Hæstiréttur íslands

Mál nr. 358/2001


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Aðfinnslur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. mars 2002.

Nr. 358/2001.

M

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

gegn

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Börn. Forsjá. Aðfinnslur. Gjafsókn.

M og K slitu hjúskap haustið 1999 og bjó yngri sonur þeirra hjá K en sá eldri hjá M. Í nóvember 1999 höfðaði K mál og krafðist forsjár beggja drengjanna. Gerðu aðilar með sér sátt um að M færi með forsjá eldri drengsins og K með forsjá yngri drengsins til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar í héraðsdómi. Fyrir héraðsdómi lá álitsgerð sálfræðings frá apríl 2000 og matsgerð tveggja sálfræðinga frá nóvember 2000, sem komust að þeirri niðurstöðu, að báðir foreldrar væru hæfir til að hafa forsjá drengjanna. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, komst að þeirri niðurstöðu, að hagsmunum barnanna væri best borgið með því að K hefði forsjá þeirra beggja. Fyrir Hæstarétti krafðist M forsjár eldri drengsins, sem var tæplega 12 ára, en ekki var lengur ágreiningur um forsjá þess yngri. Fyrir Hæstarétt var lögð matsgerð dómkvadds sálfræðings frá 27. febrúar 2002. Þar kom fram að vilji eldri drengsins stóð eindregið til þess að vera hjá M og að drengurinn væri ákveðinn sjálfstæður einstaklingur, sem vildi fara sínu fram. Samband hans við föður sinn var náið og gott, honum gekk vel í skóla og átti góða vini. Þegar litið var til aldurs drengsins og eindregins vilja hans að búa hjá föður sínum og mið tekið af persónuleika og skapsmunum hans, þótti það hafa minnsta röskun í för með sér fyrir hann að dveljast áfram á heimili M en hann hafði verið í umsjá M frá samvistaslitum foreldranna haustið 1999. Sú skipan ásamt rúmri umgengni við móður og bróður þótti vera best til þess fallin að tryggja velferð hans. Væri því hagsmunum og þörfum drengsins best borgið með því að fela M forsjá hans. Vegna hins ólíka menningarheims, sem fjölskylda M var frá, þótti þó afar mikilvægt að stuðla að sem mestri umgengni við hana. Aðfinnsluvert þótti hve meðferð málsins hafði dregist í héraði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. september 2001. Hann krefst þess, að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt og tekin verði til greina krafa hans um að fá forsjá sonar aðila, A, f. [...] 1990. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms að því er varðar forsjá sonarins A og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Báðir aðilar hafa fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti.

Ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gengu aðilar máls þessa í hjúskap í heimalandi stefndu í september 1988. Þau fluttu til Íslands í byrjun árs 1989 og hafa búið þar síðan fyrir utan það að stefnda var við nám í London frá september 1998 fram í mars 1999.  Þau eignuðust tvo syni, A f. [...] 1990, og B f. [...] 1996. Sumarið 1999 ákváðu aðilar að slíta hjúskap og flutti stefnda til Z-bæjar í byrjun september ásamt yngri drengnum og foreldrum sínum, sem höfðu komið hingað til lands vorið 1998, en eldri drengurinn var hjá föður sínum í Kópavogi. Stefnda höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem þingfest var 9. nóvember 1999, og krafðist forsjár beggja drengjanna. Hinn 24. nóvember gerðu aðilar sátt um það, að áfrýjandi færi með forsjá eldri drengsins og stefnda með forsjá yngri drengsins til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar í héraðsdómi.

Í héraðsdómi er ítarleg grein gerð fyrir skýrslu Aðalsteins Sigfússonar sálfræðings 6. apríl 2000, sem kannaði forsjárhæfni og aðstæður foreldra og afstöðu drengjanna, svo og matsgerð sálfræðinganna Gylfa Ásmundssonar og Páls Magnússonar 20. nóvember 2000. Komust sálfræðingarnir að þeirri niðurstöðu, að báðir foreldrar væru hæfir til að hafa forsjá drengjanna, heimilisaðstæður beggja væru viðunandi, móðir var talin hæfari en faðir til að sinna almennum uppeldisþáttum, eldri drengurinn var talinn tengdur báðum foreldrum þótt hann hefði sagst fremur vilja búa hjá föður, en sá vilji hans var ekki talinn afdráttarlaus.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, komst að þeirri niðurstöðu, að hagsmunum barnanna væri best borgið með því að stefnda hefði forsjá þeirra. Hér fyrir dómi krefst áfrýjandi forsjár eldri drengsins, en ekki er lengur ágreiningur um forsjá þess yngri.

II.

Að héraðsdómi gengnum fór áfrýjandi þess á leit, að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta hag og aðstæður eldri drengsins, og var Helgi Viborg sálfræðingur dómkvaddur til þess starfa. Hefur álitsgerð hans 27. febrúar 2002 verið lögð fyrir Hæstarétt svo og endurrit vitnamáls 4. mars 2002, er sálfræðingurinn kom fyrir Héraðsdóm Reykjaness.

