Hæstiréttur íslands

Mál nr. 332/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


                                                                                              

Fimmtudaginn 15. maí 2014.

Nr. 332/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki var talið fullnægt skilyrði ákvæðisins um að ætla mætti að X myndi torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni færi hann frjáls ferða sinna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2014 sem barst réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. maí 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa 12. maí 2014 veist að brotaþola á bílastæði við heimili hennar að [...] í [...] með ofbeldi og hótunum og reynt að færa hana inn í bifreið sína. Er brotið talið varða við 217. gr., 226. gr., sbr. 20. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafist er gæsluvarðhalds yfir varnaraðila á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni fari hann frjáls ferða sinna.

Lögregla hefur tekið skýrslu af brotaþola og varnaraðila. Þótt ekki hafi verið kannað hvort einhver vitni kunni að hafa verið að atvikinu verður ekki talið að það eða aðrir rannsóknarhagsmunir leiði til þess að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að [...], kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. maí 2014 kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.   

Í greinargerð með kröfunni segir að í gærkvöldi hafi lögreglu borist tilkynning um að fara að [...] í [...]. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir [...]. Hafi hún skýrt lögreglu frá því að þegar hún hafi komið heim skömmu áður hafi kærði sem er fyrrverandi unnusti hennar, beðið eftir henni í bifreið sinni fyrir utan heimili hennar að [...]. Þegar hún hafi verið búin að taka dóttur sína sem er 4 ára gömul úr bifreiðinni hafi kærði komið út úr sinni bifreið og ráðist á hana með því að slá hana í andlitið og tekið hana hálstaki. Hann hafi í framhaldi haft í líflátshótunum við hana og tekið af henni GSM síma. Kærði hafi reynt að draga brotaþola inn í bifreið hans en hún komist undan honum og flúið í burtu. Uppá þetta hafi dóttir hennar horft og grátið á meðan. Brotaþoli hafi einnig skýrt lögreglu frá því að hún óttaðist um eldri dóttur sína sem væri 7 ára en hún hafi átt að vera heima þegar brotaþoli kom heim en hún væri hvergi sjáanleg. Hafi brotaþoli óttast að kærði hefði tekið barnið með sér en hann hafi áður haft í hótunum um að gera slíkt og að drepa hana og börnin. Gerð hafi verið leit að barninu sem hafi fundist að lokum af lögreglu við verslunarmiðstöðina Iceland við Arnarbakka. Hafi barnið skýrt frá því að hún hafi verið úti í garð við heimili sitt áður en móðir hennar kom heim þegar kærði hafi komið að henni frá bílastæðinu. Hafi hún óttast hann og því hlaupið í burtu og ekki þorað að fara heim aftur.

Brotaþoli hafi í kjölfarið leitað á slysadeild vegna áverka sem hún hlaut er kærði hafi ráðist á hana. Brotaþoli beri að kærði sé ítrekað búinn að hafa í líflátshótunum við hana, fyrrum unnusta hennar og börnin og sé hún með skilaboð í síma sínum sem sanni það.

Fram kemur að hjá lögreglu sé einnig til rannsóknar mál nr. 007-2014-18724 frá 6. apríl sl. þar sem kærði hafi verið handtekinn á stigagangi á heimili brotaþola. Hafi hann þá verið búinn að brjóta sér leið inn á stigaganginn og hafi verið að berja á hurð brotaþola. Hafi kærði umrætt sinn verið vopnaður stórum eldhúshníf. Samkvæmt brotaþola og þáverandi unnusta hennar hafi kærði áður haft í hótunum um að drepa þau með hníf og meðan hann hafi barið á hurðina hafi hann haft í líflátshótunum við þau.

Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa í gærkvöldi ráðist á brotaþola og reynt að hafa hana með sér á brott, hótað henni og börnum hennar lífláti.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Þörf sé á að yfirheyra brotaþola og sakborning frekar vegna málsins, auk þess sem kalla þurfi eftir símagögnum, áverkavottorði og taka skýrslur af nágrönnum og öðrum hugsanlegum vitnum. Þá telji lögreglustjóri brýnt að unnið verði geðmat á kærða vegna hegðunar hans að undanförnu gagnvart brotaþola.

Þykir því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni ef hann fær að fara frjáls ferða sinna.

Ætlað sakarefni sé einkum talið varða 217. gr. 226. gr. sbr. 20 gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.  liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga,  er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Kærði mótmælti kröfunni en til vara krafðist hann þess að henni yrði markaður skemmri tími. Ákærði viðurkenndi að hafa slegið brotaþola með flötum lófa og að hafa tekið af brotaþola símann. Ástæða þess hefði verið sú að í símanum væru upplýsingar um brot gagnvart honum. Að mati kærða væru málsatvik allt önnur en fram komi í gögnum málsins og í raun væri það hann sem brotið hefði verið gegn.

Eins og rakið er að framan er kærði grunaður um líkamsárás, tilraun til frelsissviptingar og líflátshótun. Með vísan til þessa og nánari lýsinga á málsatvikum í greinargerð lögreglustjóra og gögnum málsins, þykir hafa verið sýnt fram á það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málanna er að sögn lögreglustjóra á frumstigi. Þörf sé á því að yfirheyra brotaþola og sakborning frekar vegna málsins, auk þess sem kalla þurfi eftir símagögnum, áverkavottorði og að taka skýrslur af nágrönnum og öðrum hugsanlegum vitnum. Gangi kærði laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því hafa áhrif á vitni. Þá telur lögreglustjóri brýnt að unnið verði geðmat á kærða vegna hegðunar hans að undanförnu gagnvart brotaþola.

Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er með sömu rökum fallist á að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. maí nk. kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.