Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/1998
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Dýr
|
|
Mánudaginn 29. mars 1999. |
|
Nr. 258/1998. |
Magnús Einarsson (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn Önnu Maju Albertsdóttur (Haraldur Blöndal hrl.) og gagnsök |
Skaðabótamál. Dýr.
Ö krafði M um skaðabætur vegna höfðuáverka sem hún taldi að hundur í eigu M hefði valdið sér. Þegar litið var til framburðar vitna, sem verið höfðu að leik með Ö þegar atvikið átti sér stað, upphaflegrar frásagnar móður Ö, og þess að ekki var hlutast til um það af hálfu Ö að láta fara fram frekari rannsókn á slysinu, var ekki talið nægilega sannað að hún hefði slasast af völdum hundsins. Var M því sýknaður af kröfu Ö.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 1998 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að kröfur verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. október 1998. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér bætur að fjárhæð 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. maí 1990 til 27. desember 1990, en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að dráttarvextir verði dæmdir frá 23. maí 1993 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningslaust er með aðilum, að gagnáfrýjandi, þá tæplega fimm ára gömul, hafi meitt sig, er hún var að leik ásamt tveimur leiksystrum sínum 2. maí 1990. Hún hafi hlotið þrjú sár á höfði, vinstra megin ofarlega í hársverði, sem gert var að á slysadeild Borgarspítalans samdægurs.
Móðir gagnáfrýjanda fór til lögreglunnar 7. sama mánaðar og kærði íbúa að Akraseli 19 í Reykjavík fyrir ólöglegt hundahald og að hundur í þeirra eigu hafi valdið skaða. Hún bar og fyrir lögreglunni við þetta tækifæri, að dóttir sín hefði sagt sér að hundur aðaláfrýjanda hefði bitið hana. Hún hafi lýst því “þannig að hún hefði verið að leika sér á gangstéttinni framan við Akrasel 19, þegar hundurinn hefði komið og stokkið á hana og bitið ofantil í höfuðið.” Aðaláfrýjandi var spurður um þetta af lögreglunni 20. september sama árs og er meginefni skýrslu hans rakið í héraðsdómi. Þar er einnig getið læknisvottorða þeirra, sem aflað var af hálfu móður gagnáfrýjanda. Lögmaður hennar ritaði áfrýjanda bréf 27. desember 1990. Þar segir að móðir gagnáfrýjanda hafi leitað til lögmannsins vegna dóttur sinnar til að gæta hagsmuna hennar vegna atviksins “þegar hundur yðar kom og beit hana.” Var óskað eftir viðræðum um skaðabætur gagnáfrýjanda til handa, og þess vænst að aðaláfrýjandi hefði samband fljótlega eftir áramótin. Það gerði aðaláfrýjandi með bréfi lögmanns síns 24. janúar 1991, þar sem óskað var eftir fundi hið fyrsta vegna málsins. Aðaláfrýjandi mun hins vegar ekkert hafa heyrt frá gagnáfrýjanda eftir þetta fyrr en með stefnu málsins, sem gefin var út 20. maí 1997, þegar sjö ár voru liðin frá atburðinum. Þegar málið var höfðað lágu aðeins fyrir um aðdraganda slyssins tvær fyrrnefndar lögregluskýrslur frá 7. maí og 20. september 1990. Fyrir dómi voru svo teknar skýrslur af málsaðilum, móður gagnáfrýjanda og annarri þeirra leiksystra hennar, sem með henni voru í umrætt sinn.
II.
Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé að hundur hans hafi bitið gagnáfrýjanda og valdið henni því tjóni, sem hún krefur bóta fyrir. Ekkert sé því til sönnunar í málinu, en gagnáfrýjandi beri um það sönnunarbyrði.
Fyrir héraðsdómi bar gagnáfrýjandi, að hún hafi verið að klappa hundinum og rekist upp í nef eða auga á honum og þá hafi hann stokkið á hana og bitið í höfuðið. Henni hafi þótt hundurinn mjög skemmtilegur, hann hafi verið hlýðinn og ekki grimmur. Hún hafi farið að gráta og farið áleiðis heim til sín. Þá hafi aðaláfrýjandi komið og farið með sig heim. Hún mundi ekki, hvort hún hafi sagt honum hvað gerst hafði, en skýrt móður sinni frá því, þegar þær fóru á slysadeildina.
