Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2020

Hrafnista Laugarási og Hrafnista Hraunvangi (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Málefni aldraðra
  • Fjárlög
  • Jafnræðisregla
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Aðildarhæfi

Reifun

HL og HH, sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili, kröfðust þess að Í yrði gert að greiða þeim nánar tilgreinda fjárhæð í endurgjald fyrir fasteignir sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Kröfurnar reistu HL og HH einkum á því að þeir veittu öldruðum þjónustu sem Í væri skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og því bæri Í að greiða allan kostnað af starfseminni. Þá gætti Í ekki jafnræðis við greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila þar sem sumum rekstraraðilum væru látin í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða fengju greidda húsaleigu auk þess sem brotið væri gegn eignarrétti þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttur til þeirrar aðstoðar sem getið væri í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar væri bundinn við menn en tæki ekki til lögaðila. Þá var ekki talið að um skerðingu á eignarrétti HL og HH hefði verið að ræða þannig að í bága færi við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá kom fram að bygging á húsnæði þeirra sem samið hefðu við Í um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefði verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hefðu gilt á hverjum tíma. Yrði að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu Í að uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila aldraðra, án þess að það teldist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir væru og hefðu hafið rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Hefðu HL og HH ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður væri á greiðslum Í til rekstraraðila hvíldi á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið hefði verið gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því sýknað af kröfum HL og HH.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2020. Áfrýjandi Hrafnista Laugarási krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.437.559.534 krónur „auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags“ en til vara 1.375.699.410 krónur með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Áfrýjandi Hrafnista Hraunvangi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.217.453.803 krónur „auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags“ en til vara 1.183.857.803 krónur með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

1

        Áfrýjendur eru rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs og annast rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila annars vegar að Laugarási í Reykjavík og hins vegar að Hraunvangi í Hafnarfirði. Í málinu krefur hvor áfrýjenda um sig stefnda um endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Áfrýjendur reisa kröfur sínar á matsgerð dómkvadds manns 3. september 2017 um eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar væru þær leigðar stefnda. Áfrýjendur voru eigendur þeirra fasteigna sem málið varðar til ársloka 2014 en frá árinu 2015 hefur Sjómannadagsráð verið eigandi þeirra og leigir áfrýjendum þær undir starfsemina. Í aðalkröfum áfrýjenda eru húsnæðisgjöld sem þeir fengu greidd frá stefnda á kröfutímabilinu dregin frá leigugjaldinu en í varakröfum eru til viðbótar dregin frá framlög til áfrýjenda úr Framkvæmdasjóði aldraðra á sama tímabili.

2

        Ágreiningur aðila snýst um hvort stefnda hafi borið að greiða áfrýjendum endurgjald fyrir notkun fasteignanna í starfsemi þeirra sem svari til stofnkostnaðar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar breytinga og endurbóta á því. Áfrýjendur telja niðurstöðu matsgerðar endurspegla hæfilegt endurgjald fyrir afnot fasteignanna. Þeir reisa kröfur sínar á því að þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda beri lagaskylda til að veita samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra og beri því að greiða allan kostnað af starfseminni. Um skyldu stefnda vísa áfrýjendur jafnframt til laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, einkum 39. gr. um samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu svo og 43. gr. um endurgjald fyrir slíka þjónustu og 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Þá halda áfrýjendur því fram að brotið sé gegn eignarréttindum þeirra sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar með því að stefndi krefji þá um að leggja fasteignir til starfseminnar, í gegnum móðurfélag sitt, án endurgjalds. Loks byggja áfrýjendur á því að brotið sé gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að tiltekin hjúkrunar- og dvalarheimili fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda eða fái greidda leigu en önnur, líkt og áfrýjendur, leggi sjálf til eða leigi fasteignir frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðar.

        Samkvæmt framansögðu byggja áfrýjendur á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart þeim þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum en ella á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þær fasteignir sem áfrýjendur leggi til á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

       Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. apríl 2020.

II

1

        Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi mæla lög nr. 112/2008 meðal annars fyrir um samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og um endurgjald ríkisins fyrir þjónustuna. Samkvæmt 5. gr., sbr. IV. kafla laganna, annast sjúkratryggingastofnun, sem síðar varð Sjúkratryggingar Íslands, samningsgerðina fyrir hönd stefnda. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en ákvæði IV. kafla laganna komu ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015 að því er varðar gerð samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr. laganna. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV með lögunum var ráðherra fram til þess tíma heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt var í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Daggjöld skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd, sbr. 4. mgr. 43 gr. laganna. Á þeim grundvelli kvað ráðherra á um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum í reglugerð nr. 1217/2012 fyrir árið 2013, reglugerð nr. 99/2014 fyrir árið 2014 og reglugerð nr. 1185/2014 fyrir árið 2015. Þar kom fram að daggjöldum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Að auki var kveðið á um greiðslu húsnæðisgjalds sem ætlað væri að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis sem nýtt væri til rekstrar hjúkrunarrýma. Viðhaldshluta húsnæðisgjaldsins var ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði.

        Rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila var undirritaður 21. október 2016, með gildistíma frá 1. janúar sama árs til ársloka 2018. Ákvæði um húsnæðisgjald var að finna í 8. gr. samningsins og var það hliðstætt ákvæðum framangreindra reglugerða. Áfrýjendur staðfestu aðild að samningnum 25. október 2016. Samningnum fylgdi bókun þess efnis að einstök hjúkrunar- og dvalarheimili teldu aðild að honum ekki fela í sér viðurkenningu þeirra á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna væri að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkaði ekki heimildir þeirra til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart stefnda.

    Með beiðni til héraðsdóms 8. nóvember 2016 óskuðu áfrýjendur, ásamt Sjómannadagsráði, Grund og Dvalarheimilinu Ási eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta eðlilegt leigugjald fasteigna. Matsgerð lá fyrir 3. september 2017 og höfðuðu áfrýjendur mál þetta 13. október sama ár.

        Í hinum áfrýjaða dómi er nánari grein gerð fyrir lagagrundvelli dag- og húsnæðisgjalda. Í málinu er óumdeilt að greiðslur til áfrýjenda voru í samræmi við áðurgreindar reglugerðir um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum og við rammasamning eftir að hann tók gildi. Lýtur mál þetta þannig eingöngu að því hvort áfrýjendur eiga á grundvelli þeirra réttarheimilda sem málssóknin er reist á rétt til frekara endurgjalds úr hendi stefnda sem taki mið af stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á fasteignum.

2

       Stefndi byggir sýknukröfu í fyrsta lagi á aðildarskorti áfrýjenda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísar hann einkum til þess að frá ársbyrjun 2015 hafi Sjómannadagsráð verið eigandi þeirra fasteigna sem nýttar séu í rekstri áfrýjenda og samkvæmt grein 13 í lögum þess fari ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi eignir þess. Þá sé í gögnum málsins hvergi vikið að samningum Sjómannadagsráðs og áfrýjenda um fasteignirnar eða leigugreiðslur fyrir þær.

        Áfrýjendur voru eigendur þeirra fasteigna sem málið varðar til ársloka 2014 en frá þeim tíma munu þeir hafa haft þær á leigu undir starfsemina. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir samstæðuársreikningi Sjómannadagsráðs fyrir árið 2015. Þar kemur fram að Sjómannadagsráð hafi tekið yfir rekstur fasteigna áfrýjenda og hafi tekjur á móti í formi leigu. Leigufjárhæðin samanstandi af húsnæðisgjaldi sem áfrýjendur fái greitt frá stefnda og tilgreindri fjárhæð sem taki mið af stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum. Áfrýjendur hafi gert kröfu á hendur stefnda um frekari greiðslur vegna nýtingar fasteignanna í þágu starfsemi sinnar. Vegna óvissu um það hvort krafan innheimtist hafi hún ekki verið færð til tekna í rekstrarreikningi hjúkrunarheimilanna. Af sömu ástæðu hafi skuld hjúkrunarheimilanna við Sjómannadagsráð vegna stofnkostnaðarhluta leigunnar ekki verið færð í ársreikning þeirra og heldur ekki krafa á hjúkrunarheimilin í ársreikningi Sjómannadagsráðs.

        Áfrýjendur eru aðilar að rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila og fá samkvæmt honum meðal annars greiðslur í formi húsnæðisgjalda frá stefnda fyrir að leggja húsnæði til rekstursins.

        Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að áfrýjendur teljist rétthafar þeirra hagsmuna sem fjárkröfur þeirra lúta að.

3

         Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. Fyrir liggur að hlutdeild einstakra hjúkrunarheimila í fjárveitingu hvers árs er ákveðin með reiknilíkani, svokölluðu daggjaldalíkani. Með því er leitast við að skipta þeim fjármunum sem stjórnvöld ráðstafa hverju sinni til málaflokksins milli heimilanna á málefnalegan og gagnsæjan hátt og að gætt sé jafnræðis. Líkaninu er aftur á móti ekki ætlað að ákvarða raunkostnað við rekstur hjúkrunarheimilis. Á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga nr. 112/2008 semja Sjúkratryggingar Íslands, sem fyrr segir, um veitingu heilbrigðisþjónustu við þá sem reka hjúkrunarheimili og um endurgjald stefnda vegna hennar. Kom ákvæðið til framkvæmda 1. janúar 2015 og er rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og áfrýjenda um þjónustu hjúkrunarheimila gerður með stoð í því. 

        Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að lög nr. 112/2008 hafi ekki að geyma ákvæði sem mæla fyrir um skyldu stefnda til að standa áfrýjendum skil á endurgjaldi vegna notkunar á fasteignum í rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila umfram það sem stefndi hefur greitt í formi húsnæðisgjalds. Þá verður þeirri skyldu heldur ekki fundin stoð í reglugerðum, og síðar rammasamningi, sem giltu um greiðslur til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016. Auk þess verður slík skuldbinding hvorki byggð á ákvæðum laga nr. 125/1999 né laga nr. 40/2007.

        Eins og áður greinir hafa áfrýjendur reist kröfur sínar á því að þar sem þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda sé skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar beri stefnda að greiða allan kostnað af starfseminni. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 97/1995 kemur fram að í ákvæðinu séu taldar ástæður sem geta  orðið til þess að maður þarfnist opinberrar aðstoðar af þessum toga. Jafnframt segir að gengið sé út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum en með ákvæðinu sé markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð. Af þessum orðum um verndarandlag og skyldur stefnda samkvæmt 1. mgr. 76. gr. er ljóst að réttur til þeirrar aðstoðar sem þar er getið er bundinn við menn en tekur ekki til lögaðila, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 16. júní 2020 í máli nr. 3/2020.

        Af hálfu áfrýjenda hefur verið vísað til þess að þeir væru jafnframt að sækja rétt þeirra einstaklinga sem nytu vistar á heimilum þeirra og tryggður væri með þessu stjórnarskrárákvæði. Áfrýjendur hafa hvorki fært fram gögn né haldbær rök fyrir þessari staðhæfingu sinni. Verður ekki fallist á að áfrýjendur séu með málssókn sinni að sækja persónubundinn rétt vistmanna á hjúkrunarheimilum sem þeir reka. Samkvæmt framangreindu er ljóst að áfrýjendur geta ekki reist kröfur sínar um endurgjald frá stefnda vegna leigugreiðslna á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og er þeirri kröfu því hafnað.