Áfrýjandi býr nú í rúmgóðri, eigin íbúð í Kópavogi og að mati sálfræðingsins var ekki hægt að sjá annað en að þrif og almenn umgengni væri í ágætu lagi. Áfrýjandi er við nám í Háskóla Íslands og vinnur með skólanum. Er vinnutími hans óreglubundinn og er oft um helgar. Það er álit matsmannsins, að áfrýjandi uppfylli öll almenn skilyrði þess að hafa forsjá barns og telur hann tengsl hans við drenginn vera náin og góð. Samband þeirra sé um margt líkt og á milli félaga eða vina, þar sem skilningur og samstaða er mikil, og líklegt sé að þessi tengsl verði nánari með aldrinum. Viðhorf áfrýjanda í uppeldismálum virðist vera þau, að einstaklingar eigi að fá að ráða sér mikið sjálfir og stjórnsemi eða afskiptasemi eigi að vera sem minnst. Matsmaður tekur undir þá skoðun fyrri matsmanna, að umhirða og aðhald áfrýjanda gagnvart drengnum gæti verið með betra móti og einnig mætti metnaður hans gagnvart heimili þeirra og framtíð drengsins vera meiri.

Stefnda vinnur sem tónlistarkennari bæði í X-bæ og í Y-bæ og leigir einbýlishús í F. Hún hefur keypt fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík, sem faðir hennar býr í, en móðir hennar, bróðir og fjölskylda hans búa hjá henni. Að áliti matsmanns er heimili stefndu hlýlegt og heimilishald virðist einkennast af rólyndi, nægjusemi og reglusemi. Matsmaður telur, að stefnda myndi sinna öllum almennum þörfum drengsins betur en áfrýjandi, en þegar horft sé til annarra atriða, svo sem félagslegra tengsla drengsins, aðlögunar hans í skóla og vilja hans sjálfs, þá virðist stefnda ekki virða þá þætti eins mikið.

A verður 12 ára eftir tæpan mánuð. Að áliti matsmanns er hann mjög geðþekkur, hægur, rólegur og kurteis drengur. Hann segist vera mjög ánægður í skólanum, þar sem hann eigi marga vini og kennarinn sé góður. Matsmaður kveðst hafa gengið mjög nærri drengnum til þess að komast að vilja hans og hafi hann ætíð sagt afdráttarlaust, að hann vildi vera hjá föður sínum og vinum. Það er skoðun matsmanns, að A sé um margt sérstakur drengur. Í fyrri álitsgerðum er talað um, að hann sé sjálfstæður og treysti talsvert á sjálfan sig. Matsmaður telur, að við þetta megi bæta, að sennilega sé hann nokkuð þver og vilji ná sínu fram og beiti þá ekki frekju eða offorsi heldur rólyndi og kurteisi. Hann skipti lítið um skoðun hafi hann bitið eitthvað í sig.

Kennari A telur hann einstaklega ljúfan, geðslegan, kurteisan og meðfærilegan dreng, sem standi sig ágætlega í námi og sé vinsæll félagi. Segir hún mikinn kærleik vera greinilegan á milli feðganna og aldrei unnt að merkja, að drengnum líði illa. Hún segir föðurinn sinna öllum fundum og öðru, sem skólinn biður hann um, og heimavinna og nestismál séu í góðu lagi. Þá hafi þrif og klæðnaður skánað mikið og ekki hægt að kvarta yfir því.

Matsmaður telur, að A sé greinilega mjög sáttur við félagslegar aðstæður sínar og að vilji hans til að vera hjá föður sínum sé mjög eindreginn. Hann er að dómi matsmannsins ákveðinn einstaklingur, sem vill fara sínu fram án mikillar tjáningar eða umræðu. Vegna þessa sterka og eindregna vilja drengsins og með hliðsjón af skapgerð hans telur matsmaður vart verjandi annað en að fara að vilja hans.

III.

Eins og að framan greinir er það mat þeirra sálfræðinga, sem að málinu hafa komið, að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá drengsins. Hann hefur verið í umsjá föður síns frá samvistaslitum foreldranna haustið 1999 og er í nánum tengslum við hann, þótt hann vilji ekki gera upp á milli foreldra sinna. Hann er ánægður í skólanum og hefur eignast nokkra góða og nána vini. Umgengni hans við móðurina hefur verið með þeim hætti, að hann hefur farið til hennar um það bil einu sinni í mánuði, um jól og páska og á sumrin, auk þess sem móðir hans hringir til hans nokkrum sinnum í viku. Samband hans við yngri bróður er gott, en hann er sex árum yngri en A.

Þótt viðhorf föðurins til uppeldis kunni að vera umdeilanleg, ber að hafa í huga, að drengurinn er í dag sterkur, sjálfstæður einstaklingur, sem er í góðri sátt við umhverfi sitt. Þegar litið er til aldurs A og eindregins vilja hans að búa hjá föður sínum og mið tekið af persónuleika og skapsmunum hans, verður að telja, að það hafi minnsta röskun í för með sér fyrir hann að dveljast áfram á heimili áfrýjanda. Sú skipan ásamt rúmri umgengni við móður og bróður sýnist vera best til þess fallin að tryggja velferð hans. Er því hagsmunum og þörfum drengsins best borgið með því að fela áfrýjanda forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Vegna hins ólíka menningarheims, sem móðurfjölskylda A er frá, er þó afar mikilvægt að stuðla að sem mestri umgengni við hana, ekki síst að sumarlagi, svo að hann fari ekki á mis við þá menningu og tungu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir.

Það athugist, að mál þetta hefur dregist úr hömlu. Það var þingfest 9. nóvember 1999, en héraðsdómur gekk 5. september 2001. Er þetta aðfinnsluvert og ekki í samræmi við 1. mgr. i.f. 34. gr. barnalaga, sem kveður á um það, að hraða skuli meðferð forsjármála.

Dómsorð:

Áfrýjandi, M, fari með forsjá drengsins A.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hans, 300.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var samdægurs er höfðað með stefnu birtri 4. nóvember 1999.

