Hæstiréttur íslands

Mál nr. 602/2013


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 6. mars 2014.

Nr. 602/2013.

Vísir hf.

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging.

V hf. höfðaði mál gegn L hf. og krafðist viðurkenningar þess að tveir lánssamningar vörðuðu lánsfé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendri mynt. L hf. var sýknaður af kröfum V hf., enda var talið að lánin hefðu verið í erlendum myntum. Vísað var til texta lánssamninganna og atriða sem lutu að því hvernig þeir voru efndir og framkvæmdir að öðru leyti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2013. Hann krefst þess að staðfest verði að lán samkvæmt lánasamningum nr. 1524 frá 25. júní 2004 og nr. 10397 frá 14. desember 2007, sem áfrýjandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. og stefndi tók yfir, varði lánsfé í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendri mynt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í dómum sínum um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða í íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þess lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er að þessu leyti, eins og á við um þá samninga sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Þau atriði eru rakin í hinum áfrýjaða dómi og með vísan til forsendna hans að því leyti verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vísir hf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 10. júní sl., var höfðað 11. desember 2012 af Vísi hf., Hafnargötu 16 í Grindavík gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að staðfest verði að lán samkvæmt lánssamningum nr. 1524, dags. 25. júní 2004, og nr. 10397, dags. 14. desember 2007, sem stefnandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. og stefndi tók yfir, varði lánsfé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendri mynt. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Í máli þessu deila aðilar um hvort tveir lánssamningar, sem stefnandi gerði við Landsbanka Íslands hf., annars vegar 25. júní 2004 og hins vegar 14. desember 2007, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, en hinn 9. október 2008 tók stefndi lánssamningana yfir á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Verður hér vikið að hvorum lánssamningi fyrir sig.

Lánssamningurinn frá 25. júní 2004 hefur númerið 1524. Á forsíðu hans segir „ISK 4.000.000.000,- lánssamningur“. Í aðfaraorðum meginmáls hans segir að samningsaðilar geri með sér svohljóðandi lánssamning „um fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði kr. 4.000.000.000,- - Krónur fjögurþúsundmilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 39,0% GBP 6,0% CHF 19,0% JPY 11,0% USD 25,0%. Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1. segir síðan m.a. að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“, en í grein 1.2. að lántaki skuli senda bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli „lánshlutann“ inn á. Samkvæmt grein 2.1. skyldi lánstíminn vera 15 ár og lánið greiðast að fullu með 60 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. október 2004. Samkvæmt grein 2.2. skyldi greiðslustaður vera hjá Landsbanka Íslands hf. og þar er tekið fram að lántaki óski eftir því að reikningur hans númer 0143-26-778 hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum, en fyrir liggur að þar er um að ræða tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum. Í grein 3.1. er mælt fyrir um að lánið beri vexti, sem skuli vera breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,50% vaxtaálags.

Í grein 4.1., sem ber yfirskriftina „Myntbreytingarheimild“, er kveðið á um að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að „myntsamsetningu“ lánsins verði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“. Þar er síðan sú takmörkun gerð að ekki sé heimilt „að skulda fleiri en 6 gjaldmiðla hverju sinni“. Í kjölfarið segir m.a.: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“ Í grein 7.1. kemur fram að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti og um þá fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Bankinn hafi um það val hvort krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða „af skuldinni breyttri í íslenskar krónur“. Í grein 11.2. kemur fram að ef samningurinn er gjaldfellur sé bankanum heimilt að „umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga / uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti samanstendur af og krefja lántaka um greiðslu hans“.

Sama dag og ritað var undir lánssamninginn undirritaði stefnandi beiðni um útborgun, sem merkt er sem viðauki 1 við samninginn. Þar segir: „Vinsamlegast ráðstafið útborgunarfjárhæð til greiðslu á lánum lántaka við lánveitanda. Með undirritun sinni á útborgunarbeiðni þessa heimilar lántaki Landsbanka Íslands hf. að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt ofangreindum lánssamningi af reikningi sínum númer: 0143-26-778.“ Meðal gagna málsins er „kaupnóta“ bankans, dags. 14. júlí 2004, sem stíluð er á stefnanda. Í skjalinu er vísað til láns númer 1524, með útgáfudegi 25. júní 2004, og síðan nefndur nánar tiltekinn höfuðstóll í svissneskum frönkum, evrum, sterlingspundum, japönskum jenum og Bandaríkjadölum. Um svissneska franka segir t.a.m. að höfuðstóll sé 13.148.788,93, fyrsta vaxtatímabil 14. júlí til 15. október 2004, vextir 1,98%, vaxtaruna LIBOR og álag 1,50%. Frá höfuðstól er dregið 0,20% lántökugjald, eða 26.297,58, og tekið fram að „Samtals CHF“ séu 13.122.491,35. Samskonar upplýsingar er að finna vegna hinna erlendu gjaldmiðlanna fjögurra en vextir þar eru aðrir, sem og fjárhæðir. Nánar tiltekið er höfuðstóll í evrum tilgreindur 17.697.107,20, sterlingspundum 1.817.218,14, japönskum jenum 669.201.522 og Bandaríkjadölum 14.056.789,43. Neðar í skjalinu eru svo tilgreind „Gjaldeyrisviðskipti“ vegna hvers og eins framangreindra gjaldmiðla. Um svissneska franka segir t.a.m.: „Þú seldir CHF“ að upphæð 13.122.491,35. Þar segir síðan að myntgengi sé 57,8 og talan „ISK 758.480.000“ tilgreind sem „Samtals“. Samskonar framsetningu er að finna vegna hinna erlendu gjaldmiðlanna fjögurra og í lok skjalsins segir: „Þann 14.7.2004 var greitt vegna láns ISK 3.991.986.500“.

