Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamsárás
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005. |
|
Nr. 305/2004. |
Hafsteinn Gunnarsson(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamsárás. Líkamstjón.
Í var sýknað af kröfu H um bætur á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Tókst H ekki að sanna að axlarbrot sem hann hlaut væri afleiðing líkamsárásar á hann sem Þ hafði verið sakfelldur fyrir. Hafði Þ aðeins verið ákærður fyrir að sparka í enni H með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga á vinstra auga, blóðnasir og skrámaðist og marðist í andliti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2004. Hann krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun, sem bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota tók 30. apríl 2003, og stefndi dæmdur til að greiða sér 1.253.740 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 8. apríl 2000 til 20. desember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2004.
I
Mál þetta sem dómtekið var 9. júní 2004 var höfðað 5. desember 2003. Stefnandi er Hafsteinn Gunnarsson, kt. 120749-6419, Fagrahjalla 11, Kópavogi, en stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, sem tekin var 30. apríl 2003, verði felld úr gildi og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.253.740 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 8. apríl 2001 til 20. desember 2001, en frá þeim degi ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda og að í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.
II
Málavextir eru þeir að 8. apríl 2000 kl. 4.28 var lögreglan kvödd að Hafnarstræti 9, Reykjavík vegna slagsmála fyrir utan veitingastaðina Píanóbarinn og Maxim´s. Kemur fram í frumskýrslu lögreglunnar að hún hafi farið á staðinn og fyrir utan Píanóbarinn við Hafnarstræti hafi staðið Þorleifur Jón Brynjarsson sem hafi viðurkennt að hafa sparkað í enni stefnanda. Er í skýrslunni haft eftir Þorleifi Jóni að hann hafi verið í biðröð við Píanóbarinn þegar stefnanda hafi verið hent út af veitingastaðnum. Stefnandi hafi svo gripið í skyrtu Þorleifs Jóns þegar honum var hent út og við það hafi tölur rifnað af skyrtunni. Hafi hann orðið reiður því skyrtan hafi verið ný. Stefnandi hafi svo komið til baka og reynt að slá hann en þá hafi Þorleifur Jón snúið hann niður og sparkað í enni hans. Hafi hann sérstaklega passað sig á því að sparka aðeins í enni hans því þá myndi hann líklega bara rotast en ekki skaðast. Þorleifur Jón vildi að það kæmi fram að stefnandi hefði verið með blóðnasir þegar honum var hent út af veitingastaðnum en í skýrslunni kemur fram að dyravörður hafi ekki kannast við að svo hafi verið.
Í frumskýrslunni kemur einnig fram að vitnið Haraldur Björnsson hafi sagt að hann hefði staðið í dyrum Maxim´s veitingastaðarins, sem er næsti staður við Píanóbarinn, og hafi hann horft á árásina. Er haft eftir honum að stefnandi hafi verið að rífast við fólk á vettvangi þegar hann hafi fallið niður. Þorleifur Jón hafi þá komið hlaupandi og sparkað í höfuð stefnanda þar sem hann lá. Hafi sparkið verið fast því höfuð stefnanda hafi lyfst hátt upp við sparkið.
Þá kemur einnig fram í frumskýrslu lögreglunnar að stefnandi hafi legið í götunni þegar lögreglan kom á staðinn og hafi hann verið mjög ölvaður og illa áttaður. Hafi reynst erfitt að ná sambandi við hann. Hann hafi verið með blóðnasir, bólginn í kringum vinstra auga auk þess sem blætt hafi úr sári á hægra gagnauga. Var stefnandi fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til skoðunar.