Stefnandi er K, kt. [...], [...], Z.

Stefndi er M, kt. [...], [...], Kópavogi.

Stefnandi gerir þá kröfu að henni verði dæmd til frambúðar forsjá sona aðila A, kt. [...] og  B, kt. [...] beggja til heimilis að [...], Reykjavík.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi gerir þær kröfur að honum verði dæmd varanleg forsjá sona málsaðila, A og B.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

MÁLSATVIK

Stefnandi og stefndi gengu í hjúskap í [heimalandi K] 9. september 1988 en stefndi hafði stundað nám þar.  Þau fluttu til Íslands í byrjun árs 1989 og eignuðust synina A f. [...] 1990 og B  f. [...] 1996.  Málsaðilar hafa búið á Íslandi síðan utan það að stefnandi dvaldi við nám í London frá september 1998 fram í mars 1999.  Annaðist stefndi syni þeirra á þeim tíma.  Í ágúst 1999 ákváðu aðilar að slíta hjúskap og óskaði stefnandi eftir því að hún fengi forsjá sona þeirra.  Stefndi var andvígur því að stefnandi fengi forsjá beggja drengjanna og vildi fá forsjá eldri drengsins.  Stefnandi flutti til Z ásamt yngra syni aðila og foreldrum stefnanda, en þau komu hingað til lands frá [heimalandi K] vorið 1998 og hafa verið hér síðan. Var það í byrjun september 1999 og varð eldri drengurinn eftir hjá föður sínum.  Ekki hafi náðst samkomulag um forsjá drengjanna og kveðst stefnandi hafa áhyggjur af aðbúnaði drengsins hjá föður sínum, hann sé ekki nógu vel hirtur og sé mikið einn. Samtöl við kennara drengsins bendi til þessa og drengurinn hafi oft lýst því við hana að hann vilji vera hjá henni.

Þann 24. nóvember gerðu aðilar sátt um það í Héraðsdómi Reykjavíkur að stefndi færi með forsjá drengsins A til bráðabirgða á meðan mál þetta væri til meðferðar.

Að tilhlutan dómsins var Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi, falið að kanna forsjárhæfni foreldra, aðstæður þeirra og hagi barnsins og annað sem sérfræðingurinn telur skipta máli hér.  Hann skilaði sérfræðilegri álitsgerð dagsettri 2. apríl sl. Í skýrslu hans segir m.a.

"Samantekt og ályktanir varðandi föðurinn

Um ræðir þrjátíu og sex ára mann sem deilir um forsjá sona sinna við barnsmóður. Fyrir liggur sátt í málinu að faðir fari með bráðabirgðaforsjá eldri drengs þeirra hjóna, en móðir þess yngri. Faðir segir að hann og móðir drengjanna hafi gert samkomulag um forsjá drengjanna við skilnað, en það ekki haldið þar sem hann hafi ekki viljað að yngri sonur eldist upp á heimili móður með móðurforeldrum. Hann telur sig jafnframt geta veitt drengjunum betra uppeldi, auk þess sem eldri drengurinn vilji vera hjá honum, fremur en móður. Í þessu máli er mikilvægt að hafa í huga þá gjörólíku menningarheima sem standa að drengjunum í gengum foreldrana. Faðir virðist hafa áhyggjur af því að [erlent] umhverfi á heimili móður, sem ekki síst sé skapað af móðurforeldrum drengjanna, muni torvelda þeim eðlilega aðlögun í íslensku samfélagi. Matsmaður telur áhyggjur föður ekki á rökum reistar.

Faðir er kurteis og viðkunnanlegur maður, í ágætu starfi. Hann virkar traustur og ábyrgðarfullur. Hann sér eftir því fjölskyldulífi sem hann og barnsmóðir skópu, allt fram að því að tengdaforeldrar hans komu á heimilið fyrir tveimur árum. Hann segir sjálfur að hann hafi ekki endurskapað þá reglu á heimili sínu sem var til staðar þegar hann og barnsmóðir bjuggu saman og vantar því upp á að heimilisaðstæður séu hreinlegar, aðlaðandi og heimilislegar.

Faðir talar blíðlega og hreinskilnislega um drengi sína sem honum þykir mjög vænt um. Af könnun má ætla að samskipti föður hafi ávallt verið meiri við A, en B. Jafnframt er faðir uppteknari af A og virðist matsmanni hugur hans standa ekki síst til hans. Með þessu er ekki verið að bera brigðar á væntumþykju mannsins til yngri drengsins, en svo virðist sem þróast hafi nánara samband milli föður og A og  jafnframt nokkurt félagasamband, sem þó virðist ekki byggt á þörfum mannsins einum saman. Líklegt er að styrkur föður sé ekki síst fólginn í hæfni hans til félagslegra samskipta við drenginn.

Í tali sínu er faðir tilfinningasamur og ræðir um drengi sína, sérstaklega A, af þekkingu og innsæi. Tengslahæfni hans er án efa ágæt.

Samantekt og ályktanir varðandi móðurina

 Um ræðir þrjátíu og eins árs konu sem deilir um forsjá sona sinna við barnsföður. Hún fer með bráðabirgðaforsjá yfir yngri dreng þeirra.

