Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 16. september 2003. |
|
Nr. 362/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X sætti gæsluvarðhaldi með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. október 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og þá til 25. september 2003.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2003.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, til heimilis [...], sem handtekinn var í gær, föstudaginn 12. september, kl. 16:42, verði með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, látinn sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 25. október 2003, kl. 16.00.
[...]
Samkvæmt upplýsingaskýrslu hafi kærði verið látinn laus úr síbrotagæslu [...] ágúst sl. og [...] ágúst sl. hafi hann í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir innbrotþjófnaði og sé hann nú á áfrýjunarfresti. Kærði segist ekki hafa fast heimilisfang og hafi fengið að vera hjá vinum og kunningjum á hinum ýmsu stöðum. Hann segist vera í daglegri neyslu fíkniefna sem hann fjármagni m. a. með innbrotum og skuldi auk þess nokkra tugi þúsunda í fíkniefnaskuldir.
Rannsókn framangreindra mála sé ekki lokið auk þess sem rannsókn beinist einnig að öðrum óupplýstum innbrotum í þessum mánuði. Af því sem hér að framan hafi verið rakið megi einnig ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans sé ekki lokið og sé því nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að hann verði látinn sæta gæslu.
Lögreglan kveðst vera að rannsaka brot kærða sem talið sé varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess farið á leit að krafa þessi nái fram að ganga.
Kærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa framið framangreind innbrot. Af hálfu lögreglunnar hefur ekki verið sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þá er tilgreining annarra óupplýstra brota svo óljós í kröfugerð lögreglustjóra að gæsluvarðhald verður ekki grundvallað á henni. Samkvæmt framansögðu er því hafnað að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hér að framan var getið dóms yfir kærða frá í sumar svo og rakið að hann hefur viðurkennt mörg innbrot núna í þessum mánuði. Með vísun til þessa svo og þess sem að framan segir um fíkniefnaneyslu kærða þykir mega ætla að hann muni halda áfram brotum, hafi hann óskert frelsi. Það er því fallist á að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 allt til föstudagsins 10. október nk. kl. 16.00.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. október 2003 kl. 16.00.