Hæstiréttur íslands

Mál nr. 206/2009


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Vigtun sjávarafla


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. desember 2009.

Nr. 206/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Ágústi Sigurlaugi Haraldssyni

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Vigtun sjávarafla.             

Á var ákærður fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar fyrir að hafa, eftir löndun úr skipinu Þ, ekið bifreið sinni með allan uppskipaðan afla úr skipinu frá skipshlið og fram hjá hafnarvigt, án þess að láta vigta aflann. Talið var sannað að umræddur afli hefði samkvæmt framburði vitna ekki verið minni en 350 kg. Þá var ekki fallist á það með Á að það gæti helgast af langri venju að taka þetta aflamagn fram hjá vigt til að færa starfsfólki í landi. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og sektarákvörðun staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Ákærði, Ágúst Sigurlaugur Haraldsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 205.652 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2008 .

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 15. ágúst 2008 á hendur ákærðu, Ágústi Sigurlaugi Haraldssyni, Hrafnakletti 8 í Borgarnesi, og A, heimilisfang [...] Málið var dómtekið 10. nóvember 2008.

Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærðu fyrir brot á lögum og reglugerðum um stjórn fiskveiða og um umgengni um nytjastofna sjávar framin á Akranesi 6. maí 2008 „með eftirgreindri háttsemi:

I.

Á hendur Ágústi Sigurlaugi Haraldssyni:

Sem útgerðarmanni Þjóðbjargar GK-110, skipaskráningarnúmer 1958, og fyrirsvarsmanni fyrirtækisins Þjóðbjörg ehf., eftir löndun úr skipinu í Akraneshöfn ekið á bifreiðinni OV-612 með allan uppskipaðan afla úr skipinu frá skipshlið og fram hjá hafnarvigt á Akranesi, án þess að láta vigta aflann á hafnarvigtinni, og að fiskvinnslu fyrirtækis ákærða að Sólbakka 9, Borgarnesi.

Áætlaður afli nefnt sinn nam allt að 200 kíló af ýsu, 100 kíló af þorski, 80 kíló af steinbít, 15-20 kíló af skötu og 30 kíló af keilu, samtals allt að 430 kíló.

Telst háttsemin samkvæmt I. lið ákæru varða við 10. gr., sbr. 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 23. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 með áorðnum breytingum, sbr. 1. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla með áorðnum breytingum.

II.

Á hendur ákærða A:

Fyrir að hafa sem skipstjóri Þjóðbjargar G-110 vanrækt að færa í afladagbók áskildar upplýsingar um veiðiferðina 6. maí 2008 og ekki tryggt að sá afli sem I. liður ákæru tilgreinir færi á hafnarvigtina á Akranesi eftir uppskipun í Akraneshöfn þannig að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann bárust ekki vigtarmanni en aflann flutti meðákærði Ágúst á bifreið sinni framhjá hafnarvigt eins og I. liður ákæru tilgreinir.

Telst háttsemi samkvæmt II. lið ákærunnar varða við 17. gr., sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, 5. gr., 6. gr., 1. mgr. og 3. mgr. 9. gr., sbr. 23. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 með áorðnum breytingum, sbr. 2. gr., 6. gr. og 7. gr., sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 557/2007 um afladagbækur og 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 6. gr. og 7. gr., 1. mgr. 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Ákærðu gera báðir þá kröfu að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Til vara krefjast ákærðu þess að þeim verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa.

1.

Hinn 6. maí 2008 voru veiðieftirlitsmennirnir Rúnar Jónsson og Þorsteinn Einarsson að störfum í Akraneshöfn. Um kl. 17.30 veittu þeir því athygli að Þjóðbjörg GK-110 kom til hafnar og lagðist við flotbryggju án þess að fara undir löndunarkrana. Í áhöfn bátsins var ákærði A, sem var skipstjóri, og B og fóru þeir strax í land þegar báturinn hafði lagst við bryggju.

Í skýrslu veiðieftirlitsmanna segir að þeir hafi fengið lykla að flotbryggju hjá hafnarverði og farið um borð í bátinn. Þar hafi verið afli í fjórum körum í lestinni, mis mikið í hverju kari. Eitt karið hafi verið sem næst fullt af blönduðum afla að mestu ýsa, í öðru kari hafi verið um 150 kg af steinbít, í þriðja karinu um 20 kg af smáýsu og í fjórða karinu um 30 kg af blönduðum afla. Fram kemur að veiðieftirlitsmennirnir hafi áætlað aflann 350 til 400 kg. Í skýrslunni er framhaldinu lýst þannig að bátsverjar hafi komið eftir skamma stund og sagt að útgerðarmaður ætlaði sjálfur að landa aflanum síðar um kvöldið. Einnig segir að veiðieftirlitsmennirnir hafi spurt um aflabrögð og þeir áætlað aflann 200 kg af ýsu, 150 kg af steinbít, 40–50 kg af þorski og 30 kg af tindabikkju.