Óumdeilt er að stefnandi fékk síðastgreinda fjárhæð í íslenskum krónum ekki í sínar hendur við útborgun lánsins, heldur var útborgunarfjárhæðinni ráðstafað til greiðslu á eldri lánum stefnanda við bankann, sbr. áðurgreinda beiðni stefnanda um útborgun. Stefndi vísar til þess að 11.006.693,80 svissneskum frönkum hafi verið ráðstafað beint til uppgreiðslu eldri lánshluta í þeim gjaldmiðli, 669.201.522 japönskum jenum ráðstafað beint inn á greiðslu lánshluta í þeim gjaldmiðli, 17.697.107,20 evrum inn á lán í þeim gjaldmiðli, 6.799.806,05 Bandaríkjadölum til uppgreiðslu á láni í þeim gjaldmiðli og 534.386,55 sterlingspundum til uppgreiðslu lánshluta í þeim gjaldmiðli. Þeir gjaldmiðlar sem eftir hafi staðið af útborgunarfjárhæð lánsins hafi verið notaðir til að greiða upp það sem eftir hafi staðið af eldri skuldbindingum stefnanda í japönskum jenum, evrum og íslenskum krónum. Umræddir eldri lánssamningar liggja ekki fyrir í málinu en stefnandi hefur ekki hreyft andmælum við framlögðu skjali stefnda um ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar.

Þann 2. mars 2009 var undirritaður viðauki við lánssamninginn. Í upphafi viðaukans er vísað til samningsins frá 25. júní 2004 um „fjölmyntalán að jafnvirði kr. 4.000.000.000“ í nánar tilteknum myntum og hlutföllum. Þar segir síðan: „Eftirstöðvar höfuðstóls þann 15.01.2009 eru USD 10.074.032,47 JPY 479.594.419 CHF 9.423.298,77 GBP 1.302.339,65 EUR 12.682.926,77“. Með viðaukanum var lánstíma samningsins breytt með nánar tilteknum hætti en tekið fram í lok hans: „Að öðru leyti en að ofan greinir helst samningurinn óbreyttur.“ Þann 15. október 2010 fór fram myntbreyting samkvæmt heimild í grein 4.1. í samningnum. Fyrir liggur tölvupóstur af hálfu stefnanda til stefnda frá þeim degi þar sem staðfest er sú ósk stefnanda „að gjaldmiðlabreyta láni 1524 í EUR lán“. Fyrir liggur „Kvittun fyrir greiðslu“ vegna umræddrar myntbreytingar, dags. sama dag, sem stíluð er á stefnanda. Þar kemur m.a. fram að stefnandi hafi selt evrur fyrir nánar tilgreindar fjárhæðir í svissneskum frönkum, japönskum jenum, Bandaríkjadölum og sterlingspundum og þar er tilgreind innborgun á höfuðstól í síðastgreindum gjaldmiðlum, tekið fram að eftirstöðvar í hverjum gjaldmiðli séu „0“, auk þess sem sagt er: „Leggur er uppgreiddur“. Þar segir einnig: „Samtals afborgun höfuðstóls í greiðslumynt: 27.177.563,16“ og í niðurlagi skjalsins segir: „Þann 15.10.2010 var greitt vegna láns EUR 27.177.563,16“. Hvergi er vísað til íslenskra króna í umræddu skjali. Þann 5. júlí 2011 var aftur gerður viðauki við lánssamninginn og í honum segir: „Eftirstöðvar höfuðstóls þann 15.04.2011 eru EUR 25.667.698,54“. Með viðaukanum var gerð breyting á samningnum, sem ekki skiptir sérstöku máli hér, en líkt og í fyrri viðaukanum kom fram í lok hans: „Að öðru leyti en að ofan greinir helst samningurinn óbreyttur.“

Í málinu liggur fyrir mikill fjöldi greiðslukvittana vegna framangreinds láns allt frá árinu 2004. Af þeim er ljóst að greiðsla afborgana og vaxta á láninu fór afar sjaldan fram með greiðslu af þeim tékkareikningi í íslenskum krónum, sem stefndi veitti bankanum heimild til að skuldfæra af í samningnum. Ljóst er að stefnandi átti gjaldeyrisreikninga í öllum umræddum gjaldmiðlum og greiðslur afborgana og vaxta voru almennt inntar af hendi af þeim, oft af reikningi í samsvarandi gjaldmiðli og viðkomandi afborgun, en einnig að nokkru marki af reikningi í öðrum erlendum gjaldmiðli og komu þá fram upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti á viðkomandi kvittunum. Sama er að segja um þau fáu skipti þegar greiðslan barst af tékkareikningi stefnanda í íslenskum krónum, þá fylgdu upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti vegna þeirrar myntar og fjárhæðar sem afborgunin laut að. Hafði stefnandi val um það hverju sinni af hvaða reikningi væri greitt og kom skilaboðum um það til bankans þegar lán var á gjalddaga. Samkvæmt stefnu hafði hann tekjur sínar að verulegu leyti erlendis frá og valdi því oftast að greiða í erlendum myntum. Í framangreindum kvittunum eru afborganir tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum, auk þess sem eftirstöðvar höfuðstóls eftir greiðslu eru tilgreindar í viðkomandi gjaldmiðli. Frá og með miðju ári 2007 innihalda kvittanirnar jafnframt tilgreininingu á upphaflegri lánsfjárhæð í viðkomandi gjaldmiðli. Í málinu liggja einnig fyrir nokkrar tilkynningar um gjalddaga, sem bankinn sendi stefnanda í aðdraganda þeirra. Þar eru upphaflegt nafnverð, afborganir, vextir og eftirstöðvar tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Neðst í þeim er tilgreint að á gjalddaga verði skuldfært af áður nefndum tékkareikningi stefnanda í íslenskum krónum, en sem fyrr segir tilkynnti stefnandi almennt í aðdraganda greiðslnanna hvaða reikning skyldi nota og fóru greiðslurnar yfirleitt fram af gjaldeyrisreikningum stefnanda.

