal annars á þeirri málsástæðu að stefndu hafi glatað rétti til að krefjast dagsekta þar sem þau hafi greitt kaupverð hússins að fullu án þess að gera fyrirvara um rétt sinn til dagsekta. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi í héraði og kemst hún því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt framansögðu er fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að stefndu eigi rétt til dagsekta úr hendi áfrýjanda eins og þar greinir. Í héraði krafðist áfrýjandi til vara lækkunar á kröfu stefndu, en sú krafa var ekki rökstudd með öðrum hætti en þeim að afhendingardrátturinn væri að hluta á ábyrgð þeirra. Verður ekki á það fallist.
Stefndu eiga rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni frá þeim degi er liðinn var mánuður frá því að dagsekta var krafist með bréfi lögmanns þeirra 31. júlí 2006, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður óraskað en áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Lambeyri ehf., greiði stefndu, Vagni Þormari Stefánssyni og Guðrúnu Elvu Ármannsdóttur, 1.201.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2006 til greiðsludags.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms skal vera óröskuð.
Áfrýjandi greiði stefndu sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 29. janúar 2009.
I
Mál þetta var þingfest 26. júní 2007, tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi 10. janúar 2008 og dæmt 22. febrúar 2008. Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. þessa mánaðar var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim. Málið var munnlega flutt fyrir dóminum á ný og dómtekið 26. þessa mánaðar.
Stefnendur eru Vagn Þormar og Guðrún Ármannsdóttir, bæði til heimilis að Minni-Ökrum, Akrahreppi, Skagafirði. Stefndi er Lambeyri ehf., Lambeyri, sveitarfélaginu Skagafirði. Kaupþingi banka hf. í Reykjavík var stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur
Stefnendur krefjast þess að stefndi verið dæmdur til að greiða þeim 1.201.500 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2006 til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til skyldu stefnenda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Kröfur eru ekki gerðar á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda. Til vara að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar. Í báðum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Réttargæslustefndi sótti þing við þingfestingu málsins en síðar féll niður þingsókn af hans hálfu og hefur hann ekki gert kröfur í málinu.
II
Málavextir
Hinn 16. mars 2005 gerðu aðilar með sér samning þess efnis að stefndi byggði 138,56 fermetra íbúðarhús fyrir stefnendur. Í samningi aðila er tekið fram eftir hvaða teikningu stefnandi skyldi smíða húsið og þar var einnig tekið fram hver hannaði burðarþol. Í 1. gr. samnings aðila er tekið fram að verktaki kosti allar teikningar, nema deiliskipulag sem sveitarfélagið sjái um og vinnu Braga Þórs Haraldssonar á verkfræðistofunni Stoð, vegna afstöðumyndar. Síðan segir orðrétt: „Verktaki skal reisa húsið inn á verkstæði, sjá um flutning og koma því fyrir á grunni sem hann verður þá búinn að steypa. Verkkaupi greiðir heimtaugagjald fyrir síma, kalt og heitt vatn og rafmagn svo og byggingarleyfisgjald. Verkkaupi kostar gröft úr grunni og fyllingu en verktaki sér um mælingar. Einnig skal verkkaupi ganga þannig frá plani að hægt verði að bakka inní grunninn með húsið.“ Í 3. gr. samningsins er mælt fyrir um að húsið hafi átt að afhendast fullfrágengið 15. október 2005. Dagsektir skyldu reiknast eftir 30. nóvember 2005, 13.500 krónur fyrir hvern almanaksdag.
Hinn 14. mars gaf réttargæslustefndi út ábyrgðaryfirlýsingu þess efnis að hann tæki ábyrgð á því, gagnvart stefnendum, að stefndi fullnægði skyldum sínum samkvæmt nefndum samning aðila. Ábyrgð réttargæslustefnda takmarkaðist við 1.800.000 krónur.
Stefnandi segir að stefndi hafi ekki skilað húsinu á tilsettum tíma heldur hafi hann afhent það 28. febrúar 2006 eða 134 almanaksdögum eftir umsaminn afhendingardag. Í greinargerð stefnda kemur fram að húsið hafi verið afhent 27. febrúar 2006.