Leiksystir gagnáfrýjanda, Sólveig Lind Helgadóttir, sem var tæplega fimm ára gömul þegar atvikið gerðist, kom fyrir héraðsdóm og bar, að hún myndi vel eftir atvikum. Hún hafi verið að leika sér með gagnáfrýjanda og annarri leiksystur í garðinum hjá aðaláfrýjanda að Akraseli 19. Þær hafi verið að leika sér með hundinum. Gagnáfrýjandi hafi sett fingur upp í nefið á honum og hundurinn hafi urrað. Gagnáfrýjandi hafi þá hörfað aftur á bak og dottið á hraunvegg, sem var þarna fyrir aftan hana, og fengið sár á höfuðið. Hún hafi oft leikið sér við hundinn, sem hafi verið góður og þeim hafi þótt vænt um hann.
Gagnáfrýjandi bar fyrir dómi að hin leiksystir sín, sem ekki kom fyrir dóm, hafi lýst atvikum svo, að gagnáfrýjandi hafi dottið og hundurinn ekki bitið hana.
Þegar litið er til eindregins framburðar vitnisins Sólveigar Lindar, svo og til þess að frásögn móður gagnáfrýjanda í upphafi um lýsingu dóttur sinnar á atburðinum er ekki samhljóða frásögn gagnáfrýjanda sjálfrar fyrir dómi, og loks litið til þess, að af hálfu gagnáfrýjanda var ekki í tæka tíð hlutast til um að láta fara fram frekari rannsókn á slysinu en þá, sem gerð var af lögreglu á árinu 1990, verður ekki talið nægilega sannað að hún hafi slasast á höfði af völdum hunds aðaláfrýjanda. Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af kröfum gagnáfrýjanda.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Magnús Einarsson, skal vera sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Önnu Maju Albertsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 1998.
Árið 1998, föstudaginn 6. febrúar, er í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-2467/1997 Erla Haraldsdóttir f.h. ófjárráða dóttur Önnu Maju Albertsdóttur gegn Magnúsi Einarssyni kveðinn upp svofelldur dómur:
Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., var höfðað með stefnu birtri 23. maí 1997.
Stefnandi er Erla Haraldsdóttir, kt. 050149-7499, áður til heimilis að Urðarholti 3, Mosfellsbæ, nú til heimilis að Bústaðavegi 63, Reykjavík, f.h. ófjárráða dóttur, Önnu Maju Albertsdóttur, til heimilis að sama stað.
Stefndi er Magnús Einarsson, kt. 010768-3499, áður til heimilis að Akraseli 19, Reykjavík. nú til heimilis að Grandavegi 45, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. maí 1990 til 27. desember 1990 en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda:
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar stórlega.
Þá krefst stefndi þess að stefnandi og lögráðamaður stefnanda verði dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir
Hinn 2. maí 1990 varð dóttir stefnanda, Anna Maja Albertsdóttir, fyrir áverka þar sem hún var að leik með stöllum sínum, Sólveigu Helgadóttur og Guðrúnu Hjartardóttur. Þær stöllur voru að leika sér við hund stefnda. Að sögn stefnda, sem staddur var í bílskúr rétt hjá, heyrði hann urr í hundi sínum og stuttu síðar barnsgrát. Hann fór út og sá Önnu Maju grátandi og fór með hana heim til hennar. Að sögn stefnda minntist Anna Maja ekkert á að hundurinn hefði bitið hana. Stefnandi segir að barnið hafi sagt þá er þær voru á leið á slysavarðstofu að hundurinn hafi bitið sig.
Á slysavarðstofu var gert að sárum Önnu Maju en þau voru þrjú sár v. megin í hársverði yfir eyra, af stærðinni 1,5 + 1,5 + 2,0 cm og gátu verið eftir hundsbit eins og segir í framlögðu vottorði Leifs Jónssonar yfirlæknis á slysadeild, dags. 23. júlí 1990. Hann annaðist ekki Önnu Maju þegar komið var með hana á slysavarðstofu.
Í vottorði Ísaks Hallgrímssonar læknis, dags. 21. febrúar 1996, segir að stefnandi hafi komið með dóttur sína til læknisins 11. maí 1990 í saumatöku. Við saumatöku hafi sárin verið vel gróin, en stúlkan beri varanleg merki þessa óhapps. Hún hafi þrjú hárlaus ör eftir þetta af fyrrnefndri stærð og talsverð óþægindi einkum kláði í þeim eftir sund.