Móðir telur sig geta sinnt drengjum sínum betur en faðir og nefnir að hann hafi aldrei sinnt frumþörfum drengjanna meðan á sambúð hafi staðið, hafi hreinlega ekki kunnað það. Hann hafi hins vegar sinnt eldri drengnum  félagslega og verið góður við hann. Hann hafi komið fremur lítið að uppeldi yngri drengsins sem var um eins og hálfs árs þegar foreldrar hennar komu á heimili þeirra. Hún segist ekki hafa áhyggjur af því að drengirnir líði fyrir [erlent] heimili. Í því sambandi nefnir hún að B sé á leikskóla og fari fram í íslenskunni, A kunni íslenskuna vel, en hann hafi alist upp við [tungumál K] og síðast en ekki síst sé mikilvægt fyrir drengina báða að kunna [tungumál K] svo þeir séu í betri tengslum við arfleifð sína.

Móðir er sjálfsörugg og ákveðin og virðist eiga auðvelt með að taka ákvarðanir og fylgja þeim úr hlaði. Hún er kurteis og viðkunnanleg og hefur komið sér vel fyrir á nýjum stað þar sem hún hefur örugga vinnu. Hún talar um drengi sína  af hlýju og  innsæi og þykir án efa mjög vænt um þá. Hún segist hafa verið mjög ósátt við skilnaðinn þegar hann átti sér stað, drengjanna vegna, en þeir hafi þurft á óbrotinni fjölskyldu að halda. Í heimsókn matsmanns til móður er þó ljóst, þar sem hún býr með foreldrum sínum, að henni hefur tekist að skapa mjög traust og heimilislegt umhverfi þar sem uppeldislegar aðstæður virðist mjög góðar og aðilar sinna ákveðnum hlutverkum.

Móðir á mjög erfitt með að hugsa sé að faðir fari með forsjá drengjanna og hún telur það ekki geta gerst að hann fái forsjá yngri drengsins. Hún telur að faðir eigi sér margar góðar hliðar, en hann kunni ekki að sinna frumþörfum barna, þ.e. sinna matseld, klæðnaði, öryggi og að setja þeim reglur.

Mikilvægt er, annars vegar, að hafa í huga að móðir kemur úr gerólíkri menningu og hins vegar að íslenskukunnátta hennar torveldar henni að ræða um börn sín. Vegna tungumálsins kann hún að virka yfirborðslegri í tali sínu, en faðir, en matsmaður telur að móðir hafi til að bera mikla dýpt og góðan skilning á þörfum drengja sinna. Tengslahæfni hennar er án efa ágæt. 

D. Drengirnir

Tilhögun athugunar

Matsmaður hitti B á heimili föður og á heimili móður. Jafnframt fylgdi hann föður á stofu í tvígang.

Matsmaður gerði engin próf á drengnum og ræddi ekki við hann. Ástæðan er ungur aldur hans, mjög slök kunnátta í íslensku og nokkuð áberandi andstaða hans við að gefa sig að öðrum en sínum nánustu.

Matsmaður hitti A á heimili föður og á heimili móður. Einnig mætti A í tvígang á stofu þar sem matsmaður átti viðtöl við hann einan.

B

B er dökkhærður þriggja ára drengur, meðalhár, grannvaxinn og fjörugur. Hann er feiminn við matsmann og virkar mjög háður nærveru foreldra sinna. Á heimilum foreldra sinna er hann glaðlegur og brosmildur. Þroski hans virðist eðlilegur, en hann talar fremur lítið og að því er virðist mjög litla íslensku. Af hegðun drengsins og viðmóti er ekki annað að sjá en hann hafi búið við gott tilfinningalegt atlæti og öryggi. Ekki er hægt að ætla, af hegðun hans, að neinn áberandi munur sé á tilfinningum hans til föður eða móður. Drengurinn hefur verið mun meira hjá móður og móðurforeldrum frá því skilnaður átti sér stað. Það þarf ekki að þýða að drengurinn sé háðari móður en föður. Þó virðist af athugun að faðir hafi í minna mæli sinnt B, meðan á sambúðinni stóð, en A, af ýmsum ástæðum, sem fram koma í matsgerðinni. Það er hins vegar hugsanlegt að drengurinn sé háðari þeim heimilisaðstæðum sem hann hefur búið lengur við. Jafnframt þessu virðast gömlu hjónin hafa lagt sig mjög fram um að sinna drengnum og má ætla að hann sé talsvert háður þeim, en þau hafa verið á heimili hans í tvö ár.

Matsmaður átti símtal við J, leikskólastjóra [...] á Z. Hún lýsir B sem glaðværum og fjörugum dreng, sem er vel öruggur með sig. Hún telur þroska hans í samræmi við jafnaldra. B er hreinlegur og snyrtilegur og blandast vel hópnum. Hún segir að hann hafi verið alveg mállaus á íslensku sl. haust, en honum hafi farið mikið fram og eigi það ekki síst við eftir hverja umgengni hjá föður. J segir að afi B komi oftast með hann og sæki og drengurinn fagni honum vel. Hún tekur fram að svo virðist sem glaðværð ríki í nánasta umhverfi drengsins.

A

A er hæglátur drengur, prúður og viðfeldinn og talar íslensku með eðlilegum hætti. Hann virðist dálítið lokaður, en stutt er í bros og glaðværð. Stærð samsvarar aldri og þroski virðist eðlilegur. Drengurinn er ágætlega snyrtilegur. Þegar rætt er við A á hann fremur auðvelt með að tjá sig og hann gerir það með skynsamlegum og yfirveguðum hætti.

