Hæstiréttur íslands
Mál nr. 717/2013
Lykilorð
- Fjármögnunarleiga
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 717/2013.
|
Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Fjármögnunarleiga. Lánssamningur. Gengistrygging.
Ö ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að fjármögnunarleigusamningur sem fyrirtækið hafði gert við L hf. væri að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi nánar tiltekinna erlendra gjaldmiðla væri ólögmætt og óskuldbindandi fyrir sig. Í niðurstöðu Hæstaréttar var að efni til fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að hafna fimm af sex málsástæðum Ö ehf. Þá var hafnað þeirri málsástæðu Ö hf. að í upphafi viðskipta hefði verið samið um að félagið eignaðist bifreið þá er samningurinn laut að gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma. Ekki var talið skipta máli að í samningi Ö ehf. og L hf. hefði verið vísað til samnings Ö ehf. við seljanda bifreiðarinnar um möguleg endurkaup þess síðarnefnda. Þótti Ö ehf. ekki hafa sýnt fram á að ákvæði í tilboði L til Ö ehf. um greiðslu lokagjalds hefði tekið til samnings þess er málið laut að. Þá varð kynningarefni L hf. um fjármögnunarleigusamninga ekki skýrt svo að það hefði veitt viðskiptamanni fyrirvaralausan kauprétt að leigutíma loknum, án þess að til kæmi sérstakt samþykki L hf. Ekki réði úrslitum þótt óumdeilt væri að Ö ehf. hefði alltaf keypt þær vélar eða tæki sem hann hafði gert fjármögnunarleigusamninga um á tilteknu tímabili. Þótti Ö ehf. ekki hafa sannað að samið hefði verið um í upphafi viðskipta að fyrirtækið yrði að loknum grunnleigutíma samningsins og gegn greiðslu lokagjalds eigandi bifreiðarinnar sem samningurinn tók til. Var því niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf. staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Sigurður Líndal fyrrverandi prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að fjármögnunarleigusamningur aðila nr. 144199-202 frá 13. nóvember 2007 sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi nánar tiltekinna erlendra gjaldmiðla skuldbindi hann ekki. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samningur sá, sem áfrýjandi krefst viðurkenningar á að sé lánssamningur en ekki leigusamningur, ber heitið ,,fjármögnunarleigusamningur“. Samningurinn var gerður 13. nóvember 2007 og tók til „Renault At Midlum ásamt kassa, lyftu og öðrum búnaði“, en þetta mun vera bifreið með skráningarnúmerið EJ X88. Í samningnum var mælt fyrir um að grunnleigutími væri sex ár. Áfrýjandi reisir mál sitt á því að þar sem um hafi verið að ræða lánssamning séu ákvæði hans um tengingu greiðslu við gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla óskuldbindandi.
Samningurinn skiptist í tvo hluta en efni hans er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Fyrri hluti samningsins hafði að geyma sérstaka skilmála sem lutu að bifreiðinni sem var andlag samningsins en þar var meðal annars fjallað um leigugrunn, grunnleigutíma og tilhögun leigugreiðslna. Í síðari hluta samningsins voru almennir skilmálar. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var efni samningsins í meginatriðum það sama og þess samnings sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, sbr. einnig dóm réttarins 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013.
Áfrýjandi teflir einkum fram sex málsástæðum til stuðnings kröfu sinni og eru þær tíundaðar í héraðsdómi. Þar er fimm þeirra hafnað með vísan til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 og er að efni til fallist á niðurstöðu héraðsdóms um það.
Áfrýjandi telur að mál þetta sé ekki sambærilegt þeim sem áðurnefndir dómar Hæstaréttar tóku til að því leyti að í upphafi viðskipta hafi verið samið um að áfrýjandi ,,myndi eignast tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum gegn ákveðinni greiðslu við lok samningstíma“. Því til stuðnings bendir áfrýjandi á að í sérstökum skilmálum samningsins hafi verið vísað til „endurkaupa- og þjónustusamnings“ áfrýjanda við Bifreiðar & landbúnaðarvélar ehf., sem seldi stefnda bifreiðina, en í síðarnefnda samningnum hafi verið ráðgert að Bifreiðar & landbúnaðarvélar ehf. myndi kaupa hana af áfrýjanda 1. nóvember 2012 að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá telur áfrýjandi ljóst að umræddur fjármögnunarleigusamningur sé gerður á grundvelli tilboðs stefnda frá árinu 2004 í fjármögnun bifreiða og tækja fyrir áfrýjanda þar sem gert hafi verið ráð fyrir greiðslu tiltekins lokagjalds. Þetta sýni að um það hafi verið samið að áfrýjandi eignaðist við samningslok þau tæki sem aðilarnir gerðu fjármögnunarleigusamninga um. Auk þessa bendir áfrýjandi á að fjármögnunarleigusamningar sem aðilarnir gerðu í kjölfar þess að umrætt tilboð var samþykkt hafi flestir verið gerðir upp með þeim hætti að áfrýjandi eignaðist tæki í lok samningstíma eða meðan á honum stóð gegn greiðslu lokagjalds. Það hafi ekki verið fyrr en ágreiningur reis um lögmæti samninganna að stefndi hafi neitað að afsala áfrýjanda tækjunum gegn lokagjaldi. Þá leiði af túlkunarreglum samningaréttar að skýra verði samningana, sem stefndi samdi einhliða, áfrýjanda í vil ef vafi leikur á um efni þeirra. Áfrýjandi kveður aðra viðskiptamenn stefnda hafa með sama hætti átt rétt á því að kaupa vél eða tæki við lok grunnleigutíma. Hefur hann lagt fram undirritaðar yfirlýsingar nokkurra þeirra þess efnis. Loks vísar áfrýjandi til framburðar vitnanna Sveins Hannessonar, Ólafs Helga Ólafssonar og Guðríðar Ólafsdóttur fyrir héraðsdómi en þau hafi öll um lengri tíma gegnt stjórnunarstörfum hjá stefnda. Rakið er úr framburði þeirra í héraðsdómi.
Í þeim samningi sem málið varðar var svofellt ákvæði í 12. grein: ,,Leigutíminn er tilgreindur í 4. og 6. gr. Leigutaki getur ekki sagt leigusamningi þessum upp á grunnleigutíma. Að loknum grunnleigutíma framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.“ Í 34. grein samningsins var kveðið á um það að honum mætti einungis breyta með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er samningnum var ekki breytt að því leyti, sem hér skiptir máli, með þeim hætti sem þarna var mælt fyrir um.
Í 10. grein samningsins sagði meðal annars: „Leigutaki hefur gert endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda í ISK (kr. 3.687.744. m.vsk). Þar sem leigugreiðslur eru gengistryggðar er ósamræmi í eftirstöðvum á sama tíma. Mismunur er gerður upp milli aðila beint.“ Óumdeilt er að ekki reyndi á þann samning áfrýjanda og seljanda bifreiðarinnar um endurkaup sem vísað var til í þessu ákvæði fjármögnunarleigusamningsins en í honum var ekki að öðru leyti fjallað um hvaða áhrif samningur áfrýjanda og seljanda bifreiðarinnar hefði á réttarsamband áfrýjanda og stefnda. Að teknu tilliti til framburðar vitnanna Arnars Snæs Kárasonar og Guðríðar Ólafsdóttur hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á, gegn andmælum stefnda, að ákvæði um greiðslu lokagjalds í áðurnefndu tilboði, sem stefndi gerði áfrýjanda 24. nóvember 2004, hafi tekið til samningsins sem mál þetta lýtur að. Þá verður kynningarefni stefnda um fjármögnunarleigusamninga ekki skýrt svo að hann hafi veitt áfrýjanda eða öðrum viðskiptamönnum sínum fyrirvaralausan rétt til að kaupa leigumun að grunnleigutíma loknum án þess að til þyrfti að koma sérstakt samþykki stefnda. Því síður gat það falið í sér skyldu viðskiptamanns til að kaupa tækið. Framburður vitnanna Halldórs Jörgenssonar, Péturs Bjarna Magnússonar og Arnars Snæs Kárasonar fyrir héraðsdómi, sem efnislega er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, var á þann veg að samþykki stefnda hefði alltaf þurft að koma til svo viðskiptamaður fengi að kaupa vél eða tæki sem fjármögnunarleigusamningur tók til. Þá ræður það ekki úrslitum um sönnun fyrir þessari málsástæðu áfrýjanda að óumdeilt sé að hann hafi alltaf keypt þær vélar eða tæki sem hann hafði gert fjármögnunarleigusamning um við stefnda og lokið var á árunum 2005 til 2012.
Samkvæmt framansögðu, en einnig að teknu tilliti til framburðar þeirra Sveins Hannessonar, Ólafs Helga Ólafssonar og Guðríðar Ólafsdóttur, hefur áfrýjandi ekki sannað að svo hafi verið um samið í upphafi viðskipta samkvæmt þeim samningi sem málið varðar að hann yrði að loknum grunnleigutíma og gegn greiðslu lokagjalds eigandi bifreiðarinnar sem samningurinn tók til. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 4. október 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 9. október 2012, af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf., Grjóthálsi 7-11, Reykjavík, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Kröfur aðila
Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur málsaðila, sem ber heitið „fjármögnunarleigusamningur“ nr. 144199-202 frá 13. nóvember 2007, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi evru, Bandaríkjadals, japanskra jena og svissneskra franka sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir stefnanda. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Atvik máls
Aðilar máls þessa hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum frá árinu 2004 um fjármögnun á tækjum og bifreiðum sem stefnandi hefur nýtt í rekstri sínum, meðal annars með fjölda fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi átti þá frumkvæði að kaupum á ákveðnum tækjum og bifreiðum og leitaði til stefnda um fjármögnun þeirra. Kröfur stefnanda í máli þessu varða einn þessara samninga, fjármögnunarleigusamning nr. 144199-202, frá 13. nóvember 2007. Í samningnum er tilgreint að um fjármögnunarleigusamning sé að ræða og að hann sé gengistryggður. Stefndi er tilgreindur sem leigusali en stefnandi leigutaki. Samningsskilmálarnir eru tvíþættir. Annars vegar sérstakir skilmálar og hins vegar almennir skilmálar. Í sérstaka hlutanum er gerð grein fyrir samningsandlaginu, seljanda hins leigða, samningstíma, greiðslutilhögun og vátryggingum. Í hinum almenna hluta eru staðlaðir samningsskilmálar. Samkvæmt 1. gr. samningsins er hið leigða bifreiðin Renault At Midlum, ásamt kassa, lyftu og öðrum búnaði, fnr. EJ X88. Í 2. gr. kemur fram að leigugrunnur sé 8.104.122 krónur og er sú fjárhæð, án virðisaukaskatts, umreiknuð í erlenda gjaldmiðla, evrur, Bandaríkjadali, japönsk jen og svissneska franka. Í 3. gr. samningsins er seljandi bifreiðarinnar, B&L, tilgreindur, sem og Vélheimar ehf. sem selt hafi stefnanda aukahluti og fylgibúnað á bifreiðina. Samkvæmt 4. gr. er grunnleigutíminn frá 20. desember 2007 til 20. desember 2013. Gjalddagi fyrstu leigugreiðslu er 20. desember 2007, fjöldi greiðslna 73 og fjöldi mánaða 72. Í 5. gr. er greiðslutilhögun nánar lýst og í 6. gr. kemur fram að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum grunnleigutíma. Í 7. gr. er kveðið á um hjá hvaða vátryggingafélagi vélin skuli tryggð og með hvaða tryggingum. Í 10. gr. samningsins kemur fram að leigutaki greiði hlutaleigu að fjárhæð 77.870 krónur og að gjalddagi hennar sé 20. desember 2007. Gengi miðist við samningsdaginn, 7. nóvember 2007. Þá segir að LIBOR-vextir á samningsdegi séu 3,28% auk 1,85% álags. Að lokum er tiltekið að leigutaki hafi gert „endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda í ISK (krónur 3.687.744,- m.vsk). Þar sem leigugreiðslur eru gengistryggðar er ósamræmi í eftirstöðvum á sama tíma. Mismunur er gerður upp milli aðila beint.“ Í 12. gr. almennu skilmálanna er tekið fram að leigutaki geti ekki sagt leigusamningi upp á grunnleigutíma og að þeim tíma loknum framlengist hann ótímabundið. Leigutaki geti sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 14. gr. er fjallað um gengistryggingu og segir þar að leiga sem sé gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla sé tilgreind í íslenskum krónum. Leigugjald sé innheimt í íslenskum krónum. Við útreikning leigu skuli hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðlum samkvæmt ákvörðun stefnda við útgáfudag reiknings. Í 15. gr. segir að stefndi sé einn eigandi hins leigða. Í 16. gr. kemur fram að leigutaki velji hið leigða og annist skoðun þess eins og kaupanda sé skylt samkvæmt lögum. Þá segir að stefndi taki enga ábyrgð á leigumun og að leigugreiðslur skuli greiddar enda þótt hið leigða hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Í 17. gr. kemur fram að leigutaki beri áhættuna ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrni eftir að seljandi hafi afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum. Þá segir í 18. gr. að kostnaður sem falli til við pökkun og flutning hins leigða frá seljanda til leigutaka, sem og allur kostnaður við uppsetningu og frágang hins leigða á notkunarstað hjá leigutaka, sé á ábyrgð og kostnað hans. Þá greiði leigutaki allan kostnað sem falli til vegna skráningar og eigendaskipta jafnt við upphaf sem lok samningsins. Í 19. gr. kemur fram að leigutaka beri að greiða leigu enda þótt seljandi hlutar vanefni samning sinn við stefnda og/eða leigutaka. Þá segir í greininni að leigutaki geti átt rétt til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta eða endurgreiðslu ef vanefndir seljanda leiði til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi. Skuli sú fjárhæð koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu. Samkvæmt 20. gr. skal leigutaki annast allt viðhald og viðgerðir á leigumun á sinn kostnað. Samkvæmt 26. gr. skal leigutaki greiða alla skatta og opinber gjöld sem kunna að vera lögð á hið leigða.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort umræddur samningur sé lánssamningur í skilningi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eða leigusamningur. Stefnandi byggir á því að samningurinn sé lánssamningur og því hafi verið óheimilt að binda fjárhæð greiðslna samkvæmt honum við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi byggir hins vegar á því að samningurinn séu leigusamningar og falli sem slíkur utan gildissviðs laga nr. 38/2001.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því að samningur aðila nr. 144199-202 sé samkvæmt efni sínu lánssamningur í samræmi við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og að ákvæði hans um gengistryggingu séu því ólögmæt og ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Hvað sem líði heiti samningsins sé hann lánssamningur sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Stefnandi leggi áherslu á að framangreindur samningur sé aðeins einn af fjölmörgum sem aðilar hafi gert sín á milli en efni þessara samninga og form sé samhljóða. Til einföldunar hafi stefnandi kosið að höfða aðeins mál vegna samnings nr. 144199-202 en áskilji sér allan rétt til að höfða mál vegna annarra samninga síðar ef nauðsyn krefji. Stefnandi byggi á því að hann hafi ofgreitt stefnda og að útreikningur um eftirstöðvar samningsins sé of hár þar sem ólögmætt hafi verið að binda fjárhæð samningsins og afborganir af honum við gengi erlendra gjaldmiðla. Sama gildi um aðra fjármögnunarleigusamninga aðila. Stefnandi árétti að fyrir liggi tvö fordæmi Hæstaréttar Íslands fyrir því að fallast beri á kröfur hans í málinu. Stefnandi vísi um þetta til dóma réttarins í málum nr. 282/2011 og nr. 652/2011. Dómarnir styðji þann málatilbúnað stefnanda að samningur nr. 144199-202 sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Í forsendum dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011 komi fram að einn helsti munur á milli kaupleigusamninga og fjármögnunarleigusamninga sé að með kaupleigusamningi eignist leigutaki þann hlut sem sé andlag samningsins við lok samningstíma eða eigi kauprétt að honum. Við lok lágmarksleigutíma fjármögnunarleigusamnings verði leigutaki hins vegar ekki eigandi hlutarins, án þess að til frekari samninga komi. Skriflegt tilboð stefnda um fjármögnun frá 24. nóvember 2004, sem stefnandi hafi samþykkt, og viðskiptasaga aðila sýni svo ekki verði um villst að samningar aðila hafi verið um lán en ekki fjármögnunarleigu. Fyrir liggi dómar Hæstaréttar Íslands, meðal annars í málum nr. 153/2010 og nr. 92/2010, um að ólögmætt sé að gengistryggja greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum. Stefnandi byggi á því að ákvæði samningsins verði að virða í heild sinni í samræmi við samning aðila, tilboð stefnda frá árinu 2004 og í samræmi við fyrri viðskipti samningsaðila. Stefnandi vísi til forsendna í niðurstöðum fyrrgreindra dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 282/2011 og nr. 652/2011. Með hliðsjón af þeim beri að líta til þess að stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að kaupum á samningsandlaginu og hafi komið fram sem kaupandi gagnvart seljanda, B&L. Samningsverðið hafi verið ákveðið út frá fjármögnunarkostnaði stefnda en ekki út frá verðmæti samningsandlagsins. Greiðslur samkvæmt samningi aðila hafi borið vexti. Greiðsluskylda hafi ekki verið tengd afnotum samningsandlagsins. Ársreikningar stefnda beri ekki með sér að hann hafi bókfært andlög fjármögnunarleigusamninganna sem eign. Þá skyldi stefnandi eignast samningsandlagið við lok samnings. Hvað fyrsta atriðið varði þá telji stefnandi að eignarhald þriðja manns á samningsandlaginu fyrir gerð samningsins sýni fram á að samið hafi verið um lán til kaupa á samningsandlaginu. Aðstaðan sé ólík því sem tíðkist með leigusamninga því stefndi hafi keypt samningsandlagið að beiðni og frumkvæði stefnanda, gagngert í þeim tilgangi að fela stefnda umráð þess. Stefnandi og B&L hafi gert með sér kaupsamning og endurkaupasamning um ökutækið, sem kveðið sé á um í samningi aðila málsins, 1. nóvember 2007. Þess samnings sé getið í 10. gr. í samningi aðila. Stefnandi hafi valið ökutækið hjá B&L og síðan leitað til stefnda um fjármögnun kaupa á því. Stefndi hafi ekki komið að kaupum ökutækisins að öðru leyti en því að stefndi sé skráður kaupandi á reikningi B&L. Þetta sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist í leigusamningum. Megi helst líkja þessu við að stefndi hafi fengið eignarhald að tækinu sem tryggingu fyrir efndum stefnanda á lánssamningi um kaupin. Stefnandi vísi um þetta til forsendna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011, þar sem segi:
Er óumdeilt að varnaraðili hafi haft frumkvæði að kaupum á vinnuvél þeirri sem samningurinn varðaði og verður ekki séð að sóknaraðili hafi komið að kaupunum að öðru leyti en að hann var skráður eigandi til tryggingar efndum samningsins.
