Hæstiréttur íslands
Mál nr. 761/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Lögheimili
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi. I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2016. Hann krefst þess að lögheimili barna aðila, A, B, C og D, verði hjá sér og að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með börnunum. Þá krefst hann þess að ákvörðun héraðsdóms um umgengni barnanna við stefndu verði endurskoðuð. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms aflaði áfrýjandi matsgerðar um hagi og aðstæður barna málsaðila, vilja barnanna til búsetu hjá foreldrum, hvaða áhrif breyting á búsetu þeirra hafi haft fyrir börnin í kjölfar hins áfrýjaða dóms og hvort og þá hvaða áhrif það hafi haft á börnin að stefnda sé enn í tengslum við fyrrum sambýlismann sinn.
Til þess að framkvæma hið umbeðna mat var dómkvödd 12. janúar 2017 E sálfræðingur og lá matsgerð hennar fyrir 6. febrúar sama ár. Í niðurstöðum matsgerðarinnar kom fram að frá því að héraðsdómur var kveðinn upp hafi umgengni barnanna við málsaðila verið vikuskipt. Matsmaður hafi átt viðtöl við þrjú elstu börnin, sem lýst hafi ánægju með núverandi fyrirkomulag með vikuskiptri umgengni og ekki óskað eftir breytingu á högum sínum. Báðum stúlkunum liði nú vel og að sögn kennara eldri drengsins hafi hann tekið miklum framförum, bæði í þroska og líðan, og tengdu þeir það við aukna umgengni hans við móður. Þá hafi kennarar yngri drengsins engan mun merkt á hegðun hans. Jafnframt hafi enginn kennaranna fundið mun á líðan barnanna eftir því hjá hvoru foreldri þau dvelja. Af ofangreindu væri helst hægt að álykta að þær breytingar, sem orðið hafi á högum barnanna undanfarið, hafi verið þeim til góðs. Að lokum kom fram í viðtölum matsmanns við stúlkurnar að fyrrum sambýlismaður stefndu væri ekki í neinum tengslum við fjölskylduna og að þær teldu hana ekki vera lengur í sambandi við hann. Væri stefnda í einhverju sambandi við manninn virtist það ekki trufla dæturnar og þá líklega ekki drengina.
Með hliðsjón af framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2016
Mál þetta var höfðað 1. apríl 2016 og dómtekið 22. september s.á. Stefnandi er M, [...], [..]. Stefnda er K, [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að lögheimili barna aðila, A, kt. [...], B, kt. [...], C, kt.[...], og D, kt. [...], skuli vera hjá honum. Einnig krefst stefnandi þess að kveðið verði á með dómi um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær lögheimili barnanna. Þá er þess krafist að stefndu verði með dómi gert að greiða stefnanda meðlag með börnunum frá 1. ágúst 2015 til 18 ára aldurs barnanna. Einnig gerir stefnandi kröfu um málskostnað.
Stefnda krafðist sýknu af kröfum stefnanda og gerði kröfu um að lögheimili barna aðila A og B, yrði hjá henni, en lögheimili C og D yrði hjá honum. Einnig var þess krafist að umgengni yrði vika í senn hjá hvoru foreldri en skipta ætti um hádegi hvern mánudag. Þá var þess krafist að meðlag yrði ekki dæmt enda skipti aðilar sameiginlegum kostnaði á milli sín. Auk þess gerði stefnda kröfu um málskostnað.
Við aðalmeðferð málsins breytti stefnda kröfugerð sinni á þá leið að þess er krafist að lögheimili stúlknanna verði hjá föður og lögheimili drengjanna verði hjá móður, umgengni verði vika og vika. Hvað varði stúlkuna A verði umgengni komið á í samráði við sérfræðinga eftir því sem barnið treysti sér til. Faðir standi straum af föstum útgjöldum allra barnanna en móðir greiði meðlag með tveimur börnum.
I.
Aðilar þessa máls kynntust um mitt ár 2003 og gengu í hjónaband [...] 2006. Þau eignuðust fjögur börn, A árið [...], B árið [...], C árið [...] og D á árinu [...].
