Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                        

Föstudagurinn 19. mars 2010.

Nr. 129/2010.

Puppenspiel Ísland ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Kærumál. Viðurkenningarkrafa. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli P ehf. gegn Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist P ehf. viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna þess að brotinn hafi verið á honum réttur við meðferð umsóknar hans um styrk. Talið var að P ehf. hafi leitt nægilegar líkur að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni. Voru því talin uppfyllt skilyrði fyrir því að P ehf. gæti krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ætlaðra ólögmætra ákvarðana Kvikmyndamiðstöðvar Íslands 29. desember 2004 og menntamálaráðherra 7. október 2005 við afgreiðslu á umsókn sóknaraðila um styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands. Í stefnu segir meðal annars svo: „Stefnandi telur ekki nauðsynlegt að leggja fram sérstök gögn um áætlað tjón af umsókn og málsmeðferðinni í viðurkenningarmáli sem þessu, en í eðli máls felst að umsækjendur þurfa að leggja til vinnu og kostnað í slíku ferli. Áskilinn er þó réttur til að leggja fram gögn þar um dragi stefndi í efa að umsóknar- og stjórnsýsluferlið allt hafi haft nokkurn kostnað í för með sér.“

Í greinargerð varnaraðila í héraði var aðallega gerð krafa um frávísun málsins frá héraðsdómi. Þar kom meðal annars fram til stuðnings kröfunni að ósannað væri að sóknaraðili hefði orðið fyrir tjóni af þeim sökum sem viðurkenningarkrafa hans ráðgerði og þar með skorti skilyrði fyrir heimild hans til að krefjast, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila. Þegar málið var tekið fyrir til málflutnings um frávísunarkröfu varnaraðila 25. janúar 2010 óskaði sóknaraðili eftir að leggja fram reikninga því til sönnunar að hann hefði orðið fyrir fjártjóni af fyrrgreindum völdum. Varnaraðili mótmælti framlagningu reikninganna og féllst héraðsdómur á þau mótmæli og synjaði framlagningunni.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Í hinum kærða úrskurði er lýst málatilbúnaði sóknaraðila til stuðnings kröfu hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þar er þess meðal annars getið að sóknaraðili hafi talið að meðferð umsóknar hans hjá Kvikmyndasjóði Íslands hafi verið ólögmæt. Hann hafi skotið henni til menntamálaráðherra sem hafi einnig brotið á honum rétt við meðferð málsins. Þá lýsir hann kvörtun sem hann hafi sent umboðsmanni Alþingis af þessu tilefni. Jafnvel þó að talið yrði að sóknaraðili geti ekki, á þeim grundvelli sem viðurkenningarkrafa hans byggir á, gert kröfu á hendur varnaraðila um bætur við undirbúning umsóknar um styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands má telja líkur á að málskot til ráðherra og kvörtun til umboðsmanns Alþingis hafi valdið honum útgjöldum. Er ekki loku fyrir skotið að slík útgjöld geti talist til bótaskylds kostnaðar hans ef fallist yrði á að um bótaskyldu sé að ræða. Verður því talið að hann hafi með þessum hætti leitt nægilegar líkur að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni verði fallist á málsástæður hans fyrir því að brotinn hafi verið á honum réttur við meðferð fyrrgreindrar umsóknar hans um styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands og málskot til menntamálaráðherra þannig að til bótaskyldu varnaraðila leiði. Þar með verða talin uppfyllt skilyrði fyrir því að hann geti krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila af nefndu tilefni.

Af þessum ástæðum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka mál sóknaraðila til efnismeðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Puppenspiel Ísland ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2010.

Mál þetta, sem höfðað var 22. maí 2009, var tekið til úrskurðar 25. janúar sl.

Stefnandi er Puppenspiel Ísland ehf., Bergþórugötu 57, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna kostnaður stefnanda, við undirbúning umsóknar um styrk úr Kvikmyndasjóði og málsmeðferð hjá Kvikmynda­miðstöð Íslands, menntamála­ráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis, sem stefnandi hefði ekki orðið fyrir ef ekki hefði komið til ólögmæt málsmeðferð og í kjölfarið ólögmætar ákvarðanir Kvikmynda­miðstöðvar Íslands, dags. 29. desember 2004, og menntamála­ráðuneytisins, 7. október 2005. Stefnandi krefst auk þess málskostnaðar.

