Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2001
Lykilorð
- Verksamningur
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2002. |
|
Nr. 320/2001. |
Pétur Ingi Jakobsson(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Byggingarfélaginu Kambi ehf. (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Verksamningur. Tómlæti.
P og B gerðu með sér verksamning í ágúst 1998 sem saminn var á vegum B. Með honum tók P að sér gröft, fyllingar, fleygun og frágang lóðar undir malbikun við nokkrar húseignir. Voru tiltekin einingarverð greind í samningnum og skyldi P gera B reikning eftir framvindu verks á byggingarstað. P átti í einu og öllu að lúta verkstjórn B og þeir skyldu „mæla upp allt það magn sem unnið er sameiginlega jafnharðan og verkið er unnið þannig að ekki komi til vandræða við útreikninga á endanlegu magni.“ Vegna þessara verka gaf P út átta reikninga, samtals að fjárhæð um 7,2 milljónir króna. B greiddi P um 5,6 milljónir upp í skuldina en ágreiningur varð um ætlað efnismagn í verki P. Þá greindi aðila á um það, hvort B hefði andmælt reikningum P, en engra skriflegra gagna naut við um það í málinu. Var talið að B hefði ekki tekist að sanna, að hann hefði andmælt reikningum P efnislega fyrr en með framlagningu greinargerðar sinnar í héraði og varð samráð aðila um innborganir B ekki lagt að jöfnu við rökstudd mótmæli. Þó hefði B haft fullt tilefni til að hefjast handa við útgáfu reikninganna og eigi síðar en við verklok P, þegar sundurliðuð yfirlit hans lágu fyrir, og freista þess að sýna fram á, að reikningsgerðin stæðist ekki, á meðan enn var unnt að staðreyna ágreiningsefni betur en síðar varð. Það gerði B hins vegar ekki og svaraði ekki heldur kröfubréfi lögmanns P í júní 1999. Var talið að B hefði þannig með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig, að reikningar P hefðu ekki verið á rökum reistir, sbr. grunnreglu 1. mgr. 52. gr. þágildandi kaupalaga, sem beitt var með lögjöfnun. Einnig var litið til þess að í staðlinum ÍST 30, væri sú skylda lögð á verkkaupa að bera fram skrifleg mótmæli gegn upplýsingum frá verktaka innan hálfs mánaðar frá móttöku þeirra en teldist ella hafa samþykkt þær. Samkvæmt þessu var krafa P tekin til greina og B dæmdur til að greiða P rúmar 1,6 milljónir króna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2001. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.646.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 18. nóvember 1998 til 30. janúar 1999, af 1.069.049 krónum frá þeim degi til 20. febrúar sama ár, af 1.646.005 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi beri fjárhæðin dráttarvexti til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir gerðu aðilar með sér verksamning 21. ágúst 1998, sem ómótmælt er, að saminn var á vegum stefnda. Með honum tók áfrýjandi að sér „gröft, fyllingar, fleygun og frágang lóðar undir malbikun við Akralind 1 í Kópavogi og fyllingar utan með húsi við Brekkuhús 1 í Reykjavík ásamt öðrum sambærilegum verkum er upp gætu komið og eru á vegum verkkaupa, en þá yrði samið um það sérstaklega.“ Fyrir liggur, að ekkert varð úr vinnu áfrýjanda við Brekkuhús 1 í Reykjavík, en hann tók hins vegar að sér jarðvegsvinnu fyrir stefnda við Vallarbraut 7 í Hafnarfirði og Laugalind 10-12 í Kópavogi. Ekki var þó samið sérstaklega um þau verk að öðru leyti en því, að þau skyldu unnin á grundvelli verksamningsins. Heildarsamningsupphæð var 10.000.000 krónur með virðisaukaskatti og voru tiltekin einingarverð í samningnum. Áfrýjandi skyldi gera stefnda reikning eftir framvindu verks á byggingarstað og skyldu greiðslur berast honum í síðasta lagi 20 dögum eftir útgáfudag reiknings. Áfrýjandi átti í einu og öllu að lúta verkstjórn stefnda og þeir skyldu „mæla upp allt það magn sem unnið er sameiginlega jafnharðan og verkið er unnið þannig að ekki komi til vandræða við útreikninga á endanlegu magni.“
Vegna þessara verka gaf áfrýjandi út þrjá reikninga 28. október 1998, þrjá reikninga 13. desember sama ár og tvo reikninga 1. febrúar 1999, samtals að fjárhæð 7.249.579 krónur. Stefndi greiddi ekki reikningana hvern fyrir sig, en innborganir frá honum fóru ýmist fram með peningum eða á viðskiptaneti á tímabilinu frá 28. október til desemberloka 1998 og námu þær samtals 5.603.574 krónum samkvæmt gögnum áfrýjanda. Fram er komið, að með síðustu reikningum fyrir hvert verk hafi fylgt yfirlit frá áfrýjanda með sundurliðun verka og fjárhæða miðað við vinnustundir eða rúmmetra jarðvegsefnis. Stefndi telur þau yfirlit ekki hafa sýnt forsendur útreikninga áfrýjanda með fullnægjandi hætti, en ágreiningur aðila lýtur einkum að ætluðu efnismagni í verki hans. Hins vegar verður ekki séð, að stefndi hafi í skjóli verkstjórnarvalds síns samkvæmt verksamningnum séð til þess, að magnmælingar færu í einu og öllu þannig fram, að ekki kæmi „til vandræða við útreikninga á endanlegu magni“, eins og í samningnum sagði.