4

        Af hálfu áfrýjenda er jafnframt á því byggt að sú afstaða stefnda að greiða þeim ekki endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir útvegi undir hjúkrunar- og dvalarheimili feli í sér brot á eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

       Samkvæmt ákvæðinu er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og skal fullt verð koma fyrir. Hluta þess tímabils sem dómkröfur áfrýjenda taka til voru þeir eigendur umræddra fasteigna sem þeir hafa nýtt við rekstur öldrunarþjónustu. Frá árinu 2015, þegar eignarhald á fasteignunum var fært yfir til Sjómannadagsráðs, hafa þeir ekki verið eigendur fasteignanna heldur haft umráð þeirra til rekstrarins og skuldbundið sig til að greiða eiganda þeirra, Sjómannadagsráði, leigugreiðslur. Leigugreiðslurnar áttu annars vegar að taka mið af því húsnæðisgjaldi sem áfrýjendur njóta frá stefnda og hins vegar af stofnkostnaði húsnæðis, afskriftum og kostnaði við meiri háttar breytingar og endurbætur á því. Samkvæmt gögnum málsins hafa þessar leigugreiðslur þó ekki verið inntar af hendi til Sjómannadagsráðs eða bókfærðar. Samkvæmt grein 13 í lögum Sjómannadagsráðs fer ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi eignir þessar.

    Á því tímabili sem dómkröfur áfrýjenda taka til hafa þeir samkvæmt framansögðu rekið öldrunarþjónustu í húsnæði sem í upphafi tímabilsins var í þeirra eigu en Sjómannadagsráð tók yfir árið 2015. Stefndi hefur greitt áfrýjendum fyrir þessa þjónustu, fyrst á grundvelli reglugerða en síðan á grundvelli rammasamnings. Þótt áfrýjendur telji að stefnda beri að greiða hærra endurgjald fyrir þjónustuna en hann hefur samkvæmt framansögðu gert verður ekki fallist á að í samningssambandi áfrýjenda og stefnda hafi falist þvingun hvað varðar nýtingu fasteignanna sem jafnað verði til skerðingar á eignarrétti sem í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar.  

5

        Málatilbúnaður áfrýjenda lýtur loks að því að ólögmæt mismunun sé fólgin í að stefndi neiti kröfum þeirra en láti á hinn bóginn tilteknum aðilum, sem veiti öldruðum sambærilega þjónustu og áfrýjendur, í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða greiði þeim húsaleigu. Vísa áfrýjendur í því sambandi einkum til svokallaðrar leiguleiðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999. Áfrýjendur byggja á því að stefndi gæti ekki jafnræðis hvað varðar greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila.

        Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum. Í því banni við mismunun sem í ákvæðinu felst er meðal annars gerð sú krafa að við lagasetningu og framkvæmd laga sé farið með sambærilegum hætti með sambærileg tilvik og að ólík meðferð sambærilegra tilvika verði aðeins réttlætt með vísan til hlutlægra og málefnalegra sjónarmiða.

        Þeir aðilar sem áfrýjendur hafa borið sig saman við eru í sambærilegum rekstri og áfrýjendur. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að bygging á húsnæði þeirra sem hafa samið við stefnda um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefur verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hafa gilt á hverjum tíma. Með 2. gr. laga nr. 38/2004 kom inn það nýmæli í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 að Framkvæmdasjóði aldraðra var heimilað að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005, að undangengnu útboði, á kostnað annarra aðila en ríkisins. Frumvarp að lögum nr. 38/2004 tók mið af tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá maí 2003. Skilyrði fyrir greiðslu á húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eða annar styrkur frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimilið eða til viðhalds fasteignarinnar. Rekstraraðilar sem byggt hafa hjúkrunarheimili eftir 1. janúar 2005 og uppfylla skilyrði um greiðslu húsaleigu njóta ekki réttar til framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, né heldur fá þeir greidd húsnæðisgjöld eins og áfrýjendur samkvæmt rammasamningnum við stefnda. 

      Forsenda fyrir húsaleigugreiðslum er samkvæmt áðursögðu að samþykkt hafi verið að reisa byggingar eftir 1. janúar 2005 og að rekstraraðili hafi fjármagnað byggingu hjúkrunarheimilis að öllu leyti án þátttöku hins opinbera og ekki þegið fjármagn til viðhalds húsnæðisins. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi háttaði ekki svo til um fasteignir þær sem áfrýjendur nota til rekstrarins. Þær voru reistar á sjötta og áttunda áratug síðustu aldar meðal annars með þeim fjárstuðningi opinberra aðila sem stóð til boða samkvæmt heimildum á þeim tíma. Auk þess hefur stefndi veitt fjárstuðning vegna endurbóta þeirra og viðhalds. Að þessu leyti verður stöðu áfrýjenda og rekstraraðila sem uppfylla skilyrði til leigugreiðslna samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 ekki jafnað saman. Sama gildir um aðrar leiðir sem farnar hafa verið eins og þá er stefndi og sveitarfélög reisa húsnæði fyrir hjúkrunarheimili, sbr. 5. mgr. 9. gr. sömu laga, sem með samningi hefur verið lagt undir rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á hendi einkaaðila. Verður að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu stefnda að uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra, án þess að það teljist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir eru og hófu rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður er á greiðslum stefnda til rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila samkvæmt framansögðu hvíli á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið sé gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  

        Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

        Rétt er að hver aðila greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                  

Dómur Landréttar 28. febrúar 2020

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 23. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019 í málinu nr. E-3246/2017.

2        Áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 1.437.559.534 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags og til vara 1.375.699.410 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3        Áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 1.217.453.803 krónur auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags og til vara 1.183.857.803 krónur auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

4        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjenda.

Málsatvik

5        Áfrýjendur eru fyrirtæki í eigu Sjómannadagsráðs sem hafa um áratuga skeið rekið hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða. Sjómannadagsráð er samkvæmt 1. gr. samþykkta þess, 29. maí 2012, fulltrúaráð félaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu. Í héraðsdómsstefnu er Sjómannadagsráði lýst sem sambandi eða samtökum stéttarfélaga. Áfrýjendur byggja á því að þeir séu sérstök rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs sem fari með rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma. Áfrýjendur áttu þær fasteignir, sem nýttar eru í rekstri hjúkrunar- og dvalarrýma þeirra, fram til ársins 2015 er þær voru færðar til Sjómannadagsráðs.

6        Áfrýjendur hafa um langt skeið fengið greiðslur í formi daggjalda frá stefnda til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Í þeim greiðslum hefur ekki verið tekið tillit til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds fasteigna sem fylgt hefur rekstri áfrýjenda. Áfrýjendur lýsa því að þeir hafi í kjölfar setningar laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar bundið vonir við að þeir næðu samningum við stefnda um að greiðslur sem þeir fengju til rekstursins tækju einnig til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds.

7        Fyrir setningu laga nr. 112/2008 var í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem var í þeim kafla laganna sem þá tók til sjúkratrygginga, kveðið á um að ráðherra skyldi með reglugerð ákveða daggjöld vegna reksturs dvalarheimila aldraðra, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki væru á föstum fjárlögum. Ráðherra skyldi áður en daggjöld væru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Daggjöld hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd. Samanlagðar tekjur stofnunar skyldu standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem kveðið væri á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerðum með stoð í þeim lögum. Í 47. gr. sömu laga sagði að kostnaður við sjúkratryggingu greiddist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið væri samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skyldu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.

8        Þegar lög nr. 112/2008 voru sett var gert ráð fyrir því að sérstök sjúkratryggingastofnun tæki yfir það hlutverk sem Tryggingastofnun ríkisins hafði áður haft gagnvart hjúkrunar- og dvalarheimilum. Nefnist stofnunin Sjúkratryggingar Íslands. Í 24. gr. laganna er kveðið á um að sjúkratrygging taki til þjónustu sem veitt sé í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og í dagdvöl, sem samið hefði verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Gildistöku umrædds IV. kafla, sem fjallar meðal annars um samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarrými, dvalarrými og dagdvöl, var þó ítrekað frestað og tók hann ekki gildi að því leyti fyrr en 1. janúar 2015, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 131/2012. Í ákvæði IV til bráðabirgða með lögunum, eftir breytingu sem gerð var á því með 3. gr. laga nr. 131/2012, var kveðið á um að fram til 1. janúar 2015 væri ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt væri í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.

9        Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Þá segir að árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.

10       Á grundvelli framangreindrar reglugerðarheimildar í bráðabirgðaákvæði IV með lögum nr. 112/2008 setti velferðarráðherra reglugerð nr. 1217/2012 um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum, fyrir árið 2013, og reglugerð nr. 99/2014, með sama heiti, fyrir árið 2014. Í 1. gr. reglugerðanna sagði að daggjöldum á stofnunum sem ekki væru á föstum fjárlögum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði, án húsnæðisgjalds. Í ákvæðinu var kveðið á um fjárhæð daggjalda til áfrýjenda. Í 4. gr. reglugerðanna var að auki mælt fyrir um að Tryggingastofnun ríkisins skyldi greiða húsnæðisgjald til þeirra sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili en því gjaldi var ætlað að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Í ákvæðinu var sérstaklega tekið fram að húsnæðisgjaldinu væri ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði.

11       Lagagrundvöllur daggjaldanna breyttist nokkuð þegar fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 112/2008 rann sitt skeið í árslok 2014 og lögin komu að fullu til framkvæmda. Daggjöld fyrir dvalarrými, dagdvalarrými og hjúkrunarrými voru á árinu 2015 greidd á grundvelli gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands og reglugerðar nr. 1185/2014, sbr. heimild í 1. og 2. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008. Í reglugerðinni var mælt fyrir um fjárhæð almenns daggjalds vegna dvalarrýma fyrir aldraða og vegna dagdvalar aldraðra sem ætlað var að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Einnig var þar að finna sambærilegt ákvæði um húsnæðisgjald og í fyrri reglugerðum. Þá voru í reglugerðinni ákveðnar fjárhæðir daggjalda til einstakra aðila, þar með talið áfrýjenda, vegna sérhæfðrar dvalar. Í gjaldskránni var á hinn bóginn mælt fyrir um daggjöld tiltekinna aðila fyrir hjúkrunarþjónustu og voru daggjöld til áfrýjenda þar sérstaklega tilgreind.

12       Ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008 um heimild Sjúkratrygginga Íslands til að gera samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili komu eins og áður sagði til framkvæmda 1. janúar 2015. Á grundvelli þessarar heimildar undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag 6. september 2016 um gerð rammasamnings milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila vegna þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila. Rammasamningurinn sem gerður var í framhaldinu er dagsettur 21. október 2016. Áfrýjendur samþykktu aðild að honum með tölvuskeyti 25. október 2016 og var hún staðfest með tölvuskeyti daginn eftir. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu bókun við rammasamninginn þar sem fram kom að aðild að honum fæli ekki í sér viðurkenningu einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila á því að endurgjaldið sem greitt væri fyrir þjónustuna væri fullnægjandi og að áskilinn væri réttur til að gera frekari kröfur eftir atvikum með málsókn. Þá kemur fram í bókun 2 við rammasamninginn að aðilar séu sammála um að skoða nánar húsnæðismál hjúkrunarheimila, meðal annars eignarhald á húsnæði, kostnað við eignarhald og framlög opinberra aðila. 