Í vottorði Jóns Guðgeirssonar læknis, dags. 10. apríl 1996, segir m.a.:
„Við skoðun í dag er hún með 3 blettaskalla aftan við og v. megin við hvirfil. Stærsta sárið, sem er aftast og mest áberandi, er 5 x 2 cm á stærð en hin eru 5 x 1 og 1,5 x 1 cm á stærð.”
Hinn 7. maí 1990 kærði stefnandi íbúa að Akraseli 19 fyrir ólöglegt hundahald og það að hundur í þeirra eigu hafi valdið skaða. Hinn 20. sept. 1990 mætti stefndi hjá lögreglu vegna kæru þessarar. Hann kvaðst vera eigandi hundsins, sem hafi fengið að ganga laus við einbýlishúsin í Akraseli þegar hann væri að störfum við húsið eða í bílskúr og sagði hann hundinn þá vera undir eftirliti sínu. Aðallega hafi hundurinn haldið sig við hús númer 14 og þar hafi hann verið með samþykki eigenda. Stefndi sagði að hinn 2. maí 1990 um kl. 18:00 hafi hundurinn verið þarna inni á lóðinni og börn verið að leik þar og hafi allt farið vel fram. Stúlkan Anna Maja hafi verið að leika sér hjá hundinum við húsvegginn á húsi nr. 14. Skömmu síðar kvaðst stefndi hafa heyrt að stúlkan fór að gráta og hafi hann þá hlaupið til hennar og hún sagst hafa dottið utan í húsið. Stefndi kvaðst hafa fylgt stúlkunni heim og þar hafi móðir hennar tekið á móti henni. Stefndi kvaðst ekki geta sagt um það hvort hundur hans hafi bitið stúlkuna eða ekki, en rétt áður en stúlkan fór að gráta hafi hann heyrt ýlfur í hundinum svona eins og dýr senda frá sér þegar þau eru meidd eða þess háttar. Hann kvaðst hafa talið að stúlkan hefði dottið á húsvegginn sem sé grófhraunaður. Stúlkan hafi svo leikið sér við hundinn daginn eftir og ekki virst vera neitt hrædd við hann.
Þá er Anna Maja varð fyrir ofangreindum áverka hafði stefndi ekki leyfi til hundahalds. Leyfið fékk hann 16. október 1990.
Mál þetta höfðar stefnandi til heimtu bóta til handa dóttur sinni úr hendi stefnda.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar um bætur vegna tjóns af völdum dýra, sbr. einkum lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki nr. 7/1953, 3. gr. sbr. lög nr. 41/1965 og lög nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, 18. gr., sbr. rgl. nr. 305/1989 um hundahald í Reykjavík en stefnda hafi í fyrsta lagi verið óheimilt að hafa hund sinn í Reykjavík og jafnframt hafi stefnda borið að tryggja að hundurinn myndi ekki valda skaða.
Um rökstuðning er af hálfu stefnanda vísað í framangreint vottorð Jóns Guðgeirssonar m.a. ályktun læknisins sem er svohljóðandi:
„Um er að ræða 10 ára gamla stúlku, sem hlaut þrjú sár eftir hundsbit, v. megin aftan við hvirfil, þegar hún var 4 ára gömul. Síðan hefur hún haft þrjá hárlausa bletti þar og eru þeir allir mjög áberandi og ekki að vænta breytinga til batnaðar úr þessu og því hér um varanlegt lýti að ræða.”
Stefnandi telur bótakröfu mjög í hóf stillt.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á lögum nr. 25/1988 (svo) og málskostnaðarkrafa á lögum nr. 91/1991.
Málsástæður og rökstuðningur stefnda
Af hálfu stefnda er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að hundur hans, Bjartur, hafi bitið stefnanda í höfuðið þann 2. maí 1990.
Í málinu liggi ekki fyrir nein haldbær sönnunargögn um það, annað en yfirlýsing móður Önnu Maju fyrir lögreglu og hjá læknum án þess að fyrir liggi óháð og sjálfstæð samtímarannsókn á sárum stefnanda. Þá sé ekki gerð minnsta tilraun til að upplýsa um eðli áverka, mögulega áverkavalda o.s.frv. Öll gögn stefnanda eigi það sammerkt að vera endursagnir skýrslu- og eða vottorðagefenda eftir frásögn móður stefnanda. Í hnotskurn séu því öll málsatvik frásögn móður stefnanda einnar.
