Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2015


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 61/2015.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Axel Má Smith

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.

A krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju. A hafði verið handtekinn 8. desember 2011 þar sem að hann var ásamt tveimur öðrum mönnum grunaður um aðild að skotárás í Reykjavík í nóvember sama ár. Í málinu lá fyrir að A hafði í upphafi rannsóknar lögreglu staðfastlega neitað að hafa verið á staðnum umrætt kvöld og breytti ekki framburði sínum þótt hann hefði verið í ósamræmi við framburð annarra. A breytti fyrst framburði sínum við aðalmeðferð málsins 5. mars 2012 og viðurkenndi þá að hann hefði verið á staðnum og í för með öðrum ákærðu auk þess sem hann gerði nánar grein fyrir atburðarásinni umrætt kvöld. Í dómi Hæstaréttar var fallist á það mat héraðsdóms að eftir að A gaf framangreinda skýrslu hefði ekki verið tilefni til að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi enda hefði framburður hans fyrir dómi samrýmst framburði annarra og gögnum málsins og þáttur hans því nægilega upplýstur. Þar með hefði A sætt gæsluvarðhaldi að ósekju frá þessum degi til 22. mars 2012, er honum var sleppt í kjölfar sýknudóms um framangreindar sakir, og ætti hann því rétt til miskabóta úr hendi Í af þeim sökum. Voru bætur til A ákveðnar 500.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að tildæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.  

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sætti stefndi gæsluvarðhaldi frá 8. desember 2011 til 22. mars 2012, fyrstu fjórtán dagana á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en eftir það 2. mgr. sömu greinar. Tilefni gæsluvarðhaldsins var að stefndi ásamt tveimur öðrum mönnum var grunaður um aðild að skotárás að kvöldi 18. nóvember 2011 í svonefndu Bryggjuhverfi í Reykjavík. Var talið að háttsemi hans gæti varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákæra var gefin út á hendur stefnda og mönnunum tveimur og ætlað brot hans þar talið varða við framangreind lagaákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., laganna. Stefndi hafði í skýrslum, sem hann gaf hjá lögreglu við rannsókn málsins, staðfastlega neitað að hafa verið á staðnum þegar framangreind atvik urðu og breytti ekki framburði sínum þótt hann væri í ósamræmi við framburð annarra. Við aðalmeðferð málsins 5. mars 2012 breytti stefndi á hinn bóginn framburði sínum. Viðurkenndi hann þar að hafa verið á staðnum og í för með öðrum ákærðu auk þess sem hann gerði nánar grein fyrir atburðarásinni umrætt kvöld. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi, eftir að stefndi gaf framangreinda skýrslu, verið tilefni til að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi enda hafi framburður hans fyrir dómi samrýmst framburði annarra og gögnum málsins og þáttur hans því nægilega upplýstur. Verður fallist á þetta mat héraðsdóms og þar með að stefndi hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju frá þessum degi til 22. mars, er honum var sleppt í kjölfar sýknudóms um framangreindar sakir. Samkvæmt framansögðu er sýknukröfu áfrýjanda hafnað.

Í héraðsdómi var áfrýjandi samkvæmt dómsorði, sem miða ber við, dæmdur til að greiða stefnda 1.400.000 krónur.  Verður fallist á að stefndi eigi rétt til miskabóta á grundvelli 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, en að fjárhæð bótanna ákveðist 500.000 krónur. Ákvæði héraðsdóms um upphafstíma dráttarvaxta er staðfest.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest svo og niðurstaða hans um gjafsóknarkostnað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda fer  svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Axel Má Smith, 500.000 krónur með vöxtum eins og héraðsdómi greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 13. október 2014 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 6. febrúar 2013 af Axel Má Smith, Daggarvöllum 4b, Hafnarfirði, á hendur íslenska ríkinu.

Kröfur aðila

Stefnandi gerir þær kröfur aðallega að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 5.234.284 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. desember 2011 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Fyrsta varakrafa stefnanda er að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 4.934.672 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2011 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Önnur varakrafa stefnanda er að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.594.622 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. febrúar 2012 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Þriðja varakrafa stefnanda er að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.281.224 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. febrúar 2012 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Fjórða varakrafa stefnanda er að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.890.612 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. mars 2012 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Fimmta varakrafa stefnanda er að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.695.306 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 15. mars 2012 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er af hálfu stefnanda gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda eftir mati réttarins.

