Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2000


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2001

Nr. 409/2000.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.

B var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn telpunni X með því að hafa í nokkur skipti haft kynmök við hana í endaþarm og sett fingur inn í leggöng hennar. Auk þess var B gefið að sök að hafa margoft farið höndum um kynfæri telpunnar, fróað sér í návist hennar og sýnt henni klámmyndablöð. Hann var þá fimmtán ára en hún aðeins átta ára. Játaði B að hafa farið höndum um kynfæri telpunnar en öðrum sakargiftum neitaði hann staðfastlega frá upphafi. Þegar framburður B var virtur í heild var ýmislegt í svörum hans um atvikin, sem gaf til kynna að lengra hefði verið gengið en hann viðurkenndi. Framburður X, sem héraðsdómur hafði álitið trúverðugan, hlaut stuðning að þessu leyti. Að þessu virtu var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti staðfest sú niðurstaða hans, að með atferli sínu hefði B gerst sekur um kynferðismök við stúlkuna þegar hún var barn þannig að varðað hafi við þágildandi 1. mgr. 200. gr., sbr. 202. gr. almennra hegningarlaga, nú 1. málslið 1. mgr. 202. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1992, og var B dæmdur til að sæta 12 mánaða fangelsi. Einnig var hann dæmdur til að greiða henni miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem þóttu hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 2. nóvember 2000 að ósk ákærða en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar refsingar og greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur.

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess, að miskabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfunni eða hún lækkuð.

I.

Í héraðsdómi er ýtarlega gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dómi. Þar var sú háttsemi ákærða talin fyrnd, sem skilgreind væri sem „önnur kynferðisleg áreitni” er varði við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Af hálfu ákæruvalds er fallist á þá niðurstöðu.

 Svo sem greinir í héraðsdómi er ekki ágreiningur um á hvaða tímabili og hvar atburðir gerðust og hefur ákærði játað að hafa nokkrum sinnum farið höndum um kynfæri telpunnar en öðrum sakargiftum hefur hann frá upphafi staðfastlega neitað. Hann var þá fimmtán ára en hún aðeins átta ára.

Þegar framburður ákærða er virtur í heild er ýmislegt í svörum hans um atvikin, sem gefur til kynna að lengra hafi verið gengið en hann viðurkennir, svo sem um stöðu þeirra hvors til annars, notkun klámmyndablaðs og vitneskju hans um óvilja telpunnar og um að hafa meitt hana. Verður framburður ákærða ekki túlkaður á annan veg en þann að um annað og meira en þukl hafi verið að ræða af hans hendi. Hlýtur framburður stúlkunnar stuðning að þessu leyti, en skilja verður héraðsdóm svo að framburður hennar hafi verið metinn trúverðugur. Þegar þetta er virt verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti staðfest sú niðurstaða hans, að með atferli sínu hafi ákærði gerst sekur um kynferðismök við stúlkuna þegar hún var barn þannig að varðað hafi við þágildandi 1. mgr. 200. gr., sbr. 202. gr. almennra hegningarlaga, nú 1. málslið 1. mgr. 202. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1992.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða.

II.

 Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sem áður gilti, og nú 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón á stúlkan rétt til miskabóta. Brot ákærða voru alvarleg og til þess fallin að valda mikilli röskun á högum hennar, heilsu og tilfinningalífi. Skýrsla Barnahúss, sem tekin var vegna sérfræðilegrar greiningar, ráðgjafar og meðferðar hennar og rakin er í héraðsdómi, virðist vera í samræmi við það, sem almennt má vænta um afleiðingar brota af þessu tagi. Lögð hafa verið fyrir Hæstarétt bréf tveggja lækna 5. mars 2001, svo og bréf félagsráðgjafa 27. febrúar 2001 um mat á sálrænni líðan stúlkunnar. Í því síðastnefnda kemur fram að hún hafi komið í alls tíu viðtöl á tímabilinu 27. október 2000 til 23. febrúar 2001. Hún hafi upplifað mikla sálræna erfiðleika þar sem aukin vanlíðan og þunglyndi hafi komið fram. Hún hafi átt erfitt með svefn og því verið síþreytt. Hún hafi þurft að ganga til sjúkraþjálfara vegna verkja og komið hafi fram aðrar sálrænar afleiðingar eins og uppköst. Henni hafi því verið vísað til barnalæknis, sem hafi sett hana á þunglyndislyf. Hann hafi og vísað henni áfram á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, þar sem hún sé í umsjón barnageðlæknis. Hún verði og áfram í viðtölum í Barnahúsi. Vottorð læknanna staðfesta þetta. Samkvæmt þessu er sýnt að brot ákærða hafa valdið skaða bæði á líkamlegri og andlegri heilsu stúlkunnar. Ekki liggur fyrir að svo komnu, í hvaða mæli afleiðingar brots ákærða kunni að verða varanlegar fyrir hana eða hvort ráða megi bót á þeim. Með hliðsjón af þessu þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin laun réttargæslumanns brotaþola.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður um annað en miskabætur.

Ákærði, B, greiði X 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. mars 2000 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin laun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda fyrir Hæstarétti, Óskars Thorarensen hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

                                                              

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. september  2000.

Sigríður Jósefsdóttir saksóknari hjá embætti Ríkissaksóknara gaf út ákæru í máli þessu 14. apríl 2000, og var málið höfðað með birtingu hennar fyrir ákærða 2. maí sl. Það var þingfest 9. maí. Aðalmeðferð fór fram 11. september sl. og var málið þá tekið til dóms að henni lokinni.

Ákærður er B, kennitala […], “fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni X, fæddri árið 1984, með því að hafa, frá haustinu 1991 til haustsins 1992, í hlöðu og bæjarhúsum á jörðinni K á […], í nokkur skipti haft kynmök við stúlkuna í endaþarm og sett fingur inn í leggöng hennar. Auk þess að hafa margoft farið höndum um kynfæri stúlkunnar, fróað sér í návist hennar og sýnt henni klámmyndablöð.

Teljast þessi brot varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992 og 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40, 1992 og 104. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa: Af hálfu stúlkunnar X, kennitala […], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur kr. 2.000.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1.9.1992 til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar vegna réttargæslu að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.”

Svo segir í ákæruskjali.

Við aðalmeðferð krafðist sækjandi þess að ákærði yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða var þess krafist við aðalmeðferð að hann yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu X yrði vísað frá dómi, en til vara að hún yrði stórlega lækkuð. Verjandi ákærða krafðist málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins. Hann mótmælti upphafsdegi dráttarvaxtakröfu.

Það er upphaf þessa máls að 19. október 1999 var barnaverndarnefnd hreppanna […] tilkynnt um  að ákærði væri grunaður um að hafa misnotað X kynferðislega, þegar hún var 8 ára gömul. Hinn 21. sama mánaðar hafði starfsmaður nefndarinnar samband við F félagsráðgjafa og óskaði eftir því að hún tæki að sér málið.  F kærði málið til sýslumannsins í […] með bréfi, dags. 25. október 1999.

Lögreglan í […] hóf rannsókn málsins með skýrslutökum 11. nóvember 1999. Var fyrst tekin skýrsla af móður X, A. Kom þar fram að X hafði greint systur sinni, Y, fyrstri manna frá meintri misnotkun 18. október þá um haustið.  Sama dag, 11. nóv., voru síðan teknar skýrslur  af föður X, C, og systur hennar, Y. Skýrslur voru teknar af ákærða 18. nóvember og síðar 11. febrúar 2000.

Skýrsla var tekin fyrir dómi af meintum brotaþola, X, í Barnahúsi 29. nóvember 1999.

Skýrsla X fyrir dómi.

Skýrslutakan fór þannig fram að Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, forstöðumaður Barnahúss, spurði X undir stjórn héraðsdómara. Skýrslan var tekin á myndband, sem síðar var sýnt í dóminum við aðalmeðferð máls þessa.

Hér fer á eftir útdráttur úr skýrslunni, og verður stuðst við framlagða skýrslu Barnahúss, Vigdísar Erlendsdóttur um skýrslutökuna. Var bókað við aðalmeðferð að hvorki sækjandi né verjandi hefði athugasemdir við að það yrði gert.

