Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Mánudaginn 25 janúar 2010.

Nr. 37/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(enginn)

gegn

X

(sjálfur)

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 90 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot varðað gæti allt að 8 ára fangelsi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að afplána 90 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2008, 4. febrúar 2009 og 20. apríl 2009. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 90 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2008, dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. febrúar 2009 og  dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. apríl 2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 25. apríl 2009.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál þar sem kærði sé grunaður um ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni.

Aðfaranótt fimmtudagsins 21. janúar kl. 02:58 hafi lögreglu borist tilkynning um að maður hefði brotið rúðu í bifreiðinni [...], þar sem hún hafi staðið við Suðurlandsbraut 28 í Reykjavík, en hlaupið á brott þegar vitnið A, húsvörður hjá Símanum, hafi orðið hans var. Kvaðst A fyrst hafa veitt aðilanum eftirtekt í Ármúla nokkru áður þar sem aðilinn virtist ráfa um svæðið. Síðar um nóttina hafi A svo heyrt brothljóð í portinu hjá Símanum og þegar hann hafi farið út til að kanna málið hafi hann séð aðilann gramsa í bifreiðinni. Eins og áður segi hljóp aðilinn á brott er hann varð A var, eftir að hafa kallað á A að passa sig því bíllinn væri fullur af ormum.

Aðilanum hafi verið lýst sem karlmanni, líklega um 25-30 ára gamall og um 180 cm á hæð. Hann væri dökkhærður, klæddur í bláar íþróttabuxur með rönd á hliðinni og ljósan jakka og væri í annarlegu ástandi, að mati A.

Lögregla hafi strax hafið leit að geranda og um klukkustund síðar, er lögreglubifreið hafi verið ekið vestur Háaleitisbraut, hafi lögreglumenn veitt athygli manni sem hafi verið að fara yfir götuna úr Lágmúla. Svaraði klæðaburður mannsins og hárlitur við ofangreinda lýsingu á geranda. Hafi maðurinn verið stöðvaður og hafi þá komið í ljós að um var að ræða X, kærða. Kærði hafi strax orðið flóttalegur við afskipti lögreglu og hafi reynt að fela eitthvað í lófa vinstri handar. Lögreglumenn hafi rætt við kærða, sem virtist vera í annarlegu ástandi, og báðu hann um að sýna sér hvað hann væri með í lófanum. Kærði hafi neitað því og hafi reynt að hlaupa á brott. Í kjölfarið hafi hann verið tekinn lögreglutökum en náði að rífa hægri hendi sína lausa og kýla lögreglumann KK-0628 með krepptum hnefa í hægra auga með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn bólgnaði upp og hruflaðist neðan við hægra auga. Fljótlega hafi þó náðst að yfirbuga kærða og handtaka, hafi þá komið í ljós að í lófa hans hafi verið poki með meintum fíkniefnum í. Að sögn kærða hafi verið um amfetamín að ræða.

Við yfirheyrslu neiti kærði að hafa kýlt lögreglumanninn, hann segi lögreglu hafa ráðist á sig. Hann játi að hafa brotið rúðu í bifreiðinni, en hún hafi verið full af ormum. Kærði segist hafa tekið inn sýru sl. nótt og því haft miklar ofskynjanir.

Með ofangreindri háttsemi hafi kærði rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar, enda liggi fyrir sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni sem að lögum hafi heimild til líkamlegrar valdbeitingar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt brot geti varðað allt að 8 ára fangelsi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Meðal gagna málsins er bréf frá Fangelsismálastofnun ríkisins dagsett 21. janúar 2010 þar sem staðfest er að kærða hafi verið veitt reynslulausn 25. apríl 2009. Þá voru afplánaðir 2/3 hlutar af 6 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 12. júní 2008, 30 daga fangelsisrefsingu samkvæmt dómi sama dómstóls uppkveðnum 4. febrúar 2009 og 60 daga fangelsisrefsingu samkvæmt dómi sama dómstóls uppkveðnum 20. apríl 2009. Samkvæmt bréfinu er reynslutíminn 1 ár og eftirstöðvar samanlagðrar refsingar 90 dagar. Fallist er á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, og stutt framlögðum gögnum, að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi framið nýtt brot sem varðað geti 8 ára fangelsi sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940.  Með því móti þykir dóminum kærði gróflega hafa rofið almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.

Samkvæmt ofanrituðu þykja uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 90 daga eftirstöðvar refsinga samkvæmt ofangreindum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 25. apríl 2009.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, kt. [...], skal afplána 90 daga eftirstöðvar  refsinga samkvæmt dómum  Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2008, 4. febrúar 2009 og  frá 20. apríl 2009,  sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 25. apríl 2009.