         Atvik máls

         Málavextir eru þeir að hinn 18. nóvember 2011 barst lögreglu tilkynning um að skotið hefði verið af haglabyssu á bifreið við Tangarhöfða í Reykjavík. Ökumaður bifreiðarinnar sem skotið hafði verið á kvað mann að nafni X hafa mælt sér mót við hann í Bryggjuhverfinu í Reykjavík vegna ágreinings þeirra um skuldauppgjör. Er hann hafi mætt á staðinn, ásamt félaga sínum, hafi bifreið verið ekið í veg fyrir bifreið hans og út úr aðkomubifreiðinni stigið fyrrnefndur X ásamt tveimur mönnum en þeir hafi báðir hulið andlit sín. Annar þessara mannanna hafi verið vopnaður haglabyssu og skotið að bifreið sinni, þegar hann hafi ekið henni aftur á bak til að komast undan. Árásarmennirnir þrír hafi í framhaldinu veitt árásarþolunum eftirför á bifreið sinni og sá sem hafi verið með haglabyssuna skotið öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar á bifreið árásarþola með þeim afleiðingum að afturrúða bifreiðarinnar hafi brotnað og umtalsverðar aðrar skemmdir orðið á henni.

         Áðurnefndur X var handtekinn tveimur dögum eftir árásina. Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi hann að hafa átt þátt í skotárásinni en kvað tvo útlendinga hafa verið með sér við verknaðinn. Rannsókn lögreglu leiddi hins vegar í ljós að Y var annar þessara manna en hinn Axel Már Smith, stefnandi máls þessa. Í ljós kom að Y var sá sem borið hafði skotvopnið og skotið á bifreið brotaþola og þá sem í henni voru.

         Stefnandi var handtekinn, 7. desember 2011, eða nítján dögum eftir árásina. Við skýrslutöku hjá lögreglu sama dag neitaði hann allri aðild að skotárásinni og kvaðst hafa verið heima hjá sér, þegar árásin hefði átt sér stað. Stefnandi var, 8. desember 2011, með vísan til rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta gæsluvarðahaldi frá 8. desember til 22. desember. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann 12. desember, sbr. mál nr. 662/2011.

         Lögregluskýrsla var tekin af stefnanda, 13. desember. Neitaði stefnandi enn allri aðild að skotárásinni 18. nóvember og hélt fast við fyrri framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hefði, þegar skotárásin átti sér stað, verið heima hjá sér. Í skýrslu hjá lögreglu, 19. desember, hélt stefnandi fast við fyrri framburð en honum var þá kynnt að áðurnefndur X hefði í skýrslu hjá lögreglu tilgreint hann sem annan af þeim mönnum er fylgt hefðu honum í bifreið á staðinn, þar sem árásin hefði átt sér stað.         

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 22. desember 2011, var gæsluvarðhald stefnanda framlengt til 19. janúar 2012 en nú með vísan til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann 23. desember, sbr. mál nr. 691/2011.

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 19. janúar 2012, var gæsluvarðhald stefnanda framlengt til 16. febrúar 2012 með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann 23. janúar 2012, sbr. mál nr. 55/2012.

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 16. febrúar 2012, var gæsluvarðhald stefnanda framlengt með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar til dómur gengi í máli hans en þó ekki lengur en til 15. mars.

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 15. mars, var gæsluvarðhald stefnanda enn framlengt með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar til dómur gengi í máli hans en þó ekki lengur en til 12. apríl.

         Ákæra á hendur þeim þremur einstaklingum sem talið var að hefðu staðið að skotárásinni 18. nóvember 2011, þ.á.m. stefnanda, var gefin út 10. febrúar 2012. Í ákærunni var háttsemi stefnanda talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940, en til vara við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

         Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 5. og 6. mars 2012. Í skýrslu sinni við aðalmeðferðina, 5. mars, viðurkenndi stefnandi að hafa verið ásamt meðákærðu á staðnum, hinn 18. nóvember 2011, þegar skotárásin átti sér stað, en neitaði alfarið hlutdeilt í árásinni enda hefði hann hvorki vitað að skotvopn væri í bifreiðinni eða hefði tekið þátt í árásinni.

         Dómur í málinu var kveðinn upp, 22. mars 2012, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-110/2012. Var stefnandi sýknaður af broti gegn 211. gr., sbr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940, en til vara við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir vörslur á 8,78 gr. af marijúana. Var stefnandi dæmdur til að greiða 66.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá dómsuppsögu en að sæta ella fangelsi í 6 daga. Í dómnum segir hvað meinta aðild stefnanda að skotárásinni 18 nóvember varðar:

„Í ákæru er háttsemi ákærða Axels Más talin til hlutdeildarverknaðar, án þess að því sé lýst með hvaða hætti ákærði hafi veitt liðsinni við verknaðinn. Ákærði hefur borið að hann hafi ekki vitað um byssuna fyrr en Y skaut af henni við Tangabryggju. Fram er komið að ákærði slóst í för með meðákærðu með skömmum fyrirvara og ber ákærðu saman um að ekkert hafi verið rætt við hann um að byssa yrði höfð meðferðis. Þá hefur ákærði Y borið að hann hafi haft byssuna innanklæða í bifreiðinni á leiðinni að Tangabryggju. Með hliðsjón af framansögðu telst ósannað að ákærði hafi vitað um byssuna þegar hann hélt með meðákærðu til fundar við B. Þá verður ráðið af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél að ákærði hafi lítið haft sig í frammi á vettvangi. Þótt ákærði hafi verið í bifreiðinni með meðákærðu meðan á eftirförinni stóð er ekkert komið fram um að hann hafi átt nokkurn þátt í því að skotið var öðru skoti að bifreið B. Enn fremur telst ósannað, gegn neitun ákærða, sem fær stuðning í framburði Y, að ákærði hafi haft byssuna með sér heim síðar um kvöldið. Samkvæmt framansögðu verður ákærði Axel Már sýknaður af þessum ákærulið.“

Í kjölfar dómsins var stefnandi leystur úr gæsluvarðhaldi. Niðurstöðu héraðsdóms var ekki áfrýjað.

 Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Aðalkrafa stefnanda er reist á því að hann hafi að ósekju sætt gæsluvarðhaldi frá 8. desember 2011 til 22. mars 2012. Varakröfur stefnanda byggja á því að gæsluvarðhald hans hafi staðið lengur en efni stóðu til.

         Stefnandi byggir á að frelsissvipting, skv. lögum nr. 88/2008, sé alvarleg skerðing á mannréttindum þ.m.t. persónufrelsi, friðhelgi heimilis og eignaréttar, og sú þvingunarráðstöfun í þágu rannsóknar sakamáls sem almennt verði talin ganga lengst í því efni. Á sama hátt feli húsleit í sér röskun mikilvægra hagsmuna og persónuréttinda er njóti friðhelgi og verndar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðlega mannréttindasáttmála.

