Hæstiréttur íslands

Mál nr. 757/2012


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 16. maí 2013.

Nr. 757/2012.

Rafvirki ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Dróma hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

Skuldabréf. Gengistrygging.

Aðilar deildu um það hvort krafa samkvæmt skuldabréfi, útgefið af R ehf. til S, sem nú var í eigu D hf., væri skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum og bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, kom fram að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar meðal annars í málum nr. 551/2011 og 552/2011 yrði við úrlausn ágreiningsefnisins fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem lægju til grundvallar skuldbindingunni. Þegar litið væri til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar á lánsfjárhæðinni, þeirra vaxtakjara sem tilgreindir voru í skuldabréfinu og þeirra skilmálabreytinga sem gerðar hefðu verið á skuldabréfinu, þótti verða að leggja til grundvallar að R ehf. hefði tekið lán í erlendum gjaldmiðli. Þá yrði ráðið af dómum Hæstaréttar, sérstaklega í máli nr. 524/2011, að ekki skipti máli þótt greiðslur færu fram í íslenskum krónum þegar skýrt kæmi fram í lánssamningi að skuldin væri í erlendri mynt. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu D hf. staðfest með þeirri athugasemd að um væri að ræða viðskiptabréf sem hefði að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kynni að vera. Síðari breytingar, sem með skriflegum löggerningum voru gerðar á skuldabréfinu, hefðu því ekki áhrif á skilmála þess að um væri að ræða kröfu í þeim erlendu myntum sem tilgreind væru í skuldabréfinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að verðtrygging veðskuldabréfs nr. 0938-35-9895, sem út var gefið 29. september 2006 af áfrýjanda til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sé ,,ólögmæt og ógild.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Krafa stefnda, sem áfrýjandi telur að feli í sér ,,ólögmæta og ógilda“ verðtryggingu þar sem krafan sé í íslenskum krónum en bundin gengi erlendra mynta og því andstæð ákvæðum 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, er reist á skuldabréfi. Eins og önnur viðskiptabréf hefur það að geyma tæmandi lýsingu á réttindum sem það veitir og þeim takmörkunum, sem á þeim réttindum kunna að vera. Í hinum áfrýjaða dómi er efni veðskuldabréfsins lýst. Þar er einnig gerð grein fyrir dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og hver atvik hafi þar einkum þýðingu við mat á því hvort um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendri mynt sé að ræða. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna beri kröfu áfrýjanda, enda hafa síðari breytingar, sem með skriflegum löggerningum voru gerðar á efni veðskuldabréfsins, ekki áhrif á þá skilmála þess að um sé að ræða kröfu erlendum myntum.

Hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. nóvember sl., er höfðað 22. maí 2012. Stefnandi er Rafvirki ehf., Salthömrum 11, Reykjavík, en stefndi Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að verðtrygging veðskuldabréfs nr. 0938-35-9895, dagsett 29. september 2006, útgefið af stefnanda, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sé ólögmæt og ógild. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.   

                Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.

