Hæstiréttur íslands
Mál nr. 569/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2009. |
|
Nr. 569/2008. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl. Ásbjörn Jónsson hdl.) (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni sínu, sbr. 1. og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var hafið yfir skynsamlegan vafa að X hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar hans var litið til þess að brot hans voru trúnaðarbrot sem beindust gegn barnabarni hans. Á hinn bóginn var litið til þess að X var kominn á tíræðisaldur og bjó við nokkra skerðingu á vitrænni getu og var haldinn líkamlegum sjúkdómum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá þótti X með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta sem ákveðnar voru 1.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. október 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Að því frágengnu krefst hann sýknu, en ella að honum verði ekki gerð refsing eða hún milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, en að öðrum kosti verði hún lækkuð.
Ákærði reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að ekki liggi fyrir fullnægjandi gögn og upplýsingar um heilsufar hans og sjúkrasögu, er varðað geti kyngetu hans og kynlöngun, en þau atriði hafi áhrif við sönnunarmat. Í málinu liggja fyrir sérfræðiálit tveggja lækna um þessi efni og gaf annar þeirra skýrslu fyrir héraðsdómi. Ákærða var í lófa lagið að bæta sjálfur úr ætluðum skorti á upplýsingum um heilsufar sitt, enda var hann einn í aðstöðu til að afla slíkra upplýsinga eða gefa heimild til þess að þeirra yrði aflað án atbeina dómstóla. Verður frávísunarkröfu hans því hafnað.
Ákærði hefur ekki sýnt fram á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Þar sem hann hefur heldur ekki fært fram önnur haldbær rök fyrir kröfu sinni um að héraðsdómur verði ómerktur verður henni hafnað.
Við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru skiptir hvorki máli að faðir ætlaðs brotaþola hafi skýrt frá því að hann hafi orðið vitni að óeðlilegri háttsemi ákærða gagnvart öðru barnabarni sínu fyrir mörgum árum né að þriðja barnabarn ákærða hafi lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot gegn henni meðan hún var barn að aldri, sem þó hafi ekki leitt til ákæru. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest.
Ákærði hefur með brotum sínum brugðist trúnaði gagnvart barnabarni sínu og á sér engar málsbætur. Til þess verður þó að líta að hann er kominn á tíræðisaldur og býr við nokkra skerðingu á vitrænni getu og er haldinn líkamlegum sjúkdómum samkvæmt vottorði um heilsufar hans 27. janúar 2009, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt. Að virtu þessu og 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest ákvæði hans um skaðabætur.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara auk málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 506.405 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. ágúst 2008, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 22. apríl 2008, á hendur X, kt. [...],[...],[...], „fyrir kynferðisbrot, framin á tímabilinu 1994 til hausts 2005, gagnvart barnabarni sínu, A, fæddri [...], með því að hafa í fjölmörg skipti snert á henni kynfærin, farið með fingur í leggöng hennar, látið hana fróa sér og í nokkur skipti látið hana hafa við sig munnmök.
Ákærði snerti kynfæri stúlkunnar frá því að hún var um fjögurra ára en önnur brot framdi hann eftir að stúlkan var að minnsta kosti tíu ára.
Brotin framdi ákærði á heimili sínu og á heimili stúlkunnar í [...], í bifreiðum er hann hafði lagt á afviknum stöðum í [...] og annars staðar á [...], í sumarbústað í [...] og í hjólhýsi á ferðalagi um landið.“
Þetta er talið varða við 1. mgr. og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992, 2. gr. laga nr. 40/2003 og 9. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 kr., auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. mars 1994 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 8. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
I.
Með bréfi Y, félagsmálastjóra [...], dags. 4. október 2007, var lögð fram kæra á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart [...], fæddri [...]. A er barnabarn ákærða. Í bréfinu segir að meint misnotkun hafi átt sér stað frá því kærandi muni eftir sér í leikskóla og allt þar til í september 2005 er hún var 15 ára. Misnotkunin hafi falist í því að ákærði snerti kynfæri stúlkunnar og hann hafi látið hana snerta kynfæri sín. Hafi hann fengið sáðlát í einhverjum tilvikum.
Í bréfinu segir jafnframt að B hafi einnig sætt misnotkun af hálfu ákærða, en hún er einnig barnabarn ákærða. A lagði fram kæru hjá lögreglu 17. október 2007 á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart henni frá því hún var um tveggja ára gömul og þar til hún var fjórtán ára. Í kæruskýrslu hennar kemur fram að brotin hafi verið ítrekuð og ákærði brotið gegn henni í hvert skipti sem hann hafi haft tækifæri til. Lýsti hún því að hann hefði farið innan undir föt hennar og káfað á kynfærum hennar. Þá hafi hann stungið fingri í leggöng hennar. Einnig hafi ákærði látið hana fróa honum. Sagði hún að brotin hefðu átt sér stað heima hjá ákærða, í bát sem hann átti og í bifreiðum hans er þau fóru að [...]. Jafnframt sagði hún að ákærði hefði sagt sér að það þýddi ekkert fyrir hana að segja frá þar sem enginn myndi trúa henni og hann hefði hótað henni einhverju ef hún myndi kjafta frá. Um það hvort ákærði hefði boðið henni eitthvað í staðinn fyrir misnotkunina sagði hún að hann hefði ávallt gefið henni saltpillur eftir að hann misnotaði hana.
C, móðir A, mætti hjá lögreglu 18. október 2007 og lagði fram kæru vegna meintra kynferðisbrota ákærða gagnvart dóttur hennar sem þá var ólögráða. Hinn 12. nóvember 2007 var tekin skýrsla fyrir dómi af A, sem þá var 17 ára gömul, með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. 74. gr. a og 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 18. og 23. gr. laga nr. 36/1999. A kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins þar sem hún hafði þá náð 18 ára aldri. Er ekki ástæða til að rekja hér sérstaklega framburð hennar 12. nóvember 2007.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 24. október 2007 og neitaði alfarið sakargiftum. Hann greindi frá því að um 55 ára aldur hafi hann greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli sem orsakaði það að hann hafi orðið svo til getulaus. Kyngetan hefði ekki komið til baka með árunum og í raun hafi hún versnað eftir að hann hafi fengið kransæðastíflu fyrir nokkrum árum. Hann sagði að sér hefði ekki risið hold eftir að hann greindist með krabbamein.
Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 8. janúar 2008 og veitti hann heimild til að afla upplýsinga úr læknaskýrslum. Þá var framburður A fyrir dómi borinn undir ákærða og neitaði hann sem fyrr sakargiftum. Ákærði var yfirheyrður á ný 21. febrúar 2008 vegna sérfræðiálita Axels F. Sigurðssonar læknis og Baldvins Þ. Kristjánssonar, læknis og sérfræðings í þvagfæraskurðlækningum, sem fyrir liggja í málinu. Kannaðist ákærði við að hafa sóst eftir því að fá stinningarlyf þar sem hann hafi ekki getað fengið reisn í liminn. Læknirinn hafi hins vegar ekki samþykkt það vegna þess að ákærði hafi verið á hjartalyfjum. Ákærði kvaðst hafa haft mjög litla kynhvöt eftir að hann greindist með krabbamein, nánast enga. Hann hafi verið getulaus frá því hann fór í aðgerð. Hann hafi samt langað til að athuga hvort hann gæti eitthvað og þess vegna ákveðið að prófa þetta en hann væri í sambandi við konu.