Síðari lánssamningurinn sem um er deilt, frá 14. desember 2007, hefur númerið 10397. Á forsíðu hans segir „ISK 650.000.000,- lánssamningur“. Í aðfaraorðum meginmáls hans segir að samningsaðilar geri með sér svohljóðandi lánssamning „um fjölmyntalán til 15 mánaða að jafnvirði kr. 650.000.000,- - Krónur sexhundruðogfimmtíumilljónir 00/100, í neðanskráðri mynt: EUR 100%. Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirrar erlendu myntar eða jafngildi hennar í annarri erlendri mynt. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Í grein 1.1. segir síðan m.a. að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. að lána „umsamda lánsfjárhæð“, en í grein 1.2. að lántaki skuli senda bankanum beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli „lánshlutann“ inn á. Samkvæmt grein 2.1. skyldi lánstíminn vera 15 mánuðir og lánið greiðast að fullu með einni afborgun í lok lánstímans þann 15. mars 2009. Vexti bæri þó að greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, í fyrsta sinn þann 15. mars 2008. Samkvæmt grein 2.2. skyldi greiðslustaður vera hjá Landsbanka Íslands hf. og í grein 3.1. er mælt fyrir um að lánið beri vexti, sem skuli vera breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,50% vaxtaálags. Í grein 4.1. er að finna samskonar ákvæði um myntbreytingarheimild og í sömu grein í eldri lánssamningnum, sem gerð hefur verið grein fyrir að framan. Í grein 7.1. kemur fram að standi lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti. Bankinn hafi val um það hvort krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Sé dráttarvaxta krafist í erlendum myntum skuli þeir vera vextir samkvæmt grein 3.1. auk viðeigandi álags, að viðbættu 10% viðbótarálagi. Sé skuldinni breytt í íslenskar krónur á gjalddaga reiknist dráttarvextir á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Í grein 11.2. er að finna samskonar ákvæði og í sömu grein í eldri lánssamningnum, sem rakið er að framan.

Sama dag og ritað var undir lánssamninginn undirritaði stefnandi beiðni um útborgun, sem merkt er sem viðauki 1 við samninginn. Þar er þess óskað að útborgunarfjárhæð verði greidd inn á reikning 0143-26-778, en þar er sem fyrr greinir um að ræða tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum. Þar er bankanum síðan veitt heimild til að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt samningnum af reikningi 0143-38-710000, en þar er um að ræða gjaldeyrisreikning stefnanda í evrum. Meðal gagna málsins er „kaupnóta“ bankans, dags. 17. desember 2007, sem stíluð er á stefnanda. Þar er vísað til framangreinds láns og tilgreindur höfuðstóll í evrum. Nánar tiltekið er tekið fram að fyrsta vaxtatímabil sé 17. desember 2007 til 17. mars 2008, vextir séu 7,449380%, vaxtaruna LIBOR, álag 2,5% og höfuðstóll 7.126.411,58 evrur. Frá höfuðstól er dregið 0,10% lántökugjald, eða 7.126,41, og tekið fram: „Samtals 7.119.285,17“. Neðar í skjalinu eru svo tilgreind „Gjaldeyrisviðskipti“ og tekið fram: „Þú seldir EUR 7.119.285,17“, á myntgengi 91,21 ISK, sem geri samtals 649.350.000. Neðst í skjalinu segir: „Þann 17.12.2007 var lagt inn á reikning 0143-26-000778, eigandi 701181-0779, ISK 649.340.000“. Í málinu liggur fyrir bankayfirlit, sem sýnir greiðslu þennan dag á umræddri fjárhæð, inn á umræddan tékkareikning stefnanda.

Í júní 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn, sem er ódagsettur, en báðir aðilar vísa til þess að hann sé frá 8. júní 2009. Í upphafi viðaukans er vísað til samningsins frá 14. desember 2007 um „fjölmyntalán að jafnvirði kr. 650.000.000“ í „EUR 100%“. Þar segir síðan: „Eftirstöðvar lánsins þann 15.12.2008 eru EUR 7.126.411,58“. Með viðaukanum var samningnum breytt að því er varðar lánstíma og vexti en í lok viðaukans segir: „Að öðru leyti en að ofan greinir helst samningurinn óbreyttur.“ Í júní 2009 fór jafnframt fram myntbreyting samkvæmt heimild í grein 4.1. í samningnum. Fyrir liggur tölvupóstur af hálfu stefnanda til stefnda, dags. 8. júní 2009, þar sem óskað er eftir því „að myntbreyta láni þessu úr EUR í CAD“. Fyrir liggur „Kvittun fyrir greiðslu“ vegna umræddrar myntbreytingar, dags. 9. júní 2009, sem stíluð er á stefnanda. Þar er tilgreind innborgun á höfuðstól að fjárhæð 7.126.411,58 evrur og tekið fram að eftirstöðvar höfuðstóls eftir greiðslu séu „0 EUR“. Auk þess segir þar: „Leggur er uppgreiddur“. Í kvittuninni kemur einnig fram að stefnandi hafi keypt 7.126.411,58 evrur, fyrir samtals 11.032.397,77 Kanadadollara, á myntgengi 1,5481. Í niðurlagi skjalsins segir: „Þann 9.6.2009 var greitt vegna láns CAD 11.032.397,77“. Hvergi er vísað til íslenskra króna í umræddu skjali.

Þann 30. desember 2010 var undirritaður annar viðauki við lánssamninginn. Þar er vísað til hins eldri samnings með sama hætti og í fyrri viðauka og síðan tekið fram: „Eftirstöðvar lánsins þann 15.03.2010 eru CAD 11.032.397,77“. Í viðaukanum fólust breytingar á lánssamningnum, m.a. í þá veru að eftirstöðvar lánsins skyldi greiða á fimm árum með 20 afborgunum. Í niðurlagi viðaukans er eftirfarandi tekið fram, rétt eins og í hinum eldri viðauka: „Að öðru leyti en að ofan greinir haldast ákvæði lánssamningsins óbreytt.“ Í lok desember 2010 fór jafnframt fram myntbreyting að nýju samkvæmt heimild í grein 4.1. í samningnum. Með tölvupósti, dags. 31. desember 2010, staðfesti starfsmaður stefnanda þannig að lánið ætti „að skuldbreytast úr CAD í EUR“. Fyrir liggur „Kvittun fyrir greiðslu“ vegna umræddrar myntbreytingar, dags. 3. janúar 2011, sem er sambærileg kvittuninni vegna myntbreytingarinnar í júní 2009, en gengur í gagnstæða átt, enda breytt aftur úr Kanadollurum í evrur.