Í inngangi að skýrslu Barnahúss segir: “X er 15 ára gömul og er útlit og framkoma að mestu í samræmi við aldur. Í viðtalinu gaf telpan þokkalega greinargóðar upplýsingar en átti erfiðara með að svara ákv. spurningum en vænta mætti af aldri hennar (t.d. sp. um kennitölu, skyldleika hennar við aðra í fjölskyldunni og kenninöfn [svo] fólks sem hún færði í tal). Hún átti nokkuð erfitt með að segja frá meintri misnotkun og veigraði sér mjög við að nefna kynfæri og kynferðislegar athafnir. Telpan grét nánast allt viðtalið og var því erfitt um mál.”

Síðan segir: “Telpan segir til nafns, kennitölu og heimilis. Kveðst hún eiga heima á K ásamt foreldrum sínum og systkinum, þeim Y og Z. Tvíbýli er á K og segir hún að á hinum bænum búi föðursystir hennar ásamt eiginmanni og þremur börnum. Telpan kveðst vera í 10. bekk […]skóla.

X er beðin að segja frá ástæðu komu sinnar í Barnahús. Fer telpan að gráta og spyr hvað hún þurfi að segja. Eftir að spurningin hefur verið endurtekin svarar telpan: "Út af ... út af... því hvað frændi minn gerði". Segir hún að frændi hennar sé kallaður B og séu þau systkinabörn í föðurætt hennar. Kveðst hún ekki muna nákvæmlega hvenær atvikið átti sér stað en telur að hún hafi verið sjö eða átta ára. Þá um haustið hafi hún verið að byrja í […]skóla, en áður hafi hún verið á […] því móðir hennar hafi verið nemandi við […].

X er beðin að segja frá því hvað gerðist. Segir hún atvikið [svo] hafa gerst í fjóshlöðunni að K og hafi það gerst um sumar. B hafi verið að vinna hjá föður hennar og hafi hann verið til heimilis hjá ömmu þeirra ásamt fleiri frændum hennar á hinum bænum að K. Kveðst hún ekki muna nöfn þeirra frænda hennar sem voru hjá ömmu hennar ásamt B. Kveðst hún heldur ekki muna hve gamall B var en henni hafi fundist hann "stór". Aðspurð um hvort um eitt atvik sé að ræða segir hún að hann hafi gert þetta "...eiginlega á hverjum einasta degi" eða alltaf þegar hann hafði tíma og gat náð í hana. Síðasta atvikið hafi átt sér stað nokkrum dögum áður en skólinn byrjaði.

Telpan er beðin að lýsa þeim atvikum sem hún skírskotar til. Við það grætur hún og spyr hvort hún þurfi þess. Hann hafi alltaf sagt henni að koma. Hún er þá spurð hvað hann hafi gert við hana. "Hann bara... hann bara... hann sagði mér að vera á fjórum fótum eins og hundur, svo tók hann buxurnar niður (hennar og hans) og hann..., æ, þarf ég endilega að segja það?" Telpan grætur og er því erfitt um mál. Hún er spurð hvort B hafi gert eitthvað kynferðislegt við hana: "Já hann setti... hann setti tippið á sér..." (þagnar). Að lokum segir hún að hann hafi sett tippið á sér í rassinn á henni. "Þetta var vont, ég reyndi að komast en hann hélt mér". Kveðst hún ekki hafa komist í burtu. Hún staðfestir að hann hafi hreyft sig "fram og tilbaka". Aðspurð um hvort hann hafi haft sáðlát svarar hún: "Nei, en einu sinni inni hjá ömmu minni í þvottahúsinu, þá sýndi hann mér... þá... þá þarna... fróaði hann sér og þá kom.... lét mig líka setja höndina á... á tippið". Telpa staðfestir aðspurð að hann hafi haft sáðlát. Telpan er spurð hvort B hafi látið hana fróa honum. "Já, en það var í hlöðunni". Segir hún að hún hafi kippt að sér hendinni þegar B lét hana snerta tippið á honum í þvottahúsinu. Hann hafi þá farið að hlæja og fróað sér þar til hann hafði sáðlát. Hafi þau ekki átt nein orðaskipti. Hún hafi líka reynt að kippa hendinni að sér þegar hann lét hana snerta tippið á honum í hlöðunni en hann hafi þá tekið í höndina á henni og sagt henni að "...þetta yrði fyrr búið og þá gæti ég farið".

Telpan er beðin að greina frá fyrsta tilviki sem hún man eftir. "Hann náði mér einhvern tímann einni , sagðist ætla að sýna mér eitthvað og fór með mig inn í hlöðu, girti niður um sig og sýndi mér tippið". Flest tilvik hafi þó verið eins og atvikið sem fyrst er lýst (mök í endaþarm). X segir að B hafi stolið klámblöðum frá frændum þeirra og "...var alltaf að herma eftir þeim (efni úr klámblöðunum)". Segir telpan að hann hafi oftast sýnt henni blöðin.

X er spurð hvort B hafi gert eitthvað annað en það sem hún hefur getið um. Kveðst hún ekki muna eftir öðru en því sem hún hefur þegar sagt frá.

X kveðst ekki vita hversu oft B hafi áreitt/misnotað hana en það hafi verið "oft". Telpan er spurð hvort hún telji að atvik af þessum toga hafi átt sér stað oftar en fimm sinnum. Hún þegir nokkra stund áður en hún svarar spurningunni og svarar svo: "Allavega ekki færra en fimm". Telpan er spurð hvort B hafi einhvern tíma sett tippið einhvers staðar annars staðar en fyrr getur. Þegir hún lengi en svarar svo: "Nei ekki svo ég muni". Sp.: "Reyndi hann það?" X: "Nei, ég veit það ekki".

X segir öll atvikin hafa átt sér stað sama sumar og að síðasta tilvikið hafi verið nokkrum dögum áður en skólinn hófst um haustið. Telpan kveðst eftir nokkra umhugsun ekki muna eftir að hann hafi fróað sér í viðurvist hennar utan þeirra tveggja tilvika sem getið er um hér að ofan.

Telpan kveðst í fyrstu hafa reynt að komast í burtu þegar hann áreitti hana en það hafi henni aldrei tekist og því hafi hún gefist upp. Hafi hann fengið hana til að koma til sín með því að segjast ætla að sýna henni eitthvað en síðar hafi hann verið skipandi þegar hann sagði henni að koma. Kveðst hún hafa verið farin að forðast hann.

X kveðst hafa hitt B daglega þetta sumar. Hann hafi verið kaupamaður hjá föður hennar og afa en búið á heimili afa hennar og ömmu. Telpan kveðst ekki geta fullyrt að B hafi dvalið samfleytt á heimili afa hennar og ömmu þetta sumar. Það eina sem ég man frá þessum tíma er þetta".

X kveðst hafa verið hrædd við B: "Því hann meiddi mig alltaf og mér fannst þetta bara... ég var bara hrædd". Aðspurð um hvort hann hafi meitt hana á annan hátt svarar hún: "Bara þegar hann greip í mig eða eitthvað... og alltaf þegar hann var að setja tippið í rassinn".

Eins og áður segir telur X að kynferðisáreitnin/ofbeldið hafi ekki gerst sjaldnar en fimm sinnum. "Hann gerði þetta alltaf þegar hann hafði tíma. Það liðu stundum einn til tveir dagar. Telpan segir að eftir fyrstu skiptin hafi B sagt að hún mætti ekki segja neinum frá þessu því þá yrði hann skammaður. Kveðst hún hafa fallist á það. Aðspurð segir hún hann ekki hafa gefið henni neinar gjafir eða veitt henni aðra umbun.

Um tildrög þess að X sagði frá atvikunum segir hún: "Maður var alltaf að heyra í fréttum, það ýfði upp. Ég var bara alveg að springa. Það létti smá á... það hjálpaði að ég sagði tveimur bestu vinkonum mínum frá. Þá gat ég þraukað aðeins lengur. Það var fyrir þremur- fjórum árum". (Vinkonurnar sem telpan skírskotar til eru S og T). Hún hafi svo nýlega sagt Y, systur sinni, frá atvikunum. Frænka þeirra hafi verið í heimsókn og þær systur því sofið í sama herbergi. Hafi þær farið að tala saman. Kveðst X hafa spurt systur sína hvort hún gæti farið til sálfræðings. Hún hafi jafnframt farið að gráta. Systir hennar hafi þá spurt hana ýmissa spurninga og að lokum getið upp á því hvað gerst hafði.