Að morgni næsta dags hafði starfsmaður Akraneshafnar samband við Fiskistofu og tilkynnti að aflinn úr bátnum hefði verið fluttur á brott án þess að vera vigtaður á hafnarvog. Var þá haft samband við veiðieftirlitsmennina sem fóru að Sólbakka 9 í Borgarnesi, sem er starfstöð fyrirtækisins Þjóðbjargar ehf., er gerir út skipið. Jafnframt var kallað eftir aðstoð lögreglu við rannsókn málsins og fór hún einnig á vettvang.

Þegar lögreglu bar að hittust fyrir ákærði Ágúst og eiginkona hans, auk fimm starfsmanna útgerðarinnar, sem voru að flaka fisk, beinhreinsa og pakka í umbúðir. Var vinnslan stöðvuð um nokkra stund og magn afla kannað. Samkvæmt skýrslu lögreglu reyndist aflinn vera 61,81 kg af ýsu og 10 kg af löngu/keilu (roð- og beinlaust), 11,90 kg af ýsu (ósnyrt en án roðs), 28,40 kg af ýsu og 15,98 kg steinbítur (flakað), 60 kg steinbítur (óslægt) og 12,60 kg tindabikkja (börð).

Í þágu rannsóknar málsins var afladagbók bátsins könnuð og reyndist aflinn í veiðiferðinni ekki hafa verið færður í bókina.

2.

Fyrir dómi lýsti ákærði Ágúst málsatvikum þannig að meðákærði A hefði haft samband símleiðis þegar báturinn var á landleið úr umræddum róðri. Ákærði kvaðst þá hafa áttað sig á því að hann var með lykil að löndunarkrananum. Hann hefði því tekið að sér að sjá um löndun aflans, enda hefði hann átt erindi um kvöldið til Akraness.

Ákærði sagði að aflinn hefði verið mjög rýr og því hefði hann ákveðið að taka fiskinn í soðið fyrir sig og landfólkið í stað þess að færa aflann á vigt. Um magnið sagði ákærði að aflinn hefði verið um hálft kar, 360 lítra að stærð, en þyngd hans hefði verið á bilinu 180 til 230 kg. Nánar aðspurður sagðist ákærði telja að í aflanum hefðu verið 22 kg af tindabikkju, sex þorskar, 150 kg af ýsu, 2–3 keilur, 50–70 kg af steinbít og 3–5 kg af lúðu.

Ákærði vísaði til þess að fyrir því væri löng hefð að starfsfólk fengi að taka fisk í soðið án þess að sá afli væri færður á vigt. Í því sambandi benti ákærði á að togarasjómenn fengju að taka með sér kassa af fiski sem ekki væri vigtaður.

Ákærði sagðist ekki vita hver væri ástæða þess að meðákærði fyllti ekki út afladagbókina. Hann hefði borið því við að ekki hefði verið penni um borð, en það hefði ekki verið rétt.

Aðspurður sagði ákærði að sá afli sem var til vinnslu morguninn eftir, þegar veiðieftirlitsmenn og lögregla komu í starfsstöð útgerðarinnar, hefði að hluta til verið ýsa frá Bolungarvík og að nokkru leyti afli úr Þjóðbjörgu, sem verið var að vinna fyrir starfsfólkið.

3.

Ákærði A skýrði þannig frá atvikum fyrir dómi að hann hefði haft samband við meðákærða vegna löndunar áður en komið var til hafnar og þá hefði meðákærði sagt að hann myndi landa aflanum síðar um kvöldið. Kvaðst ákærði hafa treyst þessu og gert ráð fyrir að aflinn yrði færður á vigt. Þegar komið var í land sagði ákærði að hann og B, sem fór með í róðurinn, hefðu hitt veiðieftirlitsmenn og sagt þeim að útgerðarmaðurinn ætlaði sjálfur að landa. Einnig sagðist ákærði hafa aðspurður greint eftirlitsmönnunum frá aflabrögðum.

Ákærði sagði að aflinn í þessum róðri hefði verið um 350 til 400 kg án þess að ákærði gæti sundurliðað þyngd aflans eftir tegundum. Ákærði vísaði hins vegar til skýrslu sinnar hjá lögreglu 7. maí 2008 og taldi að þær upplýsingar sem hann gaf þá hefðu verið réttar. Við skýrslutökuna var haft eftir ákærða að aflinn hefði verið eitt plastkar eða um 200 kg af ýsu, hálft plastkar eða um 100 kg af þorski, um 80 kg af steinbít, 15–20 kg af skötu og 30 kg af keilu. Samtals hefði aflinn því verið allt að 430 kg. Nánar aðspurður fyrir dómi sagði ákærði að hann hefði áætlað magnið með því að bera saman stærð á körum, sem aflinn var geymdur í, og magnið í hverju kari.

