Hæstiréttur íslands

Mál nr. 565/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 19. mars 2015.

Nr. 565/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X og

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Y

(Kristján Stefánsson hrl.)

Líkamsárás.

X og Y voru ákærðir fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að A og sparkað í höfuð hans og líkama með þeim afleiðingum að hann hlaut meðal annars heilahristing, hruflsár á enni, nefi og kinnbeinum og tognun á háls- og brjósthrygg. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að framburður þeirra tveggja vitna sem um væri að ræða hefði verið nokkuð misvísandi og óljóst væri hvort og þá hver ákærðu hefði sparkað í höfuð A. Þá hefði það vitni, sem teldi sig hafa séð X sparka í höfuð A, borið á þá leið að vitnið hefði verið drukkið, auk þess sem fram kom í framburði læknis fyrir dómi að höfuðáverkar A hefðu getað orsakast af öðrum ástæðum en spörkum í höfuð. Ennfremur hefðu áverkar A ekki verið verulegir. Var ekki talið að fram væri komin næg sönnun fyrir sekt X og Y svo yfir vafa væri hafið, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður og einkaréttarkröfu vísað frá dómi, en til vara að refsing hans verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

Ákærði Y krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara krefst hann sýknu. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

I

Af hálfu ákærða Y er höfð uppi krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun til nýrrar og löglegrar málsmeðferðar á þeirri forsendu að nauðsyn hafi borið til þess að dómur yrði fjölskipaður vegna þess að niðurstaða málsins réðist öðru fremur af mati á framburði ákærðu og vitna fyrir dómi. Í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að ef ákærði neiti sök og dómari telji sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Tilvitnað ákvæði felur í sér heimild en ekki skyldu til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem ákvæðið lýsir. Eins og málið liggur fyrir eru ekki forsendur til þess að hagga því mati að ekki hafi verið þörf á því að dómur í málinu væri fjölskipaður. Er kröfu ákærða Y um ómerkingu hins áfrýjaða dóms því hafnað.

II

Af hálfu ákæruvaldsins er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ósannað sé að ákærðu hafi slegið brotaþolann A „hnefahöggi“ og að brotaþoli hafi misst meðvitund umrætt sinn.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. ágúst 2012 veist að brotaþola á Laugavegi við Klapparstíg í Reykjavík og sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama með þeim afleiðingum að hann hlaut heilahristing, hruflsár á enni, nefi, kinnbeinum og fyrir neðan nef, bólgur yfir báðum augum, eymsli yfir nefrót og sár við nefrót, hrufláverka á höndum og baki og tognun á hálshrygg og brjósthrygg.

Í málinu er sannað að ákærðu og brotaþoli lentu í átökum umrætt sinn. Frásögn þeirra um tilurð átaka þeirra ber hins vegar ekki saman. Brotaþoli lýsti atburðum þannig að hellt hafi verið yfir hann bjór og þegar hann hafi freistað þess að ræða málið við þann sem það gerði hafi sá slegið sig hnefahöggi í andlitið. Árásamaðurinn hafi verið grófgerður, ljóshærður og fremur lágvaxinn. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir að hafa fengið högg á andlit og höfuð enda hafi hann að öllum líkindum misst meðvitund. Frásögn ákærðu er á hinn bóginn á þann veg að brotaþoli hafi átt upptökin að átökum þeirra og meðal annars slegið þá báða í andlitið. Þeir hafi hvorki slegið brotaþola í andlitið né sparkað í hann liggjandi en ákærði Y hafi ákærðu til varnar gripið utan um brotaþola og þeir fallið í framhaldinu í götuna.

Engin vitni voru að upphafi eða tildrögum átakanna en í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður þeirra B og C sem komu á vettvang eftir að þau hófust.

Í frumskýrslu lögreglu 19. ágúst 2012 var haft eftir vitninu B að hann hafi séð tvo menn ráðast á brotaþola og annan manninn sparka í höfuð hans. Mennirnir, sem síðan hafi hlaupið niður Hverfisgötu, hafi talað ensku með breskum hreim. B gat lýst öðrum manninum og taldi hann hafa verið í brúnum jakka og með svart skegg.

