Hæstiréttur íslands

Mál nr. 408/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


                                     

Þriðjudaginn 24. júní 2014.

Nr. 408/2014.

A og

(Andrés Már Magnússon hdl.)

B

(Júlí Ósk Antonsdóttir hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu BE um að börn A og B yrðu vistuð utan heimilis A í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 23. maí 2014 sem bárust héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. maí 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að börnin C og D verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá og með 18. mars 2014. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vistun barnanna utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, greiðist úr ríkissjóði, þar með málin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 300.000 krónur til hvors þeirra um sig.

                        

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. maí 2014.

Mál þetta barst dóminum 4. apríl sl. og var tekið til úrskurðar 2. maí sl.

Sóknaraðilar eru A, kt. [...], til heimilis að [...], og B, kt. [...], [...].  Kæra þess síðarnefnda  barst 14. apríl sl. og voru málin sameinuð.

Varnaraðili er Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar.

Sóknaraðilar krefjast þess að hrundið verði úrskurði varnaraðila, sem kveðinn var upp 18. mars 2014.  Með honum var ákveðið að börn sóknaraðila, C, kt. [...], og D, kt. [...], skyldu tekin af heimili sóknaraðila A á Akureyri og þau vistuð í fóstri á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, með vísan til b-liðar 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Við flutning málsins kröfðust sóknaraðilar þess jafnframt að krafa varnaraðila í greinargerð um að börnin yrðu vistuð á heimili á vegum hans í tólf mánuði allt frá 18. mars 2014, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, yrði hrundið.

Sóknaraðilar krefjast báðir málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur, en jafnframt krefst hann þess að börnin verði vistuð á hans vegum í allt að tólf mánuði frá 18. mars 2014 að telja, samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Varnaraðili krefst þess að verði úrskurður hans felldur úr gildi fresti kæra til æðra dóms framkvæmd úrskurðarins.

Hér á eftir verður vísað til sóknaraðilanna sem föður og móður eftir því sem við á.

I.

Sóknaraðilar eiga ættir að rekja til [...], en þau voru þar bæði búsett á árum áður og hófu sambúð sína þar árið 1998.  Í sambúðinni eignuðust þau fyrrnefnd börn, en þau slitu samvistum árið 2006.

Af hálfu sóknaraðila er um atvik máls vísað til úrskurðar varnaraðila, en einnig greinargerða aðila.  Þau vísa jafnframt til þess að málið sé yfirgripsmikið og spanni nokkur ár.

Í úrskurði varnaraðila frá 18. mars sl. segir frá því að mál systkinanna, C og D, hafi komið inn á borð Barnaverndarnefndar [...] í október 2007 þegar móðir þeirra, sóknaraðilinn A, fluttist búferlum til Akureyrar.  Var þá börnum aðila komið í fóstur, og var stúlkan í fóstri í um sjö mánuði, en áður höfðu bæði börnin um tíma verið hjá foreldrum sóknaraðila A. 

Samkvæmt úrskurði varnaraðila og öðrum gögnum hefur sóknaraðilinn A átti við andlega erfiðleika og veikindi að stríða um árabil, en til þess er m.a. vísað að hún hafi orðið fyrir alvarlegum áföllum í æsku.  Einnig er greint frá því að um jólin 2005 hafi farið að bera á kvíðaeinkennum og ofsakvíða hjá A og að hún hafi af þeim sökum í tvígang verið lögð inn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri sumarið 2006.  Liggur fyrir að um það leyti slitnaði upp úr sambúð sóknaraðila, en þau hafa farið sameiginlega með forsjá barna sinna. 

Samkvæmt gögnum ákvað sóknaraðilinn A að flytjast frá stórfjölskyldu sinni [...] til Akureyrar árið 2007, einkum vegna þess að hún  vildi vera nærri geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, en fyrir liggur að hún hefur nýtt sér þjónustu deildarinnar allt til þessa dags. 

Fyrir liggur að hausti 2007 fluttust börn sóknaraðila á heimili A á Akureyri.  Í framhaldi af því fékk stúlkan D vist í leikskólum bæjarins og síðar grunnskólum.  Drengurinn C hóf aftur á móti nám í þriðja bekk [...], en árið 2010 var hann færður í [...].  Haustið 2013 hóf hann nám í [...], en skömmu áður hafði A flust á núverandi heimili sitt, að [...], sem er í næsta nágrenni skólans. Fjölskyldan á ekki ættingja á Akureyri eða nágrenni, en fyrir liggur að aðilar hafi í fríum yfirleitt dvalið hjá ættingjum sínum á [...] á síðustu árum.  Við meðferð málsins fyrir dómi var upplýst að systir A hefði flust til Akureyrar fyrir fáeinum mánuðum.  Óumdeilt er að A lauk stúdentsprófi vorið 2010, en hefur að auki sótt áfanga í [...] við [...].

Faðir barnanna, sóknaraðilinn B, hefur um margra ára skeið verið sjómaður á frystitogara.  Hann hefur undanfarin ár umgengist börn sín á milli túra, í eina til fjórar vikur eftir atvikum.

Í úrskurði varnaraðila frá 18. mars 2014 er atvikum máls nánar lýst.  Segir þar að meginástæða íhlutunar félagsmálayfirvalda á Akureyri haustið 2007 hafi verið andlegir örðugleikar sóknaraðila A og þarfir hennar og barnanna fyrir stuðning af þeim sökum. 

Í úrskurðinum er staðhæft að samkvæmt lýsingu meðferðaraðila A, hennar sjálfrar og þeim upplýsingum sem sé að finna í gögnum barnaverndar hafi hún m.a. sýnt einkenni um [...].  Vegna veikinda sinna hafi hún lokið meðferð á dagdeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri vorið 2008, en hafi síðan þá verið í tengslum við geðlækni, m.a. vegna lyfjameðferðar.  Þá er greint frá því að A hafi síðast greinst með [...], og nú nýlega með svonefndan [...].

Í úrskurði varnaraðila er greint frá því að á þeim sjö árum sem barnaverndarnefnd hafi haft málefni umræddra barna til meðferðar hafi verið gerðar átján áætlanir fyrir hvort þeirra samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Segir frá því að í þessum áætlunum hafi verið kveðið á um umfangsmiklar stuðningsaðgerðir af ýmsu tagi.  Er sem dæmi nefnt að börnin hafi notið aðstoðar stuðningsfjölskyldna um árabil, en að auki hafi varnaraðili tekið þátt í samráði sérfræðinga og þjónustuaðila um málefni fjölskyldunnar, svo sem grunnskóla, leikskóla og geðheilbrigðisþjónustu.  Þá hafi sóknaraðilinn A fengið tilsjón til stuðnings og leiðbeiningar, m.a. vegna sértækrar þroskaröskunar drengsins C.  Að auki hafi stuðningurinn við A falist í því að ýmis kostnaður hafi verið greiddur vegna barnanna, en að einnig hafi henni verið vísað á viðeigandi aðstoð félagsþjónustu Fjölskyldudeildar Akureyrar vegna fjárhagserfiðleika.

Í úrskurðinum er staðhæft að þrátt fyrir lýstan atbeina félagsmálayfirvalda hafi áhyggjur af aðbúnaði barna sóknaraðila verið viðvarandi en þó mismiklar. Áréttað er að fyrrnefndar stuðningsaðgerðir hafi haft þann tilgang að efla A til uppeldis og daglegrar umönnunar barna sinna, en að mati varnaraðila hafi það borið takmarkaðan árangur, m.a. vegna stopullar þátttöku hennar.  Sem dæmi um það er nefnt að gerðar hafi verið þrjár tilraunir til að veita tilsjón á heimili hennar en að þær hafi reynst árangurslausar, m.a. vegna þess að A hafi afþakkað stuðning eða að tilsjónaraðili hafi ekki náð í hana, og hún m.a. ekki svarað í síma eða dyrabjöllu.  Að auki hafi hún afboðað sig vegna veikinda.  Þá hafi uppeldis- og fjölskylduráðgjöf strandað á hindrunum af sömu ástæðum.

Í úrskurði varnaraðila er vikið sérstaklega að börnum sóknaraðila, C og D.

Um drenginn C er áréttað að hann hafi hafið nám í [...] á Akureyri haustið 2007, en að fljótlega hafi komið í ljós að hann átti við erfiðleika að stríða við nám og í félagsfærni.  Hafi m.a. lestrarnám reynst erfitt fyrir drenginn og hafi hann af þeim sökum verið í mikilli sérkennslu.  Vegna þess hafi drengnum verið vísað til greiningar hjá barna- og unglingageðlækni, en að áliti hans hafi ekkert komið fram sem bent hafi til þroska- eða geðröskunar, og hafi greind hans verið talin í meðallagi.  Til að efla drenginn félagslega og aðstoða hann við tómstundaiðkun hafi hann fengið persónulega ráðgjöf haustið 2008, en að auki hafi hann, líkt og systir hans, verið hjá stuðningsfjölskyldum.  Greint er frá því að í október 2009 hafi á nemendaráðsfundi [...] komið fram áhyggjur vegna drengsins og þ. á m. um að heimanámi hans væri ekki sinnt og að hann mætti mjög seint í upphafi skóladags.  Að auki hafi verið áhyggjur um líðan drengsins, en að eftir því hafi verið tekið að þegar hann hafi komið með heimanám sitt fullfrágengið eftir dvöl frá stuðningsfjölskyldu hafi hann verið ánægður. 

Í úrskurðinum er greint frá því að skólaárið 2010/ 2011 hafi verið sótt um skólavist fyrir C í [...], en um sé að ræða sérskóla fyrir börn með geðræna erfiðleika og ýmiss konar náms- og aðlögunarvanda.  Því til viðbótar hafi drengnum verið vísað til greiningar hjá skólasálfræðingi.  Hafi það verið niðurstaða sálfræðingsins að félagsfærni og aðlögunarhæfni drengsins væri slök.  Greint er frá því að móðir drengsins, sóknaraðilinn A, hafi á þessu tímaskeiði látið í ljós áhyggjur um að drengurinn væri á einhverfurófi og hefði einkenni ADHD.  Vegna þessa hafi verið mælt fyrir um frekari greiningu á þessum þáttum með tilvísun til barna- og unglingageðlæknis og til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, en áður hefði drengnum verið vísað á BUGL.  Í úrskurðinum er á það bent að áður en þetta gerðist hafi fengist óstaðfestar upplýsingar um gagntæka þroskaröskun C, þ.e. að hann hefði einkenni á einhverfurófi, en af þeim sökum hafi verið afráðið að miða stuðning skóla og barnaverndar við það ástand og hafi m.a. verið efnt til reglulegs samráðs í skóla með kennara, fjölskylduráðgjafa, einhverfuráðgjafa og tilsjónaraðila með sérþekkingu á einhverfu.  Hafi hugmyndin m.a. verið að tilsjónaraðilinn aðstoðaði móður drengsins, sóknaraðila A, við að fylgja eftir ráðgjöf og ákvörðunum þessara funda.  Staðhæft er að stuðningurinn hafi reynst endasleppur þar sem A hafi ekki nýtt ráðgjöfina, en að auki hafi tilsjónin verið ómarkviss vegna mikilla afboðana hennar.  Enn fremur hafi þátttaka hennar í fjölskylduráðgjöf verið afar stopul. Vegna þess hafi það verið mat varnaraðila, barnaverndar, að umrætt form hentaði ekki þar sem ekki hafi tekist að framfylgja því sem ákveðið hafi verið á fyrrnefndum fundum. 

Í úrskurði varnaraðila er greint frá því að allt skólaárið 2011/2012 hafi verið miklar áhyggjur af líðan drengsins C, en einnig af aðbúnaði hans.  Vegna þessa hafi það verið mat starfsmanna barnaverndar, varnaraðila, í febrúar 2012 að réttast væri að vista drenginn og systur hans utan heimilis sóknaraðila, A.  Eftir umfjöllun í barnaverndarnefnd hafi það hins vegar verið niðurstaðan að halda skyldi áfram stuðningi við drenginn og systur hans á heimili sínu, og er til þess vísað að þá um haustið og framan af vetri hafi virst ganga heldur betur hjá drengnum þrátt fyrir að aðeins hluti stuðningsaðgerða kæmi til framkvæmda.  Þannig hafi m.a. tilsjón með heimili sóknaraðila, A, gengið brösuglega af sömu ástæðu og áður.

Í úrskurðinum er áréttað að eftir að drengurinn C hafði lokið námsvist sinni í [...] á vordögum 2013 hafi hann flust með fjölskyldu sinni úr [...] í [...] þar sem sóknaraðila, A, hafði verið úthlutað félagslegri leiguíbúð að [...].  Þá um haustið hafi drengurinn hafið nám í [...]. 

Fram kemur í gögnum að drengurinn hafi ásamt systur sinni, D, verið vandlega undirbúinn vegna skólaskiptanna, m.a. með samstarfi fyrrnefndra skóla.  Að auki hafi verið gert ráð fyrir ráðgjöf einhverfudeildar [...] við að aðlaga þjónustu [...] að þroskaröskun drengsins.  Er staðhæft í úrskurðinum að vel hafi gengið  í skólastarfinu til að byrja með en að fljótlega hafi mætingar drengsins orðið stopular og að ekki hafi tekist að bæta þar úr, þrátt fyrir tilraun í þá átt, og hafi ástandið orðið óviðunandi.  Er um þetta m.a. vísað til skýrslu skólastjóra [...] frá 9. janúar 2014.

