Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2008
Lykilorð
- Samvinnufélag
- Félagssamþykktir
- Greiðsla
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2008. |
|
Nr. 129/2008. |
Auðhumla svf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn Félagsbúinu Hálsi (Sigurbjörn Magnússon hrl.) |
Samvinnufélög. Félagssamþykktir. Greiðsla. Dómarar. Vanhæfi.
H stundaði mjólkurbúskap til 1999 og var félagsaðili í samvinnufélaginu M, sem síðar varð samvinnufélagið A, og lagði þar inn framleiðslu sína. Með breytingum á samþykktum M í nóvember 1994 varð til innan samvinnufélagsins séreignarsjóður, sem hver félagsmaður skyldi eiga sinn hlut í, en til sjóðsins skyldi renna tiltekið hlutfall af útborgunarverði innlagðrar mjólkur. Séreign hvers framleiðanda skyldi falla til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu og bæri framleiðandanum að óska skriflega eftir útborgun á inneign sinni í sjóðnum. Þá félli inneign félagsmanns til samvinnufélagsins að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lyki, ef ekki hefði verið gerð krafa um greiðslu hennar. Á aðalfundi M í mars 2002 var ákvæði samþykkta félagsins, þar sem fjallað var um séreignarsjóð breytt þannig að greiða skyldi þeim sem hætti framleiðslu hlutdeild hans í sjóðnum eigi síðar en 1. júlí á því ári sem á eftir færi. Jafnframt var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að eigi síðar en 1. júlí 2002 skyldi greiða þeim sem hætt hefði framleiðslu á árinu 2001 eða fyrr að fullu hlutdeild hans í sjóðnum. Í kjölfar breytinganna sendi samvinnufélagið H bréf í júní 2002 ásamt tveimur tékkum sem svöruðu til inneignar hans í séreignarsjóðnum í árslok 2001. Í mars 2003 voru gerðar breytingar á samþykktum M þess efnis að félagsréttindum skyldu þeir einir halda sem framleiddu mjólk og legðu hana inn að staðaldri hjá M. Eftir þessa breytingu og eftir að H og fleirum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu hafði verið greitt út úr séreignarsjóðnum, var ákveðið á aðalfundi M í mars 2004 að færa umtalsverða fjárhæð af óbundnu eigin fé M í séreignarsjóð félagsins og skyldi hún deilast niður í hlutfalli við séreignarsjóðseign um áramótin 2003 til 2004. Í málinu krafðist H þess að viðurkennt yrði að samþykktir M í mars 2002 hefðu verið ólögmætar og væri M af þeim sökum skaðabótaskyldur gagnvart H. Fyrir Hæstarétti krafðist A aðallega ómerkingar héraðsdóms þar sem faðir héraðsdómara hefði verið félagsmaður í M á sínum tíma og fengið greidda út inneign í séreignarsjóði í framhaldi af áðurnefndum breytingum á samþykktum M árið 2002. Talið var að þetta gæti engu máli skipt samkvæmt ákvæði g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og fyrir hæfi héraðsdómarans. Í bréfi M til H í júní 2002 hafði komið fram að framsal tékka yrði metin sem kvittun fyrir móttöku á inneign í séreignarsjóðnum. Var talið að af bréfi M sem fylgdi tékkunum hefði H ekki getað dulist að M liti svo á að með útborgun á inneign í séreignasjóði lyki aðild að félaginu. H hefði ekki gert neinn fyrirvara við greiðslu inneignarinnar og fólst kvittun fyrir henni í framsali tékkanna. Yrði að telja að með þessu hefði H staðfest í verki útgöngu sína úr félaginu og stoðaði ekki fyrir hann að bera fyrir sig fimm árum síðar að annmarkar hefðu verið á breytingum á samþykktum M. Var M því sýknað af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2008 og krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en til vara sýknu af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins varð samvinnufélagið Mjólkursamsalan í Reykjavík, sem áfrýjandi er nú kominn í stað fyrir, til á grundvelli laga nr. 1/1935 um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o.fl., en fyrstu samþykktir þess munu vera frá 4. mars 1936. Að gerðum breytingum á samþykktunum 1. nóvember 1994 var kveðið þar á um að félagið væri sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda á Suðurlandi og Vesturlandi og ættu aðild að því fjórar svæðisbundnar samlagsdeildir. Félagsmenn í samsölunni væru mjólkurframleiðendur, sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri, búsettir væru á svæði einhverrar samlagsdeildarinnar og væru þar félagsmenn. Með breytingum, sem gerðar voru á samþykktunum síðastgreindan dag, varð til innan samsölunnar séreignarsjóður, sem hver félagsmaður skyldi eiga sinn hlut í, en til sjóðsins átti að renna tiltekið hlutfall af útborgunarverði innlagðrar mjólkur. Séreign hvers framleiðanda skyldi falla til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu, en yrði að öðru leyti ekki kræf. Bæri framleiðandanum að þessu fullnægðu að óska skriflega eftir útborgun á inneign sinni í séreignarsjóðnum, sem stjórn félagsins væri heimilt að fresta í eitt ár. Tekið var fram að inneign í séreignarsjóði félli til samsölunnar „að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“ Í bráðabirgðaákvæði við samþykktirnar var auk þessa mælt fyrir um að samsalan legði í séreignarsjóðinn nánar tiltekið framlag vegna innlagðrar mjólkur á árunum 1985 til 1994, en hefði framleiðandi, sem fengi inneign í séreignarsjóðnum á þessum grunni, hætt starfsemi skyldi hún greidd út á árinu 1995.
Á aðalfundi mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 var sú breyting gerð á ákvæðum samþykkta hennar um séreignarsjóð að þegar mjólkurframleiðandi legði niður framleiðslu skyldi greiða honum út hlutdeild hans í sjóðnum ekki síðar en 1. júlí á því ári, sem á eftir færi. Með þessu varð útborgun á inneign í séreignarsjóðnum ekki lengur háð því að eftir henni væri leitað. Jafnframt var bráðabirgðaákvæði bætt við samþykktirnar, þar sem tekið var fram að ekki síðar en 1. júlí 2002 skyldi greiða framleiðendum, sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr, út hlutdeild þeirra í séreignarsjóðnum.
Stefndi, sem kveðst vera óskráð sameignarfélag um búskap á jörðinni Hálsi í Kjósarhreppi samkvæmt samningi frá 18. febrúar 1987, mun hafa lagt inn mjólk hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík þar til í mars 1999, þegar hann lét af þeirri framleiðslu. Stefndi leitaði ekki eftir útborgun inneignar sinnar í séreignarsjóði samsölunnar, svo sem honum var heimilt samkvæmt samþykktum hennar á þeim tíma. Eftir að þær breytingar voru gerðar á samþykktunum 8. mars 2002, sem áður er getið, sendi mjólkursamsalan stefnda ásamt bréfi dagsettu „í júní 2002“ tvo tékka að fjárhæð samtals 196.499 krónur til greiðslu á inneign hans í séreignarsjóði eins og hún stóð í árslok 2001. Þess var getið í bréfinu að framsal tékkanna myndi skoðast sem kvittun fyrir móttöku inneignarinnar. Tékka þessa mun stefndi hafa innleyst í banka 2. júlí 2002. Fyrir liggur í málinu að mjólkursamsalan hafi á hliðstæðan hátt greitt út á þessum tíma inneignir í séreignarsjóði til á sjötta hundrað annarra fyrrverandi mjólkurframleiðenda, sem höfðu látið þær standa inni í félaginu þótt þeir hefðu látið af framleiðslu. Munu þeir allir að einum frátöldum hafa tekið athugasemdalaust við þessum greiðslum.