Hinn 29. ágúst 2012 gaf Bskýrslu hjá lögreglu. Þar kom fram að hann hafi  verið við þriðja mann að ganga niður Laugaveg. Þeir hafi orðið varir við áflog, maður hafi fallið í götuna og tveir menn byrjað að sparka meðal annars í höfuð hans. B kvaðst hafa skipt sér af þessu og hafi annar árásarmannanna verið mjög æstur og fullyrt að brotaþoli hefði ráðist á hann að tilefnislausu. Vitnið hafi hringt í lögreglu og maðurinn þá horfið af vettvangi og niður á Hverfisgötu. Vitnið gat lýst þessum manni og kvað hann hafa verið um 180 cm á hæð, dökkhærðan og talað ensku með breskum heim. Hann hafi verið með skegg í laginu „eins og kleinuhring“ og klæðst brúnum leður- eða flauelsjakka. Lýsti hann atvikum svo að „Maðurinn með kleinuhringinn sparkaði í höfuðið á honum og hinn sparkaði í hann, en ég veit ekki hvar.“ Þá kom eftirfarandi fram í niðurlagi skýrslunnar: „Ég get ekki fullyrt það en mig minnir að ég hafi séð fórnarlambið hlaupa að hinum aðilanum og einhver átök átt sér stað og þá hafi fórnarlambið fallið tilbaka og fallið í jörðina og þá komu hinir tveir og réðust á hann. Ég kom inn í miðja sögu og get ekki sagt til um hvernig átökin hófust.“ B gat ekki lýst hinum árásarmanninum og tók fram að hann hafi verið mjög ölvaður umrætt sinn.

Fyrir dómi lýsti B atvikum á þann hátt að hann hafi séð mann fara í götuna og ,,tvo menn sparka í hann og ég skipti mér af vegna þess að hann sparkaði í höfuðið á honum“. Hann kvaðst ekki hafa séð hvað varð til þess að brotaþoli datt en þetta hafi verið ,,einhvers konar áflog“. Aðspurður um hvar á líkama brotaþola höggin hafi dunið kvaðst hann ekki geta sagt til um það með fullri vissu. Hann hafi séð að spörkin lentu á höfðinu en hann gæti ekki ,,fullyrt það þannig að ég geti staðið við það fyrir dómi hvar höggin lentu – nákvæmara en það.“ Um hafi verið að ræða ,,að minnsta kosti tvö“ spörk sem hafi lent á höfði og að vitnið hefði hvæst á þá að ,,þeir ættu ekki að vera að sparka í höfuðið á fólki og þeir – allavega annar þeirra, ég veit ekki hvort að þeir báðir, þá vildu þeir meina að fórnarlambið hefði unnið sér inn fyrir árásinni sko, hann hefði þá byrjað.“ Þá lýsti vitnið því svo að hann hafi séð tvö högg í höfuð brotaþola og að sér fyndist líklegra að það hafi komið frá sitt hvorum aðilanum. Aðspurður um það sem haft var eftir honum í frumskýrslu lögreglu, þess efnis að hann hafi einungis séð einn mann sparka í höfuð brotaþola, svaraði vitnið: ,, ... ef ég segi á staðnum að ég hafi séð einn mann þá er mjög líklegt að ég hafi séð einn mann.“ Þá kvaðst vitnið hafa séð þegar brotaþoli féll í jörðina en aðspurður um hvort það hafi verið fyrir tilstuðlan ákærðu kvaðst hann ekki getað svarað því með fullri vissu. Hann gæti verið ,,eitthvað prósent viss en ég get ekki fullyrt það.“ Inntur eftir því hvort einhver annar hafi veist að brotaþola svaraði vitnið: ,,Ég get ekki sagt til um það, ég man það ekki“.  Borinn var undir vitnið framburður þess hjá lögreglu um að „maðurinn með kleinuhringinn“ hafi sparkað í höfuð brotaþola og hinn maðurinn í búk hans en vitnið hafi ekki vitað hvar. Kvað B að þetta hafi verið það sem hann hafi séð, en tók fram að hann hafi verið drukkinn.