13       Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu kemur fram að kostnaður við byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði og teljist meiri háttar viðhald og tækjakaup til stofnkostnaðar. Þá kemur fram í 2. mgr. að sveitarfélög leggi til lóðir undir byggingarnar án endurgjalds.

14       Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að sjóðurinn veiti fjármunum til byggingar stofnana fyrir aldraða, viðhalds þeirra, breytinga og endurbóta. Þá er að finna heimild fyrir sjóðinn í 4. mgr. sömu greinar til að greiða þann hluta húsaleigu sem teljist til stofnkostnaðar vegna leigu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Heimildin er bundin við hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005. Skilyrðið fyrir greiðslu húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr sjóðnum eða frá stefnda til byggingar hjúkrunarheimilisins. Þá kemur fram í 5. mgr. að þegar ríki og sveitarfélög standa saman að uppbyggingu hjúkrunarheimila skuli þátttaka sveitarfélaga ekki vera minni en 15% af stofnkostnaðinum eða leigunni.   

15       Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um byggingarkostnað hjúkrunarheimila á 128. löggjafarþingi 2002-2003 kemur fram að um fjármögnun annarra hjúkrunarrýma og stofnana fyrir aldraða, sem ekki er stofnað til á grundvelli laga nr. 40/2007, gildi lög nr. 125/1999. Í svarinu kemur fram að styrkir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi á árunum 1980 til 2002 numið á bilinu 35-40% af byggingarkostnaði. Í yfirliti um þessa kostnaðarskiptingu kemur meðal annars fram að áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði hafi á árunum 1982 og 2000 fengið styrk úr sjóðnum sem nam 40% af byggingarkostnaði en 60% byggingarkostnaðar höfðu verið greidd af sjálfsaflafé.

16       Áfrýjendur hafa lagt fram í málinu upplýsingar um samninga sem stefndi hefur gert við nokkra aðila um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarheimila. Fyrsti samningurinn er á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins við Seltjarnarneskaupstað 30. desember 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða. Í samningnum kemur fram að stefndi muni greiða hluta af leigu fyrir húsnæðið sem teljist ígildi stofnkostnaðar og jafngildi leigugreiðsla stefnda 85% af reiknaðri leigu. Samningstíminn er til 40 ára. Annar samningurinn er samningur til sex ára milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Grundar hjúkrunarheimilis um þjónustu og rekstur Markar hjúkrunarheimilis 18. júní 2010. Áfrýjendur hafa upplýst að í þessu tilviki hafi Grund hjúkrunarheimili fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til rekstursins. Hefur stefndi ekki mótmælt því. Þriðji samningurinn er á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Öldungs ehf. 28. apríl 2000 um uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Samkvæmt samningnum sem grundvallaður var á útboði er gert ráð fyrir endurgjaldi frá stefnda sem svari til leigu eða fjármögnunar stofnkostnaðar. Samningstíminn er til 27 ára.

17       Áfrýjendur óskuðu eftir dómkvaðningu matsmanna 8. nóvember 2016 til þess að meta hvert væri eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar, sem þeir nota til að veita þjónustu sína, ef stefndi væri leigutaki. Matsmenn skiluðu matsgerð 3. september 2017 og byggjast fjárkröfur áfrýjenda á niðurstöðum hennar um hæfilegt leigugjald. Frá leigugjaldi samkvæmt matsgerð er dregið húsnæðisgjald sem áfrýjendur fengu greitt á árunum 2013 til 2016. Í málinu liggur fyrir yfirlit sem sýnir að áfrýjendur hafa fengið greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2011 til 2016, sbr. III. kafla laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, vegna viðhalds, endurbóta og breytinga á húsnæði sem þeir nota í starfsemi sinni. Á þessu tímabili fékk áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík greiddar úr sjóðnum 204.450.000 krónur og áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði 66.750.000 krónur. Varakröfur áfrýjenda eru byggðar á því að núvirtar greiðslur frá Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2013 til 2016 dragist frá leigugjaldinu.

Niðurstaða

18       Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur eigi rétt á greiðslum úr hendi stefnda sem svari til eðlilegs leigugjalds á árunum 2013 til 2016 fyrir þær fasteignir sem þeir nota við rekstur á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Svo sem áður er komið fram hafa áfrýjendur um árabil fengið greiðslur úr sjúkratryggingum samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar vegna starfsemi sinnar en í þeim greiðslum felst ekki endurgjald vegna stofnkostnaðar við fasteignir, afskriftir eða meiri háttar viðhald.

19       Áfrýjendur byggja kröfur sínar á því að Sjúkratryggingum Íslands sé skylt samkvæmt lögum nr. 112/2008 að greiða allan rekstrarkostnað við hjúkrunar- og dvalarheimili áfrýjenda, þar með talið endurgjald eða leigugjald sem endurspegli stofnkostnað, afskriftir og meiri háttar viðhald fasteignanna. Þessi skylda byggi einnig á ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 og 32. gr. laga nr. 40/2007. Þar sem lagaskyldunni hafi ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum Íslands hafi starfsmenn stefnda sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir áfrýjendur. Einnig byggja áfrýjendur kröfur sínar á því að þeir eigi rétt á eðlilegu endurgjaldi vegna húsnæðiskostnaðar á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Framangreindar málsástæður eru einnig reistar á þeim grunni að áfrýjendum hafi verið mismunað þar sem aðrir rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarheimila hafi ýmist fengið greiddan stofnkostnað við fasteignir með sérstökum samningum við stefnda eða fengið endurgjaldslaus afnot af húsnæði undir starfsemi sína. Með þessari háttsemi hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Aðildarhæfi

20       Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi frávísunar á öllum kröfum áfrýjenda. Byggði stefndi meðal annars á því að aðild áfrýjenda í málinu væri ekki nægjanlega skýrð í stefnu þar sem Sjómannadagsráð væri nú eigandi þeirra fasteigna sem krafist væri leigugjalds fyrir. Héraðsdómur hafnaði frávísunarkröfum stefnda með úrskurði 14. júní 2018 að öðru leyti en því að þrautavarakröfu áfrýjenda um viðurkenningu á því að þeir ættu rétt til endurgjalds vegna fasteigna var vísað frá dómi. Eftir standa þær fjárkröfur sem áfrýjendur gera í málinu.

21       Stefndi gerir ekki kröfu um frávísun fyrir Landsrétti en vekur athygli á því að það geti komið til álita að vísa málinu frá dómi án kröfu. Við flutning málsins fyrir Landsrétti mátti ráða að stefndi teldi að áfrýjendur hefðu ekki aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því bæri að vísa málinu frá dómi.

22       Í 12. gr. samþykkta Sjómannadagsráðs kemur fram að stjórn ráðsins fari með yfirstjórn allra Hrafnistuheimilanna og annarra fyrirtækja þess. Stjórnin ákveði fjölda stjórnarmanna í fyrirtækjum ráðsins. Þá kemur fram í 14. gr. samþykktanna að stjórnarmenn fái stjórnarlaun greidd frá Hrafnistuheimilunum. Upplýst er í málinu að ekki eru til neinar samþykktir fyrir áfrýjendur. Þá liggja ekki fyrir nánari upplýsingar um stofnun þeirra og skipulag. Í ársreikningi Sjómannadagsráðs fyrir árið 2015 sem liggur fyrir í málinu kemur þó fram að áfrýjendur séu eign Sjómannadagsráðs. Ársreikningurinn inniheldur móðurfélagsreikning fyrir Sjómannadagsráð svo og samstæðureikning þar sem teknar eru saman niðurstöður úr ársreikningum dótturfélaga Sjómannadagsráðs. Í skýrslu stjórnar sem er í ársreikningnum kemur fram að fasteignir og rekstur þeirra hafi verið færður frá áfrýjendum til Sjómannadagsráðs á árinu 2015 og að Sjómannadagsráð innheimti leigutekjur af áfrýjendum. Af ársreikningnum má ráða að rekstrartekjur vegna daggjalda eru færðar sem tekjur hjá dótturfélögum en ekki Sjómannadagsráði.

23       Fyrir liggur að áfrýjendur hafa um árabil fengið daggjöld greidd frá stefnda vegna reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða. Þá eru áfrýjendur aðilar að rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila frá 21. október 2016 en samkvæmt þeim samningi hafa áfrýjendur fengið greiðslur til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma frá ársbyrjun 2016. Svo sem að framan er rakið eru áfrýjendur fyrirtæki í eigu Sjómannadagsráðs og hafa sérstaka stjórn. Þá verður ráðið af gögnum málsins að áfrýjendur hafi um langt skeið haft með höndum umtalsverðan rekstur, sjálfstæðan fjárhag og geri sérgreindan ársreikning fyrir starfsemi sína. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands má sjá að áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík hefur átt aðild að dómsmálum vegna skaðabótakröfu fyrir vinnuslys, sbr. dóm 13. október 2011 í máli nr. 663/2010, skaðabótakröfu sökum ólögmætrar uppsagnar, sbr. dóm 7. febrúar 2013 í máli nr. 384/2012 og ágreinings um skyldu til greiðslu söluskatts, sbr. dóm 26. mars 1971 í máli nr. 202/1970. Þá voru áfrýjendur aðilar í máli Félagsdóms 30. júní 2003 nr. 3/2003.

24       Kröfur áfrýjenda eru reistar á því að þeir eigi rétt á hærri greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands vegna þeirra fasteigna sem þeir leggja til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða. Þar sem áfrýjendur hafi verið samningsaðilar sjúkratryggingastofnunar samkvæmt lögum nr. 112/2008 um langan tíma er ljóst að þeir eru rétthafar þeirra hagsmuna sem fjárkröfur þeirra lúta að. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem að framan er rakið hafa þeir aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. 

Skylda til greiðslu alls kostnaðar af veittri þjónustu

25       Áfrýjendur byggja mál sitt á því að Sjúkratryggingum Íslands beri lögum samkvæmt að greiða allan kostnað við þá þjónustu sem þeir láta í té við rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma, þar með talinn stofnkostnað fasteigna, afskriftir og meiri háttar viðhald. Eins og áður er rakið telja þeir þessa skyldu koma fram í ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 og 32. gr. laga nr. 40/2007 svo og lögum nr. 112/2008, einkum IV. kafla þeirra laga.

26       Í 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að stefndi verður ekki skuldbundinn til greiðslu fjármuna nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum. Í 54. gr. laga nr. 112/2008 kemur skýrt fram að heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum hvers árs. Áfrýjendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna að heimilt hafi verið samkvæmt fjárlögum fyrir árin 2013 til 2016 eða fjáraukalögum að greiða leigu fyrir húsnæði umfram húsnæðisgjald.