Í úrskurði varnaraðila er vikið að stúlkunni D.  Greint er frá því að hún hafi verið í tæp þrjú ár í leikskóla á Akureyri, en að í nóvember 2008 hafi starfsmenn lýst áhyggjum sínum af því að telpan missti oftast af tveimur til fjórum tímum í upphafi skóladags.  Hafi þetta valdið stúlkunni vanlíðan þar sem leikskóladvölin hafi ekki nýst henni sem skyldi.  Tekið er fram að þetta hafi verið viðvarandi alla leikskólagöngu stúlkunnar, þrátt fyrir að málefnið hefði verið rætt á samráðsfundum með móður stúlkunnar, sóknaraðila A.  Þannig hafi móður þrátt fyrir ítrekuð áform og yfirlýsingar ekki tekist að bæta úr, og hafi tilsjón vorið 2009 ekki bætt úr.  Þá segir að auk þessa hafi verið áhyggjur um ofþyngd telpunnar og hafi tilkynning borist varnaraðila um það frá leikskóla í febrúar 2011.  Staðhæft er að þetta hafi valdið stúlkunni vanlíðan, en því til viðbótar hafi borið á miklu óöryggi hjá henni í daglegu lífi.  Staðhæft er að sóknaraðili A hafi ekki haft miklar áhyggju af fyrrnefndri tilkynningu, en þrátt fyrir það farið með telpuna til læknis sem hafi staðfest ofþyngdarvanda.  Segir að í kjölfarið hafi hún farið með stúlkuna til næringarráðgjafa en án sýnilegs árangurs.

Í úrskurði varnaraðila segir frá því að eftir að stúlkan D hóf grunnskólagöngu sína haustið 2011 hafi fljótlega komið fram fyrri áhyggjur vegna stopulla mætinga hennar.  Hafi tilraunir til bóta verið reyndar með ráðgjöf og fortölum við sóknaraðila A en að því til viðbótar hafi verið mikið aðhald frá skóla, m.a. með daglegum hringingum að morgni en án sýnilegs árangurs.  Staðhæft er að stúlkan hafi vegna þess verið döpur í bragði þar eð henni hafi fundist óþægilegt að koma of seint í skólann nánast daglega.  Greint er frá því að í febrúar 2012 hafi tekist samkomulag við A um morguntilsjón á heimili hennar í þeim tilgangi að vinna bug á þessu vandamáli.  Tilsjóninni hafi þó lokið án árangurs og hafi engin breyting orðið á morgunrútínu á heimilinu og hafi telpan haldið áfram að mæta of seint í skólann. 

Í úrskurðinum er greint frá því að auk ofangreindra ráðstafana hafi sóknaraðili A, í nóvember 2011, fengið þjónustu „ráðgjöfin heim“ frá Búsetudeild Akureyrarbæjar.  Um hafi verið að ræða stuðningsúrræði við fólk með geðfötlun, sem m.a. sé ætlað að aðstoða viðtakendur við skipulag daglegs lífs og við heimilishald.  Hafi þessari þjónustu verið sinnt af iðjuþjálfa með reglubundnum heimsóknum.  Vísað er til skýrslu iðjuþjálfans um að úrræðið hafi ekki tekist sem skyldi þrátt fyrir ágæta byrjun þar sem sóknaraðili A hafi margsinnis afþakkað þjónustuna, en af þeim sökum hafi henni verið hætt í mars 2012.

Í úrskurði varnaraðila er vísað til greinargerða starfsmanna varnaraðila, og þar á meðal greinargerðar, sem dagsett er 20. júní 2007.  Segir að þar hafi sú tillaga komið fram að börn sóknaraðila yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila A.  Var tillagan tekin fyrir á fundi varnaraðila 27. júní nefnt ár.  Í nefndri greinargerð er vísað til áðurnefndra gagna og þá ekki síst til fyrrnefndra áætlana, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, á tímabilinu frá 4. október 2007 til 24. maí 2012.  Þá er þar vísað til umsagna leikskóla, grunnskóla, bókana á teymisfundum og umsagna kennara, þ. á m. í [...].  Einnig er í greinargerðinni vísað til skýrslu ráðgjafa í félagsþjónustu hjá Fjölskyldudeild Akureyrar frá 20. júní 2012, sem varðar umsókn sóknaraðila A um aðstoð vegna húsnæðismála, skólamáltíða barna og skólavistana þeirra, vegna lækniskostnaðar, kaupa á húsbúnaði og vegna viðbótarframfærslu.  Í síðastnefndu skýrslunni er greint frá því að gerðar hafi verið kröfur til sóknaraðila A um að hún samþykkti aðstoð við að skipuleggja og hagræða fjármálum sínum, en um hafi verið að ræða aðstoð frá Ráðgjafarstofu heimilanna, ráðgjöfin heim, aðstoð frá Fjölskyldudeild Akureyrar í formi samstarfssamnings og greiðsluþjónustu banka.  Tekið er fram að þessar ráðstafanir hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast hafi verið til, en A hafi lýst óánægju sinni með vinnubrögð Fjölskyldudeildar.  Einnig er tekið fram í skýrslunni að A hafi ekki farið að fyrirmælum um gerð samstarfssamnings við Fjölskyldudeildina og Ráðgjafarstofu heimilanna, en að auki hafi hún verið langt yfir framfærslukvarða.  Að auki hafi hún margsinnis verið boðuð á fundi til að fara rækilega í gegnum fjármál hennar en hún þá hvorki svarað né mætt á boðaða fundi.

Í nefndri greinargerð starfsmanna varnaraðila frá 27. júní 2012, sem undirrituð er af E félagsráðgjafa og F framkvæmdastjóra barnaverndarnefndar, er framangreindri atburðarás lýst að nokkru en einnig er þar vikið að árangri lýstra aðgerða, en um það segir nánar: „Samvinna með A, móður barnanna, hefur í mörgu gengið vel, en þó ekki svo fullnægjandi sé.  Ekki leikur vafi á því að A hefur einlæga löngun til þess að bæta hag barna sinna.  Hún sækist eftir stuðningi og er að jafnaði áhugasöm um þau úrræði sem eru til umræðu.  Hins vegar hefur skort á að hún hafi úthald til að fylgja úrræðunum til enda og svara þeim kröfum sem til hennar hafa verið gerðar í þeim samstarfsverkefnum sem tilgreind eru í áætlunum við meðferð málsins.  Raunverulegar breytingar á uppeldisháttum, skipulagi og rútínum hafa látið bíða eftir sér og á tímabilum hefur öll samvinna lagst niður vegna þess að skóli, barnaverndarnefnd og aðrir aðilar ná ekki sambandi við A, hvorki í síma né með heimsóknum.  Á þessum tímabilum falla viðtalstímar niður, hún er týnd og óvirk.  Forföll vegna veikinda hafa og verið mikil og tíð.  Þannig hefur t.d. ekki náðst samfella í fjölskylduráðgjöf í [...] um tveggja ára skeið.  Þá hefur hún ítrekað tekið börn sín úr skóla svo dögum skiptir án þess að láta vita af því eða sækja um leyfi.  Hefur þetta gjarnan gerst í tengslum við skólafrí þegar börnin hafa farið vestur á vit móðurforeldra sinna eða föður síns.  Samvinna um ráðstafanir til að ná tökum á framfærsluvanda og endurteknum fjárhagsþrengingum hefur heldur ekki gengið sem skyldi.  Eins og fram hefur komið hefur ýmiss kostnaður vegna barnanna verið greiddur tímabundið, svo sem leikskólagjöld, frístund og skólamáltíðir.  Hefur þetta m.a. verið gert til að aðstoða A til að standa í skilum með þessa þætti.  Engu að síður hefur það ítrekað gerst að börn hennar hafa átt á hættu að missa þessa þjónustu svo sem dvöl í frístund, þar sem miklar skuldir hafa hlaðist upp vegna þeirra. ... A sótti um úrræðið Ráðgjöfin heim á vegum búsetudeildar Akureyrar og naut þess um tíma sl. vetur.  ...  A upplifir gjarnan mikið álag við uppeldi og umönnun barna sinna.  Henni hefur verið tíðrætt um það hversu erfið þau séu og hún fái lítinn stuðning og litla afleysingu í foreldrahlutverki sínu.  Hún hefur sjálf stundum velt upp þeirri spurningu hvort betra væri að börnin, a.m.k. C, væri í umsjón annarra.  ...  Þegar farið var yfir stöðuna í málum barna A í upphafi yfirstandandi árs (2012) var það niðurstaða barnaverndarstarfsmanna að vinnsla málsins skilaði ekki nægum árangri og að hana þyrfti að endurskoða.  Þá var ofarlega á baugi sá vandi sem stafaði af stöðugum seinkomum D sem truflaði aðlögun hennar í skóla.  Þessum vanda, svo og vanrækslu varðandi líkamlega umhirðu og heimanám var m.a. lýst í skýrslu kennara sem lögð var fram á fundi nemendaverndarráðs [...].  Þá kemur fram í yfirliti skólans yfir skólaárið að telpan kom of seint í 65 stundir.  Skráð útivist var 14 dagar og 28 stundir.  Mætingareinkunn hennar fyrir skólaárið 2010 til 2012 var 1.  ...  Var málið rætt við A og m.a. í samráði við hana ákveðið að gera nú tilraun til að setja inn markvissa morguntilsjón í afmarkaðan tíma, en fram að þessu hafði hún ekki fallist á slíkt úrræði.  Tilsjónin hófst 12. mars og stóð út mánuðinn.  (Þá var þegar í gangi tilsjón sem miðaði að því að aðstoða A við uppeldi C í ljósi einhverfueinkenna hans).“

Tekið er fram í greinargerðinni að umrædd aðstoð við sóknaraðila og börnin hafi ekki nýst sem skyldi þar sem A hafi ekki svarað í síma né dyrabjöllu á morgnana þegar tilsjónin átti að fara fram.  Þá er tekið fram að síðustu vikur skólaársins 2011/2012 hafi kennari stúlkunnar ákveðið að sækja hana í skólann að morgni dags svo að hún mætti á réttum tíma. 

Að því er varðaði aðbúnað og hagi drengsins C er í nefndri greinargerð m.a. vísað til skýrslu H, fjölskylduráðgjafa og sálfræðings í [...].  Segir frá því í skýrslunni að á skólaárunum 2010 til 2012 hafi drengurinn sýnt framfarir en að mjög hafi skort á utanumhald og umhirðu heima fyrir, aðstoð við heimanám og þrifnað, og að kallað hafi verið eftir breytingum á þessum þáttum, en að það hafi ekki náð tilætluðum árangri. 

Fram kemur í umræddri greinargerð að sóknaraðili A hafi slitið sambúð við þáverandi sambýlismann sinn í mars 2012, og er sagt að það hafi reynst henni erfitt. 

Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar er það álit látið í ljós, að við blasi að veikleikar sóknaraðila A, andleg og líkamleg veikindi hennar svo og ýmsir persónulegir þættir aðrir valdi því að ekki hafi tekist að bæta aðbúnað barnanna hjá henni með áðurgreindum stuðningsaðgerðum.  Er ályktað að af þessum sökum sé hætta á að það mikla starf sem þegar hafi verið unnið til að bæta aðlögun og námsstöðu drengsins C hafi verið unnið fyrir gíg og að upphaf skólagöngu stúlkunnar D bendi til þess að þrátt fyrir eðlilegan þroska og námsgáfur geti skólaganga hennar misheppnast vegna vanrækslu forsjáraðila.  Þá er sagt að ekkert bendi til annars en að ofþyngdarvandi stúlkunnar sé einnig afleiðing vanrækslu.  Greint er frá því í greinargerðinni að faðir barnanna, sóknaraðilinn B, hafi lýst sig reiðubúinn til að taka þau að sér meðan móðirin, A, bæti heilsu sína, en að hann hafi jafnframt sagt að aðstæður hans leyfðu það ekki að hann tæki alfarið við forsjá þeirra.  Eins og áður sagði var það tillaga nefndra starfsmanna að varnaraðili, barnaverndarnefnd, kvæði á um það með úrskurði samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga að umrædd börn yrðu tekin af heimili sínu tímabundið.