II.
Í málinu liggur fyrir bréf Ingibjargar Þórðardóttur, félagsráðgjafa hjá Stígamótum, dags. 13. febrúar 2008, þar sem fram kemur að hún hafi rætt við A 26. júní og 6. júlí 2007, en A hafi komið til Stígamóta ásamt frænku sinni B. Í fyrra viðtalinu hefði A greint frá því að hún hafi verið misnotuð af afa sínum, ákærða í máli þessu. Með bréfinu fylgdi tilkynning skv. 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 frá 12. júlí 2007 til félagsmálaráðs [...].
Einnig liggur fyrir bréf Þóru Sigfríðar Einarsdóttur, sálfræðings hjá Barnahúsi, dags. 21. ágúst 2008. Í bréfinu segir að A hafi frá 27. nóvember 2007 sótt níu viðtöl til sálfræðingsins. Upplýsingum um líðan stúlkunnar hafi verið aflað í viðtölunum auk þess sem rætt hafi verið við móður hennar. Þá hafi stúlkan hinn 27. nóvember 2007 fyllt út spurningalista fyrir börn og unglinga (YSR), mælikvarða Kovacs á geðlægð barna (CDI), Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC, fjölþátta kvíðakvarða fyrir börn) og PTSK einkenna listi fyrir börn yngri en 18 ára. Einnig hafi móðir fyllt út spurningalista yfir atferli barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára (CBCL). Í samantekt og áliti sálfræðingsins segir að viðtölin við A hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt séu meðal barna og unglinga sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi í langan tíma. Stúlkan uppfylli greiningarskilmerki þunglyndis og áfallastreitu. Hún glími jafnframt við ýmis einkenni kvíða ásamt því að sjálfsmat hennar sé lágt. Um tíma hafi A einangrað sig og átt erfitt með að vera innan um fólk. Þetta hafi raskað daglegu lífi hennar, m.a. hafi hún ekki treyst sér til að sækja vinnu og átt erfitt með einföld verk eins og að fara út í búð. Stúlkunni þyki einnig erfitt að stærsti hluti æskuminninga hennar varði meinta misnotkun. Ætla megi að stúlkan muni um langt skeið glíma við afleiðingar hinnar kynferðislegu misnotkunar sem hún kveðst hafa sætt af hálfu afa síns. Meðal þátta sem veiti forspá um afleiðingar kynferðisbrota gegn börnum séu: i) hversu lengi misnotkunin hafi staðið yfir; ii) hversu alvarleg misnotkunin hafi verið; iii) hver hafi verið tengsl geranda og þolanda. Í ljósi þess að A hafi greint frá alvarlegri misnotkun af hendi afa síns sem staðið hafi yfir um árabil megi ætla að afleiðingarnar séu mjög alvarlegar og renni niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala stoðum undir að svo sé. Ekki sé unnt að segja til um að svo stöddu hvort stúlkan muni ná sér eftir hið kynferðislega ofbeldi sem hún kveðst hafa sætt. Þá getur sálfræðingurinn þess að algengt sé að fólk sem þolað hafi kynferðisofbeldi í æsku glími við afleiðingar þess á fullorðinsárum, s.s. í tengslum við kynlíf, meðgöngu og fæðingar.
Við rannsókn málsins aflaði lögregla álits Axels F. Sigurðssonar læknis um kransæðastíflu sem ákærði hafi fengið og þá hvaða áhrif hún hafi haft á kynhvöt ákærða og hvort ákærði hafi getað fengið reisn í liminn og fengið sáðfall. Í áliti læknisins, dags. 17. janúar 2008, kemur fram að það hafi aldrei verið staðfest að ákærði hafi fengið kransæðastíflu. Hann hafi verið í eftirliti hjá lækninum frá því í október 2005 vegna brjóstverkja og gruns um kransæðasjúkdóm. Ákærði hafi einnig sögu um háan blóðþrýsting. Hann hafi haft brjóstverki um nokkurra ára skeið sem líkist hjartaöng og notað tungurótartöflur með ágætum árangri. Hjartaþræðing í janúar 2006 hafi sýnt vægan kransæðasjúkdóm en ekki marktæk þrengsl í kransæðum. Hann hafi notað Discotrine-plástur sem sé æðavíkkandi og hafi það dregið úr brjóstverkjum. Í október 2006 hafi ákærði komið til læknisins og lýst áhuga á að fá Viagra vegna risvandamáls, en læknirinn ekki talið það óhætt vegna þess að það væri varasamt hjá sjúklingi sem noti nitroglyserinlyf. Í bréfinu segir jafnframt að gera megi ráð fyrir því að 89 ára karlmaður með sögu um krabbamein í blöðruhálskirtli, háþrýsting og kransæðasjúkdóm hafi skerta kyngetu. Þó sé þetta mjög einstaklingsbundið og geti hann ekki fullyrt um það í tilviki ákærða þar sem þeir hefðu ekki rætt þessi mál.
Einnig var aflað álits Baldvins Þ. Kristjánssonar, læknis og sérfræðings í þvagfæraskurðlækningum. Í bréfi hans, dags. 11. febrúar 2008, er rakin sjúkrasaga ákærða vegna vandamála með blöðruhálskirtil. Læknirinn kom fyrir dóm og verður framburður hans rakinn hér á eftir.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði frá því að hann ætti þrjú börn: D, E og C, sem er móðir A. Ákærði kvaðst hafa átt mikil og góð samskipti við C og fjölskyldu hennar í gegnum tíðina. A hefði komið oft á heimili ákærða. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort þau hefðu ferðast mikið saman svaraði hann því neitandi. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa farið með A og fjölskyldu hennar í sumarbústað, eða hjólhýsi eða fellihýsi, en hann hefði átt slíkt.
Þegar borinn var undir ákærða framburður A, um að ákærði hefði frá því hún var á barnsaldri snert á henni kynfærin, sagði ákærði að það væri ekki rétt. Þá neitaði hann því að hafa farið með fingur í leggöng hennar, látið hana fróa sér og í nokkur skipti hafa við sig munnmök. Hann hefði aldrei gert neitt slíkt.
Ákærði kvaðst hafa orðið getulaus fyrir mörgum árum, en hann gat ekki sagt hversu langt væri síðan. Læknir hans gæti greint frá því. Þegar borið var undir ákærða að læknir hans kannist ekki við að þetta hafi komið til umræðu þeirra á milli kvaðst ákærði ekki minnast þess að þeir hefðu rætt um þetta. Ákærði sagði að hann hefði farið í aðgerð vegna blöðruhálskirtilsins hjá Agli Jacobsen og eftir það hefði hann orðið getulaus. Líklega hefði hann verið nálægt sextugu. Hann kvaðst ekki muna hvort kynlöngun hans hefði minnkað eftir aðgerðina. Aðspurður hvort hann hefði beðið lækni um stinningarlyfið Viagra kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hefði talað um það.
Ákærði neitaði því að hafa brotið gegn B. Aðspurður um hugsanlega ástæðu þess að A beri hann sökum kvaðst hann ekki hafa hugmynd um það. Aðspurður kvaðst hann hafa gefið A pening í gegnum tíðina og lofað að gefa henni pening fyrir megninu af bíl þegar hún fengi bílpróf. Þá kvaðst hann hafa kennt A að keyra bíl. Jafnframt sagði ákærði að hann hefði keypt fjölvarpið og klámrás fylgt því.