II.
Aðila greinir á um það, hvort stefndi hafi andmælt reikningum áfrýjanda, en engra skriflegra gagna nýtur við um það í málinu. Fyrir héraðsdómi kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda, Sigurður Hjálmar Ragnarsson húsasmíðameistari, hafa gert munnlegar athugasemdir við reikningana. Hann hafi frá upphafi óskað betri skýringa með reikningunum og ítrekað það við hverja reikningsgerð. Áfrýjandi vísaði því á bug fyrir dóminum, að á þessum tíma hefðu komið nokkrar athugasemdir frá stefnda. Þeir Sigurður hefðu hins vegar átt fundi með sér í byrjun og þá rætt ýmis mál. Aðspurður um magntölur kvað áfrýjandi mælingar að stærstum hluta hafa verið sameiginlegar, en sagði svo: „Síðan þegar aldrei er hægt að ná í uppgjörsfundi, þá er talið eftir bílatalningu, það er alveg rétt. Þá er samið við Sigurð um að fá innborgun á verkið sem sagt að þeir sendu bara innborgun á reikningana en engu að síður eru alltaf send yfirlit með í sundurliðun á tímavinnu og sundurliðun á keyrðu magni og síðan átti að fara yfir þetta.“
Eins og mál þetta liggur fyrir hefur stefnda ekki tekist að sanna, að hann hafi andmælt reikningum áfrýjanda efnislega fyrr en með framlagningu greinargerðar sinnar í héraði í þessu dómsmáli, en samráð aðila um innborganir stefnda verða ekki lögð að jöfnu við rökstudd mótmæli hans. Stefndi hafði þó fullt tilefni til að hefjast handa við útgáfu reikninganna og eigi síðar en við verklok áfrýjanda, þegar sundurliðuð yfirlit hans lágu fyrir, og freista þess að sýna fram á, að reikningsgerðin stæðist ekki, á meðan enn var unnt að staðreyna ágreiningsefni betur en síðar varð. Það gerði hann hins vegar ekki og svaraði ekki að heldur kröfubréfi lögmanns áfrýjanda 1. júní 1999. Jafnframt varð útivist af hans hálfu, þegar mál þetta var þingfest 24. nóvember 1999, en það var endurupptekið 26. apríl 2000 og skilaði stefndi þá áðurnefndri greinargerð sinni 24. maí sama ár, tæpum 16 mánuðum eftir að honum bárust síðustu reikningar áfrýjanda. Hefur hann þannig með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig, að reikningar áfrýjanda hafi ekki verið á rökum reistir, sbr. grunnreglu 1. mgr. 52. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem hér verður beitt með lögjöfnun. Má jafnframt líta til þess, að í Íslenskum staðli, ÍST 30, sem hefur að geyma almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, er sú skylda lögð á verkkaupa að bera fram skrifleg mótmæli gegn upplýsingum frá verktaka innan hálfs mánaðar frá móttöku þeirra en telst ella hafa samþykkt þær.
Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Byggingarfélagið Kambur ehf., greiði áfrýjanda, Pétri Inga Jakobssyni, 1.646.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 18. nóvember 1998 til 30. janúar 1999, af 1.069.049 krónum frá þeim degi til 20. febrúar sama ár, af 1.646.005 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi beri fjárhæðin dráttarvexti til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. maí 2001.
Þetta mál, sem þingfest var 24. nóvember 1999, var dómtekið 10. maí 2001. Stefnandi er Pétur Ingi Jakobsson, kt. 070765-4899, Mururima 5, Reykjavík. Stefndi er Byggingarfélagið Kambur ehf., 500490-1369, Trönuhrauni 10, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.646.005 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 18. nóvember 1998 til 30. janúar 1999, af 1.069.049 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 1999 en af 1.646.005 krónum frá þeim tíma til greiðsludags auk málskostnaðar og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefnandi krefst þess jafnframt að honum verði heimilt að leggja dráttarvexti við höfuðstól kröfunnar á tólf mánaða fresti.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað að skaðlausu.