X kveðst nú telja að hún hafi nú sagt frá öllu.”

Þegar hér var komið var gert  stutt hlé á skýrslutökunni. Skýrslu Barnahúss lýkur þannig:

“X kveðst hafa hitt B eftir að atvikin áttu sér stað en ekki eftir að hún sagði frá þeim. B hafi verið með hross hjá föður hennar og auk þess hafi hann stundum hjálpað honum við búverkin. Eftir umrætt sumar hafi B ekki gert tilraunir til að misnota hana og þau hafi heldur ekki talað um atvikin.

Aðspurð um fjölda tilvika kveðst telpan telja að B hafi u.þ.b. fimm sinnum haft mök við hana í endaþarm og telur hún sig fullvissa um að ekki sé um færri tilvik að ræða. Kveðst hún telja að hann hafi fróað sér í návist hennar (og með hennar íhlutun) ca sjö sinnum. Hann hafi alltaf litið í klámblöð. “Hann sá stellinguna sem hann sagði mér að vera í, í blaðinu". Telpan er spurð hvort eitthvað hafi gerst sem hún hafi ekki greint frá: "Ekki sem ég man eftir en mér líður eins og hann hafi gert meira en ég bara man ekki eftir því. Telpan er spurð hvort hann hafi káfað á henni. "Jú en það var alls staðar, ekki beint neinn staður (tárast). T.d. þegar hann var að klæða mig úr". Hann hafi jafnan klætt hana úr buxum og nærbuxum.

Aðspurð staðfestir telpan að B hafi káfað á kynfærum hennar. Hún er þá spurð hvort hún telji að hann hafi sett fingur í leggöng hennar og segir hún eftir nokkra þögn að hana minni að svo hafi verið en hún sé ekki viss. Eftir nokkra umhugsun spyr hún hvort sé í lagi að hún segi eitthvað nýtt ef henni finnist eitthvað rifjast upp fyrir sér en hún sé “...eiginlega viss um að hann hafi farið með puttann inn. Ég man núna að það var vont".

Skv. upplýsingum frá telpunni mun hún hafa verið yngsta barnið á K umrætt sumar.”

Framburður ákærða.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sakargiftum í veigamiklum atriðum. Fyrst tjáði hann sig um sakarefnið fyrir lögreglu 18. nóvember 1999. Honum var þá í upphafi skýrslutöku tjáð að hann væri yfirheyrður “vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar hans gegn X”. Fyrsta svar ákærða við sakaráburði var: “Ég játa það sem á mig er borið.” Síðan var hann spurður í hverju misnotkunin hefði verið fólgin. Hann svaraði þá að hann hefði eingöngu “farið með hendur um kynfæri” stúlkunnar. Hann hefði klætt stúlkuna úr að neðan og síðan þuklað á kynfærum hennar. Hann neitaði því að hann hefði klætt sig úr og að hann hefði fróað sér á  meðan. Hann neitaði að hafa haft samfarir við stúlkuna um leggöng eða í endaþarm. Hann neitaði og að hafa reynt að fá stúlkuna til að taka getnaðarlim hans upp í sig. Hann viðurkenndi að hann hefði sýnt henni klámblað. Hann sagði að atburðir hefðu gerst í fjóshlöðunni á K og að þetta hefði gerst á að giska fimm til sex sinnum frá því í ágúst 1991 fram í júní 1992.

Við þingfestingu málsins 16. maí 2000 var þetta bókað: “Ákærði neitar sakargiftum. Hann segir að rétt sé að hann hafi farið höndum um kynfæri stúlkunnar X, en að öðru leyti neitar hann sakargiftum. Hann hafnar bótakröfu X.”

Sama afstaða ákærða kom fram í skýrslu hann við aðalmeðferð málsins. Hann sagði aðspurður að brot sín hefði hann framið frá hausti 1991 fram á vor 1992. Nánar tiltekið sagði hann að þetta hefði fyrst gerst í ágúst 1991. Hann kvaðst ekki muna hvort það gerðist frekar á því ári, en verið gæti að það hefði gerst um einhverjar helgar. Á árinu 1992 kvaðst ákærði hafa komið að K eftir skóla og verið “eitthvað fram í júní”, þangað til hann hefði farið í sveit á […]. Hann var spurður hvort hann hefði komið eitthvað að K eftir að hann fór að […]. “Líklega hef ég gert það já,” sagði ákærði. En hann kvaðst ekki hafa átt kynferðisleg samskipti við X eftir að hann fór að […].

Ákærði kannaðist við að brot hefðu verið framin í fjóshlöðu á K, en hann sagði líka aðspurður að vera mætti að það hefði gerst í þvottahúsi ömmu hans. “Ég man ekki hvort það var í eitt skipti í þessu þvottahúsi.”

Ákærði sagðist aðspurður ekki muna hver aðdragandinn var að því að hann fékk X með sér í fjóshlöðuna eða með hvaða orðum það gerðist: “Ætli það hafi ekki verið í þessum tilgangi; ég man ekki með hvaða orðum það var.” Nánar spurður sagði hann að tilgangurinn hefði verið kynferðislegur. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði gefið henni eitthvað í staðinn eða lofað henni einhverju. Ákærði var beðinn að lýsa því sem í fjóshlöðunni gerðist. Hann sagði: “Ég bara girti niður um hana.” Hann kvaðst hafa tekið hana bæði úr utanyfirbuxum og nærbuxum. Hann hefði ekki klætt hana úr öðrum flíkum. Hann kvaðst ómögulega geta munað orðaskipti, “það getur vel verið að það hafi verið eitthvað, já.” Hann var spurður hvort stúlkan hefði fúslega látið hann girða niður um sig. Svar: “Ég man það ekki, það getur vel verið að maður hafi beitt einhverjum leikaðferðum eða einhverju svona . . .”  Hann sagði að stúlkan hefði staðið. Hann myndi ekki til þess að hún hefði legið. Hann kvaðst í fyrstu ekki muna hvort hann hefði staðið framan við eða aftan við hana, en síðar sagði hann að hann hefði bæði staðið framan við hana og aftan. Hann var spurður hvort hann hefði fengið hana til að leggjast á hnén. Það kvaðst hann ekki muna. Nánar spurður sagðist hann þó ekki ætla að útiloka það.  Hann neitaði því að hafa girt niður um sjálfan sig og einnig að hann hefði opnað buxnaklauf sína; það hefði hann aldrei gert. Hann var þá spurður hvað hefði gerst næst: “Næst fór ég bara höndum um kynfæri hennar.” Stúlkan hefði þá staðið. Hann var þá spurður hvort hann hefði sett fingur inn í leggöng hennar. Svar: “Nei, ég mundi ekki segja það.” Hann kvaðst bara hafa sett fingur utan við kynfæri. Hann neitaði því að hafa haft kynmök við X í endaþarm og einnig að hafa farið með fingur í leggöng hennar. Hann sagði nánar spurður að vera kynni að hann hefði gert mismunandi mikið við stúlkuna í einstök skipti. Hann sagði að sér hefði risið hold við að þukla kynfæri stúlkunnar, en hann hefði aldrei fróað sér í návist hennar. En stundum hefði hann gert það á eftir inni á salerni í íbúðarhúsi. Hann sagði að misnotkunin hefði alltaf gerst á svipaðan hátt.

Ákærði var þegar hér var komið spurður hvort stúlkan hefði kveinkað sér. Ákærða vafðist tunga um tönn að svara þessu, en hann sagði nánar spurður að hún hefði ábyggilega viljað að hann hætti þessu, henni hefði verið illa við þetta. “Líklega hef ég einhvern tíma meitt hana þarna, án þess að ég geti fullyrt það þannig.” Nánar spurður um þetta, sagði hann að stúlkan hefði sagt við hann að hún vildi hætta þessu. Ákærði var þá spurður hvort hann hefði komið eitthvað aftan að stúlkunni. Hann neitaði því.