III
Málsástæður og lagarök
Stefnendur halda því fram að stefnda hafi í samræmi við 3. gr. samnings aðila borið að afhenda húsið fullfrágengið 15. október 2005. Ef afhending færi ekki fram á réttum tíma skyldi stefndi greiða stefnanda 13.500 krónur í sekt fyrir hvern almanaksdag eftir 30. nóvember 2007. Stefnendur halda því fram að við samningsgerðina hafi verið farið mjög nákvæmlega yfir dagsetningar. Fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið gert ljóst að stefnendur legðu ríka áherslu á að fá húsið afhent á umsömdum tíma. Ákvæði um dagsektir hafi verið sett í samninginn í því augnamiði að tryggja afhendingu hússins á réttum tíma. Stefnendur benda á að fyrirsvarsmaður stefnda hafi verið byggingarstjóri hússins og alfarið haft umsjón með byggingunni. Af hálfu stefnda hafi aldrei verið gerðar athugasemdir í þá veru að stefnendur stæðu því í vegi að stefndi gæti haldið áfram með verkið eins og haldið sé fram af hálfu stefnda. Þá er á því byggt af hálfu stefnenda að stefndi hafi aldrei áskilið sér viðbótarfrest til afhendingar hússins vegna breyttra forsendna. Stefnendur halda því einnig fram að ekkert orsakasamband sé á milli skiladráttarins og meintra atvika sem stefndi telur ranglega að stefnendur beri ábyrgð á. Í þessu sambandi hafi stefndi einkum bent á þrjú atriði. Í fyrsta lagi haldi stefndi því fram að stefnendur hafi átt að sjá um gröft og fyllingu á grunni og ganga þannig frá plani að unnt yrði að bakka inn í grunninn með húsið. Stefndi segi að stefnendur hafi ekki lokið greftri á grunninum fyrr en 24. október 2005. Hvað þetta varðar benda stefnendur á að við gerð verksamnings hafi legið fyrir að sömu aðilar myndu grafa grunninn, sjá um jarðvegsskipti, aðfyllingu í grunni og flutning hússins. Í 4. gr. samnings aðila segi að undirbúningur hafi átt að hefjast strax að lokinni undirskrift, það er að segja frágangur á teikningum og útvegun leyfa, en aðalverktími hafi átt að vera í júlí til október. Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út fyrr en 5. október 2005 en það hafi verið á ábyrgð stefnda að útvega tilskilin leyfi, þar á meðal byggingarleyfi. Eðli máls samkvæmt hafi engin byggingarvinna verið unnin fyrr en byggingarleyfi var fengið. Stefnendur hafi hafist handa án tafar eftir að byggingarleyfi lá fyrir og lokið jarðvinnu 24. október 2005. Jarðverktakinn hefði getað klárað verkið heldur fyrr ef ekki hefði þurft að bíða eftir stefnda. Stefnendur segja að stefndi beri í öðru lagi fyrir sig að það sé stefnendum að kenna að húsið var ekki flutt fyrr en 25. janúar 2006. Þessu mótmæla stefnendur og segja að stefndi hafi ekki verið tilbúinn með húsið til flutnings fyrr, raunar hafi það ekki verið alveg tilbúið þann dag og það hafi tekið stefnanda fimm vikur frá þessum degi að klára húsið. Stefnda hafi verið í lófa lagið að hafa samband við stefnendur eða flutningsaðilann og óska eftir að flytja húsið fyrr, en vandamálið hafi einfaldlega verið að stefndi hafi ekki verið tilbúinn með húsið fyrr. Stefnendur segja að í þriðja lagi haldi stefndi því fram að tafir hafi orðið á framvindu verksins vegna þess hve seint stefnendur hafi valið liti, gólfefni, innihurðir og innréttingu. Þá hafi orðið tafir vegna þess að nauðsynlegt hafi verið að taka innréttinguna niður. Stefnendur halda því fram að þessar fullyrðingar stefnda séu ósannaðar og órökstuddar. Þá hafi stefndi aldrei áskilið sér rétt til lengri afhendingartíma eða aukinnar greiðslu vegna þessa.
