Hæstiréttur íslands
Mál nr. 537/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
- Barnavernd
|
|
Þriðjudaginn 13. ágúst 2013 |
|
Nr. 537/2013.
|
A (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Barnavernd.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 4. gr. lögræðislega nr. 71/1997, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2013, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili er barnshafnandi og mun vera gengin sem næst 21 viku á leið. Snemma á meðgöngunni tók hún þá ákvörðun að ganga með og fæða barnið og axla þar með þá ábyrgð sem því fylgir. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur hún ekki haldið sig frá vímuefnaneyslu á meðgöngunni. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar batt hún enda á vímuefnameðferð sem hún hafði samþykkt að gangast undir og þurfti aðstoð lögreglu til að hafa uppi á henni. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 26. júlí 2013.
Með beiðni, dagsettri 17. júlí 2013, hefur Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafist þess að A, kt. [...], búsett að [...], en með lögheimili að [...], verði svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a- og b-liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga og 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Í fram lögðum gögnum kemur fram að varnaraðili hafi frá unga aldri átt við félagsleg vandamál að stríða. Hún eigi langa sögu um neyslu vímuefna og geðræna erfiðleika en hún hafi byrjað að neyta kannabisefna og áfengis 12 ára gömul og verið í neyslu sterkari ávana- og fíkniefna frá 15 ára aldri. Varnaraðili eignaðist barn í apríl 2011. Þegar hún gekk með það var hún var nauðungarvistuð í mars 2011, og svipt sjálfræði fram að fæðingu barnsins. Varnaraðili hefur verið svipt forsjá þess barns.
Varnaraðili er nú barnshafandi á ný og gengin um það bil 17 vikur. Að sögn sóknaraðila hefur varnaraðili undanfarna mánuði verið í daglegri kannabisneyslu og einnig í talsverðri áfengisneyslu. Um leið og tilkynningar bárust um þungun varnaraðila reyndu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur að fá hana til að leggjast inn á geðdeild, 33A. Hinn 25. júní sl. var hún lögð inn á þá deild til afeitrunar. Varnaraðili var ekki til samvinnu og neitaði að undirrita meðferðaráætlun. Daginn eftir vildi varnaraðili útskrifa sig og var hún þá þegar nauðungarvistuð í 48 klukkustundir.
Samkvæmt læknisvottorðum var hún við innlögn í miklu ójafnvægi, æst og reið og algerlega innsæislaus í þá miklu hættu sem fóstri hennar stafar af neyslu hennar. Þar sem yfirgnæfandi líkur voru á áframhaldandi neyslu varnaraðila óskaði Barnavernd Reykjavíkur eftir því við innanríkisráðuneytið að varnaraðili yrði nauðungarvistuð á sjúkrahúsi í 21 sólarhring.
Í vottorði B geðlæknis, sem var ritað vegna þeirrar vistunar, kemur fram að varnaraðili sé haldin alvarlegum fíknisjúkdómi. Vanlíðan hennar sé mikil sem geti tengst fráhvörfum og sé hún algerlega innsæislaus í fíknivanda sinni og áhrif hans á fóstrið.
Innanríkisráðuneytið samþykkti 21 dags nauðungarvistun 27. júní sl.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur styður þá kröfu sína að varnaraðili verði svipt sjálfræði tímabundið til sex mánaða við heimild í 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. a- og b-liði 4. gr. sömu laga. Byggist krafan á því að varnaraðili sé þunguð og sýni ekki neinn vilja til samstarfs við barnaverndaryfirvöld. Líklegt sé að hún stofni lífi og heilsu sinni og ófædds barns í hættu með líferni sínu, og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð. Meðferðarheldni varnaraðila hafi brugðist ítrekað og því þurfi að svipta hana sjálfræði.
Í fram lögðu læknisvottorði, dags. 15. júlí sl., sé það mat geðlæknis að í ljósi þess hversu illa varnaraðila gekk að halda sig frá neyslu á fyrri meðgöngu sem og í upphafi þessarar meðgöngu, verði ekki hjá því komist að svipta hana sjálfræði.