Ákærði sagði aðspurður að misnotkun hans á X hefði gerst á að giska “í svona 6 skipti” Hugsanlega hefði þetta gerst oftar; hann hefði ekki talið skiptin. Líklega hefði það verið oftar árið 1992 en 1991. Hann kvaðst ekki  muna hvort þetta hefði gerst undir það síðasta, áður en hann fór að […].

Ákærði kannaðist við að hafa sýnt X klámmyndablað. Um væri að ræða eitt blað, sem hann hefði komið með að K. Hann sagðist hafa geymt blaðið í heybindivél. Verið gæti að hún hefði verið geymd þarna inni í hlöðunni. Hann sagði að myndirnar hefðu mátt flokkast undir að vera grófar. Þær hefðu þó ekki verið af börnum. Þetta hefðu verið samfaramyndir. Aðspurður sagðist ákærði ekki muna í hvaða tilgangi hann var að sýna stúlkunni myndirnar. Hann var spurður hvort hann hefði byrjað á því að skoða blaðið og síðan farið að þukla á stúlkunni. Hann kvaðst ekki muna hvernig þetta kom til, hann hefði getað skoðað blaðið bæði “fyrir og eftir, sko; ég bara man ekki hvernig háttalagið var á því.” Hann neitaði því að hann hefði verið að líkja eftir myndum í blaðinu í háttsemi sinni við stúlkuna, og einnig því að hann hefði verið að skoða myndirnar meðan hann var að “eiga við” stúlkuna. Ennfremur neitaði hann því að hann hefði sett hana í stellingar eftir myndum í blaðinu. Hann neitaði því að hann hefði sett hönd hennar á lim sinn.

Ákærði var spurður hvort vera kynni að X hefði í einhver skipti sloppið frá honum og komist hjá því að fara með honum inn í hlöðu. Hann svaraði að það kynni að vera. Langt væri um liðið, og hann hefði reynt að gleyma þessu.

Ákærði var spurður hve lengi hvert brot hefði staðið í fjóshlöðunni. Hann sagði að á að giska hefði það staðið í 10 til 15 mínútur.

Ákærði var spurður hvort unnt hefði verið að sjá úr fjóshlöðunni yfir til íbúðarhúss ömmu hans. Í fyrstu neitaði hann þessu, en nánar spurður sagði hann að verið gæti að þetta hefði verið hægt, að sjá þangað út um hlöðugaflinn; hann þyrði ekki að fara með það.

Ákærði kvaðst aðspurður ekki minnast þess að einhver húsdýr hefðu verið þarna í hlöðunni með þeim.

Ákærði sagði aðspurður að þessir atburðir hefðu hvílt á sér, “þegar maður áttaði sig á því hvers eðlis var, þegar þjóðfélagsumræðan fór að tala meira um þetta.” Hann kvaðst hafa farið að hafa áhyggjur af þessu þegar “maður fór að þroskast og átta sig.”

Ákærði var spurður hvort honum hefði fundist verða breyting á stúlkunni X meðan á brotum stóð. Hann sagði að það hefði ekki verið, “sem maður tók greinilega eftir, nei”. En það hefði ábyggilega verið, “án þess maður hafi tekið greinilega eftir því.” “Hún hefur ábyggilega forðast mann, án þess ég muni það svo greinilega hvernig það var.” Hann kvaðst hafa umgengist X eftir þessa atburði fram að þeim tíma að þetta mál kom upp. Hann héldi að sú umgengni hefði verið ósköp eðlileg. Hún hefði aldrei talað um þessa atburði við hann.

Ákærði sagðist hafna bótakröfu stúlkunnar X alfarið.

Ákærði skýrði svo frá að hann væri starfsmaður J. Hann kvaðst hafa lokið nokkrum önnum í Fjölbrautarskóla […], en lokið síðan […]námi á […].

Ákærði var að lokum spurður hvort hann hefði sjálfur orðið fyrir svona kynferðislegu áreiti. Hann neitaði því.

A, móðir X, gaf skýrslu fyrir lögreglu og fyrir dómi.

Fyrir dómi var vitnið A spurð hvenær hún hefði fyrst fengið vitneskju um að dóttir hennar, X, hefði verið misnotuð kynferðislega. Hún sagði að það hefði verið mánudagskvöldið 18. október 1999. Dóttir hennar, Y hefði þá komið “upp eftir” [þ.e. á K frá Reykjavík]. Y hefði þá sagt sér og föður sínum, eiginmanni vitnisins, C, frá þessu, en X hefði trúað Y fyrir þessu næstliðið föstudagskvöld. Y hefði velt því fyrir sér hvernig best væri að segja foreldrum hennar frá þessu og hefði leitað sér ráðgjafar um það. Þess vegna hefði það dregist nokkra daga. Lítil stúlka hefði verið í heimsókn hjá þeim á K á föstudaginn, og hefði hún fengið að sofa í rúmi Y, og þá hefði Y sofið hjá systur sinni, X, þessa helgi.  Þá hefði X sagt Y frá misnotkuninni.

Vitnið A var spurð um ástæðu þess að X sagði frá atburðum. Hún kvaðst halda að tvennt hefði valdið. Annars vegar það að B hefði þá um haustið komið að K að hjálpa C. Hins vegar að þau hefðu séð nákominn ættingja ná valdi á erfiðu ástandi í meðferð hjá sálfræðingi. X hafi séð að hægt var að fá hjálp.

A sagði að hún myndi ekki vel hvað Y hefði sagt þeim hjónum eftir Y um misnotkunina mánudagskvöldið 18. október. Það hefði allt runnið saman í móðu. “Sjokkið” hefði verið svo mikið. En föstudagskvöldið þar á eftir hefði hún farið betur yfir þetta með foreldrum sínum, hvað X hefði sagt. Þá hefði hún sagt þeim eftir X, að ákærði hefði misnotað hana “og haft þessi mök og reynt að láta hana gera ýmislegt. Hann hefði verið með klámblað, tekið stellingar þar upp úr, sem hann hefði viljað láta hana leika eftir, og þetta hefði átt sér stað trekk í trekk.” Y hefði haft eftir X að hún hefði verið 7 til 8 ára þegar þetta gerðist. X hefði sagt að hún hefði kviðið svo fyrir að fara í […]skóla. Í […]skóla hefði hún farið haustið 1992. Y hefði sagt sér að hún hefði fengið X til segja sér frá með því að leggja fyrir hana spurningar, sem hún hefði jánkað eða neitað. Hún hefði sagt Y að ákærði hefði haft við hana samfarir, sett lim sinn í rassinn á henni.

Vitnið A sagði að hún hefði reynt mikið til að rifja upp atburði frá þessum tíma. Það hefði gengið illa, því að áfallið hefði verið þungt. En þegar frá hefði liðið hefði það gengið betur. Allt sem þau hefðu getað kannað og skoðað benti til þess að misnotkunin hefði gerst vorið 1992. Vitnið greindi frá því að hún hefði á þessum tíma verið í námi í […] fram á vor, verið að ljúka námi. Hún tengdi upprifjunina við atburði sem gerðust í skólagöngu hennar. X hefði verið með sér uppi á […], en ákveðið hefði verið að hún færi ekki með sér þangað eftir páska um vorið. Hinn 1. júní hefði hún, A, byrjað að vinna í […]. Hún kvaðst halda að misnotkunin hefði byrjað kringum páska 1992. Fjölskylda ákærða hefði iðulega verið á K um páska.