Í málinu liggja fyrir greiðslukvittanir vegna framangreinds láns allt frá mars 2008. Af þeim virðist ljóst að greiðsla afborgana eða vaxta af láninu fór iðulega fram af þeim gjaldeyrisreikningi í evrum, sem stefnandi heimilaði bankanum að skuldfæra í beiðni sinni um útborgun lánsins, ef frá er talið eitt skipti meðan um Kanadadollara var að ræða, þar sem greiðslan kom af gjaldeyrisreikningi stefnanda í Bandaríkjadölum. Í umræddum kvittunum eru afborganir og vextir, upphafleg lánsfjárhæð og eftirstöðvar höfuðstóls eftir greiðslu tilgreind í hinum erlenda gjaldmiðli. Í málinu liggja einnig fyrir nokkrar tilkynningar um gjalddaga, sem sendar voru í aðdraganda gjalddaganna, þar sem upphaflegt nafnverð, vextir og eftir atvikum afborgun, sem og eftirstöðvar fyrir og eftir greiðslu eru tilgreindar í hinum erlenda gjaldmiðli.

Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 14. júní 2011, var vísað til dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og tekið fram að á meðan verið væri að meta hvort lán stefnanda hefði að geyma ólögmæta gengistryggingu byði stefndi stefnanda að greiða af láninu með nánar tilteknum hætti. Allar greiðslur sem inntar væru af hendi væru greiddar með þeim fyrirvara að eftirstöðvum og greiðslubyrði yrði breytt í samræmi við niðurstöðu endurútreiknings, ef til hans kæmi, og með fyrirvara um betri rétt kæmi til þess að nýr hæstaréttardómur félli í máli sem snerti lánið. Með bréfi til stefnanda, dags. 2. janúar 2012, kunngerði stefndi það mat sitt að lánið frá 14. desember 2007 félli ekki undir efnisatriði framangreinds hæstaréttardóms og af þeirri ástæðu myndi bankinn ekki endurreikna lánið. Með bréfi til stefnda, dags. 29. maí 2012, tilkynnti stefnandi um samskonar niðurstöðu varðandi lánið frá 25. júní 2004. Í bréfinu sagði m.a. að horft væri sérstaklega til þess að afborganir og vaxtagreiðslur af láninu hefðu að mestu verið greiddar til baka í erlendum myntum. Ef dómar féllu, sem bankinn teldi breyta skilgreiningu á því hvaða lán væru gengistryggð og hver væru lögmæt erlend lán, myndi bankinn endurskoða afstöðu sína. Í mars 2012 voru framangreind lán greidd upp með nýjum lánum stefnda hjá stefnanda. Af þessu tilefni var gengið frá skjali um fyrirvara, sem undirritað var bæði af hálfu stefnanda og stefnda, en þar kemur m.a. fram að stefnandi geri „fyrirvara um lögmæti þeirra lána sem greidd eru upp með nýja láninu, þannig að Vísir hf. haldi betri rétti sem félagið kann að eiga samkvæmt þeim“. Þannig afsali stefnandi sér „á engan hátt rétti til að krefjast leiðréttingar á höfuðstól viðkomandi lána og höfuðstól nýja lánssamningsins, verði niðurstaðan sú að lánin hafi verið ólögmæt“. Í desember 2012 höfðaði stefnandi síðan mál þetta til viðurkenningar á því að framangreindir lánssamningar frá 25. júní 2004 og 14. desember 2007 varði lánsfé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendri mynt.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að framangreindir lánssamningar séu um gengistryggð íslensk lán, en slík gengistrygging fari í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011.

Til stuðnings þeirri málsástæðu að lánin séu íslensk vísar stefnandi til þess að á forsíðu beggja lánssamninganna komi skýrlega fram að um sé að ræða lánssamning í íslenskum krónum, en þar sé lánsfjárhæðin tilgreind annars vegar „ISK 4.000.000.000,-“ og hins vegar „ISK 650.000.000,-“. Hvergi á forsíðu samninganna sé vikið að því að um lán í erlendum myntum sé að ræða. Á annarri blaðsíðu sé lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, bæði í tölustöfum og bókstöfum, en þar segi annars vegar að samninsgaðilar geri „með sér svohljóðandi lánssamning um fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði kr. 4.000.000.000,- - Krónur fjögurþúsundmilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 39,0% GBP 6,0%, CHF 19,0% JPY 11,0%, USD 25%“ og hins vegar „um fjölmyntalán til 15 mánaða að jafnvirði kr. 650.000.000,- - Krónur sexhundruðogfimmtíumilljónir 00/100, í neðanskráðri mynt: EUR 100%“. Hvergi í samningunum komi fram hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendum myntum. Eina tilgreiningin í samningunum á fjárhæð lánanna sé því í íslenskum krónum og aðeins sé getið um hlutföll hinna erlendu gjaldmiðla og viðmiðun þeirra við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Fjárhæð lánsins sé þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum en verðtryggð miðað við gengi hinna tilgreindu erlendu gjaldmiðla. Viðmiðun við gengi hinna tilgreindu gjaldmiðla tveimur dögum fyrir útborgun lánsins, verði ekki skilin öðruvísi en svo að verið sé að binda lánið, sem sé í íslenskum krónum, við gengi gjaldmiðlanna á þeim degi.

Stefnandi vísar til þess að í greinum 1.1. í báðum lánssamningunum komi m.a. fram að lántaki lofi að taka að láni og Landsbanki Íslands hf. lofi að lána „umsamda lánsfjárhæð“ og í greinum 1.2. segi að lántaki skuli senda bankanum beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli „lánshlutann“ inn á. Byggir stefnandi á því að verið sé að vísa til þeirrar fjárhæðar sem tilgreind sé á forsíðu og í upphafi samninganna, þ.e. 4.000.000.000 og 650.000.000 íslenskra króna.

Samkvæmt grein 2.2. í eldri lánssamningnum hafi greiðslustaður átt að vera hjá Landsbanka Íslands hf. og verið tekið fram að lántaki óskaði eftir því að reikningur hans númer 0143-26-778, sem sé íslenskur tékkareikningur hans hjá stefnda, yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum. Í samræmi við lánssamninginn hafi á greiðslutilkynningum frá stefnda verið gert ráð fyrir því að íslenskur reikningur stefnanda yrði skuldfærður fyrir greiðslum. Þrátt fyrir það hafi stefnandi í raun haft val um það í hvaða mynt hann greiddi og komið skilaboðum um það til stefnda þegar lán hafi verið á gjalddaga. Þótt stefnandi hafi bæði greitt í íslenskum krónum og erlendum myntum hafi hann oftast valið að greiða í erlendum myntum, þar sem hann hafi að verulegu leyti haft tekjur erlendis frá, einkum í evrum.