Í stefnu málsins kemur fram að um miðjan apríl 2013 hafi stefnda tilkynnt stefnanda að hún vildi skilnað. Stefnda hafi flutt til [...] í september 2013 og börnin búið þar aðra hverja viku, og hina hjá stefnanda að [...] í [...], sem hafi verið heimili málsaðila frá árinu 2007. Í janúar 2014 hafi stefnda flutt í [...], að [...], þar sem hún hafi búið ásamt sambýlismanni sínum, F.
Aðilar hafi verið sammála um að fara sameiginlega með forsjá barnanna en ágreiningur hafi verið um hvar lögheimili barnanna ætti að vera. Aðilar hafi farið í sáttameðferð hjá sýslumanninum í [...], en sættir ekki tekist og sáttamaður gefið út vottorð þess efnis 17. desember 2013.
Fram kemur í gögnum málsins að á árinu 2014 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu og krafðist forsjár allra barnanna. Málið var þingfest 16. apríl 2014. Í málinu lá fyrir matsgerð E, dags. 13. október 2014. Við aðalmeðferð málsins 17. mars 2015 varð með aðilum sátt, þannig að ákveðið var að forsjá yrði sameiginleg og börnin skyldu ganga áfram í [...]. Lögheimili stúlknanna yrði hjá stefndu og drengjanna hjá stefnanda. Hefði stefnda ekki flutt á [...] í [...] innan tveggja ára frá gerð sáttarinnar skyldi lögheimili stúlknanna aftur flytjast til stefnanda enda byggi hann á [...] í [...].
Eftir að aðilar gerðu framangreinda sátt dvöldu börnin til skiptis hjá aðilum viku í senn, eða fram til 23. maí 2015. Þann dag tilkynnti sambýliskona stefnanda, G, til barnaverndarnefndar að sambýlismaður stefndu, F, hefði þá um nóttina leitað á barnið A á heimili stefndu og F að [...]. [...] var handtekinn af lögreglu sama dag, 23. maí, og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. s.m. Tekin var skýrsla af A í Barnahúsi 26. s.m., á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008.
Stefnandi kveður að fyrst eftir framangreint atvik hafi stefnda brugðist við með stuðningi við dóttur aðila og stefnandi talið að hún myndi slíta sambandi sínu við F. Það hafi þó ekki orðið raunin. Stefnda hafi búið áfram með F, en fest kaup á íbúð á [...] og flutt þangað 1. júlí 2015. Stefnda og F séu enn í miklum samskiptum, en þau reki saman fyrirtæki og aki iðulega bílum hvort annars.
Stefnda kveðst hins vegar hafa slitið sambúðinni við F í kjölfar framangreinds atviks en þau reki saman fyrirtæki með nokkrum öðrum. Þau búi ekki saman og séu ekki í sambandi.
Í júlí 2015 fór stefnandi til sýslumanns og óskaði eftir því að lögheimili allra barnanna yrði hjá honum. Börnin munu hafa búið hjá stefnanda frá 23. maí 2015 en farið í umgengni til stefndu yfir laugardag og sunnudag aðra hverja helgi og annan hvern þriðjudag eftir skóla, en aldrei gist.
Stefnda hafnaði hjá sýslumanni kröfu stefnanda um að lögheimili allra barnanna yrði hjá honum. Aðilar fóru í sáttameðferð en án árangurs og var sáttavottorð gefið út 8. mars 2016. Stefnandi höfðaði svo mál þetta.
II.
Stefnandi telur að það sé börnunum fyrir bestu að lögheimili þeirra verði hjá honum. Stefnandi búi í góðu húsnæði að [...] þar sem börnin hafi alist upp og búið flest frá fæðingu. Skóli og leikskóli séu í nágrenninu sem og vinir þeirra. Stefnandi sé með góða menntun og tekjumöguleika. Hann starfi sjálfstætt í eigin fyrirtæki. Stefnandi geti boðið börnunum öryggi hvað varðar búsetu, fjárhag, stöðugleika og tengsl og stuðning stórfjölskyldu.
Stefnandi telur börnin vel tengd sér, hann hafi annast þau og sinnt þeim öllum vel allt frá fæðingu þeirra. Börnin hafi öll búið hjá stefnanda frá 23. maí 2015, eða frá því að F hafi brotið kynferðislega gegn A dóttur þeirra.
Stefnandi telur sig afar ábyrgan, traustan, ástríkan og góðan föður. Hann njóti góðs liðsinnis G, sambýliskonu sinnar, sem og foreldra sinna. Auk þess hafi systkini stefnanda liðsinnt þeim vel og mikið frá fæðingu allra barnanna.