Eftir að skýrslutöku var lokið óskaði verjandi eftir því að spyrja ákærða nánar um stinningarlyfið, þ.e. hvort ákærði hefði fengið upplýsingar um að hann gæti ekki fengið lyfið af læknisfræðilegum ástæðum. Sagði ákærði að þetta hefði eitthvað komið til tals og rætt hefði verið um að hann væri á hjartalyfjum og mætti því ekki nota neitt slíkt.
Vitnið A sagði að hún hefði haft mikil samskipti við afa sinn, ákærða í máli þessu, og ömmu sína. Hún hefði alltaf verið hjá þeim þegar hún var lítil. Um sakarefnið sagði vitnið að fyrsta atvikið sem hún muni eftir hafi verið þegar hún var í leikskóla en hún hefði hætt í leikskóla fjögurra ára. Ákærði hefði náð í hana á leikskólann, en foreldrar hennar hefðu verið við vinnu. Hann hefði farið með hana í [...], og byrjað að káfa á henni innanklæða, fyrst á brjóstum og svo farið ofan í buxurnar. Þetta hefði svo haldið áfram þangað til hún var 15 ára gömul er hún stöðvaði þetta sjálf. Aðspurð hvort þetta hefði verið viðvarandi svaraði hún því játandi. Þetta hefði verið alla vega einu sinni í viku. Um það hvenær þetta hefði orðið alvarlegra sagði vitnið að þegar hún hafi verið tíu ára hafi ákærði farið að setja puttana upp í leggöng hennar, í fyrsta skipti heima hjá honum. Amma hennar hefði verið á spítala, en hún hefði fengið krabbamein og þurft að fara í lyfjameðferð. Vitnið hafi þá verið á heimili ákærða og móðir hennar verið hjá ömmu hennar og faðir hennar á sjó. Vitnið greindi einnig frá því að ákærði hefði látið hana „totta“ hann. Um það hversu oft þetta hefði gerst sagði vitnið að það hefði ekki verið jafn oft og hitt. Fyrsta skiptið hefði verið úti á [...] er þau voru að tína kríuegg. Hún hafi þá verið tíu til ellefu ára. Jafnframt sagði vitnið að ákærði hefði látið sig fróa honum þegar enginn sá til. Sagði hún að í eitt skipti hefði hún verið að horfa á sjónvarpið með ömmu sinni og ákærði kallað á sig þar sem hann lá uppi í rúmi og var að lesa blað. Þegar vitnið kom hafi ákærði verið búinn að hneppa frá og hún séð typpið á honum. Þá hefði hann látið hana fróa sér. Einnig sagði hún að hann hefði oft leyft henni að keyra bílinn út í [...]. Þetta hefði verið þegar hún var tíu, ellefu ára og yngri. Þetta hefði gerst mjög oft úti í [...]. Hún sagði að hann hefði oft verið með standpínu en ekki alltaf og það hefði komið fyrir að hann fékk sáðfall.
Vitnið var innt eftir því hvernig hafi staðið á því að hún greindi engum frá þessu fyrr en árið 2007. Vitnið sagði að þegar hún var lítil, þegar ákærði setti puttana í leggöng hennar í fyrsta sinn, hafi það verið vont. Hún hafi farið að gráta og sagt að hún ætlaði að segja mömmu sinni frá þessu. Ákærði hafi þá sagt nei, mamma þín gefur þig, mamma þín hatar þig, mamma þín trúir þér ekki. Það hafi alltaf verið það. Þegar hún hafi verið pínulítil hafi hann sagt: „Mamma þín gefur þig bara“. Hann hafi einnig sagt: „Þú vilt þetta“. Svo hefði vitnið farið að skilja hvað þetta væri og hún væri að læra það í dag að kenna sjálfri sér ekki um þetta.
Um afleiðingar þeirra brota sem ákært er fyrir í máli þessu sagði vitnið að hún hefði ekki haft neitt sjálfsálit þegar hún var yngri. Ákærði hefði mjög oft átt það til að segja að hún væri feit og ljót. Hún væri með ljót brjóst og allt væri ljótt við hana. Hann hefði niðurlægt hana alltaf þótt aðrir heyrðu. Þá hefði hún alltaf verið mikið inni í sér.
Aðspurð hvort ákærði hefði brotið gegn vitninu á fleiri stöðum en hún var búin að nefna sagði hún að það hefði einnig verið heima hjá henni og í sumarbústöðum. Greindi hún frá því að þau hefðu eitt sinn farið í sumarbústað í eigu [...], fyrirtækis sem faðir hennar vinnur hjá. Hún hefði farið þangað ásamt móður sinni, ömmu og ákærða. Hana minnti að þetta hefði verið um páska. Þegar þau hefðu komið þangað hafi amma hennar uppgötvað að hún hefði gleymt lyfjunum sínum heima og þurft að keyra aftur til [...]. Vitnið hefði verið ein eftir með ákærða og hann ekki beðið lengi með að kippa niður um hana buxunum og káfa á henni. Hún kvaðst hafa verið sjö eða átta ára þegar þetta gerðist. Einnig greindi hún frá því að amma hennar og ákærði hefðu átt fellihýsi, eða „A-liner“. Eitt sinn hefðu þau verið að [...]. Hún hafi verið að leita að ömmu sinni og farið inn til hennar. Amma hennar hefði ekki verið þar og hún spurt hvar amma hennar væri. Ákærði hefði kippt henni í rúmið, úr buxunum og bolnum. Hún hafi ætlað að fara en ákærði haldið henni niðri og byrjað að káfa á henni á fullu. Svo hefði bróðir hennar komið og hún þá getað farið, en hann hefði kallað fyrir utan og hún kallað í hann. Hún hefði verið komin í föt þegar bróðir hennar kom inn.
Þegar A var innt eftir því hvað hafi orðið til þess að hún sagði frá þessu kvaðst hún hafa farið til F til að hitta B frænku sína en þær væru mjög góðar vinkonur. Þetta hefði verið um klukkan ellefu um kvöld. Þær hefðu setið í sófanum og vitnið sagt þeim frá því að hún hefði nýlega hitt frænda sinn í útilegu og hann hefði reynt við hana, en henni hefði fundist það ógeðslegt. Hún hefði svo sagt að það væru fleiri perrar í fjölskyldunni. F hefði þá spurt hver það væri og hún ekki viljað segja það. F hefði spurt ítrekað og svo spurt hvort það væri afi hennar. Hún hefði þá farið að hágráta og fengið að vita að B hefði lent í honum líka en hún kvaðst ekki hafa vitað um það áður. Hún kvaðst vera reið út í foreldra sína fyrir að hafa ekki sagt sér frá því þegar það kom upp fyrir um fjórum árum.