Í grein 2.2. í yngri samningunum hafi ekki verið tilgreint með sama hætti af hvaða reikningi hafi átt að skuldfæra afborganir og vexti. Það hafi hins vegar verið gert í útborgunarbeiðni með samningnum, þar sem gjaldeyrisreikningur númer 0143-38-710000 hafi verið tilgreindur að beiðni stefnanda, þrátt fyrir að lánið hafi verið lagt inn á íslenskan reikning stefnanda. Til samræmis við þetta hafi viðkomandi gjaldeyrisreikningur verið tilgreindur sem skuldfærslureikningur á greiðslutilkynningum. Ástæða þessa hafi verið sú að tekjur stefnanda, sem selji sjávarafurðir erlendis, hafi að langmestu leyti verið í erlendum myntum og hann því oftast kosið að nota innstæður á gjaldeyrisreikningum sínum til greiðslu á láninu. Þannig hafi í reynd enginn munur verið á lánssamningunum tveimur. Það hvaða reikningar hafi verið skuldfærðir fyrir greiðslum af lánunum hafi í raun ráðist af óskum stefnanda hverju sinni og þær greiðslur geti því með engu móti skipt sköpum um það hvort lánin teljist íslensk eða erlend, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Í því sambandi bendir stefnandi á að í nokkrum tilvikum hafi reikningar með erlendum gjaldeyri verið notaðir til að greiða lán sem höfðu gengisviðmiðun í öðrum gjaldmiðlum.

Stefnandi byggir á því að myntbreytingarheimildin í grein 4.1. í lánssamningunum bendi ótvírætt til þess að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, enda komi þar fram að hægt sé að óska eftir því að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar“. Með ákvæðinu hafi stefnanda þannig verið veitt heimild til að óska eftir því að breyta vísitölu lánsins meðan á lánstíma stóð. Orðalagið bendi ótvírætt til þess að lánið hafi verið í íslenskum krónum, með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki í erlendri mynt. Þá staðfesti ákvæðið einnig að við breytingu á myntvísitölu sé höfuðstóll lánsins ávallt hugsaður í íslenskum krónum, enda sé beinlínis áskilið að stefndi hafi heimild til þess að horfa til gengisskráningar á íslensku krónunni við aðgerðina, komi til hennar. Þýðingarlaust hafi verið að vísa til gengisskráningar á íslensku krónunni við aðgerðina ef höfuðstóllinn væri ekki í þeirri mynt. Þá byggir stefnandi á því að ákvæði greinar 7.1. í lánssamningunum, um að stefndi hafi val um það hvort hann krefjist dráttarvaxta af lánsfjárhæðinni í erlendri mynt eða íslenskum krónum, bendi eindregið til þess að lánið sé í raun íslenskt.       

Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir að báðum lánunum hafi verið skilmálabreytt, og höfuðstóll þeirra þá fyrst tilgreindur í erlendum myntum, verði að líta til þess að stefndi hafi útbúið þau skjöl og haft yfirburðastöðu við samningsgerðina. Tilgreining í erlendum myntum í viðaukunum geti ekki skipt sköpum um það hvort lánið teljist erlent. Stefnandi telur yfirgnæfandi líkur á að stefndi hafi á þessum tíma gert sér ljóst að um ólögmæta lánssamninga hafi verið að ræða og þannig freistað þess að gera ólögmæta samninga í íslenskum krónum að lögmætum samningum í erlendri mynt, án þess að stefnandi gerði sér grein fyrir því. Í því sambandi verði að líta til þess að á öllum viðaukunum sé orðalag sem gefi til kynna að aðeins sé verið að breyta greiðsluskilmálum frá því sem upphaflega var áætlað en ekki samningunum að öðru leyti. Í öllu falli megi vera ljóst að stefnandi, sem sé ólöglærður, hafi með engu móti getað gert sér grein fyrir því að það kynni að skipta máli hvort eftirstöðvar lánanna hafi verið tilgreindar í erlendum myntum þegar lánunum var skilmálabreytt. Byggir stefnandi á því að á stefnda hafi hvílt skylda til að gera honum skýra grein fyrir því að þessar breytingar kynnu að hafa áhrif miðað við upphaflega samninga aðila. Stefndi, sem hafi fjölda sérfræðinga á sínum snærum, hljóti að bera halla af óskýrleika hvað þetta varðar. Þá beri að líta til þess að í viðtölum starfsmanna stefnda við forsvarsmenn stefnanda og bréfum stefnda til hans, hafi því ávallt verið haldið fram að allt sem aðilar aðhefðust vegna lánssamninganna væri með fyrirvara um lögmæti upphaflegu lánssamninganna.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni að lánin hafi í raun verið í erlendum myntum. Þvert á móti bendi öll gögn til þess að lánin hafi verið í íslenskum krónum en miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla. Vafa að þessu leyti beri að skýra stefnanda í hag. Þá byggir stefnandi á því að til grundvallar niðurstöðu í málinu verði að líta til þess almennt, að skilmálar lánanna og önnur gögn sem tengist þeim, svo sem kaupnótur, tilkynningar um gjalddaga og greiðslukvittanir, hafi verið samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda sem hafi haft yfirburðastöðu við samningsgerðina. Stefnandi hafi á engan hátt haft áhrif á gerð þeirra. Verði því að meta allan vafa í málinu stefnanda í hag, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012.

Stefnandi telur að allt framangreint leiði til þess að báðir lánssamningarnir séu í raun og veru um lán í íslenskum krónum, sem bundið sé gengi hinna tilgreindu erlendu gjaldmiðla í framangreindum hlutföllum, en slíkt sé óheimilt, sbr. 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Því sé annað óhjákvæmilegt en að taka kröfur stefnanda til greina. Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr., sem og meginreglna kröfu- og samningaréttar. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að með undirritunum sínum á þá lánssamninga, sem um er deilt, hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefnda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar. Sýknukrafa stefnda er þannig á því að byggð að kröfur hans á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningnum séu skuldbindingar í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Lánssamningarnir og framkvæmd þeirra, þ.e. útgreiðsla og endurgreiðsla lánanna, beri með sér að um skuldbindingar í erlendri mynt sé að ræða.