Stefnandi kærði líkamsárásina þann 10. mars 2000 og kemur fram í skýrslu hans hjá lögreglu að hann hefði drukkið áfengi umrætt kvöld en hann hafi ekki verið ofurölvi. Mundi stefnandi lítið sem ekkert eftir atburðinum. Stefnandi kom fyrir dóm og staðfesti það sem hann hafði borið hjá lögreglu en bætti því við að honum finnist að sér hafi verið skellt í götuna og að sparkað hafi verið í hann ótæpilega bæði í höfuð og líkama. Hann hafi ekki verið ofurölvi en vel gæti verið að hann hafi verið vankaður eftir árásina. Þá kom fram hjá stefnanda að lögreglan hefði sagt honum að atburðurinn hefði verið tekinn upp á myndband. Við meðferð málsins kom í ljós að upptökur úr eftirlitskerfi lögreglunnar höfðu ekki verið varðveittar.
Þann 5. desember 2000 tók lögreglan skýrslu af Gissuri Erni Gunnarssyni samkvæmt ábendingu Þorleifs Jóns. Hann kvaðst hafa verið á vettvangi ásamt Þorleifi Jóni. Hafi þeir verið nýstignir út úr eðalvagni þegar stefnandi, sem hafi verið mjög drukkinn, hafi veist að þeim. Hann hafi varla staðið í fæturna og verið illskiljanlegur auk þess sem hann hafi kallað að þeim alls kyns ókvæðisorðum. Hann hafi hagað sér leiðinlega og verið uppáþrengjandi. Kvaðst Gissur Örn hafa stjakað rólega við stefnanda er hann fór inn á Píanóbarinn. Við það hafi stefnandi farið utan í Þorleif Jón og síðan hafi hann dottið. Hafi stefnandi gripið í Þorleif Jón og við það hafi Þorleifur Jón einnig dottið. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við blóð á stefnanda. Eftir þetta hafi Þorleifur Jón staðið á fætur og blótað og talað um að búið væri að rífa skyrtuna hans. Stefnandi hafi hins vegar legið á bakinu hreyfingarlaus í talsverðan tíma eftir fallið. Stefnandi hafi síðan verið að snúa sér og verið kominn á hliðina þegar Þorleifur Jón hafi komið hlaupandi og sparkað í höfuð stefnanda. Hafi stefnandi ekki getað varist sparkinu og virst liggja rotaður eftir.
Þann 20. febrúar 2001 var tekin skýrsla af vitninu Haraldi Björnssyni hjá lögreglu en hann var að vinna sem dyravörður á veitingahúsinu Maxim´s umrædda nótt. Hann bar að hann hefði veitt því athygli að stefnanda hafi verið meinaður aðgangur að Píanóbarnum. Hafi stefnandi verið mjög ölvaður en ekki verið með ólæti. Hann kvaðst síðan hafa gengið í átt að stefnanda til að varna honum inngöngu á Maxim´s sökum ölvunarástands hans. Hafi hann verið í um það bil tveggja til þriggja metra fjarlægð frá honum þegar stefnandi hafi skyndilega fallið í jörðina án þess að nokkur ætti þar hlut að máli og kvaðst hann hafa dregið þá ályktun að fall stefnanda orsakaðist af ölvunarástandi hans. Hafi stefnandi borið fyrir sig hendurnar við fallið. Skyndilega hafi umræddur Þorleifur Jón komið aðvífandi og sparkað mjög fast í höfuð stefnanda. Við það hafi höfuð hans lyfst hátt og síðan skollið í gangstéttina aftur. Hafi hann talið að sparkað hefði verið af alefli. Þegar stefnandi lá þarna hreyfingarlaus eftir sparkið hafi hann ákveðið að hringja á neyðarlínuna. Kvað Haraldur árásina hafa verið tilefnislausa og hrottafengna.
Vitnið Haraldur kom fyrir dóminn og bar mjög á sömu lund og hann gerði hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa séð stefnanda koma og hafi hann verið mjög ölvaður. Hann hafi svo fallið í götuna án þess að nokkur ætti þar hlut að máli. Hafi hann lent á bakinu. Taldi hann ólíklegt að stefnandi hefði brotið öxl við það fall. Þegar síðan stefnandi var að reyna að velta sér við hafi árásarmaðurinn sparkað í höfuð hans mjög fast og hafi sparkið lent í andlitinu og hafi undist upp á stefnanda við sparkið. Taldi hann að vel gæti verið að tá árásarmannsins hefði lent á öxl stefnanda.