Í vætti vitnisins A kom fram að hún hefði  komið X á myndlistarnámskeið sumarið 1992. Hún hefði þá teiknað mynd af grátandi trúð [Sjá síðar]. Eftir þetta hefði hún hætt að teikna. Fram að þessu hefðu þær mæðgur verið mjög nánar, en eftir þetta hefði hún ekki náð neinu sambandi við X. Hún hefði verið kátur og glaður krakki alveg fram á vorið 1992, en síðan hefði orðið breyting á. Hún hefði eftir þetta iðulega grátið, en hún hefði ekki fengið hana til segja sér af hverju. Um veturinn eftir kvaðst hún hafa reynt að hjálpa X við lestur, en hún hefði ekkert komist áfram, því að “hún var alltaf að æla upp, gúlpa upp. Krakkar í skólanum voru að stríða henni með því að það hefði verið ælulykt af henni.” X hefði farið að tala um þetta um vorið eða sumarið, en vitnið sagðist ekki hafa orðið vör við þetta fyrr en um veturinn. Vísað var til fram lagðs vottorðs Úlfs Agnarssonar læknis og spurt hvort X ætti enn við þennan vanda að stríða. Vitnið sagði að dregið hefði mikið úr honum. Hún sagði ennfremur að Úlfur hefði spurt sig þegar hún fór með barnið fyrst til hans, hvort þau hjónin væru að skilja. Honum hefðu fundist einkennin vera eins og eitthvað væri að á heimilinu. Þegar hún hefði neitað því, hefði hann spurt hvort það væri eitthvað annað að, hvort hún hefði lent í einelti. Hún hefði neitað því.

Vitnið greindi frá því að nýlega hefði X fundið apa sem henni hefði verið gefinn í afmælisgjöf 1992 (í janúar). Hún hefði komið með hann til sín og sagt sér að þennan apa hefði hún átt “þegar þetta skeði”.

Vitnið A sagði að X hefði ekki sagt sér frá misnotkuninni.

Vitnið sagði að líðan X hefði batnað ótrúlega mikið eftir að hún fór í gegnum meðferð hjá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa hjá Barnahúsi. Hún kvaðst vera að ná aftur nánu sambandi við þessa dóttur sína.

Vitnið A var spurð hvort hún hefði séð einhver líkamlega merki eða áverka á X eftir misnotkunina. “Ekki sem ég man eftir,”sagði vitnið.

Vitnið A gaf skýrslu fyrir lögreglu 11. nóvember 1999. Ekki þykir dómendum ástæða til að rekja hana hér, en hún er í mjög samhljóða skýrslu vitnisins fyrir dómi.

C, faðir X, og eiginmaður A, bar vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi.

Fyrir dómi bar vitnið m.a. að hann hefði fyrst fengið að vita í fyrra haust að brotið hefði verið gegn dóttur sinni,X, kynferðislega. Dóttir hans [Y] hefði sagt sér frá þessu. Hann var spurður hvernig Y hefði lýst misnotkuninni. Hann sagði að hún hefði sagt að “B” [þ.e. ákærði] hefði misnotað hana fyrir nokkrum árum. Þetta hefði verið eins slæmt og það gæti verið. Nánar spurður um hvað Y hefði sagt honum um misnotkunina, í hverju hún hefði verið fólginn, sagði vitnið að sagt hefði verið að ákærði hefði haft við X samfarir í endaþarm.

Vitnið kvaðst hafa talað við ákærða sama kvöld og hann fékk að vita þetta. Hann hefði hringt í hann. Ákærði hefði haft hross í hagagöngu hjá sér, og hann hefði sagt honum að taka þau. Hann hefði sagt við hann að X liði illa út af atburðum sem hefðu skeð. Ákærði hefði strax kannast við það. Hann hefði vitað á sig sök. Fram kom að vitnið hafði þó ekki borið á ákærða að hann hefði haft samfarir við X eða kynmök í endaþarm. B hefði síðan komið og sótt hrossin, en síðan ekki komið að K.

Vitnið C sagði aðspurður að hann hefði aldrei séð klámblað það sem ákærði var með og sýndi X. Hann hefði hins vegar frétt af blaðinu þegar hann lánaði heybindivél vorið 1993. Vélin hefði ekki verið notuð sumarið 1992. Vélin hefði ekki verið í fjóshlöðunni, heldur í vélageymslu nærri hlöðunni.

C var spurður um afstöðu fjóshlöðunnar til bæjarhúss, íbúðarhúss móður hans, ömmu ákærða. Hann sagði að um 100 m væru á milli og hægt að sjá heim út um hlöðuopið.

Fram kom hjá vitninu C að hann er upp alinn á K og að ákærði er systursonur hans. Vitnið er bóndi á K.

C gaf skýrslu fyrir lögreglu 11. nóvember 1999. Þar kemur m.a. fram að hann telur öruggt að misnotkunin hafi átt sér stað sumarið 1992. Þar segir hann einnig að hann hafi orðið var við það þetta sumar að ákærði væri í fjóshlöðunni og stundum hefði hann orðið var við að X væri með honum. Hann kvaðst hafa bannað þeim að vera í hlöðunni því hann hefði verið hræddur um að ákærði væri kannski að fikta við að reykja. Annað hefði honum ekki dottið í hug.

Y, systir X, bar vitni fyrir lögreglu og dómi.

Hún greindi frá því fyrir dóminum hvernig það bar til að X sagði henni frá þeirri kynferðislegu misnotkun sem ákærði beitti hana. Lítil frænka þeirra hefði verið í heimsókn og þess vegna hefðu þær systur sofið saman. Þær hefðu farið að spjalla saman undir svefninn. Hún hefði spurt X hvort hún væri skotin í einhverjum einhverjum strák. Hún hefði spurt að því áður og X ávallt farið undan í flæmingi. Hún hefði höfðað til þess að hún væri eldri systir og X gæti trúað sér fyrir öllu. Þá hefði X muldrað að “hún vildi að hún gæti farið til sálfræðings eins og ég”. Þá hefðu, sagði vitnið Y,  klingt bjöllur í höfði sér. Hún hefði þá gengið á systur sína að segja sér hvers vegna hún vildi það. Fyrst hefði X ekki viljað segja neitt, en farið að kjökra. Hún hefði þá gengið frekar hart eftir henni. Sig hefði fljótlega farið að gruna út á hvað þetta gengi, því að vinkona sín hefði lent í svona. Hún hefði þá spurt X hvort einhver hefði gert eitthvað við hana, sem ætti ekki að gera. Þá hefði hún farið að hágráta og talað í sífellu um að hún mætti ekki segja og mætti ekki segja og það yrðu allir vondir og þetta væri henni að kenna. Hún hefði hálfpartinn misst stjórn á sér í smátíma. Þá sagði vitnið Y að sér hefði ekki farið að lítast á blikuna, “og ég sagði þetta eiginlega fyrir hana og spurði hana svo hvort þetta væri rétt, og þá gat hún stunið upp: já að þetta væri rétt hjá mér.” Mjög erfitt hefði verið að hafa það upp úr X hvað hefði gerst og það hefði tekið langan tíma. Hún hefði þrástagast á því að vitnið mætti “ekki segja mömmu og pabba”. Hún hefði fengið hálfgert móðursýkiskast, og vitnið kvaðst hafa  þurft að halda henni niðri í rúminu, því að “hún hristist öll og skalf og bara hágrét”. Vitnið Y sagði að hún hefði nefnt nafn ákærða og X þá játað að hann væri gerandinn. Eftir að hún, vitnið, hefði fengið þetta fram, hefði hún spurt hvort hann hefði káfað á henni. Hún hefði stunið upp jái. “”En það var meira,” sagði hún svo. Þá sagði ég hvort hann hefði klætt hana úr fötunum, og hún sagði já. Og ég sagði: “Gerði hann eitthvað meira?” og hún sagði já. Ég sagði: “Viltu segja mér hvað það er?” Og hún: “Nei, ég get ekki sagt það, má ekki segja þetta. Ef ég segi eitthvað þá verða allir vondir og ég lendi í vandræðum og það verður allt ónýtt.” Og ég sagði að hún gæti trúað mér fyrir þessu, þetta yrði allt í lagi og ég mundi passa hana og það yrði enginn vondur við hana því hún hefði ekki gert neitt af sér. . . Ég reyndi svona að fá hana til að segja mér þetta sjálfa . . .en það var bara ekki við komandi. Svo að ég spurði hvort hann, eins og ég sagði við hana “sett tippið inn í hana”, og hún sagði já. . . .Og svo eftir svolítinn tíma þá spurði ég hvort það hefði verið nokkuð meira og hvort það væri ekki komið þá, og hvort þetta hefði verið í eitt skipti eða fleiri. Og hún sagði “mörgum sinnum”. Ég spurði þá hvort þetta hefði verið eitthvað meira. Og hún svona þagði, vildi ekki segja neitt, og ég þurfti að segja þetta aftur. Og hún sagði að það hefði verið meira. Og þá spurði ég hvort það hefði eitthvað að gera með rassinn á henni . . .og hún sagði já. Og svo spurði ég hvort hann hefði eitthvað reynt að setja tippið upp í munninn á henni líka. Hún sagði að hann hefði reynt það einu sinni, en hún hefði bara tryllst, ekki viljað gera það . . . Svo spurði ég hvar þau hefðu verið að gera þetta, eða hann að gera þetta við hana. Hún sagði að það hefði verið mest úti í hlöðu, en samt hér og þar. Bara þegar hún hitti hann, eins og hún sagði, eða þegar hann náði henni. Og svo sagði hún að hann hefði verið með svona blöð, klámblöð, látið hana gera eins og myndirnar sýndu og gert við hana svona eins og myndirnar í blöðunum voru. Og ég svona reyndi að róa hana niður og sagði að þetta yrði allt í lagi. Og hún bara grét og grét. Svo reyndi ég bara að róa hann niður svo hún gæti sofnað. Ég held ég hafi ekki gleymt neinu.”