Stefndi mótmælir sem rangri þeirri ályktun stefnanda, að eina tilgreiningin í samningunum á fjárhæð lánanna sé í íslenskum krónum. Stefndi leggur áherslu á að í samningunum sé talað um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem ekki geti talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum. Þá vísar stefndi til þess að í öðrum skjölum, sem tengd séu lánssamningunum órjúfanlegum böndum, sé skuldbindingin tilgreind með hinum erlendu myntum. Svo hafi verið gert um leið og þess hafi verið kostur. Meginástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta sé ekki sett fram í fjárhæð í lánssamningunum sjálfum, heldur hlutföllum, sé sú að gengi hinna erlendu mynta breytist stöðugt á gjaldeyrismarkaði. Myntirnar sem teknar hafi verið að láni hafi ýmist verið notaðar til að greiða upp eldri lán stefnanda eða verið seldar fyrir íslenskar krónur í kjölfar útborgunar. Slíkar ráðstafanir kunni að taka nokkurn tíma og því kunni gengi viðkomandi gjaldmiðla að taka umtalsverðum breytingum frá því að skrifað sé undir lánssamning þar til lánsfjárhæð sé greidd út.

Þegar skjalagerð vegna lánanna hafi lokið og skilyrðum fyrir útgreiðslu lánanna verið fullnægt hafi fyrst verið unnt að greiða þau út. Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll hinna erlendu skuldbindinga nákvæmlega var. Fyrri lánssamningurinn sé dagsettur 25. júní 2004 en lánsfjárhæðin hafi ekki verið greidd út fyrr en 14. júlí 2004. Síðari lánssamningurinn sé dagsettur 14. desember 2007 en lánsfjárhæðin hafi ekki verið greidd út fyrr en 17. desember 2007. Kaupnótur lánanna sýni báðar hver höfuðstóll lánanna sé á útborgunardegi þeirra og skuldbinding stefnanda sé þar einungis tilgreind með hinum erlendum myntum. Það sé í samræmi við orðalag samninganna um að skuldin skyldi „þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum“. Skuldbinding stefnanda samkvæmt lánunum sé þannig ekki einungis tilgreind sem jafnvirði íslenskra króna heldur einnig í hinum erlendu myntum. Í tilkynningum um gjalddaga lánanna hafi skuldbindingar stefnanda eingöngu verið tilgreindar með hinum erlendu gjaldmiðlum og sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir endurgreiðslu hvers gjalddaga. Stefnandi hafi fengið öll framangreind skjöl send. Skuldbinding stefnanda hafi þannig í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind með þeim erlendu gjaldmiðlum sem hún samanstóð af, en ekki í íslenskum krónum.

Stefndi mótmælir því að ekki skipti sköpum um það hvort lánin teljist íslensk eða erlend, hvernig endurgreiðslu þeirra var háttað. Sú staðreynd að lánin hafi verið endurgreidd í hinum erlendu myntum staðfesti að skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningunum séu í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Við mat á því um hvers konar skuldbindingu sé að ræða verði að líta til þess hvernig stefnandi sannarlega efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum. Stefnandi hafi endurgreitt lánin nánast án undantekninga með afhendingu erlendra mynta af gjaldeyrisreikningum sínum. Fráleitt sé að ætla að skuldbinding, sem greidd sé til baka í erlendum myntum, verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum. Stefnandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningunum í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Þá hafi langstærstur hluti lánsfjárhæðar eldra lánsins farið til uppgreiðslu erlendra lána. Erlendar myntir hafi þannig verið notaðar til að greiða niður sambærilegar erlendar myntir. Hvað varði yngra lánið og þann hluta eldri lánsins sem notaður var til að greiða niður lán í íslenskum krónum, liggi fyrir að stefnandi hafi selt gjaldeyri til að greiða krónurnar upp annars vegar og fá íslenskar krónur greiddar hins vegar. Upphaflegur ádráttur hafi því án vafa verið í hinum erlendum myntum. Stefndi hafi efnt aðalskyldu sína í erlendum gjaldmiðlum og stefnanda verið fullkunnugt um þessa framkvæmd. Þannig liggi fyrir að báðir aðilar lánssamninganna hafi efnt aðalskyldur sínar með því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur. Við þessar aðstæður geti skuldbinding aldrei talist vera í íslenskum krónum. Stefndi mótmælir því sérstaklega að finna megi því stað í dómi Hæstaréttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, að ekki skipti máli hvernig endurgreiðslu lána sé háttað við mat á lögmæti þeirra. Málsatvik þar hafi verið þau, öfugt við það mál sem hér er til umfjöllunar, að lánsfjárhæðin hafi verið endurgreidd í íslenskum krónum á öllum gjalddögum utan eins. Dómurinn geti því á engan hátt talist fordæmisgefandi fyrir þau atvik sem hér sé deilt um.  

Stefndi mótmælir því að orðalag myntbreytingarheimildarinnar í grein 4.1. í samningunum bendi til þess að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, enda liggi fyrir raunverulegar myntbreytingar á báðum lánunum, sem sanni svo ekki verði um villst að um skuldbindingu í erlendum myntum sé að ræða. Í þeim tilvikum hafi raunveruleg gjaldeyrisviðskipti átt sér stað, þar sem skuldbindingu stefnanda hafi verið myntbreytt. Í samræmi við ákvæði lánssamninganna hafi eftirstöðvar lánanna á kvittunum vegna þessa verið tilgreindar með erlendum myntum, enda hafi það þá verið hægt, ólíkt því þegar lánssamningarnir sjálfir voru undirritaðir. Þá byggir stefndi á því að greinar 7.1. og 11. í lánssamningunum hafi ekkert gildi við mat á því um hvers konar skuldbindingu sé að ræða, en ef svo væri, verði ekki annað lesið út úr orðalagi þeirra en að skuldbindingin sé í erlendum myntum, enda einungis heimilt að umbreyta henni í sérstökum tilvikum í íslenskar krónur.

Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda er snerta þá viðauka sem gerðir voru við lánssamningana og byggir á því að tilgreining erlendu gjaldmiðlanna í viðaukunum sýni að skuldbinding stefnanda sé í erlendum myntum, auk þess sem tilgreiningin sé í fullu samræmi við orðalag lánssamninganna. Þá tekur stefndi fram að öll undirliggjandi gögn sýni svo ekki verði um villst að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða þar sem raunveruleg gjaldeyrisviðskipti hafi legið að baki. Stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að taka lán í erlendum myntum og hafi fengið öll undirliggjandi gögn afhent. Honum hafi ekki getað dulist að um skuldbindingu í erlendri mynt væri að ræða og hafi hann ekki ætlað að taka á sig slíka skuldbindingu, hafi honum verið í lófa lagið að mótmæla undirliggjandi gögnum. Það hafi hann hins vegar aldrei gert og verði að bera hallann af því.

Stefndi tekur einnig fram að samkvæmt grein 3.1. í lánssamningunum hafi stefnandi átt að greiða stefnda breytilega vexti, jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,50% vaxtaálags. Stefnandi hafi þannig ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið, hefði skuldbinding stefnda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR-vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir voru í raun, enda LIBOR-vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur. Þá verði ekki annað ráðið af ársreikningum stefnanda fyrir árin 2007 til 2010, en að stefnandi hafi sjálfur litið á umrædda skuld sem skuld í erlendum gjaldmiðlum og viðurkenni með því lögmæti lánanna, enda beri stjórnendur hlutafélags ábyrgð á ársreikningi félags og útgáfu hans, sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.   

Fari svo að dómurinn telji skuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningunum vera í íslenskum krónum, byggir stefndi í öðru lagi á því að honum hafi verið heimilt samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna, þar sem lánssamningarnir hafi sannarlega verið stefnanda til hagsbóta. Í fyrsta lagi hafi vaxtakjör stefnanda samkvæmt lánssamningunum verið umtalsvert betri en honum hefðu ella boðist. Í því samhengi sé vísað til þeirrar staðreyndar að LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á íslenskar krónur á því tímabili sem vaxtagreiðslur voru inntar af hendi. Þá hafi stefndi enga forsendu haft til að ætla, þegar lánið var veitt, að lánveitingarnar kynnu að reynast stefnanda óhagstæðari en aðrar leiðir sem val hafi staðið um, enda liggi fyrir að stefnandi sé eitt stærsta útgerðarfélag landsins og að langstærstur hluti tekna hans sé í erlendum gjaldeyri. Ljóst hafi verið að stefnandi yrði ekki fyrir tjóni af gengisfalli íslensku krónunnar, m.a. vegna þess að hann hafi átt hina erlendu gjaldmiðla tiltæka á gjalddögum afborgana og vaxta og því ekki þurft að kaupa erlendar myntir á innlendum gjaldeyrismarkaði til að standa skil á láninu. Fyrirsjáanlega hafi því engin eða a.m.k. óveruleg gengisáhætta verið tengd lánunum þegar þau voru veitt. Við þetta bætist að stefnandi hafi um nokkurra ára skeið verið með virka áhættustjórnun sem miði að því að takmarka gjaldeyris- og vaxtaáhættu. Hafi hann í þessu sambandi gert afleiðusamninga við fjármálastofnanir. Stefnandi hafi þannig staðið jafnfætis stefnda við gerð samninganna og verið fullljóst hvað væri félaginu til hagsbóta og hvað ekki.  

Enn fremur verði, við mat á því hvað hafi verið stefnanda til hagsbóta í skilningi laga nr. 38/2001, ekki einungis horft til breytinga á höfuðstól lánssamninganna í íslenskum krónum, heldur verði einnig að horfa til breytinga á tekjum stefnanda vegna breytinga á gengi gjaldmiðla. Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi engan veginn falist sama áhætta í því fyrir hann að taka erlent lán eins og fyrir þá sem einungis njóta tekna í íslenskum krónum. Við veikingu íslensku krónunnar hækki höfuðstóll lánssamninganna, umreiknaður í íslenskar krónur, en líka tekjur stefnanda. Að sama skapi lækki bæði höfuðstóll lánssamninganna og tekjur stefnanda í krónum talið við styrkingu íslensku krónunnar. Þannig sé jafnvægi á milli tekna og skulda. Væru lánssamningarnir hins vegar í íslenskum krónum væri fullkomið ójafnvægi á milli tekna og lána stefnanda. Hann hafi því augljósan hag af því að skuldbinding hans sé í erlendum myntum. Að lokum verði einnig að hafa í huga að stefnanda hafi verið heimilt að myntbreyta lánssamningunum. Þá heimild hafi hann nýtt sér í báðum tilvikum og þannig aðlagað samningana rekstri sínum. Hagræðið fyrir stefnanda sé því gífurlegt.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 2., 13. og 134. gr. laganna, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvort tveir lánssamningar, sem stefnandi gerði við Landsbanka Íslands hf., annars vegar 25. júní 2004 og hins vegar 14. desember 2007, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Bakgrunnur ágreiningsins er sá að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn VI. kafla laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sem og síðari dómaframkvæmd.

Í aðfararorðum hinna umdeildu samninga er tekið fram að um sé að ræða lánssamning um fjölmyntalán „að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, í nánar tilteknum erlendum myntum og hlutföllum. Að framan er nánari grein gerð fyrir efni samninganna og þeirra skjala sem þeim tengjast. Af því sem þar er rakið er ljóst að framsetningu og ákvæðum lánssamninganna sjálfra var háttað með samskonar hætti og í tilviki þess lánssamnings sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, sbr. og eldri dóma réttarins 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011. Í tilvitnuðum dómum var talið að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Tilvitnuð dómafordæmi geta þó ekki ein og sér leitt til þess að lánssamningarnir sem hér er um deilt teljist vera í íslenskum krónum, enda eru fyrirliggjandi dómafordæmi skýr um að orðalag í samningi í framangreindri mynd dugi ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu, heldur verði jafnframt í því sambandi að líta einkum til þess hvernig aðilar samnings hafi í raun efnt hann hvor fyrir sitt leyti, sbr. framangreindan dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, dóm Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012, dóm Hæstaréttar 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012, og forsendur í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.