Stefnendur vísa máli sínu til stuðnings til ákvæða laga nr. 40/2202 um fasteignakaup en þau lög hafi gilt um samning aðila. Samningurinn falli undir skilgreiningu 6. gr. laganna á neytendakaupum. Varðandi athugasemdir sem stefndi hefur haft uppi vísa stefnendur til 36. gr. nefndra laga en þar sé tekið fram að komi hindrun í veg fyrir að seljandi geti efnt kaupsamning á réttum tíma skuli hann upplýsa kaupanda um hana og hvaða afleiðingar hún hafi á möguleika hans til réttra efnda. Stefndi hafi aldrei upplýst stefnendur um efndahindranir, hvað þá að hann rekti þær til vanrækslu stefnenda, eins og hann hefur gefið í skyn eftir að hann afhenti húsnæðið. Telja stefnendur því að athugasemdir stefnda séu fyrirsláttur. Stefnendur reisa kröfu sína um dráttarvexti á ákvæðum III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þá er krafa um virðisaukaskatt á þóknun lögmanns reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Stefnendur benda á að vegna útgefinnar ábyrgðaryfirlýsingar hafi Kaupþingi hf. verið stefnt til réttargæslu og gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, sbr. heimild í 21. gr. nefndra laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnendum sé að stærstum hluta um að kenna að skiladagur hússins gat ekki orðið 15. október eins og samið hafði verið um. Útilokað hafi verið að koma húsinu á sinn stað fyrr en 25. janúar 2006. Samningur aðila hafi mælt fyrir um gagnkvæmar skyldur aðila. Þannig hafi það verið í verkahring stefnenda að útvega afstöðumynd hjá Braga Þór Haraldssyni, útvega byggingarleyfi og greiða byggingarleyfisgjald, sjá um og kosta gröft úr grunni og fyllingu, ganga þannig frá plani að hægt væri að koma húsinu á grunninn, að velja með eðlilegum fyrirvara innréttingar, gólfefni o.fl. Engar af þessum skyldum sínum hafi stefnendur uppfyllt og því hafi stefndi ekki getað afhent húsið á umsömdum tíma. Stefndi byggir á því að vegna aðgerðaleysis stefnenda hafi honum verið ómögulegt að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi aðila. Stefndi heldur því fram að það hafi verið forsenda fyrir því að ákvæði um dagsektir yrði virkt að stefnendur stæðu við sinn hluta samkomulags aðila með eðlilegum hætti og með eðlilegum fyrirvara. Stefndi reisir kröfu sína einnig að því að stefnendur hafi ekki sannað að þau hafi orðið fyrir tjóni en að hafa orðið fyrir tjóni sé frumskilyrði þess að geta gert kröfu um skaðabætur.
Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Þá vísar hann til ákvæða laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, meðal annars til 54. gr. laganna. Stefnandi reisir kröfur sínar ennfremur á lögum nr. 7/1936 og vísar einkum til 36. gr. þeirra laga og þá bendir stefndi á lög nr. 38/2001 máli sínu til stuðnings. Kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda reisir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hinn 24. október 2005 hafi verið lokið við að grafa grunninn og þá hafi verið komið mikið frost og ekki unnt að slá upp og steypa grunn undir húsið. Stefndi kveðst hafa farið í þetta verk eins skjótt og unnt var og lokið við að steypa grunn og sökkul hinn 29. nóvember 2005. Stefndi heldur því fram að dráttur sem varð á greftri fyrir grunni hússins hafi valdið honum miklum óþægindum og kostnaði og bendir á sem dæmi í þessu sambandi að hann hafi þurft að útvega tankbíl með heitu vatni svo unnt væri að ljúka við verkið. Stefnendur hafi síðan lokið við að ganga frá lögnum og fylla að grunninum hinn 29. desember 2005 en þetta hafi þurft að gera þannig að unnt væri að koma tjökkum fyrir með það að markmiði að koma húsinu á grunninn.