Ákærði kvaðst hafa ætlað að færa aflann í afladagbók bátsins en engin skriffæri hefðu verið um borð. Því kvaðst ákærði hafa brugðið á það ráð að skrá og vista í farsíma sínum staðarákvörðun bátsins á þeim miðum þar sem aflinn var veiddur, auk veðurupplýsinga, sem færa ætti í afladagbók. Ákærða minnti að hann hefði síðan haft samband við meðákærða og beðið hann að færa þetta í bókina og hann hefði tekið það að sér. Aðspurður sagði ákærði að sér hefði væntanlega verið kleift með einhverju móti að útvega skriffæri þegar báturinn var kominn að landi.

4.

Vitnið B, sem fór í róðurinn með ákærða A, bar fyrir dómi að aflinn í umrætt sinn, miðað við stærð á körum, hefði verið um 350 til 400 kg, en mest hefði verið af ýsu. Aftur á móti taldi vitnið að frekar mætti byggja á upplýsingum sem hann gaf í skýrslu sinni hjá lögreglu 27. maí 2008, en þá sagði hann að aflinn hefði verið um 180 kg af ýsu, 130 kg af steinbít, 30 kg af þorski, eitthvað af keilu, skötu og kola og tvær lúður. Aðspurður fyrir dómi kvaðst B hafa nokkra reynslu af sjómennsku og sagðist vera vanur að áætla aflamagn. Þá sagði B að ákærði A hefði haft samband við ákærða Ágúst, sem hefði ætlað að annast löndum aflans, og því hefði hann og ákærði A gengið út frá að aflinn færi á vigt. Einnig sagði vitnið að skriffæri hefðu ekki verið um borð og því hefði ákærði A brugðið á það ráð að skrá hjá sér í farsíma upplýsingar til að færa í afladagbók. Þessum upplýsingum hefði hann síðan komið til ákærða Ágústs til að færa í bókina.

Vitnið Rúnar Jónsson, veiðieftirlitsmaður, greindi frá því fyrir dómi að hann og starfsfélagi hans, Þorsteinn Einarsson, hefðu séð bátinn koma siglandi inn í höfnina. Vitnið sagði að þeir hefðu reiknað með að báturinn myndi landa, en honum hafi verið lagt beint við bryggju og bátsverjar farið í land. Framhaldinu lýsti vitnið þannig að farið hefði verið um borð og þar hefði verið nokkur afli. Þegar bátsverjarnir snéru aftur hefðu þeir sagt að útgerðarmaðurinn hefði gefið þeim fyrirmæli um að yfirgefa bátinn þar sem hann myndi sjá um löndunina. Morguninn eftir hefði síðan hafnarvörður hringt í Fiskistofu og tilkynnt að báturinn væri búinn að landa en aflinn hefði ekki verið vigtaður. Aðspurður um aflann taldi Rúnar að hann hefði verið á bilinu 350 til 400 kg, en bátsverjarnir hefðu gefið upp svipað magn þegar rætt var við þá. Einnig sagði vitnið að aflinn hefði verið flokkaður að einhverju marki í fjögur kör.

Vitnið Þorsteinn Einarsson, veiðieftirlitsmaður bar í öllum meginatriðum á sama veg um málsatvik og starfsfélagi hans, Rúnar Jónsson. Varðandi magnið um borð sagði Þorsteinn að það hefði verið hátt í 400 kg. Aflinn hefði verið flokkaður í fjögur kör og mest hefði verið af ýsu. Einnig sagði vitnið að bátsverjar hefðu sagt að aflamagnið væri nærri þessu eða um 350 til 400 kg.

Vitnið C gaf skýrslu fyrir dómi, en hann starfar við að beita hjá fyrirtæki ákærða Ágústs. Vitnið kvaðst hafa farið með ákærða að sækja aflann til Akraness, en vitnið taldi að afinn hefði verið um 200 kg. Mest hefði verið af ýsu og mikið af tindabikkju, en einnig hefði verið keila, steinbítur og lítilræði af þorski. Aðspurður sagði C að aflinn hefði ekki farið á vigt heldur verið gefinn starfsfólki en vitnið, sem þá starfaði ekki hjá ákærða, kvaðst hafa fengið eitthvað af fiski.

5.

Samkvæmt 5. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, skal öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnun sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Einnig segir í 1. mgr. 6. gr. laganna að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Þá segir í 1. mgr. 9. gr. laganna að skipstjóra fiskiskips sé skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega. Jafnframt skal ökumaður sem flytur óveginn afla, aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Efnislega samhljóða ákvæði er að finna í I. kafla reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla, nr. 224/2006.