Í úrskurði varnaraðila frá 18. mars 2014 kemur fram að ofangreind greinargerð starfsmanna hafi verið lögð fram á fundi nefndarinnar, þann 27. júní 2012, en eins og áður sagði var ekki fallist á tillögu þeirra, en í þess stað hafi verið afráðið að halda stuðningsaðgerðum áfram.  Þá kemur fram að málefni fjölskyldunnar, sóknaraðila A og nefndra barna, hafi eftir þetta verið til umræðu á alls tíu fundum.  Þá liggur fyrir að gerð var áætlun með sóknaraðila A fyrir bæði börn hennar þann 15. ágúst 2012, sem gilti til 15.11.2012.  Í áætluninni var ákvæði um víðtækar stuðningsaðgerðir, en að auki var þar kveðið á um að A myndi undirgangast foreldrahæfnismat hjá óháðum sérfræðingi.  Um síðastnefnda atriðið liggur fyrir ítarlega skýrsla G sálfræðings, sem dagsett er 7. nóvember 2012.  Í því mati er farið yfir lífssögu sóknaraðila A, en einnig heilsufarssögu hennar.  Þá er gerð grein fyrir próf- og matslistum og lýst núverandi aðstæðum hennar og umræddra barna, en einnig er vikið að upplýsingum sem matsmaður fékk frá barna- og unglingageðdeild Landsspítala-Háskólasjúkrahúss og frá [...] og [...] á Akureyri.  Greint er frá því í matinu að sóknaraðili A hafi m.a. tekið virkan þátt í námskeiðum á vegum Starfsendurhæfingar Norðurlands og þ. á m. námskeiðinu Gæfusporin, en hafi að auki stundað framhaldsskólanám og háskólanám og verið í stjórn Geðverndarfélags Akureyrar.  Í matinu er gerð grein fyrir styrkleikum A sem forsjár- og uppeldisaðila, en einnig vikið að veikleikum hennar, en um það segir nánar: „Það er mat þeirra meðferðaraðila sem hafa verið í reglulegum samskiptum við A að hún sýni gott sjúkdómsinnsæi og hún sé meðvituð um að þurfa aðstoð við umönnun barna sinna.  Þetta viðhorf hennar komi einnig vel fram í samtölum við matsmann.  Þannig virðist hún átta sig á stöðu sinni og að það sé bæði hennar hagur og barnanna að þau fái stuðning til að styrkja samskipti þeirra.“  Í matinu er greint frá því að frá hausti 2012 hafi A virst vera að styrkjast og hafi hún m.a. nýtt sér vel úrræðið Gæfusporin á vegum Starfsendurhæfingar Norðurlands, en síðan segir: „Í umsögn umsjónarkennara D kemur fram að A heldur vel utan um það sem snýr að skólanum.  Þannig er D snyrtilega klædd og hár greitt, hún er vel búin skriffærum og nesti.  Þá mætir hún vel í skólann og heimalestri er yfirleitt vel sinnt.  Þetta eru atriði sem skipta máli við mat á styrkleikum A.  Í veikindum sínum, sem fjallað hefur verið um framar, hefur A einnig sýnt styrkleika í því að ljúka stúdentsprófi og hefja háskólanám.  Það ber vott um þrautseigju af hennar hálfu ásamt því að hún hefur þannig verið börnunum sínum fyrirmynd um mikilvægi menntunar.“ Um veikleika A, sem forsjár- og uppeldisaðila segir í matinu m.a.: „A hefur lengi glímt við andlega erfiðleika sem haft hafa áhrif á tök hennar á foreldrahlutverkinu.  Þannig hefur komið tímabil eftir að hún varð móðir þar sem að hún hefur átt erfitt með að sinna skyldum sínum vegna líðanar sinnar.  ...  Andlegir erfiðleikar A valda því að hún er viðkvæm fyrir álagi.  Því geta komið tímabil þar sem hún á hugsanlega erfiðara með að standa sig í hlutverki sínu gagnvart börnunum.  Þar hefur einnig áhrif sú staðreynd að hún er félagslega ein þar sem barnsfaðir hennar og nánasta fjölskylda býr fjarri Akureyri og getur því ekki verið henni sá stuðningur sem hún þarfnast.  A hefur sjálf haft orð á því að hún myndi óska þess að hún gæti sinnt forsjárhlutverki sínu án stuðnings opinberra aðila en jafnframt kom skýrt fram í samtölum við matsmann að hún áttar sig vel á því að reyndin er ekki þannig.  Matsmaður leggur því áherslu á mikilvægi þess að hún njóti liðsinnis Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar og þeirra stuðningsúrræða sem þar eru í boði.  Upplýsingar frá þeim aðilum sem komið hafa að börnum A eru að mörgu leyti samhljóða hvað varðar erfiðleika hennar við að fylgja eftir ýmsum skyldum í uppeldishlutverkinu.  Það kemur fram hjá H sálfræðingi og I skólastjóra [...] sem og hjá J sálfræðingi í [...].  Það hefur einnig samhljóm í upplýsingum frá K iðjuþjálfa á vegum stuðningsúrræðisins Ráðgjöfin heim og L tilsjónaraðila.  Þessir aðilar greina frá því að þrátt fyrir góðan vilja A til að taka á þáttum sem máli skipta í uppeldishlutverkinu þá sé úthald hennar takmarkað og reyndin of oft sú að lítið verði um efndir.  Það er álit matsmanns að A sé vel meðvituð um mikilvægi þroskahvetjandi þátta í uppeldi og hún segist sjálf vera tilbúin til að fá markvissa aðstoð til að fylgja eftir slíkum ráðleggingum.  Erfitt er að segja til um mögulegan árangur þeirrar vinnu en út frá sögu A og upplýsinga um takmarkað úthald hennar er óvíst hver hann gæti orðið.  Upplýsingar frá M sálfræðingi sem er sá meðferðaraðili sem er í reglulegustu samskiptum við A undanfarið tilgreina þó að andlega virðist hún vera í góðu jafnvægi sem gefur tilefni til ákveðinnar bjartsýni, í það minnsta í bráð, um að stuðningur geti og sé að skila árangri.“ Í nefndu mati er vikið að heilsufari A, og er áréttað að hún hafi lengi haft óstöðuga lund og átt erfið tímabil þar sem vanlíðan og kvíði hafa verið áberandi.  Þá er það nefnt að hún eigi að baki áfallasögu og hafi greint frá endurtekinni kynferðislegri misnotkun frá í æsku en einnig einelti í skóla.  Tekið er fram að A hafi sl. sex ár verið í reglulegum samskiptum við geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og eigi að baki innlagnir á deildina, en að hún hafi nýtt sér þjónustu dagdeildar og átt regluleg viðtöl við geðlækni á göngudeild.  Síðan segir: „Matsmaður leggur áherslu á að A haldi áfram að vera í reglulegu eftirliti geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri.  Það er nauðsynlegt til að fylgja eftir hennar líðan sem hefur tekið framförum þó hún sé enn viðkvæm sem og mikilvægt fyrir forsjárhæfni hennar og getu til að halda stöðugleika heima fyrir.“

Lokaorð matsmannsins eru þessi: „Í þeim gögnum sem er að finna um málefni A hjá Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar sem og í samtölum matsmanns við aðila í [...] og [...] er ljóst að A hefur staðið til boða ýmiss konar aðstoð og stuðningur í sínu hlutverki sem forsjáraðili.  Hins vegar ber aðilum saman um að árangur þeirra úrræða hafi að mörgu leyti verið takmarkaður.  Nú ber hins vegar svo við að nokkur bjartsýni er á bætta líðan A og hennar andlega jafnvægi frá því að hún hóf þátttöku í Gæfusporunum þar sem hún er m.a. í vikulegum meðferðarviðtölum hjá sálfræðingi.  Að sama skapi eru þeir aðilar sem komið hafa að málefnum fjölskyldunnar sammála um að tilfinningatengsl C og D við móður sína séu náin.  Eins og staðan er nú er það því niðurstaða matsmanns að A sé hæf til að axla ábyrgð sína sem forsjáraðili barna sinna svo fremi að hún fái markvissan utanaðkomandi stuðning í því hlutverki sem hún nýtir sér.“

Á meðal ganga máls þessa eru vottorð N, forstöðulæknis geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, dagsett 24. mars 2007, 25. janúar 2008, 10. júní 2008, 27. janúar 2009 og 24. mars 2011.  Varða vottorðin umsókn sóknaraðila A um endurhæfingarlífeyri.  Þar segir m.a. um sjúkdómsgreiningu: „Felmtursröskun, blandnar áráttuhugsanir og athafnir og aðrar tvíhverfar lyndisraskanir“.

Í úrskurði varnaraðila er vísað til sérfræðiumsagna um sóknaraðila A og nefnd börn, sem gerð voru á tímabilinu frá júní 2012 til 5. mars 2014.  Einnig segir frá því að á fyrrnefndum fundi varnaraðila þann 27. júní 2012 hafi sóknaraðili A mætt ásamt lögmanni sínum, en að þá hafi verið farið yfir fyrrgreinda tillögu starfsmanna nefndarinnar. Að auki kallaði nefndin til á þennan fund N geðlækni.

Samkvæmt gögnum var á fundi varnaraðila þann 8. maí 2013 lögð fram greinargerð starfsmanna nefndarinnar um stuðningsaðgerðir og stöðu sóknaraðila A og barna hennar, en um það segir í úrskurðinum: „Þar kom fram að skólasókn stúlkunnar hefði hrakað á vorönn, en staða hennar að öðru leyti svipuð og kennarar sáttir við stöðu hennar og samstarf við móður. Hvað drenginn varðar kom fram að ástundun hans og samstarf skóla við móður hefði hrakaða síðustu mánuði.“  Þá segir að ítrekað hafi verið fundað með A og tilsjónaraðila til að skipuleggja það úrræði, en að samningar þar um hafi ekki gengið eftir vegna tíðra afboðana hennar og að ekki hafi tekist að efna ákvæði um samstarf við félagsþjónustu um endurskipulagningu á fjármálum.  Aftur á móti er greint frá því að verið væri að vinna í því að hún fengi úthlutað félagslegri íbúð hjá Akureyrarbæ.

Eins og áður er rakið gekk þetta síðastnefnda eftir og flutti sóknaraðili A ásamt börnum sínum í íbúð í [...], sumarið 2013. Þá liggur fyrir að börnin hófu skólagöngu í [...] þá um haustið. 

Í úrskurði varnaraðila er greint frá því að mætingar barna hafi verið viðunandi fyrstu vikurnar í [...], en það staðhæft að heilsufar A væri enn bágborið.

Í úrskurðinum segir að á fundi nefndarinnar, hinn 15. janúar 2014, hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna nefndarinnar, en þar hafi komið fram að staða barnanna hefði versnað frá því sem áður var og væri óviðunandi.  Jafnframt er greint frá því að það hafi verið mat starfsmannanna að hefðbundin úrræði barnaverndar væru fullreynd og að vinnsla málsins með óbreyttu sniði væri þýðingarlaus. Fram kemur að lögmaður sóknaraðila A, sem mættur var á fundinn, hafi farið fram á frest.  Hafi það verið samþykkt og hafi málið verið tekið fyrir að nýju á fundi þann 9. febrúar sl. Greint er frá því að starfsmaður varnaraðila hafi þá ítrekað fyrra álit sitt og m.a. vísað til þess að nær sjö ár væru liðin frá því að stuðningsaðgerðir hófust, en að viðunandi árangur hefði ekki náðst á þeim tíma. Tekið er fram að starfsmaður varnaraðila hefði látið þá skoðun í ljós að brýnt væri að rjúfa það ófremdarástand sem ríkti og að börnin yrðu vistuð hjá hæfum fósturforeldrum þar sem vanda þeirra yrði mætt á viðeigandi hátt. Fram kemur að á nefndum fundi var lagt fram læknisvottorð O heimilislæknis, en það hafði verið ritað að beiðni Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.  Vottorðið er dagsett 29. janúar 2014.  Segir þar m.a. að sóknaraðilinn A hafi engan skráðan heimilislækni en að vottorðsgefandi hafi hitt hana í nokkur skipti frá árinu 2011. Í vottorðinu er rakin heilsufarssaga A, en þar á meðal er vísað til þess að hún hafi verið lögð inn á geðdeild Landspítalans í fjögur skipti á árinu 1997, vegnar óyndis.  Einnig er í vottorðinu greint frá meðferð A á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri frá 1. júní 2006, líkt og hér að framan hefur verið rakið, sbr. vottorð N yfirlæknis, en tekið er fram að upplýsingar læknisins hvað það varði hafi verið afar takmarkaðar. Þá segir í vottorði heimilislæknisins: „Undanfarna mánuði hefur hún (A) verið í miklum vandræðum með tíð svima- og ógleðiköst og jafnvel meðvitundarskerðingu í tengslum við það. Þetta er búið að skoða þó nokkuð, bæði af P taugalækni, Q HNE lækni á Akureyri sem og á göngudeild HNE deildar Landsspítala og virðist vera Menieres sjúkdómur sem kemur líklegast til með að hrjá hana í fleiri ár. Þegar þessi köst standa yfir er hún algjörlega ósjálfbjarga og því vart fær um að sinna öðrum. Q hitti hana fyrst í nóvember 2008, að beiðni N til mats á hugsanlegri svefnsýki, Narcolepsy. Álit hans var að hennar ástand væri ekki alveg dæmigert fyrir svefnsýki en þó þótti ástæða til að gera svefnrannsókn en þá rannsókn dróst nokkuð að gera af einhverjum orsökum. Eftir að svefnrannsóknarniðurstöður lágu fyrir í mars 2011: „Hipersomnia, ekki dæmigert fyrir Narcolepsy“ var sótt um lyf við Modiodal fyrir hana. Hún notar enn um þrjár Modiodal töflur á dag og ekki hefur gengið að minnka þann skammt. Ekki reglubundið eftirlit hjá taugalækni.

A á tvö börn, C og D. C hefur nú fengið lokaniðurstöðu úr greiningarvinnu á BUGL. Hann er talinn haldinn dæmigerðri einhverfu. D hefur verið nokkuð hraust, hún var fimm ára gömul send á barnadeild FSA til mats vegna ofþyngdar, þá var nú eitthvað lítið mætt til næringarráðgjafar og í blóðprufur og var lítið úr skoðunum vegna þessa. Hefur annars verið hraust en móðir hefur nú tjáð talsverðar áhyggjur af heilsufari hennar, var nýlega send tilvísun á barnadeild til mats á snemmbúnum kynþroskaeinkennum.