27       Svo sem áður er rakið voru greiðslur daggjalda til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016 annars vegar reistar á ákvæðum reglugerða og gjaldskrár á grundvelli 38. gr. og bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 112/2008 og hins vegar á rammasamningi sem gerður var á grundvelli 38. gr. laganna. Hvorki í lögunum né reglugerðunum er að finna ákvæði sem skyldar stefnda til greiðslu á leigu, stofnkostnaði, afskriftum eða meiri háttar viðhaldi vegna fasteigna sem notaðar eru í rekstri á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Þvert á móti kemur fram í reglugerðunum að þessi kostnaður sé ekki greiddur og í rammasamningnum er ekki að finna ákvæði sem heimilar slíkar greiðslur. Breytir í þessu sambandi engu þótt í ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna komi fram að við kostnaðargreiningu heilbrigðisstofnana eigi að taka mið af öllum hagrænum kostnaði við þjónustuna, þar með töldum kostnaði vegna húsnæðis. Lýtur ákvæðið að tiltekinni aðferð við kostnaðargreiningu en mælir ekki fyrir um rétt til greiðslu alls húsnæðiskostnaðar. Þá er ekki mælt fyrir um slíka skuldbindingu í tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 125/1999 eða lögum nr. 40/2007. Loks er tekið undir það með héraðsdómi að réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar verða eingöngu sótt af einstaklingum en ekki lögpersónum og verður réttur áfrýjenda til leigugreiðslna þegar af þeirri ástæðu ekki byggður á því ákvæði.

28       Samkvæmt því sem að framan er rakið hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að þeir eigi, á grundvelli áðurnefndra laga eða samninga, lögvarða kröfu á hendur stefnda um greiðslu á leigu fyrir notkun á umræddum fasteignum í starfsemi sinni.

Brot á jafnræðisreglu

29       Áður er rakið að áfrýjendur byggja kröfur sínar einnig á því að þeim hafi verið mismunað af stefnda þar sem þeir hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrir sem veita þjónustu á þessu sviði. Brjóti það gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Vísa áfrýjendur til þess að aðilar sem veita sambærilega þjónustu hafi í gegnum tíðina fengið greidda leigu eða kostnað vegna byggingar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar viðhalds með samningum við stefnda og eftir atvikum endurgjaldslaus afnot af húsnæði í eigu stefnda.

30       Frá jafnræðisreglu stjórnarskrár, sem tekur bæði til einstaklinga og lögpersóna, verður ekki vikið nema hlutlægar og málefnalegar ástæður réttlæti það. Eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort löggjafinn hafi að þessu leyti gætt réttra sjónarmiða við lagasetningu og einnig hvort framkvæmdavaldið hafi afgreitt mál innan þess ramma sem jafnræðisreglur setja.

31       Fyrir liggur í gögnum málsins, og er því ekki andmælt, að stefndi hefur gert samninga við ýmsa aðila um fjármögnun og uppbyggingu á húsnæði til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Fyrirkomulagið hefur verið með ýmsum hætti en leggja má til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi í ýmsum tilvikum greitt fyrir kostnað við byggingu fasteigna í formi þess að gerður er samningur um greiðslu á leigu fyrir húsnæðið. Þessir samningar hafi gengið lengra í því að greiða fyrir stofnkostnað fasteigna en venja var til með framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, að minnsta kosti á árunum 1980 til 2002. Þá eru dæmi um að rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarrýma hafi fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til notkunar í starfseminni.

32       Áfrýjendur reka hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða. Þótt ekki liggi fyrir í málinu heildstæðar upplýsingar um hvernig fjármögnun á byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma hefur verið háttað í gegnum tíðina og hver aðkoma stefnda hafi verið liggur fyrir að hún hefur verið með mismunandi hætti. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir hefur í framkvæmd og á grundvelli laga verið gerður greinarmunur á milli annars vegar fjármögnunar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva sem felst í greiðslum úr ríkissjóði og hins vegar fjármögnunar hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða sem felst í framlögum frá stefnda, sveitarfélögum, Framkvæmdasjóði aldraðra og með sjálfsaflafé.

33       Áfrýjendur hafa upplýst að þeir hafi með fjáröflunum og styrkjum fjármagnað uppbyggingu á fasteignum til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma, allt frá árinu 1957 í tilviki áfrýjandans Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík og frá árinu 1977 í tilviki áfrýjandans Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði. Með lögum nr. 71/1954 um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sbr. nú lög nr. 16/1973, var Dvalarheimili aldraðra sjómanna sem var í eigu Sjómannadagsráðs veitt leyfi til að stofnsetja og reka happdrætti í því skyni að fjármagna rekstur dvalarheimila. Allur ágóði af happdrættinu skyldi renna til uppbyggingar á Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Með lögum nr. 52/1963 var áðurgreindum lögum breytt á þann veg að 60% af ágóða happdrættisins skyldu renna til uppbyggingar á Dvalarheimili aldraðra sjómanna en afgangurinn til byggingarsjóðs aldraðra. Í 3. gr. núgildandi laga nr. 16/1973 er mælt fyrir um að ágóði happdrættisins skuli renna til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Þá liggur fyrir í málinu að áfrýjendur hafa um árabil notið greiðslna úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 9. gr. laga nr. 125/1999, en hlutverk þess sjóðs er að fjármagna byggingu húsnæðis fyrir aldraða, nauðsynlegar breytingar á því húsnæði og viðhald þess. Stefndi hefur bent á að þeir aðilar sem hafa, með beinum samningnum við stefnda, fengið greiddan stofnkostnað í formi leigugreiðslna fái ekki greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999.

34       Af framangreindum upplýsingum, sem gefa þó takmarkað yfirlit yfir aðkomu stefnda að fjármögnun og uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, er ljóst að aðstaða þeirra sem hafa verið að byggja upp og reka hjúkrunar- og dvalarrými er og hefur í gegnum tíðina verið með mismunandi hætti. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að með 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999, eins og henni var breytt með lögum nr. 38/2004, voru settar reglur sem heimila Framkvæmdasjóði aldraðra að greiða húsaleigu til að mæta stofnkostnaði við byggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða að því tilskildu að þau hafi verið byggð eftir 1. janúar 2005. Reglur um fjármögnun húsnæðis fyrir þessa þjónustu hafa því tekið breytingum í áranna rás. Í málinu liggur ekki fyrir hvenær þær fasteignir voru byggðar sem málsókn áfrýjanda lýtur að. Ljóst er þó að stærstur hluti þeirra hefur verið byggður fyrir 1. janúar 2005 og að hluta verið fjármagnaður með greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt eldri reglum.

35       Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að áfrýjendur hafa að nokkru leyti fengið aðstöðu og fjármuni til að afla fjár til uppbyggingar á húsnæði til starfseminnar sem viðmiðunaraðilum hefur ekki staðið til boða. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á með samanburðargögnum að þeim hafi í gegnum tíðina verið mismunað við uppbyggingu og viðhald á þeim fasteignum sem þeir hafa byggt og notað í starfsemi sinni. Þá er einnig ósannað að þeir séu í meginatriðum í sömu stöðu og þeir aðilar sem hafa gert sérstaka samninga um leigugreiðslur til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma.

36       Í 76. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að með lögum skuli tryggja rétt einstaklinga til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæðið felur í sér að á stefnda hvíla ákveðnar lágmarksskyldur til þess að tryggja réttindi einstaklinga og ráðstafa fjármagni til þessara málaflokka. Nánar um það hvernig útgjöldum stefnda er ráðstafað til uppbyggingar á þessum málaflokkum fer eftir ákvæðum laga hverju sinni og þá einkum fjárlaga hvers árs. Ljóst er að stefndi hefur nokkurt svigrúm við forgangsröðun fjármuna til uppbyggingar og þjónustu við mismunandi málaflokka umfram lágmarksskyldurnar. Fyrir liggur að með lögum nr. 112/2008 hefur stefndi markað þá stefnu að Sjúkratryggingar Íslands skuli greiða viðurkenndum þjónustuaðilum, sem eru háðir fjárlögum á hverjum tíma, nánar skilgreinda fjármuni til almenns rekstrar á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að þar sé gætt jafnræðis að teknu tilliti til eðlis og umfangs þjónustunnar sem veitt er.

37       Í framangreindum ákvæðum laga nr. 112/2008 er ekki gert ráð fyrir því að greitt sé fyrir stofnkostnað við byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, afskriftir eða meiri háttar viðhald. Svo sem fram hefur komið í málinu hefur stefndi með ýmsum hætti reynt að byggja upp þjónustu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma í gegnum árin. Með samningi um hjúkrunarheimilið Sóltún sem áfrýjendur vísa til var gerð tilraun með einkaframkvæmd á þessu sviði og fór það verkefni fram með útboði. Fram hefur komið hjá stefnda að svokölluð leiguleið, þar sem ríkið greiðir 85% af húsaleigu og sveitarfélög 15%, hafi einkum verið notuð til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma eftir fall bankakerfisins á árinu 2008 og þá efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfarið. Þá liggur fyrir að ýmis fyrirtæki og samtök hafa í gegnum tíðina með frjálsum framlögum lagt fram umtalsverða fjármuni til uppbyggingar eins og sést best á framlögum áfrýjenda til þessarar starfsemi. Aðstaða og aðgangur aðila að fjármagni til uppbyggingar hefur verið misjafn samkvæmt lögum frá einum tíma til annars. Sama hefur gilt um forgangsröðun stefnda og kröfur sem gerðar hafa verið til umfangs og gæða þjónustunnar. Játa verður stefnda visst svigrúm til að bregðast við nýjum þörfum með nýjum úrræðum og þjónustuleiðum. Þótt stefndi hafi kosið að fjármagna uppbyggingu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma með ýmsum hætti í gegnum tíðina eiga einstakir aðilar sem starfa á því sviði ekki kröfur á að fá í öllum atriðum sömu greiðslur frá stefnda. Ekki verður ráðið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu að ákvarðanir stefnda um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarrýma hafi verið ómálefnalegar gagnvart áfrýjendum í gegnum tíðina og að þar hafi ekki verið gætt meðalhófs, sem leitt hafi til mismununar í andstöðu við grunnreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði.

38       Með vísan til þess sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er niðurstaða hans um sýknu stefnda staðfest.

39       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

40       Rétt þykir að málskostnaður fyrir Landsrétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 31. janúar 2019, er höfðað af Hrafnistu dvalarheimili aldraðra í Reykjavík og Hrafnistu dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 13. október 2017.

Dómkröfur stefnanda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 1.437.559.534 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 1.375.699.410 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags.

Dómkröfur stefnanda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 1.217.453.803 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 1.183.857.203 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags.

Þá gera stefnendur hvor um sig sjálfstæða kröfu til málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara gerir stefndi kröfu um stórfellda lækkun kröfugerðar stefnenda og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Með úrskurði héraðsdóms 14. júní 2018 var þrautavarakröfum stefnenda vísað frá dómi.

 

II

Málavextir og yfirlit ágreiningsefna

Stefnendur reka hjúkrunar- og dvalarheimilin Hrafnistu í Laugarási og Hrafnistu í Hafnarfirði. Ágreiningsefni máls þessa á rætur sínar að rekja til þess að stefnendur telja að aðstæður rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila séu mismunandi þar sem sum rekstrarfélög slíkra heimila fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda á meðan önnur leggi sjálf til fasteignir eða leigi frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðarliðar. Þeir byggja á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja um greiðslur til stefnenda fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Það hafi dregist og hafi þá farið um greiðslur til stefnenda eftir reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008, hvorar tveggja settar án aðkomu stefnenda. Þann 21. október 2016 tók gildi rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila, hér eftir nefndur rammasamningur, og gerðust stefnendur aðilar að samningnum með tilkynningu 25. sama mánaðar.

Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að Sjómannadagsráð sé samband stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu og hafi ráðið sett sér lög/samþykktir um starfsemi sína. Sjómannadagsráð hafi upphaflega reist fasteignir sínar til að tryggja öldruðum sjómönnum og sjómannsekkjum vistun á elliheimili, Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Samkvæmt stefnu eru stefnendur sérstök rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs sem stofnuð voru fyrst og fremst til að sinna rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila. Engar sérstakar samþykktir gildi fyrir stefnendur og sé þeim stýrt af Sjómannadagsráði bæði í gegnum eignarhald og skipun stjórnar þar sem Sjómannadagsráð skipi stjórn stefnenda. Þá leggi ráðið stefnendum til fasteignir undir hjúkrunar- og dvalarheimili Hrafnistu, að Laugarási og í Hafnarfirði. Þar dvelji nú einungis einstaklingar sem ekki hafi getu til að búa á eigin heimili samkvæmt færnimati. Í stefnu er það rakið að stefnendum beri að greiða leigu til Sjómannadagsráðs vegna afnota af fasteignum. Þar sem stefnendur fái ekki greitt frá stefnda fyrir húsnæðisþátt þeirrar þjónustu sem mál þetta varðar geti þeir ekki greitt leigu til Sjómannadagsráðs.

Stefnendur lýsa því svo í stefnu, og er það óumdeilt, að Sjómannadagsráð hafi fyrst og fremst fjármagnað það húsnæði sem ráðið leggur stefnendum til. Það hafi verið gert með frjálsum framlögum, fyrir lánsfé og annarri fjáröflun. Einnig hafi það fengið framlög frá hinu opinbera úr Framkvæmdasjóði aldraðra en það hafi verið mjög lítill hluti af kostnaði. Þrátt fyrir að uppbygging húsnæðis hafi verið fjármögnuð með beinum hætti úr framkvæmdasjóði eigi ríkið ekki rétt á endurgjaldslausum afnotum húsnæðis eða lægra endurgjaldi en ella. Þá kom fram við meðferð málsins að stefnendur hafi áður verið eigendur þeirra fasteigna sem notaðar eru undir starfsemina en eignarhald á þeim hafi verið fært til Sjómannadagsráðs árið 2015.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 skal sjúkratryggingastofnun gera samninga um veitingu þjónustu í rýmum fyrir aldraða, þ.m.t. á dvalar- og hjúkrunarheimilum, og greiða endurgjald til þeirra aðila sem taka það að sér. Séu samningar ekki til staðar fer um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem settar hafa verið á grundvelli 38. gr. sömu laga. Samkvæmt þeim greiði Sjúkratryggingar rekstraraðilum gjald fyrir þjónustu í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum sem ætlað er að mæta hvers konar þjónustu við notendur og er einnig ætlað að mæta rekstrarútgjöldum. Þá sé greitt sérstakt húsnæðisgjald til rekstraraðila vegna tiltekinna kostnaðarliða, þ.e. vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Sérstaklega sé tekið fram að húsnæðisgjaldi sé ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði húsnæðis, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Byggja stefnendur málatilbúnað sinn á því að endurgjald stefnda fyrir þjónustuna sé ófullnægjandi að þessu leyti.

Ágreiningur aðila varðar það hvort stefnda beri að greiða endurgjald vegna afnota stefnenda af húsnæði Sjómannadagsráðs í þágu reksturs hjúkrunarheimila. Stefnendur telja að sú staða að stefndi leggi endurgjaldslaust til fasteignir undir starfsemi sumra rekstrarfélaga hjúkrunar- og dvalarheimila staðfesti það fyrirkomulag að stefndi eigi að greiða fyrir húsnæði undir hjúkrunarheimilin. Þá sé hægt að líta á endurgjaldslaus afnot húsnæðis frá stefnda sem ígildi húsaleigu. Stefnendur krefjast þess að stefndi bæti þeim þann kostnað sem þeir hafa haft á árunum 2013 til 2016 af því að leggja til fasteignir undir rekstur hjúkrunarheimila. Byggja þeir annars vegar á því að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart þeim og hins vegar á því að á grundvelli almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir þær sem stefnendur hafi lagt til. Taka kröfur stefnenda til áranna 2013 til 2016 og byggir fjárhæð kröfu stefnenda á niðurstöðu dómkvadds matsmanns.

Við rammasamninginn frá 21. október 2016 var m.a. gerð bókun SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur m.a. fram:

Einstök hjúkrunar- og dvalarheimili hafa þegar hafið eða eru með í undirbúningi málsókn á hendur ríkinu vegna vangoldinna greiðslna vegna reksturs heimilanna. Samningsaðilar eru meðvitaðir um þetta. Aðild að rammasamningi felur ekki í sér viðurkenningu á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna sé að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkar ekki heimildir einstaka heimilis til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart ríkinu. Þá er það skilningur okkar að aðild að rammasamningi verði ekki skilyrt með þeim hætti að heimilin verði að falla frá slíkum kröfum á hendur ríkinu til að fá aðild að samningnum.

Þá gerðu SÍ og ráðuneytin, í tilefni af framangreindri bókun, einnig bókun við samninginn. Segir þar:

Með undirritun á samkomulagi þessu er á engan hátt viðurkennt að um vangoldnar greiðslur sé að ræða af hálfu ríkisins og því ekki fallist á kröfur einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila um greiðslur.

Nefndin gengur út frá að við gerð samkomulags þessa að kröfugerð heimilanna nái til tímabils fyrir gildistöku fyrirhugaðs rammasamnings og eigi þ.a.l. ekki við um greiðslur á grundvelli rammasamnings.

Í 6. mgr. 23. gr. rammasamningsins er kveðið á um að samstarfsnefnd aðila skuli skipa fulltrúa í starfshóp í samræmi við lýsingu og verkefnaáætlun starfshópa í fylgiskjali X. Er þar m.a. kveðið á um að verkefni starfshópsins verði að skoða eignarhald á húsnæði hjúkrunarheimila, kostnað við eignarhald, framlög opinberra aðila til byggingar og viðhalds hjúkrunarheimila og uppsafnaða þörf fyrir viðhald- og endurbætur eldri heimila. Þá séu aðilar sammála um að leggja mat á eðlilegan kostnað við rekstur húsnæðis hjúkrunarheimila.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Haukur Óskarsson, vélaverkfræðingur og dómkvaddur matsmaður.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnenda

Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, með síðari breytingum, skuli öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra tilvika. Um þessi málefni hafa verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Af ákvæðum laganna verður nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfseminni hlýst í samræmi við ákvæði laganna. Til að inna verkefni og skyldur af hendi hafi stefndi samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, sem ekki eru starfrækt af stefnda, um að annast þjónustu við aldraða og falla stefnendur þar undir. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar skulu greiðslur til hjúkrunar- og dvalarheimila fara samkvæmt samningum sjúkratrygginga og rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila. Þar kemur jafnframt fram að séu samningar ekki til staðar fari um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrám sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laganna. Stefnendur byggja á því að á stefnda hafi óumdeilanlega hvílt sú skylda að greiða fullt endurgjald til hjúkrunar- og dvalarheimila sem annist þjónustu við aldraða og að húsnæðiskostnaður slíkra stofnana sé þar ekki undanskilinn. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar liggi fyrir að stefndi hefur ekki greitt stefnendum fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis sem stefnendur hafa lagt til rekstrar heilbrigðisþjónustunnar en tilvist húsnæðisins er grundvallarforsenda þess að unnt sé að veita öldruðum þjónustuna. Í því sambandi ber að hafa í huga að margvíslegar skyldur hvíla á stefnendum að því er aðbúnað húsnæðis varðar, þ.e. stefnendur þurfa að uppfylla kröfur um gæðaviðmið samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur um húsnæði, tæki, búnað, mönnun og annað sem tengist rekstri á heilbrigðisþjónustu. Stefnendur beri því umtalsverðan kostnað af húsnæðinu sem nýtt er í þjónustuna sem stefndi ber ábyrgð á og ber að kosta lögum samkvæmt.

Stefnendur vísa til þess að stefndi hafi, þrátt fyrir framangreint, bæði við gerð rammasamnings og áður við setningu reglugerða og gjaldskráa, undanskilið greiðslu fyrir fasteignir öldrunarstofnana. Vísa þeir hvað þetta varðar til m.a. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar, áður en rammasamningur var undirritaður, og til 8. gr. rammasamnings, sbr. lið 4.00. Það sem er innfalið í húsnæðisgjaldi samkvæmt nefndum ákvæðum reglugerða og rammasamnings séu aðeins fasteignagjöld, tryggingar, almennt viðhald, eftirlit og umsýsla húsnæðis en undanskilið er stofnkostnaður húsnæðis, afskriftir, meiriháttar viðhald og endurbætur húsnæðis. Stefnendur telja að engin rök hnígi til þess að slíkur greinarmunur sé gerður á einstökum kostnaðarliðum vegna húsnæðis sem nýtt er til rekstrarins og hann stríði beinlínis gegn þeirri skyldu sem á stefnda hvílir til að standa straum af kostnaði við öldrunarþjónustu. Benda stefnendur á að útilokað sé að litið verði svo á að stefnendur beri að leggja til húsnæði til starfseminnar án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds úr hendi stefnda.

Stefnendur byggja aðalkröfu á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum og hins vegar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir sem stefnendur leggi til. Útreikningur kröfufjárhæðar byggir á matsgerð þar sem leigufjárhæð er reiknuð út fyrir tímabilið frá janúar 2013 og út desember 2016 en áskilinn réttur til að krefjast síðar greiðslu fyrir tímabilið eftir desember 2016.

Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að sú skylda hafi hvílt á stefnda að semja um greiðslur við þá fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafli laga nr. 112/2008. Gildistöku kaflans var frestað til 1. janúar 2015 og fór á sama tímabili um greiðslur samkvæmt reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008 en rammasamningur um þjónustuna öðlaðist síðan ekki gildi fyrr en 21. október 2016. Reglugerðirnar og gjaldskrárnar voru settar einhliða af stefnda án allrar aðkomu stefnenda eða annarra sem slíka þjónustu veittu. Byggja stefnendur á því að við slíkar kringumstæður komi stefndi fram sem stjórnvald og ákvarðanir sem þannig eru til komnar þurfi að uppfylla ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar, þ.m.t. ólögfestar grundvallarreglur. Byggir sú afstaða á því að reglugerðir og gjaldskrár tóku til og beindust að fáum en þekktum aðilum og vísast um sjónarmið því tengdu m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4340/2005 og 4341/2005. Stefnendur telji sýnt að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt nauðsynleg skilyrði t.d. að því er varðar rannsóknarreglur, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælareglu, ákvæði um undirbúning ákvarðana sem og ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins, eins og t.d. þær er varða réttmætar væntingar. Þá hafi annmarkar verið á efni reglugerða og gjaldskráa þannig að skilyrðum laga nr. 112/2008 hafi ekki verið fullnægt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Vegna þessa hafi ákvarðanir sem fólust í setningu reglugerða og gjaldskráa verið ólögmætar.