Lánssamningurinn frá 25. júní 2004 var um „fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði kr. 4.000.000.000,- [...] í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 39,0% GBP 6,0% CHF 19,0% JPY 11,0% USD 25,0%“. Þegar litið er til efnda aðila á skyldum sínum samkvæmt samningnum liggur fyrir að útborgunarfjárhæð lánsins var ekki greidd inn á reikning stefnanda heldur ráðstafað beint til greiðslu á eldri lánum stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf., til samræmis við beiðni stefnanda um útborgun lánsins í viðauka 1 við samninginn. Hinir eldri lánssamningar liggja ekki fyrir í málinu, en í greinargerð stefnda er að finna lýsingu á því hvernig láninu var ráðstafað og vísað um það til framlagðs skjals, sem stefnandi hefur ekki hreyft andmælum við. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að útborgunarfjárhæð lánsins hafi að mestu leyti verið ráðstafað til greiðslu á eldri skuldbindingum stefnanda við bankann í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum, japönskum jenum, evrum, Bandaríkjadölum og sterlingspundum. Að því er varðar efndir stefnanda á skyldum sínum kemur fram í grein 2.2. í lánssamningnum, að stefnandi óski eftir því að nánar tiltekinn reikningur hans hjá bankanum, sem er tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum, verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum. Í beiðni stefnanda um útborgun lánsins er einnig að finna heimild til handa bankanum til að skuldfæra umræddan reikning. Á hinn bóginn er ljóst, líkt og rakið er í málsatvikalýsingu, að í reynd fór greiðsla afborgana og vaxta afar sjaldan fram af umræddum tékkareikningi, heldur af þeim reikningum eða reikningi sem stefnandi tilgreindi hverju sinni. Stefnandi átti gjaldeyrisreikninga í öllum framangreindum gjaldmiðlum og greiðslur afborgana og vaxta voru almennt inntar af hendi af gjaldeyrisreikningum hans, oft af reikningi í samsvarandi gjaldmiðli og viðkomandi afborgun, en einnig að nokkru marki af reikningi í öðrum erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að báðir samningsaðilar hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur.

Lánssamningurinn frá 14. desember 2007 var um „fjölmyntalán til 15 mánaða að jafnvirði kr. 650.000.000,- [...] í neðanskráðri mynt: EUR 100%“. Í beiðni stefnanda um útborgun lánsins, sem er að finna í viðauka 1 við samninginn, er þess óskað að útborgunarfjárhæð verði greidd inn á áðurnefndan tékkareikning stefnanda, sem er í íslenskum krónum. Bankinn greiddi 649.340.000 kr. inn á umræddan reikning þann 17. desember 2007 og fyrir liggur „kaupnóta“ bankans frá sama degi þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi selt 7.119.285,17 evrur, á myntgengi 91,21 ISK, sem geri samtals 649.350.000 kr. Í áðurnefndri beiðni stefnanda um útborgun lánsins var bankanum veitt heimild til að skuldfæra greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt samningnum af nánar tilteknum gjaldeyrisreikningi stefnanda í evrum. Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu voru efndir stefnanda á samningnum til samræmis við þetta. Þannig virðist ljóst að greiðsla afborgana eða vaxta hafi iðulega farið fram af umræddum gjaldeyrisreikningi, ef frá er talið eitt skipti þar sem greiðslan kom af gjaldeyrisreikningi stefnanda í Bandaríkjadölum. Af þessu er ljóst að stefnandi efndi skyldur sínar með þeim hætti að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur, til samræmis við það sem ráð var fyrir gert í umræddri beiðni um útborgun lánsins.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að efndir samningsaðila á aðalskyldum sínum samkvæmt hinum umdeildu samningum fólu að verulegu en ekki öllu leyti í sér að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur. Er aðstaðan að þessu leyti verulega önnur en í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, þar sem svo háttaði til að efndir beggja aðila voru með greiðslum í íslenskum krónum, sbr. m.a. forsendur í dómi Hæstaréttar 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Af dómaframkvæmd er ljóst að ekki er gerð fortakslaus krafa um að samningar, líkt og hér um ræðir, um lán „að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í nánar tilteknum erlendum myntum og hlutföllum, séu að öllu leyti efndir með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum, svo að um lán í slíkum gjaldmiðlum teljist vera að ræða, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012. Þegar efndir á hinum umdeildu samningum eru virtar í heild verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendar myntir skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum.

Að mati dómsins eru jafnframt fleiri atriði en þau sem varða efndir samningsaðila, sem horfa öðruvísi við í þessu máli en í dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Þannig er ljóst að gerðir voru tveir viðaukar við báða þá lánssamninga, sem um er deilt, þar sem nánar tilteknum skilmálum þeirra var breytt. Í öllum viðaukunum var höfuðstóll lánanna tilgreindur í hinum erlendu gjaldmiðlum, en í dómaframkvæmd hefur m.a. verið litið til framsetningar í slíkum skjölum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Þá liggur fyrir að í tilviki beggja hinna umdeildu samninga var myntbreytingarheimildinni í grein 4.1. í samningunum beitt, og þau skjöl sem þeim breytingum tengjast, og nánari grein er gerð fyrir í málavaxtalýsingu, verða ekki talin styðja sérstaklega að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða. Loks verður að mati dómsins ekki alfarið litið fram hjá því, við mat á því um hvers konar skuldbindingu var að ræða, að stefnandi hafði tekjur sínar að verulegu leyti í erlendum gjaldmiðlum, átti gjaldeyrisreikninga í öllum umræddum myntum, hafði þegar skuldbindingar við bankann í erlendum gjaldmiðlum og virðist hafa fært hin umdeildu lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í ársreikningum sínum. Framangreind atriði eru að mati dómsins til þess fallin að styrkja frekar þá ályktun sem áður var dregin af umfjöllun um efndir samningsaðila á skuldbindingum sínum.

Líkt og dómaframkvæmd ber með sér ræðst niðurstaða um það hvort lán af þessum toga sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum óhjákvæmilega oft af ákveðnu heildarmati. Að mati dómsins stendur slíkt heildarmat ótvírætt til þess að þau lán sem hér er um deilt teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum. Önnur niðurstaða fæli í sér að lán, sem að verulegu leyti greiddust þannig út að lánsfjárhæðin gekk beint til greiðslu á eldri skuldbindingum stefnanda í erlendum gjaldmiðlum, og stefnandi greiddi nánast að öllu leyti af í erlendum gjaldmiðlum, teldust vera í íslenskum krónum, en sú niðurstaða verður ekki talin tæk.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda. Með hliðsjón af úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Reynir Karlsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Stefán Orri Ólafsson hdl.

Dóminn kveður upp Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Vísis hf.

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.