Af sjúkrahússögu A má ætla að vegna erfiðrar sjúkdómssögu hennar, tvíhverfri lyndisröskun, Hipersomniu og Menieres sjúkdóma sé geta hennar til að sinna börnum afskaplega takmörkuð á köflum.“

Á meðal læknisfræðilegra gagna er einnig greinargerð áðurnefnds N, forstöðulæknis geðdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.  Greinargerðin er dagsett 18. febrúar 2014, en hún var rituð að beiðni varnaraðila.  Í upphafsorðum er því lýst að sérfræðingurinn hafi haft sóknaraðila A til meðferðar við þunglyndisröskun og kvíðaröskun frá september 2006, og er þar um vísað til áðurnefnra gagna.  Í greinargerðinni er jafnframt vísað til áðurrakins foreldrahæfnismats G frá 7. nóvember 2012, en þess getið að nokkrar breytingar hafi orðið á heilsufarslegum og félagslegum högum sóknaraðila frá þeim tíma. Er í fyrsta lagi sagt frá því að í maí 2013 hafi A fengið svimaköst með ógleði, slappleika og hellu fyrir eyrun. Að þeim sökum hafi yfirlæknirinn vísað henni til skoðunar hjá fyrrnefndum sérfræðingum, eins og lýst er í vottorði heilsugæslulæknis.  Geðlæknirinn getur þess að svimaköstin séu farin að strjálast og minnka og líði margar vikur á milli svimakasta. Í öðru lagi er í greinargerðinni tekið fram að svefnerfiðleikar A hafi verið vaxandi á árinu 2013 og af þeim sökum hafi svefnlyfjaskammtur verið tvöfaldaður þannig að hún hafi náð að hvílast. Greint er frá því að lyfjagjöfin sé skammvinn en að neysla lyfsins í umræddu magni sé óæskileg fyrir heilsu sjúklings til langframa.  Í þriðja lagi er á það bent í greinargerðinni að eftir mikla baráttu A hafi á síðasta ári endanleg niðurstaða fengist frá Barnageðdeild Landspítalans um sjúkdómsgreiningu sonar hennar, C, og hafi niðurstaðan verið dæmigerð einhverfa. Fullyrt er að þessi greining hafi gefið A, seint og um síðir, rétt til umönnunarbóta frá Sjúkratryggingum Íslands. Í fjórða lagi er á það minnst að sambýlismaður A, sóknaraðilinn B, hafi lagst inn á sjúkrahús í júlí 2013 og er staðhæft að fjarvera hans hafi reynt á fjárhag hennar og stuðlað að meiri félagslegri einangrun.  Lokaorðin í greinargerð geðlæknisins eru þessi: „Undirritaður geðlæknir álítur að uppeldishæfni A hafi ekki breyst að neinu marki frá foreldrahæfnismatinu 2012, þrátt fyrir að nokkrar breytingar hafi orðið á heilsufari hennar og félagslegum högum. Þar sem hún er eðlilega gefin og ekki haldin geðrofssjúkdómi af nokkru tagi, hefur hún forsendur til að nýta sér sérfræðihjálp við að ala upp börn sín. Augljóst er að sonur hennar C, þarf sérfræðiþjónustu bæði heima og utan heimilis. A sjálf þyrfti félagslega liðveislu, bæði vegna heilsubrests og félagslegrar einangrunar. Það er álit undirritaðs að ef börn hennar fást ekki til að sækja skóla beri að útvega þeim kennslu heima.“

Auk ofangreindra gagna var lagður fyrir dóminn tölvupóstur N, yfirlæknis geðdeildar, sem dagsettur er 29. apríl sl., en þar áréttar hann efni greinargerðar sinnar og vísar jafnframt til foreldrahæfnismatsins frá árinu 2012, en síðan segir: „Ég er mótfallin áætlunum um að börnin verði tekin af heimili A og að þau verði sett í fóstur hjá vandalausum. Að mínu mati ætti fremur að veita börnunum og móður þeirra þjónustu heima, bæði í formi liðveislu og þjónustu á sviði heilsugæslu, menntunar og uppeldis.“

Í úrskurði varnaraðila, Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, er frá því greint að nefndin hafi haldið fundi með sóknaraðila A og lögmanni hennar 19. febrúar og 5. mars sl. þar sem þeim hafi m.a. verið kynnt fyrrnefnd tillaga starfsmanna nefndarinnar um fyrirhugaða fósturráðstöfun. Tekið er fram að sóknaraðili hafi andmælt tillögunni harðlega. Þá er í úrskurðinum greint frá því að þann 12. mars 2014 hafi lögmaður sóknaraðila A mætt á ný á fund nefndarinnar, en þá hafi hann gert grein fyrir afstöðu sóknaraðila enn frekar.  Staðhæft er að sóknaraðilinn B hafi ekki þegið boð um að mæta á fundinn.  Þá er greint frá því að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að mál barna sóknaraðila teldust fullrannsökuð og að málið hafi verið tekið til úrskurðar.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins er vísað til 1., 3. og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaganna, en í framhaldi af því er rakin meðferð málsins að nokkru, eins og hér að framan er rakið.  Þá er vikið að stuðningsaðgerðum og þeim gögnum sem hér að framan hefur verið minnst á, en í framhaldi af því segir í úrskurðinum:

„Þrátt fyrir staðhæfingar móður (A) um að hún hafi innsýn í vanda barnanna, benda greinagerðir starfsmanna nefndarinnar ótvírætt til þess að móður hafi ekki tekist að standa við þau áform sem sett hafi verið fram í áætlunum um meðferð málsins. Gögn frá skóla staðfesta að skólasókn barnanna er óviðunandi og á því hafi foreldrar ekki getað gefið viðeigandi skýringar.

Fyrir liggur að við meðferð málsins hefur verið gerður fjöldi áætlana samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga í samráði við móður og eftir atvikum báða foreldra, vegna beggja barnanna. Er það mat nefndarinnar að þær hafi ekki borið viðunandi árangur. Það álit nefndarinnar, er byggt á fyrirliggjandi gögnum og samskiptum við börnin og móður þeirra um árabil, að börnin fari á mis við nauðsynlega skólaþjónustu, séu félagslega einangruð og vansæl, að því marki að þroskamöguleikar þeirra eru skertir að óbreyttu.

Nefndin hefur, með umfjöllun eins og rakið er hér að framan, rannsakað mál barnanna ítarlega. Þær stuðningsaðgerðir sem gripið hefur verið til hafa verið reyndar til þrautar og ekki borið tilætlaðan árangur. Nefndin getur því ekki fallist á að þær málsástæður eigi við að rannsóknarskylda samkvæmt stjórnsýslulögum hafi ekki verið uppfyllt, eða meðalhófs hafi ekki verið gætt. Staðhæfingum móður þar lútandi er vísað á bug.

Er það mat Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar að þarfir og hagsmunir barnanna krefjist þess að þau séu tekin úr umsjón móður með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, og vistuð á fósturheimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði. Jafnframt mun nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfunin standi í allt að eitt ár, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga.“

II

Af hálfu sóknaraðila A er um málsatvik m.a. staðhæft að það hafi verið hún sjálf sem á árinu 2007 leitaði til varnaraðila og óskaði eftir stuðningi. Um nánari atvik vísar hún í aðalatriðum til þess sem hér að frama hefur verið rakið, en bendir á að lögmaður hennar hafi við meðferð málsins lagt tillögur til úrlausnar og m.a. að börnin yrðu sótt á heimili hennar þannig að tryggt væri að þau færu í skóla. Að auki staðhæfir A að hún hafi síðustu misserin í raun notið takmarkaðs stuðnings af hálfu varnaraðila, og m.a. hafi aðeins ein áætlun verið gerð með henni um meðferð barnanna, þ.e. í apríl 2013, og að ekki hafi verið gerðar tilraunir til að leysa það „ófremdarástand“ sem starfsmenn varnaraðila fullyrði að hafi blasað við. Þá gerir sóknaraðili A athugasemdir við að ranglega sé staðhæft að hana hrjái geðrofssjúkdómur, en þar um vísar hún til áðurrakinna læknisvottorða, en að auki ýki varnaraðili stórlega vanda hennar og barnanna.

III.

Sóknaraðili A byggir á því að í máli þessu hafi varnaraðili, sem stjórnvald, ekki fylgt rannsóknar- og hlutlægnisreglum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Hún byggir á því að varnaraðili hefði átt að leita hlutlausra gagna og rannsaka málið til þrautar áður en hann kvað upp úrskurð sinn, en með því móti hefði eftir atvikum verið staðreyndar staðhæfingar sem sóknaraðilar hafi borið brigður á.  Að þessu leyti hafi skylda varnaraðila verið mjög brýn þar sem um mjög íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða.  Nefnir sóknaraðili í þessu sambandi órökstuddar staðhæfingar starfsmanna varnaraðila í greinargerðum, en að auki hafi þeir litið fram hjá gögnum sem sýni að börnum hennar líði vel við þær aðstæður sem þau búi við á heimili hennar. 

Sóknaraðili byggir á því að engar upplýsingar liggi fyrir um hvaða áhrif veikindi hennar hafi haft á börnin, og að vandi þeirra sé ekki hæfni hennar að kenna.  Bendir hún á að gögn bendi til þess að vitsmuna- og félagsþroski stúlkunnar D sé eðlilegur, sbr. umsagnir kennara, en af sama meiði séu upplýsingar er varði drenginn C.  Ekkert liggi þannig fyrir um að vandamál drengsins sé af þeirri rót sprottin að hæfni hennar sé um að kenna.  Þvert á móti liggi fyrir að drengurinn sé með dæmigerða einhverfu, en endanleg greining þar um sé mjög nýleg. 

Sóknaraðili byggir á því að ekki hafi verið gætt hlutlægnisskyldu við gagnaöflun og í samskiptum við hana.  Staðhæfir hún að samskiptin við starfsmenn varnaraðila síðustu níu til tólf mánuðina hafi falist í því að hún hafi mætt í eitt skipti til ráðgjafar og skrifað undir áætlun þann 25. október 2013.  Að öðru leyti hafi samskiptin engin verið.  Þannig hafi engin tilsögn farið fram og engar ráðleggingar verið gefnar.  Þá hafi vandinn sem fyrir var ekki verið ræddur eða kynntur sóknaraðila fyrr en með greinargerð starfsmanna varnaraðila þann 15. janúar 2014.  Ekki hafi verið leitað eftir afstöðu eða skýringum hennar eða reynt að leita lausna með henni.  Þá byggir hún á því að tillögum hennar og áhyggjum, sem og beiðnum um aðstoð við að leysa vandann, hafi ekki verið gefinn nægur gaumur af varnaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að við málsmeðferð varnaraðila hafi ekki verið gætt að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Hafi þannig ekki verið valið vægasta úrræðið sem fyrir hendi var til að ná lögmætum markmiðum.  Byggir sóknaraðili á því að þau úrræði sem fyrir hendi séu um málefni barna hennar, og séu enn til staðar, hafi ekki verið reynd til þrautar, en að auki hafi eftirfylgni skort af hálfu varnaraðila.  Þá hafi úrræðum ítrekað verið hætt þegar á móti blés.  Hún vísar til þess að um langt tímabil sé að ræða.  Hafi úrræði sem gripið hafi verið til á árabilinu 2007 til 2012 ekki verið vitnisburður um hvaða úrræði gætu gagnast til að leysa vandann nú vegna breyttra aðstæðna. 

Sóknaraðili bendir á að iðulega hafi veikindi, en einnig það að hún hafi verið bundinn annars staðar, t.d. hjá lækni eða á fundi með liðveisluaðila eða lögmanni, verið túlkuð sem svo að hún hefði ekki áhuga á úrræðum og hafi þannig af ásettu ráði verið að koma sér undan því að nýta þau og jafnvel þrátt fyrir það að hún hafi tímanlega boðað forföll.  Í kjölfarið hafi ekki verið gerðar tilraunir til að finna nýjan tíma heldur hafi starfsmenn varnaraðila keppst við að fella niður úrræðin, en þar að auki hafi ekkert verið gefið fyrir skýringar sóknaraðila á atvikum sem óútskýrð hafi gefið slæma mynd af henni en eigi sér eðlilegar útskýringar, svo sem eins og fyrrnefnd veikindi barnanna hennar.  Um þetta vísar sóknaraðili sérstaklega til þeirra tilmæla sem bent hafi verið á í foreldrahæfnismati en þau hafi ekki birst í þeim úrræðum sem hafi verið reynd eftir árið 2012. 

Af hálfu sóknaraðila er fallist á að sú tilsjón sem byrjað var á árið 2013 hafi ekki komið að fullum notum.  Hún bendir á að tilsjónin hafi verið reynd ein og sér og án fullnægjandi stuðningsaðgerða.  Þar við hafi bæst að úrræðið hafi verið á hendi aðila, sem hún hafi haft orð um að hefði ekki skilning á hennar málum.  Sóknaraðili byggir á því að það hafi litast af þeirri afstöðu starfsmanna varnaraðila að aðstoð til hennar hafi verið tilgangslaus.  Þannig hafi einstaka tilraunir verið gerðar til lausnar en engin heildarlausn verið í boði.  Sóknaraðili byggir á því að þegar úrræðin séu til staðar og vinni saman sýni sagan að vel hafi gengið í lífi hennar og barnanna.  Þannig hafi vel gengið á tímabili, en síðan hafi engin raunveruleg úrræði verið í gangi í lengri tíma og hafi m.a. tilsjón verið hætt í byrjun maí 2013, en í raun hafi hún ekki verið í gangi frá því í febrúar á því ári.