         Stefnandi byggir á því að skv. 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi maður rétt á skaðabótum fyrir fjárhagslegt tjón og miska vegna aðgerða skv. IX.-XIV. kafla laganna þ.m.t. gæsluvarðhalds, er beinist gegn honum sem sakborningi, að ósekju, vegna þess að þær sakargiftir sem á hann hafi verið bornar reynist ekki réttar eða sönnun hafi ekki fengist um þær. Því aðeins komi til álita að lækka bætur eða fella þær niður hafi sakborningur sjálfur valdið eða stuðlað að því að til aðgerða hafi verið gripið gagnvart honum eða þeim viðhaldið sbr. seinni málslið 2. mgr. 228. gr. Því sé ekki til að dreifa í tilviki stefnanda. Heimildir til frelsisskerðingar, án þess að áður hafi verið staðreynt hvort sakborningur hafi unnið til hennar, helgist fyrst og fremst af hagsmunum þjóðfélagsins af því að upplýsa afbrot í því skyni að geta beitt refsingum lögum samkvæmt. Heimildir lögreglu til aðgerða skv. X. og XIII. kafla laga nr. 88/2008 helgist og af sömu ástæðum. Standi augljós rök til þess að sá maður, sem þurft hafi að sæta sviptingu á frelsi sínu og alvarlegri skerðingu á persónuréttindum sínum í þágu almannahagsmuna geti átt rétt á bótum frá ríkinu ef niðurstaðan verði sú að rannsókn máls leiði ekki til málsóknar gegn honum. Í slíkum bótarétti felist einungis að sá sem eigi þá hagsmuni, sem krefjist frelsissviptingar og þvingunaraðgerða, þ.e.a.s. almenningur, greiði bætur til þess einstaklings sem þurft hafi að fórna frelsi sínu tímabundið í þágu þeirra. Óhjákvæmilegt sé í þessu sambandi að líta til þeirra breytinga sem orðið hafi við gildistöku nýrra sakamálalaga nr. 88/2008, sem leyst hafi af hólmi eldri lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.  Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 88/2008 sé vísað til þess að skilyrði fyrir bótum vegna sakamáls verði rýmkuð frá því sem verið hafi í lögum nr. 19/1991, m.a. með því að þau skilyrði fyrir bótarétti, sem kveðið hafi verið á um í a- og b- liðum 176. gr. laga nr. 19/1991, m.a. áskilnaður um að ekki hafi verið nægilegt tilefni til aðgerða lögreglu, séu felld brott. Þá sé orðalag ákvæðisins afdráttarlaust en í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 segi að: ,,Maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli á rétt til bóta skv. 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi ...” og í 2. mgr. 228. gr. laganna segi: ,,Dæma skal bætur vegna aðgerða skv. IX-XIV. kafla laga þessara ef skilyrði eru fyrir hendi.” Samkvæmt lögum nr. 19/1991 hafi aðeins verið mælt fyrir um mögulegan bótarétt. Á því sé byggt að skaðabótaábyrgð stefnda sé að þessu leyti ótvírætt fyrir hendi, og þá með hlutlægum hætti, þar sem stefnandi hafi verið sýknaður með endanlegum dómi af þeim sökum sem leitt hafi til gæsluvarðhalds. Stefnandi hafi setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 8. desember 2011 en á grunvelli almannahagsmuna, skv. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 22. desember 2011 og fram til þess er dómur hafi gengið í máli hans, 22. mars 2012. Samkvæmt ofangreindu ákvæði megi úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leiki á að hann hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt til verndar almannahagsmunum. Í samræmi við það sem þegar hafi verið sagt um þvingunarráðstafanir verði að skýra skilyrðið um sterkan grun þröngt og því sé mótmælt að það hafi verið uppfyllt í þessu máli. Stefnandi telji afar hæpið og ekki samrýmast grundvallarhugsuninni um réttarríki að hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, hvað þá í svo langan tíma sem raun beri vitni.  Legið hafi fyrir strax á fyrstu dögum rannsóknar lögreglu og ekki síðar en 22. desember 2011, að stefnandi hafi ekki verið sekur um þá háttsemi sem verið hafi grundvöllur gæsluvarðhalds hans og síðar leitt til ákæru á hendur honum. Stefnandi hafi mátt sæta því að sitja saklaus í gæsluvarðhaldi í þrjá og hálfan mánuð en það hafi leitt til mikils mannorðsmiska fyrir hann og m.a. valdið því að hann hafi misst atvinnu sína. Bótakrafa stefnanda byggi á þeim miska sem hann hafi orðið fyrir vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar. Miski stefnanda felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna framangreindrar rannsóknar, frelsissviptingar og málaferla. Eðli sínu samkvæmt sé frelsissvipting sem þessi alvarleg skerðing á mannréttindum auk þess sem hún sé mikil andleg þrekraun fyrir þann sem fyrir henni verði. Stefnandi hafi einnig sætt einangrun hluta af gæsluvarðhaldstímanum, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni. Hann hafi því haft áhyggjur af ættingjum og ástvinum sínum og átt við andlega vanlíðan og svefnleysi að stríða. Bótakrafa stefnanda byggi einnig á því fjárhagslega tjóni sem hann hafi orðið fyrir en stefnandi hafi tapað tekjum auk þess að missa vinnu sína og hafi hann ekki enn fengið vinnu eftir þessa atburði. Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi ráðið sig í vinnu í byrjun desember 2011 við flísalagnir. Umsamin launakjör hafi verið 4.200 krónur m/vsk á fermetra eða að meðaltali 5.700 kr. fyrir hverja unna klst. m/vsk. Tekjutap stefnanda hafi því verið 4.542 kr. án vsk. fyrir hverja unna klst. Vísað sé til þeirra alvarlegu sakargifta sem á hann hafi verið bornar þ.e. að vera þátttakandi í manndrápstilraun, sbr. 211. gr. alm. hgl.  Hafi þetta valdið stefnanda mikilli vanlíðan. Miski stefnanda felist auk þess í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna framangreindrar rannsóknar og frelsissviptingar, sem hann eigi rétt á að fá bættan að svo miklu leyti sem unnt sé. Stefnandi sundurliði stefnukröfu sína þannig að honum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í alls þrjá og hálfan mánuð. Stefnandi krefjist í málinu 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 2.734.284 krónur vegna tekjutaps sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 kr. fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar 172 talsins. Laun stefnanda hefðu því orðið 2.734.284 kr. á tímabilinu. Fyrstu varakröfu sína byggi stefnandi á því að þrátt fyrir að fallist verði á að gæsluvarðhald stefnanda hafi ekki verið að tilefnislausu frá upphafi verði að líta til þess að framlenging þess, 22. desember 2011, hafi verið ónauðsynleg. Á þeim tíma hafi rannsóknarhagsmunir ekki lengur verið fyrir hendi en stefnandi hafi þá verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í grundvelli almannahagsmuna. Þennan dag hafi legið fyrir að tilefnislaust hafi verið að ætla að stefnandi væri sekur um þá háttsemi sem verið hafi grundvöllur áframhaldandi gæsluvarðhaldsvistar og því hafi skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki verið fyrir hendi. Af þeirri ástæðu verði að líta til þess að gæsluvarðhald stefnanda hafi staðið lengur en efni hafi staðið til og því beri að greiða honum bætur vegna þess. Stefnandi krefjist skv. því 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 2.434.672 krónur vegna tekjutaps sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 krónur fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar 172 talsins. Laun stefnanda hefðu því orðið 2.434.672 kr. á tímabilinu. Aðra varakröfu sína byggi stefnandi á því að ekki hafi verið tilefni að halda stefnanda lengur í gæsluvarðhaldi en til 10. febrúar 2012 en þann dag hafi ákæra verið gefin út og ljóst að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, væru ekki fyrir hendi. Skv. ákæru hafi stefnandi verið sakaður um að vera hlutdeildarmaður í skorárás, án þess að því væri lýst með hvaða hætti hann hefði veitt liðsinni við verknaðinn. Ljóst hafi verið á þessum tímapunkti, þ.e.a.s. við útgáfu ákæru, að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, hafi ekki verið fyrir hendi. Þetta komi fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-110/2012, þar sem stefnandi hafi verið sýknaður af þessum kröfum ákæruvalds. Á þessum degi, við útgáfu ákæru, hafi verið orðið fullljóst að ekki hafi verið tilefni til frekara gæsluvarðhalds stefnanda og honum því verið haldið að ósekju. Sé stefndi því skyldur til að greiða honum bætur vegna þess. Stefnandi krefjist skv. því 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 1.094.622 krónur vegna tekjutaps sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 krónur fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar 172 talsins. Laun stefnanda hefðu því orðið 1.094.622 krónur á tímabilinu.