I.
Aðilar málsins gerðu með sér verksamning 21. ágúst 1998, þar sem stefnandi tók að sér gröft, fyllingu, fleygun og frágang lóðar undir malbikun við Akralind 1 í Kópavogi og fyllingu utan með húsi við Brekkuhús 1 í Reykjavík. Segir jafnframt í 1. gr. samningsins að stefnandi taki einnig að sér sambærileg verk er upp gætu komið á vegum verkkaupa og yrði þá samið um þau verk sérstaklega. Öll vinna skyldi vera innifalin í verkinu, þ.m.t. vélavinna og allt efni sem þyrfti til verksins. Í 2. gr. verksamningsins segir að heildarsamningsupphæð sé 10 milljónir króna með virðisaukaskatti sem verktaki skuli gera verkkaupa reikning fyrir, eftir framvindu verksins. Fyrir fylltan, jafnaðan og þjappaðan rúmmetra af reiknuðu magni fyllingar (bögglabergi eða öðru jafngóðu fyllingarefni) skyldu greiðast 980 krónur. Fyrir uppgrafinn rúmmetra af mold eða öðru ónothæfu efni sem flutt væri á tipp skyldi greiðar 350 krónur. Fyrir fleygun á klöpp eða móhellu skyldi greiðast 2.500 krónur fyrir rúmmetra. Í 4. grein samningsins kemur fram að verktaki skuli í einu og öllu lúta stjórn verkstjóra verkkaupa og bera sig saman við hann um mál sem þarfnist skoðunar. Verktaki og verkkaupi skyldu jafnhraðan mæla upp allt magn efnis eftir því sem verkinu miðaði áfram, þannig að ekki kæmi til deilna við útreikninga á endanlegu magni.
Stefnandi hóf verkið og vann við Akralind 1 í Kópavogi, en ekkert varð úr að hann ynni við Brekkuhús 1 í Reykjavík. Hann tók einnig að sér að grafa fyrir húsi við Vallarbraut 7 í Hafnarfirði, auk þess að grafa fyrir stoðveggjum á framhlið húss við Laugalind 10-12 í Kópavogi og fjarlægja uppgröftinn ásamt haug sem var á lóðinni. Síðan fyllti hann að veggjum með aðfluttu efni.
Stefnandi gaf út reikninga fyrir vinnu sinni á tímabilinu 28. október 1998 til og með 1. febrúar 1999, samtals að fjárhæð 7.249.579 krónur. Stefndi mótmælti þessum reikningum sem of háum en greiddi inn á reikningana samtals 5.603.357 krónur á tímabilinu 28. október 1998 til og með 31. desember 1998.
Við aðalmeðferð kom fram að aðilar höfðu unnið saman að mælingu eftir því sem verkinu hafði miðað áfram. Slíkir útreikningar hafa verið lagðir fram í málinu. Fram kom í máli forsvarsmanns stefnda að hann hafi aðeins fengið reikninga senda, en aldrei sundurliðun eða rökstuðning með þeim eins og hann hafi margoft óskað eftir. Hafi hann því stöðvað greiðslur og jafnframt mælt verkið sjálfur upp og komist að raun um að stefnandi hafi fengið of mikið greitt miðað við verkstöðu er hann fór frá verkinu. Stefnandi hélt því aftur á móti fram við aðalmeðferð að hann hafi sent stefnda sundurliðaðan reikning.
Stefndi aflaði matsgerðar sem lögð var fram 20. febrúar 2001. Í matsgerð segir m.a.:
„Liður A. Akralind 1, Kópavogi.
A1.Miðað er við brúttógrunnflöt 1. hæðar og uppgröft frá meðalhæð á landi í kóta 56,62 m í kóta 54,95. Samkvæmt þessu er uppgröftur fyrir húsi 1014 m3. Uppgröftur utan sökkla reiknast með lið A3.
A2.Nettórúmtak fyllingar innan sökkla reiknast vera 233 m3 að frádregnu rúmmáli lagna ásamt sandi og drenmöl sem er áætlað 46 m3. Nettómagn fyllingar er því 187 m3.
A3.Miðað við gefnar forsendur í matsbeiðni reiknast uppgröftur fyrir plönum og utan sökkla 734 m3.