Sóknaraðili A bendir á að það hafi ekki verið fyrr en í október 2013 sem komið hafi í ljós að sonur hennar, C, var með dæmigerða einhverfu.  Það leiði til þess að mikilvægt sé að hann fái aðstoð við hæfi.  Hún staðhæfir að ýmis úrræði, utan aðstoðar varnaraðila, hafi komið að miklum notum, t.d. þegar kennari stúlkunnar D hafi sótt hana og farið með hana í skólann.  Sóknaraðili staðhæfir að starfsmenn varnaraðila hafi lagst gegn slíkri aðstoð.  Byggir sóknaraðili á því að augljóslega sé slíkt vægara úrræði heldur en að færa börnin í fóstur.  Hún bendir og á að slík tilsjón eða aðstoð, hefði slíkt verið í boði, hefði fljótlega varpað ljósi á aðstæður á heimili hennar, og m.a. staðfest eða hrundið skýringum hennar.  Af þessu megi ráða að varnaraðili hafi ekki reynt öll úrræði og jafnvel unnið gegn úrræðum sem augljóslega hafi gengið vel.

Sóknaraðili áréttar að einstaka úrræði, eitt og sér, komi ekki að fullu gagni nema önnur atriði vinni með á sama tíma.  Hún bendir á að vandinn sem sé til staðar sé margþættur, en þar um vísar hún til áðurrakins foreldrahæfnismats I frá því í nóvember 2012.  Því séu einstaka tilraunir til að koma á tilsjón án frekari ráðgjafar, hvatningar og eftirfylgni dæmi um úrræði sem líklegt sé að mistakist.  Sóknaraðili áréttar að reynslan hafi sýnt að þegar úrræðin vinni saman og samskipti milli aðila séu góð eyði það meintum vanda.

Sóknaraðili A byggir á að skilyrði þess að barn sé tekið af heimili, samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, sé ekki uppfyllt í þessu máli.  Þá bendir hún á að tilgangurinn með vistun samkvæmt lagagreininni þurfi að vera skýr, og að úrræðinu eigi aðeins að beita þegar brýnir hagsmunir barns mæli með því.  Því sé í raun um neyðarúrræði að ræða, en því sé ætlað að tryggja öryggi barns eða gera á því rannsókn.  Sóknaraðili byggir á því að þessu sé ekki til að dreifa í þessu máli og bendir á að síðast þann 16. október 2013 hafi staða barnanna verið talin viðunandi.  Þær breytingar sem hafi orðið á högum barnanna frá greindum tíma hafi hún útskýrt og jafnframt hafi hún verið að vinna í vanda þeirra.  Þá fái skýringar sóknaraðila hljómgrunn í frásögn föður barnanna, D. 

Sóknaraðili byggir á því að ekkert liggi fyrir um að öryggi barnanna hafi verið ógnað eða grípa hafi þurft inn í með jafn íþyngjandi hætti og varnaraðili hafi úrskurðað um.  Hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að önnur úrræði séu fullreynd, enda hafi starfsmenn varnaraðila ekki verið í sambandi við hana eftir fyrrnefndan teymisfund þann 16. október 2013 og allt þar til kveðið hafi verið upp úr um vandann þann 15. janúar sl.  Sóknaraðili andmælir þeim staðhæfingum varnaraðila að hún hafi ekki tekist á við aðkallandi vanda barnanna, en að auki sé hann stórlega ýktur. 

Sóknaraðili hafnar því að skólasókn barnanna hafi verið svo slæm að það hafi eða muni skerða þroskamöguleika þeirra.  Þá sé fráleitt að fullyrða að börnin séu félagslega einangruð.  Að auki komi ekkert fram í gögnum eða könnunum um að börnin séu vansæl.  Hið rétta sé að stúlkan D sé á bærilegu þroskastigi, og sé félagslynd og kát.  Þá sé C á þroskastigi sem sé í samræmi við greiningu hans, en að langt ferli sé fram undan við að takast á við fötlun hans.

Sóknaraðili byggir á því að skýrlega komi fram í vottorði N geðlæknis að hún sé hæf til að sjá um börnin.  Hún vísar til þess að geðlæknirinn hafi verið meðferðarlæknir hennar frá árinu 2006 og að mat fyrrnefnds heimilislæknis byggist á sjúkrasögu en ekki á viðtölum við hana sjálfa.  Þá liggi fyrir, samkvæmt foreldrahæfnismati, að hún sé fullfær um að sjá um börn sín með tilsögn og aðstoð.  Sóknaraðili áréttar að aðstoð hafi ekki verið raunveruleg af hálfu varnaraðila og að auki hafi aðstoðin nær engin verið síðustu níu til tólf mánuði.

Sóknaraðili byggir á því að hún hafi góða sýn á vanda barna sinna.  Mat starfsmanna varnaraðila sé að hennar áliti ekki annað en sleggjudómar sem séu byggðir á undarlegu mati á gögnum málsins, en að auki líti þeir fram hjá áðurgreindum sérfræðigögnum.

Sóknaraðili hafnar því að hún hafi ekki dug eða þrek til að takast á við vanda barnanna.  Hið rétta sé að hún þurfi á viðeigandi aðstoð að halda og áréttar að þegar hún fái slíka aðstoð sýni sagan að mun betur gangi í hennar lífi og barnanna.  Bendir hún sérstaklega á að það hafi aðeins verið fyrir innsýn hennar og þekkingu á drengnum C og enn fremur ötullega baráttu og gríðarlega vinnu, að hann hafi fengið viðeigandi og endanlega greiningu.

Sóknaraðili byggir á því að í gögnum málsins komi lítið sem ekkert fram um ætlaða vanlíðan barnanna eða slælegan aðbúnað þeirra hjá henni.  Fremur sé um að ræða spekúlasjónir af hálfu varnaraðila, sem ekki hafi stoð í fyrirliggjandi gögnum.  Hún áréttar að þvert á móti komi það fram ítrekað í gögnum að börnin séu kát og þeim líði vel og að þau séu á eðlilegu þroskastigi miðað við aðstæður.  Á hinn bóginn sé það rétt að mætingu barnanna í skóla hafi að einhverju leyti verið ábótavant en þar komi annað til.  Sóknaraðili áréttar að í úrskurði varnaraðila sé að engu vikið að því að tenging sé á milli vanlíðunar barnanna og hæfni hennar til að sjá um þau eða takast á við þann vanda sem við sé að glíma.  Þá liggi ekkert fyrir um að aðstæður séu með því móti að réttlætanlegt sé að taka börnin af heimili þeirra.

Að því er varðar drenginn C byggir sóknaraðili á því að gögn málsins gefi mynd af einhverfum dreng.  Og þótt [...] lýsi áhyggjum af drengnum bendi ekkert sérstakt til þess að vandi hans sé annar en slæm mæting í skóla og fyrirliggjandi fötlun hans.  Að mætingu undanskilinni, sem sóknaraðili hafi skýrt í ferlinu, og nú sé unnið í að bæta, sé ekkert sem segi að vandi drengsins sé tengdur henni eða getu hennar sem foreldris.  Þá sé ekkert í gögnunum sem segi að líðan drengsins, þroska hans eða hæfni sé stefnt í voða við aðstæður sem tengist henni.  Hið rétta sé að um sé að ræða dæmigerða einhverfu og að drengurinn þurfi alla tíð á stuðningi að halda.  Af þeim sökum þurfi hún á sértækri aðstoð og stuðningi að halda við að ala upp fatlaðan dreng með sérþarfir.

Að því er varðar stúlkuna D byggir sóknaraðili A á því að engin gögn standi að baki staðhæfingum varnaraðila um ætlaða vanlíðan hennar.  Þá séu greindar staðhæfingar stórlega ýktar, en að auki sé það rangt að stúlkan sé dapurt barn.  Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til fyrirliggjandi umsagna stuðningsfjölskyldu stúlkunnar, en einnig til gagna sem stafa frá kennurum hennar.  Að auki komi það ítrekað fram í gögnum að stúlkan eigi vinkonur og að henni veitist það létt að eignast vini.  Hið rétta sé hins vegar að á stundum sé ákveðinn „drungi“ yfir stúlkunni, en hann sé þó nýtilkominn.  Sóknaraðili hafnar því að samband sé á milli hæfni hennar sem foreldris og vanlíðanar stúlkunnar og bendir á að fjölmörg atriði komi fram í gögnum sem gefi skýringu á lýstum drunga.  Þannig hafi stúlkan m.a. verið hrædd um að vera tekin frá móður sinni, en það hafi á vissan hátt hvílt á henni allt frá árinu 2012.  Um þetta vísar sóknaraðili til fyrrnefnds foreldrahæfnismats, en einnig til framlagðrar skýrslu sálfræðings [...] að því er varðar einelti í skóla. 

Sóknaraðili vísar atriðum sem snúa að holdafari stúlkunnar á bug og bendir  á að á sínum tíma hafi hún leitað eftir aðstoð hjá næringarráðgjafa og hafi þá komið í ljós að þessar áhyggjur voru tilefnislausar, enda borði stúlkan almennan heimilismat.  Sóknaraðili bendir á að fyrir liggi að stúlkan fari í rannsókn á næstunni vegna tíðra veikinda og eðli málsins samkvæmt muni væntanlega fylgja leiðbeiningar varðandi holdafar hennar, telji barnalæknir ástæðu til.  Holdafar stúlkunnar réttlæti þar að auki ekki töku barns af heimili.

Sóknaraðili byggir á því að ákvörðun varnaraðila geti ekki byggst á eldri mætingarvanda barnanna, enda hafi aðalvandamálið áður verið að börnin komu of seint til skóla.  Sóknaraðili vísar til þess að með breyttri lyfjagjöf hennar hafi að mestu leyti verið tekið á þeim vanda hennar að geta ekki vaknað, og þar með að börnin komi ekki of seint í skólann. 

Sóknaraðili vísar til þess að til grundvallar úrskurði varnaraðila í þessu máli geti aðeins verið mætingar barna hennar á skólaárinu 2013/2014, enda hafi á fyrrnefndum fundi varnaraðila þann 16. október 2013 komið fram að mætingar þeirra hefðu verið góðar, en að auki hafi aðstæður þeirra verið taldar viðunandi.  Því sé ljóst að úrskurðurinn og rökstuðningur að baki honum, að því er skólasóknina varði, geti aðeins átt við tímabilið frá hinu fyrrnefnda tímaskeiði, þ.e. 16. október 2013.  Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili líti fram hjá útskýringum hennar um ástæður þess að skólasóknin hafi ekki verið eins og best var á kosið, og að þær eigi sér eðlilegar skýringar, en það hefði varnaraðila mátt vera ljóst hefði hann haft samband við hana á því tímabili sem um ræðir.  Sóknaraðili byggir á því að framlögð mætingarskráning barnanna gefi heldur ekki rétta mynd af aðstæðum og staðhæfir að þar komi helst til veikindi stúlkunnar D eins og lýst sé í framlögðum gögnum Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, en þar um áréttar sóknaraðili að til standi að stúlkan fari í ítarlega læknisrannsókn.  Og að því er varðar mætingar drengsins C staðhæfir sóknaraðili að hann hafi liðið fyrir svefn- og kvíðavanda, sem hafi komið til vegna skólaskiptanna haustið 2013.  Hafi þessi vandi leitt til þess að drengurinn hafi stundum ekkert sofið á nóttunni en af þeim sökum hafi hann ekki getað farið í skólann daginn eftir.  Þessi vandkvæði drengsins hafi verið staðfest af föður hans, sóknaraðilanum B.  Sóknaraðili staðhæfir að hún hafi viðrað þennan vanda drengsins við lækna á BUGL, en að þar hefði henni verið tjáð að svefn sé gríðarlega mikilvægur fyrir ungling með dæmigerða einhverfu.  Í kjölfar þessa hafi komið upp tiltekinn vítahringur og hafi aðstæður að lokum orðið það slæmar að drengurinn hafi ekki fengist til að fara í skólann þrátt fyrir tilraunir sóknaraðila, en einnig föður drengsins.  Í kjölfar fundar 30. janúar 2014 hafi sóknaraðili rætt við starfsmann skóla um að minnka áreitið við drenginn og hafi hnitmiðaðar aðgerðir ásamt aðstoð starfsmanna skólans leitt til þess að drengurinn hafi farið að mæta í skólann á ný að undanskildum dögum sem hann hafi verið veikur, en þ. á m. hafi öll fjölskyldan fengið ælupest. 

Sóknaraðili byggir á því að þrátt fyrir að efni séu til að bæta mætingu barnanna í skólann, og sérstaklega drengsins C, sé engin ástæða til afskipta af hálfu varnaraðila, hvað þá að taka börnin af heimilinu.  Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi ekki aflað gagna um framangreind atriði og hafi hún mætt vantrú og tortryggni af hálfu starfsmanna varnaraðila.  Þannig hafi varnaraðili ekki verið tilbúinn til að gæta að því hvort íhlutun, umtal og lausn þeirra vandamála sem sóknaraðili hafi viðrað gæti verið lausn, og þá til að mynda með því að sækja börnin inn á heimilið og færa þau í skólann, en þannig hefði mátt sannreyna vanda þeirra og aðstoða drenginn við að fara í skólann.