Þá byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að samningi sjúkratrygginga Íslands annars hefðu greiðslur til þeirra verið óbreyttar. Gerðust stefnendur aðilar að rammasamningnum með fyrirvara sem kom fram í bókun með samningnum. Stefnendur telja að samningurinn byggi á sömu grundvallarsjónarmiðum og reglugerðir og gjaldskrár gerðu áður, þ.e. ekki er gert ráð fyrir greiðslu kostnaðar vegna fasteigna undir rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Stefnda beri að greiða allan kostnað sem hlýst af málaflokknum og er húsnæðiskostnaður þar ekki undanskilinn. Ákvæði samningsins um greiðslur án þess að tekið sé tillit til húsnæðiskostnaðar gangi gegn lögum nr. 112/2008. Bent er á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna þurfi þeir sem veita heilbrigðisþjónustu að kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Við þá greiningu skuli taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Verður það ekki skilið öðruvísi en svo að slík kostnaðargreining skuli fara fram varðandi þann kostnað sem stefndi á að taka tillit til við ákvörðun greiðslna og/eða sem fjalla á um í rammasamningi um slíka þjónustu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 112/2008 segi m.a. um þetta atriði:

Sjúkratryggingastofnunin ákveður í samráði við veitendur heilbrigðisþjónustu þær aðferðir sem notaðar skulu við kostnaðargreininguna. Samræmdar aðferðir eru forsenda þess að unnt sé að bera saman kostnað ólíkra aðila. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir því að kostnaðargreiningin taki mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnað vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Hluti kostnaðar opinberra aðila kemur ekki fram í reikningsskilum þeirra en taka verður tillit til hans til að hægt sé að bera kostnað opinberra aðila saman við kostnað einkaaðila.

Stefnendur byggja á því að sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæði undir starfsemi hjúkrunar- og dvalarheimila feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ.m.t. jafnræðisreglu. Þannig mæli 65. gr. stjórnarskrárinnar svo fyrir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ákvæðið beri að skýra svo að mismunun, sem ekki felst í málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum sé óheimil. Í jafnræðisreglunni felist að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og eigi að njóta jafnra og hliðsettra réttinda. Þá leiði af reglunni að stjórnvöld geti ekki mismunað með því að afgreiða sambærileg mál með ólíkum hætti. Stefnendur benda í þessu sambandi á að ólík afstaða stefnda til greiðslna vegna húsnæðiskostnaðar þeirra sem taka að sér að sinna þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila í þágu ríkis brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og sé því ólögmæt.

Þá benda stefnendur á að þeir, í gegnum móðurfélag sitt Sjómannadagsráð, útvegi þær fasteignir sem nýttar eru undir hjúkrunar- og dvalarheimili í þágu stefnda og stefndi eigi ekkert tilkall til hagnýtingar umræddra eigna. Sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæðið feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ. á m. eignaréttarákvæðum. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarréttur friðhelgur og þar kemur fram að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema að almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur telja að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald vegna húsnæðisins sé brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og geri stefndi með því kröfu um að stefnendur leggi til húsnæði undir starfsemi í þágu stefnda án endurgjalds og brjóti slík tilhögun gegn ákvæðinu og sé því ólögmæt.

Stefnendur telja að með framangreindri tilhögun sé verið að haga greiðslum til stefnenda með þeim hætti að ekki er tekið tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis, afskrifta, meiriháttar endurbóta og viðhalds. Sé þannig með ólögmætum hætti brotið gegn þeim skyldum sem á stefnda hvíli samkvæmt lögum nr. 112/2008 til að standa straum af kostnaði við starfsemina, til að haga endurgreiðslu til stefnenda vegna starfseminnar þannig að tekið sé tillit til alls hagræns kostnaðar af þjónustunni og til að gæta að því að jafnræði sé með stefnendum og öðrum aðilum sem sinna sömu þjónustu. Með því hafi stefndi gerst sekur um saknæma háttsemi gagnvart stefnendum sem valdið hafi þeim fjártjóni sem stefnda beri að bæta. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka.

Byggja stefnendur á því að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings eins og áður var rakið. Stefnendur telja að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Stefnendur reisa dómkröfu á niðurstöðu matsgerðar að frádregnu húsnæðisgjaldi. Ástæðan fyrir því að húsnæðisgjald er dregið frá er að í matsgerð er metið eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda lægri en ella en er sett fram með þeim hætti til einföldunar.

Stefnendur byggja kröfu sína um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefndu beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til starfseminnar án endurgjalds. Þar sem ekki hafi verið samið um það beri að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald. Stefnendur hafi óskað eftir greiðslu fyrir húsnæðið en stefndi neitað að greiða en haldið áfram að beina öldruðum einstaklingum til stefnenda. Stefndi verði að bera hallann af því að halda áfram að nýta sér þjónustu stefnenda án þess að semja fyrir fram um slíka þjónustu. Aðilar geti ekki haft réttmætar væntingar um annað en að stefndi greiði eðlilegt endurgjald fyrir fasteignirnar.

Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald vegna leigu á fasteignunum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016 megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda og reisa aðalkröfu sína á niðurstöðinni að frádreginni greiðslu stefnda vegna húsnæðisgjalds eins og það er ákveðið í rammasamningi og reglugerðum. Húsnæðisgjaldið sé dregið frá þar sem í matsgerð er verið að meta eðlilegt leigugjald ef stefndi leigði eignirnar af stefnendum. Þegar það er metið innifelur það kostnaðarþætti sem mundu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur fá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði mundi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Það sé almennt á kostnað leigutaka ef um er að ræða hefðbundna leigu á húsnæði. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda gagnvart stefnda lægri en ella og er krafan sett fram með þeim hætti til einföldunar.

Stefnendur krefjast þess til vara að stefnda verði gert að inna af hendi aðra og lægri greiðslu. Er þá við það miðað að talið verði að draga beri frá framlög vegna endurgjalds fyrir húsnæði sem stefnendur hafi fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna stofnkostnaðar húsnæðis fyrir þann tíma sem stefnukrafa tekur til. Þrátt fyrir að framlögin hafi ekki verið veitt með skilyrðum setja stefnendur fram varakröfu sem tekur mið af umræddum framlögum. Þeir aðilar sem taka við greiðslum frá ríkinu vegna fasteigna undir hjúkrunar- og dvalarheimili, s.s. í tilviki hjúkrunarheimilisins Sóltúns, geti ekki sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 7. gr. samningsins. Þar sem krafa þessi byggir á skaðabótarétti ásamt almennum reglum kröfu- og samningaréttar og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga er varakrafan sett upp með þeim hætti að stefnendur séu jafn settir og aðrir. Nefna stefnendur sem dæmi að Sóltún sem taki við leigugreiðslum vegna fasteigna geti ekki sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Hvað þetta varðar vísa stefnendur til framlagðra gagna þar sem saman hafa verið tekin gögn um framlög frá stefnda fyrir sama tímabil og dómkrafa tekur til og sú fjárhæð dregin frá kröfufjárhæð.

Loks vísa stefnendur til þess að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þeirra og réttmætar væntingar hafi kröfur þeirra ekki fengist greiddar. Hafi einungis verið færðar fram þær röksemdir fyrir höfnun að hvorki hafi verið samið um eða ákveðnar fjárhæðir í þessu skyni. Lagafyrirmæli um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hljóti að byggja á því að ríkið útvegi húsnæði til rekstrarins. Reglugerð um endurgjald fyrir þennan rekstur eða rammasamningur verður því að ákveða hæfilegt endurgjald í þessu skyni og ráðherrann að útvega nægilegt endurgjald til greiðslu þess náist ekki samningar við Sjúkratryggingar Íslands um þetta.

Stefnendur byggja kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar auk almennra skaðabótareglna, bæði utan og innan samninga. Um jafnræði er vísað til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um málsmeðferð er jafnframt vísað til ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. 10., 12. og 13. gr. sem og ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttar, eins og t.d. reglunnar um réttmætar væntingar. Um eignarréttindi er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað varðar skyldu stefnda til að sinna öldruðum, sem og aðrar skyldur stefnda í því sambandi, vísast til 76. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Um varnarþing vísast til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sérstaklega 3. mgr. 33. gr. og krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt byggir á ákvæðum laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt en stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir aðilar.

 

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnenda og byggir þá kröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem í stefnu komi fram að stefnendur eru ekki eigendur þess húsnæðis sem kröfugerðin snýr að heldur Sjómannadagsráð. Vísar hann sérstaklega til þess að í 13. gr. laga Sjómannadagsráðs komi fram að eignir þess séu allt eignir sem skráðar hafa verið á sjómannadaginn og Fulltrúaráð sjómannadagsráðs í Reykjavík og Hafnarfirði. Fari ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi þessar eignir.

Einnig byggir stefndi á því að stefnendur geti ekki stutt kröfu sína við 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ákvæðið snúi ekki að vernd lögaðila auk þess sem lög hafi verið sett í samræmi við ákvæðið.

            Stefndi byggir á því að tilvísun stefnenda til 72. gr. stjórnarskrárinnar sé haldlaus. Sjómannadagsráð byggði viðkomandi fasteignir og tók ákvörðun um nýtingu þeirra. Hrafnista í Laugarási virðist hafa hafið sína starfsemi 2. júní 1957 og Hrafnista í Hafnarfirði 19. nóvember 1977. Er algjörlega látið vera að rökstyðja eða gera grein fyrir því í stefnu hvenær það gerðist að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hvort það hafi verið strax í upphafi og hafi svo verið sé um stórfellt tómlæti að ræða af hálfu Sjómannadagsráðs að hafa ekki gert athugasemdir fyrr. Þá komi ekki fram hvort einhverjar forsendur milli stefnanda og Sjómannadagsráðs hafi breyst. Það sé ekki rökstutt með neinum hætti í stefnu og erfitt að átta sig á tilvísun til 72. gr. stjórnarskrárinnar og er því mótmælt harðlega að sú grein geti átt við í máli þessu. Það komi einnig fram í stefnu að stefnendum beri engin skylda til að reka hjúkrunar- og dvalarheimili og þeir geti hvenær sem er ákveðið að hætta þeirri starfsemi og nota eignir með öðrum hætti. Sú ályktum stefnenda, sem eru reyndar leigutakar, fari illa saman við tilvísun þeirra til 72. gr. stjórnarskrárinnar.

            Hvað varðar tilvísun stefnenda til 39. gr. laga nr. 112/2008, sem þeir byggja á að skapi þá greiðsluskyldu sem hér er fjallað um, þá byggir stefndi á því að svo sé ekki né heldur hvað varðar 38. gr. sömu laga. Stefnendur virðast telja að með setningu þessara laga hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggi á. Stefndi telur það vera fráleitt og bendir á að ekkert í lögskýringargögnum styðji þá skoðun stefnenda og er þessari túlkun því mótmælt.

            Stefndi mótmælir því einnig að ekki hafi verið greitt fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis. Stefndi hafi staðið við sínar samningsskuldbindingar og kröfugerð stefnenda nú sé umfram bæði samninga og lagalegar skyldur stefnda. Því megi ekki gleyma að stefndi verði að fara að gildandi lögum frá Alþingi og er þar hvergi getið um þá greiðsluskyldu sem nú er gerð krafa um. Er í kröfugerð stefnenda þannig farið fram á að í dómsorði verði kveðið á um skyldu umfram almenn lög og fjárlög.