Eftir þessar ráðstafanir voru enn gerðar breytingar á samþykktum mjólkursamsölunnar 21. mars 2003, en með þeim var meðal annars bætt inn í ákvæðin um séreignarsjóð svohljóðandi fyrirmælum: „Félagsréttindum halda aðilar, meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni, eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar. Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt.“
Á aðalfundi mjólkursamsölunnar 19. mars 2004 var samþykkt að færa af óbundnu eigin fé félagsins samtals 548.908.188 krónur í séreignarsjóð og skyldi sú fjárhæð deilast á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við inneign þeirra í ársbyrjun 2004, en þó þannig að allir, sem höfðu lagt inn mjólk á árinu 2003, fengju hlutdeild í þessari hækkun. Þá var þessu til viðbótar samþykkt á fulltrúaráðsfundi mjólkursamsölunnar 28. desember 2006 að færa í séreignarsjóð af óbundnu eigin fé hennar 1.500.000.000 krónur, sem skipt yrði á félagsaðila hlutfallslega eftir inneign í séreignarsjóði í árslok 2006, en þó skyldu allir, sem lögðu inn mjólk á því ári, fá hlutdeild í hækkuninni.
Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2006 í máli nr. 340/2006, sem birtur er á bls. 5584 í dómasafni þess árs, var tekin til greina krafa fyrrum mjólkurframleiðanda um greiðslu úr hendi áfrýjanda á fjárhæð, sem svaraði til hlutdeildar framleiðandans í framlagi mjólkursamsölunnar til séreignarsjóðs samkvæmt áðurnefndri samþykkt 19. mars 2004. Sá framleiðandi hafði eins og stefndi lagt inn mjólk hjá samsölunni, hætt þeirri starfsemi fyrir árslok 2001 og fengið í júní 2002 sendan tékka til greiðslu inneignar í séreignarsjóðnum án þess að hafa óskað eftir útborgun hennar, en var þó í annarri stöðu en stefndi að því leyti að hann hafði ekki innleyst tékka, sem honum hafði verið sendur til greiðslu inneignar í séreignarsjóðnum. Að gengnum þessum dómi leitaði stefndi með bréfi 17. janúar 2007 afstöðu áfrýjanda til þess hvort hann teldi stefnda eiga samsvarandi tilkall til hlutdeildar í sérstökum framlögum mjólkursamsölunnar í séreignarsjóð samkvæmt áðurnefndum ákvörðunum 19. mars 2004 og 28. desember 2006. Því hafnaði áfrýjandi með bréfi 22. janúar 2007. Stefndi höfðaði mál þetta 12. september sama ár til viðurkenningar á því að áðurgreindar breytingar, sem gerðar voru á samþykktum mjólkursamsölunnar 8. mars 2002, hafi verið ólögmætar, svo og á skaðabótaskyldu áfrýjanda við stefnda vegna þeirra.
II
Aðalkrafa áfrýjanda er afmörkuð nánar á þann hátt að hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði verði ómerkt frá þeim tíma, sem Símon Sigvaldason héraðsdómari fékk það til meðferðar, og verði málinu vísað heim í hérað til meðferðar að þessu leyti og dómsálagningar á ný. Áfrýjandi reisir þessa kröfu á því að degi eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hafi athygli hans verið vakin á því að faðir héraðsdómarans hafi á árum áður verið félagsmaður og jafnframt á tímabili stjórnarmaður í Mjólkursamsölunni í Reykjavík, en hann hafi verið meðal þeirra, sem hafi fengið greidda út inneign í séreignarsjóði í framhaldi af breytingunum á samþykktum hennar 8. mars 2002. Hafi verið „um lága fjárhæð að ræða“, en eftir úrslitum málsins í héraði kynni faðir dómarans að eiga rétt á sams konar viðbótargreiðslu og stefndi leitar eftir.
Samkvæmt gögnum málsins, sem varða aðalkröfu áfrýjanda, mun faðir héraðsdómarans hafa látið af búskap, þar á meðal mjólkurframleiðslu, á árinu 1990, en vegna fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis, sem tekið var upp í samþykktir mjólkursamsölunnar 1. nóvember 1994, mun hafa myndast inneign hans í séreignarsjóði vegna innlagðrar mjólkur á árunum 1985 til 1990. Eftir ódagsettri skriflegri beiðni mun faðir héraðsdómarans hafa fengið þessa inneign, 19.325 krónur, greidda á árinu 1995. Af ástæðum, sem ekki hafa verið skýrðar frekar í málinu, munu hafa staðið eftir í séreignarsjóði 1.360 krónur sem innistæða föður héraðsdómarans vegna vaxta, sem reiknaðir hafi verið fyrir árið 1995, en þeir voru greiddir út ásamt síðar áföllnum vöxtum í júní 2002 með tékka að fjárhæð 2.178 krónur.
Áfrýjandi hefur enga grein gert fyrir því hver fjárhæð þessarar inneignar í séreignarsjóði í mjólkursamsölunni hefði orðið ef hún hefði verið látin standa óhreyfð og tekið hækkunum vegna fyrrgreindra sérstakra framlaga af óbundnu eigin fé samsölunnar samkvæmt samþykktum í mars 2004 og desember 2006. Þá hefur áfrýjandi ekki leitast við að skýra hverju það gæti hér varðað að faðir héraðsdómarans hafi, gagnstætt því sem á við um stefnda, óskað sérstaklega eftir að fá útborgaða inneign sína úr séreignarsjóðnum á árinu 1995 og tekið við greiðslu þess, sem mjólkursamsalan innti af hendi í því skyni. Þegar af þessum ástæðum eru engin efni til að líta svo á að þau atvik, sem hér um ræðir, geti neinu skipt samkvæmt ákvæði g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir hæfi héraðsdómarans til fara með mál þetta. Aðalkröfu áfrýjanda verður því hafnað.
III
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nánari grein fyrir þeim ákvæðum, sem vikið var að hér að framan og tóku á mismunandi tímum eftir samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík til aðildar að félaginu og heimilda fyrrum mjólkurframleiðenda til að láta inneign í séreignarsjóði standa þar inni þótt þeir hefðu látið af þeirri starfsemi. Verður að fallast á með héraðsdómara að allt þar til samþykktum félagsins var breytt 21. mars 2003 hafi ekki verið ljóst af þeim hvernig aðild að því félli niður.
Til þess verður á hinn bóginn að líta að í fyrrnefndu bréfi mjólkursamsölunnar til stefnda frá því í júní 2002 sagði meðal annars eftirfarandi: „Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar sem haldinn var 8. mars 2002, voru samþykktar breytingar á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. samþykktanna, fellur séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Ef framleiðandi leggur niður framleiðslu, skal greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði ásamt vöxtum í árslok, eigi síðar en 1. júlí árið eftir. Þá var á aðalfundinum samþykkt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að þeir framleiðendur, sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr, skuli eigi síðar en 1. júlí 2002 fá greidda að fullu hlutdeild sína í séreignarsjóði, eins og hún stóð í árslokauppgjöri 31.12.2001. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Mjólkursamsalan hefur undir höndum, varst þú hættur mjólkurframleiðslu á árinu 2001. Með vísan til ofanritaðs á því inneign þín í séreignarsjóði að koma til útborgunar eigi síðar en 1. júlí næstkomandi. ... Sú fjárhæð fylgir hér með í ávísun. Framsal ávísunarinnar skoðast sem kvittun fyrir móttöku á inneign í séreignarsjóði.“ Af bréfi þessu gat stefnda ekki dulist að Mjólkursamsalan í Reykjavík liti svo á að með útborgun á inneign hans í séreignarsjóði lyki aðild hans að samvinnufélaginu. Stefndi tók án fyrirvara við greiðslu inneignarinnar og fólst kvittun fyrir henni í framsali tékka, sem fylgdu bréfinu. Með þessu staðfesti stefndi í verki útgöngu sína úr félaginu. Af þessum sökum stoðar honum ekki að bera því nú við að annmarkar hafi verið á breytingum á samþykktum mjólkursamsölunnar, sem ákveðnar voru 8. mars 2002 og hann hreyfði engum athugasemdum við um nærri fimm ára skeið. Verður því að sýkna áfrýjanda af kröfum hans.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Auðhumla svf., er sýkn af kröfum stefnda, Félagsbúsins Hálsi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2008.