Stefndi gerir þá kröfu aðallega að máli þessu verði í heild vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.  Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Hinn 25. janúar sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til umfjöllunar. Dómkrafa stefnanda í þessum þætti málsins er að frávísunarkröfunni verði hafnað.

I

Málsatvikalýsing stefnanda.

Stefnandi er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og gerð kvikmynda. Stofnendur félagsins eru þeir Jón Fjörnir Thoroddsen, sem m.a. framleiddi kvikmyndina „Íslenski draumurinn“ og Jón Gnarr.

Stefnandi hóf árið 2001 vinnu við íslenska kvikmynd með sambærilegu sniði og „Íslenski draumurinn“, sem gengið hafði vel og fengið mikla aðsókn og lof gagnrýnenda. Stefnandi sótti um styrk árið 2001 og var nálægt því að fá úthlutun hjá forvera Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Frá árinu 2001 til ársins 2003 fór fram mikil vinna við myndina, m.a. handriti hennar, og árið 2003 var Kvikmyndasjóði send styrkumsókn. Voru þá nýlega tekin í gildi kvikmyndalög nr. 137/2001 og reglugerð nr. 229/2003, um Kvikmyndasjóð.

Umsókn stefnanda byggði að meginstefnu á nýju ákvæði 3. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003, þar sem segir að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar geti veitt framleiðslustyrk án umsagnar kvikmyndaráðgjafa ef annaðhvort leikstjóri eða framleiðandi hefur fullgert eina leikna kvikmynd áður, og fjármögnun er lokið að öðru leyti en sem nemur framlagi Kvikmyndasjóðs, sem þó skal ekki nema hærri fjárhæð en 40% af heildarframleiðslukostnaði.

Þar sem Jón Fjörnir Thoroddsen, framleiðandi myndarinnar, hafði áður framleitt kvikmyndina „Íslenski draumurinn“ og þar sem lokið hafði verið við 60% af fjármögnun myndarinnar taldi stefnandi víst að hann hlyti umræddan styrk, enda segir í ákvæði reglugerðarinnar að framleiðslustyrkir samkvæmt 3. tölulið 8. gr. gangi fyrir öðrum styrkveitingum.

   Umsögn kvikmyndaráðgjafa um myndina var jákvæð, þó annar ráðgjafinn hafi talið þörf á meiri handritsvinnu. Hinn ráðgjafinn, Valdís Óskarsdóttir, gerði hins vegar engar athugasemdir við handrit í umfjöllun sinni. Ráðgjafinn hafði þó efasemdir um leikstjóra myndarinnar.

Hinn 11. júní 2003 barst stefnanda fyrirspurn frá Kvikmyndasjóði um kostnaðar­áætlun myndarinnar og var henni svarað stuttu síðar. Á fundi með forráðamönnum Kvikmyndasjóðs tjáði stefnandi þeim að reyndur aðili yrði fenginn til aðstoðar leikstjóra myndarinnar í því skyni að koma til móts við framangreindar athugasemdir ráðgjafans.

   Þrátt fyrir að öll skilyrði 3. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003 væru uppfyllt, og að ráðgjafi Kvikmyndamiðstöðvar hefði auk þess samþykkt handrit myndarinnar, sem þó er ekki skilyrði samkvæmt ákvæðinu, var stefnanda hafnað um styrk „að svo stöddu“ með tölvupósti, dags. 10. júlí 2003.

Forsvarsmaður stefnanda óskaði eftir fundi með forstöðumanni Kvikmynda­miðstöðvar, þar sem hann taldi freklega gengið framhjá verkefni stefnanda við styrkveitingu, sérstaklega þar sem stefnandi uppfyllti skilyrði 3. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar. Á fundinum baðst forstöðumaður sjóðsins afsökunar á þessum mistökum og kvað skýringuna vera þá að nýtt fólk væri nú að taka við stjórn Kvikmyndasjóðsins.