Vitnið Y sagði að X hefði verið að taka til hjá sér nú nýlega. Hún hefði þá rekist á apa-tuskudýr, sem hún hefði gefið X á 8 ára afmælinu hennar. “Þetta var fyrsta gjöfin sem ég gaf henni sjálf. Og hún mundi að hún átti hann þegar þetta kom fyrir.”

Vitnið sýndi í réttinum mynd sem hún sagði að X hefði teiknað þegar hún var 8 ára; móðir þeirra hefði gefið sér, vitninu, myndina. [Sjá vætti A hér að framan.]  X hefði teiknað mikið þegar hún var lítil. Hún hefði farið á myndlistarnámskeið. Svo hefði hún allt í einu hætt að teikna. Á myndinni stendur “X 8 ára 1992”. Myndin er af trúð. Hann grætur og er með skeifu. Myndin er í mörgum litum. Vitnið sagði að X hefði teiknað myndina síðsumars 1992.

Vitnið Y sagði að hún hefði í samtalinu við X, þegar hún sagði fyrst frá misnotkuninni, grunað ákærða strax, því að hann “var oft með skrýtna tilburði við dýrin þegar hann var heima, var að fróa nautunum og svona fyrir framan krakkana – það var oft mikið af krökkum heima – og hundinum líka, bara til að fá viðbrögð hjá manni.” Vitnið sagði að eitt skipti hefði hann spurt hvort hún vildi sofa hjá honum. Sér hefði fundist þetta heimskuleg spurning. Hún hefði ekki verið svo vitlaus.

Vitnið sagði að nú gæti X talað um atburðina, “ef maður segir hlutina fyrir hana.”

Vitnið Y bar að sér hefði fundist að háttsemi ákærða hefði verið á svipaða lund í öll skiptin, “svona jafnt og þétt bara”.

Vitnið sagði að X hefði sagt sér eftir á að þetta hefði verið svo erfitt að hún gæti ekki þagað yfir þessu lengur. Hún hefði reynt að þegja eins lengi og hún gat. Og henni hefði liðið svo illa þegar hún sæi ákærða. Hann hefði einmitt verið nýbúinn að vera í heimsókna á K og hefði gist í herbergi við hlið herbergis X. Vitnið bar ennfremur að X hefði lengi verið mjög hænd að dýrum og hún hefði sagt sér, að hún hefði ekki vitað hvað hún hefði átt að gera af sér, ef hún hefði ekki haft dýrin sín; það hefði gert henni lífið aðeins léttara að tala við þau.

Þá hafði vitnið eftir X að hún hefði reynt að segja vinkonum sínum í skólanum frá misnotkuninni, en þær hefðu ekki trúað henni.

Vitnið sagði að fram að sumrinu 1992 hefði X verið glaður og líflegur krakki, en þá hefði hún breyst.

Vitnið Y gaf skýrslu fyrir lögreglu 12. nóvember 1999 vegna þessa máls. Ekki þykir ástæða til að rekja þá skýrslu hér, en henni ber saman við skýrslu vitnisins fyrir dómi. Þó er rétt að geta þess að í lögregluskýrslunni er haft eftir vitninu, að X hafi sagt sér að misnotkunin hafi átt sér stað úti í fjóshlöðu. Vitnið gerði fyrir dóminum þá athugasemd við þetta að það hefði haft eftir X að misnotkunin hefði mest verið í fjóshlöðunni, en líka annars staðar.

D, bóndi á […], bar vitni fyrir lögreglu og dómi. Hann bar aðspurður, að hann hefði oftar en einu sinni fengið lánaða heybindivéla hjá C á K. Hann taldi sig muna að hann hefði fengið hana að láni 1991 og  vorið 1993, hið síðara taldi hann öruggt. Hann kvaðst þá, 1993, hafa fundið í vélinni klámblað. Hann hélt helst að þetta hefði verið auglýsingabæklingur fyrir myndbandsspólur. Þar hefðu verið grófar klámmyndir. “Það var allt sýnt sko,” sagði vitnið. Nánar spurður sagði vitnið að sýnd hefðu verið kynfæri og “í öllum stellingum”. Vitnið tók nú fram að það gæti ekki svarið það að hafa fundið blað þetta 1993, hann hefði oftar verið með vélina. Hann kvaðst þó halda þetta “örugglega”.

E, bóndi á […] bar vitni fyrir lögreglu og fyrir dómi. Fyrir lögreglu var hann spurður hvenær ákærði hefði verið vinnumaður hjá honum á […]. Svarið er skráð þannig: “B kom fyrst sem vinnumaður að […] sumarið 1992. Kom hann þá 18. júní og var fram til 30. ágúst sama ár. Sumarið eftir, 1993, kom hann í endaðan maí og var síða fram til 30. ágúst.” Í skýrslunni er einnig eftir honum haft að ákærði hafi lítið farið burtu frá […] þessi sumur og að hann vissi ekki til þess að hann hefði í fríum sínum farið til ömmu sinnar á K. Fyrir dómi sagði vitnið að hann hefði skrifað hjá sér hvenær ákærði hefði verið hjá sér. Hann staðfesti fyrir dómi framburð sinn fyrir lögreglu.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi, starfsmaður Barnahúss, kom fyrir dóminn sem vitni. Hún er höfundur skýrslu Barnahúss “vegna greiningar og meðferðar” á meintum brotaþola, X.

Vitnið Ragna Björg var spurð hvort meðferð X hefði haft að forsendu að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún svaraði og kvaðst ekki hafa neitt annað að vinna út frá en það sem X hefði sagt henni og hún hefði “upplifað”. Hún sagðist vinna eftir þeirri leiðsögn að túlka ekki það sem barnið segði, heldur vinna út frá því. Nánar var vitnið Ragna Björg spurð hvort slík meðferðarvinna, sem hún hefði unnið, gæti skorið úr með fullri vissu, hvort barn hefði fyrir 5-8 árum lent í kynferðislegu ofbeldi og af hvað tagi það hefði verið. Svar: “Það eina sem við getum gert er að draga líkur að þeim einkennum sem koma fram bæði í því sem hún segir frá og foreldrar segja frá.” Fram kom í þessu sambandi að rannsakandi leggur mat á trúverðugleika barnsins, sem er þó ekki tilgangur meðferðarinnar.

Vitnið sagði að í beinu framhaldi af skýrslu meints brotaþola fyrir dómi 29. nóvember 1999 hefði hún komið til meðferðar hjá sér. Vitnið kvaðst hafa byrjað á því að kynna sér efni þeirra skýrslu. Í fjórum fyrstu samtölum við X hefði hún reynt að meta áhrif ofbeldisins, “ og síðan eftir það fer þessi viðtalsmeðferð í gang”.

Vitnið sagði að það hefði verið mjög sterkt í huga X, að misnotkunin hefði verið henni að kenna. Taldi vitnið að þetta væri ein ástæðan fyrir því hve lengi X þagði um misnotkunina.

