Hæstiréttur íslands
Mál nr. 680/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 10. desember 2009. |
|
Nr. 680/2009. |
Stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009 (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 9. október 2009 (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist í héraði. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú S ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Með yfirlýsingum 7. október 2009 tilkynnti SÍ hf. eigendum alls hlutafjár og stjórn S ehf. að hann hefði tekið til sín alla hluti í félaginu. Daginn eftir hélt SÍ hf. hluthafafund þar sem stjórnarmönnum S ehf. var vikið úr stjórn og nýir kosnir í þeirra stað. Nýr stjórnarmaður félagsins óskaði gjaldþrotaskipta á búi þess og var fallist á þá kröfu. Eldri stjórn kærði þann úrskurð og taldi kröfuna ekki hafa verið gerða af þar til bærum aðila. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hafi verið sótt þing af hálfu S ehf. þegar krafa um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir. Því hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Þar sem ekki hafi verið sótt þing af hálfu eldri stjórnar S ehf. í héraði bresti heimild til kæru og var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2009, þar sem bú SevenMiles ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila fyrir hans hönd. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með þremur yfirlýsingum 7. október 2009 tilkynnti Sparisjóðabanki Íslands hf. Önnu Brynju Ísaksdóttur og Tómasi Ottó Hanssyni, eigendum alls hlutafjár í SevenMiles ehf., og stjórn félagsins að bankinn hefði þann dag tekið til sín alla hluti í félaginu með heimild í handveðsamningi 11. febrúar 2005. Daginn eftir hélt bankinn hluthafafund í félaginu og er bókað í fundargerð að fyrri stjórnarmönnum, Pétri Þór Halldórssyni sem aðalmanni og Stefáni Braga Bjarnasyni sem varamanni, sé vikið úr stjórn félagsins og nýir kosnir í þeirra stað, Hjördís Edda Harðardóttir sem stjórnarformaður og Jón Ármann Guðjónsson sem varamaður. Var fundargerðin send fyrirtækjaskrá og er stimpluð um móttöku 9. október 2009. Þeir Pétur Þór og Stefán Bragi höfðu verið kosnir stjórnarmenn á fundi í félaginu 8. desember 2008, og hafði tilkynning um það verið send fyrirtækjaskrá 2. júlí 2009, stimpluð um móttöku 7. sama mánaðar. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2009 krafðist Hjördís Edda Harðardóttir hæstaréttarlögmaður gjaldþrotaskipta á búi SevenMiles ehf. Skrifaði hún undir bréfið sem stjórnarformaður félagsins og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 16. nóvember á grundvelli þessarar kröfu.
Hinn 27. nóvember 2009 sendi sóknaraðili bréf til héraðsdóms þess efnis að stjórn SevenMiles ehf. kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Kemur fram í bréfinu að fyrrnefnd Anna Brynja og Tómas Ottó, eigendur hlutafjár í félaginu, og Pétur Þór og Stefán Bragi stjórnarmenn standi að erindinu. Er tekið fram að krafan um gjaldþrotaskipti hafi ekki verið gerð af þar til bærum aðila enda hafi Sparisjóðabanki Íslands hf. ekki haft heimild til að ganga að veðum í hlutum í SevenMiles ehf. Af hálfu stjórnarinnar, sem kosin var á fundinum 8. október 2009 og óskaði eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins 12. nóvember sama ár, hefur verið tekið til varna fyrir Hæstarétti og gerðar þær kröfur sem fyrr greindi.
Af framangreindum atvikum er ljóst að uppi er ágreiningur með aðilum um hver eða hverjir skipi stjórn SevenMiles ehf. og geti tekið ákvarðanir í nafni félagsins. Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar krafa varnaraðila um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir og hinn kærði úrskurður kveðinn upp. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að skuldari geti ekki kært úrskurð um gjaldþrotaskipti til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hans hálfu í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Vísast um þetta nú síðast til dóms Hæstaréttar 27. nóvember 2009 í máli nr. 671/2009. Hér verður litið svo á að sóknaraðili kæri úrskurðinn á þeirri forsendu að hann fari með málefni SevenMiles ehf., en ekki varnaraðili. Er hann því í stöðu skuldara sem úrskurðaður hefur verið gjaldþrota en vill hnekkja úrskurði með kæru. Þar sem hann sótti ekki þing í héraði brestur hann samkvæmt framansögðu heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2009.
Stjórn SevenMiles ehf., kt. 670504-3360, Rauðarárstíg 27, Reykjavík, hefur óskað þess með bréfi er barst dóminu 12. nóvember sl. að bú félagsins verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Í beiðni segir að ástæður þess að félagið óski gjaldþrotaskipta sé afar bág fjárhagsstaða félagsins og að fyrir liggi að það geti ekki staðið í skilum við lánardrottna. Þá sé ekki líklegt að greiðsluörðugleikar félagsins muni hjá líða innan skamms.
Ljóst er af framlögðum gögnum að félagið SevenMiles ehf. er ófært að standa í fullum skilum við lánardrottna sína og engin von er til þess, að því er best verður séð, að það ástand breytist til hins betra í fyrirsjáanlegri framtíð.
Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 til þess að verða við kröfu skuldarans og verður bú hans tekið til gjaldþrotaskipta.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Bú SevenMiles ehf., kt. 670504-3360, Rauðarárstíg 27, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.