Þar sem höfnun Kvikmyndasjóðs var tímabundin og þar sem Kvikmyndasjóður virðist ekki hafa auglýst eftir styrkumsóknum seinni hluta ársins 2003, sem þó er skylt skv. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 229/2003, leit stefnandi svo á að umsókn sín væri enn í fullu gildi. Umsóknin kæmi því til skoðunar við næstu úthlutun úr Kvikmyndasjóði og við endurúthlutun styrkja sem ekki voru greiddir styrkþegum síðari hluta ársins 2003.

Í febrúar 2004 fékk stefnandi veður af því að búið væri að endurúthluta styrkjum sem ekki voru greiddir, eða var skilað af styrkþegum, árið 2003. Af því tilefni leitaði stefnandi eftir staðfestingu á því að styrkumsókn hans væri í fullu gildi hjá Kvikmyndasjóði, sbr. tölvupóst dags. 24. febrúar 2004. Stefnandi fékk svar daginn eftir og af því virðist mega draga þær ályktanir að stefnandi hafi þurft að sækja um aftur til að eiga möguleika á styrkúthlutun, hvort sem er við endurúthlutun eða nýja styrkveitingu.

Eftir samtöl við forráðamenn Kvikmyndasjóðs ákvað stefnandi að sækja að nýju um styrk fyrir myndina „Maður leiksins“. Að þessu sinni fylgdi umsókninni ensk þýðing á handriti myndarinnar, prufutökur og nýr leikstjóri hafði verið fenginn til verksins, Ásdís Thoroddsen, sem m.a. leikstýrði kvikmyndinni „Ingaló“ auk fjölmargra annarra kvikmynda. Allt þetta var gert til að efla umsókn stefnanda, koma til móts við athugasemdir ráðgjafa Kvikmyndasjóðs og auka enn líkur á styrkveitingu.

Hinn 26. júní 2004 fékk stefnandi sent álit ráðgjafa Kvikmyndasjóðs, Valdísar Óskarsdóttur. Kveður þar við nýjan tón og er rétt að taka fram að þessi umsögn ráðgjafans er um sama handrit og fyrri umsögn sama ráðgjafa, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við handrit myndarinnar. Í umsögninni segir m.a.:

Mér finnst handritið ekki nógu gott eins og það er og svolítið flausturlega unnið á köflum. Ég veit að þessi umsögn mín um handritið er í hróplegri mótsögn við umsögn mína frá því í fyrra[...]

Í kjölfar umsagnarinnar óskaði forsvarsmaður stefnanda enn á ný eftir fundi með forráðamönnum Kvikmyndasjóðs og var sá fundur haldinn 13. september 2004. Var forráðamönnum sjóðsins tjáð að ensk þýðing handrits myndarinnar væri eingöngu til hliðsjónar, íslenska þýðingin væri sú sem styrkumsóknin grundvallaðist á. Enn fremur voru lögð fram ný gögn um aukna fjármögnun myndarinnar en Skífan hf. hafði hækkað framlag til myndarinnar úr kr. 10.000.000,- í allt að kr. 23.750.000,- auk kr. 5.000.000,- í kynningarstyrk. Með þessu framlagi var fjármögnun myndarinnar lokið að u.þ.b. 70% og styrkumsókn stefnanda til Kvikmyndasjóðs lækkaði að sama skapi úr 40% í 30%. Taldi stefnandi nú fullvíst að hann fengi styrk skv. 3. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003 með öllum þeim úrbótum og viðbótum sem gerðar höfðu verið við fyrri umsókn.

Hinn 29. desember 2004 fékk stefnandi aftur á móti tölvupóst frá Kvikmyndasjóði þar sem styrkumsókn hans var hafnað, eingöngu með vísan til álits ráðgjafa Kvikmyndasjóðs, dags. 28. desember 2004. Í því áliti var eingöngu vísað til álits ráðgjafans frá 26. júní 2004.

Með kæru til menntamálaráðuneytisins, dags. 29. mars 2005, var þess krafist að úrskurður Kvikmynda­miðstöðvar Íslands, dags. 29. desember 2004, þess efnis að hafna því að veita stefnanda styrk til gerðar kvikmyndarinnar „Maður leiksins“, yrði ógiltur. Þá var þess jafnframt krafist að staðfest yrði að stefnandi uppfyllti skilyrði skv. 3. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003 til að hljóta styrk úr Kvikmyndasjóði.