Að öllu samanlögðu byggir sóknaraðili á því að úrskurður varnaraðila sé gríðarlega íþyngjandi fyrir líf aðila, bæði móður og börn.  Sóknaraðili bendir á að hún hafi aldrei farið leynt með sjúkdóm sinn, þvert á móti hafi hún ávallt viðurkennt að hún þurfi á aðstoð að halda.  Og með endanlegri greiningu drengsins C hafi opnast ný veröld fyrir sóknaraðila og geti hún nú tileinkað sér þau tæki sem þurfi til að takast á við einhverfan ungling.  Hún hafi búið börnunum í haginn á öruggu og stöðugu heimili þar sem þau hafi sérherbergi og séu hamingjusöm og geti slakað á.  Þá hafi börnin aldrei fundið fyrir fjárhagsvanda hennar.  Bæði séu börnin tengd henni sterkum tilfinningaböndum og séu háð henni.  Enginn vafi sé um ást hennar og barnanna, en eitt megininntak til fjölskyldulífs sé að fjölskyldan fái að vera saman án afskipta og að vera ekki aðskilin gegn vilja.  Telur sóknaraðili ljóst að taka barnanna af heimilinu myndi ekki tryggja lausn umrædds vanda né heldur tryggja það að sömu vinnu þyrfti ekki að inna af hendi ef valdar væru vægari leiðir.  Taka barnanna af heimilinu sé neyðarúrræði og eigi aðeins að beita þegar reynd hafa verið önnur úrræði sem ekki dugi.  Sóknaraðili byggir að lokum á því að yfirgnæfandi líkur séu á því að taka barnanna af heimilinu sé slíkt inngrip í líf þeirra að það valdi þeim vanlíðan og hafi áhrif á tengsl þeirra við hana.  Sé ekkert í gögnum málsins sem segi til um að ekki megi ná fram viðunandi lausn með vægari inngripum, með hvatningu og aðstoð án þess að eiga á hættu að það hafi áhrif á sálarlíf barnanna eða tengingu þeirra við móður sína.  Það sé því ekki áhættunnar virði að veðja á að fóstur barnanna leysi nokkurn vanda þegar aðrar vægari lausnir séu í boði.

IV.

Sóknaraðilinn B byggir á því að meðferð varnaraðila í máli þessu hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, sem og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Hafi varnaraðili í aðgerðum sínum gengið harðar fram en nauðsyn bar til.  Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi brotið gegn 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga með því að kynna honum ekki úrskurð sinn fyrr en 27. mars sl., þ.e. fimmtán dögum eftir að ákvörðun var tekin í málinu og níu dögum eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp.

Sóknaraðili B andmælir þeim rökum varnaraðila að stuðningsaðgerðir hafi verið reyndar til þrautar, en að auki hafi þær ekki borið tilætlaðan árangur, en aðrar leiðir hafi þar verið vænlegri til að ná settu markmiði.  Hann vísar til þess að fyrir liggi að lélega skólasókn barna hans hafi mátt rekja til ýmissa ástæðna.  Nefnir hann í því sambandi veikindi stúlkunnar D og það að drengurinn C sé haldinn einhverfu.  Þessu til viðbótar komi það til að fyrrverandi sambúðarkona hans og móðir barnanna, sóknaraðilinn A, þjáist af drómasýki og eigi af þeim sökum mjög erfitt með að vakna með börnunum á morgnana. 

Sóknaraðilinn B bendir á að fyrir liggi í málinu að á vorönn árið 2012 hafi kennari stúlkunnar D komið við á heimili móður hennar og fylgt henni í skólann.  Hafi kennarinn greint frá þessu í framlögðu bréfi, en að auki komi þetta fram í bókun kennara stúlkunnar frá 7. maí 2012.  Hann bendir á að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel, en m.a. hafi sóknaraðilinn A lýst ánægju sinn með það eins og bókað hafi verið á fundi varnaraðila þann 19. febrúar 2014.  Byggir sóknaraðilinn B á því að umrætt úrræði hafi ekki verið reynt til þrautar af hálfu varnaraðila í stuðningsaðgerðum sínum.

Sóknaraðili B byggir á því að varnaraðili hafi við málsmeðferð sína ekki litið til þess stuðnings sem hann hafi veitt móður barnanna undanfarin misseri, er hann hafi verið í fríum sínum á Akureyri og veitt liðsinni sitt eftir megni.  Þannig hafi drengurinn C verið í umsjá hans frá 4. til 11. nóvember á síðasta ári, en einnig frá 14. nóvember til 21. eða 22. nóvember sama ár.  Hann bendir á að á tilgreindum tímabilum hafi engar fjarvistir verið hjá drengnum í [...].  Að auki hafi hann haft drenginn í sinni umsjá frá 16. til 29. janúar, en að þá hafi ekki gengið jafn vel að koma drengnum í skólann þar sem hann hafi þá verið haldinn miklum kvíða og af þeim sökum vaknað á nóttunni.  Vegna þess hafi reynst erfitt að koma drengnum í skólann á morgnana.  Sóknaraðili bendir á að eftir þetta erfiða tímabil í lífi drengsins hafi fengist vilyrði hjá skólayfirvöldum um að hann mætti mæta í skólann á morgnana klukkan 8:30 og hafi drengurinn þá á ný hafið skólagöngu sína. 

Sóknaraðili bendir á að dóttirin, D, hafi verið í umsjá hans á tímabilinu frá 4. til 21. eða 22. nóvember síðastliðinn, en þá hafi aðeins tvær fjarvistir verið skráðar hjá henni í skólanum, en tvívegis hafi hún mætt of seint.  Auk þess hafi stúlkan verið í hans umsjá frá 16. til 29. janúar á þessu ári og hafi þá engar fjarvistir verið skráðar hjá stúlkunni.  Sóknaraðili byggir á því að þrátt fyrir að atvinna hans sé á sjó muni hann halda áfram að veita börnum sínum og sóknaraðilanum A stuðning sinn.  Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi enn fremur í aprílmánuði síðastliðnum séð til þess að börnin stunduðu nám sitt í skólanum, en hann hafi að auki fengið vilyrði frá vinnuveitanda til að taka frí frá störfum í maímánuði þannig að hann geti haldið aðstoð sinni áfram.  Að auki liggi það fyrir að hann geti næsta haust sinnt börnunum í samfellt tvo mánuði.

Sóknaraðili B vísar til þess að hann hafi fyrr í vetur haft litla möguleika á að kynna varnaraðila ofangreindar aðstæður sínar.  Hann hafi verið til sjós og án netsambands, en komið í land 31. mars sl.  Hann hafi hins vegar kynnt starfsmönnum varnaraðila sjónarmið sín þann 23. janúar sl. og þá m.a. greint þeim frá því að hann hefði ekki tök á að sækjast eftir forsjá barnanna sinna eða taka þau alfarið til sín.  Hann hafi hins vegar lýst þeirri afstöðu sinni að andlegt jafnvægi sóknaraðila A hefði að hans áliti verið í betra lagi og samskipti þeirra einnig verið með besta móti.  Hafi það verið ólíkt því sem var þegar til umræðu var að taka börnin af heimilinu á árinu 2012.  Vegna þessa hafi hann sent tölvupóst til starfsmanna varnaraðila þann 5. mars sl. þar sem hann hafi tilkynnt að hann legðist alfarið gegn því að börnin yrðu tekin af heimili móður þeirra og send í fóstur.  Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðili ekki kannað aðstæður frekar og þá með það fyrir augum að ná settu markmiði með vægara móti og til að mynda með því að vista börnin hjá föðurömmu þeirra á [...].  Að auki hafi hann ekki fyllilega áttað sig á alvöru málsins og raunar ekki fyrr en hann hafi fengið vitneskju um úrskurð varnaraðila.  Eftir það hafi hann með aðstoð lögmanns síns reynt að leita leiða til að koma til móts við hagsmuni barnanna með öðrum hætti en að þau yrðu vistuð í fóstri á vegum varnaraðila og viðrað hugmyndir sínar þar um.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi með úrskurði sínum brotið gegn áðurgreindum lagaákvæðum án þess að hafa áður reynt til þrautar að styrkja foreldra barnanna í uppeldishlutverki sínu og mæta fyrirliggjandi vanda með auknum stuðningi á heimili sóknaraðilans A.  Jafnframt byggir hann á því að léleg mæting barna hans í skóla geti ekki réttlætt eitt og sér svo veigamikla aðgerð að svipta móður umsjón barnanna, enda hafi þeim ekki verið hætta búin í umsjá hennar.  Hann byggir á því að hagsmunum barnanna sé best borgið í umsjá sóknaraðila A og þá með viðeigandi stuðningi.  Þá byggir hann á því að skilyrði fyrir vistun barnanna utan heimilis séu ekki uppfyllt, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.  Hann byggir á því að unnt hefði verið að leysa mætingarvanda barnanna í skóla með sérsniðnum lausnum og öflugum stuðningi á heimili sóknaraðila, A, á þeim tímabilum sem hann sé fjarri vegna sjómannsstarfa sinna og þá með með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.  Byggir sóknaraðili á því að með slíkum úrræðum hefði verið tekið tillit til sjónarmiða og óska barnanna, líkt og fram komi í gögnum málsins.  Með þeim hætti hefði þeim og verið gefinn kostur á að ljúka skólaári sínu í Lundarskóla.  Auk framangreindra lagaákvæða vísar sóknaraðili B til ákvæða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og byggir á því að það fari þvert gegn markmiðum hans að skilja börn frá foreldrum sínum, líkt og gert sé með úrskurði varnaraðila í þessu máli.

Um lagarök er af hálfu sóknaraðila vísað til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80, 2002, einkum 4. gr., stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, einkum 12. og 20. gr. og laga nr. 19, 2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

V.

Varnaraðili hafnar staðhæfingum sóknaraðila A, en einnig sóknaraðilans B, um að úrskurður hans standist ekki að formi til, og að hann stríði gegn reglum um rannsóknarskyldu stjórnvalds, hlutlægnisskyldu og meðalhóf.

Varnaraðili byggir á því að mál barnanna hafi verið nægjanlega upplýst er úrskurðurinn var kveðinn upp.  Hann bendir á að mál barnanna hafi verið samfellt til meðferðar frá því í október 2007, en áður hafi mál þeirra verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum.  Meginástæða upphaflegrar íhlutunar hafi verið margháttaður geðrænn vandi móður, sóknaraðilans A, og þörf hennar og barnanna fyrir stuðning af þeim sökum.  Við meðferð málsins hafi varnaraðili aflað margs konar gagna, m.a. frá leikskólum, grunnskólum, og heilbrigðisstofnunum.  Þá hafi móðirin átt þess kost að leggja fram gögn og koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fundum með starfsmönnum varnaraðila, á fundum hjá varnaraðila og samráðsfundum með öðrum fagaðilum. Að auki liggi fyrir ítarlegar greinargerðir starfsmanna varnaraðila þar sem grein sé gerð fyrir meðferð málsins og þætti þeirra við rannsókn þess.  Varnaraðili byggir á því að starfsmenn hans hafi bæði menntun og reynslu á sviði barnaverndarmála og sé gert ráð fyrir að þeir rannsaki, á grundvelli þekkingar sinnar, félagslega og sálræna hagi barna við könnun barnaverndarmála, sbr. 1. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Varnaraðili byggir á því að þau gögn sem aflað hafi verið um aðstæður móður og barnanna séu trúverðug og sé ekki ástæða til að draga efni þeirra í efa.

Varnaraðili mótmælir staðhæfingum móður, A, um að ekki hafi verið gætt hlutlægni við meðferð málsins.  Þá telur varnaraðili að staðhæfingar móður um að starfsmaður varnaraðila hafi rangtúlkað gögn og látið hjá líða að horfa til atriða sem jákvæð séu í uppeldi þeirra, séu rangar, en að auki séu þær órökstuddar.  Varnaraðili byggir á því að gögn málsins gefi því miður þá mynd af stöðu barnanna að ástæða hafi verið til að grípa til aðgerða með þeim hætti sem rakið sé í áðurgreindum úrskurði.

Varnaraðili hafnar staðhæfingum móður um að ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins.  Hann byggir á því að ekki hafi verið unnt að ná markmiði varnaraðila um að tryggja börnunum viðunandi uppeldisaðstæður með vægari úrræðum, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.  Fyrir liggi að við meðferð málsins hafi verið gerður fjöldi áætlana samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga.  Áætlanir þessar hafi aðallega verið gerðar í samráði við móður, en hjá henni hafi börnin verið búsett, en einnig eftir atvikum gagnvart föður, sóknaraðilanum B.  Í þessum áætlunum hafi verið gert ráð fyrir fjölþættum stuðningsaðgerðum og samvinnu sóknaraðila við framkvæmd þeirra.  Hafi stuðningsaðgerðirnar bæði beinst að móður, um að styrkja hana í foreldrahlutverkinu, og að tryggja börnunum rétt til menntunar og betri aðstæðna heima fyrir.

Varnaraðili byggir á því að í greinargerðum starfsmanna hans sé ítarlega gerð grein fyrir þeim stuðningsaðgerðum sem reyndar hafi verið undanfarin ár.  Hann vísar til þess að þetta komi m.a. fram í greinargerðum frá árunum 2012, 2013 og 2014.  Þar komi m.a. fram að börnin hafi um árabil notið aðstoðar stuðningsfjölskyldna, að móður hafi verið útveguð tilsjón til stuðnings og leiðbeiningar, m.a. vegna sértækrar þroskaröskunar drengsins C.  Einnig komi fram að starfsmenn varnaraðila hafi tekið þátt í samráði sérfræðinga heilbrigðisþjónustunnar, en einnig kennara og annarra starfsmanna leik- og grunnskóla.  Að auki komi fram í greinargerðum að sóknaraðili A hafi fengið fjárhagslegan stuðning til greiðslu kostnaðar vegna barnanna og að henni hafi verið vísað í viðeigandi aðstoð félagsþjónustu vegna fjárhagserfiðleika sinna.  Þá hafi móður verið boðið upp á ítarlega fjölskylduráðgjöf.