Samkvæmt 16. gr. skilmála samnings aðila beri stefnandi skyldur kaupanda samkvæmt lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Slíkt geti ekki átt við um leigusamninga. Í sama ákvæði segi að stefndi beri enga ábyrgð á leigumun, sbr. einnig 17. gr. skilmálanna. Þá beri stefnanda að greiða samningsfjárhæð enda þótt seljandi vanefni samning um sölu tækisins, sbr. 19. gr. skilmálanna. Stefnandi skuli annast allt viðhald og viðgerðir á tæki og greiða vátryggingar og skatta og gjöld, sbr. 20., 23. og 24. gr. skilmálanna. Ákvæði sem þessi tíðkist ekki í leigusamningum og styðji að samningur aðila sé lánssamningur. Stefnandi byggi í öðru lagi á því að „leiguverðið“ hafi verið ákveðið út frá kostnaði stefnda við fjármögnun kaupanna en ekki út frá raunverulegu verðmæti samningsandlagsins. Greiðslur stefnanda til stefnda hafi falið í sér endurgreiðslu á upphaflegum höfuðstól, það er, kaupverði ökutækisins, að viðbættum vöxtum og vaxtaálagi. Þetta fyrirkomulag svari til endurgreiðslu á láni en ekki leigu á ökutækinu. Hafi það verið stefndi sem hafi boðið upp á og auglýst svokallaða fjármögnunarleigu sem hagstæðan kost við fjármögnun. Stefndi hafi gert stefnanda tilboð 24. nóvember 2004 um „fjármögnunarkaup/kaupleigu“ og hafi í því tilboði enginn greinarmunur verið gerður á fjármögnunarleigu og kaupleigu. Stefnandi hafi fallist á það tilboð stefnda og þar með hafi komist á samningur milli aðila þess efnis sem í tilboðinu greini. Stefnandi kveðst frá þeim tíma hafa greitt stefnda lokagjald samninga og eignast tæki samkvæmt þeim samningum í lok samningstíma. Í sumum tilvikum fyrr með uppgreiðslu samninga og greiðslu lokagjalds. Réttarstaða stefnanda gagnvart stefnda hafi verið og sé enn hin sama hvort sem samningurinn hafi borið heitið fjármögnunarleigusamningur eða kaupleigusamningur. Þá hafi efnisleg meðferð kaupleigusamninga og fjármögnunarleigusamninga verið hin sama. Í báðum tilvikum hafi stefnandi orðið eigandi munar með greiðslu umsamins lokagjalds. Samningar aðila hafi verið útfærðir sem leigusamningar og hafi trygging stefnda fyrir endurgreiðslu verið í formi eigandaskráningar tækis. Loks sé vandséð hvaða hlutverki upplýsingar um leigugrunn hafi að gegna í samningi aðila, annað en að tilgreina höfuðstól lánsins. Ekki sé venja að tilgreina leigugrunn eða höfuðstól í leigusamningum líkt og nauðsynlegt sé að gera í lánssamningum. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að þar sem greiðslur samkvæmt samningi aðila beri vexti sé augljóst að greiðslurnar séu afborganir af láni en ekki leigugreiðslur, enda séu leigugreiðslur fyrir afnot leigumunar og beri ekki vexti. Í 10. gr. samningsins séu tilgreindir LIBOR-vextir á samningsdegi og vaxtaálag. Þá segi í 13. gr. samningsins að stefnda sé heimilt að endurreikna gengistryggðar leigugreiðslur samkvæmt breytingum á LIBOR-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem greiðslur séu tilgreindar í. Í greiðsluyfirliti sem hafi fylgt samningi aðila hafi greiðslum jafnframt verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar. Þessi tilgreining sýni að samið hafi verið um lán en ekki leigu. Stefnandi byggi í fjórða lagi á því að samkvæmt samningi aðila sé ekkert samhengi á milli greiðslna stefnanda annars vegar og afnota hans af samningsandlaginu hins vegar. Leigusamningar kveði á um gagnkvæmni milli skyldu leigusala til að láta í té afnotarétt af samningsandlaginu og skyldu leigutaka til að greiða leigu fyrir þau afnot. Í samningi aðila hafi greiðsluskylda stefnanda verið óháð afnotum hans af samningsandlaginu. Þannig sé gert ráð fyrir að stefnandi greiði leigu þó svo að seljandi vanefni samning sinn við stefnda, sbr. 19. gr. samningsins. Stefnanda sé gert að greiða leigu jafnvel þó leigumunur uppfylli ekki kröfur stefnanda um tækið eða vegna galla. Þá segi í skilmálunum að stefndi taki enga ábyrgð á leigumun, sbr. 16. gr. samningsins. Jafnframt komi fram að stefnanda sé skylt að greiða leigu til loka samningstímans þó svo að samningi sé rift eða honum sé slitið af öðrum ástæðum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 21. gr. samningsins. Frá uppgjöri skuli þó draga verðmæti leigumunar, sbr. 4. tl. 30. gr. samningsins. Það ákvæði sé mjög skýrt um raunverulegt eignarhald á leigumun. Væri um raunverulega leigu að ræða kæmi verðmæti leigumunar ekki til frádráttar kröfum stefnda og þá ætti stefndi ekki lögvarða kröfu til greiðslu ógjaldfallinnar leigu eftir riftun samnings. Þá segi í 30. gr. skilmálanna að myndist hagnaður hjá stefnda við uppgjör á leigusamningi, það er, verði verðmæti samningsandlags hærra en eftirstöðvar samnings, þá skuli sá mismunur tilheyra stefnanda. Eignamyndun á samningstíma tilheyri því stefnanda en ekki stefnda. Skylda stefnanda samkvæmt samningnum hafi ekki verið fólgin í því að greiða fyrir afnot ökutækisins heldur að endurgreiða það fé sem stefndi hafi lánað til kaupa á tækinu auk vaxta. Samningurinn sé því lánssamningur en ekki leigusamningur. Í fimmta lagi byggi stefnandi á því að samkvæmt ársreikningum stefnda hafi verið gengið út frá því að formleg skráning eignarhalds væri aðeins til tryggingar á efndum lánssamnings en fæli ekki í sér raunverulegt eignarhald. Þannig færi stefndi útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum til eignar í ársreikningum sínum en færi samningsandlögin sjálf ekki til eignar. Um þetta vísi stefnandi til skýringa með ársreikningum stefnda þar sem segi að útlán og kröfur feli í sér eignaleigusamninga félagsins við viðskiptavini um fasteignir, vélar og tæki og útlán í formi skuldabréfa. Stefnandi byggi á því í sjötta lagi að þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skilmála samningsins hafi verið samið um það í upphafi viðskipta aðila að stefnandi eignaðist ökutækið gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma. Í viðskiptum aðila hafi ávallt verið samið um það við upphaf viðskipta að stefndi gæfi út afsal til stefnanda fyrir tækjunum að samningstíma loknum gegn greiðslu stefnanda á lokagjaldi. Ljóst sé að samningur nr. 144199-202 sé um að eignarréttur bifreiðarinnar EJX-88 færist frá stefnda til stefnanda í lok samningstímans. Því til stuðnings vísi stefnandi meðal annars til 10. gr. samningsins sem kveði á um sérstaka skilmála. Þar komi skýrt fram að stefnandi hafi gert endurkaupa- og þjónustusamning við B&L. Sá samningur hafi verið gerður 1. nóvember 2007 og sé um kaup stefnanda á ökutækinu og um skyldu B&L til þess að kaupa ökutækið af stefnanda að nýju fyrir tiltekið verð, á tilteknum tíma og að tilteknum forsendum uppfylltum. Með tilgreiningu endurkaupasamningsins í fjármögnunarleigusamningi aðila hafi hann orðið hluti fjármögnunarleigusamningsins. Stefndi hafi því verið skuldbundinn til að standa við þá skyldu gagnvart stefnanda að færa bifreiðina í hans eigu í lok samningstímans, svo stefnandi gæti staðið við endurkaupasamninginn við B&L. Eðli málsins samkvæmt geti slík viðskipti ekki orðið milli stefnanda og B&L, ef eignarréttur tækisins sé enn í höndum stefnda þegar samningstími samnings nr. 144199-202 sé liðinn. Stefnandi geti ekki selt tæki sem hann eigi ekki. Af þeim sökum sé augljóst að gert hafi verið ráð fyrir, í samningi aðila, að stefnandi eignaðist tækið að samningstíma liðnum. Það sé í samræmi við skýran samning aðila frá 2004 um að stefnandi eignaðist tæki samkvæmt fjármögnunarleigu- og kaupleigusamningum með greiðslu lokagjalds. Samningur aðila sé skýr um eignarhald stefnanda á ökutæki við lok samnings og það ryðji til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. skilmálanna. Stefnandi árétti að hann hafi aldrei tekið tæki á leigu af stefnanda að loknum grunnleigutíma. Aðilar hafi samið um fjármögnun stefnda á bifreiðum og tækjum fyrir stefnanda í nóvember 2004. Samningurinn byggi á tilboði stefnda 24. nóvember 2004. Samningurinn geri ekki greinarmun á fjármögnunarleigu og kaupleigu og því gildi sömu skilmálar um þá samninga. Lykilatriði sé að aðilar hafi samið svo að stefnandi greiddi 1% lokagjald og yrði þá eigandi samningsandlags. Stefndi hafi skuldbundið sig til að afsala samningsandlagi til stefnanda í lok samnings gegn greiðslu 1% lokagjalds. Á árinu 2008 hafi fyrrgreindum samningi verið breytt á þann veg að lokagjald skyldi vera 2% en áfram 1% ef samningur yrði gerður upp ef liðinn væri skemmri tími en 24 mánuði af samningi. Samningur aðila frá 2004, með breytingu á árinu 2008, sýni svo ekki verði um villst að allir fjármögnunarleigusamningar aðila, og þar með samningur nr. 144199-202, hafi verið lánssamningar en ekki leigusamningar. Stefnandi vísi í þessu sambandi sérstaklega til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011, sem sé skýrt fordæmi fyrir því að samningar sem byggi á samkomulagi, eins og samkomulagi aðila frá 2004 og 2008, séu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Í dóminum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samningur sá sem málið varðaði væri fjármögnunarleigusamningur en ekki lánssamningur með eftirtöldum rökum:
Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðila.
Í því máli sem hér sé til umfjöllunar liggi fyrir skýr skriflegur samningur um að stefnandi eignist leigumun gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu við lok samningstíma og því sé framangreindur dómur skýrt fordæmi fyrir niðurstöðu í þessu máli. Stefnandi vísi þessu til stuðnings meðal annars til yfirlits frá stefnda 27. febrúar 2009 þar sem fram komi áramótastaða fjármögnunarleigusamnings nr. 144199-202. Í yfirlitinu séu eftirstöðvar samningsins sundurliðaðar eftir gjaldmiðlum og getið um fjárhæð lokagjalds. Að mati stefnanda taki þessi skjöl af öll tvímæli um að stefnandi verði eigandi bifreiðarinnar EJX-88 að samningstíma loknum, gegn greiðslu lokagjalds. Hvað þetta varði sé viðskiptasaga stefnanda og stefnda skýr. Í öllum tilvikum hafi stefnandi eignast tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum gegn greiðslu lokagjalds að samningstíma loknum. Það fyrirkomulag hafi haldist óbreytt þrátt fyrir að ágreiningur hafi verið uppi um þýðingu fjármögnunarleigusamninga stefnda og bendir stefnandi meðal annars á að stefndi hafi afsalað til hans tækjum gegn greiðslu umsamins lokagjalds á árinu 2012. Stefnandi leggi fram þessu til stuðnings reikning stefnda frá 23. febrúar 2012, nr. 11516651, vegna bifreiðarinnar VO-630 og tölvuskeyti starfsmanns stefnda frá 29. febrúar 2012. Þá leggi stefnandi fram yfirlit stefnda yfir stöðu fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamninga við stefnanda frá 31. desember 2008. Í þeim yfirlitum séu eftirstöðvar samninga tilgreindar og jafnframt hvert sé lokagjald samninga. Þá leggi stefnandi fram yfirlit stefnda yfir stöðu samninga við stefnanda í árslok 2009 og 2010. Stefnandi leggi jafnframt fram fjölda reikninga og afsala stefnda þar sem segi:
Með greiðslu á greiðsluseðli þessum ásamt eldri ógreiddum greiðsluseðlum, er ofangreindri bifreið/vinnuvél afsalað frá Lýsingu hf. til ofangreinds leigutaka.
Reikningar og afsöl sem stefndi hafi gefið út til stefnanda séu fleiri og stefnandi áskilji sér rétt til að leggja fram fleiri reikninga og afsöl, gefi málatilbúnaður stefnda tilefni til. Lykilatriði sé að samið hafi verið um það í upphafi að stefnandi eignaðist tækin með greiðslu umsamins lokagjalds og reikningar og afsöl hafi verið gefin út af stefnda í öllum tilvikum, á grundvelli samnings aðila. Stefnandi vísi jafnframt til framlagðra tölvupóstsamskipta aðila þar sem fram komi að fjármögnunarsamningur hafi verið færður á milli bifreiða og lúti samskipti að því að „færa lán á milli bíla“. Samskiptin lýsi í hnotskurn þeirri staðreynd að samningur aðila sé um lán en ekki leigu. Þá hafi stefnanda ávallt verið heimilt að greiða upp samninga við stefnda fyrir samningslok og fengið afsal fyrir tækjum gegn greiðslu lokagjalds. Stefnandi vísi þessu til stuðnings til tölvuskeytis stefnda, 21. maí 2008, þar sem fram komi að lokagjald sé lægra ef samningar séu greiddir upp áður en 24 mánuðir séu liðnir frá því þeir hafi tekið gildi. Eins og fram hafi komið hafi samningur aðila verið saminn einhliða af stefnda og þá sé stór hluti samningsins staðlaðir skilmálar stefnda. Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins. Samkvæmt reglunni skuli óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða sem ráðið hafi þeim atriðum til lykta sem ágreiningi valdi. Í samræmi við þetta skuli túlka löggerninga þeim aðila í óhag sem hefði átt að hlutast til um skýrara form samnings eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði, einkum ef hann hafi, líkt og stefndi, haft yfirburði við samningsgerðina, til dæmis með lögfræðilegri og annarri sérfræðilegri aðstoð. Það sé því einsýnt, að mati stefnanda, að stefndi verði að bera hallann af óljósum samningsákvæðum samnings nr. 144199-202, sem hafi ekki verið í samhengi við raunverulega framkvæmd og tilhögun samningssambands aðila vegna bifreiðarinnar EJX-88. Af þeim sökum verði að meta umræddan samning sem lánssamning samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001. Til þess að varpa enn skýrara ljósi á raunverulegt eðli fjármögnunarleigusamninga stefnda og þá samningsframkvæmd sem hafi gilt leggi stefnandi fram gögn um viðskipti stefnda við þriðja aðila til sönnunar því að frá öndverðu hafi verið um það samið að eignarréttur færðist frá stefnda til viðskiptamanna sinna með greiðslu lokagjalds. Stefnandi byggi enn fremur á því að yfirlýsingar stefnda gefi ótvírætt til kynna að í tilvikum fjármögnunarleigu hafi ætíð verið gengið út frá því að leigutaki tækja eignaðist tæki að samningstíma loknum. Á heimasíðu stefnda hafi inntak fjármögnunarleigu verið útskýrt með eftirfarandi hætti í nóvember 2006:
Fjármögnunarleiga. Lýsing kaupir og staðgreiðir tæki samkvæmt þinni ósk og þú leigir það af Lýsingu. Í lok grunnleigutíma, sem venjulega eru 36-60 mánuðir, átt þú kost á að kaupa tækið eða leigja þá áfram.
Og jafnframt:
Í lok grunnleigutíma tekur við ótímabundin framhaldsleiga, en jafnframt átt þú kost á því að kaupa tækið af Lýsingu á umsömdu verði, sem er yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni.
Um kaupleigusamninga hafi eftirfarandi komið fram:
Lýsing kaupir tækið og þú leigir það af okkur. Í lok leigutíma greiðir þú lokagjald og eignast tækið.
Sömu skýringar á fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum hafi verið að finna á heimasíðu stefnda á árunum 2008-2010. Ljóst sé að enginn munur hafi verið gerður á kaupleigu og fjármögnunarleigu. Þá vísi stefnandi til reiknivélar sem hafi verið á heimasíðu stefnda 1. mars 2005. Á því svæði heimasíðunnar hafi verið fjallað um lánsupphæð í umsókn um fjármögnunarleigu og 3% lokagjald tilgreint. Stefnandi vísi einnig til reiknivélar á heimasíðu stefnda 14. nóvember 2008 þar sem það sama hafi verið upp á teningnum og meðal annars fjallað um lánshlutfall í fjármögnunarleigusamningum. Jafnframt vísi stefnandi til umsóknar á heimasíðu stefnda um fjármögnun atvinnutækja. Umfjöllun á heimasíðunni sýni að átt hafi verið við lán en ekki leigu á tækjum. Stefnandi vísi enn fremur til blaðaviðtals við Svein Hannesson, þáverandi framkvæmdarstjóra stefnda, sem birst hafi í viðskiptablaði Morgunblaðsins 5. mars 1987. Í viðtalinu segi meðal annars:
Aðspurður segir Sveinn að viðskiptavinir Lýsingar geti bundið greiðslur við það hvenær viðkomandi tæki eða vél gefur af sér tekjur, þannig að mestur hluti leigunnar sé greiddur þegar tekjur koma inn. Eftir að leigutíma líkur (sic) getur leigutaki skilað tækinu, leigt það áfram fyrir 1/12 af upphaflegri leigu, eða nýtt forkaupsrétt og er þá almennt miðað við 3% hrakvirði
Að lokum vísi stefnandi til blaðaviðtals við Börk Grímsson, ráðgjafa á fyrirtækjasviði stefnda, sem birst hafi í 9. tölublaði Frjálsrar verslunar árið 2006. Þar segi meðal annars:
Fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. er ótímabundinn leigusamningur þar sem hið leigða er ekki eignarfært hjá leigutaka og hann gjaldfærir greidda leigu að fullu. Í lok leigutíma gefst leigutaka síðan kostur á að kaupa húseignina á lokaverði.
Með hliðsjón af framangreindum yfirlýsingum af hálfu stefnda og upplýsingum af heimasíðu hans liggi fyrir að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum hafi alltaf átt þess kost að kaupa samningsandlagið að samningstíma liðnum. Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að stefndi hafi í raun veitt stefnanda lán til kaupa á bifreiðinni EJX-88. Í lok samningstíma endurgreiði stefnandi lánið og bifreiðin færist formlega í hans eigu í samræmi við upprunalega fyrirætlun aðila og samning þeirra á milli. Megininntak samningsins sé að stefndi láni stefnanda fjármuni til kaupa á tæki. Stefndi fái lánið endurgreitt auk vaxta en trygging hans fyrir endurgreiðslu og greiðslu vaxta sé formleg skráning eignarhalds á ökutækinu. Ljóst sé að samningur aðila sé í eðli sínu mjög frábrugðinn leigusamningi og beri öll megineinkenni lánssamnings. Af þessum sökum telji stefnandi að leggja verði til grundvallar að samningur aðila, nr. 144199-202, sé lánssamningur í samræmi við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Að því virtu sé byggt á því að hálfu stefnanda að samningur aðila, nr. 144199-202, sé um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 282/2011 og VI. kafla laga nr. 38/2001. Höfuðstóll skuldarinnar sé tiltekinn í íslenskum krónum, kaupverð tækisins hafi verið í íslenskum krónum og afborganir inntar af hendi í íslenskum krónum. Á forsíðu samningsins sé auk þess tiltekið að samningurinn sé gengistryggður. Þá sé í 14. gr. samningsins kveðið á um að við útreikning afborgana skuli hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum samkvæmt ákvörðun stefnda við útgáfudag reiknings. Það bendi ótvírætt til þess að lánið hafi verið í íslenskum krónum enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt.
Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og því verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Verðtryggingarákvæði lánssamningsins við gengi erlendra gjaldmiðla séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda. Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um kröfu hans. Stefnandi leggi fram útreikning Deloitte á kröfu samkvæmt fjármögnunarleigusamningi nr. 144199-202 sem taki mið af því að gengistrygging samningsins sé ólögmæt. Um forsendur útreiknings Deloitte vísi til greinargerðar félagsins. Endurútreikningurinn byggi á lögum nr. 38/2001 og greinargerð Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 27. maí 2011 um endurútreikning gengistryggðra lána. Endurútreikningurinn sýni fram á lögvarða hagsmuni stefnanda af úrlausn málsins. Eftirstöðvar samningsins samkvæmt honum nemi nú 738.950 krónum en staða kröfunnar samkvæmt útreikningum stefnda sé nú 8.477.972 krónur. Um lagarök vísi stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna. Þá vísi stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar. Um málskostnaðarkröfu vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðaryfirlit verði lagt fram við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi kveður þá málsástæðu stefnanda, að umþrættur fjármögnunar-leigusamningur aðila sé lánssamningur en ekki leigusamningur, ekki standast sökum þess að í nýlegum dómi Hæstaréttar Íslands frá 24. maí 2012, í máli nr. 652/2011, hafi verið fjallað um samskonar samningsform og hafi niðurstaðan verið sú að samningurinn í því máli væri leigusamningur. Í forsendum dómsins hafi komið fram að stöðluð ákvæði samningsins hafi verið skýr og hafi eingöngu átt við um fjármögnunarleigusamninga. Einnig komi fram í dóminum að í samningi aðila hafi verið fjallað um leigu og hafi stefndi þessa máls þar ítrekað verið nefndur leigusali. Stefnandi þessa máls virðist aðallega byggja á sömu málsástæðum og hafðar hafi verið uppi af hálfu stefnanda í fyrrgreindu máli. Stefndi telji því að það liggi beinast við að sýkna hann í þessu máli. Hvað varði tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011 þá sé í þeim dómi fjallað um samningsform Glitnis hf. og hafi sá dómur ekki fordæmisgildi varðandi samninga stefnda. Mun eðlilegra sé að taka mið af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Í þeim dómi sé fjallað um fjármögnunarleigusamningsform stefnda og fram komi að það form sé mun skýrara en samningsform Glitnis hf. Jafnframt kemur fram að ákvæði fjármögnunarleigusamnings stefnda eigi einungis við um fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi haldi því fram að réttarstaða hans gagnvart stefnda hafi verið og sé hin sama, hvort sem um sé að ræða fjármögnunarleigusamninga eða kaupleigusamninga. Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu enda séu þetta tvær ólíkar tegundir eignaleigusamninga, sbr. skilgreiningar stefnda á þessum samningstegundum á framlögðum útprentunum af heimasíðu hans. Þá byggi stefnandi á því að samningur aðila hafi verið útfærður sem leigusamningur og viðurkenni þar með að samningurinn sé um leigu. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga. Eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir, þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu gegn lækkuðu leigugjaldi. Í lögum um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem starfsemi samkvæmt eignarleigusamningi sem feli í sér að leigusali afsali að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Eins og í öðrum leigusamningum þá haldist eignarrétturinn hjá leigusala á grundvelli fjármögnunarleigusamninga. Framhaldsleiga taki svo við að loknum grunnleigutíma nema leigutaki kjósi að skila hinu leigða. Þá komi skýrt fram í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 að löggjafinn líti ekki á fjármögnunarleigu sem útlánastarfsemi. Í 2. tl. séu taldir upp þættir sem falli undir útlánastarfsemi og fjármögnunarleiga sé ekki talin þar á meðal. Fjármögnunarleiga sé hins vegar skilgreind í 3. tl. sem ein tegund af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Forsaga laganna styðji þetta sjónarmið. Sama aðgreining sé gerð á útlánum og fjármögnunarleigu í viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC. Samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga og sé mjög skýrt fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til að samið sé um leigu. Samningsformið hafi upphaflega verið samið eftir norskri fyrirmynd um fjármögnunarleigusamninga og byggi á alþjóðlegum viðmiðunum um slíka samninga. Lagt sé fram í málinu sýnishorn af dönskum og norskum fjármögnunarleigusamningum. Þetta séu þau form sem almennt séu notuð af eignaleigufyrirtækjum í þessum löndum. Þau byggi á sömu grunnsjónarmiðum og form stefnda. Um fjármögnunarleigusamninga gildi ýmiss konar lagaákvæði og margs konar réttaráhrif séu tengd þessari tegund samninga. Þessi tegund leigusamninga hafi ýmis sérkenni sem greini hana frá öðrum tegundum leigusamninga, sem og frá lánssamningum. Sá samningur sem deilt sé um í þessu máli hafi öll einkenni fjármögnunarleigusamnings, hvað varði form, hugtakanotkun og efnislegt innihald. Ljóst sé að stefnandi hafi kosið að tryggja sér afnot af umræddri bifreið með fjármögnunarleigusamningi við stefnda en ekki með annars konar fjármögnun. Val á þessari samningstegund hafi byggst á fjölmörgum öðrum þáttum en beinum útgjöldum, svo sem þeim mun sem sé lögum samkvæmt á bókhaldslegri og skattalegri meðferð mismunandi samningstegunda. Því verði að skoða í heild réttaráhrif þess, verði lagaákvæðum um önnur samningsform en leigu beitt um þessa fjármögnunarleigusamninga. Stefndi byggi á því að lög nr. 3/2006 um ársreikninga og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar bendi til þess að fjármögnunarleigusamningsform stefnda sé leigusamningur. Samningsformið uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast leigusamningur samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17 sem hafi lagagildi hér á landi. Í lögum nr. 3/2006 komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 19. júlí 2002, nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu skilgreindir í 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 sem reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hafi samþykkt. Reglugerðin sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Í 7. tl. reglugerðarinnar sé fjallað um IAS alþjóðlegu reikningsskilastaðlana. Í 7. gr. EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, komi fram að gerðir sem vísað sé til eða séu í viðaukum við samninginn eða í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila og skuli teknar upp í landsrétt. Markmið með framangreindri reglugerð sé, samkvæmt orðalagi hennar, að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem tiltekin félög setji fram, til að tryggja gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins. Í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 komi fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um alþjóðlega reikningsskilastaðla sem hafi verið samþykktir samkvæmt 3. gr. fyrrgreindrar reglugerðar nr. 1606/2002. Á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 hafi ráðherra sett fjölda reglugerða um alþjóðlega reikningsskilastaðla, þar á meðal reglugerð nr. 1133/2007, sem varði meðal annars alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 17 um leigusamninga. Í 4. gr. staðalsins sé fjármögnunarleiga skilgreind á eftirfarandi hátt:
Fjármögnunarleiga er leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignarréttur kann eða kann ekki að færast á milli aðila að lokum.