Samkvæmt læknisvottorði Leifs Jónssonar kom stefnandi á slysadeild eftir árásina og var hann verulega ölvaður og ekki sérlega samvinnuþýður. Hafi hann talið að dyravörður á Píanóbarnum hefði ráðist á sig að tilefnislausu, kýlt hann þannig að hann hafi fallið í götuna og síðan sparkað í höfuð sér. Taldi hann sig hafa misst meðvitund við þetta eða vankast. Við skoðun kom í ljós að stefnandi var með glóðarauga vinstra megin og kúlu á enni. Þá var hann skrámaður víða í andliti og með blóðnasir. Stefnandi fann fyrir verkjum í öxl og var tekin röntgenmynd af henni. Sýndi röntgenmynd að öxlin var brotin.
Stefnandi óskaði eftir mati Atla Þórs Ólasonar bæklunarlæknis á meintum afleiðingum árásarinnar á heilsu hans að teknu tilliti til skaðabótalaga, nr. 50/1993. Vegna matsins fór fram viðtal og skoðun á læknisstofu matslæknisins þann 10. september 2001. Niðurstöðu örorkumatsins er að finna í matsgerð 11. október 2001. Er það niðurstaða matsgerðarinnar að stefnandi hafi hlotið mjúkáverka á andliti, háls og vinstri mjöðm, sem jöfnuðu sig. Þá segir að stefnandi hafi hlotið áverka á vinstri öxl sem reyndist brotin á axlartrjónu (tuberculus majus). Eftir hafi stefnandi skerta, sársaukafulla hreyfingu í vinstri öxl með minnkaðri álagsgetu og vægri rýrnun axlarvöðva. Varanlegan miska og hefðbundna læknisfræðilega örorku metur hann 8% vegna þessa. Þá metur hann óvinnufærni 50% í þrjá mánuði og þjáningar skv. 3. gr. skaðabótalaga í sama tíma og óvinnufærni.
Í kjölfar þess að örorkumat lá fyrir var kröfubréf ritað árásarmanninum, Þorleifi Jóni Brynjarssyni, þar sem hann var krafinn um greiðslu bóta vegna meints tjóns sem stefnandi hafi hlotið í árásinni samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar læknis. Þar sem ekki var orðið við áskorun um greiðslu kröfunnar sendi lögmaður stefnanda þann 20. nóvember 2001 kröfu til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995.
Þann 29. janúar 2002 tilkynnti lögreglustjórinn í Reykjavík stefnanda og lögmanni hans þá ákvörðun að fallið væri frá saksókn á hendur Þorleifi Jóni Brynjarssyni. Var það mat embættisins að ólíklegt verði að teljast að hægt verði að færa fram sönnur fyrir því að aðrir áverkar en þeir sem stefnandi hlaut í andliti verði raktir til háttsemi hins kærða.
Samkvæmt ákvörðun bótanefndar 9. apríl 2002 þóttu framlögð gögn ekki veita vísbendingu um á hvern hátt stefnandi hlaut hinn varanlega áverka. Taldi nefndin ekki leitt í ljós að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni vegna brots á almennum hegningarlögum að öðru leyti en það sem fram væri komið um mar á andliti. Þar sem ekki væri sýnt fram á að tjón vegna andlitsmarsins væri umfram lágmarksfjárhæð tjóns samkvæmt lögum nr. 69/1995 væri bótum hafnað. Áður hafði lögreglan fallið frá saksókn á hendur Þorleifi Jóni Brynjarssyni.
Stefnandi féllst ekki á niðurstöðu bótanefndar því hann taldi að tjón hans væri langt umfram umrætt lámark. Þá var hann ósáttur við þá ákvörðun lögreglu að falla frá saksókn á hendur Þorleifi Jóni. Af þeirri ástæðu kærði stefnandi ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík til Ríkissaksóknara. Niðurstöðu Ríkissaksóknara er að finna í bréfi til Lögreglustjórans í Reykjavík 19. febrúar 2002 þar sem felld var úr gildi ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík að falla frá saksókn í málinu.