Stefnandi telur stefndu ekki búa við öryggi hvað varðar búsetu. Það hafi sýnt sig allt frá skilnaði þeirra. Hún hafi fyrst búið í [...], svo á [...] í [...] og loks á [...]. Stefnandi telur stefndu ekki hafa sterkt bakland og að hún sé ekki eins vel tengd börnunum og hann. Hana skorti þolinmæði gagnvart þeim, hún eigi erfitt með að setja sig í spor annarra og hafi ekki myndað eðlileg tengsl við yngsta barnið.
Stefnda hafi um tíma búið með manni sem börnin hafi kvartað undan að væri að skamma þau og leggja á þau hendur. Þá hafi sambýlismaður stefndu hinn 23. maí 2015 orðið uppvís að því að brjóta kynferðislega gegn elstu dóttur aðila. Eftir það brot hafi stefnandi talið að stefnda myndi slíta öll tengsl við F, en sú hafi ekki orðið raunin. Stefnda segi að hún búi ekki með F í dag en þau séu í miklum samskiptum, reki saman fyrirtæki og aki um á bifreiðum hvort annars. Þess utan hafi stefnda í tæpt ár ekki sinnt börnunum nema stuttlega aðra hverja helgi og annan hvern þriðjudag, alltaf aðeins að deginum til.
Verði stefnanda dæmt lögheimili barnanna muni hann stuðla að umgengni þeirra við stefndu eins og hann hafi gert.
Um lagarök vísar stefnandi til barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr., 35. gr., 56. gr. og 57. gr sömu laga.
Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefndu.
III.
Stefnda byggir á því að það sé börnunum fyrir bestu að þau dvelji hjá foreldrum sínum til skiptis. Stefnda hafnar því að ekki séu tengsl á milli hennar og barnanna en stefnandi hafi með frekju og yfirgangi reynt að spilla sambandi stefndu og barnanna. Stefnda mótmælir því að það sé einlægur vilji barnanna að þau búi alfarið hjá honum.
Stefnda segir að stefnandi hafi takmarkað umgengni stefndu við börnin þrátt fyrir að engin rök séu til þess og kvarti svo undan því að stefnda hafi börnin ekki meira.
Stefnda mótmælir því að hún búi ekki við öryggi hvað varðar búsetu. Stefnda hafi keypt sér íbúð steinsnar frá stefnanda og búi þannig við öryggi varðandi búsetu.
Stefnda hafnar því að hún sé ekki tengd börnunum, að hana skorti þolinmæði og að hún eigi erfitt með að setja sig í spor annarra.
Stefnda telur að sú lýsing sem stefnandi gefi af sjálfum sér í stefnu málsins fái ekki mikla stoð í matsgerð E sálfræðings, dags. 13. október 2014.
Stefnda telur að stefnandi höfði mál þetta að þarflausu. Stefnda hafi flutt í hverfið, eins og dómsátt aðila hafi kveðið á um, og hún sé ekki í sambúð eða samvistum við fyrrverandi sambýlismann sinn. Þrátt fyrir það vilji stefnandi ekki kappkosta að koma samskiptum aðila í lag með velferð barnanna að leiðarljósi. Telur stefnda að velferð barnanna sé ekki driffjöðurin í málsókn stefnanda.
Um lagarök vísar stefnda til ákvæða barnalaga nr. 76/2006, einkum 34. gr.
Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Með vísan til 1. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003 fól dómurinn E sálfræðingi að kynna sér viðhorf barnsins A og gefa skýrslu um það. Viðhorf annarra barna aðila voru ekki könnuð vegna ungs aldurs þeirra.
