Hæstiréttur íslands

Mál nr. 640/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármögnunarleiga
  • Innsetningargerð


                                     

Miðvikudaginn 8. október 2014.

Nr. 640/2014.

Magnús Ingberg Jónsson

(sjálfur)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Fjármögnunarleiga. Innsetningargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa L hf. um að tilgreind vörubifreið skyldi tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum M og fengin sér, en M hafði ekki staðið í skilum með greiðslur samkvæmt fjármögnunarleigusamningi aðilanna um vörubifreiðina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. september 2014 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nánar tilgreind vörubifreið skyldi tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengin varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila vísað frá héraðsdómi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt fjármögnunarleigusamningi um áðurnefnda vörubifreið 27. febrúar 2006, sem sóknaraðili tók sannanlega yfir sem leigutaki, var grunnleigutími sagður vera frá 10. mars 2006 til 9. mars 2011, en frá lokum hans hæfist mánaðarleg framhaldsleiga. Þar var jafnframt kveðið á um að varnaraðili væri eigandi hins leigða og að leigutaki skyldi tafarlaust skila hinu leigða á þann stað er varnaraðili tilgreindi yrði samningnum rift. Sóknaraðili hefur lagt fram skjal frá 27. ágúst 2007 með yfirskriftinni „samningar og skuldayfirlit ... yfirsamningur 131777“ sem hann heldur fram að stafi frá varnaraðila. Hafi það falið í sér samkomulag þeirra á milli um tiltekið „uppgreiðsluverð“ á framangreindum fjármögnunarleigusamningi þannig að sóknaraðili myndi eignast vörubifreiðina eftir að hafa innt það verð af hendi til varnaraðila. Skjal þetta er óundirritað og óvíst hver hefur ritað það, auk þess sem efni þess er óljóst.

Samkvæmt framansögðu hefur sóknaraðili ekki fært sönnur á, gegn mótmælum varnaraðila, að svo hafi verið um samið milli þeirra að hann yrði gegn greiðslu tiltekinnar fjárhæðar eigandi vörubifreiðarinnar sem fjármögnunarleigusamningurinn tekur til. Að því gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Magnús Ingberg Jónsson, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. september 2014.

             Þann 26. mars sl. barst dóminum aðfararbeiðni Lýsingar hf., kt. [...], Ármúla 1, Reykjavík, þar sem gerðarþoli var tilgreindur Magnús Ingberg Jónsson, kt. [...], Spóarima 14, Selfossi.

            Sóknaraðili, hér eftir gerðarbeiðandi, krefst dómsúrskurðar um að bifreiðin Mercedes Benz Actros vörubifreið, fastanr. MR 633, fyrsta skráning 2004, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin Hjalta S. Mogensen hdl. f.h. gerðarbeiðanda. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar.

            Gerðarþoli, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, gerir þá kröfu að aðfararbeiðninni verði vísað frá. Þá skuli öllum kröfum gerðarbeiðanda sem snúi að viðskiptum gerðarþola við gerðarbeiðanda vísað frá. Einnig krefst gerðarbeiðandi varnarbóta fyrir að þurfa að verjast tilhæfulausum árásum gerðarbeiðanda með útgáfu rangra reikninga.

            Málið var þingfest þann 14. apríl sl. og munnlegur málflutningur fór fram þann 26. maí sl. Málið var síðan endurupptekið og endurflutt þann 4. september sl.

Málavextir.

            Gerðarbeiðandi lýsir málsatvikum svo að hann hafi leigt þáverandi leigutaka bifreiðina með fjármögnunarleigusamningi nr. 131777-780 þann 27. febrúar 2006. Gerðarþoli hafi tekið samninginn yfir ásamt öðrum samningi með samkomulagi um yfirtöku dags. 27. ágúst 2007. Samkomulag hafi orðið með aðilum um að myntbreyta samningnum ásamt öðrum samningi þann 10. september sama ár og hafi samningurinn fengið nýtt samningsnúmer við yfirtökuna, nr. 143265. Aftur hafi orðið að samkomulagi með aðilum um að breyta samningnum þann 17. júní 2009, þar sem m.a. hafi verið lengt í samningnum og hafi hann fengið nýtt númer við breytinguna, nr. 153199. Samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum hafi gerðarþoli átt að greiða gerðarbeiðanda tiltekið leigugjald út grunnleigutíma samningsins, sbr. 4. og 5. gr. hans. Að þeim tíma liðnum hafi gerðarþola borið að greiða gerðarbeiðanda tiltekið framhaldsleigugjald, sbr. 6. gr. samningsins. Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi leigugrunnur hans verið samsettur af myntkörfu og hafi fjárhæðir hans verið bundnar erlendum myntum.  

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

            Gerðarbeiðandi byggir á því að fjármögnunarleigusamingur aðila sé leigusamningur og vísar í því sambandi meðal annars til IAS 17 – Alþjóðlegs reikningsskilastaðals sem hafi lagagildi hér á landi. Gerðarbeiðandi byggir einnig á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið og þá einkum 40. gr. hans um frjálst fjármagnsflæði. Þá bendir gerðarbeiðandi á að með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 652/2011 og 638/2013, þar sem í báðum tilfellum hafi verið fjallað um sambærilegan samning og mál þetta snýst um, hafi rétturinn staðfest að umþrættur fjármögnunarleigusamningur væri leigusamningur eins og heiti hans benti til og því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki þótt girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Sé því ekkert því til fyrirstöðu að aðfararbeiðni þessi nái fram að ganga.