Tekin var símaskýrsla hjá lögreglu 6. nóvember 2012 af vitninu C. Lýsti hann atburðum umrædda nótt með þeim hætti að hann hafi verið á röltinu með B og þriðja manni þegar hann sá hvar tveir menn voru að slást við þann þriðja sem féll við og þeir þá haldið áfram að ráðast á hann og sparka í hann þar sem hann lá. Vitnið kvaðst hafa elt annan árasármannanna og hafi sá verið útlendingur, dökkhærður og með skegg og samkvæmt sínu minni hafi hann sparkað í hausinn á þeim sem lá. Hann kvaðst ekki muna hvað hinn maðurinn gerði.

Fyrir dómi lýsti C atvikum þannig að þeir félagarnir hafi verið á Laugavegi og komið að slagsmálum þar sem tveir menn voru að ráðast á þann þriðja og sparka í hann liggjandi. Kvaðst vitnið hafa séð mennina ,,að rífa hann niður þarna, þeir tveir ... eins og ég man þetta þá eru þeir þarna eitthvað að ýta honum og lemja hann og rífa í jakkann hans líklega niður á jörðina ... Ég man ekki betur en ég hafi séð þá rífa hann niður með handafli.“ Aðspurður um hvað hafi gerst eftir að brotaþoli lá í jörðinni sagði vitnið að ,,þá sparka þeir í hann, allavega annar, ég hreinlega man ekki alveg núna hvort það voru báðir“. Spörkin hafi lent á baki eða maga brotaþola eða á búknum. „Ég er alveg klár á að ég sá spörk, það er alveg – það man ég. Nákvæmlega hver sparkaði og hvar þori ég ekki að segja til um núna.“ Inntur eftir því hvort högg hafi lent á höfði brotaþola svaraði vitnið: ,,Nei, ég man ekki eftir því.“ Gat vitnið að öðru leyti ekki greint á milli hvað hvor árásarmannanna gerði. Hann kvaðst þó muna betur eftir öðrum árásarmanninum og lýsti því svo að ,,sá var erlendur, hann var með dökkt hár og skegg man ég, mig minnir að hann hafi verið með svona kleinuhring utan um munninn, skegg, án þess að sverja fyrir það ... en ég man ekki hvernig hinn leit út“. Í lok skýrslunnar var borin undir vitnið skýrsla þess hjá lögreglu um að sá maður, sem vitnið hafi veitt eftirför eftir árásina, hafi sparkað í höfuð þess er lá, en sá hafi verið dökkhærður með skegg. Aðspurður um hvort þetta hafi verið árásarmaðurinn svaraði vitnið: „Já, já, þá væri það já, sá dökkhærði já ... með skegg.“ Að öðru leyti kvaðst vitnið ekki muna atvik málsins vel.

IV

Af fyrrgreindum framburði B og C er ljóst að hvorugt vitnanna ber skýrlega á þá leið að ákærði Y hafi sparkað í höfuð brotaþolans A þó svo að í skýrslu af B hjá lögreglu 29. ágúst 2012 og í upphafi skýrslu fyrir dómi hafi hann borið á þá leið að tveir menn hafi veist að brotaþola með höfuðspörkum í nefnt sinn. Síðar í skýrslugjöf fyrir dómi dró B þó í land og taldi einn mann hafa verið að verki.

Af því sem haft er eftir vitninu B í frumskýrslu lögreglu, sem og skýrslu hans hjá lögreglu 29. ágúst 2012 og símaskýrslu sem tekin var af vitninu C 6. nóvember 2012, má draga þá ályktun að þeir telji sig báðir hafa séð ákærða X sparka í höfuð brotaþola. Fyrir dómi var framburður þeirra nokkuð misvísandi og minntist C þess þá ekki að hafa séð ákærðu sparka í höfuð brotaþola. Andspænis eindreginni neitun beggja ákærðu stendur þá vætti B sem skilja verður þannig að ákærði X hafi sparkað í höfuð brotaþola nefnt sinn. Ekkert annað þeirra vitna sem komu fyrir dóm bar afdráttarlaust á þann veg. Þá hefur vitnið B sjálfur borið á þá leið að hann hafi verið drukkinn umrætt sinn. Einnig kom fram í framburði D læknis fyrir dómi að höfuðáverkar þeir sem brotaþoli hlaut geti hafa orsakast af öðrum ástæðum en spörkum í höfuð. Jafnframt kom fram hjá lækninum að áverkar hans hafi ekki verið alvarlegir.