            Stefndi bendir á að þegar farið er yfir rökstuðning stefnenda fyrir kröfugerð vegna skaðabótakröfu þá sé þar hvergi minnst á skilyrði skaðabóta. Ekkert komi fram um orsakasamhengi né heldur saknæmi og tjón. Vísað er til þess að tjón sé það sem stefnendur telji vera hæfilegt endurgjald. Í skaðabótarétti sé tjón hins vegar skilgreint sem skerðing eða eyðilegging lögvarinna hagsmuna, oftast fjárhagslegra. Þegar af þessari ástæðu sé krafa um skaðabætur röng auk þess sem stefnendur hvorki sanna né reyna að sanna tjón sem sé skilyrði skaðabóta. Virðist skaðabótakrafan helst byggjast á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja við stefnda um greiðslur fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008. Engu að síður hefur stefndi ávallt greitt stefnendum í samræmi við gildandi lög og reglur og samninga milli aðila. Það að stefnendur setji nú fram nýjar kröfur getur ekki gert stefnda skaðabótaskyldan gagnvart stefnendum. Hvað þetta varðar er af hálfu stefnda vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 547/2011.

Einnig bendir stefndi á að reglugerðir og gjaldskrár byggi á þeim fjárhagslegu viðmiðunum sem sett eru í fjárlögum og beri hverju ráðuneyti og stofnun að halda sig innan þess ramma, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2017, um þær skorður sem fjárlög setji þjónustu á hverjum tíma. Þá vísar hann til 41. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt ákvæðinu er það ekki á valdi dómstóla að auka við fjárheimildir þær sem Alþingi hefur ákveðið.

Einnig vísar stefndi til þess að stefnendur byggi á því að fara verði að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við setningu reglugerða og gjaldskráa. Þetta fullyrði þeir þrátt fyrir það sem fram komi í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993 og sé þessu því hafnað sem röngu. Einnig sé því hafnað að stefnendum hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi. Er vísað til þess sem báðir aðilar hafi látið bóka við gerð samningsins. Þá sé því mótmælt að brotið sé gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að haga greiðslum til stefnenda eins og gert er. Mismunandi leiðir séu farnar á mismunandi tímum í þessum efnum líkt og öðrum án þess að um sé að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Rétt sé að hafa í huga að Sjómannadagsráð byggði að eigin frumkvæði það húsnæði sem stefnendur gera nú kröfu um að stefndi greiði fullt verð fyrir. Þessi krafa sé gerð án þess að fyrir liggi neinn samningur um slíkt eða lagafyrirmæli, hvað þá heldur fjárheimild frá Alþingi. Það að stefndi fari að gildandi lögum geti aldrei verið saknæmt þannig að valdi skaðabótaskyldu. Þá geti það heldur ekki verið fjártjón að telja sig eiga kröfu á annan um greiðslu vegna notkunar húsnæðis samkvæmt þeim samningum og lögum sem um það gilda hverju sinni. Jafnvel þó að stefnendur telji sig eiga kröfu vegna þess þá geti það ekki verið fjártjón. Þó að stefnendur teldust eiga kröfu um leigugjald gæti slík krafa aldrei talist vera skaðabótakrafa í samræmi við almennu skaðabótaregluna. Vert sé að benda á að stefnendur undirgengust rammasamning eins og fram kemur í gögnum málsins en gera engu að síður kröfur sem ná yfir gildistíma rammasamningsins. Slík kröfugerð hlýtur að vera í andstöðu við skuldbindingargildi samningsins. Þá sé hún andstæð meginreglum kröfu- og samningaréttar. Verði því að sýkna stefndu af kröfu byggðri á því að um skaðabótaskyldu stefnda sé að ræða gagnvart stefnendum.

Hvað varðar kröfu stefnenda um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu þá byggir hún á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefnda beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til slíkrar starfsemi án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds. Stefndi mótmælir því að slík meginregla, ef til er, gildi í samskiptum stefnenda og stefnda þar sem stefndi greiði öll gjöld sem kveðið er á um í lögum og reglum. Stefnendur reistu húsnæðið á eigin vegum en samkvæmt síðar gerðum samningum við stefnda hefur það verið nýtt til ákveðinnar þjónustu. Þannig sé því mótmælt og hafnað sem röngu að einhvers konar greiðsluskylda hafi stofnast umfram það sem þegar er samið um og greitt samkvæmt lögum og reglugerðum.

Auk þess sem að framan hefur verið rakið vísar stefndi til þess að kröfugerðin sé einhliða þrátt fyrir mat en þá niðurstöðu hefði stefndi alltaf þurft að fallast á ef hann vildi undirgangast greiðsluskyldu. Auk þess þurfi fjárlagaheimild frá Alþingi að liggja fyrir.

Stefndi mótmælir einnig varakröfum stefnenda og vísar til sömu málsástæðna og í aðalkröfu. Þá séu engin rök sem mæli með greiðsluskyldu stefnda í þeim samanburði sem stefnendur geri í kafla í stefnu um varakröfur. Beri því einnig að sýkna stefnda af varakröfum.

Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu enda sé hún órökstudd og án lagaraka. Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefnda þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.

Þá gerir stefndi til vara kröfu um að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður þá felldur niður. Stefndi byggir þessa kröfu sína á því sem að framan hefur verið rakið varðandi sýknukröfu svo og á því að stefnendur hafi ekki sannað tjón né gert líklegt að einhver meginregla kröfu- og samningaréttar eigi hér við. Það sé ekki nóg að vísa til slíkrar reglu án þess að gera grein fyrir henni nánar. Þá nái kröfugerðin fyrir hluta þess tímabils sem rammasamningurinn gildi um. Stefnendur gerðust aðilar að þeim rammasamningi og geti ekki gert sérstaka fjárkröfu vegna sama tímabils. Verði því alltaf að lækka kröfuna sem nemur þeim greiðslum á samningstíma auk þeirra greiðslna sem borist hafa úr Framkvæmdasjóði aldraða.

Loks vísi stefndi til þess að krafan sé sett fram sem skaðabótakrafa og það geti ekki komið til skoðunar. Einnig er hún sett fram sem krafa vegna þess að stefnendur leggi fram húsnæði og fyrir það beri að greiða leigugjald. Slíkt leigugjald hljóti alltaf að vera samkomulagsatriði og ekki unnt að komast að niðurstöðu um það með dómkvöddum matsmanni.

 

V

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í 1. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 kemur fram að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Samkvæmt 14. gr. laganna eru stofnanir fyrir aldraða dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum. Óumdeilt er að stefnendur annast slíkan rekstur. Stefnendur gera í máli þessu kröfur um greiðslu vegna húsnæðiskostnaðar vegna þeirra dvalar- og hjúkrunarheimila sem þeir reka.

Stefnendur sækja mál þetta í félagi á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þeir setja kröfur sínar fram annars vegar sem skaðabótakröfu og vísa bæði til skaðabótareglna utan og innan samninga og hins vegar sem kröfu um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og byggja þá kröfu á meginreglum kröfu- og samningaréttar. Þá eru kröfur stefnenda útskýrðar svo í stefnu að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings. Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að upphafstími kröfu afmarkast af fyrningarreglum. Í matsgerð er húsnæðisgjald dregið frá þegar metið er eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innanhúss.

Samningssamband aðila nú um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila byggir á rammasamningi sem stefnendur gerðust aðilar að 25. október 2016 og taki því kröfur stefnenda til þess tímabils að hluta til. Áður en samningurinn tók gildi fengu stefnendur greiðslur vegna starfseminnar á grundvelli þágildandi reglugerða og gjaldskráa.

Samkvæmt 8. gr. lið 4.0 í rammasamningnum er húsnæðisgjald breytilegt eftir stærð og fjölda rýma á hjúkrunarheimili. Taki gjaldið til viðhalds, umsjónar, umsýslu, fasteignagjalda og trygginga vegna húsnæðis. Segir í ákvæðinu að gjaldinu sé þannig ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Sambærilegt ákvæði var í þeim reglugerðum sem giltu um greiðslur til stefnenda áður en þeir gengust undir rammasamninginn. Þá er sérstaklega tekið fram í þessu ákvæði samningsins að þessi gjaldliður taki ekki til hjúkrunarheimila sem fái greiðslur á grundvelli samninga um byggingu og þátttöku í leigu, svokallaðri leiguleið.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991 á grundvelli aðildarskorts eða óglöggrar aðildar. Í málatilbúnaði stefnenda komi fram að þeir eru ekki eigendur þeirra fasteigna sem nýttar eru til reksturs dvalar- og hjúkrunarheimilanna og krafa um húsnæðiskostnað varðar, heldur Sjómannadagsráð. Stefnendur séu því ekki réttir aðilar að málinu eða a.m.k. sé aðild þeirra vanreifuð. Málatilbúnaður stefnenda byggir á því samningssambandi sem er á milli aðila á grundvelli rammasamningsins. Verður málatilbúnaður stefnenda ekki skilinn öðruvísi en svo að ekki sé verið að gera kröfu um greiðslur sem Sjómannadagsráð eigi kröfu um á hendur stefnda vegna leigu á húsnæði heldur húsnæðiskostnað vegna starfseminnar þó að það viðmið sé notað við kröfugerð að byggja á því hvað teljist vera hæfilegt gjald fyrir leigu á húsnæðinu samkvæmt niðurstöðu matsgerðar. Þá kom fram við meðferð málsins að stefnendur hafi áður verið eigendur þeirra fasteignar sem notaðar eru undir starfsemina en eignarhald á þeim hafi verið fært til Sjómannadagsráðs árið 2015 og hefur því ekki verið mótmælt að hálfu stefnda. Þegar með hliðsjón af því er ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts.

Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum. Stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að semja við stefnendur um greiðslur fyrir þjónustu og vísa hvað það varðar til IV. kafla laga nr. 112/2008 en gildistöku kaflans hafi verið frestað til 2016 þegar rammasamningurinn öðlaðist gildi. Þá hafi eldra fyrirkomulag, þar sem greiðslur voru ákvarðaðar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa, verið ólögmætt m.a. með hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttar. Einnig byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi og á því að stefndi hafi brotið m.a. gegn 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Fyrir liggur að stefnendur völdu að gangast undir rammasamninginn á árinu 2016 og er ekkert fram komið sem styður þá málsástæðu þeirra að þeir hafi verið þvingaðir til þess en ljóst er af bókunum við samninginn að þá þegar var uppi ágreiningur milli aðila um húsnæðiskostnað. Fram kemur í málatilbúnaði þeirra að þeir töldu þann kost hagstæðari rekstrarlega en að fá greiðslur frá stefnda á grundvelli reglugerða og gjaldskráa en sú hagkvæmni sneri þó ekki að húsnæðiskostnaði. Þá er sú málsástæða að vanræksla stefnda á að fresta gildistöku rammasamnings leiði til bótaskyldu ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og kemur því ekki til frekari skoðunar. Á það sama við um málsástæðu byggða á því að á stefnda hafi hvílt skylda til að semja við stefnendur um kostnað vegna öflunar húsnæðis en ekki er annað fram komið en að stefndi hafi greitt stefnendum í samræmi við rammasamning og áður á grundvelli reglugerða og gjaldskráa.

Stefnendur telja að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar auk þess sem annmarkar hafi verið á gjaldskrám hvað það varðar að þar hafi ekki verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1993 gilda þau ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga er sérstaklega tekið fram að þau taki einungis til einstaklegra ákvarðana, þ.e. ákvarðana sem varða ákveðna einstaklinga eða lögaðila, einn eða fleiri. Af hálfu stefnenda hefur ekki verið nægilega leitt í ljós til hverra reglugerðirnar og gjaldskrárnar taka og þar með hefur ekki með fullnægjandi hætti verið sýnt fram á að ákvörðunin varði réttindi eða skyldur tiltekinna aðila. Eru því ekki forsendur til að fallast á að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða skilningi stjórnsýslulaga. Af hálfu dómsins er þessari málsástæðu stefnenda þegar af þessari ástæðu hafnað.