Í kjölfar niðurstöðu bótanefndar 9. apríl 2002, óskaði lögmaður stefnanda eftir endurupptöku málsins hjá nefndinni auk þess sem því var mótmælt að krafa stefnanda næði ekki lágmarki samkvæmt lögum nr. 69/1995. Með bréfi nefndarinnar 24. apríl 2002 var fallist á beiðni um endurupptöku málsins hjá bótanefndinni. Frekari aðgerðum af hálfu bótanefndar var frestað fram til þess að niðurstaða lægi fyrir í sakamálinu á hendur Þorleifi Jóni.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. apríl 2002 var Þorleifur Jón Brynjarsson sakfelldur fyrir að hafa sparkað í enni stefnanda með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga á vinstri auga, blóðnasir og skrámaðist og marðist í andliti. Taldist sú háttsemi varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hann hafði játað brot sitt fyrir dóminum eins og því var lýst í ákæruskjali.
Endanlega niðurstöðu bótanefndar er að finna í áliti nr. 131/2001 frá 30. apríl 2003. Þar er vísað til dómsins á hendur Þorleifi Jóni og áréttað að dómurinn sýni hins vegar ekki fram á að brot á axlartrjónu sé afleiðing brots Þorleifs Jóns. Hafi því ekki verið færð fram gögn er sýni að axlarbrot stefnanda sé afleiðing af broti gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Með vísan til þessara röksemda þótti bótanefnd ekki ástæða til að hagga fyrri ákvörðun sinni frá 9. apríl 2002 og hafnaði því greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995. Snýst ágreiningur máls þessa um réttmæti þessarar niðurstöðu bótanefndarinnar.
III
Stefnandi kveðst ósáttur við niðurstöðu bótanefndar að hafna greiðslu bóta. Fyrir liggi afstaða matslæknis um að stefnandi hafi við líkamsárásina hlotið áverka á öxl. Þá kveður stefndi algerlega litið fram hjá þeirri staðreynd sem fram komi í forsendum álits nefndarinnar frá 30. apríl 2003, að Þorleifur Jón Brynjarsson hafi viðurkennt fyrir lögreglu á vettvangi að hafa snúið stefnanda niður og í kjölfarið sparkað í enni hans. Þannig liggi fyrir játning árásarmannsins sem hvergi fái umfjöllun í áliti nefndarinnar. Ljóst megi vera að áverkann á öxl stefnanda megi rekja til þessa atviks. Sú ákvörðun Lögreglustjórans í Reykjavík að ákæra eingöngu vegna sparks í andlitið breyti ekki þessari staðreynd. Telur stefnandi í ljós leitt að um hafi verið að ræða slíkan ásetning eða gáleysi af hálfu Þorleifs Jóns Brynjarssonar að verknaðurinn varði við ákvæði almennra hegningarlaga.
Stefnandi byggir á því að axlarmeiðsl hans hafi orðið af völdum Þorleifs Jóns Brynjarssonar í umræddri árás. Það sé því ljóst að um skaðabótaskylt atvik hafi verið að ræða. Liggi þannig ljóst fyrir að líkamstjón hans verði leitt af refsiverðri háttsemi Þorleifs Jóns, sem hvað sem öðru líði falli undir 219. gr. almennra hegningarlaga. Bótaskilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995, sbr. “9. gr.”, sé því fullnægt og hafi bótanefnd því borið að verða við kröfu stefnanda. Hafi ákvörðun bótanefndar því verið ólögmæt og beri að fella niður ákvörðun hennar með dómi.