Þótt Hæstiréttur geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því slegið föstu, með vísan til þess sem að framan greinir, að gegn eindreginni neitun ákærðu hafi ákæruvaldið ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108 gr. gr. laga nr. 88/2008 og ekki sé því komin fram næg sönnun fyrir sekt ákærðu, eins og henni er lýst í ákæru, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. sömu laga. Verða ákærðu því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Einkaréttarkröfu brotaþola er vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti að virðisaukaskatti meðtöldum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, X og Y, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins.

Einkaréttarkröfu brotaþola, A, er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður í héraði greiðist úr ríkissjóði.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, og verjanda ákærða Y, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur til hvors um sig.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. maí sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru 14. janúar 2014 á hendur X, kennitala [...],[...] og Y, kennitala [...],[...],[...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. ágúst 2012, á Laugavegi við Klapparstíg í Reykjavík, í félagi veist að A, kt. [...], slegið hann hnefahögg svo hann féll í götuna og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A missti meðvitund, hlaut heilahristing, hruflsár á enni, nefi, kinnbeinum og fyrir neðan nef, bólgur yfir báðum augum, eymsli yfir nefrót og sár við nefrót, hrufláverka  á höndum og baki og tognun á hálshrygg og brjósthrygg. 

Er talið að þetta varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu neita báðir sök. Af hálfu verjenda er krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

Af hálfu brotaþola er gerð sú krafa að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur, með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2012, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því krafan var birt ákærðu til greiðsludags. Loks er krafist greiðslu málskostnaðar.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sunnudeginum 19. ágúst 2012 barst lögreglu, þá nótt kl. 02.10, tilkynning um að aðili væri meðvitundarlaus eftir slagsmál við gatnamót Laugavegar og Klapparstígs í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var verið að færa brotaþola í sjúkrabifreið er lögreglu bar að garði. Fram kemur að rætt hafi verið við vitni á vettvangi. Hafi þau m.a. gefið þá lýsingu á árásaraðilum að þeir hafi talað með breskum hreim. Hafi þeir hlaupið niður Hverfisgötu þar sem vitni hafi misst sjónar af þeim. Í skýrslunni kemur fram að gönguhópur lögreglu í miðbæ hafi handtekið ákærða, X, en lýsing á árásaraðila hafi komið heim og saman við hann. Hafi ákærði ekkert kannast við málið. Hafi hann verið færður á lögreglustöð.

Yfirlæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala hefur 2. febrúar 2013 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 19. ágúst 2012. Í vottorðinu kemur m.a. fram að brotaþoli hafi komið á deildina kl. 02.34. Hafi hann lýst því að hann myndi ekki eftir því hvað hafi komið fyrir en myndi óljóst eftir að hafa verið sleginn í andlitið. Við skoðun hafi brotaþoli verið með áberandi hruflsár á höfði yfir enni og nefi. Bólgur hafi verið við hársvörð yfir hægra auga og einnig fyrir ofan vinstra auga á stærra svæði og eymsli þar. Hafi hann verið aumur yfir nefrót og með sár þar. Nef hafi verið beint og ekki merki um blóðnasir. Hann hafi verið aumur og bólginn yfir hægri augabrún. Væg eymsli hafi verið í vinstri kjálka við að opna munn. Hann hafi verið með hrufláverka á höndum og baki, auk þess að vera aumur við þreifingu á vöðvafestum frá hnakka og niður á lendahrygg. Hafi hann verið greindur með heilahristing.

Brotaþoli mætti á lögreglustöð 21. ágúst 2012 og lagði fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás.

Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærðu og brotaþoli skýrslu. Jafnframt gáfu skýrslu þrjú vitni á vettvangi, vinkona ákærða, X, lögreglumaður er ritaði frumskýrslu lögreglu, rannsóknarlögreglumaður og læknir af slysadeild er ritað hefur læknisvottorð vegna brotaþola. Ekki er ástæða til að rekja framburði fyrir dómi frekar en hér fer á eftir.

Ákærði, X, kvaðst hafa verið á ferð upp Laugaveg ásamt meðákærða. Hafi hann verið að ræða í síma við vinkonu sína á mótum Klapparstígs og Laugavegar er hann hafi veitt því athygli að einhver hafi kýlt meðákærða í andlitið. Hafi meðákærði verið um þrem metrum á undan ákærða. Margt fólk hafi verið á svæðinu. Hafi ákærði veitt brotaþola athygli þar sem brotaþoli hafi staðið fyrir aftan meðákærða. Líkamstjáning brotaþola hafi verið ógnandi. Af þeim ástæðum hafi ákærði gengið að brotaþola og ýtt honum með báðum höndum frá meðákærða. Í framhaldi hafi ákærði snúið sér að meðákærða, en í því hafi ákærði verið kýldur vinstra megin í andlitið. Það næsta er ákærði hafi séð hafi verið að brotaþoli hafi staðið fyrir framan ákærða og slegið í átt að honum. Meðákærði hafi reynt að stöðva brotaþola og gripið utan um hann. Þeir hafi fallið saman í götuna og brotaþoli lent undir. Hafi ákærði staðið yfir þeim báðum. Meðákærði hafi staðið á fætur. Mikil mannmergð hafi verið á staðnum. Vinkona ákærða hafi verið komin á svæðið. Maður, sem ákærði hafi síðar frétt að héti B, hafi staðið nærri meðákærða og hafi ákærða virst sem B ætlaði að ráðast á meðákærða. Hafi ákærði því farið til meðákærða. B hafi haldið í fatnað meðákærða og ákærði ýtt honum frá. B hafi greinilega verið undir miklum áhrifum áfengis. Hafi B öskrað á ákærðu að það væri í lagi að slást en ekki sparka í höfuð. Hafi ákærða brugðið við þetta og reynt að ræða við B. Hafi þeir öskrað hvor á annan og það verið nauðsynlegt til að ná til B. Hafi B ekki virst róast og verið ógnandi. Hafi ákærði fært sig frá honum og forðað sér þar sem ákærði hafi ekki vitað nema B ætlaði sér að jafna um ákærða, hugsanlega með vinum brotaþola. Hafi ákærði forðað sér eftir Hverfisgötu. Ákærði hafi verið handtekinn skömmu síðar. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn sparka í brotaþola þessa nótt.

Ákærði, Y, kvaðst hafa gengið um Laugaveg umrætt sinn ásamt meðákærða. Hafi þeir gengið Laugaveg í átt að Hlemmi. Meðákærði hafi rætt við vinkonu sína í síma og ákærði verið aðeins á undan meðákærða. Við Klapparstíg hafi ákærði snúið sér við í átt að meðákærða en þá hafi einhver fyrirvaralaust slegið ákærða í andlitið með krepptum hnefa. Höggið hafi komið á munnsvæði ákærða. Ákærði hafi fallið í jörðina við höggið og misst gleraugu sín. Mikið af fólki hafi verið á staðnum. Hafi ákærði reynt að finna gleraugu sín á jörðinni. Hafi hann séð að árásarmaðurinn hafi gert sig líklegan til að slá ákærða á ný, en í því hafi meðákærða drifið að. Hafi meðákærði ýtt við árásarmanninum. Á sama tíma hafi ákærði fundið gleraugu sín og sett þau upp. Hafi ákærði svipast um eftir meðákærða og árásarmanninum á Laugaveginum. Hafi meðákærði litið yfir til ákærða. Árásarmaðurinn hafi staðið fyrir aftan ákærða. Hafi ákærði séð hann kýla meðákærða hnefahögg í andlitið. Ákærði hafi gengið til þeirra og árásarmaðurinn þá ætlað að kýla hann. Hafi ákærða tekist að víkja sér undan og náð að grípa utan um árásarmanninn. Þeir hafi misst jafnvægið og dottið í götuna. Ákærði hafi reynt að standa á fætur. Í því hafi annan mann drifið að sem hafi virst árásargjarn. Hafi hann öskrað á ákærða af hverju hann væri að ráðast á manninn. Hafi ákærði reynt að útskýra að árásarmaðurinn hafi ráðist að honum. Maðurinn hafi komið nær og áfram virkað árásargjarn. Hafi ákærði brugðið á það ráð að ganga upp Laugaveginn. Maðurinn hafi elt ákærða. Ákærði hafi gengið Vatnsstíg og í átt að Hverfisgötu. Hafi honum tekist að hrista manninn af sér. Hafi ákærði frétt næsta dag að meðákærði hafi verið handtekinn vegna málsins.  