Mál þetta er höfðað 12. september 2007 og dómtekið 30. janúar sl.
Stefnandi er Félagsbúið Hálsi, Hálsi, Kjósarhreppi.
Stefndi er Auðhumla svf., Bitruhálsi 1, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að breytingar á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík svf., og samþykkt á bráðabirgðaákvæði því samfara, á aðalfundi hennar þann 8. mars 2002, þannig að stefnanda var gert að innleysa séreign sína í séreignarsjóði hennar í júní sama ár, hafi verið ólögmætar, og baki stefnda skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar.
Þann 18. febrúar 1987 gerðu Gísli Andrésson, Ingibjörg Jónsdóttir, Jón Gíslason og Sólrún Þórarinsdóttir með sér samning um félagsbúskap en þau höfðu allt frá árinu 1976 rekið félagsbú á Hálsi í Kjósarhreppi. Er samningur þessi á dskj. nr. 18. Félagsbúið var óskráð sameignarfélag þeirra. Eftir andlát Gísla og Ingibjargar ráku Sólrún og Jón félagsbúið áfram tvö ein. Mjólkurframleiðsla félagsbúsins var lögð inn hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík og var félagsbúið því félagsaðili í Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Stefndi hætti mjólkurframleiðslu á árinu 1999 og er síðasta mjólkurinnlegg hans frá 3. mars á því ári.
Mjólkursamsalan í Reykjavík var stofnuð með lögum nr. 1/1935. Stefndi varð til við samruna Mjólkursamsölunnar í Reykjavík svf. og Mjólkurbús Flóamanna svf. á árinu 2005 og er samvinnufélag, svo sem forveri hennar var einnig. Í kjölfar stofnunar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík á árinu 1935 setti Mjólkursamsalan sér samþykktir. Eru fyrstu samþykktirnar á dskj. nr. 7. Samkvæmt 2. gr. þeirra er sölusamlag mjólkursamlaganna á Suður- og Vesturlandi: Mjólkurbús Flóamanna, Mjólkursamlags Kjalarnesþings, Mjólkursamlags Kaupfélags Borgfirðinga og Mjólkursamlagsins í Búðardal. Samkvæmt 5. gr. samþykktanna skyldu á aðalfundi samlagsdeildar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík kjörnir fulltrúar til að mæta á fulltrúafundum hennar. Á þeim fundi skyldi leggja fram skrá yfir alla þá mjólkurframleiðendur sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og ekki minna en 2000 lítra á ári og búsetu áttu á svæði samlagsdeildarinnar. Ef tveir bændur eða fleiri byggju félagsbúi og legðu inn mjólk sameiginlega skoðist hver um sig mjólkurinnleggjandi, enda hefðu þeir mikinn hluta tekna sinna af mjólkurframleiðslu. Þeir sem fullnægðu framangreindum ákvæðum teldust virkir mjólkurframleiðendur og hefðu ekki aðrir rétt til fulltrúakjörs né kjörgengis á fulltrúafundi.
Samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík var breytt 1. nóvember 1994. Samkvæmt 5. gr. skyldi aðalfundur hverrar samlagsdeildar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík eftir sem áður kjósa fulltrúa til að mæta á fulltrúafundum. Á þeim fundi skyldi leggja fram skrá yfir alla þá mjólkurframleiðendur, sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og búsetu ættu á svæðinu. Kváðu samþykktirnar ekki lengur á um að krafa væri gerð um tiltekinn lágmarks lítrafjölda á ári. Þá hafði verið horfið frá ákvæðum um áhrifa félagsbúa. Komið var inn ákvæði í samþykktirnar um að mjólkurframleiðendur yrðu félagsmenn í Mjólkursamsölunni í Reykjavík væru þeir félagsmenn í einhverri af samlagsdeildum hennar. Þá var kveðið á um inntökugjald nýrra félagsmanna í Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Þeir félagsmenn sem fullnægðu þessum skilyrðum hefðu einir rétt til fulltrúakjörs og kjörgengis á aðalfundum. Þá var 1. mgr. 11. gr. samþykktanna breytt á þann veg að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. skyldi innan Mjólkursamsölunnar í Reykjavík vera séreignarsjóður og varasjóður. Skyldi tiltekið hlutfall af útborgunarverði innlagðrar mjólkur renna í séreignarsjóð og heimilt að leggja í sjóðinn hluta af tekjuafgangi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Í 2. mgr. 11. gr. var mælt fyrir um að framlög í sjóðinn skyldu færð á sérstakan reikning hvers mjólkurframleiðanda og að haldin skyldi skrá er sýndi hlutdeild hvers framleiðanda í sjóðnum í lok hvers reikningsárs. Ennfremur skyldi vaxtareikna og verðbæta sjóðinn. Þá sagði í 3. mgr. 11. gr. að séreign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu en væri að öðru leyti ekki kræf. Skyldi hann óska skriflega eftir útborgun á inneign sinni. Stjórn var heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana barst stjórn. Í 4. mgr. sagði orðrétt „Inneign í séreignarsjóði fellur til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“
Stefnandi kveðst hafa ákveðið að óska ekki eftir útborgun á séreign sinni þegar hann hætti mjólkurframleiðslu á árinu 1999, heldur ávaxta fé sitt í samræmi við ákvæði 11. gr. samþykktanna.
Á árinu 2001 tóku gildi lög nr. 22/2001, um breyting á lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Tók þá gildi ákvæði II til bráðabirgða, sem mælti fyrir um að heimilt væri að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs sameignarfélags fyrir árslok 2004. Þá bættust fjórar nýjar málsgreinar við 38. gr. laganna og varð samkvæmt 4. mgr. heimilt að hækka séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins á þann hátt sem þar er nánar greint.
Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 var samþykkt með atkvæðum 17 af 21 fulltrúa á fundinum að breyta 11. gr. samþykkta félagsins þannig að hlutdeild í séreignarsjóði væri greidd út árið eftir að eigandi hlutdeildar hætti framleiðslu mjólkur. Í 3. mgr. 11. gr. sagði: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári sem á eftir fer.“ Felld var brott 4. mgr. um að inneignin félli til Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 10 árum eftir að félagsaðild lyki en við samþykktirnar bættist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi: „Í samræmi við 3. mgr. 11. gr. skal eigi síðar en 1. júlí 2002, greiða þeim framleiðendum að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, sem hætt hafa mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr“.
Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi stefnanda bréf í júní 2002 þar sem vísað var í aðalfund Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 og breytingar sem gerðar voru á 11. gr. samþykktanna. Í bréfinu segir að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skuli framleiðendur sem hætt hafi mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr eigi síðar en 1. júlí árið eftir fá greidda hlutdeild sína í séreignarsjóði eins og hún stóð í árslokauppgjöri 31. desember 2001. Inneign stefnanda hafi verið 147.196 krónur á þeim tíma. Sú fjárhæð fylgdi bréfinu í ávísun. Þá sagði að framsal ávísunarinnar myndi skoðast sem kvittun fyrir móttöku á inneign í sjóðnum. Ættu upplýsingar um að stefnandi væri hættur mjólkurframleiðslu ekki við rök að styðjast var þess óskað að hann endursendi ávísunina. Stefnandi móttók inneignina án sérstakra formlegra mótbára.
Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 21. mars 2003 var 3. mgr. 11. gr. samþykktanna enn á ný breytt þannig: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Félagsréttindum halda aðilar, meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni, eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar. Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt.“
Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 19. mars 2004 var tillaga samþykkt um að 548.908.188 krónur yrðu færðar af óbundnu eigin fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík í séreignarsjóð félagsins. Fjárhæðin skyldi deilast á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003 til 2004, þó þannig að allir þeir sem lagt hefðu inn mjólk á árinu 2003 fengju hlutdeild í hækkuninni. Með þessu væri nýtt heimild í ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991, en ákvæðið hafði komið inn með lögum nr. 22/2001. Meðalséreign hvers séreignarsjóðseiganda jókst mikið við þessa breytingu.
Á fulltrúaráðsfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 28. desember 2006 var samþykkt tillaga um að 1.500.000.000 krónur yrðu færðar af óbundnu eigin fé Mjólkursamsölunnar í stofnsjóð félagsins samkvæmt 4. mgr. 38. gr. laga nr. 22/1991. Fjárhæðin skyldi deilast á félagsaðila í hlutfalli við stofnsjóðseign í árslok 2006, þó þannig að allir þeir sem lagt hefðu inn mjólk á árinu 2006 fengju hlutdeild í hækkuninni.
Stefnandi ritaði stefnda bréf 17. janúar 2007 þar sem kemur fram að stefnandi hafi tekið við ávísunum sem honum voru sendar í júní 2002 í góðri trú en teldi nú að ráðstöfunin hafi verið ólögmæt. Var vísað í dóm Hæstaréttar Íslands í máli 340/2006 sem upp var kveðinn 14. desember 2006. Var farið fram á að upplýst yrði hvort stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík teldi stefnanda eiga rétt til vaxta og verðbóta af inneign sinni auk hlutfallslegrar aukningar sem fólst í samþykktum aðalfundar 19. mars 2004 og félagsfundar 28. desember 2006. Var kröfunni hafnað með bréfi 22. janúar 2007 með vísan til þess að rök Hæstaréttar í máli nr. 340/2006 ættu ekki við í máli stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að þær breytingar á félagssamþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, þar á meðal samþykkt bráðabirgðaákvæðisins sem urðu þess valdandi að hann var tilneyddur til að innleysa séreign sína í stefnda, hafi verið ólögmætar og um leið saknæmar. Við þær hafi stefnandi jafnframt farið á mis við þau verulegu fjárhagslegu verðmæti sem fylgt hafi inneignum félagsaðila við endurmat og síðari hækkanir á séreignarhlutum og þannig orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Stefnandi vísi til þess að breytingar á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og samþykkt bráðabirgðaákvæðisins hafi verið liður í stórfelldum flutningi af óbundnu eigin fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík yfir á séreignarsjóðsreikninga félagsmanna árið 2004. Hafi stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar í Reykjavík beinlínis lýst þessu yfir á aðalfundi félagsins 8. mars 2002.
Stefnandi telji einsýnt að þessi ráðstöfun
hafi bersýnilega verið til þess fallin að
afla tilteknum félagsmönnum ótilhlýðilegra
hagsmuna á kostnað annarra. Hafi
ákvörðunin þannig brotið gegn meginreglu 72.
gr. laga nr. 22/1991. Með umþrættri ákvörðun hafi inneign stefnanda
og annarra sem eins var ástatt um verið innleyst af hálfu stefnda, sem hafi
orðið til þess að þeir hafi ekki átt þess
kost að njóta þeirra ávaxta er fylgt hafi endurmati á séreignarhlutum á árinu 2004 og hækkunar á árinu
2006. Hafi ráðstöfunin haft í för með sér að séreignarsjóðsfélögum hafi fækkað úr 1346 í árslok 2001 niður í 769 í
árslok 2002. Fyrir vikið hafi þeir sem
ekki hafi verið gert skylt að þola innlausn á séreignum sínum fengið hærra
endurmat fyrir sína eignarhluti og fjármunirnir skipst á færri hendur. Stefnandi og aðrir sem sætt hafi innlausn
á sama hátt hafi hins vegar farið algjörlega á mis við þessi verðmæti, enda
þótt þeir hafi um árabil lagt jafn mikið til félagsins.
Stefnandi kveðst hafna þeirri skýringu að hann hafi ekki lengur verið félagsmaður á því tímamarki sem umþrætt ákvörðun hafi verið tekin 8. mars 2002. Stefnandi vísi í þessu sambandi til þess að samkvæmt 37. gr. laga nr. 22/1991 sé beinlínis ráðgert að stofnsjóður samvinnufélags sé myndaður úr séreignarhlutum félagsaðila og einungis félagsaðilar geti átt séreignarhluta í A-deild stofnsjóðs. Þegar af þessum ástæðum verði að líta svo á að stefnandi hafi á tímamarki umþrættrar ákvörðunar að lögum verið félagsaðili, enda hafi hann ekki þá verið búinn að leysa séreignarhluta sinn til sín.
Stefnandi vísi einnig til þess að í samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi verið gert ráð fyrir þeim möguleika að aðilar gætu verið félagsmenn enda þótt þeir hafi látið af mjólkurframleiðslu. Þeir hafi hins vegar ekki haft rétt til fulltrúakjörs og kjörgengis á fundum. Hafi þannig verið gert ráð fyrir virkum félagsmönnum, sem enn væru í mjólkurframleiðslu og óvirkum, sem látið hefðu af mjólkurframleiðslu en ættu enn séreignarhlut.
Stefnandi telji að jafnvel þótt hann yrði ekki talinn hafa verið félagsmaður á tímamarki umþrættra breytinga, hafi hann óumdeilanlega verið séreignarsjóðseigandi. Telji stefnandi að Mjólkursamsölunni í Reykjavík hafi samkvæmt grunnrökum þeim er búi að baki ákvæði 72. gr. laga nr. 22/1991 verið óheimilt að afla öðrum séreignarsjóðseigendum sem jafnframt voru félagsmenn ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og annarra sem verið hafi í sömu stöðu.
Þá telji stefnandi að umþrætt ákvörðun Mjólkursamsölunnar í Reykjavík frá 8. mars 2002 sem orðið hafi grundvöllur innlausnar stefnda hafi brotið gegn 71. gr. laga nr. 22/1991. Samkvæmt ákvæðinu krefjist breyting á félagssamþykktum sem raski réttarsambandi félagsmanna samþykki tveggja lögmætra félagsfunda í röð og stuðnings ekki færri en 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsaðila. Að mati stefnanda væri óumdeilt að umþrætt breyting hafi raskað réttarsambandi félagsmanna, enda hafi hún meðal annars falið í sér að félagsmönnum, sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu, hafi verið gert skylt að sæta innlausn séreignarhluta sinna. Hafi þannig verið um að ræða breytingu frá fyrra réttarsambandi félagsmanna. Framangreind breyting hafi hins vegar verið afgreidd á einum fundi.
Stefnandi kveður ástæðu þess að hann hafi beðið með að höfða mál á hendur stefnda hafa verið að honum hafi verið kunnugt að aðili, sem nokkuð svipað hafi verið ástatt um, hafi höfðað mál á hendur Mjólkursamsölunni í Reykjavík með vísan til sambærilegra málsástæðna og stefnandi. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 340/2006 hafi verið fallist á greiðsluskyldu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík gagnvart þeim aðila. Þær forsendur er legið hafi til grundvallar dómsniðurstöðu hafi haft í för með sér að ekki hafi reynst nauðsynlegt að taka afstöðu til þeirra málsástæðna sem stefnandi byggi málshöfðun sína á. Hafi stefnandi því ákveðið í kjölfarið að hlutast til um málshöfðun á hendur stefnda.