Fjölmörg atriði staðalsins sýni fram á það ótvírætt að fjármögnunarleigusamningur stefnda sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Túlkanir með reikningsskilastöðlum bendi einnig til þess að fjármögnunarleigusamningsform stefnda sé leigusamningur og megi í því sambandi nefna túlkunina IFRIC 4, ákvörðun um hvort samningur innihaldi leigusamning, og túlkunina SIC27, mat á inntaki viðskipta þegar um leigusamning sé að ræða í lagalegum skilningi. Stefndi byggi á því að tilvísun ársreikningalaga í reglugerð og alþjóðlega reikningsskilastaðla myndi heild sem hafi lagagildi á Íslandi. Í því sambandi vísi stefndi til 3. gr. laga nr. 2/1993 þar sem fram komi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Samkvæmt þessu ákvæði verði ekki hjá því komist að túlka hugtökin leigusamningur og fjármögnunarleigusamningur í samræmi við ákvæði IAS 17 í íslenskum rétti. Það leiði síðan tvímælalaust til þess að fjármögnunarleigusamningur stefnda teljist vera leigusamningur. Hvað þetta varði vísi stefndi enn fremur til reglunnar um einsleitni í EB-rétti. Ekki skuli aðeins sömu reglur gilda, heldur skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES-svæðinu öllu. Stefndi byggi á því að meginreglan um einsleitni og sjónarmið Evrópuréttarins um sjálfstæða skýringu hugtaka eigi að leiða til þess að á Íslandi verði notast við þá skilgreiningu á hugtakinu leigusamningur sem sé að finna í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 79/2010 sé komið inn á framangreind sjónarmið og tekið fram að slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði, svo sem framast sé unnt, gefin merking sem rúmist innan þeirra og komist næst því að svara til sameiginlegra reglna sem eigi að gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tengslum við rekstur máls nr. 652/2011 fyrir Hæstarétti Íslands hafi stefndi látið nokkrar af stærstu endurskoðunarstofum landsins vinna fyrir sig álit um það hvort fjármögnunarleigusamningsform stefnda geti talist vera fjármögnunarleigusamningur í samræmi við staðal IAS 17. Álit allra endurskoðunarstofanna hafi verið á þá leið að fjármögnunarleigusamningsform stefnda félli undir staðalinn um leigusamninga og væri þannig leigusamningur. Þegar erlendir bankar og fjárfestar eigi viðskipti hér á landi eigi þeir að geta treyst því að hér sé farið eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Ísland hafi innleitt á grundvelli EES-samningsins og að þeir geti tekið viðskiptalegar ákvarðanir út frá því. Til að mynda sé aðallánveitandi stefnda þýskur banki sem gangi út frá þessu sem vísu. Stefndi mótmæli því að stefnandi hafi fært rök fyrir því að hinn umþrætti samningur aðila sé lánssamningur en ekki leigusamningur. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur um að annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Lánssamningur sé það hins vegar kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka samkvæmt ákvæðum samningsins. Þeir lánssamningar sem falli undir lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu lánssamningar um peninga eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna. Í lögunum komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar. Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum megi ráða að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings. Til að mynda heiti samningurinn fjármögnunarleigusamningur og í honum sé kveðið á um leigusala og leigutaka. Gerð sé grein fyrir leigumun sem hinu leigða, leigugrunni, grunnleigutíma, framhaldsleigu og greiðslutilhögun leigu. Á bakhlið samningsins sé sama orðnotkun og á framhlið og þannig ávallt gengið út frá því að samningurinn sé um leigu. Eins og fram hafi komið hafi í dómi Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 652/2011, verið komist að þeirri niðurstöðu að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Virðisaukaskattur leggist ofan á einstakar leigugreiðslur fjármögnunarleigusamninga en slíkt tíðkist ekki í lánssamningum. Skattyfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Ákvarðandi bréf RSK nr. 273/1991 gefi skýrt til kynna að samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum. Stefndi hafi í upphafi greitt seljanda virðisaukaskatt af kaupverðinu og gengið út frá því að hann innheimti virðisaukaskattinn til baka í gegnum leigugreiðslur út grunnleigutímann. Gangi það ekki eftir sé það breyting á þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við samningsgerðina. Aðilar hafi verið sammála um að greiða skyldi virðisaukaskatt af leigugreiðslum. Þá hafi stefnandi innskattað virðisaukaskatt af leigugreiðslum í bókhaldi sínu. Allar þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst miðist við þann gagnkvæma skilning aðila að samið hafi verið um leigu. Í Danmörku gildi sömu reglur og hér um það að virðisaukaskattur leggist ofan á leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum, sbr. 1. tl. 4. gr. danska samningsformsins. Þegar eign sé keypt með láni eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra í skattskilum sem fyrningu á þeim árum sem eign sé notuð við öflun tekna en leigu megi gjaldfæra við notkun. Grundvallarmunur sé þannig á skattalegri meðferð lánasamninga og leigusamninga. Leigugjaldið sé frádráttarbært til skatts sem hver annar rekstrarkostnaður og það skapi leigutaka að jafnaði talsvert hærri skattfrádrátt en afskriftir af keyptum hlut, það er, sé leigutíminn styttri en afskriftartími hlutar. Gjaldfærsluleiðin sé einmitt einn helsti kostur leigusamninga, það er, að geta gjaldfært leigugreiðslur í gegnum rekstrarreikning og halda fjármögnun utan efnahagsreiknings. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur í raun og samkvæmt skattskipum hjá leigusala og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Framangreinda kosti fjármögnunarleigusamninga hafi stefnandi þekkt vel enda hafi hann haft margra ára reynslu af þessu leiguformi þegar hann hafi undirritað hinn umþrætta fjármögnunarleigusamning. Stefnandi byggi á því gagnvart stefnda að fjármögnunarleigusamningurinn sé lánssamningur í þeirri von að það skapi honum rétt til endurreiknings og lækkunar á leigu en hann byggi á því gagnvart skattayfirvöldum að samningurinn sé leigusamningur. Stefnandi eigi ekki að geta komist upp með það að kalla fjármögnunarleigusamninginn ýmist leigusamning eða lánssamning eftir því hvað honum henti hverju sinni. Komist hann upp með það auðgist hann á ólögmætan hátt. Í framlögðum ársreikningum stefnanda, vegna áranna 2011-2012 og 2010-2011, séu eignaleigusamningar í reikningsskilum stefnanda skilgreindir sem leigusamningar. Eftirfarandi skýringu megi finna á blaðsíðu 8 í ársreikningunum:
Leigusamningar: Fjármögnunarleigusamningar sem færa áhættu og ávinning sem fylgir eignarhaldi á eigninni til félagsins, eru eignfærðir í upphafi leigutímans á gangvirði hins leigða eða núvirði lágmarks leigugreiðslna, ef það er lægra.
Skilgreiningin sé í samræmi við 20. gr. skilmála IAS 17 staðalsins. Rökin fyrir því að færa þetta á þennan hátt í reikningsskilum komi fram í 21. gr. staðalsins en þar sé tiltekið að í tilviki fjármögnunarleigu fái leigutakinn efnahagslegan ávinning af notkun leigðu eignarinnar megnið af hagrænum endingartíma hennar, gegn því að skuldbinda sig til að greiða fyrir þennan rétt fjárhæð sem, þegar leigusamningurinn sé gerður, svari til um það bil gangvirðis eignarinnar og tengds fjármagnskostnaðar. Þetta þýði með öðrum orðum að með fjármögnunarleigusamninginn sé farið sem leigusamning í reikningsskilum stefnanda og leigugreiðslur séu gjaldfærðar. Málsástæða stefnda, um að samningur aðila sé dulbúinn lánssamningur, standist engan veginn í ljósi þess að stefnandi færi samninginn sem leigusamning í ársreikningi sínum og gjaldfæri leigugreiðslurnar. Þá haldist eignarréttur hjá leigusala allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímanum samkvæmt ákvæðum fjármögnunarleigusamnings. Leigusali hafi þær heimildir yfir hinu leigða sem teljist til grunneignarréttar eins og að geta selt eða veðsett eignarrétt sinn. Stefnandi vísi til 17. gr. skilmála fjármögnunarleigusamningsins sem kveði á um að leigutaki beri áhættuna af því, farist hið leigða, skemmist eða rýrni, eftir að seljandi hafi afhent hið leigða. Stefnandi telji að þetta bendi til þess að samningur aðila sé um lán, sökum þess að slíkt tíðkist ekki í leigusamningum. Stefndi bendi hins vegar á að frá þeirri meginreglu verði vikið með samkomulagi eins og gert sé í samningi aðila. Í fjármögnunarleigusamningum, eins og þeim sem fjallað sé um í þessu máli, sé nærtækara að kveðið sé á um að umráðamaður leigumunar beri ábyrgðina á framangreindum þáttum. Það leiði til þess að hann passi betur upp á leigumuninn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á það að leigutaki beri ábyrgð á því að greiða vátryggingariðgjöld af bifreiðinni, sbr. 23. gr. samningsins, og að hann beri ábyrgð á meðferð bílsins, sbr. 20. gr. samningsins. Ákvæði 17. gr. skilmálanna sé hefðbundið ákvæði í fjármögnunarleigusamningum. Til að mynda hafi verið kveðið á um þetta fyrirkomulag í skilgreiningu á fjármögnunarleigu samkvæmt 1. gr. laga nr. 19/1989, sem nú hafi verið felld úr gildi. Í 3. gr. IAS 17 staðalsins sé fjármögnunarleiga einnig skilgreind með þeim hætti að með samningnum sé svo til öll áhætta og allur ávinningur sem fylgi eignarhaldi yfirfærð á leigutaka. Ákvæði 17. gr. skilmála samnings aðila sé því í fullu samræmi við alþjóðlegt fyrirkomulag og fyrrgreindan staðal IAS 17. Ákvæðið sé jafnframt í samræmi við norræna fjármögnunarleigusamninga, sbr. 9. og 10. gr. í danska samningsforminu og 5. mgr. 12. gr. í norska samningsforminu. Leigutíminn taki til mikils hluta af endingartíma bifreiðarinnar og áhætta varðandi viðhald og meðferð verði þannig meiri en varðandi til að mynda fasteignir. Það gefi auga leið að ekki sé hægt að hafa þetta á annan veg en gengið sé út frá í 17. gr. í samningi aðila. Á framhaldsleigutíma sé leigugjald oft tólf sinnum lægra en á grunnleigutíma. Það myndi aldrei ganga upp bæri leigusali alla ábyrgð á ástandi úr sér gengins leigumunar. Þá þyrfti leigugjaldið einfaldlega að vera hærra. Aðilar hafi hins vegar ekki samið um að fara þá leið. Til samanburðar séu samskonar reglur um ábyrgð á skemmdum í ákvæðum staðlaðra samninga bílaleigufyrirtækja og séu slíkir samningar óumdeilanlega leigusamningar. Hvað varði tilvísun stefnanda til 26. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila, um að óeðlilegt sé að stefnandi greiði skatta og gjöld af leigumun, þá sé ekkert óeðlilegt við það ákvæði enda umsamið á milli aðila. Í ákvæðinu komi meðal annars fram að leigutaki eigi að greiða lögreglusektir. Ekki sé hægt að réttlæta að leigusali greiði slíkar sektir. Stefnandi leggi mikið upp úr því að hann hafi haft frumkvæði að því að velja leiguandlagið hjá söluaðila og komið fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Stefndi telji að þetta atriði geti ekki skipt máli í því sambandi, hvort líta beri á samning aðila sem leigusamning eða lánssamning enda algengt að sá háttur sé hafður á varðandi fjármögnunarleigusamninga að leigutakinn velji leiguandlagið, sem hann vilji taka á leigu hjá fjármögnunarleigufyrirtæki. Þannig hafi aðstaðan til dæmis verið í máli samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Það sé hins vegar röng fullyrðing í stefnu að stefndi hafi komið fram sem kaupandi gagnvart seljanda því stefndi hafi keypt tækin af seljanda þeirra og hafi eignarrétt yfir þeim. Beinlínis sé gert ráð fyrir því í samningi aðila að stefnandi velji leigumuninn en í því sambandi megi vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. einnig b-c liði 2. gr. danska fjármögnunarleigusamningsformsins. Stefnandi vísi einnig til þess að leiguverð hafi verið ákvarðað á grundvelli fjármögnunarkostnaðar en ekki á grundvelli verðmætis samningsandlagsins. Stefnandi telji þetta benda til þess að leiguverð sé í raun endurgreiðsla á láni en ekki leiga. Stefndi fullyrði hins vegar að þetta fyrirkomulag sé alþekkt í fjármögnunarleigusamningum á alþjóðavísu. Í því sambandi megi vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. e-lið 2. gr. danska fjármögnunarleigusamningsformsins. Stefnandi telji að vandséð sé hvaða hlutverki upplýsingar um leigugrunn hafi að gegna í samningi aðila, annað en að tilgreina höfuðstól láns. Stefnandi misskilji hins vegar hugtakið leigugrunnur og vísist um það til réttrar skilgreiningar á hugtakinu síðar í umfjöllun stefnda. Þess megi geta að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 sé fjallað um það í forsendum dómsins að leigugrunnur komi fram í 2. gr. samnings aðila. Í dóminum komi einnig fram að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi byggi á því að ákvæði í skilmálum samnings aðila um vexti bendi til þess að samningurinn sé lánssamningur. Stefndi mótmælir þessu. Hinn umþrætti samningur aðila beri alls ekki vexti. Tilvísun til vaxta sé einungis sett fram sem viðmiðun fyrir ákvörðun leigugreiðslna en breyti ekki skýru inntaki samningsins sem sé, samkvæmt formi og efni, dæmigerður fjármögnunarleigusamningur. Í 10. gr. samningsins komi fram hvaða vaxtaviðmið hafi verið notast við, þegar leigugreiðslur hafi verið ákvarðaðar í upphafi. Þetta sé sambærilegt við það þegar grunnvísitölu sé getið í hefðbundnum húsaleigusamningum. Í 2. mgr. 13. gr. samningsins sé síðan tekið fram að stefnda sé heimilt að endurreikna leigugreiðslur samkvæmt breytingum sem verði á LIBOR-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Hækki eða lækki LIBOR-vextir hafi það síðan áhrif á fjárhæð einstakra leigugreiðslna. Í fjármögnunarleigusamningnum sé byggt á ákveðnum leigugrunni sem taki mið af breytingum út frá gengi tiltekinna gjaldmiðla og LIBOR-vöxtum. Leigutaki greiði leigugreiðslur á grundvelli þess leigugrunns auk virðisaukaskatts á hverja greiðslu. Vaxtaviðmiðið sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Heildarleiguverðið eigi síðan að miðast við það að þegar tiltekinn lágmarksleigutími sé liðinn hafi leigusali fengið greitt til baka, því sem næst kaupverðið, ásamt kostnaði, og þeirri ávöxtun sem leigusalinn telji sig þurfa, sbr. skilgreiningu á vöxtum í 4. gr. og d-lið 10. gr. IAS 17 staðalsins. Í fjármögnunarleigusamningi aðila komi þannig ekkert fram um að leigugreiðslur beri vexti heldur sé byggt á ákveðnum leigugrunni, sem taki mið af því að við ákvörðun leigugjalds og lágmarksleigutíma hafi stefndi fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, sem stefndi þurfi að greiða á leigutímanum vegna eigin fjármögnunar á leiguandlaginu hjá erlendum fjármögnunaraðilum sínum. Vextir bætist því ekki við einstakar leigugreiðslur heldur sé vaxtakostnaður stefnda innbyggður í leigugjaldið. Um sambærilegt fyrirkomulag vísi stefndi í 37. gr. laga nr. 36/1994 um húsaleigu. Stefndi vísi einnig í dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 98/1978. Þessi tenging sé ekkert óeðlilegri en þegar húsaleigusamningar séu tengdir hækkunum sem verði á neysluvísitölu frá ákveðinni grunnvísitölu við upphaf leigutíma. Þegar alþjóðlegir LIBOR-vextir hækki hafi það áhrif á fjármögnunarkostnað stefnda gagnvart erlendum fjármögnunaraðilum og þar með á leigugrunninn sem verði til þess að einstakar leigugreiðslur hækki. Stefndi hefði eins getað áætlað ávöxtunarkröfu inn í leigugreiðslur strax frá upphafi og jafnframt metið til fjár þá áhættu sem hann hefði af mögulegum gengisbreytingum og vaxtahækkunum. Samningsaðilar hafi hins vegar kosið að koma þessari áhættu inn í samninginn, með þeim hætti sem gert hafi verið, enda hefði stefnandi notið góðs af því ef þróun gengis og vaxta hefði orðið með gagnstæðum hætti. Þá sé ekkert sem banni stefnda að áskilja sér breytingar á fjárhæð leigugreiðslna á þann hátt að hækkun á LIBOR-vöxtum, á tilgreindum myntum, hafi áhrif á leigugreiðslur til hækkunar. Megi í því sambandi vísa til síðustu mgr. 4. gr. og 5. gr. IAS 17 staðalsins. Samkvæmt ákvæðinu sé gert ráð fyrir samskonar breytingum á leigufjárhæðum og sé það kallað skilyrt leiga. Samkvæmt skilgreiningu sé það sá hluti leigunnar sem ekki sé föst fjárhæð heldur hluti leigunnar sem miðist við aðra þætti en framrás tímans eingöngu. Sambærileg ákvæði um vaxta- og gengisviðmið megi einnig finna í öðrum norrænum samningsformum um fjármögnunarleigu. Í því sambandi megi vísa í 2. tl. e. 1. gr. og 2.-3. tl. 4. gr. í danska samningsforminu og í 5. gr. og 9. gr. norska samningsformsins. Jafnframt skuli tekið fram að ákvæði um vexti séu ekki á greiðsluseðlum sem stefndi sendi stefnanda enda beri einstakar leigugreiðslur ekki vexti. Sé horft til framangreindra sjónarmiða og ákvæða alþjóðlegra reikningsskilastaðla þá bendi heimildir stefnda til að hækka leigugreiðslur í samræmi við hækkanir á LIBOR-vöxtum ekki til þess að samningur aðila sé lánssamningur frekar en leigusamningur. Sér í lagi ekki, ef horft sé til forms og efnis samningsins í heild. Stefnandi byggi á því að á greiðsluyfirlitum hafi greiðslum verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar og telji hann að slík tilgreining eigi við um lán en ekki leigu. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi samskonar málsástæða ekki fengið brautargengi. Það sé ekkert óeðlilegt að tilgreina afborgunarhlutann, sem sé einn þáttur í heildarleiguverðinu, sbr. framangreinda umfjöllun. Eftirstöðvatalan sýni núvirði eftirstöðva af heildarleigugreiðslum á grunnleigutíma samkvæmt fjármögnunarleigusamningum aðila, áður en framhaldsleiga hefjist. Stefndi telji að slík upplýsingagjöf sé ekkert óeðlileg, hvað leigusamninga varði. Í 20. gr. IAS 17 staðalsins sé til að mynda gengið út frá því að þessa fjárhæð þurfi að tilgreina í efnahagsreikningi í reikningsskilum leigutaka. Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að samningsgreiðslur samkvæmt samningi aðila séu ekki tengdar afnotum og það bendi til þess að samningurinn sé ekki um leigu. Það sé ekkert óeðlilegt við ákvæði 19. gr. samningsins um að stefnandi þurfi að greiða leigu jafnvel þótt seljandi vanefni samning sinn við stefnda. Stefnanda virðist hafa yfirsést að það gæti leitt til lækkunar á leigu, eins og skýrt komi fram í ákvæðinu. Ákvæði 16. gr. samningsins, um að leigusali taki ekki ábyrgð á leigumun, sé heldur ekki óeðlilegt enda sé það leigutaki sem velji leigumuninn en ekki leigusali. Ákvæði 16. og 19. gr. samningsins séu í samræmi við skilgreiningu á fjármögnunarleiguhugtakinu í 4. og 8. gr. IAS 17 staðalsins, sem kveði á um að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta, sem fylgi eignarhaldi, sé yfirfærð á leigutaka. Einnig megi vísa til 5. tl. 4. gr. og 7. gr. danska samningsformsins. Jafnvel þótt ákvæði 1. tl. 30. gr. samnings aðila, um að leigusali geti krafið leigutaka um alla ógjaldfallna leigu við riftun, sé óhefðbundið í leigusambandi sé ekkert sem banni það. Horfa verði á ákvæðið með hliðsjón af öðrum ákvæðum 30. gr. samningsins. Við riftun fari fram heildaruppgjör milli aðila og í því felist meðal annars að draga skuli verðmat hins leigða frá skuld leigutaka. Taka þurfi mið af því við skýringu þessa ákvæðis að oft á tíðum séu leiguhlutir sérhæft lausafé sem úreldist hratt og erfitt sé að endurleigja. Því sé nauðsynlegt að hafa ákvæði í samningi á þá leið að leigutaki verði að greiða ógjaldfallna leigu til að minnka líkur á því að leigusali verði fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna vanefnda leigutaka. Inn í þetta spili að í mörgum tilvikum sé hið leigða í mjög slæmu ástandi við riftun og vörslusviptingu og leiga til þriðja aðila því ómöguleg. Hugsunin sé því að stefndi geti krafið um áframhaldandi leigu sem ígildi skaðabóta í formi efndabóta innan samninga vegna samningsrofa. Í efndabótakröfunni felist að staða leigusalans verði eins og samningurinn væri efndur að fullu, þannig að leigusalinn fái ígildi framtíðarleigugreiðslna að frádregnu verðmæti leigutækisins. Í ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994 sé tekið undir þessa túlkun. Uppgjörsreglur vegna vanskila í umræddum samningi séu þær sömu og í 15. gr. danska samningsformsins og í 7. gr. norska samningsformsins. Stefndi mótmæli einnig þeirri málsástæðu stefnanda að það bendi til þess að samningur aðila sé um lán að stefndi færi útlán og kröfur, samkvæmt samningnum, til eignar í ársreikningum sínum en ekki samningsandlagið sjálft. Stefndi færi fjármögnunarleigusamninga í reikningsskilum sínum í samræmi við IAS 17 staðalinn. Í 36.-37. gr. staðalsins komi fram að í tilviki fjármögnunarleigusamninga skuli leigusalar færa eignir, sem þeir hafi í útleigu samkvæmt fjármögnunarleigu, í efnahagsreikning sinn og tilgreina þær sem kröfur með fjárhæð sem sé jafnvirði hreinnar fjárfestingar í leigusamningnum. Í 37. gr. staðalsins komi fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að samkvæmt fjármögnunarleigu afsali leigusali sér að verulegu leyti allri áhættu og ávinningi sem fylgi lagalegu eignarhaldi. Þess vegna fari leigusali með leigukröfuna eins og endurgreiðslu á höfuðstól og fjármagnstekjur sem hann fái sem endurgreiðslu og ávinning fyrir fjárfestingu sína og þjónustu. Í framlagðri álitsgerð PWC komi fram að stefndi færi viðkomandi fjármögnunarleigusamning rétt í bókum sínum. Sama niðurstaða sé í framlögðu áliti KPMG.