Varnaraðili hafnar staðhæfingum móður, sóknaraðila A, um að tilgreind úrræði hafi verið ómarkviss og að eftirfylgni hafi skort. Hann vísar til þess að stuðningurinn við drenginn C hafi verið sniðinn að þörfum hans á hverjum tíma og þ. á m. því að hann hafi verið á einhverfurófi. Þannig hafi drengurinn verið tvo vetur í [...] þar sem fyrir hendi sé sérþekking á málefnum barna með hegðunar-, aðlögunar- og samskiptaraskanir, og þ. á m. barna með einhverfu. Varnaraðili staðhæfir að ákvarðanir um stuðningsaðgerðir hafi verið teknar af varnaraðila í samráði við móður barnanna, en einnig stundum í samráði við föðurinn.  Þær hafi m.a. byggst á því að móðirin legði sitt af mörkum til þess að árangur myndi nást. Það sé hins vegar mat varnaraðila að móðirin hafi, þrátt fyrir góðan ásetning í orði, ekki vilja eða getu til að vinna eftir þeim áætlunum sem gerðar hafa verið eða þiggja þann stuðning sem í boði var hverju sinni. Þessu til viðbótar vísar varnaraðili til greinargerðar sálfræðings og fjölskylduráðgjafa [...], sem rituð hafi verið vegna þeirra þriggja ára sem drengurinn var þar í skóla, á árunum 2010-2013.  Á því tímabili hafi verið reynt að aðstoða móðurina við að koma reglu á heimilislífið og til að stuðla að góðri mætingu hans í skólann og búa honum og systur hans þroskavænleg skilyrði. Í greinargerðum fjölskylduráðgjafans komi fram að móðirin hafi lítt fengist til samstarfs. Telur varnaraðili að umræddar greinargerðir fjölskylduráðgjafans, ásamt öðru, sýni að staðhæfing móður um að engin úrræði hafi verið í boði eða reynd síðan tilsjón hafi verið hætt í maí 2013, sé röng.  Við flutning vísaði varnaraðili um þetta einnig til vitnisburðar ráðgjafans fyrir dómi.

Varnaraðili byggir á því að er úrskurður hans var kveðin upp í þessu máli hafi stuðningsaðgerðir ekki borið tilætlaðan árangur. Þannig hafi legið fyrir óyggjandi upplýsingar þess efnis að börnin hafi um langt skeið farið á mis við skólagöngu, en það hafi komið fram í ítrekuðum bréfum frá skóla og skýrslum um skólasókn. Varnaraðili byggir á því að skýringar móður á afleitri skólasókn barnanna séu ótrúverðugar, enda séu þær, m.a. varðandi veikindi barnanna, í ósamræmi við gögn Heilsugæslustöðvar og vottorðs heilsugæslulæknis.

Varnaraðili byggir á því að ein af grunnskyldum um hvað varðar forsjá barns sé að stuðla að menntun þess, sbr. 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 91, 2008. Það sé og mat varnaraðila að óviðunandi skólasókn barna sóknaraðila sé farin að standa í vegi fyrir þroska þeirra og sé það ástand einnig farið að valda þeim vanlíðan. Um þetta vísar varnaraðili m.a. til bréfs skólastjóra [...] þar sem greint sé frá stopulli mætingum drengsins C og það álit látið í ljós að hætta sé á því að hann hafi dregist mikið aftur úr námi hina síðustu mánuði. Þá komi það fram í yfirliti yfir ástundun drengsins á haustönn að fjarvistir hans hafi verið miklar og að lítil festa hafi virst vera á heimilishaldi móður hans. Hið sama komi fram í bréfi skólastjórans varðandi stúlkuna D, en þar sé því m.a. lýst að stúlkan vinni sjaldan heimavinnu, að áhyggjur séu af vaxtarlagi hennar og líðan, en einnig sé sagt að mataræði hennar sé ábótavant sem og þrifnaði. Við flutning var að þessu leyti einnig vísað til vættis R, yfirkennara [...], vegna skólaársins 2013/2014.

Varnaraðili vísar til þess að nefndar stuðningsaðgerðir hafi í verulegum mæli beinst að því að tryggja skólasókn barnanna. Í því skyni hafi verið gripið til ýmissa aðgerða sem ekki hafi borið tilætlaðan árangur. Að því leyti vísar varnaraðili til fyrrnefndra greinargerða starfsmanna hans, en þar sé m.a. greint frá samráðsfundum kennara og annarra sérfræðinga í tilraunum skólans til að bæta skólasókn barnanna, nú síðast í [...]. Þá sé í greinargerðum starfsmanna jafnframt greint frá þremur tilraunum til að veita sóknaraðila A tilsjón á heimili, en að þær hafi reynst árangurslausar m.a. vegna þess að hún hafi afþakkað þann stuðning eða tilsjónaraðilinn náði ekki til hennar. Að auki hafi uppeldis- og fjölskylduráðgjöf strandað á hindrunum sem varðað hafi móður barnanna, sóknaraðilann A.

Varnaraðilinn mótmælir staðhæfingu sóknaraðila A um að úrskurðurinn uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaganna. Hann bendir á að ákvæðið heimili töku barns af heimili og ráðstöfun þess í fóstur í allt að tvo mánuði. Með ákvæðinu sé gert ráð fyrir að barnaverndarnefndin geti gripið til slíks úrræðis eftir því sem talið sé henta barni hverju sinni ef brýnir hagsmunir þess krefjist þess. Þá sé það skilyrði beitingar úrræðisins að þeim úrræðum sem kveðið sé á um í 24. og 25. gr. lagana hafi að mati barnaverndarnefndar ekki skilað tilætluðum árangri eða eftir atvikum þau reynst ófullnægjandi. Er á því byggt af hálfu varnaraðila að sýnt sé að þau úrræði sem gripið hafi verið til hafi ekki skilað viðunandi árangri og börnin búi við óviðunandi aðstæður á heimili sóknaraðila A.

Varnaraðili byggir á því að það sé skýlaust réttur hvers barns að búa við viðunandi uppeldisaðstæður. Að mati varnaraðila er þessi réttur umræddra barna verulega skertur við núverandi aðstæður og því hafi honum borið að grípa til aðgerða til verndar hagsmunum þeirra, sbr. 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga. Nefndir hagsmunir njóti ríkrar verndar og megi þess finna stoð m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland sé aðili að. Varnaraðili telji að þótt réttur sóknaraðila til að koma upp heimili og fjölskyldu sé ríkur þá verði ekki litið fram hjá þeirri grundvallarreglu barnaréttar að við úrlausn mála skuli hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi og vegi það þyngra en forsjárréttur foreldra.

Varnaraðili byggir á því, líkt og úrskurður hans í málinu ber með sér, að hagsmunum umræddra barna sé best borgið með tímabundnu fóstri. Ótvírætt raski það fjölskylduhögum og eðlilega komi fram sú afstaða barnanna í viðtölum við talsmann að þau vilji vera hjá móður sinni. Varnaraðili byggir hins vegar á því að fóstur sé viðurkennd ráðstöfun og sé oftsinnis beitt í barnaverndarmálum með góðum árangri. Vegna þessa hafnar varnaraðili með öllu að með fóstri sé hagsmunum barnanna stefnt í voða. Þá sé það mat hans að fyrir liggi með óyggjandi hætti að hagsmunir barnanna verði fyrir borð bornir að óbreyttu ástandi.

Varnaraðili vísar til þess að sú áætlun sóknaraðila A, sem fram komi í yfirlýsingu hennar og dagsett sé 25. apríl sl. um að afhenda ekki börnin þrátt fyrir úrskurð, sé í ósamræmi við munnlegt samkomulag aðila um framkvæmd málsins og að það sé ótvírætt að með þeim hætti hafi sóknaraðili ekki hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Að því er varðar þátt sóknaraðila B í þessu máli er af hálfu varnaraðila vísað til þess að í 27. gr. barnaverndarlaganna sé kveðið á um réttarstöðu foreldris sem barn býr ekki hjá, eða að um sé að ræða sameiginleg forsjá líkt og hér um ræðir. Hann bendir á að hafnað hafi verið kröfu sóknaraðila B um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, en það hafi verið gert á fundi varnaraðila þann 23. apríl sl. Sé ágreiningur um þessa afstöðu varnaraðila ekki til umfjöllunar í kærumáli þessu en hugsanlegt sé að hún sé kæranleg til æðra stjórnvalds. Að auki byggir varnaraðili á að tillögur sóknaraðilans B um úrræði séu lítt rökstuddar og óútfærðar, þ. á m. um dvöl barnanna á heimili föðurforeldra. Þá mótmælir varnaraðili málsástæðum föður um að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn reglum stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga um meðalhóf.  Þar um vísar hann til umfjöllunar hér að framan að því er varðar málsástæður sóknaraðila A. Varnaraðili bendir jafnframt á að í viðtali sóknaraðilans B við S, félagsráðgjafa og starfsmann varnaraðila, þann 23. janúar sl., hafi nefndum sóknaraðila verð bent á að staða barnanna hefði ekki batnað frá árinu 2012, en að þá hafi jafnframt komið fram að staða sóknaraðilans hefði verið nærri óbreytt frá því sem áður var. Hann hefði þannig ekki verið með fastan samastað, hygðist starfa áfram við sjómennsku og hefði ekki möguleika á því að taka börnin að sér. Þá hefði B verið kynnt það að málið yrði tekið fyrir á fundi varnaraðila þann 9. febrúar sl. en að auki hafi honum verið kunnugt um fyrirtöku málsins þann 5. mars sl. og að tilefni þess fundar væri umfjöllun um ráðstöfun barnanna í fóstur. Staðhæfingar nefnds sóknaraðila um ókunnugleika hans á stöðu málsins séu því með hliðsjón af þessari atburðarás ekki trúverðugar. Að auki mótmælir varnaraðili því að tilkynning til föður um úrskurð hafi verið með þeim hætti að stríði gegn 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga og í öllu falli hafi það ekki verið með þeim hætti að það hafið valdið honum réttarspjöllum. Að öðru leyti vísar varnaraðili til umfjöllunar um málsástæður móður hér að framan.

 Varnaraðili vísar loks til þess að samkvæmt beiðni sóknaraðila hafi framkvæmd úrskurðarins verið frestað, enda hefði komið ósk um að börnin myndu dvelja í páskaleyfi sínu í heimbyggð föður.  Vegna þessa hafi úrskurðurinn ekki komið til framkvæmda strax en gert hafi verið ráð fyrir að börnin færu til fósturforeldra á Dalvík 25. apríl 2014.

Varnaraðili gerir þá kröfu að dómurinn úrskurði að börnin verði vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tólf mánuði frá 18. mars 2014 að telja. Hann segir að sú krafa sé sett fram með stoð í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Byggir varnaraðili á því að brýnt sé að vistun barnanna vari lengur en kveðið sé á um í úrskurðinum. Rökstyður varnaraðili kröfu sína með því að nauðsynlegt sé að börnunum sé skapaður stöðugleiki, þeim verði tryggð skólaganga, reglu verði komið á mataræði og hugað að heilsu þeirra og heilbrigði. Í því sambandi hafi jafnframt verið horft til þess að drengurinn, C, hefji næsta haust sitt síðasta ár í grunnskóla og sé afar mikilvægt að hann fái góðan stuðning, en stefnt sé að því að hann geti staðið jafnhliða jafnöldrum sínum er grunnskólagöngu hans lýkur. Að auki horfi varnaraðili til þess að mikilvægt sé að sóknaraðilar fái svigrúm til að bæta stöðu sína, þ.e. að móðirin geti leitað sér viðeigandi læknismeðferðar og faðirinn geti komið sér upp heimili þar sem hann geti hlúð að börnum sínum. Varnaraðili telji að veruleg hætta sé á því, verði vistun barnanna hjá fósturforeldrum markaður of skammur tími, að ekki vinnist svigrúm til þess að bæta stöðu barnanna. Að öðru leyti byggir varnaraðili á sömu málsástæðum er getið er um hér að framan og vísar til umfjöllunar þar um.

Varnaraðili krefst þess, felli héraðsdómur úrskurð hans úr gildi, að kæra hans til æðra dóms fresti framkvæmd úrskurðar héraðsdómara, en að öðrum kosti megi vera ljóst að rof verði á vist barnanna hjá fósturforeldrum. Það sé mat varnaraðila að slíkt stríði gegn augljósum hagsmunum barnanna um stöðugleika og reglu. 

Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um greiðslu málskostnaðar og byggir á því að þeir hafi lögbundna gjafsókn, sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.

Um lagarök varðandi þá meginreglu að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi við starfsemi barnaverndaryfirvalda vísar varnaraðili til 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33, 1944 og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18, 1992. Um rannsóknarregluna vísar hann til 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993. Að því er varðar meðalhófsreglu vísar hann til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12 gr. stjórnsýslulaga. Um heimild barnaverndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis vísar hann til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og um rétt um kæru vísar hann til 2. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga og 3. mgr. 144. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Um heimild til að krefjast framlengingar ráðstöfunar samkvæmt b-lið 27. gr. barnaverndarlaga vísar hann til 28. gr. laganna. 

VI

Með heimild í 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 80, 2002 um barnavernd ákvað dómari að gefa börnum sóknaraðila kost á að tjá sig um ákvörðun varnaraðila um fósturráðstöfun. Í samráði við málsaðila leitaði dómari til Q sálfræðings, til aðstoðar, en hún hafði áður verið tilnefnd sem talsmaður barnanna. Viðtölin við börnin fóru fram 11. apríl sl. og skráði sálfræðingurinn þau og var lögð fram skýrsla um það á dómþingi þann 25. apríl sl.  Bæði börnin lýstu því að vilji þeirra stæði til að dvelja hjá móður sinni, sóknaraðila A.