Í skýrslu sálfræðingsins, dags. 9. júní 2016, kemur fram að stúlkan hafi verið óöruggari í fasi en hún hafi verið í viðtölum fyrir tveimur árum. Stúlkunni hafi fundist erfitt að ræða málefni tengd sambýlismanni móður sinnar og ekki viljað nefna hann með nafni heldur notað nafn óvættarins úr Harry Potter sögunum, Voldemort. Stúlkan hefði greint frá því að F hefði áreitt hana á afmælinu hennar fyrir rúmu ári. Hún hefði sagt móður sinni frá því morguninn eftir en svo hafi hún og systkini hennar farið til föður síns og þau hafi verið þar síðan. Stúlkan hafi lýst miklum áfallaeinkennum eftir árás F. Hún eigi mjög erfitt með svefn og fái miklar martraðir, auk þess sem minningar um atvikið leiti á hugann þegar hún væri vakandi. Hún væri stöðugt hrædd um að rekast á F og forðist því [...] þar sem hún telur hann búa. Hún hafi t.d. sleppt [...] í [...] með skólanum vegna ótta við hann. Hún væri viðbrigðin og hrökkvi við í hvert sinn sem hún sjái stóra bíla svipaða þeim sem F keyri. Hún ætti erfiðara með að einbeita sér en áður og hún væri eirðarlaus. Hún segi líka að hún væri oftar leið en áður. Hún hafi skýrt frá því að hafa séð F fyrir nokkrum mánuðum. Hann hafi verið að keyra bíl sem móðir hennar keyri oft og hún hafi verið búin að vinka til hans þegar hún hafi áttað sig á því hver hafi verið við stýrið. Henni hefði brugðið mjög við þetta.
Þegar stúlkan hafi verið spurð hvernig umgengni við móður hennar væri núna háttað og hvort henni líkaði fyrirkomulagið hafi hún sagt að hún væri vön því og ekki viljað segja til um hvort hún óskaði breytinga þar á. Hún hafi slegið úr og í með hvort hún myndi vilja gista hjá móður sinni. Stúlkan hafi sagt að hún hefði gist með móður hjá móðursystur sinni og hún hafi þá átt mjög erfitt með að sofna. Þegar stúlkan hafi verið spurð hvort hún myndi vilja fara aftur í vikuskipta umgengni eins og áður hafi hún strax svarað að slíkt yrði of mikil breyting. Hún hafi sagt að hún væri ekki tilbúin að biðja um aðra útfærslu á umgengni en núverandi umgengni þar sem hún óttist að eiga erfitt með breytingu og sjá eftir því að hafa beðið um slíkt. Hún hafi sagt að hún vildi hitta móður sína reglulega og það fengi hún að gera og að hún vildi helst hafa óbreytt ástand. Stúlkan hafi sagt að henni finnist „pínulítið“ meira gaman hjá föður en móður. Helstu ástæður þess væru þær að þar væri alltaf allt til sem hana langi til að borða og að vinkonur hennar og B, systur hennar, komi þangað að spyrja eftir þeim og húsið væri því iðulega fullt af börnum.
Þá segir í skýrslunni að stúlkan hafi greint frá því að þegar hún væri á heimili móður finnist henni vont þegar sími móður hennar hringi og móðir stökkvi til að svara og læsi sig oft inni á baðherbergi meðan hún tali. Stúlkan hafi sagt að hún viti að móðir hennar reki ennþá fyrirtæki með F og hún væri hrædd um að hann kæmi á heimili móður. Stúlkan velti einnig fyrir sér hvort móðir hennar og F væru ennþá kærustupar. Einnig hafi stúlkan sagt að henni finnist erfitt að móðir hennar gráti stundum mikið og segist þá vera að eiga „erfiða daga“. Stúlkan hafi sagt að hún reyni að hugga móður sína sem jafni sig svo alltaf sjálf.
Einnig kemur fram í skýrslunni að stúlkan hafi sagt að henni þyki móðir sín hafa breyst eftir áreiti F og vera orðin „skrítin“ án þess að geta lýst því frekar. Einnig hafi stúlkan sagt að hún leiti ekki lengur til móður sinnar. Síðast hafi hún sagt henni frá því þegar hún sá F í bílnum. Hún leiti núna til sálfræðings í Barnahúsi, föður síns eða föðurömmu þegar hún þurfi stuðning. Stúlkan hafi sagt að hún viti ekki hvort hún eigi aftur eftir að eiga náið samband við móður sína. Móðir hennar hafi breyst og hún ætti erfitt með að treysta henni á ný. Spurð hvort hún sakni móður sinnar hafi stúlkan sagt að það gerðist stundum, en ekki oft. Þá hafi stúlkan sagt að faðir hennar hefði einnig breyst, á þann hátt að hann ofverndi hana og dekri með alls konar gjöfum. Stúlkan treysti föður sínum og vilji ekki að hann breytist á nokkurn hátt. Spurð hvort það væri eitthvað fleira sem hún vildi koma á framfæri greindi stúlkan frá því að faðir hennar hefði haft áhyggjur af því að þegar matið fór fram á árinu 2014 hefði hún ekki sagt frá því hvernig F hefði komið fram við börnin. Hann hefði skammað þau og öskrað og sent þau inn í herbergi. Um mikil læti hefði verið að ræða og nágrannar hefðu eitt sinn komið til að athuga hvort allt væri í lagi.