Stefnandi byggi á því að aðilar hafi samið um að stefnandi eignaðist ökutækið gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans, þrátt fyrir að í samningnum séu engin ákvæði sem að því lúti. Stefndi hafni því sem röngu og ósönnuðu. Stefndi byggi á því að í 12. gr. samningsins sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningurinn ótímabundið, sbr. 6. gr. samningsins. Í lok 12. gr. komi fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Með þessum hætti sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumuninn á framhaldsleigu allt þar til að leigumunurinn sé orðinn úr sér genginn eða ónothæfur. Það sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum, sem kveði að jafnaði á um að leigutaki verði eigandi hins leigða í lok leigutímans. Í c-lið 11. gr. IAS 17 staðalsins komi fram að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Það sé viðurkennd regla í kröfurétti að sá sem haldi öðru fram en komi fram í samningi aðila beri sönnunarbyrði fyrir því. Í þessu máli liggi ekki fyrir nein sönnun þess að stefnandi hafi átt að eignast ökutækið við lok grunnleigutíma leigusamningsins. Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi í sérákvæði sem hann hafi óskað eftir að yrði sett inn í 10. gr. fjármögnunarleigusamningsins, sem kveði á um að leigutaki hafi gert endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda bifreiðarinnar. Sá samningur hafi verið lagður fram en þar komi ekkert fram um að stefndi sé á neinn hátt bundinn við þann samning. Stefndi byggi á því að hann sé á engan hátt bundinn af samningnum. Samningurinn sé einungis á milli stefnanda og þriðja aðila og taki til endurkaupa eignist stefnandi bifreiðina síðar meir. Réttarsambandið á milli stefnanda og stefnda byggist hins vegar á 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamningsins sem kveði skýrt á um að framhaldsleiga taki við að grunnleigutíma loknum. Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt skuldbundið sig til að selja stefnanda bifreiðina að grunnleigutíma loknum. Þá sé grunnleigutími fjármögnunarleigusamningsins til 19. desember 2013 en samningur stefnanda við seljanda bifreiðarinnar hafi runnið út í nóvember 2012 án þess að reynt hafi á ákvæði hans um endurkaup. Endurkaupasamningurinn sé því fallinn úr gildi, sbr. 7. gr. samningsins. Það sé rökleysa af hálfu stefnanda að halda því fram að samið hafi verið um að stefndi framseldi stefnanda bifreiðina í desember 2013 til þess að stefnandi gæti staðið við samning sem hafi runnið út ári áður. Til staðfestingar á því að bifreiðin sé enn í eigu stefnda leggi hann fram útprentun úr ökutækjaskrá þar um. Stefnandi byggi jafnframt á því að í gildi sé skýr samningur aðila um fjármögnun frá 2004, sem byggi á tilboði stefnda frá 24. nóvember 2004. Í samningnum komi fram að stefnandi eignist tæki samkvæmt fjármögnunarleigu- og kaupleigusamningum með greiðslu lokagjalds. Stefnandi telji þennan samning ryðja til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. skilmála fjármögnunarleigusamningsins. Í fyrsta lagi sé enginn slíkur samningur til á milli aðila. Það verði að gera þá lágmarkskröfur til stefnanda að ætli hann að byggja á samningi á milli aðila, verði hann að leggja fram þann samning eða að minnsta kosti sanna tilveru hans. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert. Í tilboðinu sem stefnandi nefni felist enginn skýr samningur eins og stefnandi byggi á. Í öðru lagi hafi tilboðið aðeins gilt um leigukjör árið 2005, eins og skýrt komi fram í 1. og 3. mgr. þess. Hinn umþrætti samningur aðila sé hins vegar frá 2007 og því sé tilboðið honum óviðkomandi. Í þriðja lagi sé ekkert ákvæði í tilboðinu um að stefnandi eignist tæki samkvæmt fjármögnunarleigu- og kaupleigusamningum með greiðslu lokagjalds, hvað þá að hið meinta ákvæði ryðji til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. fjármögnunarleigusamningsins frá 2007. Í fjórða lagi sé óljóst hvað stefnandi eigi við með því að samningur aðila geri ekki greinarmun á fjármögnunarleigu og kaupleigu og því gildi sömu skilmálar um þá samninga. Fyrir liggi að eignaleiguformin séu ólík með mismunandi réttaráhrifum, sbr. framlagðar útprentanir af heimasíðu stefnda. Í fimmta lagi sé fullyrðing stefnanda um að samningi aðila hafi verið breytt árið 2008, hvað lokagjaldið varði, óskiljanleg enda sé hún vanreifuð og enginn viðskiptasamningur hafi verið í gildi milli aðila. Í sjötta lagi mótmæli stefndi túlkun stefnanda á dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Það sem það mál eigi þó sammerkt með þessu máli sé að ósannað hafi verið að samið hafi verið um það í upphafi að leigutaki eignaðist hið leigða í lok samningstíma. Hvað varði þá málsástæðu stefnda að aðilar hafi samið um að stefnandi eignaðist ökutækið gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans, byggi stefnandi enn fremur á því að yfirlit frá 27. febrúar 2009 sýni fjárhæð lokagjalds og að hann hafi sýnt fram á að hann verði eigandi bifreiðarinnar að samningstíma loknum gegn greiðslu þess. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi samskonar málsástæða ekki verið talin benda til þess að samið hafi verið fyrirfram um kaup í lok samningstíma. Þá bendir stefndi á að í fjármögnunarleigusamningi aðila sé ekkert minnst á lokagjald. Það sem komi fram á framangreindu yfirliti sé að samþykki leigusali að selja leigutaka leigumuninn, með sérstökum samningi síðar meir, þá verði uppreiknuð fjárhæð, miðað við tiltekna prósentu af upphaflegum leigugrunni framreiknuðum, sú fjárhæð sem komi fram á skjalinu. Í þessu felist engin skuldbinding um að stefnandi geti krafist þess að kaupa hið leigða í lok samningstímans miðað við þessa ákveðnu prósentu af upphaflegum uppreiknuðum leigugrunni. Sá möguleiki sé háður skoðun og mati stefnda í lok samningstímans. Þá sé ekki óalgengt í viðskiptalífinu að í leigusamninga séu sett ákvæði um forkaupsrétt, forleigurétt eða kauprétt. Slík ákvæði breyti ekki eðli leigusamnings aðila, úr því að vera leigusamningur yfir í að vera lánssamningur. Samkvæmt stefnanda bendi viðskiptasaga aðila til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta að stefnandi eignaðist vélar og tæki við lok samninga. Ekkert komi hins vegar fram um þetta í þeim samningum sem hafi verið lagðir fram. Þvert á móti séu ákvæði í 6. og 12. gr. samninganna sem kveði á um framhaldsleigu eða uppsögn eins og að framan hafi verið rakið. Þá sé ekkert óeðlilegt við það að fjölmörgum fjármögnunarleigusamningum aðila hafi lokið með því að stefnandi keypti viðkomandi tæki af stefnda. Það sé rangt hjá stefnanda að álykta að það hafi verið gert á grundvelli loforðs um kauprétt við upphaf samnings aðila. Í þessum tilvikum hafi stefndi tekið einhliða ákvörðun um það við lok grunnleigutímans að bjóða leigutaka að kaupa tækin. Stefnandi hafi gert það og gengið hafi verið frá sölunni með sölureikningi og afsali samhliða greiðslu á kaupverði. Hvað varði tilvísun stefnanda í áramótayfirlit yfir stöðu fjármögnunarleigusamninga þar sem fram komi eftirstöðvar og lokagjald, þá komi ekki fram hvað það eigi að sanna. Um lokagjald vísist til umfjöllunar að framan en hvað varði eftirstöðvarnar þá séu þær einungis uppreiknað núvirði leigugreiðslna sem eftir séu af grunnleigutíma samnings. Jafnframt séu reikningar, sem stefnandi vísi til, sem kveði á um að hann verði eigandi bifreiðar gegn greiðslu reikningsins ekkert óeðlilegir. Þetta séu þau tilvik þegar stefndi hafi við lok grunnleigutímans tekið einhliða ákvörðun um að bjóða stefnanda að kaupa viðkomandi bifreið og stefnandi samþykkt það. Í framhaldi af því hafi síðan viðkomandi reikningur verið gefinn út og gengið verið frá eigendaskiptum þegar greiðsla á söluverðinu hafi verið innt af hendi. Slíkir reikningar bendi á engan hátt til þess að samið hafi verið um sölu í upphafi samnings og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Hvað varði tilvísun stefnanda til tölvupósts frá árinu 2010 þá hafi hann ekkert sönnunargildi í málinu. Starfsmaður stefnanda hafi sent tölvupóst undir fyrirsögninni: ,,færa lán á milli bíla“. Starfsmaður stefnda nefni hins vegar ekki lán heldur samning og eigi þar við leigusamninginn um bifreiðina. Það sé einnig rangt sem komi fram í stefnunni, að fjármögnunarsamningur hafi verið færður á milli bifreiða, því slíkt sé aldrei gert. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að aðilar hafi samið um að víkja ætti frá ákvæði 12. gr. samnings aðila en hafi ekki tekist að sanna fullyrðingar sínar þar um. Stefndi mótmæli einnig þeirri málsástæðu stefnanda sem byggi á því að honum hafi verið heimilt að greiða upp samning aðila fyrir samningslok. Slík heimild geti ekki skipt máli. Þótt vera kunni að einhverjir samningar aðila hafi í einhverjum tilvikum verið gerðir upp fyrir lok samningstímans, í tengslum við endurnýjun, felist ekki í því sönnun þess að samið hafi verið um kaupréttinn við upphaf samningsins. Þessi málsástæða stefnanda verði að teljast mjög langsótt og í öllu falli vanreifuð. Alþekkt sé í eignaleiguviðskiptum að fram komi beiðnir frá leigutaka um að fá nýrri og stærri leigumuni. Þá séu eldri leigumunir oft seldir og aðrir samningar gerðir um nýju leigumunina. Slíkar hreyfingar séu ekki óeðlilegar og fráleitt sé að halda því fram að það gefi einhverja vísbendingu um að samið hafi verið um kauprétt í upphafi viðskipta. Í stefnu málsins komi fram að óljós samningsákvæði eigi að túlka stefnda í óhag sökum þess að samningur aðila sé staðlaður samningur frá stefnda. Ekki komi þó fram hvaða ákvæði samningsins stefnandi telji óskýr. Stefndi vísi enn og aftur til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Í dóminum sé fjallað um fjármögnunarleigusamningsform stefnda með þeim orðum að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr. Stefnandi byggi jafnframt á því að upplýsingar á heimasíðu stefnda hafi gefið til kynna að stefnandi eignaðist tækin í lok samningstímans fyrir umsamið verð. Sömu málsástæðu hafi verið fjallað um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011. Þær upplýsingar sem stefnandi vísi til innihaldi ekki annað en ábendingu um það að í lok grunnleigutímans taki við ótímabundin framhaldsleiga en að viðskiptamaður eigi möguleika eða kost á því að kaupa tækið af stefnda á umsömdu verði sem yfirleitt sé 3%. Ekki sé hægt að lesa neina skuldbindingu úr þessum upplýsingum og þær verði ekki með nokkru móti túlkaðar á þann veg að leigutaki eigi kröfu á að kaupa leiguandlag við lok leigutíma. Ekkert heimildarákvæði sé enda um slíkt í leigusamningi aðila. Þegar beiðnir berist stefnda um kaup leigumuna í lok leigutíma, skoði stefndi slíkar beiðnir í hverju tilviki og sé þá meðal annars horft til þess hvort viðkomandi leigutaki sé með aðra samninga í vanskilum. Sé tekin ákvörðun um sölu eftir lok grunnleigutímans, þá feli það í sér sjálfstæðan samning sem breyti ekki eðli hins upphaflega samnings úr því að vera fjármögnunarleigusamningur í að vera kaupleigusamningur eða lánssamningur, eða ígildi hans. Þessu til stuðnings vísi stefndi í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. IAS 17 staðalsins, sem kveði á um að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar. Í 6. gr. IAS 17 staðalsins komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki til samninga um leigu á eign, sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt, og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar. Þar sem þessir samningar teljist leigusamningar falli þeir ekki undir það að vera lánssamningar og þar af leiðandi eigi þessir samningar ekki undir ákvæði laga nr. 38/2001. Í 10. gr. a. IAS 17 staðalsins sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhald samkvæmt fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok samningstímans. Í 10. gr. b. í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að nokkuð víst sé við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Samkvæmt þessu sé ljóst að viðkomandi reikningsskilastaðall, sem hafi verið innleiddur með reglugerð sem hafi lagagildi hér á landi, gangi út frá því að það skipti engu máli hvort eignarréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum og hvort samið sé um kauprétt eða ekki við lok samningstímans. Viðkomandi samningur sé í öllum tilvikum leigusamningur. Hvað varði tilvísun stefnanda til reiknivélar, sem eigi að hafa verið á heimasíðu stefnda árið 2008, verði ekki séð að í þeirri tilvísun felist nein sönnun fyrir því að samið hafi verið um yfirfærslu eignarréttar í lokin og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Það sé ekki óalgengt að á heimasíðum eignaleigufyrirtækja sé að finna reiknivélar til að aðstoða væntanlegan leigutaka við að bera saman mismunandi kosti við fjármögnun atvinnutækja. Enn langsóttari sé tilvísun stefnanda í viðtal við Svein Hannesson frá árinu 1987 þar sem vísað sé í forkaupsrétt. Í þessu máli sé ekki byggt á forkaupsrétti af hálfu stefnanda. Hvað varðar tilvísun stefnanda í viðtal við Börk Grímsson þá sé þar fjallað um leigusamning og nefnt að leigutaka gefist kostur eða eigi möguleika á að kaupa leigumun í lok samningstíma. Stefndi mótmæli því að samningur aðila sé lánssamningur og að þar með hafi verið óheimilt að gengistryggja sökum ákvæða 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefnda hafi verið heimilt að láta leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningi aðila taka mið af gengi erlendra mynta vegna þess að leigusamningar falli ekki undir ákvæði laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2010, sem stefnandi vísi til, hafi verið fjallað um bílasamninga stefnda og hafi rétturinn talið þá vera lánssamninga. Í því máli hafi eignayfirfærsla farið sjálfkrafa fram án sérstakrar greiðslu eftir að leigutaki hafi innt síðustu leigugreiðsluna af hendi. Í þeim samningi sem hér sé til umfjöllunar sé ekki kveðið á um slíkt og hafi framangreindur dómur því ekki fordæmisgildi hvað þetta varði. Jafnvel þótt aðilar semji um kauprétt í lokin gegn greiðslu lokagjalds, sem sé það sem stefnandi byggi á, sé alls ekki hægt að jafna því við sjálfkrafa eignayfirfærslu í lokin eins og tilfellið hafi verið í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands. Kveðið sé á um gildissvið laga nr. 38/2001 í 1. og 2. gr. laganna. Í VI. kafla laganna, sem fjalli um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sé gildissviðið skilgreint með þrengri hætti en samkvæmt 1. gr. laganna. Öfugt við önnur ákvæði laganna, sem taki til vaxta á peningakröfum á sviði fjármunaréttar, takmarkist verðtryggingarákvæði laganna við sparifé og lánsfé í íslenskum krónum. Ákvæði 13. og 14. gr., sem banni gengistrygginguna, taki því samkvæmt orðalagi sínu einungis til sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum en ekki til annars konar samninga eins og leigusamninga. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur og annars eðlis en hefðbundið peningalán. Til þess að samningsskuldbinding geti fallið undir 1. mgr. 13. gr. laga nr. 38/2001 þurfi hún að varða hefðbundin peningalánaviðskipti. Hugtakið lánsfé sé ekki skilgreint í lögunum og ekki sé að finna neinar leiðbeiningar í greinargerð um hvað átt sé við með lánsfé í ákvæðum laganna. Hefðbundin orðskýring vísi til peninga sem fengnir séu að láni eða hefðbundinna peningalána. Skuldbindingin felist þá í afhendingu á lánsfé í gjaldgengri mynt en ekki afhendingu annarra verðmæta, eins og fasteignar eða lausafjár. Fjármögnunarleigusamningur feli í sér leigu á tækjum en ekki afhendingu á peningum og geti því ekki fallið undir ákvæði VI. kafla laganna. Samningur aðila falli ekki undir ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 og því hafi stefnda verið heimilt að gengistryggja hann. Ákvæði 13. gr. laga nr. 38/2001 feli í sér undantekningu frá meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi og því verði að beita þröngri lögskýringu á ákvæðum greinarinnar. Þá sé það meginregla laga að gerða samninga eigi að efna að fullu samkvæmt efni sínu. Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á lögmæti verðtryggingar verði að gera greinarmun á hreinum fjárskuldbindingum eða peningalánaviðskiptum annars vegar og gagnkvæmum samningum hins vegar. Hvað síðarnefnda atriðið varði eigi báðir samningsaðilar að inna af hendi framlög á tilteknu tímamarki eftir samningsgerð. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi í dómum ekki verið talin ná til þess konar gagnkvæmra samninga. Megi í því sambandi nefna dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 98/1978 og áður nefndan dóm í máli nr. 652/2011. Við túlkun og mat á því hvort að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur eða lánssamningur beri að horfa á samninginn heildstætt og varast að láta einstök atriði hafa úrslitaáhrif. Af öllu því sem að framan sé rakið leiði að um leigusamning sé að ræða frekar en lánssamning. Framkvæmd í nágrannalöndum Íslands og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar, sem hafi lagagildi á Íslandi, styðji það. Í samningsfrelsi felist meðal annars að aðilar samnings eigi forræði á því hvers efnis samningur þeirra sé, það er, hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningi og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist. Af sama meiði sé meginregla leiguréttar um að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutíma. Þessi meginregla komi meðal annars fram í 37. gr. laga nr. 36/1994. Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum leiði til þess að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði í íslenskum lögum banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum og sé hún því heimil. Við túlkun á því hvort samningur kveði á um lán eða leigu verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina. Forsenda stefnanda og vilji hafi, á sama hátt og í fyrri viðskiptum aðila, staðið til þess að gerður yrði fjármögnunarleigusamningur sem hann gæti fært sem leigusamning í bókhaldi sínu og notið skattalegs hagræðis þar af. Við gerð fjármögnunarleigusamningsins hafi báðum aðilum verið ljóst að gengisáhætta fylgdi því að hafa samninginn gengistryggðan og hafi stefnandi tekið mið af því þegar hann hafi valið að gera gengistryggðan fjármögnunarleigusamning. Það hafi verið forsenda af hálfu stefnda að, þar sem leigusamningurinn hafi verið gengistryggður, þá skyldu endurgreiðslur bundnar gengi á hinum erlendu myntum sem stefnandi hafi valið og að við ákvörðun leigugreiðslna skyldi tekið mið af LIBOR-vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátt vera þessi forsenda ljós. Um hafi verið að ræða verulega forsendu sem verið hafi ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Gengisviðmiðunin hafi haft úrslitaáhrif á samning aðila um vaxtaviðmiðun. Sjáist það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vaxtaviðmiðun hafi ávallt verið hjá stefnda á þeim samningum sem ekki hafi verið með gengisviðmið. Hvað forsendur varði sé í öðru lagi byggt á því að telja verði að góður og gegn leigutaki hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að gengistrygging fjármögnunarleigusamningsins hafi verið forsenda og ákvörðunarástæða fyrir vaxtaþætti samningsins. Í þriðja lagi sé sanngjarnt og eðlilegt, með hliðsjón af skiptingu áhættu, að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigusamning aðila. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að gæðum yrði misskipt milli aðila samningssambandsins. Eins og fram hafi komið hafi gengistryggingin verið forsenda þess að hægt hafi verið að hafa eins lága vaxtaviðmiðun og raun hafi verið. Verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samninginn fái stefnandi leigukjör sem engum öðrum hafi boðist, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilegan hagnað stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum. Þegar framangreindar forsendur séu hafðar í huga, og með því að beita sanngirni við túlkun á samningi aðila, telji stefndi rétt að miða við að fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að reikna upp með gengisviðmiðun þeirri sem aðilar hafi samið um. Verði ekki fallist á það að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur byggi stefndi á því að samningurinn sé ekki um lán í íslenskum krónum, gengistryggt með ólögmætum hætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, heldur sé samningurinn um lögmætt lán í erlendum myntum. Lán í erlendri mynt falli ekki undir bannreglur VI. kafla laganna. Í 2. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé leigugrunnur tilgreindur nákvæmlega í erlendum myntum og tilgreining erlendra mynta komi einnig fram á greiðsluseðlum sem stefndi hafi sent stefnanda. Skýrt sé tekið fram í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 520/2011 og nr. 551/2011 að samkvæmt forsendum dóms Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Telji dómurinn af einhverjum ástæðum að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur aðila sé lánssamningur en ekki leigusamningur og að hann sé í íslenskum krónum, með ólögmætri gengistryggingu, þá sé byggt á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn hafi verið lögleiddur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Fallist dómarinn á þessa málsástæðu stefnda telji stefndi að það eigi að leiða til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Með ákvæðum 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993 hafi meginmál EES-samningsins verið lögleitt og mælt fyrir um að lög og reglur skuli skýrðar, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við samninginn. Markmiði EES-samningsins sé myndun einsleits markaðssvæðis, sbr. 1. gr. samningsins, og samningsaðilar skuli tryggja framgang þess markmiðs, sbr. 3. gr. samningsins. Þessi skylda nái til allra eininga ríkisvaldsins, einnig dómstóla. Í þriðja hluta EES-samningsins sé fjallað um fjórfrelsið. Stefndi telji frelsi til fjármagnsflutninga eiga við í þessu sambandi. Í 40. gr. samningsins sé kveðið á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra, sem séu búsettir í aðildarríkjum EB eða EFTA, né nokkur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar fé sé notað til fjárfestingar. Með ákvæðinu sé verið að vernda markaðsaðgang einstaklinga og lögaðila á þessu sviði, sbr. dóma EFTA dómstólsins í málum nr. E-10/04 Piazza, málsgrein 32, og E-1/04 Fokus Bank, málsgrein 25. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 brjóti gegn framangreindu ákvæði um frelsi til fjármagnsflutninga. Hafa beri í huga hvernig stefndi hafi fjármagnað sig þegar gerðir hafi verið gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar, eins og hinn umþrætti samningur í máli þessu. Stefndi hafi fjármagnað sig í erlendri mynt og svo breytt erlendum myntum í íslenskar krónur áður en hann hafi greitt seljanda leiguandlags, væri seljandi á Íslandi. Hafi leiga verið greidd í íslenskum krónum hafi stefndi breytt þeim í erlenda mynt á því gengi greiðsludags og hafi svo greitt erlenda mynt til síns fjármögnunaraðila. Því hafi fjármögnun stefnda í raun verið í erlendri mynt með því eina fráviki að stefndi hafi selt og keypt gjaldmiðla í stað leigutaka, leigutaka til hagsbóta. Slík framkvæmd sé hefðbundin fjármálaþjónusta. Með því að túlka 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 þannig að í þeim felist bann við gengistryggingu sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda, sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi, sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það sé greitt út, sem og að innheimta það í íslenskum krónum. Þannig virðist gerð sú krafa að lántakinn fái hina erlendu mynt afhenta og þurfi jafnframt að greiða til baka í henni. Þetta hefði í för með sér að umtalsverður kostnaður og fyrirhöfn lenti á lántaka. Hann þyrfti sjálfur að hafa fyrir því að gengisbreyta láninu, með þeim kostnaði sem því fylgi. Jafnframt þyrfti hann að gengisbreyta íslenskum krónum mánaðarlega til að geta greitt afborganir viðkomandi láns. Með því að leggja þennan kostnað og fyrirhöfn á lántaka yrði lánveiting í erlendum myntum gerð erfið og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og lántaka hér á landi. Þetta myndi jafnframt leiða til þess að minni líkur yrðu á því að lánastofnanir innan EES-svæðisins byðu þjónustu hér á landi. Þá hafi bann við gengistryggingu það í för með sér að innlendar lánastofnanir, sem hafi fjármagnað sig með erlendum lánum en greiði út lán í íslenskum krónum, geti ekki tryggt raungildi lánsfjárhæðarinnar með sama hætti og þeir sem fjármagni sig í íslenskum krónum. Slíkum aðilum sé þar með gert erfiðara um vik sökum þess að þeir eigi erfiðara með að tryggja verðgildi útlánasafnsins og öll áhættustýring sem gangi út á jafnvægi milli erlendra og innlendra eigna verði erfiðari. Þá sé þetta líklega til þess fallið að draga úr áhuga aðila á að sækja sér fjármagn til annarra ríkja innan EES því þeim sé gert erfiðara um vik að verja sig fyrir breytingum á ytri aðstæðum en aðilum sem fjármagni sig á innlendum markaði. Þetta feli í sér hindrun á frjálsu flæði fjármagns sem fari gegn 40. gr. EES-samningsins. Íslenskir dómstólar hafi hingað til seilst nokkuð langt í túlkun íslenskra laga til samræmis við ákvæði EES-samningsins. Þannig hafi ákvæði hans verið túlkað sem sérregla sem gangi framar skýru ákvæði annarra laga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 477/2002. Ákvæði 40. gr. EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Því byggi stefndi á því að ákvæðið hafi forgang fram yfir ósamrýmanleg síðar til komin lagaákvæði, eins og 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Þessi forgangsáhrif komi einnig skýrt fram í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 2/1993. Í 3. mgr. athugasemdanna komi fram í 3. gr. felist meðal annars að innlend lög, sem eigi stoð í EES-samningnum, verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti sem yngri lög víki þeim ekki, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta sé nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið undir framangreind sjónarmið í formlegu athugasemdabréfi sem hafi verið sent íslenskum stjórnvöldum 19. apríl 2012. Þá skuli áréttað að framangreind málsástæða hafi ekki verið höfð uppi í málum sem varði gengistryggingu bílasamninga og dómar hafi gengið um í Hæstarétti 16. júní 2010. Stefndi áskilji sér rétt til að leita eftir ráðgefandi áliti frá EFTA í tengslum við þetta mál. Stefndi telur jafnframt að það sýni þversögn í löggjöf að banna gengistryggingu lána en heimila að lán séu miðuð við einstaka erlenda hlutabréfavísitölu eða safn af erlendum hlutabréfavísitölum, sbr. heimild í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001. Það feli í sér bæði gengis- og markaðsáhættu. Jafnvel þótt lánveitingar í erlendum myntum séu ekki bannaðar á Íslandi sé líklegt að bann við gengistryggingu íslenskra lána feli í sér hindrun á flæði fjármagns milli Íslands og annarra ríkja EES, meðal annars með því að takmarka áhuga á lánveitingum frá aðilum sem séu staðsettir í öðrum aðildarríkjum EES. Svipuð sjónarmið séu rakin í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1/00, Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA. EES-samningurinn geri ráð fyrir hlutleysi varðandi þá mynt sem sé notuð í lögmætum lánsviðskiptum þegar um myntir aðildarríkja EES sé að ræða. Jafnframt falli undir fjármagnsflutninga þær aðferðir sem þurfi til útfærslu á framkvæmd þeirra, svo sem tryggingar fjárskuldbindinga, val á mynt láns eða viðmið varðandi endurgjald. Um þetta megi vísa í dóm EFTA-dómstólsins í máli nr. E-10/04, Piazza, dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-222/97, Trummer and Mayer, og í viðauka og orðskýringar við tilskipun 88/361/EEC. Telja verði að hið sama eigi við innan EES, enda beri að túlka reglur ESB og EES til samræmis, meðal annars á sviði frjálsra fjármagnsflutninga. Þetta sjónarmið hafi komið fram hjá EFTA-dómstólnum í máli nr. E-10/04, Piazza, og máli nr. E-1/04, Fokus Bank. Hvað varði framlagða útreikninga stefnanda frá Deloitte þá geri stefndi fyrirvara um réttmæti þeirra og áskilji sér rétt til að leggja fram gögn til vefengingar þeirra. Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, einkum 1., 13. og 14. gr. þeirra. Stefndi vísar til þeirrar meginreglu í leigurétti að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Stefndi byggi einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu samkvæmt efni sínu. Þá vísar stefndi til 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 varðandi samningsfrelsi í leigusamningum. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða 21. kafla sömu laga. Stefndi vísar til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 20. gr. sömu laga varðandi skilgreiningu á eignaleigu og þess að fjármögnunarleiga feli ekki í sér útlánastarfsemi. Einnig vísar hann til viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC. Hvað varði túlkun á 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 vísi stefndi til 2. gr. og 3. gr. og 40. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Stefndi vísar jafnframt til þess að í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi, í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Stefndi vísar enn fremur til 12. tl. 2. gr. og 127. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og að þeir skuli hafa lagagildi hér á landi. Að síðustu vísar stefndi til reglugerðar 1133/2007 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu greinir aðila á um það hvort fjármögnunarleigusamningur þeirra nr. 144199-202, frá 13. nóvember 2007, sé lánssamningur eða leigusamningur.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að fyrrgreindur samningur sé samkvæmt efni sínu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um sé að ræða lánssamning sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Byggir stefnandi á því að ákvæði samningsins verði að virða í heild sinni, í samræmi við samning aðila, tilboð stefnda frá árinu 2004 og viðskiptasögu aðila. Því til stuðnings að samningurinn sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamningur og gengistryggingarákvæði hans því ólögmæt, vísar stefnandi m.a. til forsendna dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011 og nr. 652/2011, auk eftirtalinna raka:
- Stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að kaupum á samningsandlaginu og komið fram gagnvart seljanda þeirra, Bifreiðum og landbúnaðarvélum ehf. (B&L), sem kaupandi.
- Samningsverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði stefnda, en ekki verðmæti samningsandlagsins.
- Greiðslur samkvæmt samningunum beri vexti.
- Greiðsluskylda stefnanda hafi ekki verið tengd afnotum samningsandlagsins.
- Stefndi hafi ekki eignfært samningsandlagið í reikningum sínum.
- Stefnandi hafi eignast samningsandlagið í lok samningsins.
Stefndi hafnar framangreindum málsástæðum stefnanda og byggir á því að umræddur samningur sé samkvæmt formi sínu og efni leigusamningur og ákvæði hans um gengistryggingu umsamins leigugjalds brjóti því ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í atvikalýsingu dóms þessa hefur nokkur grein verið gerð fyrir ákvæðum umrædds samnings. Samhengisins vegna þykir rétt að lýsa þeim nánar, þótt í því kunni að felast nokkur endurtekning. Samningi aðila má skipta annars vegar í sérstök ákvæði sem hafa auk tilgreiningar á leigusala og leigutaka að geyma 10 tölusett samningsákvæði, sem gert er ráð fyrir að séu nánar fyllt út við gerð einstakra samninga, og hins vegar almenn stöðluð ákvæði í greinum 11 til 35. Meginefni samningsins, sem um er deilt í máli þessu, er eftirfarandi: Á forsíðu hans kemur fram að Lýsing hf. sé „leigusali“ en Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. „leigutaki“ og um sé að ræða gengistryggðan fjármögnunarleigusamning. Í 1. gr. er hið leigða tilgreint með tegundarheiti og tilvísun til reikninga seljanda. Í 2. gr., sem ber fyrirsögnina „leigugrunnur“, er fjárhæð hans tilgreind í krónum auk virðisaukaskatts af þeirri fjárhæð. Þá er gerð grein fyrir tengingu leigugreiðslunnar við erlendar myntir og gengi þeirra. Er leigufjárhæð samkvæmt samningnum tengd gengi evru, Bandaríkjadals, japansks jens og svissnesks franka. Í 3. gr. kemur fram að seljandi hins leigða sé Vélheimar ehf., Bifreiðar & landbúnaðarvélar ehf. Í 4. gr. er svonefndur „grunnleigutími“ tilgreindur. Er hann frá 20. desember 2007 til 20. desember 2013. Þá er í þessu ákvæði samningsins að finna ákvæði um gjalddaga fyrstu leigugreiðslu, fjölda leigugreiðslna og fjölda greiðslumánaða. Í 5. gr. eru ákvæði um greiðslutilhögun. Í 6. gr. er staðlaður texti þess efnis að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist við lok grunnleigutíma og samningsákvæði um hvenær hún hefjist, hver fjárhæð leigugjaldsins sé á framhaldsleigutímanum og tengingu þess við hinar erlendu myntir samningsins. Í 7. gr. eru ákvæði um vátryggingu hins leigða og að iðgjald vegna vátrygginga skuli innheimt beint hjá leigutaka. Í 8. gr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að ábyrgð verði tekin á skuldbindingum leigutaka en um slíkt var ekki að ræða í umræddum samningi. Í 9. gr. er gert ráð fyrir tilvísun til fylgiskjala með viðkomandi samningi. Í 10. gr. er gert ráð fyrir mögulegum sérstökum samningsskilmálum. Í ákvæðinu er mælt fyrir um svonefnda hlutaleigu þ.e. fjárhæð hennar og gjalddaga og LIBOR vexti á samningsdegi. Þá er undir þessum tölulið svofellt ákvæði: „Leigutaki hefur gert endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda í ISK (krónur 3.687.744 m.vsk). Þar sem leigugreiðslur eru gengistryggðar er ósamræmi í eftirstöðvum á sama tíma. Mismunur er gerður upp milli aðila beint.“ Eins og áður greinir eru hinir almennu skilmálar í ákvæðum 11-35 staðlaðir. Í 12. gr. skilmálanna er mælt svo fyrir m.a. að leigutaki geti ekki sagt leigusamningi upp á grunnleigutíma og að þeim tíma loknum framlengist hann ótímabundið samkvæmt 6. gr. Þá er mælt svo fyrir að leigutaki geti sagt hinum framlengda leigusamningi upp, skriflega, með eins mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 13. gr. eru ákvæði um gjalddaga leigugreiðslna. Þá er mælt svo fyrir að inni Lýsing hf. andvirði hins leigða af hendi, fyrir upphaf grunnleigutíma skv. 4. gr., skuli leigutaki, auk fyrstu leigugreiðslu skv. 5. gr., greiða vexti frá greiðsludegi til upphafsdags grunnleigutímans skv. 4. gr. Þá er í ákvæðinu mælt annars vegar fyrir um heimild Lýsingar hf. til að endurreikna umsamda leigu skv. breytingum á lánskjörum Lýsingar hf. og eða gjaldskrá félagins, ef samningurinn sé í íslenskum krónum eða greiðslur gengistryggðar, en sé leigan tilgreind í erlendum gjaldmiðlum sé félaginu jafnframt heimilt að endurreikna leiguna samkvæmt breytingum er verði á LIBOR - vöxtum þess eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Í 14. gr. er annars vegar fjallað um vísitölutryggingu leigunnar en hins vegar gengistryggingu. Ákvæðið um gengistryggingu er svohljóðandi:
Leiga sú, sem er gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlends og/eða erlendra gjaldmiðla er greind í ísl.kr. Leigugjald er innheimt í ísl kr. Við útreikning leigu skal hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum skv. ákvörðun Lýsingar hf. við útgáfudag reiknings....
