Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 4. maí 2012. |
|
Nr. 302/2012. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2012 sem barst héraðsdómi og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að „beitt verði vægari úrræðum“. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 kl. 16:00.
Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður skemmri tími.
Kæran er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 194. gr. og 200.-202. gr. laganna.
Í kröfu lögreglustjórans og öðrum gögnum málsins kemur m.a. fram að lögreglustjóri hafi síðan miðvikudaginn 21. mars haft til rannsóknar meint kynferðisbrot kærða gegn stjúpdóttur sinni, A, kt. [...] og dóttur sinni, B, kt. [...].
A hafi komið á lögreglustöðina í [...] þann 21. mars sl. og lagt fram kæru á hendur kærða vegna meintra kynferðisbrota gegn henni frá því að hún var 11 ára gömul. Muni síðasta kynferðisbrot kærða gegn A, samkvæmt framburði A, hafa átt sér stað 14. mars sl. Samkvæmt lýsingum A sé um að ræða gróf kynferðisbrot sem hafi staðið yfir með reglubundnum hætti.
Sama dag hafi C, eiginkona kærða, mætt og lagt fram kæru gegn kærða fyrir kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur þeirra, B.
Rannsókn lögreglu hafi m.a. beinst að því að reyna að upplýsa umfang hinna meintu brota og hvort að brotin kunni að hafa verið framin af fleiri aðilum en kærða og hvort að hann eigi sér einhverja samverkamenn í brotum sínum. Í þessu skyni hafi lögregla m.a. tekið skýrslur af brotaþolum, kærða og vitnum er lögregla telji að kunni að tengjast málinu. Lögregla hafi unnið að því að bera framburði aðilanna saman við hvora aðra og að bera þá saman við þau gögn sem lagt hafi verið hald á við rannsókn málsins. Sé það mat lögreglu að framburðir brotaþolanna í málinu séu afar trúverðugir og að þeir styðji hvorn annan og gefi þannig raunsæja mynd af þeim brotum er kærða sé gefið að sök að hafa framið gegn stjúpdóttur sinni og dóttur. Þá séu framburðir brotaþolanna einnig í samræmi við ýmislegt sem fram hafi komið í framburði kærða sjálfs og annarra vitna í málinu.
Kærði hafi m.a. játað við yfirheyrslu þann 28. mars 2012 að hann hafi ítrekað brotið gegn A, stjúpdóttur sinni. Sé framburður kærða varðandi brot sín gegn stjúpdóttur sinni að ýmsu leyti í samræmi við framburð annarra aðila er gefið hafi skýrslur í málinu. Lögregla telji því ljóst að kærði hafi brotið gegn stjúpdóttur sinni og að þau brot kunni m.a. að varða við 194. gr. og 200.-202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hafi hins vegar neitað að hafa brotið gegn B dóttur sinni.
Þá hafi lögregla lagt hald á eftirfarandi hluti í eigu kærða: fartölvu, flakkara, harðan disk fyrir tölvu, þrjá usb minniskubba, tvö minniskort fyrir myndavélar og 24 geisladiska sem innihalda klámfengið efni. Lögregla vinni nú að því að rannsaka innihald þessara muna. Skoðun á þessum gögnum sé ekki lokið en við leit lögreglu hafi þegar fundist 459 ljósmyndir er sýni börn nakin og á kynferðislegan hátt. Þá hafi lögregla einnig fundið ljós- og kvikmyndir af nöktum unglingsstúlkum við kynferðislegar athafnir. Enn fremur hafi lögregla fundið ýmsar skrár er beri heiti sem lýsi losta föður, afa eða frænda í garð unglingsstúlkna.
Rannsókn þessa máls sé að mestu lokið en lögregla vinni að því að ljúka við rannsókn á innihaldi þeirra gagna sem hald hafi verið lagt á í málinu og séu á rafrænu formi.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa brotið með alvarlegum hætti gegn stjúpdóttur sinni og dóttur sinni og að þau brot hafi verið ítrekuð og staðið reglubundið yfir í yfir áratug, oft í hverri viku og jafnvel oftar en einu sinni á dag í sumum tilfellum.
Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. mars sl., þar af hafi kærði verið tvær vikur í einangrun. Sé lagt til grundvallar að um sé að ræða alvarleg og ítrekuð brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þá einkum 194. gr. og 200.-202. gr. laganna. Hin meintu brot kærða þyki mjög alvarleg. Með tilliti til hagsmuna almennings og brotaþola í málinu þyki lögreglu nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar. Sé það mat lögreglu að ef sakborningur gangi laus, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegum brotum og kærða sé gefið að sök og hafi þegar játað að hluta, geti það valdið hneykslun í samfélaginu og sært réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 562/2011 og 403/2011. Í málunum hafi sakborningum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þar sem að talið hafi verið að rökstuddur grunur hafi legið fyrir um að sakborningar hefðu framið sambærileg brot og um sé að ræða í því máli sem hér sé til meðferðar. Ekki sé ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir.
Fallist verður á með lögreglustjóra að sterkur grunur hafi komið fram við rannsókn málsins um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað meira en 10 ára fangelsi, sbr. 194. og 200.-202.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að meint brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð opinberra mála er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt og verður því krafa lögreglustjórans tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2012 kl. 16:00.