IV
Niðurstaða
Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði aðila en að óumdeilt sé að stefndi hafi afhent stefnendum húsið 28. febrúar 2006 eða 134 almanaksdögum eftir umsaminn afhendingardag. Krafa stefnenda um greiðslu dagsekta er reist á 3. gr. samnings aðila og þurfa þeir því ekki að sanna að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna þess dráttar sem varð á afhendingu hússins heldur er þeim heimilt að innheimta févíti samkvæmt greininni án tillits til tjóns sem þau kunna að hafa orðið fyrir. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að stefnendur hafi ekki sannað tjón sitt.
Stendur þá eftir hvort stefnendur hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins sem leitt gæti til þess að stefnda hafi verið rétt að afhenda húsið síðar en um var samið. Fyrir dóminum greindi aðila mjög á um þetta. Af hálfu stefnenda var því haldið fram að þau hefðu gert allt það sem þeim bar um leið og tilefni gafst til. Af hálfu stefnda var því hins vegar haldið fram að tafir á verkum sem stefnendum bar að vinna hafi valdið honum miklum töfum. Í 3. gr. samkomulags aðila sem rakin er að framan eru skyldur stefnenda nokkuð óljósar. Þannig segir að stefnendur skuli kosta gröft upp úr grunni og fyllingu en ekki er mælt fyrir um að stefnendur eigi að sjá um framkvæmd þessa. Af framburði aðila fyrir dóminum verður þó ekki annað ráðið en að aðilar séu sammála um að stefnendur hafi átt að kosta og annast þennan verkþátt. Í framburði aðila kom fram að ekki hafi verið lokið við að grafa grunn undir húsið fyrr en seinnipartinn í október 2005. Það var hins vegar í verkahring stefnda að annast mælingar fyrir grunninum og þær voru ekki gerðar fyrr en í október 2005. Í samkomulaginu er heldur ekki mælt fyrir um með skýrum hætti hver átti að sækja um byggingarleyfi fyrir húsinu en það leyfi var ekki veitt fyrr en 5. október 2005.
Leggja verður til grundvallar að samkomulag aðila sé í öllum aðalatriðum útbúið af forsvarsmanni stefnda en ákvæði um dagsektir mun stafa frá stefnendum. Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dóminum að hann hefði byggt allmörg hús svipuð því sem stefnendur keyptu og verður stefndi talinn hafa verið ráðandi við samningsgerðina. Í 36. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, sem gilda um lögskipti aðila, er tekið fram hvað seljandi skuli gera ef einhver hindrun verður til þess að seljandi geti ekki efnt kaupsamning á réttum tíma. Seljanda ber samkvæmt greininni að upplýsa kaupanda um hindrunina og hvaða afleiðingar hún hafi á möguleika seljanda til réttra efnda. Ef seljandi sinnir ekki þessari skyldu sinni innan hæfilegs tíma eftir að hann vissi eða mátti vita um hindrunina getur kaupandi krafist skaðabóta fyrir það tjón sem afstýra mátti ef tilkynning hefði verið send á réttum tíma. Samkvæmt þessu hefði stefndi, en forsvarsmaður hans var byggingarstjóri að byggingunni, átt að gera stefnendum grein fyrir því ef athafnaleysi þeirra varð til þess að afhending hússins tafðist. Hann hefði jafnframt átt að benda stefnendum á með skýrum hætti ef hann taldi að stefnendum bæri að annast ákveðin verk sem óljóst er af samningi aðila hver átti að annast, svo sem að útvega byggingarleyfi. Stefndi hefur engin gögn lagt fram um að hann hafi gert stefnendum grein fyrir því að athafnaleysi þeirra myndi tefja afhendinguna en stefndi verður að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun varðandi þetta. Af þessum sökum verður að taka kröfu stefnenda til greina.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 375.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnenda flutti málið Gísli Guðni Hall hrl. en af hálfu stefnda Daði Ólafsson hdl.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Lambeyri ehf., greiði stefnendum, Vagni Þormar og Guðrúnu Ármannsdóttur, 1.201.500 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnendum 375.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í málskostnað.