Samkvæmt niðurstöðum matslista sem sálfræðingurinn lagði fyrir stúlkuna hefur hún mikil einkenni þunglyndis, kvíða og reiði. Sjálfsmat stúlkunnar mælist afar lágt. Stúlkan sýni mjög mikla vanlíðan og lélegt sjálfstraust.
Niðurstaða sálfræðingsins er sú að stúlkan lýsi miklum einkennum áfallastreitu, en hún sé í viðtölum í Barnahúsi til að vinna úr kynferðisofbeldinu. Á matslista um líðan sýni stúlkan mikla vanlíðan og slakt sjálfsmat. Stúlkan hafi áður tengst foreldrum sínum á svipaðan hátt. Nú hafi orðið mikil breyting þar á en stúlkan lýsi því að samband hennar við móður hafi breyst til mikilla muna þannig að í dag leiti hún ekki til hennar og treysti henni ekki. Það valdi stúlkunni óöryggi að móðir hennar sé enn í samskiptum og fyrirtækjarekstri með F. Stúlkan lýsi litlum söknuði eftir móður sinni. Hún vilji umgangast móður sína og hitta hana reglulega en hún virðist ekki treysta sér fyllilega til að gista hjá henni. Stúlkan sé ekki tilbúin til að biðja um neinar breytingar á núverandi fyrirkomulagi um umgegni.
V.
Í máli þessu eru aðilar sammála um að fara áfram sameiginlega með forsjá barna sinna en ágreiningur er um það hvar lögheimili barnanna eigi að vera. Einnig er ágreiningur um það hvernig umgengni skuli háttað og um meðlagsgreiðslur.
Fyrir liggur matsgerð E sálfræðings úr forsjármáli aðila á árinu 2014. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir um persónulega eiginleika aðila að á persónuleikaprófum komi fram að stefnanda skorti innsæi og hann sé tortrygginn og ósveigjanlegur. Stefnda komi á persónuleikaprófum fyrir sjónir sem heiðarleg og áreiðanleg og hún vilji trúa hinu besta upp á fólk. Stefnda forðist höfnun og tjái því ekki vanlíðan sína eða ósætti. Matsmaður taldi báða foreldra vera mjög vel hæfa og tengjast öllum börnum sínum vel. Þá taldi matsmaður að það fyrirkomulag sem hefði ríkt nánast frá skilnaði, að börnin væru með foreldrum sínum á víxl viku í senn, hentaði öllum börnunum ágætlega.
Eins og rakið hefur verið greindi elsta dóttir aðila, A, frá því að þáverandi sambýlismaður stefndu, F, hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi á tíu ára afmælisdegi sínum, hinn [...]. Stefnda kveðst hafa slitið sambúðinni við F eftir þetta en hún á enn hlut í fyrirtæki með honum ásamt fleiri aðilum. Þessi tengsl stefndu við F valda stúlkunni mikilli vanlíðan og óöryggi og standa í vegi fyrir því að traust geti myndast að nýju á milli stefndu og stúlkunnar. Þessi tengsl standa einnig í vegi fyrir því að hægt sé að byggja upp traust milli stefnanda og stefndu, en það kom skýrt fram við aðalmeðferð málsins að stefnandi ber ekki traust til stefndu.