Þá sé þess krafist að bótanefnd verði gert skylt að greiða stefnanda umkrafða bótakröfu sem sundurliðist þannig:
|
1. Bætur skv. 2. gr. skbl kr.175.000 x 3 mánuðir |
kr. 525.000 |
|
2. Bætur skv. 3. gr. skbl 90 x 970 |
kr. 87.300 |
|
3. Bætur skv. 4. gr. skbl 8% af kr. 5.518.000 |
kr. 441.440
|
|
4. Bætur skv. 26. gr. skbl |
kr. 200.000 |
|
|
kr. 1.253.740 |
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 skuli greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá því að tjón varð þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans sé orðið stöðugt. Samkvæmt matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis hafi stefnandi verið 50% óvinnufær í þrjá mánuði frá árásinni. Til grundvallar bótafjárhæð sé tekið mið af tekjum stefnanda þremur mánuðum fyrir árásina og tekjum stefnanda á tímabili óvinnufærni samkvæmt staðfestingu Jóns H. Skúlasonar, löggilts endurskoðanda, 18. október 2001. Samkvæmt henni hafi mánaðartekjur stefnanda lækkað úr 350.000 krónum í 175.000 krónur á umræddu tímabili.
Krafa stefnanda um þjáningabætur byggi á 3. gr. skaðabótalaga. Þjáningabætur honum til handa séu reiknaðar með hliðsjón af áðurgreindu mati Atla Þórs Ólasonar læknis. Samkvæmt því reiknist þjáningabætur fyrir tímabilið frá 8. apríl 2000 til 8. júlí 2000, án þess að vera rúmliggjandi. Fyrir hvern dag reiknist 960 krónur þann tíma er stefnandi hafi verið veikur í skilningi laganna. Hafi þá verið tekið tillit til verðlagsbreytinga samkvæmt lánskjaravísitölu í desember 2003 (4528 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Krafa stefnanda um miskabætur byggi á 4. gr. skaðabótalaganna og mati Atla Þórs Ólasonar læknis sem metið hafi varanlegan miska stefnanda 8%. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, 4.000.000 króna, uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í desember 2003 (4528 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga.
Þá sé gerð krafa um bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna sem þyki hóflega metnar að fjárhæð 200.000 krónur í ljósi þeirra alvarlegu áverka sem hlutust af árásinni.
Þá sé gerð krafa um 4,5% vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá þeim degi er árásin átti sér stað og allt fram til 20. desember 2001 eða mánuði frá því að kröfubréf 20. nóvember 2001 hafi verið sent bótanefnd. Dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi um kröfur sínar til almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur. Um málskostnað vísar hann til 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
IV
Stefndi kveður að í kæruskýrslu sinni hafi stefnandi ekki munað eftir að hafa hitt árásarmann sinn. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi Þorleifur Jón játað að hafa sparkað í andlit stefnanda en alfarið neitað að hafa fellt hann eða hrint honum í götuna. Lögreglan hafi svo yfirheyrt tvö vitni í þágu rannsóknar málsins. Vitnið Gissur Örn Gunnarsson hafi borið að hafa séð stefnanda falla á Þorleif Jón og grípa hann í fallinu þannig að báðir féllu í götuna. Vitnið Haraldur Björnsson hafi borið að hann hafi séð stefnanda falla skyndilega í götuna og án þess að nokkur bæri á því sök. Bæði þessi vitni kváðu stefnanda hafa verið mjög ölvaðan umrædda nótt eins og reyndar komi fram í frumskýrslu lögreglu og í læknisvottorði Leifs Jónssonar.
Af framburði framangreindra vitna hafi mátt ráða að ekki yrði unnt að færa á það sönnur að Þorleifur Jón hafi átt sök á axlarbroti stefnanda. Þannig hafi lögreglustjórinn í Reykjavík talið að ekkert hefði komið fram við rannsókn málins sem gerði sennilegt að Þorleifur Jón hefði hrint stefnanda í götuna eða ýtt við honum. Þá hafi verið talið að sú háttsemi Þorleifs Jóns að sparka í andlit stefnanda hefði trauðla getað valdið broti á handleggsbeini. Með hliðsjón af þessu, ásamt öðru tilgreindu, hafi lögreglustjóri talið eðlilegt að falla frá saksókn í málinu.