Vitnið sagði að síðasta skiptið sem eitthvað gerðist hafi verið í september 2005. Þá hafi foreldrar hennar farið til Danmerkur í fjóra daga. Það eina sem foreldrar hennar hafi beðið hana um að gera væri að slá grasið. Hún hefði þurft að ná í sláttuvélina heim til ákærða. Þá hefði hún verið ákveðin í því að stöðva þetta. Hún kvaðst hafa verið viss um að þetta myndi hætta þegar amma hennar dó en það hefði ekki stöðvað hann. Þá hefði hún haldið að þetta myndi hætta þegar hann náði sér í nýja „kerlingu“ en það ekki heldur hætt þá. Hún kvaðst hafa sótt sláttuvélina til ákærða og ætlað að ganga heim með hana en ákærði ekki tekið það í mál og sett sláttuvélina í bílinn og keyrt hana heim. Hún hafi ætlað að setja bensín á sláttuvélina og farið inn í bílskúr. Hann hefði elt hana, ýtt henni upp að vaskinum og byrjað að káfa á henni. Hún hefði ítrekað sagt að hún vildi þetta ekki núna og reynt að ýta honum frá sér. Hún hefði svo farið út og byrjað að slá grasið en ákærði ekki farið heldur sest og horft á hana slá. Þá hafi hún orðið hrædd og farið aftur í bílskúrinn. Ákærði hefði þá aftur ráðist að henni og ýtt henni upp að vaskinum. Hann hefði haldið utan um hana og sett hendurnar í buxurnar. Hún hefði sagt honum að hætta þessu og ætlað að hlaupa inn í húsið. Hann hefði þá rifið í hönd hennar og sagt: „Ég skal láta þig fá alvöru fullnægingu“. Hún kvaðst hafa náð að hlaupa inn og læsa þvottahúshurðinni og útidyrahurðinni. Þá hefði hún lokað öllum gluggum, farið í herbergið sitt og sett skrifborðið fyrir og beðið í um fjóra tíma eftir því að vinkona hennar kæmi til hennar. Hún sagði að ákærði hefði reynt eftir þetta en hún ekki leyft honum það.
Vitnið kvaðst hafa sagt vinkonum sínum, G og H, frá þessu í mars 2007. Hún hefði beðið þær um að þegja um þetta því hún vildi ekki að þetta fréttist. Stuttu síðar, í maí, hefði hún einnig sagt I og J frá þessu. Hún kvaðst hafa sagt þeim að afi hennar hefði misnotað hana og ekkert meira. Vikuna fyrir sjómannadagshelgina, á þriðjudegi eða miðvikudegi, hefði hún svo sagt F, B og foreldrum sínum frá þessu. Einnig hefði hún sagt K, kærasta sínum, frá þessu.
Vitnið sagði að hún hefði ekki haft samskipti við afa sinn eftir að hún greindi frá þessu. Um sumarið á síðasta ári, vikuna fyrir menningarnótt, hefði hún farið til ákærða ásamt móður sinni, D og B dóttur hans. Þau hefðu farið til að fá ákærða til að viðurkenna þetta en hann hefði ekki gert það. Þetta hefði verið í eina skiptið sem þau hefðu talað við hann og engin samskipti verið eftir það fyrir utan það að ákærði hefði hringt í [...] sl. þegar móðir hennar var fimmtug til að óska henni til hamingju með afmælið.
Vitnið sagði að ákærði hafi oft látið hana fá peninga og sagt: „Þú segir ekki neinum“. Einnig hefði hann gefið henni saltpillur. Hún hefði hætt að þiggja pening frá honum þegar þetta hætti. Í janúar 2007 hafi ákærði gefið henni greiðslu upp í bíl. Hann hefði einnig gefið bróður hennar slíka greiðslu.
Vitnið sagði að eftir að hún greindi frá þessu hefði hún farið ásamt B frænku sinni í Stígamót því henni hefði ekki liðið vel. Þar hefði henni verið sagt að þar sem hún væri ekki orðin 18 ára yrði að tilkynna þetta til barnaverndarnefndar. Vitnið hefði svo talað við Y, félagsráðgjafann í [...], og farið í skýrslutöku í Barnahúsi í nóvember.
Vitnið C, móðir A, kvaðst hafa haft mikil samskipti við heimili foreldra sinna og þau oft passað A. Vitnið sagði að hún hefði fyrst vitað um ætluð brot ákærða þegar A sagði henni frá þeim. Þetta hefði verið aðfaranótt þriðjudags eða miðvikudags fyrir sjómannadaginn árið 2007 og A brotnað niður heima. Vitnið kvaðst hafa fundið áður að A var búið að líða illa og legið eitthvað mikið á hjarta. A hafi sagst ætla að tala við B frænku sína fyrst og svo myndi hún tala við vitnið. Vitnið sagði að hún hefði átt erfitt með að sofna því A hefði liðið svo illa. Vitnið hefði svo heyrt þegar A kom heim um klukkan fjögur um nóttina og kom inn til hennar. Vitnið hefði séð að hún var útgrátin og var við það að fara að gráta er hún bað vitnið að koma fram og tala við sig. Svo hefði A brotnað niður frammi í eldhúsi og sagt að afi hennar hefði misnotað hana. A hefði hágrátið í fanginu á vitninu. Vitnið hefði svo vakið manninn sinn og hann komið fram líka. Vitnið sagði að þetta hefði verið skelfilegt áfall.
Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt sérstakt í fari ákærða gagnvart A en hann hefði oft verið leiðinlegur við hana og hún svarað honum fullum hálsi. Hann hefði t.d. sagt við hana að hún hefði fitnað, en hann ætti það til að vera svona við alla, mjög „nastí“.
Vitnið greindi frá því að D bróðir hennar hefði kallað þau systkinin á fund árið 2003 og sagt þeim frá því að ákærði hefði misnotað B. Þau hefðu átt mjög erfitt með að trúa því á þeim tíma. Vitnið og maður hennar hefðu talið útilokað að ákærði hefði komið eitthvað nálægt börnum þeirra. Það hefði kannski verið vegna þess að A hefði alltaf svarað honum og verið mjög ákveðin og dugleg. Vitnið sagði að eftir að móðir hennar lést, í janúar 2004, hefði A alltaf fundið upp afsakanir til að fara ekki til afa síns. Hún hefði forðast eins og hún gat að koma til hans. Vitnið sagði að A hafi ekki verið sagt frá því að ákærði hefði misnotað B. Móðir vitnisins hefði verið mikið veik á þeim tíma sem þetta kom upp með B. Vitnið kvaðst hafa átt erfitt með að trúa að ákærði hafi gert þetta. Það hefði verið vitninu mikið áfall þegar B sagði frá þessu því vitnið hafði alltaf talið sig eiga besta pabba í heimi. Í ljósi ástands móður vitnisins hafi verið ákveðið að minnast ekki á þetta við börnin. Vitnið sagði að D bróðir hennar hefði hætt að umgangast ákærða og ekki getað talað við hann. Samskipti vitnisins við ákærða hefðu hins vegar ekki breyst. Fram kom hjá vitninu að A hafi vitað um samskiptaleysi D við ákærða og spurt út í það. Ákærði hafði skrifað upp á lán fyrir D sem hefði ítrekað lent í vanskilum og rifrildi komið upp þeirra á milli út af því og A sagt að það væri ástæðan fyrir samskiptaleysinu.
Vitnið greindi frá því að fjölskyldan hefði ferðast mikið með foreldrum hennar, á hverju sumri. Þau hefðu bæði átt tjaldvagna, fellihýsi og farið mikið í útilegur saman. Þau hefðu farið mikið um Suðurlandið. Foreldrar hennar hefðu átt hjólhýsi en selt það þegar A var um eins til tveggja ára gömul og fengið sér fellihýsi. Síðar hefðu foreldrar hennar fengið sér „A-liner“. Einnig hefðu þau farið í sumarbústað í [...] í eigu starfsmannafélags [...], og í sumarbústað [...] í [...]. Vitnið kannaðist við að þau hefðu eitt sinn farið í bústaðinn í [...] og móðir hennar gleymt lyfjunum heima og þurft heim að sækja þau. Þá hefði A verið ein eftir með ákærða. A hafi verið ellefu ára á þessum tíma.