Stefnandi virðist hafa ákveðið einhliða það fyrirkomulag sem hefur verið með umgengni stefndu við börnin frá 23. maí 2015. Nánar tiltekið að börnin fari í umgengni til stefndu aðra hverja helgi en gisti ekki. Auk þess séu þau hjá henni eftir skóla á þriðjudögum aðra hverja viku. Við aðalmeðferð málsins kom fram að stefnandi telur að það sé börnunum fyrir bestu til frambúðar að hafa aðeins umgengni við stefndu aðra hverja helgi og annan hvern þriðjudag. Umgengni í viku og viku hafi verið reynd en ekki gengið vel og telur hann að stefnda ráði ekki við það. Stefnda mótmælti þessu. Fullyrðingar stefnanda um þetta eru ekki í samræmi við það sem fram kemur í fyrirliggjandi matsgerð sálfræðings og er ekkert komið fram í málinu um að þetta fyrirkomulag hafi ekki gengið vel eða henti ekki börnunum. Aðilar búa í sama skólahverfi og stendur búseta ekki í vegi fyrir því að börnin viðhaldi jöfnum tengslum við foreldra sína. Vegna persónuleikaeinkenna stefnanda, tortryggni hans og ósveigjanleika sem fram koma á persónuleikaprófi í fyrirliggjandi matsgerð E, sem hafa komið vel fram eftir að A varð fyrir framangreindu áfalli, og neikvæðrar afstöðu hans til umgengni barnanna við stefndu, verður að telja stefndu líklegri en stefnanda til að stuðla að eðlilegri umgengni barnanna við hitt foreldri sitt til frambúðar. Til að jöfn umgengni geti gengið, eins og stefnda gerir kröfu um, og til að byggja upp traust við A og stefnanda, verður stefnda tafarlaust að slíta þau tengsl sem hún hefur enn við F. Fyrir dómi lýsti stefnda því yfir með afdráttarlausum hætti að hún ætlaði að gera það. Það er því niðurstaða dómsins að það sé börnunum fyrir bestu að lögheimili drengjanna verði hjá stefndu en stúlknanna hjá stefnanda og að þau hafi jafna umgengni við foreldra sína þannig að þau dvelji viku og viku í senn hjá hvoru foreldri sínu. A verður hins vegar ekki með dómi þessum gert að sæta umgengni við stefndu þar sem hún er að svo stöddu ekki tilbúin til að breyta núverandi fyrirkomulagi. Dómurinn leggur hins vegar áherslu á að unnið verði að því að koma á umgengni hvað hana varðar með aðstoð fagaðila þannig að umgengni verði eins og við hin börnin.
Börnin skulu vera önnur hver jól hjá stefnanda frá Þorláksmessu og til 28. desember, fyrst 2016, og dvelji þá hjá stefndu um áramót, frá 28. desember til 2. janúar, og svo öfugt til skiptis hvert ár.
Á sumrin dvelji börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig tvisvar í tvær vikur í senn, samtals fjórar vikur hjá hvoru foreldri. Tími sumarleyfa skal vera ákveðinn hjá hvoru foreldri fyrir sig eigi síðar en 1. apríl ár hvert.
Um páska skulu börnin dveljast hjá foreldrum til skiptis, hjá stefnanda um páskana 2017, en hjá stefndu um páskana 2018 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum.
Aðrir hátíðar- eða frídagar en að framan greinir, þar á meðal skertir dagar í skóla, vetrarfrí eða önnur skólafrí, falla innan hinnar reglulegu umgengni.
Í ljósi þess að forsjá er sameiginleg og lögheimili barnanna skiptist jafnt milli aðila, og umgengni verður jöfn, verður meðlag ekki dæmt.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga er ákveðið að áfrýjun dóms þessa fresti ekki réttaráhrifum hans.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari ásamt sálfræðingunum Rögnu Ólafsdóttur og Þorgeiri Magnússyni sem meðdómsmönnum.
D ó m s o r ð:
Börnin A og B skulu eiga lögheimili hjá stefnanda, M, en lögheimili barnanna C og D skulu vera hjá stefndu, K.
Börnin B, C og D skulu dvelja viku og viku í senn hjá hvoru foreldri sínu, frá mánudegi til mánudags.
Börnin skulu vera önnur hver jól hjá stefnanda frá Þorláksmessu og til 28. desember, fyrst 2016, og dvelji þá hjá stefndu um áramót, frá 28. desember til 2. janúar, og svo öfugt til skiptis hvert ár.
Á sumrin dvelji börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig tvisvar í tvær vikur í senn, samtals fjórar vikur hjá hvoru foreldri. Tími sumarleyfa skal vera ákveðinn hjá hvoru foreldri fyrir sig eigi síðar en 1. apríl ár hvert.
Um páska skulu börnin dveljast hjá foreldrum til skiptis, hjá stefnanda um páskana 2017, en hjá stefndu um páskana 2018 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Áfrýjun dóms frestar ekki réttaráhrifum hans.