Í 15. gr. er kveðið á um að Lýsing hf. sé eitt eigandi hins leigða. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að stofna til hvers kyns löggerninga um hið leigða og það geti ekki orðið gilt andlag aðfarar skuldheimtumanna leigutaka. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að veita öðrum aðila afnot af hinu leigða, eða afhenda það með öðrum hætti, nema með samþykki Lýsingar hf. Í 16. gr. kemur fram að leigutaki velji hið leigða og annist skoðun þess eins og kaupanda væri skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og/eða öðrum réttarreglum. Þá segir í ákvæðinu að Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun og að leigugreiðslur skuli greiddar þótt leigutaki sé ekki ánægður með hið leigða eða það hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Samkvæmt 17. gr. ber leigutaki áhættuna ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar, eftir að seljandi hefur afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum. Þá segir í ákvæðinu að leigutaki staðfesti að hið leigða hafi verið afhent honum og hann tekið við því án fyrirvara og sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða væri gallalaust og hefði umsamda eiginleika. Þá segir í ákvæðinu að leigugrunnur skv. 2. gr. sé í samræmi við gerða samninga milli leigutaka og seljanda. Í 18. gr. er mælt svo fyrir að kostnaður, sem falli til við pökkun og flutning hins leigða frá seljanda til leigutaka sem og allur kostnaður við uppsetningu og frágang hins leigða á notkunarstað hjá leigutaka, sé á ábyrgð hans og kostnað. Þá greiði leigutaki allan kostnað sem til falli vegna skráningar og eigendaskipta jafnt við upphaf sem lok samningsins. Í 19. gr. er m.a. mælt svo fyrir að leigutaka beri að greiða leigu enda þótt seljandi hins leigða hafi vanefnt samning sinn við Lýsingu hf. og/eða leigutaka. Þá segir í ákvæðinu að leigutaki geti þó átt rétt til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta eða endurgreiðslu ef vanefndir seljanda leiði til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi og skuli sú fjárhæð koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu en leigutaki ekki eiga frekari kröfur á hendur Lýsingu hf. af þessu tilefni og samningurinn að öðru leyti halda gildi sínu. Séu vanefndir seljanda hins vegar svo verulegar að rifta megi kaupunum skuli Lýsing hf. taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda um hana. Sé kaupum rift og uppgjöri við seljanda sé ekki lokið innan 30 daga frá riftun geti Lýsing hf. krafið leigutaka um uppgjör skv. 30. gr. Leigutaki greiði kostnað við kröfugerð á hendur seljanda vegna vanefnda af hans hálfu, hvort sem sú kröfugerð sé í nafni Lýsingar hf. eða leigutaka, í umboði félagsins. Í 20. gr. er mælt svo fyrir að leigutaki annist allt viðhald og viðgerðir á leigumun á sinn kostnað og beri ábyrgð á því að meðferð og ástand hins leigða sé í samræmi við lög. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að breyta hinu leigða, notkunarstaður hins leigða sé á starfsstöð leigutaka, nema um annað sé samið, og óheimilt sé að flytja hið leigða úr landi, nema með samþykki Lýsingar hf. Samkvæmt 21. gr. ber leigutaki ábyrgð á og er skylt að bæta Lýsingu hf. allt það tjón sem verða kunni á hinu leigða og tryggja að viðgerð á hinu leigða skuli, ef til kemur, unnin með fullnægjandi hætti og án tafar. Þá er mælt svo fyrir að skylda leigutaka til greiðslu leigu falli ekki niður þó notkun hins leigða stöðvist vegna tjóns eða bilunar á hinu leigða. Ef um altjón sé að ræða fari fram uppgjör skv. 30. gr. Í 22. gr. er mælt svo fyrir að leigutaki beri, meðan leigutími varir, ábyrgð á því tjóni sem hið leigða kunni að valda með beinum eða óbeinum hætti og verði Lýsing hf. að greiða bætur fyrir slíkt tjón eigi félagið endurkröfu sem því nemi á hendur leigutaka. Í 23. gr. er m.a. kveðið á um að hið leigða skuli á kostnað leigutaka vera vátryggt á leigutímanum. Í 24. gr. er mælt fyrir um rétt starfsmanna Lýsingar hf. til að skoða hið leigða á leigutímanum og skyldu leigutaka til að veita starfsmönnun Lýsingar hf. aðgang að leigumunum og geymslustað þeirra. Þá er leigutaka skv. 25. gr. skylt að tilkynna Lýsingu hf. um búsetuskipti um leið og þau verða. Í 26. gr. kemur fram að leigutaki skuli m.a. greiða alla skatta og gjöld sem kunni að verða hækkuð eða lögð á leigumun, leigusamning eða leiguna sjálfa, þ.m.t. virðisaukaskatt, bifreiðagjöld og þungaskatt. Í 27. gr. eru m.a. ákvæði um skyldu leigutaka til greiðslu vanskilavaxta, ef til vanskila á leigugreiðslu eða öðrum greiðslum samkvæmt samningnum komi. Í 28. gr. eru ákvæði um heimild Lýsingar hf. til riftunar, vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins, eins og það er orðað. Í 29. gr. er mælt svo fyrir að sé samningnum sagt upp eða rift á grundvelli 19., 21. eða 28. gr. skuli leigutaki tafarlaust skila hinu leigða, óskemmdu og í eðlilegu ástandi miðað við notkun, á þann stað er Lýsing hf. tilgreini. Þá eru í ákvæðinu reglur um hvernig með skuli farið ef hið leigða verði metið til uppítökuverðs þ. á m. um viðbótarafföll og sölulaun. Í 30. gr. eru settar fram reglur um uppgjör milli Lýsingar hf. og leigutaka vegna loka samnings skv. 19., 21. eða 28. gr. Þar segir:
1. Leigutaki skal greiða alla ógjaldfallna leigu samkvæmt 5. gr. samningsins og skatta og gjöld skv. 26. gr., vátryggingar skv. 23. gr. og allan annan kostnað af hinu leigða ásamt dráttarvöxtum frá uppgjörsdegi.
2. Leigutaki skal greiða allar gjaldfallnar leigugreiðslur skv. 5. gr. og 6. gr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði skv. 27. gr.
3. Leigutaki skal greiða allan kostnað skv. samkvæmt 29. gr. vegna uppsagnar eða riftunar samnings og innheimtuaðgerða þ.m.t. innheimtu- og málskostnaður lögmanns skv. gjaldskrá. Leigutaki greiðir dráttarvexti vegna þessara atriða frá gjalddaga reikninga.
4. Frá skuld leigutaka til Lýsingar skv. tl. 1-3 hér að framan skal draga verðmat hins leigða. Verði ágreiningur um matið og/eða viðgerðarkostnað og aðilar ná ekki samkomulagi, má leigusali láta selja hið leigða á opinberu uppboði skv. 8. gr. laga nr. 90/1991, enda hafi leigutaki mótmælt matinu eða uppgjörinu skriflega innan 7 daga frá því að honum mátti vera það kunnugt. Að öðrum kosti telst hann við það bundinn. Á sama hátt skal draga frá skuld leigutaka til Lýsingar skv. tl. 1-3, endurgreiðslur eða skaðabætur frá seljanda hins leigða vegna galla eða vanefnda sbr. 19. gr. og vátryggingabætur ef hið leigða ferst eða glatast sbr. 21. gr. Nú myndast hagnaður hjá Lýsingu við uppgjör á leigusamningi og getur Lýsing hf. þá einhliða greitt hann inn á aðrar kröfur eða leigusamninga sem eru í gildi milli sömu aðila.
Í 31. gr. er ákvæði um m.a. mögulegar kröfur á hendur leigutaka vegna leyndra galla á hinu leigða við skil hins leigða. Í 32. gr. er mælt svo fyrir að það hvernig leigugreiðslur séu færðar í bókhaldi leigutaka sé alfarið á hans ábyrgð og endurskoðanda hans. Samkvæmt 33. gr. er Lýsingu hf. heimilt að framselja samninginn til banka eða annars eignarleigufyrirtækis enda skerði slíkt framsal ekki réttarstöðu leigutaka. Hins vegar sé framsal leigutaka á réttindum sínum samkvæmt samningnum ekki heimilt nema með samþykki Lýsingar hf. Í 34. gr. er mælt svo fyrir að breytingar á samningnum megi eingöngu gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum og í 35. gr. er mælt fyrir um varnarþing.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, sem kveðinn var upp 24. maí 2012, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að tiltekinn fjármögnunarleigusamningur stefnda, sem ritaður hafði verið á staðlað samningsform félagsins fyrir fjármögnunarleigusamninga, væri samkvæmt efni sínu leigusamningur en ekki lánssamningur. Samningurinn, sem til skoðunar og umfjöllunar var í máli nr. 652/2011, liggur fyrir í máli þessu sem dómskjal nr. 63. Er sá samningur efnislega samhljóða samningi þeim, sem um er deilt í máli þessu, að undanskildum sérákvæðum um leigutaka, fjárhæðir, leigutíma og leiguandlag auk endurkaupaákvæðisins í 10. gr. samnings aðila, sem áður hefur verið rakið. Hin almennu ákvæði samningsins í gr. 11-35, sem lýst hefur verið hér að framan, eru hins vegar efnislega þau sömu. Verður að telja að tilgreindur dómur Hæstaréttar feli í sér ótvíræða leiðsögn við skýringu á þeim fjármögnunarleigusamningi, sem um er fjallað í máli þessu.
Samningurinn sem um er deilt í máli þessu hefur að geyma ákvæði sem almennt hafa verið talin einkenna þá tegund eignaleigusamninga, sem nefndir hafa verið fjármögnunarleigusamningar. Þannig er, eins og rakið hefur verið, mælt svo fyrir í samningnum að hann séu óuppsegjanlegur á svonefndum grunnleigutíma en eftir að honum ljúki framlengist samningurinn ótímabundið (gr. 12). Eignaréttur að hinu leigða hvílir á leigutímanum hjá leigusala en afnotaréttur hjá leigutaka (gr. 15). Öll ábyrgð á leiguandlaginu og áhætta hvað það varði hvílir, meðan á leigu stendur, hjá leigutaka (gr. 21) og komi til riftunar greiðir leigutaki alla gjaldfallna og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða (gr. 30).
Hugtakið eigna(r)leiga og undirhugtökin fjármögnunarleiga og kaupleiga koma, eftir því sem næst verður komist, fyrst inn í íslensk lög með gildistöku laga nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Hugtakið eignarleiga er þar skilgreint sem leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma loknum. Fjármögnunarleiga merkir skv. lögunum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað sér að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala. Eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Kaupleiga merkir samkvæmt lögunum þá samningsaðstöðu, samkvæmt eignarleigusamningi, að leigusali hafi afsalað sér að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala og jafnframt veitt leigutaka sjálfkrafa rétt til að eignast hið leigða í lok leigutíma, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1989. Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi, segir m.a. að eignarleiga sé oftast nær ákveðin tegund leigu, en mörg mikilvæg frávik sé þar að finna sem geri það að verkum að hún verði að teljast mjög sérstakt leiguform. Þar af leiðandi hafi eignarleiga sérstaka stöðu samningsréttarlega séð, m.a. vegna þeirra sérstöku skilmála sem í samningum þessum sé að finna. Með frumvarpinu sé lagt til að eignarleiga verði afmörkuð í löggjöfinni frá því sem venjulega sé nefnt leiga. Helstu atriðin sem skilgreiningin velti á sé að leigusali selji hlut á leigu gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma og samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- og afnotaréttinn. Þetta tvennt einkenni eignarleigu. Í eignarleigu séu alltaf sérstakir skilmálar sem greini þessa samninga glöggt frá venjulegum leigusamningum. Í hinum sérstöku skilmálum séu ákvæði sem flytji ýmsar eignarréttarlegar skyldur frá formlegum eiganda hlutarins til leigutakans þannig að staðan geti orðið slík að leigusali hafi í raun aðeins eignarrétt er svari til veðréttar í hinu leigða. Með sama hætti verði þá réttarstaða leigutakans svipuð og væri hann eigandi að hlut, utan þess að hinn formlegi eignarréttur og ráðstöfunarheimildin haldist hjá leigusala. Í svonefndri „hreinni fjármögnunarleigu“ sé um það að ræða að leigusali hafi það hlutverk að fjármagna kaup viðskiptavina á ýmsum hlutum eða tækjum er hann kunni að vanhaga um án þess að láta af hendi hinn formlega eignarrétt. Leigusamningurinn sé ævinlega bundinn í lágmarksleigutíma og sé miðað við að fjármagnseigandi fái á þeim tíma fjármuni sína endurgreidda auk arðs og kostnaðar vegna samningsgerðarinnar. Leigutaki taki á sig verulegar skyldur sem tengist eignarrétti eiganda og njóti jafnframt flestra réttinda er eigandi almennt njóti. Þá er í athugasemdunum sérstaklega tekið fram að þær skilgreiningar sem byggt sé á varðandi eignarleigu í frumvarpinu taki mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17) sem sé alþjóðlegur staðall um bókhald. Hugatakið eignaleiga er nú skilgreint í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. lag nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. áður 1. mgr. 9. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Hugtakið er skilgreint þannig að eignaleiga feli í sér leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða [á leigu] gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 161/2002, er tekið fram að úr skilgreiningu á eignaleigu sé fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skuli skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu sé gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu og kaupleigu auk rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala en í kaupleigu sé leigutaka veittur réttur til að eignast hið leigða í lok leigutíma. Rekstrarleiga sé hins vegar eignaleiga sem hvorki teljist til fjármögnunarleigu eða kaupleigu. Þá er tekið fram í athugasemdunum að höfundar frumvarpsins telji rétt að eftirleiðis verði framangreind leiguform nefnd eignaleiga í stað eignarleigu áður. Ekki verður séð að með lögum nr. 161/2002 hafi verið stefnt að breytingum á þeim grunnskilgreiningum sem fram komu í lögum nr. 19/1989 um eignarleigu og athugsemdum með frumvarpi til laganna, hvað varðar eðli og sérkenni fjármögnunar- og kaupleigu. Það sem fyrst og fremst aðgreinir fjármögnunarleigu frá kaupleigu er að kaupleigusamningar fela í sér að eignarréttur að leiguandlaginu flyst til leigutaka í lok leigutíma gegn greiðslu sérstaks umsamins endurgjalds/kaupverðs og þá ýmist þannig að endurgjaldið sé í upphafi kaupleigusamningsins reiknað inn í leigugreiðslur eða komi sérstaklega til greiðslu í lok leigutímans. Í tilfelli kaupleigu er um að ræða bæði kauprétt og kaupskyldu leigutaka. Í samræmi við þetta megineinkenni kaupleigunnar er hið leigða samkvæmt kaupleigusamningum eignfært hjá leigutaka í upphafi kaupleigusamningsins og afskrifað í bókhaldi hans samkvæmt þeim reglum er gilda um fyrningu rekstrarfjármuna. Leigusali tekjufærir hins vegar leigugreiðslur eins og um afborganir af skuld væri að ræða. Í tilefni fjármögnunarleigu færir leigutaki leigugreiðslur, sem bera virðisaukaskatt, til gjalda í bókhaldi sínu en leigusali færir þær til tekna. Hin mismunandi bókhaldslega og skattalega meðferð samninganna undirstrikar það sem að framan greinir um ólíkt eðli þessara samninga hvað varðar kaupskyldu leigutaka.
Hæstiréttur hefur með dómi í máli nr. 282/2011, sem upp var kveðinn 20. október 2011, komist að þeirri niðurstöðu að samningur, sem að formi til var fjármögnunarleigusamningur hafi í reynd verið lánssamningur, m.a. með vísan til þess að samið hafi verið um það í byrjun að „leigutaki“ eignaðist „hið leigða“ gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans. Fleira kom þó til sem að mati réttarins þótti sýna að um lánssamning en ekki leigusamning væri að ræða. Liggur engan veginn fyrir að forsendur dómsins beri að skilja á þann veg að það eitt að leigutaka sé í upphafi gefinn kostur á að kaupa hið leigða, í lok leigutíma, feli í sér að samningurinn verði að efni til talinn lánssamningur en ekki leigusamningur, líkt og stefnandi byggi á. Myndi slík ályktun fara í bága við viðteknar skýringar á fjármögnunarleigu og þá framkvæmd sem viðgengist hefur bæði hér á landi sem víða erlendis, að leigutaka sé gefinn kostur á að kaupa hið leigða í lok umsamins frumleigutíma fjármögnunarleigusamnings auk þess sem honum gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu eða að skila hinu leigða í hendur leigusala. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 er lögð á það áhersla, hvað raunverulegt inntak þess samnings, sem til skoðunar var í málinu, varðaði, að ósannað væri að samið hefði verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og hafi því ekki annað legið fyrir en að á því tímamarki stofnaðist til ótímabundins leigumála gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda væri heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar væri mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu væri ekki annað leitt í ljós en að samningurinn væri um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans benti til. Af þessum sökum girtu ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Rétt virðist, með hliðsjón af því er áður greinir, að skýra þessar forsendur dómsins á þann veg að þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að samið hafi verið um kaupskyldu leigutaka yrði að flokka samninginn sem fjármögnunarleigusamning, líkt og ákvæði hans bentu eindregið til.
Við mat á því hvort fjármögnunarleigusamningur aðila nr. 144199-202 sé leigusamningur eða lánssamningur er rétt að líta til eftirfarandi. Heiti samningsins, sbr. „Fjármögnunarleigusamningur“, bendir til þess að um leigusamning sé að ræða og er öll orðnotkun í skilmálum hans í samræmi við það. Þannig er stefnandi í skilmálum samningsins nefndur „leigutaki“ og stefndi „leigusali“. Þá er í skilmálunum talað um hið leigða, leigugrunn, grunnleigutíma og framhaldsleigu. Þá er ljóst að samningurinn ber skv. efni sínu öll einkenni fjármögnunarleigusamninga eins og það hugtak var skilgreint í lögum nr. 19/1989 um eignarleigu og athugasemdum í frumvarpi til laganna, líkt og áður hefur verið rakið, í samræmi við viðteknar skilgreiningar á þessari samningstegund. Er þá einkum vísað til ákvæða um að leigutaki velji hið leigða og semji um kaupverð þess við seljanda, að samningurinn sé óuppsegjanlegur á umsömdum grunnleigutíma, að leigusali endurheimti kaupverð hins leigða ásamt vöxtum, þóknun og kostnaði á grunnleigutímanum, að leigutaka gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu í lok frumleigutíma gegn verulega lækkaðri leigu, að eignarréttur haldist hjá leigusala meðan á leigu stendur, að leigutaki beri áhættu af hinu leigða meðan á leigu stendur og komi til riftunar á leigusamningi greiði leigutaki leigusala alla gjaldfallna- og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða.
Rök stefnanda fyrir því að umræddur fjármögnunarleigusamningur sé lánssamningur en ekki leigusamningur hafa verið rakin. Eru þau í stefnu sett fram í 6 töluliðum. Hæstiréttur hefur þegar, með dómi í máli nr. 652/2011, tekið afstöðu til þeirra málsástæðna sem stefnandi færir fram undir töluliðum 1-5, þ.e. hvað varðar frumkvæði að kaupum á leiguandlaginu, að samningsverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði stefnda en ekki verðmæti leiguandlagsins, að leigugreiðslur samkvæmt samningunum beri vexti, að greiðsluskylda stefnanda hafi ekki verið tengd afnotum leiguandlagsins og stefndi hafi ekki eignfært leiguandlagið í reikningum sínum. Hefur Hæstiréttur með framangreindum dómi hafnað því að umræddar málsástæður stefnanda hafi í för með sér að fjármögnunarleigusamning, sem í öllum meginatriðum er sama efnis og samningurinn, sem um er deilt í máli þessu, beri að skýra sem lánssamning. Er þessum málsástæðum stefnanda, þegar af þeirri ástæðu, hafnað auk þess sem umrædd samningsákvæði og sú uppgjörsregla að færa hið leigða ekki til eignar í ársreikningi leigusala eru í samræmi við viðurkennd megineinkenni fjármögnunarleigu eins og áður hefur verið rakið og góða reikningsskilavenju.
Í máli þessu greinir aðila á um hvort samið hafi verið svo um við gerð umrædds fjármögnunarleigusamnings aðila nr. 144199-202, frá 13. nóvember 2007, að stefnandi ætti rétt á að kaupa hið leigða í lok umsamins frumleigutíma eða jafnvel fyrr. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um hafi samist á milli stefnanda og stefnda að stefnandi eignaðist hið leigða gegn fyrirfram ákveðinni lokagreiðslu, í lok frumleigtíma. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi. Augljóst sé að samningur nr. 144199-202 sé um að eignarréttur leiguandlagsins, bifreiðarinnar EJX-88, færist frá stefnda til stefnanda í lok samnings. Því til stuðnings vísar stefnandi m.a. til 10. gr. samningsins, sem kveði á um sérstaka skilmála. Þar komi skýrt fram að stefnandi hafi gert endurkaupa- og þjónustusamning við B&L. Sá samningur hafi verið gerður 1. nóvember 2007 og sé um kaup stefnanda á ökutækinu og um skyldu B&L til að kaupa ökutækið af stefnanda að nýju fyrir tiltekið verð, á tilteknum tíma og að tilteknum forsendum uppfylltum. Með tilgreiningu endurkaupasamnings í fjármögnunarleigusamningi aðila hafi sá samningur orðið hluti fjármögnunarleigusamningsins og stefndi því skuldbundinn til að standa við þá skyldu gagnvart stefnanda að færa bifreiðina í eigu stefnanda, í lok samnings, svo stefnandi gæti staðið við endurkaupasamninginn við B&L. Eðli málsins samkvæmt geti slík viðskipti aldrei átt sér stað milli stefnanda og B&L, ef eignarréttur hins leigða væri enn í höndum stefnda, þegar samningstími samnings nr. 144199-202 væri liðinn, enda geti stefnandi ekki selt tæki sem ekki séu í hans eigu. Af þeim sökum sé augljóst að gert hafi verið ráð fyrir að stefnandi eignaðist hið leigða að samningstíma liðnum. Sú staðreynd sé í samræmi við skýran samning aðila frá 2004 um að stefnandi eignaðist tæki samkvæmt fjármögnunar- og kaupleigusamningum með greiðslu lokagjalds. Samningur aðila hafi verið og sé skýr um eignarhald stefnanda á ökutæki við lok samnings og ryðji til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. skilmálanna.