Með úrskurði menntamálaráðuneytisins, dags. 7. október 2005, var staðfest ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, dags. 29. desember 2004, um að synja stefnanda um framleiðslustyrk vegna kvikmyndarinnar „Maður leiksins“.

Stefnandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis, með bréfi dags. 1. desember 2005. Í áliti umboðsmanns Alþingis, dags. 4. apríl 2007, í máli nr. 4585/2005 var niðurstaða umboðsmanns að fjölmargir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð menntamála­ráðuneytisins.

Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis óskaði stefnandi eftir samningaviðræðum við menntamálaráðuneytið, með bréfi dags. 24. apríl 2007, en ráðuneytið hafnaði þeim umleitunum, með bréfi dags. 27. ágúst 2007. Stefnandi hefur síðan óskað eftir gögnum um styrki úr Kvikmyndasjóði en aldrei fengið fullnægjandi svör.

Stefnanda er því nauðsynlegt að höfða mál þetta til að fá viðurkennda bótaskyldu stefnda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir við ólögmæta málsmeðferð og stjórnvaldsákvarðanir í kjölfar umsóknar stefnanda um styrk úr Kvikmyndasjóði.

Um málsatvik að öðru leyti vísast til gagna málsins, m.a. álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4585/2005.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Aðild.

Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn kvikmyndamála samkvæmt 1. mgr. 2. gr. kvikmyndalaga nr. 137/2001. Kröfum í málinu er því beint að íslenska ríkinu.

Bótagrundvöllur.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni. Samkvæmt henni bera viðkomandi stjórnvöld skaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem orsakast af ólögmætri og saknæmri háttsemi stjórnvaldanna og er sennileg afleiðing háttseminnar.

Verður nú fjallað nánar um skilyrði reglunnar:

Saknæm og ólögmæt háttsemi.

Kvikmyndamiðstöð Íslands tók ákvörðun í máli stefnanda og menntamálaráðuneytið staðfesti þá ákvörðun í úrskurði sínum, báðar þessar úrlausnir teljast stjórnvalds­ákvarðanir. Taka stjórnvaldsákvarðana eru augljóslega ásetningsathafnir. Röng málsmeðferð og ákvörðunartaka er a.m.k. gáleysi af hálfu stjórnvaldanna. Gott og gegnt stjórnvald viðhefur hvorki málsmeðferð í andstöðu við lög né tekur ólögmætar ákvarðanir. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin og málsmeðferðin hafi verið í ósamræmi við lög o.þ.m. er háttsemin ólögmæt. Eftirfarandi annmarkar voru á ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og úrskurði ráðuneytisins. Í hverjum og einum þeirra felst ólögmæt háttsemi:

Ólögmætt skilyrði um að fjármögnun sé að fullu lokið.

Brot gegn leiðbeiningarskyldu, rannsóknarskyldu og meðalhófsreglu (7. gr., 10. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga).

[…]

Stefnandi fékk ekki að tjá sig um umsögn kvikmyndaráðgjafa.

Brot gegn andmælareglu stjórnsýsluréttar (13. gr. stjórnsýslulaga).

[…]

Ómálefnaleg sjónarmið kvikmyndaráðgjafa.

Brot gegn lögmætisreglu og ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar.

[…]

Forgangsregla reglugerðar nr. 229/2003.

[…]

Réttmætar væntingar.

Stefnanda voru gefnar réttmætar væntingar um að félaginu yrði úthlutað styrk. Félaginu var lofað styrk og lengi vel gefið í skyn að aðeins örlitlar viðbætur þyrfti til þess að hægt yrði að taka ákvörðun um að veita styrkinn.

Tjón, orsakatengsl og sennileg afleiðing.