Sérfræðingar sem annast hafi varnaraðila hafi miklar áhyggjur af ófæddu barni hennar. Að mati sóknaraðila stefni varnaraðili, með hegðun sinni og líferni, þroska og lífi hins ófædda barns í hættu. Þar sem varnaraðili hafi ekki verið samvinnufús og þar sem hún hafi neytt fíkniefna frá unga aldri og gangi nú með barn í annað sinn, telji sóknaraðili nauðsynlegt að varnaraðili verði svipt sjálfræði til sex mánaða til að tryggja líf og hagsmundi ófædds barns hennar sem áætlað er að það fæðist 26. desember nk. Staðan sé alvarleg og sjálfræðissvipting varnaraðila nauðsynleg í því skyni að koma henni til aðhlynningar og meðferðar á viðeigandi stofnun, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
C, geðlæknir á fíknigeðdeild Landspítala, sem hefur haft varnaraðila til meðferðar ritaði vottorð 15. júlí sl. Þar segir hún það mat sitt að til þess að hægt sé að tryggja öryggi hins ófædda barns varnaraðila sé mikilvægt að varnaraðili sinni meðferð og eftirliti á meðgöngu. Vegna hagsmuna barnsins sé mikilvægt að varnaraðili hætti allri vímuefnaneyslu og snúi lífi sínu til betri vegar. Þegar litið sé til þess hversu illa varnaraðila hafi gengið að halda sig frá neyslu á fyrri meðgöngu og í upphafi þessarar meðgöngu er það mat læknisins að ekki verði komist hjá sjálfræðissviptingu hennar.
Geðlæknirinn staðfesti þetta vottorð fyrir dómi og bar að læknir við mæðraeftirlit á áhættumeðgöngu hafi óskað eftir því að varnaraðili yrði lögð inn á 33A þar sem hún hafi notað kannabis á meðgöngunni og til stæði að hjálpa henni að hætta neyslunni til þess að skaða barnið ekki frekar. Hafi varnaraðili fyrst komið sjálfviljug en hafi útskrifað sig á öðrum degi. Dálítill tími hafi liðið þar til hún kom aftur inn á deildina. Þá hafi líðan hennar verið mjög sveiflukennd. Suma daga hafi hún verið kurteis, blíðlynd og þægileg í umgengni en aðra daga hafi hún blótað öllum í sand og ösku, hrækt á starfsfólkið sem var nálægt henni og reynt að skaða sjálfa sig. Hún hafi jafnframt sagt starfsfólkinu að hún heyrði óþægilegar raddir. Þá hafi vitnið bætt inn lyfjagjöf með trilophon, sem sé geðrofslyf en vísindarannsóknir sýni að það eigi ekki að skaða fóstrið. Eftir að varnaraðili hóf töku lyfsins hafi hún orðið dagfarsprúðari. Hún hafi að vísu óskað eftir flutningi á aðra deild þar sem hún taldi starfsmann deildarinnar leggja sig í einelti. Vitnið sinni henni einnig á þeirri deild.
Vitnið taldi þá fullyrðingu varnaraðila að hún fengi ekki mat ekki eiga við rök að styðjast. Hins vegar sé rétt að ekki hafi verið hægt að bjóða varnaraðila upp á hreyfingu til að byrja með vegna hegðunar hennar en frá því að varnaraðili varð samvinnuþýðari hafi hún getað farið út í garðinn, fengið að fara í líkamsrækt og hafi farið í gönguferðir í fylgd starfsfólks.
Vitnið bar að það teldi nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði til þess að tryggja öryggi barnsins sem hún gengi með. Hún hafi áður gengið með barn og hafi þá ekki tekist að halda sig frá vímuefnum og hafi af þeim sökum verið lögð inn á geðdeild síðasta mánuð meðgöngunnar. Vitnið telji rétt, úr því að varnaraðili sé komin í umsjá sérfræðinga, að krafa um sjálfræðissviptingu verði samþykkt til þess að þeir geti gripið inn í ef á þurfi að halda. Fari hún í neyslu efna eftir að hún útskrifist úr afeitrunarmeðferð hjá þeim sé hægt að bregðast við því með innlögn hvort sem varnaraðila líki betur eða verr.