Í athugun kemur ekkert fram sem bendir til að foreldrar hafi reynt að hafa áhrif á hegðun hans hjá matsmanni. Þegar rætt er um líðan fjölskyldu hans kemur ekki fram að hann hafi áhyggjur af foreldrum, eða líðan þeirra sem bendir til að foreldrar séu sáttir við skilnaðinn og eða að þeir sýna þá ábyrgð að íþyngja ekki drengnum með eigin vanlíðan. Jafnframt kemur ekkert fram sem bendir til að foreldrar tali illa um hvort annað í viðurvist drengsins, en hann upplifir að foreldrar séu sáttir við aðskilnaðinn. Jafnframt þessu virðist eins og drengurinn upplifi að núverandi ástand sé frágengið. Á hinn boginn kemur fram að helst af öllu hefði hann viljað að foreldrar hefðu aldrei skilið.  Ofangreint bendir til að foreldrar láti velferð drengsins ganga fyrir eigin tilfinningum og er það þeim góður vitnisburður og öruggt er að það hefur létt drengnum þá áþján sem slíkur atburður hefur venjulega á börn, enda ber ekki á depurð í hegðun hans.

Varðandi aðstæður sínar hjá föður segir hann að margir skemmtilegir staðir séu í Kópavogi, skólinn sé skemmtilegur og hann eigi marga vini. Um aðstæður sínar hjá móður segir hann að sér finnist líka gaman fyrir austan, þar sé mikill snjór, þar sé margt skemmtilegt að gera, hann eigi marga góða vini þar og það sé líka skemmtilegt að hitta mömmu, B og afa og ömmu.

Fært er í tal við hann hvort hann vilji tjá matsmanni um vilja sinn til að búa í öðrum hvorum aðstæðum. Hann segist ekki geta tjáð sig neitt um það, "aðrir verða að dæma um hvort ég eigi að vera hjá pabba eða mömmu, mér er sama á hvorum staðnum ég er". Matsmaður telur að drengurinn sé einlægur í frásögn sinni. Síðar í viðtali segir drengurinn: "Mig langar svolítið að vera hjá pabba. Ég held að mamma verði ekki mjög glöð". Drengurinn virðist einlægur í þessari afstöðu sinni. 

A er beðinn um að tjá sig með teikningum. Þær sýna að hann virðist hafa jákvæða mynd af umhverfi sínu og upplifir að hans nánustu þyki mjög vænt um hann, en þar tiltekur hann auk foreldra og B, móðurforeldra og föðurforeldra. Jafnframt kemur fram að hann gerir ekki greinarmun á foreldrum sínum, en telur þó að móðir taki oftar utan um hann en faðir. Á teikningu staðsetur hann sig hjá föður, fremur en hjá móður.

Í heild má segja að drengurinn sé mjög jákvæður í garð beggja foreldra, en hann sýni meiri áhuga á að vera hjá föður. Drengurinn virðist sjálfur hafa mótað sér þessa skoðun án þess að faðir hafi höfðað til tryggðar hans eða samkenndar. Að baki afstöðu hans er hugsanlega að Z virki framandi fyrir hann, hann hefur aðlagast vel félögum og skóla í Kópavogi og gott félagasamband hefur þróast milli hans og föður hans, sem á sér langa sögu. Hér ber þó að hafa í huga að drengurinn leggur ekki þunga áherslu á hvar hann vill vera. Fyrir honum er mikilvægt að hann taki ekki afstöðu til pabba eða mömmu, en hann er mjög sáttur við þau bæði og þráir að vera í návist við þau bæði.  

Matsmaður átti símtal við S, kennara hans við [...]. Að hennar sögn er A góður nemandi og góður drengur. Hann eigi auk þess góða félaga í skólanum, sé sjálfsöruggur og taki málstað minni máttar þegar því er að skipta. Kennari segist hafa átt góð samskipti við föður og drengurinn sinni heimanámi vel. Aðspurð segir kennari að ástæða hafi verið til að hafa orð á hreinlæti drengsins sl. haust, en það hafi verið fært í betra horf.

[…]

E. Niðurstöður

1.        Báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá drengjanna.

2.        Báðir foreldrar láta sig velferð drengjanna miklu varða.

3.        Báðir dengirnir eru háðir foreldrum og eldri drengurinn hefur látið í ljósi ósk um að vera hjá föður.

4.        Móðir hefur hugsað meira um B en faðir.

5.        Heimili móður er heimilislegra og aðstæður með þeim hætti að ætla má að þar sé betur komið til móts við frumþarfir drengjanna.

6.        Svo virðist sem faðir og eldri drengurinn hafi myndað mjög gott félagasamband."

Að beiðni stefnanda kvaddi dómurinn þá Gylfa Ásmundsson og Pál Magnússon sálfræðinga til þess að meta tiltekin atriði sem talin eru upp í matsgerð þeirra dagsettri 20. nóvember 2000 þar sem svofelld grein er gerð fyrir atriðum þessum og niðurstöðum matsmanna:

"l. Hæfni málsaðila sem uppalenda og verði þá m.a. hafðir í huga hæfileikar þeirra til tengslamyndunar við synina og til að búa þeim nægjanlega þroskavænlegt umhverfi m.t.t. haga þeirra og aðstæðna.