Þau fátæklegu læknisfræðilegu gögn sem stefnandi hafi lagt fram sanni á engan hátt að sár á höfði stefnanda séu óyggjandi eftir hundsbit, hvað þá eftir hund stefnda, sbr. yfirlýsingu Leifs Jónssonar yfirlæknis á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, sem fyrst hafi annast stefnanda. Sárin hafi getað myndast við hvers konar aðrar ákomur, svo sem hrösun eða fall á höfuðið, t.d. utan í grófan vegg. Þá hafi foreldrar stefnanda einnig haldið hund á sínu heimili, sem talinn sé hafa verið óskráður á þessum tíma.
Sár stefnanda hafi ekki verið rannsökuð á þann hátt að fyrir liggi upplýsingar um orsök þeirra svo að hafið sé yfir vafa. Hafi stefnda hvorki verið tilkynnt um að slík rannsókn hafi farið fram né honum gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við slíka rannsókn. Læknisvottorð sem liggi fyrir í málinu séu hvorki sönnun fyrir því að stefnandi hafi verið bitinn af hundi né að hundur stefnda hafi verið þar að verki. Þau séu um margt ófullkomin og stangist á í veigamiklum atriðum.
Þá sé mjög langt um liðið síðan meint atvik átti sér stað. Í málinu liggi ekki fyrir gögn um það hvort stefnandi hafi síðar leitað til slysadeildar eða lækna vegna áverka á höfði. Telur stefndi það nauðsynlegt m.a. þar sem í yfirlýsingu Leifs Jónssonar læknis sé fjallað um sár vinstra megin í hársverði yfir eyra. Af framlögðum ljósmyndum megi hins vegar ráða að umrædd sár séu rétt aftan við hvirfil, því sem næst á miðju höfði. Telur stefndi verulegan vafa leika á um að um sömu áverka sé að ræða miðað við atvikalýsingu stefnanda. Styðjist það einnig við vottorð Ísaks Hallgrímssonar læknis og fyrrgreint vottorð Leifs Jónssonar, þar sem áverkar séu taldir minni háttar og einungis eitt spor tekið í hvern skurð þannig að einungis ör hafi verið sjáanleg.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi ekki sinnt bréfi lögmanns stefnanda, dags. 27. des. 1990. Kristján Ólafsson hrl. hafi ritað lögmanni stefnanda bréf 24. janúar 1991 og óskað eftir viðræðum. Því bréfi hafi ekki verið svarað né gerður reki að heimtu bóta fyrr en með málsókn þessari.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi haldið hund sinn ólöglega. Stefndi hafi sótt um leyfi þann 25. maí 1990 í samræmi við samþykkt nr. 305/1989 og hafi fengið það útgefið þann 16. okt. 1990. Eigi sé skylt að sækja um leyfi fyrir hund fyrr en í fyrsta lagi þegar hundur hefur náð 3ja mánaða aldri, sbr. 4. mgr. 3. gr. fyrrgreindrar samþykktar.
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ósannað sé að hundur í eigu hans hafi valdið stefnanda því tjóni sem málatilbúnaður hans byggir á, þ.e. að hundurinn hafi bitið stefnanda, þó svo hafi verið að sár á höfði stefnanda séu eftir slíkt bit. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað og með þeim hætti að stefndi sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum skaðabótareglum, þ.e. að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, sem sé orsök tjóns stefnanda, sem auk þess hafi verið vávænt. Því er mótmælt ex tuto að ábyrgð stefnda sé hlutlæg en ekki sé byggt á slíkri málsástæðu í stefnu og komi hún því að lögum ekki til álita. Gögn þau er stefnandi byggi á sanni á engan hátt þá atburðarás sem fram komi í stefnu. Sé þar ýmist um að ræða yfirlýsingar móður stefnanda eða annarra vandamanna hennar og frásögn sömu aðila af atburðum hjá læknum og lögreglu.
Þá beri stefnandi sönnunarbyrði um fjárhæð tjónsins en hvorki liggi fyrir nein gögn um það né vottorð er sýni að hve miklu leyti hægt sé að laga lýti á höfði stefnanda, sem bótakrafa stefnanda lúti eingöngu að.