Stefndi hafnar því sem röngu og ósönnuðu að um það hafi verið samið að eignarréttur leiguandlagsins færðist frá stefnda til stefnanda í lok umrædds fjármögnunarleigusamnings. Stefnandi byggi þessa staðhæfingu sína á sérákvæði, sem hann hafi óskað eftir að sett yrði inn í 10. gr. fjármögnunarleigusamningsins. Þar komi fram að leigutaki hafi gert endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda leiguandlagsins, B&L. Stefndi byggi á því að hann sé á engan hátt bundinn af endurkaupasamningi stefnanda og B&L enda einungis um að ræða samning sem stefnandi hafi gert við þriðja aðila og taki til endurkaupa, ef stefnandi eignaðist leiguandlagið. Réttarsambandið á milli stefnanda og stefnda byggist hins vegar á 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamningsins þar sem skýrt komi fram að framhaldsleiga taki við að grunnleigutíma loknum. Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt skuldbundið sig til að selja leiguandlagið til stefnanda að grunnleigutíma loknum og því gildi ákvæði 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila. Stefndi leggi einnig, í þessu sambandi, áherslu á að grunnleigutími fjármögnunarleigusamningsins sé til 19. desember 2013 en samningur stefnanda við B&L hafi runnið út í nóvember 2012, án þess að reyndi á ákvæði hans um endurkaup og sé hann því fallinn úr gildi, sbr. 7. gr. samningsins. Til staðfestingar á því að leiguandlagið sé enn í eigu stefnda hafi verið lögð fram í málinu útprentun úr ökutækjaskrá. Það sé einnig alger rökleysa af hálfu stefnanda að halda því fram að samið hafi verið um að stefndi ætti að framselja bifreiðina til stefnanda í desember 2013 til að stefnandi gæti staðið við samning sinn við seljanda bifreiðinnar, sem runnið hafi út ári áður. Staðreyndin sé að grunnleigutíma fjármögnunar-leigusamningsins sé ekki enn lokið og það eina sem geti breytt því sé ef stefndi riftir fjármögnunarleigusamningnum á grundvelli verulegra vanefnda stefnanda skv. heimildarákvæði í 28. gr. samningsins.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að í nóvember 2004 hafi aðilar samið um fjármögnun stefnda á bifreiðum og tækjum fyrir stefnanda. Sá samningur hafi byggst á tilboði stefnda, dagsettu 24. nóvember 2004. Sá samningur geri ekki greinarmun á fjármögnunar- og kaupleigu og gildi því sömu skilmálar um þá samninga. Lykilatriði sé að aðilar hafi samið um að stefnandi greiddi 1% lokagjald og yrði þá eigandi viðkomandi samningsandlags. Stefndi hafi skuldbundið sig til að afsala viðkomandi samningsandlagi til stefnanda í lok samnings gegn greiðslu 1% lokagjalds. Á árinu 2008 hafi fyrrgreindum samningi verið breytt á þann veg að lokagjald skyldi vera 2% en áfram 1%, ef samningur yrði gerður upp innan 24 mánaða frá samningsdegi. Framangreindur samningur aðila frá 2004, með breytingu á árinu 2008, sýni svo ekki verði um villst að allir ,,fjármögnunarleigusamningar“ aðila og þar með samningur nr. 144199-202, hafi verið lánssamningar en ekki leigusamningar. Stefnandi vísi í þessu sambandi sérstaklega til dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, sem sé skýrt fordæmi fyrir því að samningar, er byggi á fyrrgreindu samkomulagi aðila frá 2004 og 2008, séu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í því máli að samningur sá er málið varðaði væri fjármögnunarleigusamningur en ekki lánssamningur með eftirtöldum rökum:
Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðila.
Í máli því sem hér sé til umfjöllunar liggi fyrir skýr skriflegur samningur um að stefnandi eignist ,,leigumun“ gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu við lok samningstíma og sé því fyrrgreindur dómur skýrt fordæmi fyrir niðurstöðu í þessu máli. Stefnandi vísi framangreindu til stuðnings m.a. til yfirlits frá stefnda, 27. febrúar 2009, þar sem fram komi áramótastaða fjármögnunarleigusamnings nr. 144199-202. Í því yfirliti séu eftirstöðvar samningsins sundurliðaðar eftir gjaldmiðlum og getið um fjárhæð lokagjalds. Að mati stefnanda taki yfirlitið af öll tvímæli um að stefnandi verði eigandi bifreiðarinnar EJX-88 að samningstíma loknum, gegn greiðslu lokagjalds.
Stefndi hafnar því að í gildi sé samningur aðila um fjármögnun, frá 2004, byggður á tilboði stefnda frá 24. nóv. 2004, og að í honum komi fram að stefnandi eignist tæki samkvæmt fjármögnunar- og kaupleigusamningum við stefnda með greiðslu lokagjalds og að sá samningur ryðji til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. skilmála fjármögnunarleigusamnings aðila. Byggi skoðun stefnda, hvað þetta varði, á eftirfarandi: Í fyrsta lagi sé enginn slíkur samningur í gildi milli aðila málsins. Gera verði þær lágmarkskröfur til stefnanda, ef hann ætli að byggja á samningi milli aðila, að hann leggi þann samning fram eða að minnsta kosti sanni tilveru slíks samnings. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert. Tekið skuli fram að í tilboðinu sem stefnandi nefni, felist enginn skýr samningur eins og stefnandi byggi á. Í öðru lagi hafi tilboðið einungis gilt um leigukjör á árinu 2005, eins og skýrt komi fram í 1. og 3. mgr. þess. Hinn umþrætti samningur aðila sé hins vegar frá árinu 2007 og sé því tilboðið honum óviðkomandi. Í þriðja lagi sé ekkert ákvæði í tilboðinu um að stefnandi eignist tæki samkvæmt fjármögnunar- og kaupleigusamningum með greiðslu lokagjalds, hvað þá að hið meinta ákvæði ryðji til hliðar stöðluðu ákvæði 12. gr. fjármögnunarleigusamningsins frá 2007. Í fjórða lagi haldi stefnandi því fram að hinn ímyndaði samningur aðila geri ekki greinarmun á fjármögnunar- og kaupleigu og gildi því sömu skilmálar um þá samninga. Óljóst sé með öllu hvað stefnandi eigi við með þessu en fyrir liggi að um ólík eignaleiguform sé að ræða með mismunandi réttaráhrifum. Í fimmta lagi fullyrði stefnandi að á árinu 2008 hafi fyrrgreindum samningi verið breytt, hvað lokagjaldið varði. Sú fullyrðing sé óskiljanleg í ljósi þess að enginn viðskiptasamningur hafi verið í gildi á milli aðila. Stefnandi byggi á því að yfirlit frá 27. febrúar 2009 sýni fjárhæð lokagjalds og að stefnandi hafi sýnt fram á að hann verði eigandi leiguandlagsins skv. samningi nr. 144199-202, að samningstíma liðnum, gegn greiðslu lokagjalds. Hér sé um að ræða sömu málsástæðu og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 og ekki hafi verið talin benda til þess að samið hafi verið fyrirfram um kaup í samningslok. Stefndi mótmæli því að framangreind málsástæða stefnanda sé sönnun fyrir því að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða í lok grunnleigutímans gegn ákveðinni greiðslu. Í fjármögnunarleigusamningi aðila sé ekkert minnst á ,,lokagjald“. Það sem átt sé við í umræddu yfirliti sé að ef leigusali samþykki að selja leigutaka leigumuninn, með sérstökum samningi síðar meir, yrði uppreiknuð fjárhæð miðað við tiltekna prósentu af upphaflegum leigugrunni framreiknuðum, sú fjárhæð sem fram komi í yfirlitinu. Í þessu felist engin skuldbinding um að stefnandi geti krafist þess að kaupa hið leigða í lok samningstímans, miðað við þessa ákveðnu prósentu af upphaflegum uppreiknuðum leigugrunni. Sá möguleiki sé háður skoðun og mati stefnda í lok samningstímans.
Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að viðskiptasaga stefnanda og stefnda bendi ótvírætt til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta þeirra að stefnandi myndi eignast leigumuni við lok grunnleigutíma samninga. Saga viðskipta stefnanda og stefnda sé að þessu leyti afar skýr. Í öllum tilvikum hafi stefnandi eignast tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum, gegn greiðslu lokagjalds, að samningstíma loknum. Sú viðskiptasaga sé í samræmi við samning aðila frá árinu 2004. Sú saga hafi haldist óbreytt, þrátt fyrir að ágreiningur hafi verið uppi um þýðingu fjármögnunarleigusamninga stefnda og bendi stefnandi m.a. á að stefndi hafi á árinu 2012 afsalað til hans tækjum gegn greiðslu umsamins lokagjalds. Stefnandi leggi m.a. fram þessu til stuðnings reikning stefnda, dagsettan 23. febrúar 2012, nr. 11516651, vegna bifreiðarinnar VO 630 og tölvuskeyti starfsmanns stefnda dagsett 29. febrúar 2012. Þá leggi stefnandi fram yfirlit stefnda yfir stöðu fjármögnunar- og kaupleigusamninga við stefnanda, 31. desember 2008. Í þeim yfirlitum séu eftirstöðvar samninga tilgreindar og jafnframt hvert sé lokagjald samninga. Þá leggi stefnandi fram yfirlit stefnda yfir stöðu samninga við stefnanda í árslok 2009 og 2010. Þá leggi stefnandi fram fjölda reikninga/afsala stefnda þar sem eftirfarandi texta sé að finna:
Með greiðslu á greiðsluseðli þessum ásamt eldri ógreiddum greiðsluseðlum, er ofangreindri bifreið/vinnuvél afsalað frá Lýsingu hf. til ofangreinds leigutaka. [...]
Stefnandi hafi lagt fram við þingfestingu málsins afrit 20 reikninga/afsala stefnda með fyrrgreindri áritun. Lykilatriði sé að samið hafi verið um það í upphafi að stefnandi eignaðist hið leigða með greiðslu umsamins lokagjalds og hafi reikningar/afsöl verið gefin út af stefnda í öllum tilvikum, á grundvelli samnings aðila. Þá vísi stefnandi til fyrirliggjandi tölvupóstsamskipta stefnanda og stefnda en þar komi fram að ,,fjármögnunarsamningur“ hafi verið færður á milli bifreiða og gangi samskipti aðila út á að ,,færa lán á milli bíla.“ Þau samskipti lýsi í hnotskurn þeirri staðreynd að um lánssamninga hafi verið að ræða á milli aðila en ekki fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi hafi frá öndverðum viðskipta aðila verið heimilt að greiða upp samninga fyrir samningslok og fengið afsal fyrir tækjum gegn greiðslu lokagjalds. Stefnandi vísi þessu til stuðnings m.a. til tölvuskeytis stefnda, 21. maí 2008, þar sem fram komi að lokagjald sé lægra, ef samningar séu greiddir upp áður en 24 mánuðir séu liðnir frá því þeir hafi tekið gildi.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, sem rangri og ósannaðri, að viðskiptasaga stefnanda og stefnda bendi til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta að stefnandi myndi eignast leigumuni við lok samninga enda komi ekkert fram um þetta í þeim samningum sem lagðir hafi verið fram í málinu heldur þvert á móti sé þar að finna ákvæði í 6. gr. og 12. gr., sem gangi út á framhaldsleigu eða uppsögn, eins og áður hafi verið rakið. Stefnandi byggi á því að fjölmörg dæmi séu um það að hann hafi fengið afsalað til sín bifreið við lok samnings gegn greiðslu lokagjalds og nefni sem dæmi bifreiðina VO 630. Stefndi vilji í þessu sambandi benda á að ekkert sé óeðlilegt við það að fjölmörgum fjármögnunarleigusamningum aðila hafi lokið með því að stefnandi hafi keypt viðkomandi tæki af stefnda. Það sé hins vegar röng ályktun hjá stefnanda að það hafi verið gert á grundvelli loforðs um kauprétt við upphaf samnings aðila. Í þessum tilvikum hafi stefndi tekið einhliða ákvörðun um það við lok grunnleigutímans að bjóða leigutaka að kaupa tækin til kaups. Stefnandi hafi keypt tækin og gengið hafi verið frá sölunni með sölureikningi/afsali, samhliða greiðslu á kaupverðinu. Hvað varði tilvísun stefnanda í áramótayfirlit yfir stöðu fjármögnunarleigusamninga, þar sem fram komi eftirstöðvar og lokagjald, komi ekki fram hvað það eigi að sanna. Hvað varði eftirstöðvarnar sé einungis um að ræða uppreikning á núvirði leigugreiðslna, sem eftir séu af grunnleigutíma samnings. Stefnandi vísi í reikninga þar sem fram komi að hann verði eigandi bifreiðar gegn greiðslu viðkomandi reiknings. Slíkir reikningar séu ekkert óeðlilegir heldur sé um að ræða tilvik þar sem stefndi hafi við lok grunnleigutímans tekið einhliða ákvörðun um að bjóða stefnanda að kaupa viðkomandi leigumun og stefnandi samþykkt að kaupa hið leigða, frekar en að fara með það á framhaldsleigu. Í framhaldi af því hafi viðkomandi reikningur verið gefinn út og gengið frá eigendaskiptum, eftir að greiðsla söluverðsins hafi verið innt af hendi. Slíkir reikningar bendi hins vegar á engan hátt til þess að samið hafi verið um sölu í upphafi samnings og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu af hálfu stefnda. Stefnandi vísi máli sínu til stuðnings til tölvupósts frá árinu 2010. Í þeim tölvupósti sendi starfsmaður stefnanda tölvupóst og sé fyrirsögnin ,,færa lán á milli bíla“. Starfsmaður stefnda nefni hins vegar ekki lán heldur ,,samning“ og eigi þar við leigusamninginn um bílinn. Þar af leiðandi hafi tölvupósturinn ekkert sönnunargildi í málinu. Það sé einnig rangt sem fram komi í stefnu að ,,fjármögnunarsamningur“ hafi verið færður á milli bifreiða. Slíkt hafi aldrei verið gert. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að aðilar hafi samið um að víkja ætti frá ákvæði 12. gr. samnings nr. 144199-202 og byggi stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun. Stefnandi byggi á því að honum hafi verið heimilt að greiða upp samninga fyrir samningslok. Stefndi mótmæli því að þetta skipti einhverju máli. Þótt vera kunni að einhverjir samningar aðila, hafi í einhverjum tilvikum, verið gerðir upp fyrir lok samningstímans, í tengslum við endurnýjun, felst engan veginn í því sönnun þess að samið hafi verið um kauprétt við upphaf samningsins. Þessi málsástæða stefnanda verði að teljast mjög langsótt og í öllu falli vanreifuð. Í þessu sambandi megi nefna að alþekkt sé í eignaleiguviðskiptum að fram komi beiðnir frá leigutaka um að fá nýrri og stærri leigumuni og séu þá eldri leigumunir oft seldir og aðrir samningar gerðir um nýju leigumunina. Ekkert sé óeðlilegt við slíkar hreyfingar og fráleitt að halda því fram að þær gefi einhverja vísbendingu um að samið hafi verið um kauprétt í upphafi viðskipta.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að samningur aðila hafi verið saminn einhliða af stefnda og þá sé stór hluti samningsins staðlaðir samningsskilmálar stefnda. Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins, en samkvæmt reglunni skulu óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem samið hafi þau einhliða eða sem ráðið hafi þeim atriðum til lykta sem ágreiningi valdi. Löggerninga skuli í samræmi við þetta túlka þeim aðila í óhag sem átt hafi að hlutast til um skýrara form samnings eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði, einkum ef hann hafi líkt og stefndi yfirburði við samningsgerðina, t.d. í skjóli lögfræðilegrar- og annarrar sérfræðilegrar aðstoðar. Í ljósi framangreinds sé einsýnt, að mati stefnanda, að stefndi verði að bera hallann af óljósum ákvæðum samnings nr. 144199-202, sem augljóslega hafi ekki verið í samhengi við raunverulega framkvæmd og tilhögun samningssambands aðila vegna bifreiðarinnar EJX-88, og af þeim sökum verði í öllum tilvikum að meta umræddan samning sem lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.
Stefndi byggir, hvað framangreinda málsástæðu stefnanda varðar, á því að engan veginn sé hægt að átta sig á því hvað stefnandi sé að fara með þessari málsástæðu og hvaða ákvæði samningsins hann telji óskýr. Í þessu sambandi skuli enn og aftur vísað í dóm Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, þar sem fjallað sé um fjármögnunarleigusamningsform stefnda með þeim orðum að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr.
Stefnandi byggir í fimmta lagi á því að stefndi hafi boðið upp á og auglýst fjármögnunarleigu sem hagstæðan kost við fjármögnun. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda hafi þúsundir slíkra samninga verið gerðir. Stefndi hafi, til að varpa enn skýrara ljósi á raunverulegt eðli fjármögnunarleigusamninga stefnda og þá samningsframkvæmd sem gilt hafi, lagt fram gögn um viðskipti stefnda við þriðja aðila til sönnunar því að frá öndverðu hafi verið um það samið að eignarréttur færðist frá stefnda til viðskiptamanna sinna með greiðslu lokagjalds.
Af hálfu stefnda er, hvað framangreinda málsástæðu stefnanda varðar, á því byggt, að engin sönnun liggi fyrir í málinu um að stefndi hafi samið um kauprétt við þriðja aðila í tilefni fjármögnunarleigusamninga. Sé fullyrðingu stefnanda um slíka samninga alfarið mótmælt.
Stefnandi byggir í sjötta lagi á því að yfirlýsingar stefnda gefi ótvírætt til kynna að í tilvikum fjármögnunarleigu hafi ætíð verið gengið út frá því að „leigutaki“ eignaðist tæki að samningstíma loknum. Í því samhengi vísi stefnandi m.a. til ummæla á heimasíðu stefnda, 15. nóvember 2006, þar sem inntak fjármögnunarleigu hafi verið útskýrt, en þar hafi m.a. staðið orðrétt:
Fjármögnunarleiga. Lýsing kaupir og staðgreiðir tæki samkvæmt þinni ósk og þú leigir það af Lýsingu. Í lok grunnleigutíma, sem venjulega eru 36-60 mánuðir, átt þú kost á að kaupa tækið eða leigja þá áfram.
Um kaupleigusamninga segir eftirfarandi á sömu heimasíðu stefnda:
Lýsing kaupir tækið og þú leigir það af okkur. Í lok leigutíma greiðir þú lokagjald og eignast tækið.
Þá hafi eftirfarandi staðið um fjármögnunarleigusamninga á heimasíðu stefnda í nóvember 2006:
Í lok grunnleigutíma tekur við ótímabundin framhaldsleiga, en jafnframt átt þú kost á því að kaupa tækið af Lýsingu á umsömdu verði, sem er yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni.
Sömu skýringar á fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum sé að finna á heimasíðu stefnda á árunum 2008, 2009 og 2010. Af umfjöllun á heimasíðu stefnda sé ljóst að enginn munur sé þar gerður á kaupleigu og fjármögnunarleigu. Þá vísi stefnandi m.a. til reiknivélar á heimasíðu stefnda, 1. mars 2005, þar sem fjallað hafi verið um lánsupphæð í umsókn um fjármögnunarleigu og sé þar tilgreint 3% lokagjald. Þá vísist til reiknivélar á heimasíðu stefnda, 14. nóvember 2008, þar sem sama sé upp á teningnum og m.a. fjallað um lánshlutfall í fjármögnunarleigusamningum. Þá vísi stefnandi m.a. til umsóknar á heimasíðu stefnda um fjármögnun atvinnutækja. Fyrrgreind umfjöllun á heimasíðu stefnda sýni að um lán hafi verið að ræða en ekki leigu á tæki. Þá vísi stefnandi ennfremur til blaðaviðtals við Svein Hannesson, þáverandi framkvæmdarstjóra stefnda, sem birst hafi í viðskiptablaði Morgunblaðsins, 5. mars 1987. Í viðtalinu segi m.a.:
Aðspurður segir Sveinn að viðskiptavinir Lýsingar geti bundið greiðslur við það hvenær viðkomandi tæki eða vél gefur af sér tekjur, þannig að mestur hluti leigunnar sé greiddur þegar tekjur koma inn. Eftir að leigutíma líkur (sic) getur leigutaki skilað tækinu, leigt það áfram fyrir 1/12 af upphaflegri leigu, eða nýtt forkaupsrétt og er þá almennt miðað við 3% hrakvirði.
Að lokum vísi stefnandi til blaðaviðtals við Börk Grímsson, ráðgjafa á fyrirtækjasviði stefnda, sem birst hafi í 9. tölublaði Frjálsrar verslunar, árið 2006. Þar segi m.a.:
Fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. er ótímabundinn leigusamningur þar sem hið leigða er ekki eignarfært hjá leigutaka og hann gjaldfærir greidda leigu að fullu. Í lok leigutíma gefst leigutaka síðan kostur á að kaupa húseignina á lokaverði.
Með hliðsjón af framangreindum yfirlýsingum stefnda og upplýsingum af heimasíðu hans liggi fyrir að „leigutakar“ skv. „fjármögnunarleigusamningum“ hafi alltaf átt þess kost að kaupa samningsandlagið, að samningstíma liðnum.