Telur stefndi að ráða megi af þeirri ákvörðun ríkissaksóknara, að fyrirskipa málshöfðun á hendur Þorleifi Jóni fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, að hann hafi metið rannsóknargögn málsins á þann hátt, að ekki hafi legið fyrir að Þorleifur hafi verið valdur að axlaráverkum stefnanda, enda hefði hann annars krafist ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. alm. hgl., eins og löng dómvenja sé fyrir þegar beinbrot er afleiðing líkamsárásar.
Stefndi telur fullyrðingu stefnanda, um að axlarmeiðsl stefnanda hafi orðið af völdum Þorleifs Jóns Brynjarssonar, vera ósannaða þar sem ekkert hafi enn komið fram við rannsókn atburðarins sem geri það sennilegt að Þorleifur Jón hafi hrint stefnanda í götuna eða ýtt við honum. Stefndi telur óljóst með hvaða hætti axlarmeiðsl stefnanda komu til og hver, ef einhver, hafi verið valdur að þeim. Líklegra sé að ölvunarástand stefnanda sjálfs ráði hér mestu um og á því ástandi beri stefnandi sjálfur ábyrgð. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 sér fortakslaust skilyrði greiðsluskyldu að tjón sé afleiðing af broti á almennum hegningarlögum. Þessi greiðsluforsenda sé ósönnuð og þess vegna beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 69/1995 krefst stefnandi þess að bótakrafa stefnanda verði lækkuð vegna eigin sakar hans sjálfs. Um eigin sök stefnanda vísist til ástands hans sjálfs og aðstæðna þegar atburðir þessir hafi átt sér stað. Stefnandi hafi verið mjög drukkinn og illa áttaður, af einhverju tilefni hafi honum verið vísað út af veitingastað og hann virðist hafa verið að rífast við einhvern þegar hann féll niður samkvæmt framburði vitnis. Þar að auki hafi hann lítið sem ekkert munað sjálfur frá atburðunum og sé því einfaldlega ekki til frásagnar um atburðarásina. Framburður hans sjálfs um meinta atburðarás séu því hreinar getgátur.
Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir við eiginlegt örorkumat Atla Þórs Ólasonar, læknis, sem liggi frammi í málinu. Mótmælt sé hins vegar þeim ályktunum sem stefnandi dragi af matinu, um að stefnandi hafi hlotið áverka á öxl við líkamsárásina. Áverkinn hafi vissulega verið fyrir hendi, en hvernig hann hafi komið til sé óupplýst. Matslæknirinn hafi ekki verið viðstaddur umdeilda atburði og stefnandi hafi sjálfur ekki getað sagt frá þeim sökum ölvunar. Vitni hafi verið til frásagnar en þau styðji ekki frásögn stefnanda. Sama eigi við um framburð Þorleifs Jóns Brynjarssonar.
Tölulegri kröfugerð stefnanda sé mótmælt sem og dráttarvaxtakröfum. Sérstaklega mótmælir stefndi tímabundnu atvinnutjóni og bótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Stefndi telur engar lagaforsendur til þess að verða við þessum kröfuliðum. Varðandi málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna með nánar tilteknum skilyrðum. Samkvæmt 7. gr. laganna skulu bætur vegna einstaks verknaðar ekki greiddar nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 krónur eða hærri. Óumdeilt er að líkamstjón stefnanda, sem metið var af Atla Þór Ólasyni lækni, er vegna brots á öxl stefnanda en aðilar deila um það hvort axlabrotið sé afleiðing líkamsárásar Þorleifs Jóns Brynjarssonar á stefnanda.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavikur 24. apríl 2002 var Þorleifur Jón Brynjarsson sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 fyrir að sparka í enni stefnanda með þeim afleiðingum að hann hlaut glóðarauga á vinstra auga, blóðnasir og skrámaðist og marðist í andliti. Hann var ekki ákærður fyrir að hafa valdið því að stefnandi axlarbrotnaði þar sem ákæruvaldið taldi sig ekki geta fært sönnur á að hann bæri ábyrgð á því.