Þá byggja stefnendur á því að stefnda beri að greiða allan kostnað sem af þessum málaflokki hlýst, þ.m.t. húsnæðiskostnað og gangi annað gegn megininntaki og ákvæðum laga nr. 112/2008. Vísa þeir sérstaklega til 3. mgr. 43. gr. laganna þar sem fram komi að heilbrigðisstofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu skuli kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Þá skuli við kostnaðargreiningu taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Telja stefnendur að þetta verði að skilja svo að um þennan kostnað beri að fjalla í rammasamningi og að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 112/2008 komi fram stuðningur við þetta sjónarmið. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka. Af hálfu stefnda er því hafnað að með lögum nr. 112/2008 hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggja á eða að orð greinargerðar styðji það.

Í lögum nr. 112/2008 og greinargerð sem þeim fylgdu er gert ráð fyrir kostnaðargreiningu, m.a. vegna húsnæðis. Sú staða er uppi í máli þessu að stefnendur krefjast húsnæðiskostnaðar þar sem þeir afli húsnæðis frá öðrum aðila undir starfsemina sem þeir þurfi að greiða fyrir en virðist þó ekki hafa gert það samkvæmt málatilbúnaði þeirra. Þá hafa þeir ekki lagt fram samninga eða önnur gögn sem skýra frekar samband þeirra við Sjómannadagsráð og skyldur þessara aðila gagnvart hvor öðrum vegna notkunar stefnenda á húsnæðinu. Ætla verður að stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem hér eru til umfjöllunar hafi fallið til fyrir það tímabil er krafa stefnenda tekur til. Af málsgögnum má ráða að öflun húsnæðisins hafi verið fjármögnuð með m.a. frjálsum framlögum, lánsfé, annarri fjáröflun og greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þá liggur fyrir að mismunandi leiðir hafa verið farnar í gegnum tíðina til að afla húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Síðar tilkomnar leiðir, eins og t.d. leiguleið, eiga ekki við um starfsemi stefnenda sem þegar var hafin þegar stjórnvöld ákváðu fyrst að fara þá leið. Þá eru kröfur stefnenda ekki grundvallaðar á þeim leiðum. Einnig verður að líta til þess að stefnendur hafa ekki gert grein fyrir því hver raunverulegur kostnaður þeirra er vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina eða notkunar eigin húsnæðis og þá til hvaða niðurstöðu kostnaðargreining eins og sú sem fjallað er um í lögunum gæti leitt yrði sérstaklega fjallað um þeirra stöðu. Samkvæmt málsgögnum var ætlunin að stofna starfshóp til að rýna m.a. kostnað vegna húsnæðismála hjúkrunarheimila, sbr. fylgiskjal X með rammasamningi, en ekkert liggur fyrir um framvindu þeirrar vinnu. Þrátt fyrir það og með vísan til framangreinds verður ekki talið að dráttur á að ljúka þeirri vinnu, jafnvel þó hann teldist fara í bága við skyldur stefnda samkvæmt samningnum, styðji skaðabótaskyldu stefnda.

Málatilbúnaður stefnenda hvað varðar 65. gr. stjórnarskrárinnar byggir á því að ekki sé gætt jafnræðis þegar fjárhæð húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila sé ákveðin af stefnda. Afstaða stefnda til greiðslu hans sé mismunandi eftir stofnunum. Vísa stefnendur m.a. til þess að önnur hjúkrunarheimili Hrafnistu en þau sem mál þetta varðar séu rekin í fasteignum í eigu stefnda og/eða sveitarfélaga. Í 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir áðurnefndri leiguleið. Þar kemur fram að ríkið skuli greiða kostnað við byggingu og búnað hjúkrunarheimila og að þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði. Stefnendur leggja hins vegar sjálfir til fasteignir og vísa m.a. til leiguleiðarinnar til samanburðar. Þá vísa þau einnig til fleiri stofnana, t.d. SÁÁ, og telja að hún fái greitt gjald frá stefnda fyrir að leggja til húsnæði undir reksturinn. Fyrir liggur að þær stofnanir sem stefnendur vísa til eru í annarri stöðu en stefnendur, t.d. hvað varðar greiðslur úr framkvæmdasjóði, greiðslur vegna húsnæðisgjalds eða hvort viðkomandi hafi lagt til eign eða fengið hana undir reksturinn frá stefnda. Í ljósi framangreinds og þess sem fyrir liggur um aðstæður stefnenda verður ekki á það fallist að jafnræðis með rekstraraðilum sé ekki gætt þannig að talið verði að um brot gegn ákvæðinu sé að ræða.

Hvað varðar málsástæðu stefnenda byggða á 76. gr stjórnarskrárinnar þá kom fram við meðferð málsins af hálfu stefnenda að framsetning málsástæðunnar sé að einhverju leyti misvísandi. Voru af þeirra hálfu settar fram frekari skýringar. Vísuðu stefnendur til þess að um málefni þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til hefðu verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Af þeim verði nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Í samræmi við ákvæði laganna megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfsemi hlýst. Stefndi hafi, til að inna verkefnin og skyldur sínar af hendi, samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, m.a. stefnendur. Þannig byggi stefnendur á því að á þessum grundvelli hafi hvílt sú skylda á stefnda að greiða fullt endurgjald til heimilanna og að húsnæðiskostnaður þeirra verði þar ekki undanskilinn. Það er mat dómsins að ákvæði 76. gr. sé ætlað að tryggja einstaklingum þann rétt sem þar er tilgreindur og í því skyni voru m.a. lög nr. 125/1999 sett. Verður sá réttur einungis sóttur af eða í þágu viðkomandi einstaklinga gegn stefnda á grundvelli aðstæðna þess sem í hlut á. Verður ekki á það fallist með stefnendum að þeir geti leitt rétt sinn til greiðslu af rétti þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til.

Þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur leggi fram fasteignir í gegnum móðurfélag sitt til starfseminnar. Telja stefnendur að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald fyrir þær sé brot gegn 72. gr. og sé þessi tilhögun því ólögmæt. Stefndi hefur mótmælt þessari túlkun stefnda. Það er mat dómsins að aðstæðum stefnenda verði ekki jafnað til þeirra tilvika sem 72. gr. tekur til enda er ekki annað komið fram en það hafi verið ákvörðun þeirra að leggja fasteignirnar til rekstrarins og kemur málsástæða þessi því ekki til frekari skoðunar.

Þá er ekki fallist á það með stefnendum að taka beri kröfu þeirra til greina á þeim forsendum að stefndi haldi áfram að vísa öldruðum einstaklingum til þeirra þrátt fyrir að neita að greiða húsnæðiskostnað enda er ekki annað fram komið en að stefnendur séu enn aðilar að rammasamningnum.

Loks verður ekki á það fallist að stefnendur hafi fært fram aðrar málsástæður er leiða eigi til þess að til skaðabótaskyldu hafi stofnast á hendur stefnda vegna krafna þeirra.

Í samræmi við framangreint er það mat dómsins að af hálfu stefndu hafi ekki verið sýnt fram á að háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt eða að slík háttsemi hafi leitt til tjóns. Verður, í ljósi framangreinds, ekki fallist á að skilyrði séu til að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta.

Þá byggja stefnendur á þeirri málsástæðu, byggðri á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald, að þar sem ekki hafi verið samið um endurgjald beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald og vísa hvað þetta til þeirra meginreglna sem koma fram í lögum um þjónustukaup og lögum um lausafjárkaup. Þessari málsástæðu hefur stefndi alfarið mótmælt.

Fyrir liggur að við byggingu þeirra fasteigna sem stefnendur nota undir dvalarheimilin fengust að einhverju leyti styrkir frá Framkvæmdasjóði aldraðra og að stefndi fær reglulega greitt húsnæðisgjald vegna starfseminnar. Þá verður að ætla að á því tímabili sem krafa stefnenda tekur til hafi ekki fallið á stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem þeir nýta í starfsemi sína. Eins og rakið hefur verið var fjárveiting til starfsemi stefnenda ákvörðuð á grundvelli tveggja ólíkra aðferða á því tímabili sem hér er til umfjöllunar, annars vegar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa og hins vegar á grundvelli rammasamnings. Byggja stefnendur á því að hvorug aðferðin hafi tekið til þess að greiða þeim kostnað vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina án þess að greina sérstaklega á milli þeirra eða þeirra tímabila þegar eignirnar voru í eigu annars vegar þeirra og hins vegar Sjómannadagsráðs.

Stefndu byggja á því að hvorki sé lagaheimild né fjárheimild til greiðslu þeirra gjalda sem krafist er. Það sé hlutverk Alþingis að ákveða í fjárlögum fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimila ár hvert og er þar tiltekið hvaða fjárhæð hvert og eitt heimili fær. Þar verða ekki settir fram frekari gjaldaliðir en fram koma í rammasamningi, reglugerðum og gjaldskrám og ekki er þar heimild fyrir þeim greiðslum sem stefnendur krefjast í máli þessu. Þá taka þessar heimildir ekki til stofnkostnaðar eða öflunar húsnæðis. Í ljósi framangreinds verður að ætla að það hafi ekki verið ætlunin að greiða leigu eða annað gjald vegna húsnæðis sem rekstraraðilar leggja sjálfir til, utan húsnæðisgjalds. Stefnendur vísa sérstaklega til þess að Alþingi hafi aldrei tekið afstöðu til þeirra kostnaðarliða sem hér eru tilgreindir en stefndi telur að það hafi verið gert með hverri reglugerð og hverjum fjárlögum. Greiðslur til hjúkrunarheimila vegna einstakra gjaldliða eru ákvarðaðar af stefnda á ákveðnum forsendum. Sá kostnaður sem krafa stefnenda varðar byggir ekki á ófyrirséðum útgjöldum. Má af bókun stefnenda við rammasamninginn ráða að þegar stefnendur gengust undir hann töldu þeir hann ekki, frekar en skipan mála áður, taka á þessum kostnaði þeirra. Í samningnum er rakið fyrir hvaða kostnaðarliði stefndi greiðir og er ekkert fram komið um að hann hafi skuldbundið sig til frekari greiðslna til stefnenda vegna húsnæðiskostnaðar eða óskað sérstaklega eftir að tilteknar fasteignir yrðu notaðar í hans þágu þannig að greiðsluskylda stofnaðist á hendur honum sérstaklega vegna þess. Þá er það ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir um frekari fjárheimildir en Alþingi hefur gert, sbr. 2., 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Með vísan til framangreinds er þessari málsástæðu stefnenda hafnað og verður því ekki á það fallist að stefnda beri, án þess að um það hafi verið samið milli aðila, að greiða stefnendum kostnað vegna öflunar húsnæðis.

Samkvæmt framangreindu er stefndi sýknaður af aðalkröfum stefnenda. Með sömu rökum og að framan eru rakin eru ekki forsendur til að fallast á varakröfu stefnenda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnenda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík, og Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði.

            Málskostnaður fellur niður.