Ákærði Ágúst hefur skýrt svo frá fyrir dómi að hann hafi annast löndun aflans í umrætt sinn úr Þjóðbjörgu GK-110. Um magnið sagði ákærði að það hefði verið á bilinu 180 til 230 kg, en mest hefði verið af ýsu. Á sama veg hefur borið vitnið C, sem fór með ákærða að sækja aflann, en hann taldi magnið hafa verið 200 kg. Við mat á sönnunargildi vitnisburðar C er til þess að líta að hann er starfsmaður ákærða Ágústs. Andspænis þessu stendur frásögn ákærða A, sem var skipstjóri á bátnum, en hann hefur sagt að aflinn í veiðiferðinni hafi verið 350 til 400 kg. Á sama veg hefur borið vitnið B, sem fór í róðurinn með ákærða. Þá hafa veiðieftirlitsmennirnir Rúnar Jónsson og Þorsteinn Einarsson borið að aflinn hafi verið allt að 400 kg. Að virtum þessum samhljóða framburði ákærða A og nefndra þriggja vitna, sem hafa reynslu af því að leggja mat á afla, er sannað að aflinn hafi ekki verið minni en 350 kg. Aftur á móti verður því ekki slegið föstu að aflinn hafi verið meiri. Þá liggur fyrir í málinu að mest var af ýsu í aflanum.

Ákærði Ágúst hefur borið fyrir sig að hann hafi talið aflann rýran og því hafi hann ákveðið að færa ekki fiskinn á vigt heldur taka hann í soðið fyrir sig og starfsfólk í landi. Á því leikur engin vafi að færa bar þann afla sem veiddist í róðrinum á vigt samkvæmt þeim reglum sem hér hafa verið raktar. Verður ekki fallist á það með ákærða að það geti helgast af langri venju að taka þetta aflamagn fram hjá vigt til að færa starfsfólki útgerðarinnar, ef slík heimild verður á annað borð talin fyrir hendi. Með því að aka ekki aflanum að hafnarvog braut ákæri því gegn 10. gr., sbr. 5. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, og 8. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 224/2006. Hefur ákærði því bakað sér refsiábyrgð samkvæmt 23. gr. laganna.

Ákærði A hefur borið fyrir dómi að ákærði Ágúst hafi sagt við sig að hann ætlaði að landa aflanum úr bátnum. Þetta hefur ákærði Ágúst staðfest og sagt ástæðuna hafa verið þá að hann hafi verið með lykil að löndunarkrananum. Að þessu gættu þykir ákærði A hafa mátt treysta því að ákærði Ágúst, sem bæði á og rekur fyrirtækið er gerir út bátinn, færi að settum reglum við löndun aflans. Er þá einnig til þess að líta að ákærði leyndi engu og hafði greint veiðieftirlitsmönnum frá aflanum, en þeir hafa báðir staðfest fyrir dómi að upplýsingar ákærða um aflamagn hafi verið svipað og þeir sjálfur töldu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að ákærði A hafi vanrækt starfsskyldur sínar við löndunina og verður hann sýknaður af þessu ákæruatriði.

Ákærði A færði ekki afladagbók bátsins eins og honum bar samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga 57/1996, 1. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. reglugerðar um afladagbækur nr. 557/2007. Í þeim efnum breytir engu þótt skriffæri hafi ekki verið um borð, enda var ákærða í lófa lagið að verða sér úti um þau þegar í land var komið, svo sem hann hefur kannast við fyrir dómi. Þá hvíldi skylda á honum sjálfum sem skipstjóra að færa afladagbókina og verður hann að bera ábyrgð á því að það fórst fyrir. Með þessu hefur ákærði A unnið sér til refsingar samkvæmt 23. gr. laga nr. 57/1996 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 116/2006.       

6.

Samkvæmt sakavottorðum er hvorugur ákærðu með brot á sakaskrá sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar.

Refsing ákærða Ágústs þykir hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Refsing ákærða A þykir hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

Í málinu hefur ekki fallið til annar sakarkostnaður en málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu. Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, verður ákærða Ágústi gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns. Ákærða A, sem hefur að hluta til verið sýknaður, verður gert að greiða helming málsvarnarlauna verjanda síns en að öðru leyti falla málsvarnarlaunin á ríkissjóð. Sama á við um ferðakostnað verjandans.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði Ágúst Sigurlaugur Haraldsson greiði 600.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði A greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

Ákærði Ágúst greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Inga Tryggvasonar, héraðsdómslögmanns, 223.104 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði A greiði helming málsvarnarlauna verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar, héraðsdómslögmanns, 278.880 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og sama hlutfall af útlögðum ferðakostnaði verjandans, 15.400 krónur.