Málsatvik

                Samkvæmt gögnum málsins lagði stefnandi inn lánsumsókn hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þar sem óskað var eftir láni í erlendri mynt. Var viðmiðunarfjárhæð í íslenskum krónum 62.000.000 krónur í myntunum JPY 40%, CHF 40% og EUR 20%. Óskað var eftir að lánstími yrði 10 ár og fyrsti gjalddagi 1. nóvember 2006. Þá var óskað eftir því að afborganir af láni yrðu millifærðar af tilgreindum tékkareikningi í eigu stefnanda. Á umsóknina var ritað samþykki af hálfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 26. september 2006. Var fjárhæðin 62.200.000 krónur handrituð inn á eyðublaðið, sem og lánaflokkur, lánstími, fjöldi gjalddaga og álag á LIBOR vexti. Veðskuldabréf það sem mál þetta snýst um var gefið út 29. september 2006. Ber það yfirskriftina veðskuldabréf í erlendri mynt. Var tekið fram að lántaki viðurkenni að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eftirgreindar fjárhæðir í erlendum myntum. Væri fyrirgreiðsla Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis endurlánað erlent lánsfé veitt í formi fjölmyntaláns, þar sem myntir mættu á hverjum tíma vera allt að 5 að vali skuldara. Væri tilskilið að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefði aðgang að þeim myntum og Seðlabanki Íslands skráði þær. Var upphafsmyntsamsetning lánsins miðuð við EUR, CHF og JPY, upphaflegu lánsfjárhæð í erlendri mynt, kaupgengi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 28. september 2006, LIBOR vexti, álag og samtölu vaxta. Fram kom að óskaði skuldari eftir breytingu á myntsamsetningu ætti hann að tilkynna Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um það með sannanlegum hætti að minnsta kosti þremur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils. Sama dag ritaði fyrirsvarsmaður stefnanda undir yfirlýsingu sem var fylgiskjal með framangreindu láni. Lýsti lántaki yfir að hann gerði sér grein því að lántaka með þessum hætti væri áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og sparisjóðurinn hefði kynnt honum sérstaklega. Væri um að ræða gengisáhættu, sem lýsti sér meðal annars í því að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggði á sögulegum sveiflum á áhættu lána með ofangreindum hætti, gæti höfuðstóll láns sem tekið væri í framangreindri mynt hækkað umtalsvert á lánstíma. Þann 2. október 2006 voru 60.330.151 krónur lagðar inn á ráðstöfunarreikning stefnanda, nr. 1163-26-002013, og var sá reikningur einnig skuldfærslureikningur stefnanda. Stefnandi greiddi afborganir og vexti af láninu samkvæmt efni þess ásamt því að greiða inn á lánið 24.776.347 krónur í febrúar 2007. Samkvæmt gögnum málsins var skilmálabreyting gerð á láninu 3. nóvember 2008 og voru nýir skilmálar þeir að greiða skyldi 1/96 af höfuðstól lánsins mánaðarlega, í fyrsta sinn 1. nóvember 2008. Skuldabréfsins var getið í inngangi breytingar sem upphaflega að fjárhæð 62.200.000 krónur í myntum CHF 444.682,75, JPY 42.019.929 og EUR 140.342,96 ásamt eftirstöðvum lánsins 29. október 2008 að fjárhæð CHF 202.987,73, JPY 19.164.404 og EUR 64.115,60 auk áfallinna vaxta. Þá kom fram heimild til að framlengja lánið tvisvar sinnum til þriggja ára í senn og einu sinni til eins árs. Upprunalegt skuldabréf var 19. janúar 2010 framlengt um 35 mánuði, til 1. nóvember 2012, og var viðsemjandi stefnanda þá Arion banki hf. Vaxtaálag skuldabréfsins hækkaði við þessa framlengingu í 3%. Upphaflegrar fjárhæðar í erlendri mynt var þar getið ásamt sundurliðun eftirstöðva lánsins 13. janúar 2010 að fjárhæð JPY 18.170.824, CHF 192.451,04 og EUR 60.862,73. Þá kom fram að eftirstöðvar lánsins væru jafnvirði 59.342.038 krónur og framreiknaðar eftirstöðvar væru jafnvirði ,,ISK“. 

                Stefndi hefur á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 tekið yfir allar eigur og önnur réttindi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þ.m.t. kröfuréttindi samkvæmt veðskuldabréfi því er mál þetta varðar. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er nú í slitameðferð samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að umþrætt skuldabréf sé skuldbinding í íslenskum krónum þar sem höfuðstóll og greiðslur séu tengdar við gengi þriggja erlendra gjaldmiðla. Horfa verði á efni skuldabréfsins og framkvæmd lánveitingarinnar.  Skuldabréfið sé þannig úr garði gert að brjóti gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 14. gr. laganna sé einungis heimilt að verðtryggja skuldbindingar er varði lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gildi. Þá sé einnig heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda sem erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi. Ákvæði 14. gr. laganna sé ófrávíkjanlegt með öllu. Skuldabréfið hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum en þannig hafi stefnandi fengið greiddar íslenskar krónur inn á hlaupareikning sinn og greitt af láninu með íslenskum krónum. Stefnandi eigi ekki og hafi aldrei átt gjaldeyrisreikning. Dómkröfur sínar byggi stefnandi einkum á þeim sjónarmiðum að lánsfjárhæð skuldabréfsins hafi verið ákveðin í íslenskum krónum, sem og afborganir lánsins, enda lánið notað til kaupa á atvinnuhúsnæði á Íslandi.