M hefur sterk tilfinningaleg tengsl við drengina, fullnægjandi skilning á tilfinningalegum þörfum þeirra og getu til að sýna þeim rækt á þvi sviði, sem og á vitsmunalega og félagslega sviðinu. Fjárhagsstaða hans er fullnægjandi til að sjá fyrir þeim, en honum hefur að undanförnu reynst erfitt að rækja tengslin við B vegna fjárskorts. Húsnæði M er þröngt, ekki mjög hentugt og myndi tæpast duga til að hafa þar báða drengina. Honum er umhugað um að gera betur hvað varðar hreinlæti og umhirðu fatnaðar. Hann hefur sinnt samvinnu við skóla A með fullnægjandi hætti, tekið vel ábendingum um það sem betur mætti fara og gert þar bragarbót. Mikið vinnuálag er á M og drengurinn því nokkuð mikið einn heima, en á þá kost á að leita til afa síns ef eitthvað bjátar á og er í farsímasambandi við föður.

K er tengd báðum drengjunum sterkum tilfinningaböndum og er fær um að veita þeim tilfinningalega, félagslega og vitsmunalega örvun og rækt. Fjárhagslegar, félagslegar og húsnæðislegar aðstæður hennar eru fullnægjandi til að sinna barnauppeldinu og hún hefur góðan skilning á þörfum þeirra fyrir næringu, hreinlæti og aðra umhirðu. Hún hefur sinnt vel samvinnu við leikskóla B, en einnig haft samband í fyrravetur við kennara B. Hún hefur rækt vel tengslin við þann drengjanna sem hún ekki hefur forsjá fyrir.

2. Sálrænir hagir hvors málsaðila.

K er vel gefin kona, í góðum veruleikatengslum og með eðlilega þroskað tilfinningalíf, tiltölulega heilbrigður einstaklingur í góðu jafnvægi. Hún er nákvæm og reglusöm og leggur sig fram um að skapa sér og sínu fólki öruggt og aðlaðandi umhverfi. Engin merki eru um geðræna erfiðleika svo sem kvíða eða þunglyndi og hæfni hennar til geðtengsla við syni sína er eðlileg.

M er einnig vel greindur og er jafnræði með þeim K að því leyti. Hann er fremur óvenjulegur einstaklingur með mikið og skapandi hugmyndaflug og blæbrigðaríkt sálarlíf, sem þó litast töluvert af kvíða, óraunsæjum hugmyndum og óreiðu í tilfinningalífi hans og afstöðu til umheimsins og annars fólks. Í samræmi við það virðist hann gera litlar kröfur til að hafa hinn ytri ramma daglegs lífs í föstum skorðum, svo sem heimilishald og reglufestu. Hann hefur þó til að bera hæfileika til aðlögunar og náinna tengsla við aðra og er í ágætum tengslum við A son sinn.

3. Ástand hvors barns, tengslamyndun þess við málsaðila og systkin og nánustu skyldmenni.

B er fjögurra ára drengur, sem virðist heilbrigt og vellíðunarlegt barn. Takmarkað er unnt að leggja fyrir af sálfræðilegum prófum og matstækjum, bæði vegna ungs aldurs og einnig vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu. Prófun bendir til að hann sé í meðallagi greindur. Hann kemur fyrir sem eðlilega þroskað barn. Tengsl hans við móður virðast hlý og fullnægja tilfinningalegum þörfum hans. Ekki tókst í athugun þessari að fá skýra mynd af tengslum hans við föður. Slök íslenskukunnátta veldur nokkrum áhyggjum og gæti verið ástæða til að gera nánari úttekt á málþroska til að meta hvort ástæða sé til að hann fái skipulega málörvun i leikskólanum með það i huga að tryggja að hann standi ekki að baki jafnöldrum þegar námskröfur aukast í byrjun grunnskóla.

A er 10 ára gamall, eðlilega þroskað barn bæði vitsmunalega, tilfinningalega og félagslega. Hann er i góðu tilfinningalegu jafnvægi. Hann hefur hlý og jákvæð tilfinningatengsl við báða foreldra, en tengslin virðast þá heldur sterkari við fóður. A er einnig tengdur yngri bróður sínum sterkum tilfinningaböndum. Hann skynjar hlýju frá föðurafa sínum, sem hann umgengst talsvert. A er mjög í mun að taka ekki afstöðu í þeirri deilu sem stendur milli foreldra hans. Kennari hans telur að umhirðu hans og stuðningi við heimanám þurfi að koma í betra horf.

4. Kosti og galla þess að stefnanda eða stefnda fari með forsjá sonanna.

Það eru þrír kostir í þessu forsjármáli: að móðirin fái forsjá beggja drengjanna, að faðirinn fái forsjá þeirra beggja og að þau fái forsjá hvors drengsins um sig.

Kostir þess að K fái forsjá beggja drengjanna eru að ytri uppeldisaðstæður hennar eru að mörgu leyti betri en M. Hún getur búið þeim gott og reglusamt heimili og á gott tilfinningasamband við þá báða. Gallarnir eru fyrst og fremst þeir að þeir yrðu að miklu leyti slitnir úr tengslum við föður sinn vegna fjarlægðar og að hið góða tilfinningasamband sem hann á við þá rýrist.

