Hæstiréttur íslands
Mál nr. 109/2009
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 15. október 2009. |
|
Nr. 109/2009. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson settur saksóknari) gegn Huldu Vilhjálmsdóttur (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Umferðarlagabrot. Ökuréttarsvipting.
X var sakfelld fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var brot X talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 og hún svipt ökurétti í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en henni gert að sæta lengri sviptingu ökuréttar.
Ákærða krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærða játaði sök við þingfestingu málsins. Var farið með málið samkvæmt þágildandi 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærðu er gefið að sök að hafa ekið bifreið óhæf til að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa amfetamíns. Ákærða var stöðvuð í akstri og var blóðsýni tekið 35 mínútum síðar. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði mældust 180 ng/ml amfetamíns í blóði hennar.
Brot ákærðu varðar við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Hún hefur ekki áður gerst brotleg og fer því um sviptingu ökuréttar samkvæmt 1. mgr., sbr. 4. mgr. 102. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en þrjá mánuði og allt að tveimur árum eftir alvarleika brots og magni ávana- og fíkniefna í blóði eða þvagi ökumanns. Þegar litið er til dómvenju um ákvörðun ökuréttarsviptingar þegar brotið var framið, sbr. nú reglugerð nr. 328/2009 um breytingu á reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, verður ákærða svipt ökurétti í eitt ár vegna brots þess sem hún er sakfelld fyrir með hinum áfrýjaða dómi, að frádreginni ökuréttarsviptingu í fjóra mánuði frá 13. nóvember 2008.
Ákvæði héraðsdóms um refsingu og sakarkostnað eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og standa þau óröskuð.
Með dómi þessum er lagfærð viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 102. gr. umferðarlaga, eins og henni var breytt með 18. gr. laga nr. 66/2006. Er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu, Huldu Vilhjálmsdóttur, og um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærða er svipt ökurétti í eitt ár frá uppsögu dóms þessa að telja að frádreginni sviptingu í fjóra mánuði sem hún sætti frá 13. nóvember 2008.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. nóvember 2008.
Mál þetta, sem þingfest var í dag og dómtekið samdægurs, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 21. október 2008 á hendur Huldu Vilhjálmsdóttur, kt. 020689-2509, Löngumýri 5, Selfossi,
„fyrir umferðarlagabrot
með því að hafa, aðfararnótt miðvikudagsins 25. júní 2008 ekið bifreiðinni OJ-990 norður Hörðuvelli á Selfossi, óhæf til að stjórna ökutækinu örugglega vegna áhrifa amfetamíns.
Telst brot ákærðu varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997, lög nr. 23/1998, lög nr. 132/2003, lög nr. 84/2004 og lög nr. 66/2006.“
Ákærða kom fyrir dóminn og játaði brot sitt greiðlega fyrir dóminum. Er játning hennar í samræmi við önnur gögn málsins og verður hún sakfelld fyrir brot sitt en það er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda, hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærða krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist verjandi ákærðu þóknunar og að hún yrði greidd úr ríkissjóði. Um málavexti vísast til ákæruskjals.
Samkvæmt sakarvottorði sem liggur frammi í málinu hefur ákærða ekki verið gerð refsing áður.
Í matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja-og eiturefnafræðum kemur fram að í blóði ákærðu hefði mælst amfetamín 180ng/ml.
Refsing ákærðu er ákveðin 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærðu ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í sex daga. Þá ber að svipta ákærðu ökuleyfi í fjóra mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Samkvæmt yfirliti er sakarkostnaður vegna lyfjarannsókna og matsgerðar 104.631 krónur sem ákærða ber að greiða með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 auk þóknunar skipaðs verjanda hennar, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærða, Hulda Vilhjálmsdóttir, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja en sæti ella fangelsi í sex daga.
Ákærða er svipt ökurétti í fjóra mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði sakarkostnað 164.631 krónu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda hennar, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.