Fram komi í framlögðum læknisvottorðum að með einfaldri aðgerð sé hægt að lagfæra ör og bletti þá sem stefnt virðist út af. Bótakröfu er hafnað á þeim grunni að óvíst sé um endanleg lýti stefnanda og þar af leiðandi miskabótafjárhæð. Verði því ekki komist hjá að sýkna stefnda þar sem endanlegar afleiðingar hins meinta tjóns hafi ekki komið fram.
Verði talið að hundur stefnda hafi bitið stefnanda sé við stefnanda að sakast. Stefnandi hafi oft og einatt leikið sér með hundinn enda hafi foreldrar stefnanda haldið hund á heimili sínu. Hundur stefnda hafi aldrei bitið frá sér, en þó sé það vitað að hundar kunni að glefsa séu þeir áreittir verulega. Hafi sú orðið raunin í þessu tilfelli, þá sé ekki við annan að sakast en stefnanda sjálfan og verði hann því að bera tjón sitt sjálfur.
Fjárkrafa stefnanda, hafi hún einhvern tímann stofnast, sé löngu fallin niður fyrir tómlæti og eða fyrningu. Liðin séu um sjö ár frá því að meintur atburður gerðist og hafi stefnandi ekki gefið stefnda minnsta tilefni til að ætla að sækja ætti til hans bætur frá því að stefnanda var ritað bréf 24. janúar 1991. Aðgerðarleysi stefnanda kunni að hafa valdið stefnda réttarspjöllum varðandi varnir sínar og verði ekki metið öðru vísi en að stefnandi hafi fyrirgert meintum rétti sínum til bóta.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð stórlega. Í því sambandi er af hálfu stefnda vísað til málsástæðna sem raktar hafa verið hér að framan um sakarábyrgð og eigin sök stefnanda. Þá geri stefnandi eingöngu fjárkröfu vegna miska út af lýtum án þess að nokkurt eiginlegt fjártjón liggi fyrir. Sé upphæð sú sem stefnandi krefjist fyrir í engu samræmi við dómvenju um fjárhæð miskabóta auk þess sem umrædd lýti séu minni háttar og vart sjáanleg nema til komi sérstök hárgreiðslumeðferð til að draga þau fram svo sem sjá megi á framlögðum ljósmyndum. Þá beri og að líta til þess að samkvæmt vottorði Leifs Jónssonar megi eyða lýtunum eð draga verulega úr þeim með einfaldri aðgerð. Komi til bótaákvörðunar beri og að líta til þess að miða verði bætur við verðlag á slysdegi enda sé krafist vaxta frá þeim tíma.
Þá er vaxtakröfum stefnanda sérstaklega mótmælt þar sem stefnandi hafi ekki gert reka að innheimtu bóta fyrr en sjö árum eftir hið meinta skaðabótaskylda atvik. Stefnandi eigi ekki að vinna rétt til dráttarvaxta með því að draga málssókn að ófyrirsynju. Venju samkvæmt beri bætur vegna líkamstjóna ekki dráttarvexti fyrr en í fyrsta laga frá því tímamarki er fjárhæð er staðreynd og kynnt meintum tjónvaldi svo að hann geti tekið til hennar afstöðu. Slíkt hafi ekki verið gert og þegar af þeirri ástæðu beri í mesta lagi að miða við uppkvaðningu dóms eða þingfestingu málsins. Hvað sem öðru líður séu vextir eldri en fjögurra ár fyrndir.
Í aðalkröfu stefnda er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun og sönnunarbyrði, orsök og sennilega afleiðingu, culpa og eigin sök og reglna kröfuréttar um fyrningu og tómlæti.
Í varakröfu vísar stefndi einnig til almennra reglna skaðabóta- og kröfuréttar, ákvæða fyrningarlaga og dómvenju.
Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar stefndi til laga nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm til skýrslugjafar stefnandi Erla Haraldsdóttir, dóttir hennar Anna Maja Albertsdóttir, stefndi og vitnin Jón Þórarinn Magnússon hundaeftirlitsmaður, Sólveig Lind Helgadóttir og Nanna Ólafsdóttir.
Niðurstaða
Eftir því sem fram er komið voru ekki aðrir sjónarvottar að atvikum þá er dóttir stefnanda, Anna Maja Albertsdóttir, varð fyrir áverka þeim sem málið er af risið en Sólveig Lind Helgadóttir og Guðrún Hjartardóttir. Þær stöllur, Anna Maja fædd 3. júlí 1985 og Sólveig fædd 27. ágúst 1985, hafa því verið tæplega fimm ára þá er þetta var. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda er Guðrún Hjartardóttir fædd 23. júní 1986 og hefur því verið tæplega fjögurra ára. Nú eru tæp átta ár liðin frá atburðinum.
Fram kom hjá stefnanda að Leifur Jónsson læknir hafi ekki annast Önnu Maju. Hún hafi farið einu sinni til Ísaks Hallgrímssonar vegna þessa, en hann tók saumana. Jón Guðgeirsson læknir hafi skoðað Önnu Maju einu sinni vegna vottorðsins. Ekkert hafi verið kannað hvort hægt sé að lagfæra lýti stúlkunnar.
Hér fyrir dómi bar Anna Maja að hún hafi í umrætt sinn verið að klappa hundinum og hafi hún rekið hendina upp í nasir á hundinum og hann stokkið á hana og bitið. Hún hafi dottið þegar hundurinn stökk á hana. Hundurinn hafi hvorki fyrir né eftir þetta reynt að bíta hana.
Fram kom hjá Sólveigu Lind Helgadóttur að þær þrjár, hún, Guðrún og Anna Maja hafi verið að leika sér í garði stefnda að Akraseli 19. Anna Maja hafi sett fingur í nefið á hundinum. Hundurinn hafi þá urrað og Anna Maja dottið utan í húsvegg. Sólveig kvaðst viss um að hundurinn hefði ekki bitið Önnu Maju, hún hafi dottið á vegg.
Fram kom hjá stefnda að hinn 2. maí 1990 hafi hundur hans gengið laus í garði hans og í garði við hús nr. 14 við Akrasel. Stefndi kvaðst hafa heyrt hundsýlfur og svo barnsgrát. Hann sá dóttur stefnanda, sem hélt um höfuðið og grét. Stefndi fór með stúlkuna til móður hennar. Hann kvaðst hafa spurt stúlkuna hvort hún hefði dottið og hún játað því.
Í framlögðum læknisvottorðum kemur fram að áverkar Önnu Maju geti stafað af hundsbiti en ekki er þar fullyrt að áverkarnir stafi af hundsbiti. Ekki hefur verið lagt fram vottorð frá þeim lækni sem gerði að sárum stúlkunnar.
Þegar það er virt sem hér að framan hefur verið rakið og þá sérstaklega framburður stefnda þykja þær líkur vera fyrir því að hundur stefnda hafi valdið áverka þeim sem málið er afrisið að fella beri bótaábyrgð á stefnda á tjóni dóttur stefnanda, Önnu Maju Albertsdóttur, vegna áverkans.
Þrátt fyrir verulegan drátt af hálfu stefnanda verður ekki talið að bótaréttur stefnanda sé niður fallinn fyrir tómlæti.
Þegar þau þrjú læknisvottorð sem lögð hafa verið fram eru skoðuð sést að lýsing á stærð hárlausu blettanna í vottorði Jóns Guðgeirssonar, dags. 10. apríl 1996, passar ekki við lýsingu í vottorðum þeirra Leifs Jónssonar og Ísaks Hallgrímssonar. Lýsing þeirra Leifs og Ísaks á stærð blettanna passar betur við framlagðar ljósmyndir af hnakka Önnu Maju og er í meira samræmi við það sem sást við skoðun þá er Anna Maja kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Þá sást einnig að hárlausu blettirnir eru ekki sjáanlegir við venjulega hárgreiðslu stúlkunnar.
Ekki er um örorku að ræða vegna áverkans, heldur eingöngu útlitslýti sem dyljast við venjulega hárgreiðslu. Ekki hefur verið athugað hvort lagfæra megi lýti þessi. Fallast ber á það með stefnda að fjárhæð dómkröfu stefnanda sé í engu samræmi við dómvenju varðandi ákvörðun miskabóta. Eftir atvikum þykir mega ákveða bætur til handa dóttur stefnanda að álitum og teljast þær þannig hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Þá fjárhæð ber stefnda að greiða með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 23. maí 1993 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, en eldri vextir en fjögurra ára eru fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Magnús Einarsson, greiði stefnanda, Erlu Haraldsdóttur f.h. ófjárráða dóttur hennar, Önnu Maju Albertsdóttur, 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. maí 1993 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.