Brotaþoli kvaðst hafa verið á Laugavegi er einhver hafi sullað yfir hann bjór. Hafi brotaþoli reynt að ræða við viðkomandi. Í framhaldi hafi brotaþoli fengið hnefa í andlitið. Sá er hafi slegið hafi verið grófgerður, ljóshærður og fremur lágvaxinn. Brotaþoli hafi fallið í jörðina. Myndi hann lítið meira af atvikum. Kvaðst brotaþoli telja að hann hafi misst meðvitund. Af þeim sökum myndi hann ekki eftir að hafa fengið spörk í höfuð og líkama. Kvaðst hann þó telja að hann hafi sennilega haldið um höfuð sitt til að verja það fyrir spörkum. Brotaþoli kvaðst hafa drukkið á bilinu 3 til 4 bjóra þetta kvöld og verið undir áhrifum áfengis.

B kvaðst hafa verið á göngu á Laugavegi umrætt sinn, ásamt C. Fyrir framan hafi hann séð átök og mann falla í jörðina. Ekki hafi hann séð ástæðu þess að maðurinn féll. Tveir hafi staðið yfir honum og sparkað í höfuð hans liggjandi. Spörkin hafi a.m.k. verið tvö. Hafi B staðið 3 til 4 metra frá árásinni. Hafi B reiðst og skipt sér af málinu þar sem um spörk í höfuð hafi verið að ræða. Hafi hann stöðvað atlöguna. Hafi hann í framhaldi hringt á lögreglu. Árásarmennirnir hafi yfirgefið vettvang og B elt annan þeirra. Hafi B misst sjónir af þeim er hann hafi elt. Árásarmennirnir hafi talað ensku með hreim. B kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt. Er tekin var lögregluskýrsla af B lýsti hann því að fórnarlambið hafi steinrotast við spörkin. Fyrir dómi kvaðst B ekki lengur muna hvort svo hafi verið.

C kvaðst hafa verið á Laugavegi umrædda nótt ásamt B. Hafi hann séð slagsmál. Einhverjir aðilar hafi rifið brotaþola niður með því að rífa í hann og toga hann niður. Rámaði C í að brotaþoli hafi verið sleginn í andlitið. Brotþoli hafi fallið í jörðina. Hafi a.m.k. annar árásarmannanna sparkað í brotaþola þar sem brotþoli hafi legið í jörðinni. Árásarmennirnir hafi verið tveir. Annar þeirra hafi verið með dökkt hár og skegg. Hafi C rætt við árásarmanninn og áttað sig á að hann væri af erlendu bergi brotinn. B hafi hringt á lögreglu vegna málsins. Hafi þeir sagt árásarmönnunum að sparka ekki í liggjandi mann. Árásarmennirnir hafi yfirgefið vettvang og C og B reynt að fylgja þeim eftir. Það hafi ekki tekist og þeir misst af þeim. C staðfesti að lögreglumaður hafi hringt í sig vegna málsins og tekið niður upplýsingar. Hafi C þá munað atvik betur. Í skýrslu rannsóknarlögreglumanns sem rituð hefur verið 6. nóvember 2011, lýsti C því að annar árásarmannanna hafi sparkað í höfuð brotaþola. 