Aðspurð kvaðst vitnið hafa heyrt ákærða minnast á getuleysi eftir að hann hefði fengið krabbamein í blöðruhálskirtli. Vitnið gat ekki sagt til um fyrir hversu mörgum árum þetta hafi verið. Einnig sagði vitnið að móðir hennar hefði verið heilsulítil og talað um að ákærði vildi eitthvað fikta í henni og það pirrað hana.
Þegar vitnið var innt eftir því hvernig fjölskylda hennar hafi ætlað að vinna úr máli þessu, þegar það kom upp í maí 2007, sagði vitnið að helst hefði verið hugsað um að A fengi einhverja aðstoð eða ráðgjöf og hún farið í Barnahús, en farið fyrst með frænku sinni til Stígamóta. Þeim hefði verið sagt þar að vegna þess að A væri ekki orðin 18 ára réðu þau ekki því hvort hún kærði eða ekki. Það hefði verið vilji A að kæra þetta og þau stutt hana í því. Vitnið sagði að E bróðir hennar trúi þessu ekki ennþá og hann hafi ekkert samband við sig og D.
Vitnið skýrði frá því að hún hefði farið til ákærða sumarið 2007 ásamt D bróður sínum, B og A. L, vinkona ákærða, hefði verið hjá ákærða. Ákærði hefði neitað öllu og sagt að þetta væri lygi. Vitnið greindi einnig frá því að daginn áður en A sagði frá brotum ákærða hefði vitnið keypt jarðarber fyrir ákærða og sagt honum að hún myndi koma daginn eftir með þau til hans. Hann hefði svo hringt daginn eftir og spurt um jarðarberin. Hún hefði ekki getað talað við hann og sagt að það hefði komið upp alvarlegt mál með A og meðan það væri í rannsókn gæti hún ekki talað við hann. Svo hefði ekki heyrst í ákærða í heila viku og hann ekki spurt hvað hefði komið fyrir barnabarn hans.
Vitnið M, faðir A, skýrði svo frá að mikil og náin samskipti hefðu verið við ákærða þar til mál þetta kom upp. Vitnið sagði að A hafi sagt sér og móður hennar frá þessu um sjómannadagshelgina 2007. Vitnið kvaðst hafa vitað af misnotkun ákærða á B nokkrum árum áður, en A ekki vitað um það. Vitnið sagði að eftir á að hyggja hefðu þau átt að vera búin að kveikja á perunni. A hefði greint F frá þessu áður en hún sagði vitninu frá þessu og einnig hefði hún sagt vinkonum sínum frá þessu. Vitnið sagði að það hefði verið um klukkan tvö eða þrjú um nótt sem A greindi sér frá þessu. Vitnið kvaðst hafa vaknað við grátinn í henni en móðir hennar hafi verið vakandi þegar hún kom. A hefði sagt að afi hennar hefði verið að káfa á henni frá því hún mundi eftir sér. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt út í smáatriði. Í framhaldi af þessu hefði vitnið hringt í Vigdísi Erlendsdóttur í Barnahúsi og rætt við hana. Hún hefði bent honum á barnaverndaryfirvöld sveitarfélagsins. Þau hefðu svo metið stöðuna og það verið ákveðið að fara til barnaverndaryfirvalda og segja frá þessu og fá hjálp fyrir A.
Aðspurður sagði vitnið að fjölskylda sín og ákærða hefðu ferðast töluvert saman á hverju sumri á árum áður. Einnig hefðu þau farið í sumarbústaði, m.a. í [...].
Vitnið sagði að A hafi ekki vitað af því að B hefði verið misnotuð af ákærða. Um það hvort vitnið hefði einhvern tímann orðið þess áskynja að ákærði hefði brotið gegn barnabörnum sínum sagði vitnið að hann hefði hjá lögreglu greint frá því að eitt sinn í sumarbústað, einhvern tímann fyrir árið 1990, hefði hann séð ákærða fara innan á aðra hvora dóttur E, N að hann hélt. Hann hefði ekki hugsað nánar út í þetta en séð strax að þetta væri eitthvað sem menn gera almennt ekki.
Vitnið B, barnabarn ákærða, sagði að hún og A hefðu alltaf verið mikið tengdar. Fyrir um ári síðan, fyrir sjómannadaginn, hefði A verið heima hjá móður vitnisins og ákærði komið til tals. A hefði þá sagt þeim frá þessu og brotnað saman. Vitnið sagði að hún hefði lengi reynt að komast að því hjá A hvort ákærði hefði misnotað hana, eins og hann hefði misnotað vitnið. Vitnið kvaðst ekki hafa verið búin að segja A frá því sem hefði komið fyrir sig og taldi vitnið að A hafi ekki vitað um það. Vitnið sagði að A hefði sagt þeim að ákærði hefði misnotað hana en ekki greint sérstaklega frá því í hverju misnotkunin fólst. Vitnið kvaðst einnig hafa brotnað saman og dregið sig afsíðis. Fyrrverandi maður hennar hefði svo komið og talað við A.
Vitnið sagði að ákærði hefði misnotað sig frá því hún var um þriggja ára. Hún kvaðst muna eftir því þegar móðir hennar hefði labbað inn heima hjá ákærða þegar hann lá með vitninu uppi í sófa og hafði tekið niður um hana buxurnar og verið í klofinu á henni. Þær hefðu rætt um þetta atvik eftir að hún sagði foreldrum sínum frá misnotkuninni en móðir hennar hafi ekki vitað nákvæmlega hvað var að gerast umrætt skipti. Svo hefði þetta gerst ítrekað þar til vitnið var fjórtán ára. Þetta hefði gerst á mörgum stöðum. Ákærði hefði tekið hana á rúntinn út í [...]. Einnig hefði þetta gerst í rúminu hans. Vitnið sagði að hún hefði einnig þurft að koma við ákærða og gera ýmsa hluti. Jafnframt nefndi vitnið að niðri í kjallara hjá honum hafi hann látið sig tálga á meðan. Hann hefði einnig gert þetta í bátnum sínum og við hvert einasta tækifæri sem hann hafi fundið. Vitnið sagði að ákærði hefði sagt ítrekað við sig að henni yrði ekki trúað. Hún kvaðst hafa grátið þegar ákærði misnotaði hana og hann sagt að henni yrði ekki trúað og eitthvað slæmt myndi koma fyrir foreldra hennar. Vitnið kvaðst hafa greint frá misnotkuninni þegar hún var heima hjá móður sinni ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum. Móðir hennar hefði spurt af hverju hún vildi ekki tala um ákærða og fyrrverandi eiginmaður hennar þá spurt af hverju hún segði móður sinni ekki frá þessu og hún þá gert það. Vitnið kvaðst ekki hafa þorað að segja fyrr frá misnotkuninni því hún vildi ekki brjóta fjölskylduna í sundur og hún taldi að sér yrði ekki trúað. Vitnið sagði að hún væri búin að líða fyrir þetta allt sitt líf og þetta væri búið að vera ógeðslegt líf. Vitnið sagði að fjölskylda hennar hefði komið saman, foreldrar hennar og bræður, ásamt E, C og M, til að greina þeim frá þessu. Vitninu fannst að sér hefði ekki verið trúað fyrr en málið kom upp með A. Vitnið sagði að mál sitt hefði verið fellt niður þar sem það hefði verið fyrnt. Vitnið sagði að hún og foreldrar hennar hefðu engin samskipti haft við ákærða eftir að hún greindi frá því að hann hefði misnotað hana.