Vitnið taldi yfirgnæfandi líkur á því að varnaraðili færi aftur í neyslu yrði hún ekki svipt sjálfræði og fengi þá meðferð og aðhlynningu sem hún þyrfti inni á sjúkrahúsi. Því hafi verið velt upp að varnaraðili færi af deildinni í vímuefnameðferð í Hlaðgerðarkot en þar sem það sé opin deild geti varnaraðili gengið þaðan út og jafnframt fengið gesti þangað inn. Fyrir hafi komið að fólk hafi farið í neyslu þar og því telji vitnið rétt að læknar hafi þennan varnagla til þess að hægt sé að grípa fljótt inn missi varnaraðili tökin á neyslunni. Vitaskuld voni allir að varnaraðila takist, eftir meðferðina, að halda sig frá neyslu vímuefna. Þennan varnagla verði þó að hafa vegna þess hversu miklar líkur séu á því að varnaraðila takist ekki að halda sig frá fíkniefnunum. Miðað við hvernig henni hafi farnast til þessa séu yfirgnæfandi líkur til þess að hún fari í neyslu hvort sem að hún verði svipt sjálfræði eða ekki. Verði hún sjálfræðissvipt sé hins vegar hægt að bregðast skjótar við.
Varnaraðili hafi lýst miklum vilja til að halda sér frá neyslu en hins vegar hafi hún verið treg við að taka geðrofslyfið sem hún hafi verið á undanfarið vegna ofheyrna og ranghugmynda. Jafnframt þurfi hún mikinn stuðning áfram frá barnaverndaryfirvöldum og þurfi að vera áfram í eftirliti hjá Landspítalanum svo og í mæðraverndinni.
Vitnið féllst á að reynslan sýndi að vímuefnameðferð sem færi fram gegn vilja sjúklinga væri ekki vænleg til árangurs en í tilviki varnaraðila þyrfti fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni barnsins sem hún gengi með og á hvaða hátt þeir yrðu best tryggðir. Í tilviki varnaraðila þurfi að taka á tvennu, tryggja að hún taki geðrofslyfin sín og koma í veg fyrir fíkniefnaneysluna.
Vitnið féllst á að varnaraðili vildi virkilega standa sig en það væri ekki hægt að treysta því að hún réði við það. Vandi varnaraðila væri sá að hún væri hviklynd, ætti erfitt með að standa við orð sín og skipti oft um skoðun.
C, ljósmóðir á göngudeild mæðraverndar á Landspítala ritaði, 11. júlí 2012, ásamt D félagsráðgjafa bréf til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Vitnið C staðfesti fyrir dómi það sem kemur fram í tilkynningunni. Vitnið bar að varnaraðili hafi fyrst komið í mæðraeftirlit 12. júní sl. í fylgd félagsráðgjafa í [...]. Vitnið kvaðst þekkja varnaraðila og barnsföður hennar þar sem vitnið hafi annast þau alla fyrri meðgöngu varnaraðila en sú meðganga hafi reynst varnaraðila mjög erfið. Vitnið hafi hitt þau með E, yfirlækni kvennadeildar, og hafi verið farið ítarlega yfir stöðuna og ræddur möguleiki á fóstureyðingu. Lyfjaleit í þvagprufu hafi sýnt kannabismagn í hámarki enda hafi varnaraðili neytt áfengis og kannabis. Eftir að hafa hugsað málið hafi varnaraðili og barnsfaðir hennar komið daginn eftir og fundað með D félagsráðgjafa, E og vitninu. Hafi þau verið ákveðin í því að varnaraðili gengi með barnið þar sem hún treysti sér ekki í fóstureyðingu. Varnaraðili vildi heldur ganga með barnið og það færi síðan í fóstur. Ítarleg áætlun hafi verið gerð þess efnis að varnaraðili yrði að leggjast inn á 33A og mæta vikulega í mæðraskoðun. Varnaraðila hafi gengið illa að fylgja þeirri áætlun. Hún hafi að vísu mætt vikulega í skoðun enda hafi hún verið innlögð en eftir sólarhring á 33A hafi hún útskrifað sig sjálf 13. júní, og farið beint í neyslu. Þar sem varnaraðili sé hvatvís hafi hún séð eftir því og hafi lagst inn aftur en hafi síðar viljað fara aftur út af deildinni. Þá hafi hún verið nauðungarvistuð vegna hagsmuna barnsins.
Sérstaklega að því spurð af hverju varnaraðili hafi ekki verið nauðungarvistuð um leið og í ljós kom að hún væri þunguð bar ljósmóðirin að öllum barnshafandi konum í neyslu væri gefinn kostur á að sýna að þær gætu haldið sig frá vímugjöfum án þess að vera þvingaðar til þess. Það geti hvorki varnaraðili né barnsfaðir hennar og kvaðst vitnið hafa miklar áhyggjur af þeim báðum. Varnaraðila gangi illa að ná tökum á neyslu sinni þar sem hún sé ekki í andlegu jafnvægi og hafi lýst hjá vitninu sjálfsvígshugsunum og sagt frá því að hún hafi barið höfðinu við vegg úti á 33A og hafi ekki liðið vel.