                Þá byggi stefnandi á því að eins og skuldabréfið sé sett upp þá séu fjárhæðir hinna erlendu mynta bundnar sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem greina megi í skuldabréfinu. Ekki hafi þurft að taka fram kaupgengi erlendra gjaldmiðla í íslenskum krónum ef lánið væri í raun í erlendri mynt. Mótmæli stefnandi því að staðhæfingar um erlend lán, sem komi fram í fyrirsögn lánsamnings eða í yfirlýsingu lántaka um að skuldir í erlendum gjaldmiðlum séu jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, gildi í lögskiptum aðila þar sem augljóslega sé um málamyndagerning að ræða. Af framkvæmd megi ráða að eingöngu hafi verið unnið með íslenskar krónur eftir undirritun viðkomandi skjala. Hinir erlendu gjaldmiðlar hafi því eingöngu verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar. Í skuldabréfinu sjálfu gefist skuldara kostur á að breyta um myntir fjölmyntalánsins, líkt og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis kalli það í efni bréfsins. Slíkur kostur skuldara á að breyta láni sínu í aðrar myntir leiði til þess að ekki sé verið að lána honum þá myntsamsetningu og greini í bréfinu, heldur sé eingöngu verið að tengja lánsfjárhæðina við gengi annarra mynta eða gjaldmiðla. Samkvæmt efni bréfsins hafi stefnandi getað breytt samsetningu mynta eftir eigin hentugleika þremur bankadögum fyrir hvert vaxtatímabil. Telji stefnandi því liggja fyrir að höfuðstólsupphæð og greiðslur veðskuldabréfsins hafi verið verðtryggð við erlenda gjaldmiðla sem skipta hafi mátt út fyrir aðra erlenda gjaldmiðla á lánstímanum. Stefnandi ítreki að aðalskylda lántaka hafi verið efnd með greiðslu vaxta og höfuðstóls með skuldfærslu íslensks tékkareiknings lántaka hjá lánveitanda og hafi því báðir samningsaðilar efnt meginskyldur sínar samkvæmt samningnum með greiðslum í íslenskum krónum. Skuldbinding skuldabréfsins sé í íslenskum krónum og verðtryggð miðað við gengi erlendra gjaldmiðla á ákveðnum viðskiptadegi og beri því að endurreikna lánið í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001. Engu máli skipti í því samhengi þótt fjárhæð skuldabréfsins sé tilgreind í erlendri mynt í skuldabréfinu sjálfu enda sé þar einungis um að ræða hina raunverulegu tímasetningu verðtryggingar miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla.

                Stefnandi vísi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 155/2011 og 600/2011 þar sem Hæstiréttur hafi gefið fordæmi fyrir því að lán af því tagi sem hér um ræði séu ólögmæt og þau beri að endurreikna. Ein meginregla samningaréttar eigi hér við um að líta skuli til efnis og framkvæmdar samninga framar heiti þeirra. Þannig megi vera ljóst af lánsumsókn og skuldabréfi að farið hafi verið fram á lán að fjárhæð 62.200.000 krónur sem skuldari hafi fengið greiddar. Greitt hafi verið af bréfinu með íslenskum krónum og viðkomandi viðskipti farið í gegnum íslenskan krónureikning, hlaupareikning stefnanda. Ekki sé sanngjarnt að líta til einstakra liða í fjárhæð hinna umræddu mynta í þessu samhengi þar sem báðir samningsaðilar hafi fullnægt aðalskyldu sinni í íslenskum krónum. Stefnandi styðji dómkröfur sínar með því að túlkun Hæstaréttar í fyrrnefndum dómum sé í samræmi við vilja löggjafans og tilgang laga nr. 38/2001 en sé litið til 13. gr. laganna megi berlega sjá að átt sé við innlenda verðvísitölu þegar gefið er leyfi til vísitölubindingar skuldbindinga. Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi sem varð að lögum 38/2001 er varði 14. gr. segi eftirfarandi: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður ... Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“  Þannig telji stefnandi að ekki eigi að dyljast að megintilgangur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið að fella út heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi annarra erlendra gjaldmiðla og sé slíkt óundanþægt.