Vitnið sagði að eftir að mál A kom upp hefðu þær farið og rætt við ákærða ásamt föður vitnisins og C. Vinkona ákærða hefði verið þar. Ákærði hefði neitað öllu.
Vitnið var innt eftir því hvernig hún hefði reynt að komast að því hjá A hvort ákærði hefði misnotað hana og hvort A hafi þá ekki haft grun um að vitnið hefði verið misnotuð. Vitnið svaraði því til að eitt sinn hefði hún verið að keyra A og spurt hvort ákærði hefði tekið hana á rúntinn og farið með henni upp í [...] og leyft henni að keyra. A hefði svarað játandi og vitnið þá spurt hvað þau gerðu þar. A hefði þá sagt að hún mætti ekki segja. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt hana um þetta aftur.
Vitnið F, móðir B, skýrði svo frá að A hefði komið til sín á síðasta ári, um sjómannadaginn, og þær rætt um einhverja stráka sem A hefði hitt á Flúðum og þeir eitthvað verið að „perrast“ utan í henni. Annar þeirra væri frændi hennar og þær talað um perra í þessari ætt og A sagt að hún þekkti annan. Vitnið hefði gengið á hana og spurt hver það væri og hvort það væri afi hennar. A hefði á endanum játað að það væri hann og brotnað niður. Vitnið vissi ekki hvort A hafi þá vitað að ákærði hefði misnotað B en sagði að sig grunaði það. Vitnið kvaðst ekki hafa sagt A það. Vitnið sagði að A hefði ekki greint nánar frá því hvað ákærði hefði gert við hana. Báðar stúlkurnar hefðu sagt að þetta hefði verið káf en ekki viljað segja hvað hann gerði.
Vitnið sagði að fjölskyldufundur hefði verið haldinn út af B. Á fundinum hefðu verið C, M og E. Enginn hefði trúað þeim, nema M að hún taldi, fyrr en þetta kemur upp með A.
Vitnið G, vinkona A, skýrði svo frá að hún, H og A hefðu verið uppi á þaki á hesthúsi þegar A hefði sagt þeim að afi hennar hefði misnotað hana. Vitnið sagði að A hefði grátið og henni fundist hún trúverðug. Aðspurð hvort vitnið hefði rætt við A um þetta eftir að þetta gerðist sagði hún að þetta væri eitthvað sem maður vildi ekki ræða.
Vitnið H, vinkona A, greindi frá því að hún hefði verið uppi á þaki á hesthúsi þegar A hefði sagt þeim að ákærði hefði misnotað hana og þær hefðu allar grátið.
Fram kom hjá vitninu J, vinkonu A, að A hefði sagt henni að afi hennar hefði misnotað hana. Vitnið skýrði frá því að A hefði greint frá því að ákærði hefði eitt sinn er hún var ein heima elt hana heim til sín. Hún hefði læst sig inni í herbergi og sett eitthvað fyrir hurðina. Þá hefði A greint frá því að hún hefði farið með ákærða þegar hún var yngri út í [...] og hann leyft henni að keyra. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt A út í smáatriði um það sem ákærði hefði gert.
Vitnið I, vinkona A, var innt eftir því hvaða vitneskju hún hefði um það að ákærði hefði misnotað A. Vitnið skýrði þá frá því að henni hafi verið sagt það þegar hún, H, J og A hefðu verið heima hjá A að hlusta á lag og A sagt að lagið tengdist henni. H hefði þá nefnt orðið misnotkun og sagt „alveg eins og þú“ við A. Vitnið hefði ekki vitað hvað þær væru að tala um og spurt hvað þær væru að meina, en A hefði verið búin að segja hinum stúlkunum frá þessu áður.
Vitnið O, vinkona A, kvaðst hafa kynnst A árið 2006 þegar þær unnu saman og þær búi saman í dag. Vitnið sagði að sig hefði grunað að A hefði verið misnotuð en hún væri sjálf fórnarlamb. A hefði svo sagt henni frá því fyrir sjómannadaginn á síðasta ári að ákærði hefði misnotað hana allt frá því hún mundi eftir sér. A hefði sagt að hann hefði káfað á henni og látið hana gera hluti líka, káfað á honum. Ekki hefði verið um að ræða samræði.
Vitnið K, kærasti A, sagði að A hefði komið til sín í lok maí á síðasta ári og brotnað saman. Þá hafi hún verið búin að segja frænkum sínum og foreldrum frá þessu. Hún hafi sagt að ákærði hefði misnotað hana og hún gæti ekki þagað yfir þessu lengur. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt hana beint hvað ákærði hefði gert við hana heldur leyft henni að segja sér það. A hefði síðar sagt vitninu að hún hefði eitt sinn labbað í sjóinn og verið búin að skrifa bréf. Aðspurður um það hvort A hefði greint frá einhverjum ákveðnum atvikum sagði vitnið að A hefði greint sér frá nokkrum atvikum. Vitnið taldi að það sem hefði gert hana ofurhrædda væri þegar foreldrar hennar voru ekki heima og þau höfðu beðið hana um að slá garðinn. Hún hefði farið heim til ákærða til að ná í sláttuvélina og hann fylgt henni heim, setið yfir henni og reynt svo að leita á hana í bílskúrnum. Þá hefði hún orðið ofurhrædd og komist undan og farið inn í herbergi sitt og verið þar í marga klukkutíma. Vitnið hélt að hún hefði sturlast úr hræðslu þarna. Vitnið sagði að A hefði í nokkur skipti talað um þetta við sig en hann hefði aldrei spurt hana nákvæmlega um það sem ákærði hafi gert, en vitnið geri sér grein fyrir því að það sé alvarlegt.
Vitnið sagði enn fremur að A væri oft langt niðri og væri lítil í sér og liði illa. Hún treysti sér t.d. ekki í vinnu og hún væri ekki í skóla. Þetta væri lítill bær og mikið smjattað á hinu og þessu. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað af því að ákærði hefði misnotað B fyrr en eftir að A sagði honum frá þessu með hana sjálfa.
Vitnið P, barnabarn ákærða, skýrði frá því að hún hefði mikið verið heima hjá ákærða og ömmu sinni í æsku. N hefði stundum einnig verið þar. Vitnið sagði að sér fyndist að ráðist væri á afa sinn af rangindum og hann ætti þetta ekki skilið. Hann hefði gert allt fyrir þetta fólk. Vitnið kvaðst ekki trúa þessum ásökunum og sagði að ef hann hefði gert eitthvað af þessu af hverju hann hefði þá ekki byrjað á þessu við sig eða systur hennar. Aðspurð um af hverju þessar ásakanir hafi komið fram kvaðst vitnið ekki vita það en gat sér þess til að þau hafi séð færi á að „hirða restina af eigum hans“. Vitnið sagði að það hefði alla tíð verið mikið ósætti í fjölskyldunni um peningamál.