Ítarlega hafi verið farið með varnaraðila og barnsföður hennar yfir áhrif neyslu á meðgöngu á fóstrið en varnaraðili virðist ekki gera sér grein fyrir áhrifum neyslunnar á barnið. Hún þurfi mikinn stuðning og eftirlit eigi að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar fyrir barnið sem hún beri undir belti því vímuefnaneysla hreinlega eyðileggi fóstrið.
Áfengi geti valdið alvarlegum fósturgöllum, hjartagalla svo og andlegri fötlun og fleiri vandamálum. Kannabis slævi miðtaugakerfið og skerði samhæfingu hreyfinga, sem dragi úr hæfni til að leysa af hendi vandasöm verkefni. Efnið fari beint yfir fylgju til fóstursins og valdi sambærilegum áhrifum á það. Sígarettureykingar valdi skertu blóðflæði til fylgjunnar og auki líkur á fyrirburafæðingu og vaxtarskerðingu. Þessi fíkniefni séu afskaplega slæm blanda og hættuleg fyrir barnið.
Að mati vitnisins ræður varnaraðili ekki við að halda sig frá fíkniefnunum. Vilji hennar nægi ekki til þar sem fíknin væri honum yfirsterkari. Innsæi varnaraðila væri lítið og hún mjög hvatvís, segði eitt en gerði annað. Vegna veikinda varnaraðila verði að hjálpa henni í gegnum þetta tímabil enda sé ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur af ófædda barninu. Til að vernda heilsu þess sé nauðsynlegt að svipta hana sjálfræði.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hún þrábað um að fá tækifæri til að sýna að hún gæti haldið sig frá allri neyslu án þess að vera svipt sjálfræði og kvaðst þess fullviss að henni gengi mun betur að halda sig frá kannabis væri hún ekki svipt sjálfræði.
Niðurstaða
Eins og rakið hefur verið hefur varnaraðili neytt fíkniefna um langa hríð, auk þess sem hún hefur greinst með persónuleikaröskun. Varnaraðili hefur áður gengið með barn og gat á þeim tíma ekki haldið sig frá neyslu fíkniefna. Þegar hún áttaði sig á að hún væri aftur þunguð ákvað hún, að athuguðu máli, að ganga með það barn einnig. Þrátt fyrir það gat varnaraðili ekki látið af neyslu fíkniefna.
Fyrir dóminum lýsti varnaraðili mjög eindregnum vilja til að halda sig frá allri neyslu án þess að vera svipt sjálfræði. Hún kvaðst vilja fara í Hlaðgerðarkot og væri tilbúin til að fara í tvöfalda meðferð teldu læknar þörf á því.
Þegar litið er til þess fósturskaða sem hlýst af neyslu fíkniefna þykir það of dýrkeypt áhætta að fallast á kröfu varnaraðila. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja er ekki vafi á því að fíkn hennar er mjög sterk enda hefur hún neytt fíkniefna frá mjög ungum aldri. Að mati dómsins sýna framlögð gögn og vitnisburðir sérfræðinga fyrir dóminum, að varnaraðili ráði ekki við fíkn sína og muni að öllum líkindum fara aftur í neyslu yrði hún ekki svipt sjálfræði og muni þar með stofna heilsu ófædds barns síns í hættu.
Í því hagsmunamati sem hér þarf að fara fram vegur réttur barnsins til lífs og heilsu meira en réttur varnaraðila til að njóta sjálfræðis í þá fáu mánuði sem eru eftir af meðgöngunni. Vegna hagsmuna ófædds barns varnaraðila og í því skyni að hún fái notið viðhlítandi aðhlynningar og meðferðar verður hún svipt sjálfræði það sem eftir lifir meðgöngunnar á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga verður tímabundin sjálfræðissvipting ekki ákveðin skemur en í 6 mánuði og verður við það tímamark miðað í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 195.000 krónur, sem er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ingiríður Lúðvíksdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, er svipt sjálfræði í sex mánuði.
Þóknun skipaðs verjanda, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 195.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.