Niðurstaða:

                Ákærðu neita báðir sök. Þeir hafa lýst samskiptum við brotaþola þessa nótt og  hvernig brotaþoli hafi veist að þeim með látum. Ákærði, Y, hafi þurft að taka um brotaþola til að varna því að hann réðist á ákærðu. Við það hafi ákærði og brotaþoli fallið saman í jörðina. Hafa ákærðu báðir synjað fyrir að hafa sparkað í brotaþola þar sem hann hafi legið í jörðinni.

                Brotaþoli hefur lítið getað lýst atvikum umrætt sinn. Tvö vitni hafa lýst átökum þessa nótt, en um er að ræða B og C. Hafa B og C ekki getað staðfest hvernig átökin hófust en lýst því að í framhaldi hafi tveir menn, báðir af erlendu bergi brotnir, veist að brotaþola með spörkum þar sem hann hafi legið í jörðinni. Hafi spörkin beinst að höfði brotaþola. B hefur lýst því að spörkin hafi að minnsta kosti verið tvö. C kveður spörkin í það minnsta hafa verið eitt. B hringdi á lögreglu og tilkynnti um atburðinn. Athafnir hans og C á vettvangi urðu til þess að ákærðu voru handteknir vegna málsins. Þá liggur fyrir að ákærðu hafa lýst samskiptum við brotaþola þessa nótt. B og C lýstu því báðir að ástæða þess að þeir hafi skipt sér af átökunum hafi verið að ákærðu hafi sparkað í höfuð brotaþola þar sem brotaþoli hafi legið í jörðinni. Samkvæmt áverkavottorði greindist brotaþoli með töluverða áverka í andliti eftir atvikið, auk þess sem hann tognaði í hálshrygg og brjósthrygg. Samrýmast þessir áverkar því að brotaþoli hafi fengið ítrekuð spörk í höfuðið. Þegar framburður þessara sjónarvotta eru virtir, og hliðsjón höfð af áverkavottorði og ljósmyndum af áverkum á brotaþola, þykir dómnum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi í félagi veist að brotaþola og sparkað í höfuð hans liggjandi í jörðinni. Ákærðu tóku báðir þátt í atlögunni. Af þeim sökum verður ekki skilið á milli þáttar hvors um sig í atlögunni.

                Brotaþoli hefur takmarkað getað lýst upphafi átakanna. B og C sáu hvorugir upphaf átakanna. Með hliðsjón af því liggur ekki fyrir sönnun um að ákærðu hafi slegið brotaþola í andlitið. B hefur einn borið um að brotaþoli hafi misst meðvitund. Aðrar sannanir liggja ekki fyrir um það. Verður það talið ósannað. Að öðru leyti er háttsemi ákærðu rétt lýst í ákæru og áverkar í samræmi við læknisvottorð í málinu. Spörk er beinast að höfði liggjandi manns er sérstaklega hættuleg líkamsárás. Verður slík háttsemi færð undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

                Ákærði, X, er fæddur í [...] og ákærði, Y, í [...]. Hafa ákærðu hvorugur áður sætt refsingu, svo kunnugt sé. Ákærðu frömdu brot sitt í félagi, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærðu hvors um sig ákveðin fangelsi í níu mánuði. Með hliðsjón af alvarleika brotsins eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna nema að hluta til. 

                Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 500.000 krónur, auk vaxta. Ljósmyndir af brotaþola leiða í ljós umtalsverða áverka í andliti hans eftir árás ákærðu. Hafa ákærðu með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miska á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Þær greiði ákærðu óskipt. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun upphafstíma dráttarvaxta er miðað við þingfestingu málsins fyrir dómi.

Ákærðu greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðra verjenda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvalds sótti mál þetta Marín Ólafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

D ó m s o r ð :

                Ákærðu, X og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 9 mánuði. Frestað skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilyrði 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr, 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærðu greiði óskipt A 400.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 19. ágúst 2012 til 10. apríl 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar héraðsdómslögmanns, 527.100 krónur. Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Friðriks Kormákssonar héraðsdómslögmanns, 527.100 krónur. Ákærðu greiði óskipt sakarkostnað að fjárhæð 36.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Agnars Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 200.800 krónur.