VII

Við meðferð málsins fyrir dómi gáfu sóknaraðilar skýrslur, en auk þess gáfu vitnaskýrslur starfsmenn varnaraðila þeir T, sálfræðingur og framkvæmdarstjóri Barnaverndar Eyjafjarðar, og E félagsráðgjafi. Þá gáfu skýrslur vitnin U, kennari í [...], V, deildarstjóri og yfirkennari í [...], og Y, fjölskylduráðgjafi og sálfræðingur í [...].

Líkt og hér að framan hefur verið rakið varðar mál þetta gildi úrskurðar varnaraðila um hvort vista skuli börn sóknaraðila, þau D og C, utan heimilis sóknaraðilans A í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, og hvort fallast beri á kröfu varnaraðila um að börnin verði vistuð utan heimilisins í samtals 12 mánuði frá 18. mars 2014 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga.

Samkvæmt framansögðu hafa málefni nefndra barna verið til meðferðar hjá varnaraðila um árabil, en rekja má upphafið til þess er móðir þeirra, sóknaraðilinn A, leitaði á árinu 2007 eftir stuðningi vegna geðrænna vandkvæða sinna og þarfa hennar og barnanna fyrir aðstoð.  Nokkru áður, eða sumarið 2006, hafði málefni A verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum á norðanverðum [...] vegna sjúkrahúslegu hennar á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri.  Af því tilefni var börnum hennar komið fyrir í tímabundið fóstur. 

Ráðið verður af gögnum að fljótlega eftir lýst afskipti varnaraðila hafi áhyggjur starfsmanna hans farið að snúast um almennan aðbúnað og mætingu barnanna C og D í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, auk fyrrnefndrar vanheilsu sóknaraðila A.

Samkvæmt gögnum hefur varnaraðili, en einnig Fjölskyldudeild Akureyrar, á liðnum árum veitt sóknaraðila A og börnum hennar margvíslegan stuðning.  Hafa stuðningsúrræðin ekki síst beinst að því að styrkja A í foreldrahlutverkinu, en samhliða hefur hún verið til meðferðar hjá læknum á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri vegna áðurnefndra veikinda.

Af framlögðum gögnum verður ráðið að fljótlega hafi verið uppi grunsemdir um hjá sérfróðum starfsmönnum grunnskóla, en einnig sóknaraðilanum A, að drengurinn C væri á svonefndu einhverfurófi.  Samkvæmt gögnum og skýrslum fyrir dómi var í stuðningsaðgerðum m.a. tekið mið af ætlaðri fötlun drengsins.  Var drengurinn þannig færður árið 2010 úr almennum grunnskóla í [...], og var hann þar til loka skólaársins 2012/2013.  Einhverfugreining drengsins var staðfest skömmu eftir að hann hóf nám í [...] skólaárið 2013/2014.

Fyrir liggur að sérfróðir starfsmenn varnaraðila mæltust til þess í júní 2012, með rökstuddri tillögu, að umrædd börn færu á fósturheimili vegna óviðunandi aðbúnaðar þeirra hjá sóknaraðila, A, en einnig og ekki síst vegna tíðra fjarvista þeirra úr skólastarfi. Ekki var fallist á tillöguna af hálfu varnaraðila, en þess í stað var stuðningsaðgerðum gagnvart sóknaraðila A og börnunum haldið áfram í samræmi við áætlanir og 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Var einnig af þessu tilefni lagt fyrir sóknaraðila A að gangast undir foreldrahæfnismat.  Það var niðurstaða sérfróðs matsmanns, í nóvember 2012, að A væri hæf til að axla ábyrgð sína sem forsjáraðili, að því tilskildu að hún fengi utanaðkomandi stuðning og væri þar að auki til meðferðar hjá geðlækni. Sama álit hefur ítrekað komið fram í vottorðum N geðlæknis, nú síðast í apríl 2014.

Eins og fyrr sagði var úrskurður varnaraðila um fósturráðstöfun nefndra barna kveðinn upp 18. mars 2014. Til grundvallar úrskurðinum voru m.a. gögn um börnin og aðstæður þeirra og aðbúnað á heimili sóknaraðila A.  Að auki lágu þar til grundvallar nýleg gögn sérfróðra starfsmanna þeirra skólastofnana sem börnin hafa stundað nám sitt við á liðnum árum svo og greinargerðir sérfróðra starfsmanna varnaraðila, sem m.a. höfðu setið teymisfundi með öðrum sérfræðingum þar sem fjallað var um málefni fjölskyldunnar.

Fyrir liggur að við meðferð málsins hjá varnaraðila var sóknaraðila A m.a. veittur andmælaréttur, sem hún nýtti með aðstoð lögmanns síns.  Samkvæmt vætti sóknaraðila B, föður barnanna, fyrir dómi, sem er í samræmi við framlögð gögn, var honum kunnugt um málsmeðferð varnaraðila.  Aðkoma hans að málinu virðist hins vegar hafa verið takmörkuð vegna langrar útivistar hans á sjó.

       Það er niðurstaða dómsins að ofangreindu virtu að við undirbúning ákvörðunar varnaraðila hafi verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37, 1993 og er málsástæðum sóknaraðila þar um hafnað.

Fram er komið að haustið 2013 fékk sóknaraðilinn A íbúð hjá félagsmálayfirvöldum í fjölbýlishúsinu að [...] og fluttist hún þá ásamt börnunum sínum úr [...].  Vegna búferlaflutninganna var í júní og ágúst nefnt ár hafinn undirbúningur vegna komu barnanna í [...], en til þess er að líta að skólinn er steinsnar frá heimili fjölskyldunnar. 

Af framlögðum gögnum, en einnig skýrslum vitna fyrir dómi, verður ráðið að við undirbúning skólayfirvalda í [...] hafi sérstaklega verið hugað að áðurnefndri fötlun drengsins C.  Voru þannig haldnir teymisfundir um málefni hans áður en skólastarfið hófst hausti 2013, en einnig mánaðarlega eftir það á fyrstu skólaönninni.  Auk kennara drengsins komu við sögu m.a. sérfræðingur frá [...], starfsmenn Fjölskyldudeildar Akureyrar, en einnig starfsmenn varnaraðila.  Þá var sóknaraðili A reglulega boðuð á formlega fundi í skólanum. Verður ráðið að er einhverfugreining C var kunngerð á teymisfundi í skólanum í október 2013 hafi vegna þessa starfs ekki verið talin sérstök ástæða til að bregðast við.

Óumdeilt er að skólavist C og D í [...] byrjaði með ágætum í lok ágústmánaðar 2013.  Er leið á haustönnina virðist hafa orðið breyting á og þá einkum vegna tíðra fjarvista barnanna í skólastarfinu. Samkvæmt gögnum var af skólayfirvöldum brugðist við þessu, m.a. með fyrrnefndum teymisfundum, en einnig með foreldraviðtölum við sóknaraðila, og þá aðallega við móðurina, vegna sjómannsstarfa föðurins. Að auki voru gerðar sérstakar ráðstafanir í skólanum sem miðuðu m.a. að því forða C frá áreiti annarra nemenda.  Samkvæmt gögnum var einnig brugðist við af hálfu skólayfirvalda vegna tíðra fjarvista stúlkunnar D.  Var það gert m.a. með fundum kennara með sóknaraðilum og ítrekuðum símhringingum á heimili fjölskyldunnar.  Þá var stúlkan í eitt skipti sótt heim af kennara sínum.  Verður ráðið að skólasókn barnanna hafi aukist eftir þessar ráðstafanir, en aðeins um skamma hríð. 

Fyrir liggur að faðir barnanna, sóknaraðilinn B, var í orlofi frá sjómannsstörfum í nóvember 2013.  Að sögn sinnti hann þá börnunum og fylgdi þeim m.a. í skólann á morgnana.  Af gögnum verður ráðið að eftir að faðirinn fór á ný til sjós í lok nóvember hafi fjarvistir barnanna stigmagnast og varð þar ekki breyting á, eftir skólafrí um jólin og áramótin, á vorönn.

Samkvæmt gögnum var drengurinn C fjarverandi úr skólanum, á tímabilinu frá 22. ágúst 2013 til 30. apríl 2014, í 71 dag af 155 skóladögum. Þar af var hann með leyfi í 16 daga, en veikur í 27 daga. Óútskýrðar fjarvistir hans voru í 28 daga. Á sama tíma var stúlkan D fjarverandi úr skólastarfinu í 91 dag, en þar af voru 9 dagar með leyfi og 31 dagur vegna skráðra veikinda.  Fjarvistir án útskýringa voru í 49 daga.  Stúlkan var þannig með 46% skólavist þennan vetur.  Til skýringar á þessum fjarvistum barnanna hafa sóknaraðilar, A og B, borið að drengurinn hafi verið kvíðinn vegna skólaskiptanna, en einnig hafi þar komið til svefnleysi hans og loks tíð veikindi.  Af gögnum verður ráðið að fjarvistir drengsins fyrir skólavist hans í [...] hafi á stundum verið talsverðar og að grunsemdir hafi verið um að það hafi verið vegna mikillar tölvunotkunar hans og svefnleysis.  Að auki hafi verið áhöld um að aðstæður og lýst veikindi sóknaraðila A hafi haft þar áhrif á.  Að því er varðar fjarvistir stúlkunnar D í [...] hefur sóknaraðili A helst gefið þær skýringar að hún hafi margsinnis verið veik.

Eins og hér að framan hefur verið rakið virðist skólasókn nefndra barna í [...] skólaárið 2013/2014 hafi verið ásættanleg á því tímabili þegar faðir þeirra, sóknaraðilinn B, hafði tök á því að sinna þeim í landlegum sínum frá togarasjómennsku.  Samkvæmt skýrslu hans fyrir dómi tókst honum þó ekki undir það síðasta að kom syni sínum, C, í skólann vegna andstöðu hans. Eins og fyrr var rakið var skólavist drengsins sérsniðin fyrir hann af skólayfirvöldum [...] vegna fötlunar hans. Og samkvæmt orðræðu drengsins við dómara var hann ánægður með starfið í skólanum.  Er það er í samræmi við önnur gögn málsins.

Í forsendum úrskurðar varnaraðila er m.a. vísað til þess að fjöldi áætlana samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaganna hafi verið gerðar í samráði við sóknaraðila A.  Að því leyti hafi m.a. verið höfð hliðsjón af veikindum hennar og hagsmunum barnanna. Það er niðurstaða varnaraðila að flestar þessar áætlanir hafi að meira eða minna leyti runnið út í sandinn og að þar með hafi virkni stuðningsaðgerðanna verið takmörkuð.  Hafi þar helst komið til andleg vanheilsa A, ásamt úthalds- og úrræðaleysi hennar.  Ásættanlegur árangur hafi af þessum sökum verið óviðunandi.  Í úrskurði varnaraðila er staðhæft að vegna þessa hafi þau börn sem hér eiga í hlut farið á mis við nauðsynlegt skólastarf, en að auki séu þau félagslega einangruð og vansæl, að því marki að þroskamöguleikar þeirra séu skertir að óbreyttu.

Samkvæmt gögnum málsins var því beint til sóknaraðila A að sækja um umönnunarbætur og sjúkraþjálfun fyrir drenginn C þegar hin formlega greining um einhverfu hans lá fyrir í október á síðasta ári. Fram kom við meðferð málsins fyrir dómi að A hefði sérstaklega verið leiðbeint um þennan rétt drengsins, en að ekki hafi enn verið brugðist við af hennar hálfu að öllu leyti, þrátt fyrir augljósa þörf hans fyrir sjúkraþjálfun.  Að mati dómsins hafa skýringar sóknaraðila A um langvarandi veikindi stúlkunnar D takmarkaðan stuðning í gögnum málsins.

Að öllu framangreindu virtu, og þegar litið er til þeirra ríku hagsmuna sem í húfi eru og hvað ætla megi að börnum sóknaraðila sé fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, eru að áliti dómsins skilyrði til samkvæmt b-lið 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., sömu laga, að fallast á kröfu varnaraðila um að vista börnin, C og D, utan heimilis sóknaraðila A tímabundið. Þá er fallist á það mat varnaraðila að vistunin standi í tólf mánuði, frá 18. mars 2013 að telja, þannig að tími vinnist til að veita sóknaraðilum, og þá sérstaklega A, nægilegan stuðning þannig að aðstæður verði fullnægjandi fyrir börnin.  Getur áðurlýstur vilji barnanna ekki ráðið úrslitum eins og hér stendur á.

Samkvæmt ofansögðu, en að öðru leyti með hliðsjón af röksemdum varnaraðila, er hafnað kröfu sóknaraðila um að felldur verði úr gildi hinn kærði úrskurður frá 18. mars 2014.  Er því fallist á þá kröfu varnaraðila að börnin, C og D, verði vistuð utan heimilis sóknaraðila A í samtals tólf mánuði, og þá frá greindum tíma.

Sóknaraðilar fengu gjafsókn með bréfum innanríkisráðherra, dagsettum 2. og 5. maí 2014.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir, en ekki er þar tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.  Þá fellur ekki undir gjafsóknarkostnaðinn kostnaður sem til féll við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, sbr. ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A og B, um að úrskurður varnaraðila, Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, frá 18. mars 2014, verði felldur úr gildi.

Fallist er á kröfu varnaraðila um að stúlkan D og drengurinn C verði vistuð utan heimilis sóknaraðila A í samtals tólf mánuði frá 18. mars 2014 að telja.

Gjafsóknarkostnaður A, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Andrésar Más Magnússonar hdl., 750.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila B, sem er þóknun lögmanns hans, Júlíar Antonsdóttur hdl., 650.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.