Kostir þess að M fái forsjá beggja drengjanna eru einkum þeir að tengsl þeirra við föður sinn, sem þeir hafa gott tilfinningasamband við, yrðu tryggð. Gallarnir eru helstir þeir, að óvist er hvort M geti búið þeim jafn góð ytri uppeldisskilyrði og móðir þeirra og þeir mundu af sömu ástæðum og fyrr er getið fara á mis við tengsl við móður sína sem eru þeim mikils virði. Ef faðir fengi forsjá annars drengsins, A, en móðir hins, B, eins og reyndar er fyrirkomulagið nú, mundu hin góðu tengsl feðganna, M og A, vera tryggð, og B yrði áfram í því umhverfi sem hann hefur aðlagast vel. Gallarnir eru að sjálfsögðu minni tengsl bræðranna innbyrðist og við móður annars vegar og föður hins vegar. Jafnframt má telja þann ókost að uppeldisumhverfi A hjá föður er í nokkrum atriðum áfátt varðandi húsnæði, stuðning við heimanám, umhirðu og eftirlit þegar faðir er að heiman. Líklegt virðist þó að M gæti sinnt umhirðu og uppeldi drengsins, ef hann hefur til þess reglulegt aðhald og stuðning.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi byggir á því að það sé sonum aðila fyrir bestu að henni verði falin forsjá þeirra.  Hún hafi annast ummönnun og uppeldi drengjanna frá fæðingu ef frá er talinn tíminn sem hún dvaldi í London.  Hún búi nú við öruggar aðstæður í F og foreldrar hennar eru fluttir [þangað] og muni vera henni stuðningur og bakhjarl.  Bróðir stefnanda sé þar einnig og og verði um sinn.  Aðbúnaður eldri drengsins geti ekki verið eins og best verði á kosið.  Hann sé mikið einog gangi nánast sjálfala, komi óhreinn í skólann og beri merki vanrækslu.  Stefnandi telji því að það sé sonunum fyrir bestu að henni verði falin forsjá drengjanna og vitnar til 2. mgr. 34. gr. barnalaga.

Af hálfu stefnda er á því byggt að samkvæmt 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 og grunnsjónarmiðum í barnarétti skuli ætíð haga forsjá eftir því sem barni sé fyrir bestu.  Drengirnir séu báðir mjög tengdir stefnda enda hafi það ekki komið minna í hans hlut að annast þá frá fæðingu.  Frá september 1998 til apríl 1999 er stefnandi var við nám á Englandi hafi stefndi annast drengina. Hann hafi miklar áhyggjur af velfarnaði og þroska drengjanna er þeir dvelja á heimili stefnanda.  Þar búi auk móður, móðurafi, móðuramma og móðurbróðir drengjanna en á heimilinu sé einungis töluð [tungumál K].  hafi það haft áhrif á málþroska B en hann tali nú eingögnu [tungumál K].  Stefndi hafi einnig áhyggjur af félagslegri stöðu drengjanna þar sem þeir séu á ýmsan hátt utan samfélagsins og fari þar á mis við samskipti og félagsskap jafnaldra.  Telji stefnandi að drengjunum sé best borgið hjá honum í því umhverfi sem þeir hafi alist upp í og þekki.  Stefndi hafi búið eldri drengnum gott heimili í Kópavogi.  Hann sæki nám í [...]skóla, hafi aðlagast skólanum vel uni hag sínum vel og félagsleg aðstaða hans í Kópavogi sé sterk.  Þar eigi hann fjölda vina og kunningja.  Skammt frá heimili starfi bæði faðir hans og afi og sá síðarnefndi búi einnig í sama hverfi.  Engin rök standi til þess að raska því umhverfi.

NIÐURSTAÐA

Niðurstöður matsmanna sýna að persónulegir hagir og eiginleikar foreldranna eru með þeim hætti að þeir eru báðir hæfir til að veita sonum sínum forsjá; foreldrarnir búa báðir við aðstæður sem eru viðunandi fyrir börn og eru í eðlilegum tilfinningatengslum við syni sína.

Hvað A varðar eru góð og náin tengsl milli hans og föður. Fram kemur að faðirinn er mikill félagi drengsins, að hann er vel heima í […] menningu og getur þess vegna ræktað með A sambandið við arfleifð hans. A hefur dvalið hjá föður sínum nánast samfellt í rúm tvö ár, á góða vini í Kópavogi, er vel aðlagaður skóla sínum og félagahópi. Þá eru jákvæð tengsl milli hans og föðurafa. Athuganir sýna að drengurinn er heilbrigt barn og í góðu jafnvægi og má álykta að það sýni m.a. að hann hafi búið við gott atlæti hjá föður sínum undangengin misseri. Að mati matsmanna er A í þroskavænlegum tengslum við báða foreldra sína, tengslin við föðurinn virðast heldur sterkari og hann sýnir því meiri áhuga að eiga heima hjá honum. Slíkt fyrirkomulag mundi einnig fela í sér minnsta röskun á högum A í bráð.  Á hinn bóginn kemur einnig fram í niðurstöðum matsmanna og vitnisburði þeirra fyrir dómi að aðhlynningu A og eftirliti með honum hjá föður hafi stundum verið áfátt og að ætla megi að betur sé komið til móts við sumar frumþarfir drengsins hjá móður. Fram kemur að mikið vinnuálag er á föður og að drenginn skorti umhirðu og eftirlit þegar faðir er að heiman. Faðirinn þurfi reglulegt aðhald og utanaðkomandi stuðning til þess að hann geti sinnt umhirðu og uppeldi drengsins svo vel sé. Einnig er bent á að faðir hafi ekki lagt nægilega áherslu á að þjálfa hæfni og leikni Þorbjarnar í ýmsum greinum, svo sem í tónlist, íþróttum og öðru tómstundastarfi og heldur ekki lagt sem skyldi rækt við hinn [erlenda] bakgrunn drengsins, t.d. með því að viðhalda hjá honum [...] tungu. A á athvarf hjá föðurafa sínum og föðurbræðrum en virðist í sjálfsvald sett hvort og hvenær hann leitar þangað. Kennari drengsins staðfesti fyrir dómi að drengurinn hafi stundum komið óhreinn í skólann án þess að slíkt væri þó viðvarandi ástand. Þá er bent á að ósk drengsins um að búa áfram hjá föður sé engan vegin skýr eða afdráttarlaus samkvæmt skýrslum matsmanna. Drengnum er þvert á móti í mun að taka ekki afstöðu í deilunni, vill fela öðrum að taka þá ákvörðun. Í ljósi þess hve lengi þeir feðgar hafa verið samvistum væri ekki óeðlilegt að afstaða drengsins væri jafnvel heldur afdráttarlausari, föður í hag. Dómnum finnst flest benda til að ekki sé verulegur styrkleikamunur á tengslum Þorbjarnar við foreldra sína. 