Samkvæmt gögnum málsins ber þeim, sem voru á vettvangi þegar Þorleifur Jón sparkaði í stefnanda umrædda nótt, ekki allskostar saman um málavexti. Stefnandi sjálfur man lítið eftir atburðinum.
Vitnið Haraldur Björnsson kom fyrir dóminn og bar á svipaða lund og hann hafði gert hjá lögreglu. Kom fram hjá honum að stefnandi hefði fallið aftur á bak á götuna og borið fyrir sig hendurnar áður en Þorleifur Jón kom aðvífandi og sparkaði í andlit hans þar sem hann lá í götunni og var að reyna að snúa sér við. Vitnið var að vinna sem dyravörður þetta kvöld og var ekki undir áhrifum áfengis. Hann lýsti því að stefnandi hefði virst ofurölvi og taldi að hann hefði fallið í götuna vegna ölvunarástands hans. Vitnið Gissur Örn, félagi Þorleifs Jóns, gaf skýrslu hjá lögreglu og taldi stefnanda hafa dottið í götuna og tekið Þorleif Jón með sér í fallinu.
Af gögnum málsins þykir ljóst að stefnandi var mjög drukkinn þegar umdeildur atburður átti sér stað. Fær það stuðning í vottorði læknisins Leifs Jónssonar, skýrslu lögreglu sem kom á vettvang auk vitnisburðar Gissurar Arnar hjá lögreglu og framburði vitnisins Haraldar.
Framburður vitnisins Haraldar þykir trúverðugur um atburðarrásina en hann var að vinna og horfði á atburðarrásina. Eins og rakið hefur verið lýsti vitnið því að stefnandi hafi vegna ölvunarástands dottið aftur fyrir sig og borið fyrir sig hendur. Framburður Gissurar Arnar hjá lögreglu staðfestir að stefnandi féll aftur fyrir sig. Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir Þorleifi Jóni að hann hafi snúið stefnanda niður vegna þess að hann hafi ætlað að slá hann. Ekki hefur verið lögð fram í málinu skýrsla undirrituð af Þorleifi Jóni þar sem hann lýsir þessu yfir og hann kom ekki fyrir dóminn. Þá liggur fyrir bréf lögreglustjórans í Reykjavík 28. júní 2002 þar sem kemur fram að í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi Þorleifur Jón játað að hafa sparkað í andlit stefnanda en neitað að hafa fellt hann eða hrint honum í götuna. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið eru engin haldbær gögn lögð fram í málinu um að Þorvaldur Jón hafi snúið stefnanda niður og óljóst með öllu hvernig sú háttsemi lýsti sér. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum þykir líklegasta skýringin á falli stefnanda vera ölvunarástand hans sjálfs.
Vangaveltur vitnisins Haraldar um það að ólíklegt sé að við fallið hafi stefnandi axlabrotnað eða að hugsanlegt sé að tá árásarmannsins hafi farið í öxl stefnanda þegar hann sparkaði í enni hans eru hins vegar aðeins getgátur vitnisins sem fá ekki stoð í gögnum málsins. Þvert á móti þykir alls ekki loku fyrir það skotið að stefnandi kunni að hafa axlabrotnað þegar hann féll afturábak án þess að nokkrum væri um að kenna og bar fyrir sig hendurnar. Hefur stefnandi því ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja það að Þorleifur Jón hafi verið valdur að því að stefnandi féll aftur fyrir sig eða að hann hafi með því að sparka í andlit stefnanda verið valdur að axlarbroti stefnanda. Verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki fært fram gögn sem sýna fram á svo ekki verði um villst að líkamstjón hans verði rakið til refsiverðrar háttsemi á grundvelli almennra hegningarlaga. Er því bótaskilyrðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1996 ekki fullnægt í máli þessu og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Geir Þórisson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Skarphéðinn Þórisson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hafsteins Gunnarssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.