Stefnandi varð fyrir tjóni vegna framangreindra stjórnvaldsákvarðana. Tjón stefnanda er kostnaður félagsins við undirbúning umsóknar og málsmeðferð hjá Kvikmynda­miðstöð Íslands, menntamálaráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis. Tjónið er í beinum orsakatengslum við málsmeðferð og úrlausn stjórnvaldanna og sennileg afleiðing þeirra. Stefnanda var rétt að kæra ákvörðun Kvikmynda­miðstöðvar Íslands til menntamálaráðuneytisins enda hafði fyrrnefnda stjórnvaldið brotið lög við málsmeðferð í máli stefnanda. Þegar ráðuneytið leysti sömuleiðis úr málinu með ólögmætum hætti var stefnanda rétt að leita til umboðsmanns Alþingis. Auk kostnaðar við upphaflega málsmeðferð varð stefnandi þannig einnig fyrir kostnaði vegna kærumálsmeðferðar og kvörtunar til umboðsmanns Alþingis.

Skilyrði bóta - kröfugerð.

Krafa stefnanda er um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Um nánari skilyrði bóta er vísað til almennra reglna skaðabóta- og fjármunaréttar um bætur fyrir fjártjón sem fela það í sér að stefnandi skal verða jafnsettur fjárhagslega eins og framangreind réttarbrot hefðu ekki orðið. Tjónið felst í því að stefnandi varð fyrir kostnaði við styrkumsókn sína. Leyst var úr máli hans með ólögmætum hætti með þeirri afleiðingu að sá tilkostnaður varð ekki til neins.

Eftir að gögn málsins, bæði frá stefnanda og öðrum umsækjendum, lágu fyrir skapaðist skylda fyrir Kvikmyndamiðstöð Íslands að taka ákvörðun á grundvelli gildandi stjórnsýslureglna, bæði almennra meginreglna og þeirra reglna sem gilda sérstaklega um styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði. 

Stefnandi álítur að hann hefði hlotið styrk hefði verið leyst úr máli hans á grundvelli þeirra reglna, almennra og sérstakra, sem gilda um ákvörðunina. Stefnandi uppfyllti öll skilyrði til þess að hljóta styrk og það sem meira er þá uppfyllti stefnandi skilyrði fyrir því að hljóta forgang fyrir öðrum styrkveitingum.

Engir annmarkar voru á umsókninni en hafi þeir verið til staðar voru þeir minniháttar og stefnanda var ekki leiðbeint um þá og hvernig mætti bæta úr þeim. Öll málsmeðferð og úrlausn á styrkumsókn stefnanda var haldin margs konar annmörkum. Við þær aðstæður verður stefnandi að njóta vafans af því hvort hann hefði hlotið styrk ef leyst hefði verið úr málinu með lögmætum hætti. Þá er staðfesting menntamálaráðuneytisins á ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að sama skapi ólögmæt.

Kvikmyndamiðstöð Íslands og ráðuneytið tóku saknæmar og ólögmætar ákvarðanir sem urðu stefnanda til fjártjóns og öll skilyrði til bóta eru uppfyllt. Mikilvægt er að umsækjendur um styrki eigi kost á að sækja bætur þegar brotið er gegn rétti þeirra við meðferð mála. Miðað við alla þá annmarka sem eru á málsmeðferð stjórnvalda í máli þessu ber stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi hefði ekki hlotið styrk, þrátt fyrir að rétt hefði verið staðið að málum. 

Stefnandi gerir þær kröfur á hendur stefnda að viðurkennt verði að hann eigi að verða eins settur fjárhagslega og ef hann hefði aldrei lagt í þá vinnu og þann útlagða kostnað sem fólst í umsókn hans um styrk. Þar af leiðandi er gerð krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til skaðabóta vegna þess kostnaðar sem stefnandi hafði af undirbúningi styrks, málsmeðferð hjá Kvikmyndasjóði Íslands, málsmeðferð í kærumáli ráðuneytisins og málsmeðferð umboðsmanns Alþingis.

Krafa um viðurkenningu á bótarétti byggir á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en verði fallist á þessa kröfu stefnanda má búast við að leitast verði við að ná samkomulagi um greiðslu bóta eða óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna á ætluðu tjóni. Stefnandi telur að vinna og kostnaður við undirbúning umsóknar og málsmeðferð hjá stjórnvöldum sé nægjanlega afmarkað ferli til að leggja megi dóm á viðurkenningar­kröfu um rétt til bóta fyrir kostnaði stefnanda.