Vitnið Ragna Björg var spurð hvort raunverulegir atburðir hefðu getað skolast til í huga X, þar sem langur tími væri liðinn frá atburðum. Vitnið svaraði: “Í þessum málum er þetta talin vera það afdrifarík reynsla að minningin haldist nokkuð stöðug um hana, þannig að ég tel að það sem hún muni sé mjög – sé það sem hún hefur upplifað.” Vitnið greindi frá tiltektum X, sem hún hefði sagt sér frá, og hún hefði haft uppi eftir misnotkunina. Þær hefðu verið til merkis um að alvarlegir atburðir hefðu átt sér stað, ef fólk hefði séð þær eða tekið eftir. Þegar X hefði komist á kynþroskaaldur hefði reynsla hennar mjög truflað hana. Hún hefði þá reynt að segja vinkonum sínu frá reynslu sinni.

Vitnið lýsti því hvernig viðtölin og skýrslan hefðu verið upp byggð samkvæmt stöðluðum greiningarlista.

Vitnið sagði að X hefði verið einstaklega dugleg og komist eins langt í meðferðinni eins og hennar þroski leyfði nú, en síðari áföll á ævinni gætu orðið til þess að minningar og tilfinningar kæmu aftur upp á yfirborðið.

Vitnið kvaðst hafa meistarapróf í félagsráðgjöf (MSW), en í “Curriculum Vitae”, sem hún afhenti dóminum, kemur fram að hún hefur einnig BA próf í sálarfræði frá Háskóla Íslands.

Læknisvottorð.

Í málinu liggur frammi “yfirlýsing” Úlfs Agnarssonar barnalæknis, dags. 2. nóvember 1999,  svohljóðandi:

“Það vottast hér með að ég hef séð X, […] nokkrum sinnum vegna uppkasta eða þess sem ég hef viljað meina að væri jórtur. Ég sá hana fyrst 01. október 1992. Þá kom í ljós að stúlkan hafði haft sögu um uppköst og óværð þegar hún var yngri. Óværðin hvarf en uppköst héldu áfram. Hins vegar höfðu þessi uppköst breyst verulega yfir í það að vera frekar eins og máltíðin gúlpaðist upp í hana, kinnarnar þöndust út og hún kastaði því ekki upp heldur kyngdi því aftur. Var þetta því túlkað sem jórtur. Eftir þessa veru hjá mér lögðum við stúlkuna inn í 4 daga á Landspítalann þar sem hún fór í rannsókn vegna þessa og kom í ljós að hún hafði töluvert bakflæði í vélinda. Þess vegna var gerð magaspeglun og maginn og skeifugörn skoðuð en var allt eðlilegt. Ekki sást merki um þindarslit við þessa rannsókn.

Næst sá ég hana 02. mars 1993 þá virtist sem jórtrið olli [svo] vandræðum meira en áður t.d. í skóla. Mér var ekki ljóst hvers vegna hún hafði þetta jórtur og datt í hug þá þegar ég sá hana að hér gæti verið um einhvers konar tilfinningaleg vandamál á bakvið [svo] frekar en uppköstin frá því á árum áður væru hér til grundvallar. Við gáfum henni lyf sem notuð eru við bakflæði en það gagnaði frekar lítið.

Næst sá ég hana 20. október 1994. Hún var send í rtg.mynd af smáþörmum sem reyndist eðlileg.

Að lokum sá ég hana 29. apríl 1999. Hún var ákaflega óánægð með ástandið. Lyf svo sem Prepulsid og Gastran sem notað hafði verið við jórtrið hjálpuðu henni greinilega ekki mikið. Hún var sett á Losec töflur 20 mg 1x1.

Ljóst er að jórtur er flókið fyrirbæri. Vel má vera að það tengist stundum tilfinningalegri vanlíðan, kvíða eða hræðslu eins og reyndar mörg önnur einkenni geta gert.”

Í “skýrslu Barnahúss vegna greiningar og meðferðar”, sbr. vætti Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur félagsráðagjafa hér að framan, segir m.a.:

“Í. hefur verið í greiningu og meðferð hjá undirritaðri á tímabilinu 9. desember 1999 til 4. ágúst 2000. Viðtölin urðu 20 samtals. Undirrituð hitti Í. fyrst á Akranesi en síðan kaus Í. að koma í Barnahús og sáu foreldrar hennar um að koma henni á staðinn. Í. mætti samviskusamlega og lét vita ef um forföll var að ræða.

Viðtalsmeðferðin sem X fékk var í formi einstaklingsviðtala. Þar sem megin áhersla er lögð á það í upphafi að greina þau áhrif sem meint kynferðislegt ofbeldi hefur haft á barnið. Framhaldið felst síðan í því að vinna úr þeim áhrifum sem meint ofbeldið hefur valdið. Skilja þær hugsanir og tilfinningar sem tengjast meintu ofbeldi og reyna að ná stjórn á þessum þáttum.

X er samviskusöm og dugleg stúlka. Hún er skörp og fylgist vel með því sem er að gerast í kringum hana. Almenn þekking og geta er í samræmi við aldur. Hún er snyrtileg til fara og mjög kurteis. X virkaði nokkuð hlédræg og feimin í fyrstu en við frekari kynni var hún opin og tjáði sig vel.

X sagði undirritaðri smám saman frá hinu meinta kynferðislega ofbeldi sem hún hafði upplifað. Hún átti mjög erfitt með að tjá sig um meint atvik í fyrstu en smám saman gat hún talað um það sem skipti hana máli. Öll vinnsla X hefur tekið mjög á hana og sýndi hún sterk viðbrögð vanlíðunar þegar hún talaði um meint atvik, s.s. grát, svipbrigði og sat í hnipri. X hefur tekist vel að vinna með ákveðna þætti meints ofbeldis en á ennþá langt í land hvað aðra þætti varðar. Það sem hefur tekist vel er sú breytta afstaða hennar til ofbeldisins að það hafi verið henni að kenna. X á aftur á móti erfiðara með að ná fullri trú á eigin getu og ágæti þ.e. sjálfstraust og álit er enn mjög brotið og viðkvæmt hjá henni.”

Síðar í skýrslunni segir:

“Í upprifjun X komu fram smáatriði sem undirritaðri finnst auka mjög á trúverðugleika X. X talaði um að hún hafi alltaf reynt að vera að gera eitthvað þegar meint ofbeldi átti sér stað. Þannig lýsti hún því að hún hafi oft reynt að ná í hund sem var að þvælast í kringum hana og fá hann til að vera hjá sér þannig að hún gæti klappað honum og grúft sig niður í feld hans. Annað atriði sem hún mundi eftir var hvernig blautt grasið klístraðist oft við andlitið á henni. Ennfremur man hún eftir því hvernig hún týndi saman strá úr grasinu og lék sér með þau. Hún sagðist líka muna eftir því að það hafi verið lítið gat á veggnum þannig að hún gat horft heim á bæ afa síns og ömmu sinnar meðan meintur gerandi athafnaði sig.”

Þá kemur það fram í skýrslunni að það veldur félagsráðgjafanum, höfundi hennar, áhyggjum “að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að fá X til þess að fara í kvenlæknisskoðun. Kemur þar glöggt fram tilfinning X fyrir eigin líkama en hún getur ekki hugsað sér að nokkur fái að koma við hana eða skoða líkama hennar.”

Í lok skýrslunnar segir, í kaflanum “Niðurstöður og álit”:

“Það er álit undirritaðrar að X hafi þjáðst mikið og lengi vegna meints ofbeldis. Hún uppfyllir flest öll skilyrði áfallastreitu og hefur haft væg einkenni þunglyndis. X  á nokkuð langt í land ennþá þannig að hægt sé að tala um fullan bata. Hún er ennþá að berjast við svefnerfiðleika og þjáist þannig af þreytu og orkuleysi. Hún hefur miklar áhyggjur af einbeitingarleysi og erfiðleikum tengdum því að muna hluti. X hefur sýnt mikinn vilja til að ná bata og hefur lagt mikið á sig til þess að reyna að ná stjórn á þeim tilfinningum og hugsunum sem tengjast meintu ofbeldi. X hefur haft góðan stuðning frá fjölskyldu sinni og vinum. Hún býr við öryggi og velvilja, þannig er það von undirritaðrar  að með meiri tíma og frekari vinnu í framtíðinni eigi X von um bætta líðan. Það er mat undirritaðrar að X sé komin vel á stað hvað vinnu með afleiðingar meints ofbeldis varðar. Þó er nokkuð eftir og hefur X verið bent á sjálfshjálparhóp fyrir ungar stúlkur sem Stígamót starfrækja sem gott framhald af viðtalsmeðferðinni.”

