Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 1. júní 2010. |
|
|
Nr. 326/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, frá 1. júní 2010 kl. 8 til 24. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist verður á með héraðsdómi að skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt til að taka beri kröfu sóknaraðila til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir í máli hans, en þó ekki lengur en til 24. júní 2010 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2010.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan til c liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, að dómfelldi í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. maí 2010, X, kt. [...], með dvalarstað í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, frá 1. júní 2010, kl. 8.00 til 24. júní 2010, kl. 16.00.
Í kröfu ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru dagsettri 30. mars 2010 hafi dómfelldi verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 3. mars 2010, utandyra við [...], [...], slegið A nokkrum sinnum í höfuðið með skiptilykli með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið þriggja sm. langan skurð á enni og tvo sjö sm. langa skurði á hvirfli. Brotið sé í ákæru talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Með ákæru dagsettri 9. apríl síðastliðinn hafi dómfelldi verið ákærður annars vegar fyrir umboðssvik, með því að hafa fimmtudaginn [...] 2010, misnotað aðstöðu sína og tekið í heimildarleysi kr. 350.000 út af bankareikningi B, kennitala [...], nr. [...] en ákærði hafi við það notað debetkort og PIN- númer sem B hafi látið hann hafa nokkru áður til notkunar í sína þágu. Ákærði hafi tekið féð út af reikningi B og lagt inná bankareikning sinn nr. [...], í fjórum færslum, þremur samtals að fjárhæð kr. 300.000 í gegnum hraðbanka Arion banka við [...] og einni að fjárhæð kr. 50.000 í hraðbanka Byr sparisjóðs, [...]. Í ákæru sé brotið talið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Hins vegar hafi dómfelldi verið ákærður fyrir fjársvik, með því að hafa að morgni miðvikudagsins [...], við [...], tekið far með leigubifreið sem ekið hafi verið af C, án þess að eiga fyrir farinu, látið aka sér í [...], að [...] og í [...], þar sem hann hafi yfirgaf bifreiðina með þeim orðum að hann kæmi til baka innan skamms, en þess í stað hafi hann farið á brott án þess að greiða fargjald að fjárhæð kr. 7.900 eða gert ráðstafanir til að það yrði greitt. Í ákæru sé þetta brot talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettum [...] 2010 í máli nr. S-[...]/2010 hafi dómfelldi verið sakfelldur samkvæmt þessum tveimur ákærum og dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár. Dómfelldi hafi tekið sér frest til að ákveða hvort hann áfrýi málinu til Hæstaréttar.
Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá [...] 2009 í mál nr. S-[...]/2009 hafi dómfelldi verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi og fullnustu 15 mánaða af refsingunni hafi verið frestað skilorðsbundið í 3 ár. Dómfelldi hafi hafið afplánum á óskilorðsbundna hluta refsingarinnar hinn 4. mars síðastliðinn eftir að hann hafi verið handtekinn vegna málsins. Skilorðsbundni hluti dómsins hafi verið dæmdur upp í dóminum frá 27. maí.
Þriðjudaginn 1. júní næstkomandi ljúki dómfelldi þeirri afplánun og sé þess því krafist að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi frá þeim tíma er afplánun hans ljúki og meðan á áfrýjunarfresti standi í máli hans.
Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða, með hliðsjón sakarferli dómfellda, alvarleika sakarefnis og á grundvelli almannahagsmuna þyki nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans.
Eins og sjá megi á meðfylgjandi gögnum hafur dómfelldi ítrekað gerst sekur um afbrot frá árinu 2005.
Til hliðsjónar sé vísað til dóma Hæstaréttar í máli nr. 144/2006 hvað varði það að gæsluvarðhald komi í kjölfar afplánunar.
Til hliðsjónar megi einnig líta til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 139/2006 og 418/2005
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Meðfylgjandi er:
- Dómur í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-[...]/2010, dags. [...] 2010.
- Dómur í máli Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-[...]/2009, dags. [...] 2009.
- Sakavottorð dómfellda, dags. [...] 2010.
Dómfelldi var í dag, 27. maí 2010, dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, umboðssvik og fjársvik. Hann tók sér lögmæltan frest til að taka ákvörðun um hvort hann áfrýi þeim dómi til Hæstaréttar. Dómfelldi hóf afplánun á óskilorðsbundnum hluta refsingar er honum var ákveðin með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra [...] 2009, 4. mars sl., en skilorðsbundni hluti dómsins var dæmdur upp í dóminum sem kveðinn var upp í dag.
Brotaferill dómfellda er rakinn í sakavottorði hans, auk þess sem gerð er grein fyrir brotaferli hans í dómi þeim sem dæmdur var í dag. Hann hefur nær samfelldan brotaferil frá árinu 2005.
Í dómi þeim sem féll í dag, er dómfelldi dæmdur fyrir þrjú brot, þar á meðal alvarlega líkamsáraás, en í dómi frá [...] 2009 var dómfelldi dæmdur fyrir sex brot. Þykir af brotaferli dómfellda mega ætla að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus meðan á áfrýjunarfresti stendur.
Með vísan til ofangreinds, þeirra dómafordæma Hæstaréttar er fyrir liggja í sambærilegum málum, m.a. dómi réttarins frá 15. mars 2006 í máli nr. 14/2006, sem og með skírskotun til c liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, verður krafa ríkissaksóknara því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, frá 1. júní 2010, kl. 8.00 til 24. júní 2010, kl. 16.00.