Hæstiréttur íslands

Mál nr. 732/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Reimar Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu X um að tiltekið vitni skyldi gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að tiltekið vitni skyldi gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2016

Mál þetta var þingfest 12. október sl. og tekið til úrskurðar í dag.  Sóknaraðili er X, [...], [...], en varnaraðili er ríkissaksóknari.

Sóknaraðili krefst þess að tekin verð skýrsla fyrir dómi af A [...] í tengslum við áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...].

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt.

Málavextir og málatilbúnaður sóknaraðila              

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara útgefinni 10. febrúar 2014 var sóknaraðili, ásamt tveimur öðrum, ákærður fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brotin átti sóknaraðili að hafa framið í störfum sínum hjá Glitni banka hf. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum [...], var hann sakfelldur og dæmdur til fangelsisrefsingar. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og er málið nr. [...] á málaskrá réttarins. Ágrip mun ekki enn hafa verið afhent réttinum. Telur sóknaraðili nauðsynlegt að leiða vitnið í tengslum við meðferð málsins í Hæstarétti. 

Sóknaraðili rekur í beiðni sinni að hann hafi fengið upplýsingar frá rannsakendum málsins um að símtölum milli hans og lögmanns hans, sem sætt hafi hlustun í þágu rannsóknar málsins, hafi ekki verið eytt jafnóðum eins og krafa sé gerð um i 85. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Umræddar upplýsingar hafi komið fram í tölvupóstum milli hans og A [...]. Til að fá þetta staðfest fyrir dómi óskar sóknaraðili eftir því að tekin verði skýrsla af A fyrir dómi með heimild í 141. gr., sbr. 140. gr. og 138. gr., laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Við fyrirtöku málsins vísaði sóknaraðili jafnframt til þess að hann hyggist enn fremur spyrja A hvernig staðið hafi verið að símhlustun vegna hans og lögmanns hans.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði 138. gr. laga nr. 88/2008 til að taka skýrslu af [...]. Umrædd heimild eigi við þegar afla eigi sönnunargagna sem varði sakamál sem sé til meðferðar og leiða eigi vitni um atvik málsins. Umbeðin skýrslutaka hafi ekkert með sönnunarfærslu eða sönnunargögn, í sakamál því sem er til meðferðar í Hæstarétti, að gera, heldur sé ætlunin að láta [...] svara spurningum um störf rannsakenda hjá embætti sérstaks saksóknara og mistökum þeirra við eyðingu gagnanna. Umræddar upptökur hafi ekki verið lagðar fram, það hafi ekki verið byggt á þeim og þeim mun nú öllum hafa verið eytt. Nægilegt sé að upplýsa um mál þetta skriflega, sbr. 4. mgr. 117. gr. nefndra laga.

Varnaraðili vísar enn fremur til þess að ekki liggi fyrir á hvern hátt umbeðin skýrslutaka snerti meðferð máls varnaraðila í Hæstarétti en augljóst sé að eyðing upptaka af umræddum símtölum hafi ekkert með sekt eða sýknu sóknaraðila að gera. Vísar varnaraðili í þessu samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014.

Niðurstaða

Í framlögðu tölvuskeyti frá A [...] kemur fram að símtöl milli sóknaraðila og verjanda hans, sem voru hljóðrituð, hafi verið eytt. Krafa sóknaraðila, um að A, sem starfaði hjá embætti sérstaks saksóknara meðan málið var þar til rannsóknar en nú hjá héraðssaksóknara, verði leiddur fyrir dóm til skýrslugjafar, er á því reist að staðfesta þurfi framangreint tölvuskeyti hans og þá óskar sóknaraðili eftir að yfirheyra hann um framkvæmd símhlustana. Telur sóknaraðili að hljóðritun á símtölunum hafi falið í sér brot gegn grundvallarréttindum hans. Nauðsynlegt sé, í tengslum við rekstur málsins fyrir Hæstarétti á hendur honum, að leita sönnunar um framkvæmd hlustunarinnar og eyðingu símatal með vitnaleiðslu.

Meðal grundvallarréttinda manns, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, er að hann fái notið aðstoðar löglærðs verjanda og geti óhindrað ráðgast við hann án þess að aðrir fylgist með þeim samskiptum. Í samræmi við það er kveðið svo á um í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 88/2008 að verjanda sé heimilt að tala einslega við skjólstæðing sinn um hvað eina sem mál hans varðar. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 85. gr. laganna er skylt að eyða þegar í stað upptökum af símtölum ef í ljós kemur að þau hafa að geyma samtöl sakbornings við verjanda sinn. Jafnframt er svo fyrir mælt í 4. mgr. 134. gr. laganna að óheimilt sé að leggja fram í sakamáli gögn ef þau hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli. Af þessum ákvæðum leiðir að ekki verður byggt á slíkum gögnum af hálfu ákæruvalds í máli sem það kann að höfða á hendur sakborningnum.

Í dómi í málinu nr. [...] kemur fram að á tímabilum á árunum 2010 og 2011 hafi farið fram símahlustanir í þágu rannsóknar málsins hjá ákærðu og vitnum. Engar af upptökum úr símtölum hafi verið taldar hafa sérstakt sönnunargildi í málinu og hafi öllum upptökunum verið eytt í framhaldi.

Samkvæmt framansögðu munu þær upptökur af samtölum varnaraðila við verjanda sinn, sem áður er vísað til, ekki koma á neinn hátt til álita þegar leyst verður úr sakamálinu á hendur honum sem til meðferðar er fyrir Hæstarétti. Af þeim sökum hefur það enga þýðingu við úrlausn þess máls að upplýst verði frekar um hvernig staðið var að framkvæmd upptakanna við rannsókn málsins. Verður kröfu varnaraðila því hafnað með vísan til 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, um skýrslutöku af A [...].