                Í andskýringarreglu samningaréttar sem meginreglu við skýringu og túlkun staðlaðra samninga felist að komi upp vafi við túlkun eða skýringu staðlaðs samnings beri að skýra slíka samninga höfundi þeirra í óhag. Óumdeilt sé að umrætt skuldabréf hafi einhliða verið samið af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem stærri aðila í viðkomandi samningssambandi og að sá aðili hafi hér ótvíræða sérfræðiþekkingu. Beri því að skýra allan vafa í málinu stefnanda í hag. Þá telji stefnandi að ákvæði sérlaga, laga nr. 75/1997 um samningsveð eða laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, komist ekki að sem varnir fyrir stefnda í málinu þar sem ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 sé ófrávíkjanlegt með öllu. Stefnandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort viðkomandi lánasamningur feli í sér ólögmæta gengistryggingu eða ekki. Þannig sé stefnandi langt kominn með að greiða skuldabréfið upp ef dómur fáist um ólögmæti þess. Séu fjárhagslegir hagsmunir stefnanda hvað það varðar því gríðarlegir.

                Um lagarök vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og meginreglna samninga- og kröfuréttar. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi kveður mál þetta lúta að því hvort skuld stefnanda gagnvart stefnda, samkvæmt skuldabréfi útgefnu 29. september 2006, sé skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum og þá gengistryggð með ólögmætum hætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Stefndi telji að um veðskuldabréf í erlendri mynt sé að ræða og styðji þá ályktun fyrst og fremst við efni og orðalag veðskuldabréfsins sem skuldbindingin sé reist á, lög nr. 38/2001, lögskýringargögn með þeim og síðast en ekki síst dómafordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum. Stefndi bendi á að eftir að mál þetta hafi verið höfðað hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 fallið og skeri hann endanlega úr um ágreiningsatriði þessa máls. Með vísan til dómsins, sem stefndi telji hafa fordæmisgildi og taki til samskonar skuldaskjals, beri þegar að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. 

Stefndi byggi á því að lánsumsóknin, orðalag hennar og efni, sýni glöggt að vilji og ætlun stefnanda hafi staðið til þess að taka erlent lán. Stefnanda hafi verið ljóst hvert efni og inntak skuldabréfsins var og að skuldbindingar hans væru í erlendum myntum. Ráðstöfunar- og skuldfærslureikninga veðskuldabréfsins hafi stefnandi valið og honum verið frjálst að hafa annan hvorn þeirra eða báða í erlendri mynt eða íslenskum krónum. Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við útgreiðslu lánsins fyrr en í stefnu málsins og hafi sýnt af sér verulegt tómlæti í þeim efnum. Þá leggi stefndi áherslu á að efni þeirra greiðslukvittana, sem stefnandi hafi fengið sendar í kjölfar hverrar mánaðarlegrar afborgunar, sé skýrt um að lánið hafi verið í erlendri mynt. Þá sé ekki í skilmálabreytingum, frekar en í skuldabréfinu, getið gengis- og/eða verðtryggingar.

Dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011 telji stefndi ekki fordæmisgefandi fyrir úrslausn málins en skuldaskjöl þeirra mála séu í veigamiklum atriðum ólík veðskuldabréfi stefnanda, öðrum gögnum og atvikum þessa máls. Í framangreindum málum sé tilgreining lánsfjárhæðar í skuldaskjölum í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Þar sé lánsfjárhæðin í flestum tilvikum sögð „jafnvirði“ erlendra mynta í tilteknum prósentuhlutföllum. Í engu framangreindra mála hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind eða ákveðin í erlendri mynt eins og í máli þessu. Hæstiréttur hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að við mat á því hvort um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendri mynt sé að ræða skipti tilgreining lánsfjárhæðar mestu um efni þeirra, samanber dóma Hæstaréttar í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011. Af dómaframkvæmd leiði því að mati stefnda að lán stefnanda sé í erlendum gjaldmiðli en ekki íslenskt lán bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Um frekari rökstuðning vísi stefndi til forsendna úrskurða héraðsdóms, sem Hæstiréttur hafi staðfest í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og forsendna Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Í dómunum felist að sé fjárhæð hinna erlendu mynta tilgreind í samningi aðila með nákvæmum hætti, eins og í samningi aðila þessa máls, sé um erlent lán að ræða. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011, sem tekið hafi til húsnæðisláns, hafi endanlega verið úr því skorið að þegar lánsfjárhæð væri tilgreind í erlendri mynt væri um erlent lán að ræða. 

Stefndi hafni því að jafnvirðisfjárhæð í íslenskum krónum, sem getið sé í skilmálabreytingu umþrætts skuldabréfs og framlengingu þess, leiði til þess að skuldabréfið teljist fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Byggi stefndi einkum á niðurstöðu dóma Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 og í máli nr. 332/2012 þar sem slík tilgreining í skuldaskjalinu sjálfu hafi ekki komið í veg fyrir að lán teldist lögmætt lán í erlendri mynt. Eftirstöðvar skuldabréfsins samkvæmt skilmálabreytingunum hafi enn sem áður verið tilgreindar í CHF, JPY og EUR ásamt áföllnum vöxtum í sömu myntum. Styðjist þetta við orðalag 13. gr. laga nr. 38/2001 þar sem fjallað sé um heimildir til að verðtryggja „skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum“. Forsenda þess að skuldbinding verði talið verðtryggð, þ.e. höfuðstóll skuldbindingar, sé að hún, samkvæmt orðlagi ákvæðisins, sé ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum, enda falli skuldbindingar í erlendri mynt ekki undir VI. kafla laga nr. 38/2001, samanber einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.

Við setningu laga nr. 38/2001 hafi vilji löggjafans staðið til þess að afnema heimild til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla en ekki til þess að skerða frelsi manna til lántöku í erlendri mynt. Vísist í því sambandi til þess að tekið hafi verið fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að ef vilji manna standi til þess að miða við erlenda gjaldmiðla þá skuli erlendi gjaldmiðillinn notaður. Þá vísi stefndi jafnframt til þess að í íslenskum lögum sé gert ráð fyrir lánveitingum í erlendri mynt, sbr. til dæmis 2. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010 hafi í öllum tilvikum komið fram í skuldaskjölum að samningar væru gengistryggðir og grunns gengistryggingar getið. Í skuldaskjali aðila þessa máls sé hins vegar ekki getið um gengistryggingu eða annars konar verðtryggingu. Orðin „gengistrygging“, „verðtrygging“ eða önnur í þeim dúr sé hvergi að finna í skilmálum skuldabréfsins og þá sé engin gengistryggingar- eða verðtryggingargrunnur í skilmálum bréfsins sem hljóti að teljast meginforsenda þess að skuld verði talin gengis- eða verðtryggð. Eina tilgreining lánsfjárhæðarinnar í veðskuldabréfinu sé í svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum. Málatilbúnaður stefnanda sem byggi á því að skuldabréfið sé gengis- eða verðtryggt fái því ekki stoð í skuldabréfinu sjálfu. Af hálfu stefnda sé á því byggt að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar verði skuldbinding ekki talin gengistryggð nema gengistryggingar sé getið í skuldaskjali.