Fram kemur sú niðurstaða í athugun matsmanna á sálrænum högum föðurins að þótt faðir sé vel greindur maður sé hann að ýmsu leyti óvenjulegur einstaklingur. Hann hafi mikið hugmyndaflug og blæbrigðaríkt sálarlíf en það litist af kvíða, óraunsæum hugmyndum og óreiðu í tilfinningalífi og afstöðu til annarra. Þótt hann hafi hæfileika til að aðlagast og tengjast, geri hann í samræmi við þetta litlar kröfur til að hafa daglegt líf sitt og sinna, svo sem heimilishald, í föstum skorðum. Að mati sérfróðra meðdómsmanna setur þetta ákveðið mark á hæfni föðurins til þess að skapa drengjunum það aðhald og reglufestu sem einkennir gott uppeldisstarf og getur ráðið úrslitum ef á skyldi bjáta, t.d. á erfiðum unglingsárum.  Ekki tókst matsmönnum að fá skýra mynd af tengslum B við föður sinn en þau virtust þó traust eftir atvikum. Þar verður að hafa í huga ungan aldur drengsins og þá staðreynd að móðir hans hefur fram að þessu komið miklu meira en faðirinn að uppeldi hans.

Niðurstöður matsmanna og framburður þeirra fyrir dóminum sýnir að A hefur góð tengsl við móður sína og finnst hún hlý og jákvæð í sinn garð. Hið sama gildir um B. Að áliti matsmanna er B eðlilega þroskað barn og tengslin við móður virðast hlý og fullnægja tilfinningaþörfum drengsins um þessar mundir. Móðirin hefur lagt sig verulega fram við að halda góðum tengslum við A þann tíma sem hann hefur dvalið hjá föður. Matsmenn telja að dregnurinn geti auðveldlega aðlagast þeim breytingum sem yrðu við flutning til móður og að sú röskun myndi ekki koma honum úr jafnvægi til langframa. Almennt hefur A sýnt góða aðlögunarhæfileika og ekki við öðru að búast en svo verði áfram.

Samkvæmt niðurstöðum sálfræðimats virðist móðirin vel gefin, ákveðin og örugg kona og með gott sjálfstraust. Engin merki koma fram um kvíða eða þunglyndi. Heimilrekstur og fjárhagur er í föstum skorðum. Hún hefur komið sér vel fyrir á Íslandi, hefur aðlagast íslenskum aðstæðum og fengið fast starf […] auk þess að vera virkur þátttakandi í menningar- og listastarfi í sinni heimabyggð […]. Hún hefur eignast vini á Íslandi, jafnt íslenska sem [samlanda sína]. Fram kemur að móðir hefur tekið eftir góðum hreyfiþroska hjá A og einnig tónlistarhæfileikum sem hún vill rækta hjá drengnum. Hún hefur þegar kennt honum nokkuð á píanó. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að af persónugerð móður að dæma sé hún líkleg til að fylgja eftir áformum um örvun og hvatningu A á þessum og öðrum styrkleikasviðum hans. Slíkt getur jafnframt leitt til betra sjálsfstrausts og sterkari sjálfsmyndar hjá A síðar og jafnframt  aukið á almenna vellíðan og lífsnautn, ef vel tekst til.

Fram kemur í niðurstöðum matsmanna að A hefur jákvæð og sterk tilfinningatengsl við bróður sinn. Tengsl innan móðurfjölskyldunnar virðast einnig sterk eins og búferlaflutningur þeirra hingað til lands bera vitni um og líkleg til að skapa ákveðið skjól og stöðugleika  fyrir drenginn. Þegar móðir er við vinnu sína virðast foreldrar hennar geta verið sá bakhjarl sem drengirnir geta treyst á. Auk þess býr einnig móðurbróðir þeirra með fjölskyldu sína í nágrenninu. Með því að eiga heimili hjá móður sinni munu drengirnir örugglega læra [tungumál K] og hafa sterk tengsl við [hinn erlenda] uppruna sinn, sem mun síðar meir styrkir sjálfsmynd þeirra.

Með vísan til þeirra atriða sem hér hafa verið rakin er það niðurstaða dómsins að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að forsjá þeirra verði hjá stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist málskostnaður hennar, sem er þóknun til lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur, hrl. 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti 98.000 krónur eða samtals 498.000 krónur úr ríkissjóði.

Stefndi hefur gjafsókn í máli þessu og ákvarðast málskostnaður hans sem er þóknun til lögmanns hans, Helga Birgissonar, hrl. 400.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti  98.000 krónur eða samtals 498.000 krónur, úr ríkissjóði.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari og meðdómsmennirnir Margrét Bárðardóttir og Þorgeir Magnússon sálfræðingar kváðu upp dóminn

DÓMSORÐ

Stefnda K fari með forsjá drengjanna A, kt. […] og B, kt. […].

Málskostnaður milii aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 498.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefnda 498.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.