Vitnið Baldvin Þ. Kristjánsson, læknir og sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum, skýrði frá því að ákærði hefði lengst af verið hjá Agli Jacobsen þvagfæraskurðlækni sem væri hættur störfum. Vitnið kvaðst hafa séð í sjúkraskrám Landspítalans að ákærði hefði farið í fræsingu á blöðruhálskirtli 1990 og 1994. Það hafi fundist hjá honum krabbamein en það verið mjög lítið og ekki ástæða talin til að meðhöndla það heldur fylgjast með því. Við fræsingu væri farið inn um þvagrásina og skafið innan frá með rafmagnshníf. Þetta væri gert til að létta á þvaglátum. Þessi aðgerð væri ekki gerð í tengslum við krabbamein. Vitnið sagði að þessi aðgerð leiddi mjög sjaldan til getuleysis. Um 5-7% af þeim sem fari í slíka aðgerð lendi í erfiðleikum með stinningu eftir á. Vitnið sagði að elstu gögn sem hann hefði fundið um aðgerð á ákærða á Landspítalanum væru frá 1990. Árið 2000 hefði verið gert við þrengingu í þvagrás hjá ákærða. Vitnið sagði að ákærði hefði svo komið til sín 2003. Vitnið sagði að oftast nefni sjúklingar ef það eru vandamál með stinningu en samkvæmt gögnum sínum hefði ákærði ekki tekið það upp við sig. Aðspurður hvort vitnið hefði átt að sjá ummerki á ákærða ef hann hefði farið í aðgerð hjá Agli Jacobsen sagði vitnið að sér fyndist trúlegt að Egill hafi gert blöðruspeglun eða eitthvað slíkt áður en ákærði fór í fræsinguna, en það hafi ekki verið gerð aðgerð á blöðruhálskirtli ákærða og kirtill tekinn eða slíkt. Lítið hafi verið fræst af kirtli ákærða. Þegar borinn var undir vitnið framburður ákærða hjá lögreglu, um að hann hefði við 55 ára aldur farið í aðgerð og í kjölfarið orðið getulaus, sagði vitnið að ef það hefði verið eitthvað eins og fræsing eða þess háttar þá ættu að vera til gögn um það hjá Landspítalanum. Fram kom hjá vitninu að þótt ólíklegt sé að fræsing hafi neikvæð áhrif útiloki það ekki getuleysi af öðrum orsökum. Þá sagði vitnið að tæknilega séð væri getuleysi og kynlöngun ótengt. Þannig gæti kynlöngun verið til staðar þrátt fyrir stinningarvandamál.
Vitnið Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur skýrði frá því að A hefði leitað aðstoðar í Barnahúsi og vitnið hitt hana í níu skipti. Meðferðin felist fyrst og fremst í því að fara í gegnum meint kynferðisbrot og hjálpa A að líða betur. Hún væri mjög dugleg að mæta í tíma og geri það stundvíslega. Þá hafi hún samband við vitnið þess á milli ef það er eitthvað sérstakt. Fyrst hafi hún verið varkár en fljótt byrjað að nota tímana vel. Fyrst hefði hún verið langt niðri og verið með töluverðan kvíða. Hún hefði einangrað sig mikið og einungis haft samband við nánustu fjölskyldu og vini. Hún hafi átt erfitt með að fara út, eins og t.d. út í búð, og vera innan um fólk. Hún væri ennþá langt niðri en ekki jafn mikið og í fyrstu. Hún hefði náð töluverðum framförum. Það sem væri einkennandi fyrir hana væri það að hún vilji vera ofsalega sterk og eigi erfitt með að sýna öðrum hvernig henni líði. Vitnið sagði að A tengdi vanlíðan sína ætluðum brotum. Vitnið kvaðst ekki hafa neina vitneskju um annað í lífi A sem gæti útskýrt líðan hennar. Vitnið vísaði að öðru leyti til vottorðs síns sem fyrir liggur í málinu.
IV.
Ákærði hefur frá upphafi alfarið neitað sök. Af hálfu ákærða hefur mikið verið lagt upp úr því að hann hafi orðið getulaus, líklega nálægt sextugu, í kjölfar aðgerðar, en hann hafi fengið krabbamein í blöðruhálskirtli. Vitnið Baldvin Þ. Kristjánsson, sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum, kom fyrir dóm. Greindi vitnið frá samskiptum sínum við ákærða og sjúkragögnum um veikindi hans og var framburður vitnisins að öllu leyti í samræmi við álit sem fyrir liggur í málinu. Samkvæmt framburði vitnisins á það sér ekki stoð í sjúkragögnum að ákærði hafi farið í aðgerð áður en hann varð sextugur, en gögn ættu að vera til um það. Það sé ekki fyrr en á árinu 1990, er ákærði var 72 ára, og aftur fjórum árum síðar, sem hann fór í svokallaða fræsingu, en hún leiði mjög sjaldan til stinningarvandamála. Þessi aðgerð væri ekki gerð í tengslum við krabbamein. Það hefði fundist krabbamein hjá ákærða en ekki þótt ástæða til að meðhöndla það. Þá kom fram að ákærði beri ekki ummerki um að hafa farið í aðgerð áður en aðgerðin var framkvæmd árið 1990. Vitnið skýrði að tæknilega séð væri ekki tenging á milli getuleysis og kynlöngunar. Framburður ákærða um það hvort hann hafi misst kynlöngun hefur verið nokkuð reikull. Hann hefur ýmist sagst hafa haft litla kynlöngun eftir sextugt, nánast enga, eða hann muni ekki hvort kynlöngun hans hafi minnkað. Beiðni hans um lyfið Viagra á árinu 2006 bendir þó eindregið til þess að hann hafi haft kynlöngun.
Þá fær neitun ákærða um að hafa ferðast með A og fjölskyldu hennar ekki staðist í ljósi vitnisburðar foreldra hennar um að þau hafi oft farið í ferðalög.
A hefur lýst því fyrir dómi hvernig ákærði hafi brotið kynferðislega gegn henni frá leikskólaaldri og allt þar til hún var 15 ára og veitti ákærða mótspyrnu í september 2005 þegar foreldrar hennar voru erlendis.
Eins og rakið hefur verið greindi A frá því við aðalmeðferð málsins að fyrsta atvikið sem hún muni eftir hafi verið þegar hún var á leikskólaaldri en hún hafi hætt þar fjögurra ára og eru upphafstímamörk ákærunnar miðuð við þann aldur. Ákærði hafi þá sótt hana á leikskóla og farið með hana út í [...]. Þar hefði hann káfað á henni innanklæða, fyrst á brjóstum og svo farið ofan í buxurnar. Þessi háttsemi ákærða hafi verið með reglubundnum hætti, a.m.k. vikulega, þar til hún var 15 ára gömul. Við 10 ára aldur hafi ákærði farið að setja puttana upp í leggöng hennar og var henni minnistætt fyrsta skiptið sem ákærði hefði gert það, en það hafi verið heima hjá honum þegar amma hennar var á spítala vegna krabbameins. A greindi einnig frá því fyrir dómi að ákærði hefði látið hana hafa munnmök við sig, eða „tottað“ hann eins og hún orðaði það, en það hefði ekki verið jafn oft og hitt. Greindi hún frá því því að það hefði gerst í fyrsta sinn er þau voru úti á [...] að tína kríuegg og hún var tíu eða ellefu ára. Jafnframt sagði hún að ákærði hefði látið hana fróa honum og nefndi eitt skipti er hún hafi verið að horfa á sjónvarpið með ömmu sinni og ákærði kallað á hana þar sem hann lá uppi í rúmi. Auk þess sagði hún að ákærði hefði brotið gegn henni heima hjá henni og í sumarbústöðum. Nefndi hún að hafa farið farið í sumarbústað og hún orðið ein eftir með ákærða þegar móðir hennar og amma þurftu að snúa við til að sækja lyf ömmunnar. Ákærði hefði þá notað tækifærið og brotið gegn henni. Þá greindi hún frá atviki sem hefði átt sér stað í fellihýsi eða A-liner er þau voru á ferðalagi. Fram hefur komið að A og fjölskylda hennar hafa ekki haft samskipti við ákærða eftir að A greindi fjölskyldu sinni frá því, um það leyti sem sjómannadagurinn var árið 2007, að hann hefði brotið gegn henni.