Forsendur og niðurstöður.

Í máli þessu er ákært fyrir brot sem eiga að hafa gerst fyrir átta árum, en þá var ákærði fimmtán ára og X 8 ára. Fram er komið í málinu að X skýrði fyrst frá hinni meintu háttsemi ákærða í október 1999, en þá sagði hún systur sinni, Y, frá atvikum.

Í skýrslu sinni fyrir dómi átti telpan X afar erfitt um mál og virtist sem atburðir þessir hvíldu með ofurþunga á henni. Hún grét nánast viðstöðulaust í yfirheyrslunni og veigraði sér við að svara spurningum. Hún greindi þó að lokum frá atvikum sjálfstætt, án þess að lagðar væru fyrir hana leiðandi spurningar. Augsýnilega hefur stúlkan átt í miklu hugarstríði vegna þeirra atvika sem ákært er fyrir.

Margt styður frásögn X og þar með atvikalýsingu ákæru.

Endursögn Y, systur X í vætti hennar fyrir dóminum af því þegar X skýrði henni frá háttsemi ákærða í sinn garð, ber í öllu því sem máli skiptir mjög vel saman við vætti X. Vitnisburður Y var að mati dómenda afar skýr og nákvæmur og fram borinn af mikilli yfirvegun og einlægni.

Fyrir dómi hefur ákærði játað að hafa fengið X nokkrum sinnum með sér út í útihús að K og fært hana þar úr utanyfirbuxum og nærbuxum og farið þar nokkrum sinnum höndum um kynfæri hennar. Þá bar hann að svipað atvik hefði átt sér stað í þvottahúsi ömmu þeirra. Hann hefur einnig játað að hafa við þennan verknað haft við höndina klámblað og að hann hafi fengið telpuna með sér í útihúsin í kynferðislegum tilgangi. Hann kvaðst ekki útiloka að hann hefði einhvern tíma fengið telpuna til að leggjast á hnén. Hann neitaði hins vegar að hafa fært fingur inn í leggöng hennar, kvaðst hafa “sett fingur utan við kynfæri”. Hann neitaði því einnig að hafa haft við telpuna mök í endaþarm. Hann sagði að sér hefði risið hold við þessa háttsemi, en neitaði því að hafa opnað buxnalauf sína eða fært sjálfan sig úr buxunum. Þá neitaði hann því að hafa fróað sér í viðurvist hennar. Hann kvaðst hafa geymt klámblaðið í heybindivél sem geymd hefði verið í hlöðunni, þar sem atburðir þessir áttu sér stað. Ákærða vafðist tunga um tönn er hann var inntur eftir því hvort telpan hefði kveinkað sér, en bar þó að telpan hefði sagt að hún vildi hætta þessu og “líklega hef ég einhvern tímann meitt hana þarna, án þess að ég geti fullyrt það þannig”.

Þegar framangreint er virt er það mat dómenda, að framburður ákærða um að hann hafi einungis þuklað ytri kynfæri stúlkunnar sé ótrúverðugur, einkum í ljósi þess að hann viðurkenndi að hafa “líklega” einhvern tíma meitt hana við þessar aðstæður.

Með vottorði Úlfs Agnarssonar læknis, vætti A, móður X, og Y, systur hennar, er sannað að alvarlegar breytingar til hins verra urðu á hegðun og líðan X sumarið 1992, skömmu eftir að meint háttsemi ákærða átti sér stað. Skýrsla Barnahúss vegna greiningar og meðferðar og vætti höfundar hennar fyrir dómi, Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur, styðja þetta.  

Að því athuguðu sem nú hefur verið ritað, þykir dómendum vafalaust að leggja beri til grundvallar niðurstöðu í máli þessu frásögn X af atvikum.

Samkvæmt framanrituðu er sannað að ákærði áreitti margoft stúlkuna X kynferðislega. Þá er einnig sannað að nokkrum sinnum hafði ákærði önnur kynferðismök en samræði við hana.

Við heimfærslu brota þessara undir refsiákvæði ber að líta til þess að hinn 10. júní 1992 gengu í gildi lög nr. 40/1992, er breyttu ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, en brot ákærða voru framin bæði fyrir og eftir þann tíma.

Fyrir gildistöku laga nr. 40/1992 varðaði káf, eins og ákærði viðhafði gagnvart stúlkunni, við 209. gr. almennra hegningarlaga.  Eftir setningu laga nr. 40/1992, varðar þessi sama háttsemi við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.  Refsihámark við brotum þessum var 3 ár, en er nú 4 ár.  Sök ákærða er því að þessu leyti fyrnd samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. sömu laga.  Verður ákærði því sýknaður af refsikröfu vegna þessara brota, að því leyti sem hann er sérstaklega ákærður fyrir þau, en að öðru leyti tæmir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sök gagnvart 209. gr. sömu laga.

Önnur brot ákærða vörðuðu við þágildandi 1. mgr. 200. gr. sbr. 202. gr. almennra hegningarlaga.   Eftir að lög nr. 40/1992 tóku gildi ber að heimfæra háttsemi ákærða undir 1. málslið 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði hefur samkvæmt framansögðu unnið sér til refsingar. Samkvæmt ákvæðum 2. gr. almennra hegningarlaga skal dæma um brot ákærða eftir núgildandi refsiákvæðum, þó þannig að refsing ákærða fyrir þau brot er hann framdi fyrir 10. júní 1992 verði ekki þyngri en orðið hefði eftir eldri lögunum.  Hafa verður því í huga að fyrir gildistöku laga nr. 40/1992 bar að “beita vægari hegningu að tiltölu” fyrir önnur kynferðismök en samræði. Ákærði hefur skv. sakavottorði þrisvar sætt refsingu, á árunum 1992, 1994 og 1995, í öll skiptin vegna ölvunaraksturs. Hafa þau brot ekki áhrif á refsingu í þessu máli. Brot ákærða voru gróf ofbeldisbrot, þar sem hann neytti yfirburða aldurs gagnvart ungu barni. Til refsihækkunar horfir einnig að afleiðingar brota ákærða hafa orðið mjög alvarlegar fyrir brotaþolann. Til verulegrar refsilækkunar kemur ungur aldur ákærða þegar brot var framið.

Refsing ákærða skal vera 12 mánaða fangelsi, en rétt þykir dómendum að fullnustu hennar verði frestað, og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Miskabætur.

Með brotum sínum hefur ákærði valdið X alvarlegu heilsutjóni, andlegu og líkamlegu. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja er ekki útséð um hvort hún nær fullum bata eftir það áfall sem kynferðisleg misnotkun ákærða olli henni.

Dómendum þykir miskabætur til handa X hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Skal fjárhæð þessi bera dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. mars 2000, þ.e. frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá því að miskabótakrafan var borin undir ákærða. Þá er rétt að ákærði verði dæmdur til að greiða réttargæslumanni brotaþola, Helgu Leifsdóttur hdl., réttargæslulaun, og þykja þau hæfilega ákveðin kr. 120.000 auk virðisaukaskatts.

Sakarkostnað allan ber að dæma ákærð að til að greiða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva Bjarnasonar hdl., og skulu þau vera 200.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Sigríður Jósefsdóttir saksóknari sótti málið.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Finnur Torfi Hjörleifsson, dómsformaður, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

D Ó M S O R Ð

Ákærði sæti 12 mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar skal fresta, og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Helgu Leifsdóttur hdl. fyrir hönd X, kt. […], 800.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. mars 2000 til greiðsludags. Ákærði greiði auk þess Helgu Leifsdóttur hdl. réttargæslulaun að fjárhæð kr. 120.000 auk virðisaukaskatts.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Bjarnasonar  hdl.,  200.000 krónur auk virðisaukaskatts.