Hæstiréttur íslands

Mál nr. 91/2001


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof
  • Birting


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2001.

Nr. 91/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Kristni Jósef Grímssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Skilorðsrof. Birting.

K játaði að hafa í nokkur skipti stolið vörum úr verslun í Reykjavík. Héraðsdómur taldi að K hefði með brotum sínum rofið skilorð dóms frá 2. júní 1999. Var átta mánaða skilorðs­bundið fangelsi samkvæmt þeim dómi dæmt með og K gerð tólf mánaða fangelsisrefsing í einu lagi. Fyrir Hæstarétti krafðist K þess að ekki yrði hróflað við skilorði dómsins frá 1999 þar sem hann hefði ekki verið viðstaddur uppsögu dómsins og því væru ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga um að dómari skuli kynna dóm­fellda rækilega skilyrði fyrir frestun refsingar og gera honum ljósar afleiðingar skilorðs­rofa. Í dómi Hæstaréttar segir að umræddur dómur hafi verið birtur fyrir K áður en hann hafi framið brot þau, sem hann sé nú sakfelldur fyrir. Sú birting hafi farið fram fyrir gildistöku laga nr. 39/2000 um breyting á almennum hegningarlögum. Ekkert sé fram komið um að birtingunni hafi verið áfátt. Af hálfu K sé ekki haldið fram að hann hafi ekki verið kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu umrædds dóms. K verði því sjálfur að bera ábyrgð á því að dómara málsins hafi ekki verið unnt að brýna fyrir honum þau atriði, sem áður sé getið. Var héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta til og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, verði greiddur úr ríkissjóði.

Ákærði hefur gengist við sakargiftum í málinu. Er sakaferill hans rakinn í héraðsdómi, en eins og þar greinir hefur hann fimm sinnum verið dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu skilorðsbundið og fjórum sinnum rofið skilorð. Þá hefur ákvörðun refsingar í eitt sinn verið frestað skilorðsbundið. Verður refsing ákærða ákveðin með tilliti til þeirra atriða, sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi, en að auki með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Í dómi héraðsdóms var lagt til grundvallar að ákærði hefði með brotum sínum nú rofið skilorð dóms frá 2. júní 1999. Var átta mánaða skilorðsbundið fangelsi samkvæmt þeim dómi dæmt með og ákærða gerð tólf mánaða fangelsisrefsing í einu lagi. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var þess krafist af hálfu ákærða að ekki yrði hróflað við skilorði dómsins frá 1999. Því til stuðnings var teflt fram að ákærði hafi ekki verið viðstaddur uppsögu þess dóms og því væru ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 22/1955 og lög nr. 101/1976, um að dómari skuli kynna dómfellda rækilega skilyrði fyrir frestun refsingar og gera honum ljósar afleiðingar skilorðsrofa.

Fram er komið að dómurinn 2. júní 1999 var birtur ákærða 24. sama mánaðar og þar með áður en hann framdi þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir. Sú birting fór jafnframt fram fyrir gildistöku laga nr. 39/2000 um breyting á almennum hegningarlögum, en með þeim var nokkuð breytt áðurnefndri 4. mgr. 57. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal ákærði kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu héraðsdóms sé þess kostur. Sæki hann þing telst dómur þá birtur fyrir honum, en að öðrum kosti lætur ákærandi birta dóm samkvæmt 20. gr. sömu laga. Þeim, sem tekur við birtingu, skal afhent endurrit af dóminum sem birtur er í heild sinni.

Ekki er haldið fram af hálfu ákærða að hann hafi ekki verið kvaddur til að vera viðstaddur uppsögu dómsins 2. júní 1999. Ekkert er heldur fram komið um að birtingu hans 24. sama mánaðar hafi verið áfátt. Hlutverki dómara var samkvæmt þágildandi lögum lokið um leið og dómur var kveðinn upp á dómþingi, jafnvel þótt kynning á skilorði og afleiðingum skilorðsrofa hefði ekki getað farið fram vegna fjarveru dómfellda. Þegar þess er gætt, sem að framan er rakið, verður ákærði að bera sjálfur ábyrgð á því að dómara málsins var ekki unnt að brýna fyrir honum þau atriði, sem áður er getið. Að því virtu verður héraðsdómur staðfestur.