Framangreindur framburður A er samhljóða því sem hún sagði fyrir dómi 12. nóvember 2007. Hefur hún verið staðföst í framburði sínum og frásögn hennar skýr. Að mati dómsins er framburður hennar afar trúverðugur og í máli þessu hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að A beri afa sinn svo alvarlegum sökum sem raun ber vitni af annarri ástæðu en þeirri að hann hafi brotið gegn henni með þeim hætti sem hún segir. Dómurinn telur engin efni til að ætla að það sé af fjárhagsástæðum eins og eitt barnabarn ákærða ýjaði að fyrir dómi. Með hliðsjón af því að A hefur lýst því að um endurtekna misnotkun hafi verið að ræða nánast alla hennar barnæsku þykir minniháttar ósamræmi í framburði hennar og móður hennar um aldur eða brotavettvang með engum hætti draga úr trúverðugleika frásagnar hennar. Nánar tiltekið bera þær ekki eins um það hversu gömul A var þegar hún varð ein eftir með ákærða í sumarbústað þegar móðir hennar og amma fóru til að sækja lyf en við skýrslutöku 12. nóvember 2007 sagði A að hún hafi verið sjö ára en móðir hennar sagði fyrir dómi að hún hafi verið ellefu ára. Jafnframt breytir engu um trúverðugleika A þótt hún hafi sagt við téða skýrslutöku að ákærði hefði brotið gegn henni í hjólhýsi en ekki fellihýsi eða A-liner eins og hún gerði við aðalmeðferð málsins. Langt er um liðið og erfitt fyrir barn að átta sig á slíku.
Framburður fjölmargra vitna styður frásögn A, um að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega. C, sem er móðir A og jafnframt dóttir ákærða, hefur m.a greint frá því að A hafi forðast afa sinn eftir að móðir sín lést í janúar 2004. Þá hefur faðir A, M, skýrt frá því að það hafi rifjast upp fyrir honum að hafa orðið vitni að óeðlilegri háttsemi ákærða gagnvart öðru barnabarni sínu í sumarbústað fyrir mörgum árum. Þá hafa vinkonur A borið fyrir dómi að A hafi greint þeim frá því að afi hennar hefði misnotað hana. Fyrir liggur að þetta var skömmu áður en A sagði F, B og foreldrum sínum frá því að ákærði hefði brotið gegn henni, en það mun hafa verið í kringum sjómannadaginn árið 2007. Kærasti A, K, hefur einnig sagt að A hafi í lok maí 2007 greint honum frá þessu. Sagði hann m.a. að A hefði eitt sinn ætlað að binda enda á líf sitt, verið búin að skrifa bréf og labbað í sjóinn. Hún væri oft langt niðri, lítil í sér, liði illa og treysti sér ekki í vinnu eða skóla.
Í máli þessu verður ekki fram hjá því litið að frásögn annars barnabarns ákærða, B, styður framburð A, en B hefur einnig greint frá því að ákærði hafi brotið kynferðislega gegn henni allt frá barnsaldri eða frá því hún var þriggja ára og þar til hún var fjórtán ára. Sú misnotkun sem B kveðst hafa sætt af hendi ákærða er sams konar og misnotkun sem A hefur lýst að hún hafi orðið fyrir. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi kom það upp á árinu 2003 að B greindi móður sinni frá því að ákærði hefði misnotað hana. B, móðir hennar og foreldrar A bera öll um það að hafa ekki sagt A frá þessu. A kveðst sjálf ekki hafa vitað af þessu og að hún sé reið yfir því að hafa ekki verið sagt það á sínum tíma. Fram hefur komið að B lagði fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu í október 2007, en málið verið fellt niður vegna fyrningar. Að mati dómsins er engin ástæða til að ætla frásögn A sé uppspuni og tilkomin vegna áhrifa af því að B kveðst hafa verið misnotuð.
Enn fremur ber við sakarmat að horfa til þess að greinargerð og vitnisburður Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings styður eindregið frásögn A um að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Þannig hefur komið fram að A glími við fjölmörg vandamál sem þekkt séu meðal barna og unglinga sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi í æsku. Hún uppfylli greiningarskilmerki þunglyndis og áfallastreitu auk þess að hafa einkenni kvíða og lágt sjálfsmat. Hún einangri sig og eigi erfitt með að vera innan um annað fólk og það raski daglegu lífi hennar. Er ekkert fram komið í málinu sem getur skýrt þessa líðan A annað en það að hún hafi sætt þeirri misnotkun sem hún hefur lýst.
Að framangreindu virtu er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru málsins. Brot ákærða varða við 1. mgr. og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992 og 2. gr. laga nr. 40/2003.
Ákærði er fæddur í [...] og og hefur ekki áður sætt refsingu. Í ákæru málsins er vísað til laga nr. 61/2007, um breytingu á almennum hegningarlögum, en með þeim voru refsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga þyngdar. Þar sem ákærði framdi brot sín fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 hafa þau ekki áhrif við ákvörðun refsingar hér. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að brot ákærða eru alvarleg og beindust gegn barnabarni hans nánast alla hennar æsku, eða allt frá því hún var fjögurra ára og til fimmtán ára aldurs. Með brotum ákærða brást hann trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni og hann rauf fjölskyldutengsl. Á hinn bóginn ber þess að gæta að ákærði er tæplega níræður, sbr. 4. tölul. 70. gr. almennra hegningarlaga og dómur Hæstaréttar í dómasafni 2003, bls. 817. Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. sömu laga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár.
V.
Af hálfu brotaþola, A, er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ljóst er að ákærði hefur með háttsemi þeirri sem hann er sakfelldur fyrir valdið brotaþola andlegri áþján og félagslegri röskun. Í málinu liggur fyrir greinargerð sálfræðings um að A uppfylli greiningarskilmerki þunglyndis og áfallastreitu. Þá sé hún kvíðin, sjálfsmat hennar sé lágt og hún einangri sig og eigi erfitt með að vera innan um fólk. Einnig hefur komið fram að hún treysti sér ekki til að sækja vinnu eða stunda nám. Er það mat sálfræðingsins að afleiðingar misnotkunar af hendi ákærða séu alvarlegar og hún muni glíma við þær um langt skeið, en ekki sé hægt að segja til um hvort hún nái sér. Að öllu þessu virtu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
VI.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, alls 1.205.051 krónur. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna læknisvottorðs Baldvins Þ. Kristjánssonar, 26.225 krónur, og greinargerð Barnahúss, 15.000 krónur, auk reiknings verjanda á rannsóknarstigi 51.792 krónur. Þóknun verjanda þykir hæfilega ákveðin 836.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun réttargæslumanns telst hæfilega ákveðin 275.394 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til vinnu á rannsóknarstigi.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Sandra Baldvinsdóttir, Finnbogi H. Alexandersson og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. mars 1994 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 8. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.205.051 krónu í sakarkostnað, þar með talin 836.640 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Unnars Steins Bjarndals héraðsdómslögmanns, og 275.394 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns.