Hæstiréttur íslands
Mál nr. 259/2014
Lykilorð
- Útivist
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014. |
|
Nr.
259/2014. |
Ákæruvaldið (Hulda
Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Útivist.
Ómerking héraðsdóms.
Héraðsdómur í máli
ákæruvaldsins á hendur X var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar
meðferðar sökum þess að ekki voru uppfyllt skilyrði til að fella dóm á málið
eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo sem gert hafði
verið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús
Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur
hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut
málinu til Hæstaréttar 30. desember 2013 af hálfu ákæruvaldsins sem krefst aðallega
að ákærða verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og
dæmd til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Ákærða krefst aðallega
staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Málið var höfðað með
ákæru lögreglustjórans á Selfossi 8. september 2013 þar sem ákærðu var gefið að
sök nánar tilgreint brot gegn lögum nr. 49/2005 um fullnustu refsinga með því
að hafa smyglað inn í fangelsið að Litla-Hrauni 244 lyfjatöflum er innihéldu vefaukandi
sterann Metandróstenólón. Í ákæru var háttsemi ákærðu heimfærð til 81. gr. sbr.
3. og 4. tölulið 1. mgr. 52. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa
nr. 54/2012.
Héraðsdómari gaf út
fyrirkall til ákærðu 16. september 2013, þar sem hún var kvödd til að mæta á
dómþingi 17. október sama ár. Í fyrirkallinu var meðal annars tekið fram að ef
hún sækti ekki þing mætti búast við því að fjarvist hennar yrði metin til jafns
við að hún viðurkenndi að hafa framið það brot sem hún var ákærð fyrir og dómur
yrði lagður á málið að henni fjarstaddri, sbr. 161. gr. og 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála. Fyrirkallið var birt ákærðu 2. október 2013. Í áritun um birtingu var
þess getið að hún hafi óskað eftir fresti fram að þingfestingu til að tilefna
verjanda.
Við þingfestingu málsins
17. október 2013 var sótt þing af hálfu ákæruvaldsins og bókað í þingbók að
Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður sækti þing fyrir ákærðu, sem hefði
óskað eftir því að hann yrði skipaður verjandi sinn. Hann upplýsti um forföll
ákærðu og var málinu frestað að ósk hans til 7. nóvember sama ár. Var þá sótt
þing af hálfu ákæruvalds en verjandi ákærðu sótti einn þing af hennar hálfu og upplýsti
að hann hefði ekki náð í ákærðu. Var bókað í þingbók að ákærða mætti ekki þrátt
fyrir löglega birt fyrirkall og hefði ekki boðað forföll, en dómari teldi
framlögð gögn nægileg og ekki þörf frekari gagna. Væri málið tekið til dóms með
vísan til 161. gr. laga nr. 88/2008 og var dómur kveðinn upp 5. desember 2013,
þar sem ákærða var sýknuð af því broti sem henni var gefið að sök.
Eins og fyrr greinir kom
ákærða ekki fyrir héraðsdóm í áðurgreindum þinghöldum 17. október og 7.
nóvember 2013. Hins vegar var mættur þar af hennar hálfu lögmaður sem skipaður
var verjandi hennar að hennar ósk. Af þessum sökum varð ekki útivist af hálfu
ákærðu. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki skilyrði til að fella dóm á málið
eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008. Verður því að fallast á kröfu
ákæruvaldsins um að héraðsdómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með
þinghaldi 7. nóvember 2013 og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Ákvörðun sakarkostnaðar
í héraði bíður nýs efnisdóms, en allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu sem ákveðin
eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er
ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 7. nóvember 2013 og málinu
vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Allur áfrýjunarkostnaður
greiðist úr ríkissjóði, þar með
talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sigurðar Sigurjónssonar
hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. desember 2013.
Mál þetta, sem þingfest
var 17. október 2013 og dómtekið 7. nóvember 2013 er höfðað með ákæru
lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 8. september 2013 á hendur X, kt. [...], [...],
[...]
„fyrir brot á lögum um fullnustu refsinga
með því að hafa um hádegisbil
laugardaginn 18. maí 2013 smyglað inn í fangelsið að Litla Hrauni á Eyrarbakka
244 lyfjatöflum er innihéldu vefaukandi sterann Metandróstenólón sem ákærða
faldi upp [sic.] í leggöngum sínum en framvísaði til fangavarða í fangelsinu
umrætt sinn, en ákærðu var ljóst eða mátti vera ljóst að óheimilt var með öllu
að koma með framangreindar lyfjatöflur í fangelsið á þennan máta.
Telst háttsemi ákærðu varða við 81.
gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49, 2005 sbr. 3. og 4. tl. 1. mgr. 52. gr.
sömu laga sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012 sem birtar voru í
B-deild Stjórnartíðinda þann 26. janúar 2012.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd
til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Mál þetta var þingfest
17. október 2013. Sótti þá þing vegna
ákærðu Sigurður Sigurjónsson hrl. sem ákærða hafði óskað eftir að yrði skipaður
verjandi sinn. Var lögmaðurinn skipaður
verjandi ákærðu. Upplýsti verjandinn að
ákærða væri í meðferð við fíkniefnavanda og óskaði eftir að málinu yrði
frestað. Var málið á ný tekið fyrir 7.
nóvember sl. og upplýsti þá skipaður verjandi ákærðu að hann hefði ekki náð af
henni tali en hefði fengið staðfest að hún hafi farið úr meðferðinni. Var málið
tekið til dóms skv. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en við
birtingu ákæru og fyrirkalls 2. október 2013 var þess getið í fyrirkalli að
fjarvist ákærðu kynni að verða metin til jafns við það að hún viðurkenndi að
hafa framið brot það sem hún væri ákærð fyrir og dómur yrði lagður á málið að henni
fjarstaddri.
Í rannsóknargögnum kemur
fram að í lögregluskýrslu hafi ákærða viðurkennt að hafa ætlað að smygla
töflunum inn í fangelsið til bróður síns en hún hafi verið beðin um þetta og
fengið töflurnar afhentar af sér ókunnum manni.
Hún hafi ekki gert sér grein fyrir að þetta „væri svona alvarlegt brot“
og hefði aldrei gert þetta ef hún hefði vitað að „þetta væri lögreglumál“. Þá kemur jafnframt fram að töflurnar hafi
verið efnagreindar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og
eiturefnafræði og hafi töflurnar innihaldið metandróstenólón en það sé
vefaukandi steri og falli undir 6. gr. reglugerðar nr. 212/1998 um innflutning
einstaklinga á lyfjum til eigin nota.
Um málavexti vísast að
öðru leyti til ákæruskjals og þykir nægilega sannað að ákærða hafi komið með
umræddar töflur í fangelsið, faldar í líkama sínum.
Niðurstaða
Í ákæru er háttsemi
ákærða talin varða við 81. gr. laga nr. 49/2005, sbr. 3. og 4.tl. 1. mgr. 52.
gr. sömu laga sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna fangelsa nr. 54/2012.
Í 81. gr. laga nr.
49/2005 segir að „Sá sem smyglar eða
reynir að smygla til fanga munum eða efnum sem getið er í 1. mgr. 52. gr. og
hann veit eða má vita að fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skal sæta sektum
eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum
lögum.“
Í 1. mgr. 52. gr. laganna
segir að „Forstöðumaður
fangelsis tekur ákvörðun um leit í klefa fanga ef grunur leikur á að þar sé að
finna muni eða efni sem: 1. refsivert er að hafa í vörslum sínum, 2. hafa orðið til við refsiverðan
verknað, 3. smyglað hefur verið inn í fangelsið, 4. fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum
eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis.”
Í refsiákvæði því sem vísað er til í ákærunni, þ.e. 81. gr.
laga nr. 49/2005 er ekki efnisregla um að refsivert sé að smygla í fangelsi
lyfjum eða öðrum tilgreindum hlutum.
Efnislega vísar ákvæðið um innihald sitt til 52. gr. laganna.
Ekki er heldur að finna slíka reglu í 3. eða 4. tl. 1. mgr.
52. gr. laga nr. 49/2005, sem vísað er til í ákæru og í 81. gr. laganna.
Í 3. tl. 52. gr. segir að bannað sé að hafa í vörslum sínum
hluti sem smyglað hefur verið inn í fangelsið, en fyrir liggur að nefndum
töflum hafði ekki verið smyglað inn í fangelsið áður en ákærða kom með þær og
verður því ekki talið að ákærða hafi gerst brotleg samkvæmt ákvæðinu.
Í 4. tl. 52. gr. er vísað til muna sem fanga sé óheimilt að
hafa í vörslum sínum eða klefa samkvæmt reglum fangelsis. Í reglum fangelsa nr. 54/2010, sem settar eru
af Fangelsismálastofnun ríkisins 10. janúar 2012, kemur fram í 1. mgr. 8. gr.
að óheimilt sé fanga að afla sér, veita viðtöku eða aðstoða aðra fanga við að
komast yfir hvað eina sem bannað sé að nota í fangelsinu svo sem m.a. lyf önnur
en þau sem ávísað sé af fangelsislæknum og taka beri á lyfjatíma. Efnisinnihald ákvæðis 4. tl. 52. gr. laga nr.
49/2005 ræðst þannig í raun af reglum fangelsa.
Það er álit dómsins að löggjafinn geti ekki framselt
Fangelsismálastofnun ríkisins það vald að ákveða í raun hvaða háttsemi sé
refsiverð. Breytir í því efni engu að
téðar reglur hafi verið birta í B-deild Stjórnartíðinda. Er þannig ekki fyrir hendi gild refsiheimild
sem byggja má á refsingu fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru í málinu, sbr.
1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. einnig 1. og 2. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en reglur fangelsa eru ekki gild
refsiheimild.
Verður því að sýkna ákærðu af því að hafa brotið gegn téðum
ákvæðum laga nr. 49/2005.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna ákærðu af öllum kröfum
ákæruvalds í málinu.
Ber að fenginni þessari niðurstöðu að ákveða að allur
sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, en um er
að tefla kr. 31.573 sem er kostnaður vegna matsgerðar og rannsóknar á
lyfjum. Þá ber að ákveða að þóknun skipaðs verjanda ákærðu, Sigurðar
Sigurjónssonar hrl. greiðist úr ríkissjóði en þóknunin er hæfilega ákveðin kr.
48.819 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigurður
G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærða,
X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs
verjanda ákærðu, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 48.819.