Þriðju varakröfu sína byggi stefnandi á því að ekki hafi verið tilefni til að úrskurða hann í áframhaldandi gæsluvarðhald, 16. febrúar 2012, en þann dag hafi stefnandi verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, á grundvelli almannahagsmuna, skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-71/2012. Ákæra hafi þá legið fyrir í málinu og ljóst mátt vera að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fyrir hendi. Skv. ákæru hafi stefnandi verið sakaður um að vera hlutdeildarmaður í skotárás án þess að því væri lýst með hvaða hætti hann hefði veitt liðsinni við verknaðinn. Ljóst hafi verið á þessum tímapunkti, þ.e.a.s. við útgáfu ákæru, að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, væru ekki fyrir hendi. Þetta komi fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-110/2012, þar sem stefnandi hafi verið sýknaður af þessum kröfum ákæruvaldsins. Hinn 16. febrúar hljóti því að hafa verið fulljóst að ekki hafi verið tilefni til frekara gæsluvarðhalds stefnanda og hafi því úrskurður þar um gengið að ósekju. Sé stefndi því skyldur til að greiða stefnanda bætur vegna þess. Stefnandi krefjist skv. því 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 781.224 krónur vegna tekjutaps sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 krónur fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar 172 talsins. Laun stefnanda hefðu því orðið 781.224 kr. á tímabilinu. Fjórða varakrafa stefnanda byggi á því að í síðasta lagi við aðalmeðferð sakamálsins á hendur honum, sbr. mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-110/2012, geti hafa verið nokkuð tilefni til áframhaldandi gæsluvarðhald stefnanda. Aðalmeðferð málsins hafi farið fram dagana 5.-6. mars 2012 en þá hafi skýrslutökum aðila og málflutningi lokið. Hinn 6. mars 2012 hafi því legið fyrir að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fyrir hendi. Frá þeim degi hafi verið ljóst að stefnandi hafi verið í gæsluvarðhaldi að tilefnislausu og eigi hann því rétt á bótum vegna þess. Stefnandi krefjist skv. því 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 390.612 krónur vegna tekjutaps, sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 krónur fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar 172 talsins. Laun stefnanda í hlutfalli við það hefðu því orðið 390.612 krónur á tímabilinu. Fimmta varakrafa stefnanda byggi á því að eftir lok aðalmeðferðar þ.e. 15. mars 2012 hafi stefnandi enn á ný verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald fram að dómsuppsögu og þá á grundvelli almannahagsmuna. Á þessum degi hafi öll atvik málsins legið fyrir og engin ástæða verið til að ætla að stefnandi hefði gerst sekur um það brot sem hann hafi verið sakaður um og verið grundvöllur gæsluvarðhaldsvistar hans. Fjarri lagi hafi verið að álykta að sterkur grunur væri fyrir hendi um að hann hefði framið afbrot sem að lögum gæti varðað 10 ára fangelsi og gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Því verði að líta svo á að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda í síðasta lagi frá aðalmeðferð málsins. Stefnandi krefjist skv. því 2.500.000 króna miskabóta vegna gæsluvarðahaldsins, einangrunar og rannsóknaraðgerða lögreglu. Þá geri stefnandi kröfu að fjárhæð 195.306 krónur vegna tekjutaps sem hann hafi sannanlega orðið fyrir á tímabilinu. Sé þar miðað við að stefnandi hefði unnið sér inn 4.542 krónur fyrir hverja klst. að meðaltali en meðal vinnustundir á mánuði séu áætlaðar samtals 172. Laun stefnanda í hlutfalli við það hefðu því orðið 195.306 krónur á tímabilinu.