Stefndi telji rétt að árétta að upplýsingum um kaupgengi verði ekki jafnað til gengistryggingar líkt og stefnandi haldi fram. Hafi tilgreining kaupgengis við útgáfu skuldabréfsins haft það hlutverk eitt að staðfesta við stefnanda á hvaða gengi stefndi myndi kaupa hinar erlendu myntir. Stefndi hafni því alfarið að inntak og eðli skuldbindingarinnar geti ráðist af því í hvaða mynt lánsfjárhæðin var greidd stefnanda eða í hvaða mynt stefnandi greiddi afborganir auk vaxta enda hafi engin skilyrði verið sett af hálfu stefnda í þeim efnum. Stefnandi hafi verið valkvætt í hvaða mynt „aðalskyldur“ aðila væru efndar samkvæmt samningnum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt hafi lánið, hafi getað greitt stefnanda hvort sem var í erlendum gjaldmiðli eða íslenskum krónum en stefnandi hafi hins vegar óskað eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd honum í íslenskum krónum og þannig verið samið. Alkunna sé að tékkareikningar séu í íslenskum krónum og hafi tilgangur lántöku ekki verið talinn skipta máli, einkum þegar skuldbinding er ótvírætt tilgreind í erlendum gjaldmiðli, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 3/2012. Í því máli hafi einnig verið komist að þeirri niðurstöðu að aðeins komi til álita að líta til „aðalskyldna“ aðila ef tilgreining lánsfjárhæðar í skuldaskjali verði ekki talin nægjanleg til þess að lán verði talið í erlendri mynt t.d. í þeim tilvikum er lánsfjárhæðar sé aðeins getið í íslenskum krónum en í erlendum myntum í tilteknum hlutföllum. Þá vísi stefndi einnig til þess að í september 2006, þegar lánið hafi verið veitt, hafi ríkt frelsi í gjaldeyrismálum hérlendis og stefnanda verið heimilt að skipta lánsfjárhæðinni milli gjaldmiðla að vild með kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði, hvort sem var hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eða öðrum aðilum sem sýsluðu með gjaldeyri. 

        Stefndi vísi einnig til þess að skuldabréfið sé viðskiptabréf. Samkvæmt þeim meginreglum sem gildi um viðskiptabréf sé skuldabréfið þess efnis sem það hljóði um og megi framsalshafi almennt leggja til grundvallar að viðskiptabréfskrafa sé þess efnis sem viðskiptabréfið beri með sér. Beri að skoða skuldabréf stefnanda með hliðsjón af þessari meginreglu og að mati stefnda kveði bréfið ekki á um skuldbindingu í íslenskum krónum og geti önnur atvik ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Það leiði af viðskiptabréfsreglum að stefnandi, sem skuldari bréfsins, geti ekki komið að þeim mótbárum gagnvart stefnda, sem framsalshafa í máli þessu, að veðskuldabréfið hljóði á um skuldbindingu í íslenskum krónum þvert gegn orðalagi bréfsins, enda tapi skuldari rétti til að hafa uppi slíkar mótbárur við framsalshafa bréfsins. Að auki leiði sjónarmið um tómlæti til sömu niðurstöðu.

        Skuldabréfum sé ætlað að skapa rétt eftir orðanna hljóðan í samræmi við traustkenningu samningaréttarins og beri að túlka slík bréf með hlutlægum hætti. Í samræmi við traustkenninguna verði skuldbinding samkvæmt skuldabréfinu ekki metin á annan hátt en í CHF, JPY og EUR líkt og skuldabréfið sjálft gefi skýrt til kynna. Þá mótmæli stefndi því að skýra beri skilmála bréfsins í samræmi við andskýringarreglu samningaréttar vegna sérstöðu viðskiptabréfa auk þess sem skuldabréfið sé einhliða yfirlýsing útgefanda og verði því ekki skýrt líkt og um gagnkvæman samning hafi verið að ræða. Verði ekki fallist á þetta byggi stefndi til vara á því að gengistrygging skuldabréfa sem njóti samningsveðréttar í fasteign hér á landi sé heimil að lögum. Vísi stefndi til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð sé heimilt „í veðbréfi að binda fjárhæðir við hækkun samkvæmt vísitölu eða gengi, enda sé það tilgreint í bréfinu sjálfu og þar komi fram tegund og grunntala verðtryggingar.“ Lög nr. 75/1997 gangi framar lögum nr. 38/2001 á grundvelli almennra lögskýringarreglna um að sérreglur gangi framar almennum reglum. Skuldabréf það sem mál þetta snúi að uppfylli framangreind skilyrði. Þá bendi stefndi á að þrátt fyrir að heimild hafi staðið til þess að breyta myntsamsetningu lánsins þá hafi það ekki áhrif á það hvort að lánið teljist gilt erlent lán, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 332/2012. 

        Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr., til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og til meginreglna samningaréttar um samningsfrelsi, einkum traustkenningarinnar. Þá vísar stefndi til laga nr. 75/997 um samningsveð og laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

                Ágreiningur aðila málsins lýtur að því hvort veðskuldabréf útgefið 29. september 2006 af stefnanda til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sé skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001.

                Um heimildir til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár fer eftir í 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar, eða hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Ekki er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla eða á annan hátt en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögunum, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011. Lán í erlendri mynt falla hins vegar ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.

                Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar, meðal annars í málunum nr. 551/2011 og 552/2011, verður við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim gerningum. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 524/2011 segir að við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé fyrst að líta til heitis skuldabréfsins sem deilt sé um í málinu. Veðskuldabréf það sem liggur til grundvallar lögskiptum aðila í þessu máli ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Þykir þetta atriði benda til þess að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum. Í framangreindum dómi Hæstaréttar sagði að í öðru lagi verði litið til tilgreiningar á lánsfjárhæðinni. Í máli þessu er upphafleg lánsfjárhæð í bréfinu tilgreind í evrum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, en ekki er getið jafnvirðis í íslenskri mynt. Styður það að hér sé um skuldbindingu í erlendri mynt að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að þriðja lagi verði litið til þess að vaxtakjör séu í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða. Í þessu máli eru vextir tilgreindir sem LIBOR vextir 1,88125-4,76213% og álag 1,5%. Rennir það stoðum undir að hér sé um erlent lán að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að í fjórða lagi verði litið til skilmálabreytingar skuldabréfsins. Skilmálum þessa veðskuldabréfs var breytt í tvígang. Í fyrra sinnið, eða 3. nóvember 2008, var sú breyting gerð að greiða skyldi 1/96 af höfuðstól lánsins á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn 1. maí 2009. Þá skyldu vextir greiðast á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. nóvember 2008 og lokagjalddagi lánsins vera 1. nóvember 2009. Ekki var breytt um myntsamsetningu á láninu og eftirstöðvar lánsins í hverri mynt tilgreindar. Upphaflegrar fjárhæðar lánsins í íslenskum krónum var getið. Í síðara skiptið var skilmálum lánsins breytt 19. janúar 2010 þar sem lánið var framlengt. Ber skjalið yfirskriftina ,,framlenging erlends skuldabréfs“. Nýir skilmálar voru að greiða skyldi 1/88 af eftirstöðvum lánsins á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn 1. janúar 2010. Skyldi lokagjalddagi vera 1. nóvember 2012. Var vaxtaálag hækkað samhliða þessu. Ekki var gerð breyting á myntsamsetningu og fjárhæð skuldar tilgreind í hverri mynt fyrir sig. Fjárhæðar eftirstöðva lánsins í íslenskum krónum var getið. Skilmálabreytingar þær er hér að framan getur þykja ekki styðja þá staðhæfingu stefnanda að talið hafi verið að um væri að ræða lán í íslenskum krónum. 

                Stefnandi byggir á því að greiðsla Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til hans í íslenskum krónum og afborganir hans í íslenskum krónum leiði til þess að telja verði að um hafi verið að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum.  Af dómum Hæstaréttar, sérstaklega í máli nr. 524/2011, verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum þegar skýrt kemur fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt.

                Þegar litið er til allra framangreindra atriða þykir verða að leggja til grundvallar að stefnandi hafi tekið gilt lán í erlendum gjaldmiðli. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Þormóður Skorri Steingrímsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Bjarki Már Baxter héraðsdómslögmaður.

                Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Drómi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Rafvirkja ehf.

                Málskostnaður fellur niður.