Stefndi byggir, hvað framangreindar málsástæður stefnanda varðar, á því að framangreindar upplýsingar á heimasíðu stefnda, innihaldi ekkert annað en ábendingu um að í lok grunnleigutíma taki við ótímabundin framahaldsleiga en jafnframt eigi viðskiptamaður möguleika (kost) á því að kaupa hið leigða af stefnda á umsömdu verði, sem yfirleitt sé 3%. Ekki sé hægt að lesa neina skuldbindingu úr þessum upplýsingum á heimasíðunni og verði þær ekki með nokkru móti túlkaðar á þann veg að leigutaki eigi kröfu á að kaupa leiguandlagið við lok leigutíma enda sé ekkert heimildarákvæði um slíkt í leigusamningi aðila. Þegar beiðnir berist til stefnda um kaup á leigumun í lok leigutíma sé það skoðað í hverju tilviki og m.a. horft til þess hvort viðkomandi leigutaki sé með aðra samninga í vanskilum. Sé tekin ákvörðun um sölu eftir lok grunnleigutímans, sé um sjálfstæðan samning að ræða sem breyti ekki eðli hins upphaflega fjármögnunarleigusamnings og breyti honum þannig ekki úr fjármögnunarleigusamningi í kaupleigusamning og enn síður í lánssamning eða ígildi hans. Þessu til stuðnings megi vísa í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. alþjóðlega reikningsskilastaðalsins IAS 17, þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar. Í 6. gr. IAS 17 komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki til samninga um leigu á eign sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni, þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar. Þar sem þessir samningar teljist leigusamningar falli þeir ekki undir það að vera lánssamningar og þar af leiðandi eigi þessir samningar ekki undir ákvæði laga nr. 38/2001. Í gr. 10 a í IAS 17 reikningsskilastaðlinum sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhaldið skv. fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok samningstímans. Í gr. 10 b í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að telja megi víst við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Samkvæmt þessu sé ljóst að viðkomandi reikningsskilastaðall, sem hafi verið innleiddur með reglugerð, sem lagagildi hafi hér á landi, gangi út frá því að það skipti engu máli hvort eignarréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum og hvort samið sé um kauprétt eða ekki við lok samningstímans. Viðkomandi samningur sé í öllum tilvikum leigusamningur. Hvað varði tilvísun stefnanda til reiknivélar, sem eigi að hafa verið á heimasíðu stefnda árið 2008, verði ekki séð að í þeirri tilvísun felist nein sönnun fyrir því að samið hafi verið um yfirfærslu eignarréttar í lokin og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Ekki sé óalgengt að á heimasíðum eignaleigufyrirtækja sé að finna reiknivélar til að aðstoða væntanlegan leigutaka við að bera saman mismunandi kosti við fjármögnun atvinnutækja. Enn langsóttari sé tilvísun stefnanda í viðtal við Svein Hannesson frá árinu 1987, eða fyrir 25 árum síðan, þar sem vísað sé í forkaupsrétt en tekið skuli fram að í þessu máli sé ekki byggt á því af hálfu stefnanda að um forkaupsrétt sé að ræða. Hvað varði tilvísun stefnanda í viðtal við Börk Grímsson sé þar gengið út frá því að um leigusamning sé að ræða og nefnt að leigutaka gefist kostur (möguleiki) á að kaupa í lokin. Stefndi hafni því sem röngu og ósönnuðu að samið hafi verið um það í upphafi að stefnandi myndi eignast hið leigða samkvæmt þeim fjármögnunarleigusamningi, sem um sé fjallað í málinu, í lok grunnleigutímans, gegn greiðslu fyrir fram ákveðins lokagjalds. Stefndi byggi á því að í 12. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningurinn ótímabundið skv. 6. gr. samningsins. Í lok 12. gr. komi fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því, nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumuninn á framhaldsleigu allt þar til hann sé orðinn úr sér genginn eða ónothæfur. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum, þar sem leigutaki verði að jafnaði eigandi hins leigða í lok leigutímans. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðlinum þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Þá byggi stefndi á því að það sé viðurkennd regla í kröfurétti að sá sem haldi öðru fram en fram komi í samningi aðila hafi sönnunarbyrði fyrir því. Stefndi bendi á að í málinu liggi ekki fyrir nein sönnun fyrir því að stefnandi hafi átt að eignast hið leigða við lok grunnleigutímans.
Í margnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 segir hvað varðar samanburð á þeim samningi sem um var fjallað í málinu og samningi sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011:
Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu er ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans bendir til. Af þessum sökum girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfu stefnda.
Eins og ítarlega hefur verið rakið greinir aðila máls þessa á um hvort umsamið hafi verið milli þeirra, þegar fjármögnunarleigusamningur nr. 144100-202 var gerður, að stefnandi ætti kauprétt að samningsandlaginu í lok frumleigutíma.
Nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn stefnda gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Sveinn Hannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi en hann var framkvæmdastjóri stefnda frá stofnun félagsins á árinu 1986 þar til í febrúar 1992. Í skýrslu hans kom m.a. fram að stefndi hefði byrjað að gera fjármögnunarleigusamninga þegar á árinu 1986. Í reynd hafi ekki tíðkast að leigutakar framlengdu leigusamningana heldur hafi venjan verið að þeir keyptu leigumuni í lok leigutíma. Kvaðst hann aðspurður ekki muna eftir neinum undantekningum frá því. Aðspurður kvað hann muninn milli fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamninga hafa legið í því að í tilfelli kaupleigu hafi verið frágengið og umsamið í byrjun að leigutaki keypti hið leigða í lok leigutíma og eins hafi skattaleg meðferð þessara samninga verið ólík. Ólafur Helgi Ólafsson, fyrrverandi fjármálastjóri stefnda og síðar framkvæmdastjóri, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa verið fjármálastjóri stefnda 1987 til 1992 en framkvæmdastjóri frá febrúar 1992 til ársloka 2007. Kvaðst hann aðspurður hafa komið að gerð stöðluðu fjármögnunarleigusamninganna, sérstaklega í byrjun. Fjármögnunarleigusamningarnir hafi verið ótímabundnir leigusamningar en að loknum grunnleigutíma hafi venjan verið sú að leigutaka gæfist kostur á að kaupa leigutæki en annars tæki við framhaldsleiga. Venjan hafi verið að leigutakar keyptu leigumuni í lok samninga eða fyrr. Aðspurður um tilvísun til endurkaupasamnings stefnanda og B&L í 10. gr. samnings stefnanda og stefnda kvaðst hann kannast við að margir leigutakar hafðu gert þjónustusamninga við seljendur leigumuna. Hluti af þeim hafi verið að seljandi lofaði að kaupa leigumuni á tilteknu verði á tilteknum tíma. Stefndi hafi hins vegar ekki átt hlut í þjónustu- og endurkaupasamningum leigutaka og seljenda. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort samningur hefði stofnast á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs stefnda frá 24. nóvember 2004. Þá kvaðst hann aðspurður ekki geta staðfest hvort stefnandi hefði alltaf eignast leigumuni samkvæmt fjármögnunarleigusamningum við stefnda, í lok leigutíma. Aðspurður svaraði hann því til að venjan hefði verið að senda leigutökum bréf í lok leigutíma, þar sem athygli þeirra hefði verið á því vakin að þeim gæfist kostur á að kaupa tækin eða samningurinn héldi áfram. Í tilfelli kaupleigusamninga hefði leigutaki verið skuldbundinn til að greiða tiltekna fjárhæð í lokin gegn afsali fyrir leigumunum en í lok fjármögnunarleigu hefði leigutaki átt val um kaup eða áframhaldandi leigu. Með upplýsingum til leigutaka hefði verið bent á mögulegt kaupverð í lok leigutíma. Leigutökum samkvæmt fjármögnunarleigusamningum hefði hins vegar ekki staðið til boða að kaupa, ef vanskil hefðu verið á viðkomandi samningi og öðrum samningum. Reynt hafi verið að meta stöðu viðskiptavinar í heild en stefndi haft í hendi sér að neita um kaup. Kvaðst hann aðspurður ekki muna eftir slíkri stöðu í reynd en slíkt hafi samt verið metið í hverju tilviki fyrir sig. Guðríður Ólafsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og staðgengill forstjóra stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa starfað sem framkvæmdastjóri hjá stefnda frá mars 1987 til mars 2008 og haft m.a. yfirumsjón með samningum um fjármögnunarleigu. Leigutakar hafi yfir höfuð fengið að kaupa leigumuni í lok grunnleigutímans, gegn greiðslu lokagjalds, að uppfylltum skilyrðum þ.e. ef þeir hefðu staðið við samninga sína við stefnda. Um væri að ræða leigusamninga þar sem þrennt gæti gerst, framhaldsleiga, skil eða kostur á að kaupa gegn greiðslu lokagjalds. Lokagjaldið hafi yfirleitt verið á bilinu 1-3%. Aðspurð kvaðst hún kannast við fyrirliggjandi tilboð stefnda frá 24. nóvember 2004. Kvaðst hún hafa vitað af samningnum. Aðspurð um tilvísun til endurkaupasamnings í 10. gr. samnings aðila og þá fjárhæð sem þar kæmi fram kvað hún töluna sýna áætlað verðmæti leigumunar á ákveðnu tímamarki. Endurkaupasamningar af þessu tagi hafi verið algengir í tilviki stefnanda. Fátítt hafi verið að stefnandi framhaldsleigði leigumuni. Stefnanda hafi verið send bréf í lok leigutíma þar sem boðið hafi verið upp á þrjá valkosti, framhaldsleigu, kaup eða skil á leigumun. Ef leigutaki hafi staðið í skilum hafi hann átt þess kost að kaupa leigumun í lok samnings. Ekki hafi hins vegar verið um kaupskyldu að ræða. Ef vanskil hafi verið hafi samningur farið í framhaldsleigu. Halldór Jörgenson, fyrrverandi forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið forstjóri stefnda frá desember 2007 til júní 2011. Aðspurður sagði hann að fjármögnunarleigusamningum hefði getað lokið með framhaldsleigu eða skilum á tæki. Ef samningur hafi verið í skilum hafi viðskiptamanni verið boðið að kaupa. Um hafi verið að ræða kost en ekki rétt, ef allt hafi verið í skilum og eignastaða leigutaka viðunandi. Kaup hafi þó ávallt verið háð samþykki stefnda. Pétur Bjarni Magnússon, fyrrverandi yfirlögfræðingur stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa verið yfirlögfræðingur stefnda frá 1990 til 2010 og sem slíkur haft umsjón með samningagerð félagsins. Aðspurður svaraði hann því til að aldrei hefði verið samið um kauprétt, þegar fjármögnunarleigusamningar hafi verið gerðir. Gert hafi verið ráð fyrir að samningunum lyki með framhaldsleigu. Hins vegar hafi leigutökum oft verið gefinn kostur á að kaupa tæki í lok samnings en stefnda ekki verið skylt að bjóða upp á slíkt. Staðan hafi oft verið sú að leigutakar hafi viljað kaupa hið leigða í lok leigutíma. Ef leigutakar hafi óskað eftir að kaupa hafi stefndi tekið afstöðu til þess. Þessi réttur hafi ekki verið til staðar nema stefndi byði leigutökum að kaupa. Stefndi hafi í flestum tilvikum boðið leigutökum að kaupa tækin í lok samnings. Það hafi hins vegar ekki verið gert, ef samningar hafi verið í vanskilum. Þannig hafi ekki verið um kaupskyldu að ræða heldur boð frá stefnda. Kaupverðið hafi yfirleitt verið 1-3%. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort stefndi hefði setið uppi með tæki í lok leigutíma en væru menn í skilum og allt væri að öðru leyti í lagi hafi þeim yfirleitt verið boðið að kaupa í lokin. Meirihluta samninga hafi lokið með kaupum leigutaka á tækjum en hitt komið fyrir að leigutökum væri neitað um að kaupa vegna vanskila. Arnar Snær Kárason, framkvæmdastjóri eignaleigusviðs stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Aðspurður kvaðst hann hafa starfað hjá stefnda frá nóvember 2002, fyrst sem viðskiptastjóri en framkvæmdastjóri eignaleigusviðs frá nóvember 2008. Aðspurður kvað hann leigutaka samkvæmt fjármögnunarleigu-samningum ekki hafa átt rétt á að kaupa leigumuni í lok leigutíma. Um hafi verið að ræða kost, ef stefnandi hafi ákveðið að selja. Stefndi hafi alltaf átt um það síðasta orðið. Upplýsingar á heimasíðu stefnda hafi verið í samræmi við þetta. Samningar hafi endað á marga vegu og oft þannig að stefndi hafi ákveðið að selja. Sala hafi verið algeng, ef viðkomandi leigutaki hafi staðið í skilum. Aðspurður kvað hann nokkuð um það að leigutakar framhaldsleigðu m.a. ef þeir væru í vanskilum. Aðspurður kvað hann stefnanda hafa keypt mörg leigutæki í gegnum tíðina. Hins vegar hefði það ekki verið hluti af samningunum við stefnanda að hann eignaðist leigumuni í lok leigutíma. Aðspurður um fyrirliggjandi tilboð stefnda frá 24. nóvember 2004 svaraði hann því til að tilboðið hefði gilt fyrir fjármögnun á árinu 2005. Kvaðst hann ekki vita til þess að stefnandi hefði samþykkt tilboðið. Fram til 2012 hefði samningum við stefnanda lokið með kaupum stefnanda á hinu leigða. Aðspurður kvaðst hann kannast við að stefnandi hefði í einhverjum tilvikum gert endurkaupasamninga við seljanda leigumuna. Hins vegar hefðu endurkaupasamningar ekki verið hluti af leigusamningum. Þannig hafi endurkaupasamningurinn, sem til sé vísað í 10. gr. leigusamnings nr. 144199-202, gilt til nóvember 2012 en leigusamningurinn væri enn í fullu gildi. Aðspurður kvaðst vitnið geta staðfest að fram til 2012 hefði stefnandi ekki greitt framhaldsleigu heldur fengið að kaupa leigumuni. Frá árinu 2012 eða 2013 hefði því hins vegar verið hafnað að selja stefnanda leigumuni. Við mat á því hvort leigutökum gæfist kostur á að kaupa væri litið á heildarstöðu viðskiptavinar gagnvart stefnda.
Eins og áður er rakið er í 10. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila, sem ber fyrirsögnina „Sérstakir skilmálar“, m.a. að finna svofellt ákvæði. „Leigutaki hefur gert endurkaupa- og þjónustusamning við seljanda í ISK (krónur 3.687.744,- m.vsk). Þar sem leigugreiðslur eru gengistryggðar er ósamræmi í eftirstöðvum á sama tíma. Mismunur er gerður upp milli aðila beint.“ Tilvitnaður samningur liggur fyrir í málinu og ber hann fyrirsögnina „Kaupsamningur á Renault Midium með kassa og lyftu“. Er hann dagsettur 1. nóvember 2007 og undirritaður f.h. stefnanda og Bifreiða & landbúnaðarvéla ehf. (hér eftir B&L). Að sögn stefnanda fól samningurinn í sér skuldbindingu B&L til að endurkaupa leiguandlagið samkvæmt fjármögnunarleigusamningi nr. 144199-202, bifreiðina EJ X88, á tímabilinu 1. nóvember 2007 til nóvember 2012 eða þar til bifreiðinni hefði verið ekið 125.000 kílómetra, á 3.687.744 krónur. Af hálfu stefnanda er því haldið fram, eins og áður hefur verið rakið, að umræddur samningur við B&L hafi verið hluti af samningi stefnanda og stefnda. Stefndi hefur hins vegar alfarið hafnað því að svo hafi verið m.a. með þeim rökum að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi verið beinn aðili að samningi stefnanda og B&L. Tilgreining samnings stefnanda og B&L, undir sérstökum skilmálum í fjármögnunarleigusamningi aðila, feli ekki í sér breytingu á réttarstöðu þeirra samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum.
Það er mat dómsins að framangreind tilvísun í samning stefnanda og B&L, í sérstökum skilmálum fjármögnunarleigusamnings aðila, verði ekki skilin á annan veg en þann að um hafi verið samið að stefnanda gæfist kostur á að kaupa leiguandlagið samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum, ef stefnandi kysi að nýta sér umsamda endurkaupaskuldbindingu B&L.
Eins og rakið hefur verið hefur stefndi hafnað því að samkomulag hafi stofnast með aðilum á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs stefnda frá 24. nóvember 2004 um „fjármögnun bifreiða og tækja hjá Danól og Ölgerðinni“. Í tilboðinu kemur fram að um sé að ræða tilboð um fjármögnun samkvæmt „fjármögnunarleigu/kaupleigu“. Í tilboðinu segir: „Lokagjald er 1% ....“ Eins og áður er rakið gaf Arnar Snær Kárason, starfsmaður stefnda, skýrslu fyrir dómi en hann undirritaði framangreint tilboð f.h. stefnda. Aðspurður kvaðst hann ekki vita til þess að stefnandi hefði samþykkt tilboðið, sem gilda hefði átt fyrir fjármögnun á árinu 2005. Ekki telst sannað gegn andmælum stefnda að stefnandi hafi samþykkt framangreint tilboð. Hins vegar er það mat dómsins að tilboðið gefi ótvírætt til kynna að stefndi hafi, a.m.k. hvað fjármögnun á árinu 2005 varði, verið reiðubúinn að bjóða stefnanda að kaupa þau leigutæki sem stefnandi kynni að taka á leigu af stefnda, gegn 1% lokagjaldi. Er í tilboðinu ekki gerður neinn greinarmunur á fjármögnunar- og kaupleigu hvað þetta varðar.
Fyrir liggur að stefnandi og stefndi gerðu á árunum 2005-1012 með sér a.m.k. 98 fjármögnunarleigusamninga. Fyrir liggur að 54 af þessum samningum lauk með því að stefnandi fékk framsal leiguandlagsins, gegn greiðslu umsamins lokagjalds. Svo virðist af fyrirliggjandi gögnum sem grunnleigutíma 20 samninga sé ekki enn lokið en 24 samningar séu í framhaldsleigu. Eftir því sem næst verður komist er ástæða framhaldsleigunnar m.a. ágreiningur aðila um hvort óuppgerðir fjármögnunarleigusamningar þeirra séu samkvæmt efni sínu leigu- eða lánssamningar. Mun stefndi ekki hafa gefið stefnanda kost á að ljúka samningum með greiðslu lokagjalds frá því á árinu 2012, eftir að umræddur ágreiningur aðila kom í ljós.
Fyrir liggur, og hefur ekki verið hrundið af stefnda, að á heimasíðu hans á árunum 2006, 2008, 2009 og 2010 hafi komið fram að leigutakar, samkvæmt fjármögnunarleigusamningum við stefnda, ættu þess kost, í lok frumleigutíma, að kaupa hið leigða gegn greiðslu fyrirfram umsamins lokagjalds eða áframleigja það ótímabundið, með eins mánaðar uppsagnarfresti.
Fyrir liggur og er óumdeilt að á yfirlitum, sem stefndi sendi stefnanda í árslok 2008, 2009 og 2010, vegna stöðu fjármögnunarleigusamninga, hafi svonefnt lokagjald verið sérstaklega tilgreint og fjárhæð þess.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið um þýðingu tilvísunar í svonefndan endurkaupasamning stefnanda og B&L, í sérstökum samningsskilmálum fjármögnunarleigusamnings aðila, tilboði stefnda frá 24. nóvember 2004, framangreindri viðskiptasögu stefnanda og stefnda, því sem rakið hefur verið um upplýsingar á heimasíðu stefnda og tilgreiningu lokagjalds á yfirlitum stefnda og skýrslum fyrrverandi starfsmanna stefnda, þ. á m. þriggja fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda, sem raktar hafa verið að hluta, verður að telja nægilega sannað að um hafi samist við gerð fjármögnunarleigusamnings nr. 144199-202, frá 13. nóvember 2007, að stefnandi ætti þess kost að kaupa hið leigða, meðan á samningnum stóð eða í lok umsamins grunnleigutíma, fyrir fyrirfram umsamið lokagjald, að því tilskildu að stefnandi hefði staðið í skilum við stefnda samkvæmt tilvitnuðum samningi og öðrum óuppgerðum fjármögnunarleigusamningum stefnanda og stefnda. Framangreindur umsaminn kaupréttur stefnanda felur hins vegar ekki í sér kaupskyldu af hans hálfu. Í samræmi við það eignfærði stefnandi ekki hið leigða í bókhaldi sínu og ársreikningum, heldur gjaldfærði hann leigugreiðslur, sem báru virðisaukaskatt. Þá styður það framangreinda niðurstöðu og er óumdeilt að stefnandi á þess kost að framlengja fjármögnunarleigusamninginn, eftir að frumleigutíma lýkur í desember 2013, samkvæmt skýrum ákvæðum í samningnum, gegn verulega lækkuðu leigugjaldi eða skila hinu leigða í hendur stefnda. Ekki verður talið að framagreind skilyrt réttindi stefnanda til að kaupa hið leigða í lok leigutíma eða fyrr, breyti eðli umrædds samnings, sem, eins og áður greinir, hefur að geyma öll megineinkenni fjármögnunarleigu, eins og þau hafa verið skilgreind í lögum hér á landi, í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið á sviði eignaleigu. Verður að skýra forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 í þessu ljósi.
Með vísan til framangreinds verður fallist á með stefnda að umræddur fjármögnunarleigusamningur aðila brjóti ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi aðilum máls þessa verið heimilt að semja um að greiðslur samkvæmt samningnum tækju mið af breytingum á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningnum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Lýsing hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf., í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.