         Hvað lagarök varði vísi stefnandi til XXXVII kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sér í lagi til 1. og 2. mgr. 228. gr. laganna. Þá sé byggt á 95. og 97. gr. sömu laga. Einnig sé byggt á 1.-4. og 5. mgr. 67. gr., 1. og 2. mgr. 71. gr. og  2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um gjalddaga bótakröfu og dráttarvexti vísist til 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991. Þá sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins og 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur sínar um dráttarvexti styðji stefnandi við 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé vísað til laga nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Krafa um málskostnað sé gerð eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

         Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

         Stefndi byggir á því að aðalkrafa stefnanda sé reist á því að hann hafi að ósekju sætt gæsluvarðhaldi frá 8. desember 2011 en varakröfur á því að gæsluvarðhald hans hafi staðið lengur en efni stóðu til. Einnig byggi stefnandi á því að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fyrir hendi og vísi jafnframt til 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Stefndi hafni þessum fullyrðingum og krefjist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald sem staðið hafi allt frá 8. desember 2011 til 22. mars 2012. Þá liggi jafnframt fyrir að stefnandi hafi verið sýknaður með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 22. mars 2012. Í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segi að dæma megi bætur vegna aðgerða skv. IV- XIV kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. séu fyrir hendi. Ennfremur segi að þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á.

         Sýknukrafa stefnda byggi á því að stefnandi hafi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á og eigi því ekki rétt á bótum. Stefnandi hafi ekki gefið sig fram við lögreglu eftir skotárásina á Tangarhöfða heldur hafi hann verið handtekinn á heimili sínu 19 dögum síðar. Eftir handtökuna hafi hann skýrt rangt frá við yfirheyrslu og ekki sagst hafa verið í bifreið með árásarmönnum né heldur verið á vettvangi þar sem skotárásin hafi átt sér stað. Sama hafi hann sagt við yfirheyrslur 13. og 21. desember, jafnvel þótt annar sakborningur hafi þá þegar borið að stefnandi hafi verið þátttakandi í árásinni. Stefnandi hafi haft fjölmörg tækifæri til að breyta framburði sínum og greina satt og rétt frá. Milli síðustu yfirheyrslu lögreglu og aðalmeðferðar hafi verið kveðnir upp fimm gæsluvarðhaldsúrskurðir þar sem stefnandi hafi haft tækifæri til að skýra rétt frá auk þess sem hann hefði getað óskað eftir við lögreglu, hvenær sem verið hafi, að breyta framburði sínum. Stefnandi geti því engum um kennt nema sjálfum sér og gæsluvarðhaldstíminn eingöngu verið til kominn vegna háttsemi stefnanda sjálfs. Þess vegna hafi stefnandi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á. Sé því enn ítrekað að hafna beri öllum bótakröfum stefnanda. Stefndi hafni framsetningu og útreikningi stefnanda á tölulegri kröfugerð hans í málinu. Sem fyrr segi geti stefndi ekki borið ábyrgð á tímalengd gæsluvarðhalds stefnanda og það eigi líka við um tímabilið frá aðalmeðferð sakamálsins, þar stefnandi hafi verið sýknaður með dómi héraðsdóms. Fram að aðalmeðferð 5. og 6. mars 2012  hafði framburður stefnanda vægast sagt verið ósannfærandi. Við aðalmeðferðina hafi hann játað þátttöku í árásinni en óljóst hafi verið á hvern hátt dómendur myndu meta játningu hans og framburð að öðru leyti í þessu alvarlega máli. Hafi því verið eðlilegt í ljósi þess sem á undan hafði gengið að gæsluvarðhaldstíminn stæði þar til dómur hefði verið kveðinn upp. Hér beri líka að líta til þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fallist á áframhaldandi gæsluvarðhald stefnanda frá 15. mars 2012 til 12. apríl sá. Dómkröfur stefnanda um greiðslu á skaðabótum vegna vinnulauna, sem stefnandi telji sig hafa orðið af, séu ósannaðar. Engar eðlilegar forsendur séu fyrir kröfugerðum þessum, aðrar en óraunsæir útreikningar stefnanda sjálfs og óundirritað skjal sem talið sé stafa frá ætluðum vinnuveitanda hans. Þessi gögn sýni hvorki fram á missi vinnutekna né útreikning raunverulegra launa. Beri því að hafna þeim alfarið.

         Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Forsendur og niðurstaða

         Í máli þessu krefur stefnandi stefnda, íslenska ríkið, aðallega, um miskabætur vegna meints ólögmæts gæsluvarðhalds er hann hafi þurft að sæta frá 8. desember 2011 til 22. mars 2012 og bætur fyrir fjártjón vegna tekjumissis, sem rekja megi til gæsluvarðhaldsins. Í varakröfum stefnanda er miðað við að hið meinta ólögmæta gæsluvarðhald hafi varað skemur en aðalkrafan byggir á. Hvað lagarök til grundvallar bótakröfunum varðar vísar stefnandi til 1. ml. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá vísar stefnandi ennfremur til 67. gr., 70. gr. og 71. gr.  stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 5. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá byggir stefnandi á því að skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, hafi ekki verið til staðar.

         Af hálfu stefnda er á því byggt að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið til staðar meðan stefnandi hafi setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Þá hafi stefnandi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á og eigi því ekki rétt á bótum, sbr. 2. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

         Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 skal dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna, ef skilyrði 1. mgr. ákvæðisins eru fyrir hendi. Þó er sá fyrirvari settur í 2. ml. 2. mgr. 228. gr. að bætur megi fella niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Af framangreindu leiðir að úrlausn þess hvort stefnandi hafi fyrirgert rétti þeim til bóta sem mælt er fyrir um í fyrri málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, eða hvort bætur skuli sæta lækkun, veltur á því hvort stefnandi hafi í skilningi 2. ml. 2. mgr. 228. gr. valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakröfur hans eru reistar á. Er í þessu sambandi til þess að líta að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem stefnandi vísar einnig til bótakröfu sinni til stuðnings, ber að túlka, eins og rakið er í dómum Hæstaréttar í máli nr. 175/2000 og nr. 601/2012, með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal um eigin sök.

         Eins og rakið hefur verið var stefnandi í Héraðsdómi Reykjavíkur, 8. desember 2011, á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, úrskurðaður í gæsluvarðhald frá þeim degi  til 22. desember 2011 vegna gruns um aðild að skotárás er átt hafði sér stað í Bryggjuhverfi í Reykjavík að kveldi 18. nóvember. Var talið að þáttur stefnanda í skotárásinni gæti varðað við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 22. desember 2011, var gæsluvarðhald stefnanda með vísan til almannahagsmuna framlengt til 19. janúar 2012, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldið yfir stefnanda var með vísan til almannahagsmuna framlengt með úrskurði héraðsdóms, 19. janúar, þar til dómur gengi í máli ákæruvaldsins m.a. gegn stefnanda en þó ekki lengur en til 16. febrúar. Með úrskurði héraðsdóms, 15. mars, var gæsluvarðhaldið með vísan til almannahagsmuna framlengt frá þeim degi þar til dómur gengi en þó ekki lengur en til 12. apríl.

         Ákæra á hendur stefnanda og þeim tveimur einstaklingum öðrum sem talið var að hefðu staðið að skotárásinni í Bryggjuhverfi í Reykjavík, 18. nóvember 2011, var gefin út 10. febrúar 2012. Var háttsemi stefnanda talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940, en til vara við 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

         Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. og 6. mars 2012. Dómur var kveðinn upp 22. mars. Var stefnandi sýknaður af meginákærunni um brot gegn framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga. Var stefnandi leystur úr gæsluvarðhaldi sama dag. Niðurstöðunni var ekki áfrýjað.

         Eins og að framan greinir voru úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald stefnanda, 22. desember 2011, 19. janúar 2012 og 15. mars 2012 reistir á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þegar úrskurðirnir 22. desember 2011 og 19. janúar 2012 voru kveðnir upp var stefnandi grunaður um hlutdeild í broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna. Gat meint brot varðað allt að 16 ára fangelsi. Um mjög alvarlegt brot var því að ræða og skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því til staðar, hvað þessa úrskurði varðar. Styðst sú niðurstaða við ítrekuð fordæmi Hæstaréttar. Er þeirri málsástæðu stefnanda að ekki hafi verið heimilt að úrskurða hann 22. desember 2011 og 19. janúar 2012 í gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því hafnað. Um úrskurðinn, 15. mars, verður fjallað síðar.

         Eins og rakið er í atvikalýsingu dóms þessa gaf stefnandi skýrslur hjá lögreglu. 7., 13. og 19. desember 2011. Í skýrslutökunum neitaði stefnandi allri aðild að skotárásinni í Bryggjuhverfi að kvöldi 18. nóvember og kvaðst hafa verið heima hjá sér, þegar árásin átti sér stað. Engu breytti hvað framburð stefnanda varðaði, þótt honum væri kynntur framburður sambýliskonu hans, sem bar fyrir lögreglu að stefnandi hefði farið að heiman umrætt kvöld né þótt honum væri kynnt í skýrslutökunni 19. desember að X hefði í skýrslu hjá lögreglu tilgreint hann sem annan af þeim mönnum er fylgt hefðu honum í bifreið að staðnum þar sem árásin hefði átt sér stað. Það var ekki fyrr en í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins m.a. á hendur stefnanda, 5. mars 2012, að stefnandi viðurkenndi að hafa verið í för með meðákærðu þegar skotárásin hefði átt sér stað. Jafnframt gerði hann þá nánari grein fyrir þætti sínum í atburðarásinni umrætt kvöld.

         Þótt stefnanda, sem hafði réttarstöðu sakbornings, hafi verið frjálst að svara ekki spurningum í framangreindum yfirheyrslum lögreglu bar honum eigi að síður að skýra satt og rétt frá kysi hann að svara, sbr. 2. og 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að líta svo á að með röngum framburði sínum hjá lögreglu, sem stangaðist á við framburð annars sakbornings í málinu og sambýliskonu stefnanda, hafi stefnandi stuðlað að því að gæsluvarðhald það sem hann í máli þessu krefst bóta fyrir stóð til 5. mars 2012, sbr. 2. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Verða stefnanda því ekki dæmdar bætur fyrir gæsluvarðhald að ósekju frá 8. desember 2011 til 5. mars 2012 og breytir engu í þeim efnum þótt hann hafi í sakamálinu verið sýknaður af broti gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem lágu til grundvallar gæsluvarðhaldinu.

         Kemur þá næst til athugunar hvort nauðsyn hafi borið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi eftir 5. mars 2012. Það er mat dómsins að telja verði að ekki hafi verið ástæða til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eftir skýrslutöku hans fyrir héraðsdómi 5. mars 2012 enda studdist framburður hans fyrir dómi við skýrslur annarra sakborninga og önnur gögn málsins og þáttur hans í málinu því nægilega upplýstur. Var því ekki tilefni til að halda honum í gæsluvarðhaldi allt til 22. sama mánaðar, eins og gert var og almannahagsmunir til grundvallar gæsluvarðhaldsúrskurði, 15. mars, ekki til staðar. Að þessu virtu verður að líta svo á að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til og eigi hann rétt á bótum af þeim sökum samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þykja þær hæfilega metnar 1.700.000 krónur.

         Stefnandi krefur stefnda í máli þessu um bætur fyrir fjártjón sem hann hafi orðið fyrir vegna tapaðra vinnutekna. Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi ráðið sig sem undirverktaka hjá C ehf. við flísalagnir í byrjun desember 2011. Umsamið endurgjald hafi verið 4.200 krónur með virðisaukaskatti á fermetra eða að meðaltali 5.700 kr. fyrir hverja unna klst. með virðisaukaskatti. Tekjutap stefnanda hafi því verið 4.542 krónur án virðisaukaskatts fyrir hverja unna klst. Vinnuskylda hafi verið 9 klst. á dag.

         Fyrir liggur að þegar stefnandi var hnepptur í gæsluvarðhald 8. desember 2011 hafði hann verið ráðinn, sem undirverktaki, til að annast flísalagnir á vegum C ehf. Forsvarsmaður fyrirtækisins, D, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kom fram í skýrslu hans að hann hefði ekki treyst sér til að ráða stefnanda til starfa við flísalagnir, eftir að hann hafi losnað úr gæsluvarðhaldi, vegna þeirrar umfjöllunar sem mál hans hefði fengið í fjölmiðlum og upplýsinga um málið á netinu. 

         Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi sjálfur sök á því að hafa setið í gæsluvarðahaldi frá 8. desember 2011 til 5. mars 2012. Verða honum þegar af þeirri ástæðu ekki dæmdar bætur fyrir missi atvinnutekna á því tímabili. Þá verður að telja með hliðsjón af framangreindum framburði forsvarsmanns C ehf. að stefnanda hafi ekki staðið til boða að hefja störf sem undirverktaki hjá fyrirtækinu eftir 5. mars af þeim ástæðum sem vitnið tilgreindi. Verður stefndi því sýknaður af fjárkröfum stefnanda vegna missis atvinnutekna.

         Dæmdar miskabætur skulu bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 6. mars 2013, það er mánuði frá höfðun máls þessa, til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

         Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

         Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 19. febrúar 2013. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Ólafs Kristinssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin 875.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Axel Má Smith, 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2013 til greiðsludags. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans Ólafs Kristinssonar héraðsdómslögmanns, 875.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.