Hæstiréttur íslands
Mál nr. 721/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 7. desember 2012. |
|
Nr. 721/2012.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. desember 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess í þinghaldi 4. þessa mánaðar, að X, kt. [...], yrði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. desember 2012, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni.
Í greinargerð með kröfunni segir að þann 1. desember s.l. hafi lögregla fengið tilkynningu um að brotist hefði verið inn í geymsluhúsnæði að [...], [...]. Um sé að ræða skemmu þar sem geymdar eru bifreiðar, bátar, fellihýsi og margt fleira. Úr geymslunni hafði verið stolið svokallaðri bakkmyndavél úr tveimur bifreiðum, útvarpi úr öðrum bílnum og ýmsum tækjum og tólum af Kodiak bát.
Grunur lögreglu hafi fljótlega beinst að kærða og Y, kt. ,[...] sem býr að [...], [...]. Lögregla hafi í framhaldinu haft upp á kærða við [...], [...]. Þar fyrir utan hafi staðið sendibifreiðin [...] sem A, kt. [...], barnsmóðir kærða, sé skráður eigandi að, en kærði hafi umráð yfir. Aðspurður um það hvort lögregla mætti líta aftan í bifreiðina hafi kærði sagt að hann myndi leyfa það síðar um kvöldið þar sem að hann ætti erindi til Reykjavíkur. Í samtali kærða við lögreglumenn á vettvangi hafi kærði greint frá því að í bifreiðinni væri farmur sem hann ætti og til stæði að flytja til Póllands. Eftir að lögreglumenn ræddu við kærða hafi hann ekið á brott til Reykjavíkur og í kjölfarið hafi lögregla lagt hald á bifreiðina.
Þann 3. desember s.l. hafi tveir aðilar, sem ekki vilja láta nafns síns getið að svo stöddu, komið og viljað veita lögreglu upplýsingar vegna kærða. Greindu upplýsingagjafarnir frá því að kærði væri stórtækur í því að flytja þýfi úr landi og til Póllands og að hann geymdi það á nánar tilgreindum stöðum. Lögregla telji þessar upplýsingar trúverðugar og vinni nú að því að staðreyna hvort að þær eigi við rök að styðjast.
Þann 3. desember s.l. hafi kærði komið ásamt Y á lögreglustöðina í [...] til að heimila og vera viðstaddur leit í sendibifreiðinni [...]. Y hafi ekið kærða á bifreiðinni [...]. Er leitað var í sendibifreiðinni hafi m. a. fundist í henni rautt fjórhjól af gerðinni Predator og handverkfæri. Sé um að ræða samskonar fjórhjól og tilkynnt var stolið, ásamt öðrum munum, til lögreglu þann 23.11.2012 í kjölfar innbrots sem framið var á [...], [...] í húsnæði [...]. Telji lögregla sig hafa rökstuddan grun fyrir því að um sé að ræða það fjórhjól sem stolið var í innbrotinu að [...]. Kærði hafi verið spurður af lögreglu nánar út í hjólið og hvort hann væri eigandi þess. Greindi kærði þá frá því að hann hefði keypt hjólið og verkfærin af aðila sem ættaður væri af Suðurnesjum. Kvaðst kærði vilja gefa upp nafn þessa aðila en þó ekki fyrr en eftir nokkra daga. Lögregla vinni nú að því að staðreyna það hvort um sama fjórhjólið sé að ræða.
Í kjölfar leitarinnar í bílnum hafi lögregla haft upp á Y þar sem að hann sat í bifreiðinni við verslun Nettó. Hann hafi verið beðinn um að koma með lögreglu á lögreglustöðina í [...] til frekari viðræðna. Fljótlega hafi vaknað grunur um að Y væri undir áhrifum vímuefna og hafi hann fallist á að gefa þvagsýni vegna þess. Þvagsýnið hafi gefið svörun á amfetamín. Við leit í bifreiðinni hafi m.a. fundist hvítt efni í poka sem Y sagðist vera eigandi að. Þá hafi enn fremur fundist í bifreiðinni skotvopn, vélhjólahjálmur og myndavél. Lögregla vinni nú að því að rannsaka skotvopnið og hvort það kunni að vera þýfi. Við skoðun á myndavélinni hafi lögregla fundið fjöldann allan af myndum af munum sem lögregla telji að kunni að vera þýfi. Lögregla vinni nú að því að rannsaka það frekar og hvort að unnt sé að staðreyna hvort að um þýfi sé að ræða á myndunum.
Nú í dag 4.12.2012 hafi B frá [...] komið á lögreglustöðina í [...] til að bera kennsl á hugsanlegt þýfi sem hald var lagt á í sendibifreiðinni [...] og í bifreiðinni [...]. Hann hafi borið kennsl á framangreint fjórhjól og einnig á fjórar Hitachihjólsagir, tímabyssu og verkfærakassa með ýmsum handverkfærum. Hjólsagirnar höfðu m.a. merkingar [...] á sér sem höfðu verið afmáðar að hluta. Verkfærakassinn hafi fundist í bifreiðinni [...] en hinir munirnir í sendibifreiðinni [...]. B hafi greint frá því að þessum munum hefði verið stolið í framangreindu innbroti að [...].
Vísist nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Lögreglu hafi enn ekki unnist tími til að taka skýrslu af kærða og Y. Þá telji lögregla einnig nauðsynlegt að framkvæma húsleitir á nokkrum stöðum sem kærði og Y hafa umráð yfir áður en þeir verða látnir lausir úr haldi lögreglu. Lögregla hafi nú þegar lagt hald á nokkra muni sem hún telji sig hafa rökstuddan grun um að séu þýfi úr nýlegu innbroti á [...]. Þá telji lögregla einnig að kærði og Y og kunni að geyma þýfi á öðrum stöðum. Telji lögreglan að háttsemi kærða og Y kunni að varða við 244. gr. og eða 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögregla telji enn fremur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus og að hann kunni að koma frekari sönnunargögnum undan. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann, af hendi samverkamanna kærða, gangi kærði laus, á meðan rannsókn málsins sé á frumstigum hjá lögreglu.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 244. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 7. desember 2012, kl. 16:00.
Með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Fallist er á það með lögreglustjóra að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. desember 2012, kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.