Stefnandi kveður tjón sitt vera fólgið í því að breytingar á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem haft hefðu í för með sér innlausn á séreign stefnanda, hafi orðið þess valdandi að stefnandi hafi farið á mis við þau verulegu fjárhagslegu verðmæti sem fylgt hafi inneignum félagsaðila við endurmat og hækkanir á séreignarhlutum. Frá sjónarhóli stefnanda væri óumdeilt að ef hann hefði átt þess kost að eiga áfram séreignarsjóðsinneign sína hefði hann gert það, enda hafi honum verið ljóst að fyrirhugaðar eignatilfærslur myndu leiða til verulegrar hækkunar á séreignarsjóðsinneign hans eins og raunin hafi síðar orðið hjá öðrum félagsmönnum.
Stefnandi vísar til almennra óskráðra meginreglna félagaréttarins um samvinnufélög. Þá vísar hann til laga nr. 22/1991, ásamt áorðnum breytingum, einkum 37., 38., 70., 71. og 72. gr., og laga nr. 22/2001 um breytingu á lögum nr. 22/1991. Þá vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar og laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður hann við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst vera samvinnufélag og um það félagsform fari eftir lögum nr. 22/1991. Samkvæmt 1. gr. laganna sé markmið samvinnufélaga að efla hag félagsmanna eftir viðskiptalegri þátttöku þeirra í félagsstarfinu. Samkvæmt 15. gr. þeirra sé félagsaðild heimil öllum þeim sem starfa vilji í félaginu og falli brott þegar félagsaðili fullnægi ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild. Þá sé heimilt samkvæmt 3. mgr. 38. gr. sömu laga að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimili útborgun séreignarhluta ef félagsaðili hætti þeirri starfsemi sem sé grundvöllur þátttöku hans í félaginu.
Allt frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að aðilar að Mjólkursamsölunni í Reykjavík væru mjólkurframleiðendur. Í því tilliti megi benda á orðalag 1. gr. fyrstu starfsreglna Mjólkursamsölunnar í Reykjavík svf. frá 4. mars 1936 þar sem segi að mjólkurframleiðendur vestan heiða skuli hafa forgangsrétt til sölu neyslumjólkur á sölusvæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík fyrst um sinn. Þá sé í samþykktum eftir breytingar 1994 og 2003 mælt fyrir um að Mjólkursamsalan í Reykjavík sé sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda. Í 5. gr. samþykkta frá 1936 hafi verið gert ráð fyrir því að haldin væri skrá yfir alla mjólkurframleiðendur sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og ekki minna en 2000 lítra á ári og búsetu hefðu á svæði samlagsdeildarinnar. Þeir sem uppfyllt hefðu þessi skilyrði hafi talist virkir mjólkurframleiðendur. Þessu hafi verið breytt 1. nóvember 1994 og 2. gr. orðið svo eftir breytingar: „Mjólkursamsalan er sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda á Suður- og Vesturlandi og starfar á samvinnugrundvelli. Aðild að Mjólkursamsölunni eiga samlagsdeildir Mjólkurbús Flóamanna, Mjólkursamlags Kjalarnesþings, Mjólkursamlags Borgfirðinga og Mjólkursamlagsins í Búðardal. Ábyrgð einstakra mjólkurframleiðenda á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar er takmörkuð þannig að þeir bera einvörðungu ábyrgð á skuldbindingum með inneign sinni í séreignarsjóði skv. 11. gr.“ Með breytingu á samþykktunum 21. mars 2003 hafi 5. gr. samþykktanna hljóðað svo: „Mjólkurframleiðendur verða félagsaðilar í Mjólkursamsölunni leggi þeir að staðaldri mjólk í afurðastöð einhverrar af samlagsdeildum hennar.“ Til þess að vera félagsmaður í Mjólkursamsölunni í Reykjavík hafi viðkomandi orðið að vera mjólkurframleiðandi. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna hafi endurspeglað þetta en þar hafi sagt að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu. Þetta væri í samræmi við ákvæði samvinnufélagalaga þar sem aðild að samvinnufélagi byggi á viðskiptalegri þátttöku félagsmanna í félaginu. Til að taka af allan vafa um þetta hafi sagt í 4. mgr. 11. gr. samþykktanna að inneign í séreignarsjóði félli til Mjólkursamsölunnar í Reykjavík að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lyki, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar fyrr. Það hafi þannig verið gert ráð fyrir því alveg frá því að fyrstu starfsreglur Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi litið dagsins ljós að félagsmenn væru mjólkurframleiðendur, að Mjólkursamsalan væri samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda og að aðrir en mjólkurframleiðendur hafi ekki verið aðilar að Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Félagsmenn sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu hafi ekki getað verið félagsaðilar eða notið þeirra réttinda og/eða skyldna sem félagsaðilar nytu.
Á þeim tíma sem stefnandi hafi tekið við af Gísla Andréssyni á Hálsi, árið 1980, hafi 2. gr. samþykkta félagsins verið orðuð svo að Mjólkursamsalan í Reykjavík væri sölusamlag mjólkursamlaganna á Suður- og Vesturlandi, meðal annars Mjólkursamlags Kjalarnesþings, sem stefnandi hafi tilheyrt. Stefnandi hafi verið mjólkurframleiðandi allt til ársins 1999, en síðasta innlegg hans hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík hafi verið 3. mars 1999. Stefnandi muni þá hafa látið af mjólkurframleiðslu. Samkvæmt 2. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem í gildi hafi verið á árinu 1999, hafi félagið verið samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda. Þegar stefnandi hafi látið af mjólkurframleiðslu hafi hann ekki lengur uppfyllt skilyrði samþykktanna til að vera félagi í Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Hann hafi ekki lengur verið með viðskiptalega þátttöku í starfsemi félagsins. Hann hafi aftur á móti átt inneign í séreignarsjóði. Í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík á aðalfundi félagsins 8. mars 2002 hafi stefnandi fengið greidda út inneign sína í séreignarsjóðnum. Ávísanir, sem sendar hafi verið til stefnanda við þetta tilefni, hafi verið innleystar í banka 2. júlí 2002, samkvæmt upplýsingum frá þeim banka.
Stefnandi haldi því fram að þær breytingar sem gerðar hafi verið á félagssamþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, þar á meðal samþykkt bráðabirgðaákvæðisins, hafi verið ólögmætar og saknæmar. Sé því sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að fulltrúar þeir sem sótt hafi aðalfund stefnda 8. mars 2002 hafi gerst sekir um ólögmætt athæfi. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki lengur verið félagsaðili að stefnda þegar breytingarnar hafi verið gerðar. Hann geti ekki byggt neinn rétt á því hvernig mál hafi þróast hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík eftir 1999, þar sem hann hafi þá ekki verið aðili að félaginu.
Stefnandi kveður stofnsjóð samvinnufélags myndaðan af séreignarhlutum félagsaðila. Séreignarhlutar verði til við greiðslu aðildargjalds og við að hluti af hagnaði félagsins bætist við. Mælt sé fyrir um það í 38. gr. laganna hvenær séreignarhlutur komi til útborgunar. Séreignarsjóður Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi orðið til með breytingum sem gerðar hafi verið á samþykktum félagsins 1. nóvember 1994. Samkvæmt 11. gr. samþykktanna skyldi séreignarsjóður vera til innan Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og árlega renna í hann tiltekið hlutfall af útborgunarverði innlagðrar mjólkur samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar. Flestir af þeim mjólkurframleiðendum sem hætt hafi framleiðslu á tímabilinu 1994 til 2002 hafi samkvæmt eigin ósk fengið greidda innstæðu sína í séreignarsjóðnum.
Í 3. mgr. 38. gr. laga nr. 22/1991 segi að unnt sé að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimili útborgun séreignarhluta hætti félagsaðili þeirri starfsemi sem sé grundvöllur þátttöku hans í félaginu. Í samræmi við þetta ákvæði hafi 3. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, þegar stefnandi hafi hætt mjólkurframleiðslu árið 1999, kveðið á um að séreign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf. Skyldi hann eða erfingjar hans, væri hann látinn, óska skriflega eftir útborgun á inneigninni. Stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi verið heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana hafi borist. Það hafi hins vegar ekkert bannað Mjólkursamsölunni að greiða út inneign án kröfu.
Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002, hafi verið lögð til svohljóðandi breyting á samþykktunum: „Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári sem eftir fer“. Sú kvöð hafi með öðrum orðum verið lögð á félagið að hafa frumkvæði að því að greiða þeim aðilum inneign þeirra sem hættir væru framleiðslu og uppfylltu því ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Jafnframt hafi verið samþykkt sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem hafi kveðið á um það að greiða skyldi þeim framleiðendum sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr, hlutdeild þeirra í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí 2002. Með þessu hafi verið tryggt að þeir sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á undanförnum tíu árum, en ekki gætt að því að krefjast útborgunar séreignarsjóðs síns, fengju greiddar þær inneignir. Ákvæði þetta hafi verið sett til hagsbóta fyrir fyrrverandi félagsmenn þannig að tryggt væri að þeir fengju inneign sína í séreignarsjóði greidda út.
Stefnanda vísi til þess að breyting sem gerð hafi verið á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 hafi verið marklaus þar sem hún hafi falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Með hana hafi átt að fara samkvæmt 71. gr. laga nr. 22/1991. Breytinguna hafi því átt hafi að bera undir tvo félagsfundi í röð þar sem hún hafi þurft stuðning ekki færri en 2/3 hluta atkvæðisbærra manna. Vegna þess síðastnefnda telji stefndi rétt að taka fram að tillaga um breytingu á 11. gr. samþykkta félagsins hafi hlotið atkvæði 17 fulltrúa af 21 á aðalfundinum 2002. Breytingartillagan hafi fellt úr gildi ósanngjarnt ákvæði 4. mgr. 11. gr. þess efnis að ef inneignar væri ekki vitjað innan tíu ára félli hún til Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Þá hafi verið kveðið á um það í breytingartillögunni hvenær Mjólkursamsölunni í Reykjavík bæri að greiða inneign þeirra mjólkurframleiðenda sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001. Samkvæmt áðurgildandi samþykktum hafi inneignin fallið í gjalddaga þegar aðilar hættu mjólkurframleiðslu og voru þar af leiðandi ekki lengur félagar í Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Engin breyting hafi orðið á því með breytingu á 11. gr. samþykktanna á aðalfundi 8. mars 2002. Breytingin sem samþykkt hafi verið á aðalfundinum hafi því ekki falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Hún hafi ekki verið andstæð 71. gr. laga nr. 22/1991. Stefnandi hafi ekki verið félagsaðili er breytingin hafi verið gerð, en hann hafi hætt að uppfylla skilyrði félagsaðildar á árinu 1999 er hann hafi látið af mjólkurframleiðslu. Hann hafi hins vegar átt inneign í séreignarsjóði, sem alls ekki þurfi að vera það sama og að vera félagsaðili. Þeim sem átt hafi inneign í séreignarsjóði hafi fækkað eftir samþykktina á aðalfundinum 8. mars 2002 vegna þess að með þeim breytingum sem þar voru gerðar á samþykktum hafi Mjólkursamsalan í Reykjavík verið skylduð til að greiða út inneignir þeirra sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu.
Stefnandi vísi til þess að breytingin á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 hafi verið andstæð 72. gr. laga nr. 22/1991 þar sem félagsfundur megi ekki taka ákvörðun sem bersýnilega sé til þess fallin að afla ákveðnum félagsaðilum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila eða félagsins. Þá vísi hann til þeirra raka að breytingin hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið að njóta þeirrar aukningar sem gerð hafi verið á séreignarsjóðnum. Stefndi kveður ástæðu þess að stefnandi hafi ekki lengur verið félagsaðili að Mjólkursamsölunni í Reykjavík hafa verið þá að hann hafi verið hættur mjólkurframleiðslu. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi héldi áfram mjólkurframleiðslu, en engar kvaðir hafi verið á honum um tiltekið lágmarksmagn. Breytingin sem samþykkt hafi verið hafi leitt til þess að greidd hafi verið út inneign í séreignarsjóði til þeirra sem hættir hafi verið mjólkurframleiðslu. Hún hafi engin áhrif haft á þá sem verið hafi félagsaðilar í Mjólkursamsölunni í Reykjavík þegar breytingin hafi verið gerð. Þegar af þeirri ástæðu hafi ekki verið um að ræða ákvörðun bersýnilega til þess fallna að afla ákveðnum félagsaðilum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra. Á þessu tímamarki hafi stefnandi ekki lengur uppfyllt skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Breytingarnar hafi hlotið samþykki tilskilins meirihluta fulltrúa á aðalfundi og ekki falið í sér röskun á réttarsambandi aðila. Hafi ákvörðunin því ekki verið andstæð 72. gr. laga nr. 22/1991.
Í stefnu sé því haldið fram að breytingin á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík sem samþykkt var 8. mars 2002 hafi verið andstæð jafnræði og sanngirni milli félagsmanna. Byggi stefnandi enn á því að hann hafi verið félagsaðili þegar breytingin hafi verið gerð. Það hafi hann ekki verið. Breytingin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Ákvörðun á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 19. mars 2004 um að færa 548.908.188 krónur af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð hafi verið málefnaleg og í samræmi við það að mjólkurframleiðsla væri forsenda félagsaðildar. Ráðstafanirnar hafi ekki verið til hagsbóta fyrir stefnda eða einstaka félagsmenn stefnda. Þær hafi ekki verið til þess að koma í veg fyrir að stefnandi fengi einhverja hækkun, heldur hafi þær haft sömu áhrif hjá stefnanda og öðrum mjólkurframleiðendum sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu árið 2001. Fyllsta jafnræðis hafi verið gætt.
Stefndi byggi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti. Stefna í málinu hafi verið gefin út 11. september 2007 og birt 12. september 2007. Stefnandi hafi fyrst hreyft kröfum sínum með bréfi til stefnda 17. janúar 2007. Þá hafi verið liðin um fjögur og hálft ár frá því að stefnandi hafi móttekið inneign sína en á þeim tíma hafi stefnandi aldrei hreyft formlegum mótmælum gegn þessari ráðstöfun Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Það hafi hins vegar verið fullt tilefni fyrir stefnanda til að senda formlegar athugasemdir við ráðstöfunina. Allan tímann hafi verið reglulegur fréttaflutningur af máli Sigurbjörns Hjaltasonar gegn stefnda sem lauk með dómi Hæstaréttar 14. desember 2006 og stefnanda því mátt vera kunnugt um að búið hafi verið að gera athugasemdir við ráðstafanir stefnda. Stefnandi hafi þannig sýnt af sér tómlæti.
Stefndi miði við að í bréfi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík frá júní 2002 hafi komið fram að með ávísuninni hafi Mjólkursamsalan í Reykjavík verið að greiða stefnanda að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði. Skýrt komi fram í bréfinu að framsal ávísunarinnar skoðaðist sem kvittun fyrir móttöku á inneigninni. Stefnandi hafi innleyst ávísunina 2. júlí 2002 og þar með gefið fullnaðarkvittun fyrir inneign sinni í séreignarsjóði. Mál þetta sé höfðað rúmum fimm árum eftir að stefnandi hafi kvittað fyrir greiðslu sem stefndi hafi talið vera fullnaðargreiðslu á inneign stefnanda í séreignarsjóðnum. Hafi stefnandi talið að ekki væri um fullnaðargreiðslu að ræða hafi honum borið að halda kröfunni fram innan fjögurra ára frá innlausnardegi ávísunarinnar, sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Fyrningarfresturinn teljist frá innlausnardegi, 2. júlí 2002, sbr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Hver sú krafa sem stefnandi hugsanlega hafi átt á hendur stefnda hafi því verið löngu fyrnd er mál þetta hafi verið höfðað 12. september 2007.
Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Með frumvarpi sem varð að lögum nr. 22/2001, um breyting á lögum nr. 22/1991, voru gerðar breytingar á ákvæðum samvinnufélagalaga. Við 38. gr. laga nr. 22/1991, sem fjallaði um stofnsjóð samvinnufélags, bættust fjórar nýjar málsgreinar. Í athugasemdum með frumvarpinu kom m.a. fram að einn vandi samvinnufélaga væri að ekki hefði tekist að viðhalda eða byggja upp eigendavitund á meðal félagsmanna sem talin var nauðsynlegur bakhjarl í rekstri fyrirtækja. Stofnsjóðir samvinnufélaga hafi rýrnað þannig að varla væri lengur um að ræða raunverulegt eða eiginlegt eigendafjármagn í fyrirtækjunum. Aðeins brot af eigin fé félaganna væri beint tengt félagsmönnum. Ekki væri unnt að leggja viðskiptalegt mat á fyrirtækin, en það væri forsenda skipulagsþróunar, m.a. samruna og sérgreiningar, og félagsaðilar hefðu almennt ekki skýra og beina hagsmuni af arði eða batnandi afkomu fyrirtækjanna. Markmið frumvarpsins væri að leita leiða til að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á fjárhagslegri aðild félagsmanna að viðkomandi félagi. Eitt einkenna samvinnufélaga væri eignaraðild félagsmanna og þátttaka í arðsemi félagsins í tengslum við viðskipti sem félagsmenn ættu við félagið. Fyrrgreind þróun hefði leitt til þess að hlutur þeirra hefði ekki vaxið í takt við eignir félagsins. Með breytingunum yrði heimilað að hækka séreignarhluta félagsaðila til þess að stofnsjóðir samvinnufélaga endurspegluðu betur eigið fé félags.
Að mati dómsins liggur ljóst fyrir að grundvöllur að þeim breytingum sem gerðar voru á samþykktum stefnda 8. mars 2002, sem lutu að 11. gr. samþykktanna, eigi rætur að rekja til þess breytta umhverfis er samvinnufélög stóðu orðið frammi fyrir og lýst var hér að framan. Svo sem fram kemur í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 22/2001 hafði safnast upp í samvinnufélögum fé í eigin sjóðum sem ekki komst í hendur félagsmanna í gegnum félagsformið. Áður en í það yrði ráðist hins vegar að flytja fé úr eigin sjóðum stefnda yfir í séreignarsjóði félagsmanna yrði þó að afmarka skýrt hverjir ættu aðild að félaginu og að þeim yrði ekki greitt út sem ekki fullnægðu lengur skilyrðum til að vera félagsmenn og að aðild þeirra að félaginu lyki þar með. Í samræmi við þennan tilgang var 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykkta stefnda breytt. Þessu til stuðnings má m.a. vísa til 12. liðar í fundargerð aðalfundar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002, sem frammi liggur á dskj. nr. 10, en þá þegar var farið að vinna eftir þessum áformum. Eftir að þessi atriði hefðu verið skýrð og þeim verið greitt úr séreignarsjóðum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu var ákveðið á aðalfundi 19. mars 2004 að færa umtalsverða fjármuni af óbundnu eiginfé í séreignarsjóði félagsins og skyldi fjárhæðin deilast niður í hlutfalli við séreignarsjóðseign um áramótin 2003 til 2004 þó þannig að allir þeir er hefðu lagt inn mjólk á árinu 2003 fengju hlutdeild í hækkuninni. Ekki liggja fyrir dóminum skýrar upplýsingar um með hvaða hætti óbundið eigið fé stefnda hafi hækkað á aðliggjandi árum, en með hliðsjón af dskj. nr. 17 má fullyrða að það fé hafi vaxið jafnt og þétt á árunum á undan.
Ekki er um það deilt að stefndi er samvinnufélag og að um starfsemi félagsins fari samkvæmt lögum um samvinnufélög, nú síðast lögum nr. 22/1991. Svo sem uppi var í samkynja máli annars aðila gegn stefnda og dæmt var í Hæstarétti Íslands 14. desember 2006 í máli nr. 340/2006 er um það deilt hvort stefnandi eigi rétt á hlutdeild í þeirri hækkun á séreignarsjóði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 19. mars 2004. Þá er ágreiningslaust að stefnandi var í mjólkurframleiðslu allt þar til í mars 1999 og að hann innleysti ávísun í banka 2. júlí 2002 sem var inneign hans í séreignarsjóðinum. Frá fyrstu starfsreglum og samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík er gert ráð fyrir að félagsmenn í Mjólkursamsölunni séu mjólkurframleiðendur og Mjólkursamsalan samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda.
Stefnandi rökstyður kröfur sínar í fyrsta lagi með þeim hætti að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem breytingar á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002, auk bráðabirgðaákvæðisins sem samþykkt var, hafi brotið gegn 72. gr. laga nr. 22/1991. Ákvæði þetta mælir fyrir um að félagsfundur megi ekki taka ákvarðanir sem séu til þess fallnar að afla ákveðnum félagsaðilum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Samkvæmt þessu verður í upphafi að taka til úrlausnar hvort stefnandi teljist hafa verið félagsaðili er ákvörðunin var tekin á aðalfundi 8. mars 2002 um breytingu á samþykktum stefnda.
Í 9. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 22/1991 er mælt fyrir um að í samþykktum samvinnufélags skuli fjallað um almenn skilyrði fyrir aðild að félaginu og um brottfall aðildar. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna fellur félagsaðild brott þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um aðild. Eftir breytingar þær sem gerðar voru á samþykktum stefnda á árinu 1994 sagði svo í 2. gr. samþykktanna: „Mjólkursamsalan er sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda á Suður- og Vesturlandi og starfar á samvinnugrundvelli. Aðild að Samsölunni eiga samlagsdeildir... Ábyrgð einstakra mjólkurframleiðenda á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar er takmörkuð þannig að þeir bera einvörðungu ábyrgð á skuldbindingum með inneign sinni í séreignarsjóði skv. 11. gr.“ Í 5. gr. samþykktanna sagði að leggja skyldi fram skrá á fulltrúafundum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík yfir alla þá mjólkurframleiðendur sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og búsetu ættu á svæði samlagsdeildar. Mjólkurframleiðendur yrðu félagsmenn í Mjólkursamsölunni í Reykjavík væru þeir félagsmenn í einhverri af samlagsdeildunum. Nýr félagsmaður skyldi greiða inntökugjald. Þeir félagsmenn sem fullnægðu þessum ákvæðum hefðu einir rétt til fulltrúakjörs og kjörgengis. Framangreind ákvæði samþykkta stefnda eru ekki afdráttarlaus um með hvaða hætti brottfall félagsaðildar kemur til, sem þó er boðið að fram skuli koma í samþykktum, sbr. 9. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 22/1991. Er einnig til þess að líta að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 340/2006 stendur 2. mgr. 15. gr. laga nr. 22/1991 því ekki í vegi að félagsmenn geti áfram verið félagsaðilar í Mjólkursamsölunni í Reykjavík þrátt fyrir að þeir hafi hætt mjólkurframleiðslu. Enda var það svo að á aðalfundi stefnda 21. mars 2003 var bætt inn nýmæli í 11. gr. samþykkta stefnda sem kvað nú á um að félagsaðild lyki við afgreiðslu ársreiknings þess árs er viðskiptum með mjólkurinnlegg væri hætt. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða dómsins að ekki hafi legið fyrir er stefnanda var greidd inneign hans í séreignarsjóðnum í júní 2002 að félagsaðild hans lyki þar með. Verður hér að miða við að það hafi fyrst verið eftir breytingar þær er gerðar voru á 11. gr. samþykktanna á aðalfundinum 21. mars 2003. Þegar af þessari ástæðu var stefnandi félagsmaður í stefnda er breytingar voru gerðar á samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002.