Ákærði skal greiða allan kostnað af áfrýjun málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristinn Jósef Grímsson, greiði allan kostnað af áfrýjun málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2001

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 19. desember 2000 á hendur ákærðu, A, Kristni Jósef Grímssyni, kt. 140378-5859, Álfheimum 68, og B, öllum til heimilis í Reykjavík, fyrir eftirtalda þjófnaði framda í félagi í versluninni 10-11, Grímsbæ, Efstalandi 26 í Reykjavík á árinu 2000:

I

Að kvöldi föstudagsins 12. maí stolið ýmsum vörum svo sem blómvendi, hreinlætis­vörum, matvörum, snyrtivörum, sælgæti, 2 kertum, 3 tímaritum og 471 sígarettu­pökkum, samtals að verðmæti kr. 182.184.

II

Í alls 4 skipti á tímabilinu frá því í mars og fram í maí stolið ýmsum vörum svo sem hreinlætisvörum, matvörum, snyrtivörum, sælgæti, 10 kertum og 37 sígarettupökkum, samtals að verðmæti kr. 85.972.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.

Í málinu gerir 10-11 hf., kt. 450199-3629 kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 83.880 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 13.05.2000 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

Við þingfestingu málsins í dag var þáttur ákærða Kristins Jósefs Grímssonar klofinn frá upphaflega málinu sem er nr. 2563/2000. 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Ákærði játaði skýlaust brot sín eins og þeim er lýst í ákæru og var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í mars 1978. Sakarferill hans hófst á árinu 1994, en eftir 18 ára aldur hefur hann fimm sinnum gengist undir sátt vegna umferðarlagabrota og brota gegn fíkniefnalöggjöfinni, síðast 25. október 1999. Hann hefur sex sinnum hlotið dóm. Fyrst hinn 17. október 1996 fyrir þjófnað og skjalafals skilorðsbundið 6 mánaða fangelsi, um var að ræða hegningarauka og skilorðsrof á frestun ákvörðunar refsingar frá 6. febrúar 1996. Hinn 11. nóvember sama ár var hann dæmdur fyrir þjófnað í skilorðsbundið 7 mánaða fangelsi um hegningarauka var að ræða. Hinn 30. maí 1997 var hann dæmdur fyrir líkamsárás en ekki gerð sérstök refsins, um hegningarauka var að ræða. Hinn 14. október 1997 var hann dæmdur fyrir tilraun til þjófnaðar, um skilorðsrof var að ræða og dómur frá 11. nóvember 1996 dæmdur með, var honum gert skilorðsbundið 7 mánaða fangelsi en skilorðstími ákveðinn 4 ár. Hinn 30. desember 1997 var hann dæmdur fyrir þjófnað, umferðalagabrot og fíkniefnabrot, var um hegningarauka að ræða í öllum tilvikum og skilorðsrof, honum var gert að sæta fangelsi í 10 mánuði en 7 mánuðir voru skilorðsbundnir til tveggja ára, síðast hlaut ákærði dóm 2. júní 1999 fyrir umferðarlagabrot og rangar sakargiftir var um skilorðsrof að ræða og hegningarauka, skilorðshluti dómsins frá 30. desember 1997 var tekinn upp og hann dæmdur til 8 mánaða fangelsisrefsingar, sem var skilorðbundin í tvö ár.

Ákærði hefur með broti sínu nú rofið framangreint skilorð og er dómurinn frá 2. júní 1999 því tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og ákærða gerð refsing í einu lagi samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega, að hluti þýfisins komst til skila og að hann hefur játað sig fúsan til að bæta tjónið sem af brotunum leiddi. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að ákærði hefur ítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, að hér var um fimm tilvik að ræða og all nokkur verðmæti og að hann framdi brotin í félagi við stúlkurnar A og B, en þær eru báðar þremur árum yngri og nægilega ungar til þess að tekið var tillit til aldurs þeirra við ákvörðun refsingar. Þegar allt þetta er virt þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Í ljósi sakarferils og ítrekaðra skilorðsrofa, þykir ekki koma til greina að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði skal greiða skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 25.000 krónur í málsvarnarþóknun.                                                                  

Ákærði greiði 10-11 hf., kt. 450199-3629, in solidum með A og B, sbr. mál S-2563/2000, skaðabætur að fjárhæð kr. 83.880 ásamt vöxum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 13. maí 2000 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Kristinn Jósef Grímsson, skal sæta fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði skal greiða skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 25.000 krónur í málsvarnarþóknun.                                                                  

Ákærði skal greiða 10-11 hf., kt. 450199-3629, in solidum með A og B, sbr. mál S-2563/2000, skaðabætur að fjárhæð kr. 83.880 ásamt vöxum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 13. maí 2000 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Hjördís Hákonardóttir.