Stefnandi telur ekki nauðsynlegt að leggja fram sérstök gögn um áætlað tjón af umsókn og málsmeðferðinni í viðurkenningarmáli sem þessu, en í eðli máls felst að umsækjendur þurfa að leggja til vinnu og kostnað í slíku ferli. Áskilinn er þó réttur til að leggja fram gögn þar um dragi stefndi í efa að umsóknar- og stjórnsýsluferlið allt hafi haft nokkurn kostnað í för með sér.

Önnur lagarök.

Grundvöllur að málatilbúnaði stefnanda eru meginreglur stjórnsýsluréttar, þ.e. túlkunarreglur, óskráðar meginreglur og meginreglur eins og þær birtast í réttar­framkvæmd og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Auk þess sem rakið hefur verið að framan er vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka sem fram koma í gögnum málsins, einkum áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4585/2005.

Fyrirsvar ríkisins er byggt á 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Um varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísunarkröfu.

Helstu rök stefnda fyrir frávísunarkröfu sinni eru þau að ekki sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að hafa megi uppi viðurkenningarkröfu í máli þessu. Meint tjón stefnanda er algerlega ósannað að mati stefnda og ekki er heldur reynt að sýna fram á tjón að mati stefnda. Þá telur stefndi að í kröfugerð séu fólgnar málsástæður, en kröfugerð sé einnig óskýr. Þá er ekki gerð tilraun til að hnekkja hinni umdeildu ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands frá 29.12.2004 og hinum umdeilda úrskurði ráðuneytisins. Ekki er hægt að sjá að kröfugerð geti endurspeglað dómsorð í málinu.  Þá telur stefndi að stefna hafi átt þeim sem tók hina umdeildu ákvörðun 29. desember 2004 með vísan til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi málskostnað er vísað til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. 

IV

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

Stefnandi kveður tjón sitt felast í kostnaði hans við undirbúning umsóknar um styrk úr Kvikmyndasjóði og málsmeðferð hjá Kvikmynda­miðstöð Íslands, menntamála­ráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis, sem stefnandi hefði ekki orðið fyrir ef ekki hefði komið til ólögmæt málsmeðferð og í kjölfarið ólögmætar ákvarðanir Kvikmynda­miðstöðvar Íslands, dags. 29. desember 2004, og menntamála­ráðuneytisins, 7. október 2005. Tjónið felist í kostnaði félagsins við undirbúning umsóknar og málsmeðferð hjá Kvikmynda­miðstöð Íslands, menntamálaráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis.

Varnir byggðar á aðildarskorti leiða til sýknu ef fallist er á þær, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Kemur sú málsástæða stefnda því ekki til skoðunar í þessum þætti málsins.

Í máli þessu liggur fyrir álit Umboðsmanns Alþingis þar sem fram kemur að úrskurður menntamálaráðuneytisins frá 7. október 2005 í máli stefnanda hafi verið haldinn annmörkum að ýmsu leyti. Hins vegar taldi Umboðsmaður annmarkana ekki svo verulega að þeir valdi ógildi úrskurðarins. Er það á valdsviði dómsins að skera úr um hvort annmarkar á málsmeðferð í máli stefnanda leiði til bótaskyldu.

Af málatilbúnaði stefnanda er ljóst í hverju hann telur tjón sitt felast og hver tengsl þess eru við atvik máls. Hins vegar gerir stefnandi enga grein fyrir þeim kostnaði sem hann kveðst hafa orðið fyrir og þykir hann því ekki hafa leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Nægir ekki í því sambandi að vísa til þess að í eðli máls felist að umsækjendur þurfi að leggja til vinnu og kostnað í slíku umsóknar- og stjórnsýsluferli. Né heldur að í munnlegum málflutningi kom fram að stefnandi hafi m.a. orðið fyrir lögmannskostnaði. Verður af þessum sökum ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort til bótaskyldu hafi stofnast af hálfu stefnda gagnvart stefnanda eins og stefnandi krefst að viðurkennt verði. Fullnægir málatilbúnaður stefnanda þannig ekki skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og krafan er vanreifuð sem fer í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.