Eins og áður var rakið var ætlun aðalfundar stefnda 8. mars 2002 að afmarka skýrar en áður hverjir væru félagsmenn í stefnda í aðdraganda þess að óbundið eigið fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík yrði flutt yfir á séreignarsjóðsreikninga félagsmanna. Var þetta gert í kjölfar þeirra breytinga er gerðar höfðu verið á lögum nr. 22/1991 og raktar voru hér að framan. Svo sem síðar kom í ljós fengu þeir sem enn voru félagsmenn í Mjólkursamsölunni í Reykjavík umtalsverðar fjárhæðir inn á séreignarsjóði sína á árinu 2004 er óbundið eigið fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík að fjárhæð 548.908.188 krónur var fært af endurmatsreikningi inn á séreignarsjóð til hlutfallslegrar hækkunar á inneign félagsaðila. Svo sem niðurstaða í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 340/2006 leiddi í ljós skipti mjólkurframleiðendur sem framleiðslu hættu á árinu 2001 en voru þó enn félagsmenn í Mjólkursamsölunni í Reykjavík miklu hvort þeir nytu hlutfallslegrar hækkunar á séreignarsjóði miðað við tilfærslu á óbundnu eigin fé stefnda á árinu 2004. Útreikningur á kröfu á þeim forsendum liggur fyrir á dskj. nr. 16. Séreignasjóðsinneign að fjárhæð 227.725 krónur varð að 1.571.276 krónum við það að hlutfallsleg hækkun á séreignarsjóði vegna tilfærslunnar á árinu 2004 kom til. Niðurstaða í því máli réðst af því að talið var að stefnandi þess máls væri enn félagsmaður í Mjólkursamsölunni í Reykjavík í mars 2004 er ákveðið var að nýta lagaheimild til að framkvæma sérstakt endurmat og greiða af óbundnu fé inn á séreignarreikninga félagsmanna. Var það niðurstaða þrátt fyrir að stefndi héldi því fram að stefnandi þess máls væri ekki lengur félagsmaður í stefnda í kjölfar breytinga á 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykkta stefnda í mars 2002 og greiðslu inneignar í séreignarsjóði í kjölfarið.
Stefnanda voru í júní 2002 greiddar út 147.196 krónur sem inneign í séreignarsjóði í Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Ef við það er miðað að óbundið eigið fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi á árunum fram til 1999 tekið hækkunum verður óhjákvæmilegt annað en að slá föstu að ákvörðun félagsfundar 8. mars 2002 hafi leitt til þess að þeir sem í árslok 2002 voru enn félagsmenn og áttu fé í séreignarsjóði hafi vegna ákvörðunar aðalfundar á ótilhlýðilegan hátt öðlast hagsmuni á kostnað þeirra félagsaðila sem skömmu áður var gert að yfirgefa félagið. Með hliðsjón af því er það niðurstaða dómsins að með ákvörðun sinni varðandi títtnefndar breytingar á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi aðalfundurinn 8. mars 2002 gerst brotlegur við 72. gr. laga nr. 22/1991.
Samkvæmt 71. gr. laga nr. 22/1991 þarf samþykki tveggja lögmætra félagsfunda í röð og stuðning eigi færri en 2/3 atkvæðisbærra félaga á fundinum til breytinga á félagssamþykktum ef í breytingunni felst röskun á því réttarsambandi sem er milli félagsaðila eða ef í henni felast auknar skuldbindingar félagsaðila gagnvart félaginu. Ákvörðun aðalfundar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 var upphaf þess að mjólkurframleiðendum sem hættir voru mjólkurframleiðslu var gert að yfirgefa félagið. Í tilviki stefnanda var það gegn vilja hans og hefur það án nokkurs vafa einnig gilt um aðra í sambærilegri stöðu en þá þegar var byrjað að vinna að undirbúningi þess að færa óbundið eigið fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík yfir í séreignarsjóði félagsmanna. Svo sem að framan er rakið leiddi þessi breyting á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík til þess að þeir sem í árslok 2002 voru enn félagsmenn og áttu fé í séreignarsjóði vegna ákvörðunar aðalfundar öðluðust á ótilhlýðilegan hátt hagsmuni á kostnað þeirra félagsaðila sem skömmu áður var gert að yfirgefa félagið. Er þar um að ræða innbyrðis röskun á réttarsambandi félagsaðila og þurfti samkvæmt 71. gr. laga nr. 22/1991 samþykki tveggja lögmætra félagsfunda í röð til að slíkar breytingar á samþykktum öðluðust gildi. Breytingar á 11. gr. samþykktanna voru ekki bornar upp með þeim hætti og þær því ólögmætar.
Stefnandi hafði fyrst uppi kröfur gagnvart stefnda með bréfi 17. janúar 2007. Eftir að stefndi hafði hafnað kröfum stefnanda var mál þetta höfðað 12. september 2007. Ágreiningsefni máls þessa varðar lögmæti ákvarðana aðalfundar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík á árinu 2002 og ráðstafanir á óbundnu eigin fé Mjólkursamsölunnar í Reykjavík á árinu 2004. Stefndi veitti viðtöku greiðslu á séreignarsjóðsinneign sinni í júní 2002. Stefnandi er til heimilis að Hálsi í Kjósarhreppi. Stefnandi í Hæstaréttarmálinu nr. 340/2006 er til heimilis að Kiðafelli í Kjósarhreppi. Fram kom í málinu nr. 340/2006 að stefnandi þess máls hafi staðið í nokkrum bréfaskiptum við stefnda vegna ágreiningsefna þess máls, sem er samkynja þessu máli. Mál það var höfðað 5. desember 2005 og var ígildi prófmáls vegna ákvarðana aðalfunda stefnda að því leyti að niðurstaða gat skipt marga fyrrverandi mjólkurframleiðendur máli sem gert hafði verið að innleysa séreignarsjóði sína í Mjólkursamsölunni í Reykjavík áður en stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík tók á árinu 2004 ákvörðun um að nýta sér heimildir til að auka við inneignir félagsaðila. Gat stefndi ekki reiknað með því að á sama tíma væru aðrir í sambærilegri stöðu að gefa kröfur sínar eftir. Í því ljósi verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti varðandi kröfur sínar að varði hann réttarspjöllum.
Ágreiningsefni aðila málsins varðar álitaefni um fjárhæð séreignarsjóðsinneignar stefnanda hjá stefnda. Hefur stefnandi uppi viðurkenningarkröfu um skaðabótaskyldu stefnda sem byggist á því að sé skaðabótaskylda til staðar, verði síðar komist að samkomulagi eða dæmt um fjárhæð skaðabóta. Skaðabótakrafan fyrnist á 10 árum samkvæmt meginreglu 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905. Var krafan því ekki fyrnd er til málsóknar þessarar kom.
Í ljósi alls þessa verða teknar til greina kröfur stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að breytingar á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík svf., og samþykkt bráðabirgðaákvæðis því samfara, á aðalfundi hennar 8. mars 2002 þannig að stefnanda var gert að innleysa séreign sína í séreignarsjóði hennar í júní sama ár, hafi verið ólögmæt og baki stefnda skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.
Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefndi stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður.
Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Viðurkennt er með dómi að breytingar á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík svf., og samþykkt á bráðabirgðaákvæði því samfara, á aðalfundi hennar 8. mars 2002, þannig að stefnanda, Félagsbúinu að Hálsi, var gert að innleysa séreign sína í séreignarsjóði hennar í júní sama ár, er ólögmæt og bakar stefnda, Auðhumlu svf., skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.