A4.Fylling í lóð og undir plön í hæð sem er 20 cm undir mældu yfirborði þeirra reiknast vera 1569 m3 áður en dregið er frá rúmmál fleygagrjóts og annarrar fyllingar sem er sagt framkvæmt af öðrum verktaka. Miðað við að draga frá 1055 m3 er nettómagn fyllingar samkvæmt gefnum forsendum 514 m3.
A5.Áætlað magn af sandi og drenmöl á hvern metra lagna í grunni og drenlagna er 0,25 m3. Miðað við þær forsendur er heildarmagn sands og drenlagnar 65 m3.
A6.Matsmaður áætlar að vélavinna við gröft og fyllingu lagnaskurða sé 0,15 klst/m. Samkvæmt því er vélavinna áætluð 39 klst.
Liður B. Vallarbraut 7, Hafnarfirði.
B1.Áætlað uppgraftrarmagn byggt á forsendum í dómskjali 17 er 493 m3.
B2.Miðað við gefnar forsendur í matsbeiðni er magn fyllingar 460 m3.
B3.Fylling innan sökkla reiknast vera 164 m3. Að frádregnum sandi og drenmöl, um 0,25 m3/m er nettófyllingarmagn 151 m3.
B4.Áætlað fyllingarmagn meðfram húsi er 75 m3 og í plan fyrir framan hús 154 m3, eða samtals 229 m3, miðað við forsendur í matsbeiðni.
B5.Áætlað magn sands og drenmalar í kringum lagnir í grunni er 0,25 m3/m eð 13 m3.
B6.Áætluð vélavinna við gröft og fyllingu lagnaskurða í grunni er 0,15 klst/m eða samtals 7,8 klst.
Stefndi hefur tekið saman fjárhæð matsgerðar miðað við einingarverð sem samið var um í verksamningi. Er samantekt stefnda svohljóðandi:
Akralind 1 KópavogiMagn
A1Gröftur f. húsi1014350354.900.00
A2Fylling innan sökkla187980183.260.00
A3Gröftur f. plönum734350256.900.00
A4Fylling undir plön514980503.720.00
A5Sandur og drenmöl65150097.500.00
A6Vélavinna v/lagna í grunni og
drenlagnir393704144.456.00
Fleygun í grunni3202500800.000.00
2.340.736.00
Vallarbraut 7, Hafnarfirði
B1Gröftur f. húsi mokað á bakka493350172.550.00
B2Fylling í púða460980450.800.00
B3Fylling inní sökkla, m. efni af bakka15135052.850.00
B4Fylling utan sökkla, m.efni af bakka22935080.15.000
B5Sandur og drenmöl13150019.500.00
B6Vélavinna v/lagna í grunni og utanhúss7.8370428.891.20
Fleygun í grunni1100000100.000.00
904.741.20
Þá hefur stefndi einnig gert athugasemdir við reikninga stefnanda vegna Laugalindar 10-12, Kópavogi. Telur hann rétt efnismagn og greiðslur eigi að vera eftirfarandi:
Laugalind 10-12 Kópavogi
Efni flutt af staðnum24835086.800.00
Fyllingar m. að fluttu efni5098049.000.00
Sandur81500122.000.00
147.800.00
Stefnandi byggir kröfu sína á reglu um kröfu og samningsréttar, kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnanda við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og kröfur um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi reisir kröfu sína um sýknu fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að hann skuldi ekki umkrafða fjárhæð eins og matsgerð staðfesti. Stefnandi hafi reiknað efnisaðföng á öðrum forsendum en verksamningurinn geri ráð fyrir og alls ekki gætt 4 gr. verksamningsins sem kveði á um að stefnandi skuli í einu og öllu lúta stjórn verkstjóra stefnda og bera sig saman við hann um mál sem þarfnist skoðunar. Stefnandi krefjist einhliða greiðslu efnis eftir fjölda bílhlassa og eftir rúmmetrum af óþjöppuðu efni en ekki þjöppuðu eins og verksamningurinn geri ráð fyrir. Þá krefjist hann greiðslu á meira magni en hann hafi afhent og hærra einingarverðs á rúmmeter en um hafi verið samið. Stefndi bendir sérstaklega á Laugalind 10-12 í Kópavogi, en þar hafi stefnandi reiknað út meira magn aðflutts efnis en mögulegt hafi verið að koma fyrir á staðnum.
Stefndi styður kröfu sína við meginreglu samninga- og kröfuréttar og málskostnaðarkröfu við 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fyrir dóminn komu stefnandi, Sigurður Hjálmar Ragnarsson, forsvarsmaður stefnda og vitnin Hannes Sigurðsson, Freyr Jóhannesson, Guðjón Samúelsson og Úlfar Kristinsson.
II.
Stefnandi tók að sér uppgröft og fleira fyrir stefnda við Akralind 1, Kópavogi, Laugalind 10-12, Kópavogi og Vallarbraut 7, Hafnarfirði. Stefnandi gaf út reikning fyrir verkinu, samtals að fjárhæð 7.249.579 krónur. Stefndi greiddi 5.603.357 krónur og telur sig hafa ofgreitt miðað við verkstöðu og samning aðila. Stefnandi sækir mismuninn í þessu máli.
Stefndi óskað dómkvaðningu matsmanns varðandi verk stefnanda að Akralind 1 og Vallarbraut 7. Þá hefur stefndi lagt fram sína útreikninga varðandi Laugalind 10-12. Kostnaðartölur stefnda eru eftirfarandi:
Akralind 1 2.340.736 krónur
Vallarbraut 7 904.741 krónur
Laugalind 10-12 147.800 krónur
Samtals3.393.277 krónur
Í verksamningi er tekið fram að greiðslur fyrir uppgröft og fyllingar skuli miðast við rúmmetra af viðkomandi efni. Verulegur misbrestur var hins vegar á því að stefnandi gerði grein fyrir raunverulegu uppmældu magni á reikningum sínum. Af því er virðist eru aðeins tveir reikningar stefnanda með áætluðu magni, að minnsta kosti að hluta til, en aðrir reikningar virðast einkum byggjast á talningu bíla og magni á hvern bíl.
Í verksamningi eða á öðrum gögnum er fyrir lágu við verkframkvæmdina er ekki skilgreint hversu langt skuli grafa út fyrir sökkla, hvað skuli reikna í fláa, hversu djúpt skuli grafa undir plön og hvernig skuli fara með nauðsynlegar fyllingar í bráðabirgðavegi og plön sem gera þurfti vegna framkvæmdarinnar. Þá er ekki í verksamningi nein ákvæði um fast verð fyrir lagnavinnu. Öll þessi atriði hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Dómurinn telur því að til viðbótar ofangreindum matstölum beri einnig að taka tillit til eftirfarandi þátta:
1.Mat hins dómkvadda matsmanns á kostnaði við sand og drenmöl svo og vélavinnu vegna lagna í grunni og utanhúss byggir á forsögn í matsbeiðni. Við nánari skoðun á matsbeiðninni og niðurstöðutölum í matsgerð fyrir liði A4 og A5 fyrir Akralind 1, Kópavogi og B4 og B5 fyrir Vallarbraut 7, Hafnarfirði og með samanburði við kostnað við sambærileg verk telur dómurinn að hækka skuli þessa kostnaðarliði um 400.000 krónur.
2.Varðandi Akralind 1, telur dómurinn að einnig eigi að taka til greina fyllingu í efra plan, tengingu milli bílaplana, bráðabirgðavegar og aukinna fláa, samtals að fjárhæð 837.000 krónur.
3.Varðandi Vallarbraut 7, telur dómurinn að til viðbótar matstölum beri einnig að taka til greina kostnað vegna fyllingar meðfram sökklum og í innkeyrslu að fjárhæð 274.000 krónur.
4.Við Laugalind 10-12 er lagt til grundvallar magntöluáætlun stefnda enda verksamningurinn byggður upp á magntölum. Ósannað er gegn neitun stefnda að nota hafi átt tímavinnugjald við Laugalind 10-12. Dómurinn telur að til viðbótar ofangreindri fjárhæð varðandi Laugalind 10-12 beri einnig að taka til greina vinnu sem unnin var í janúar 1999 að fjárhæð 232.000 krónur.
Samtals nemur viðbótarkostnaður því 1.743.000 krónum. Heildarniðurstaða málsins er því sú að stefndi telst hafa skilað verki sem metið er með eftirfarandi hætti:
Akralind 1, Kópavogi 2.340.736 krónur
Vallarbraut 7, Hafnarfirði 904.741 krónur
Laugalind 10-12, Kópavogi 147.800 krónur
Viðbótarkostnaður að mati dómsins 1.743.000 krónur.
Samtals 5.136.277 krónur
Eins og áður sagði hefur stefndi greitt stefnanda samtals 5.603.357 krónur. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 435.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar stefnda vegna öflunar matsgerðar.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Guðmundi Halldórssyni og Vífli Oddssyni verkfræðingum.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Byggingarfélagið Kambur ehf., skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Péturs Inga Jakobssonar, í þessu máli.
Stefnandi greiði stefnda 435.000 krónur í málskostnað.