            Gerðarbeiðandi segir gerðarþola ekki hafa greitt gerðarbeiðanda leigugjald samkvæmt samningnum síðan í mars 2010. Þá hafi gerðarþoli vanrækt að fara með bifreiðina til lögbundinnar bifreiðaskoðunar og hafi kostnaður af þeim sökum fallið á gerðarbeiðanda. Gerðarþoli hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna og því hafi farið svo að gerðarbeiðandi hafi rift fjármögnunar- leigusamningnum þann 12. mars 2014 skv. heimild í 28. gr. hans. Hafi vanskil á riftunardegi numið kr. 10.174.711. Þann 21. mars 2014 hafi heildarvanskil numið kr. 10.110.670 að meðtöldum vöxtum og kostnaði að frádregnum lögmannskostnaði. Þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum og neitað að afhenda gerðarbeiðanda eign sína þrátt fyrir riftun samningsins, sé krafist umráða yfir bifreiðinni með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðin fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Málsástæður og lagarök gerðarþola.

             Gerðarþoli byggir á því að gerðarbeiðandi hafi beitt blekkingum í garð hans í viðskiptum aðila frá upphafi og hafi gerðarþoli þurft að sitja undir árásum gerðarbeiðanda með röngum reikningum. Gerðarþoli hafi tekið þá ákvörðun að greiða ekki fleiri reikninga sem dagsettir hefðu verið eftir að greiddur hafi verið reikningur vegna vörslusviptingargjalds vegna bifreiðarinnar MR 633 þann 6. apríl 2010. Telur gerðarbeiðandi sig þá hafa verið búinn að greiða þá upphæð sem um hafi verið samið í upphafi, en átta mánuðum fyrr en til hafi staðið. Gerðarþoli telur sig vera eiganda bifreiðarinnar og hafi verið vörslumaður hennar enda þótt samningnum hafi verið sagt upp þann 3. nóvember 2009. Gerðarþoli vekur athygli á því að hann hafi gert tilboð í tvö tæki, umrædda vörubifreið og gröfu af Komatsu gerð, samtals kr. 9.000.000 auk virðisaukaskatts. Hafi vörubifreiðin verið keypt á kr. 6.000.000 auk virðisaukaskatts en grafan á kr. 3.000.000 auk virðisaukaskatts. Gerðarþoli vekur athygli á því að um kauptilboð af hans hálfu  hafi verið að ræða en ekki leigutilboð. Hafi starfsmaður gerðarbeiðanda gert útreikning sem sýnt hafi yfirtökuverð með lokagjaldi, samtals kr. 5.978.698 með virðisaukaskatti.Ákveðið hafi verið að miða vexti við gengi japanskra yena og svissneskra franka til að lækka greiðslubyrði. Á „Samtals samningi“ komi fram hverjar greiðslurnar eigi að vera á mánuði fyrir utan virðisaukaskatt og lokagjald, starfsmaður gerðarbeiðanda hafi sagt honum að hann ætti ekki að hafa áhyggjur af því, það kæmi seinna. Gerðarþoli kveður „Samtals samninginn“ ekki gengistryggðan, heldur tryggi hann gerðarþola fyrir því hvað hann eigi að greiða á mánuði.

            Gerðarþoli kveðst hafa látið til leiðast þar sem hann  hafi ekki vitað hver rétt staða hans væri, hann hafi greitt helmingi hærri reikninga á mánuði en hann hafi í upphafi samið um þangað til hann hafi greitt það sem upphaflega hafi verið samið um. Á þessum tíma hafi verið ágreiningur um lögmæti slíkra samninga við fjármála- fyrirtækin og hafi hann því ákveðið að bíða rólegur og sjá til. Gerðarþoli kvað sér síðar hafa verið sendir í tölvupósti samningar sem hann hefði aldrei séð fyrr og aldrei yfirtekið og hafi þeir ekki verið í samræmi við það sem um hafi verið samið í upphafi. Samkvæmt þessum samningum hafi ekki verið hægt að eignast tækin, aðeins hafi verið hægt að leigja þau áfram að leigutíma loknum.  Telji gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi tekið þessa samninga yfir byggir gerðarþoli á því að hann stundi vísvitandi blekkingar og fjársvik. Á samningunum sé ekki talað um lokagjald en í upphafi samninga hafi komið skýrt fram að gerðarþoli væri að taka yfir samninga með lokagjaldi þar sem hann eignaðist tækið. Hafi gerðarþola ekki verið kunnugt um þennan samning fyrr en í ágúst 2012.

            Gerðarþoli telur sig skulda hluta af lokagjaldi, samtals kr. 156.900, en lokagjaldið sé í heild kr. 236.666. Kveðst gerðarþoli fús að greiða þá fjárhæð um leið og hann fær lokagjaldsreikning í sínar hendur.

Niðurstaða.

            Gerðarbeiðandi krefst þess að umrædd bifreið verði tekin  úr vörslum gerðarþola með beinni aðfarargerð og fengin honum og byggir hann kröfu sína á því að hann sem leigusali eigi ofangreinda bifreið og hafi gerðarþoli engan rétt yfir henni, enda hafi leigusamningi aðila verið rift. Gerðarþoli virðist byggja á því að ekki hafi verið um leigusamning að ræða, hann hafi verið beittur blekkingum af hálfu gerðarbeiðanda, hann sé nú réttur eigandi bifreiðarinnar og hafi greitt hana nánast að fullu. Gerðarþoli krefst frávísunar málsins en að mati dómsins er sú krafa gerðarþola órökstudd og eru engir þeir gallar á málatilbúnaði gerðarbeiðanda sem varðað geta frávísun þess. Verður frávísunarkröfunni því hafnað og telja verður ekkert því til fyrirstöðu, eins og vörnum gerðarþola er háttað, að leyst verði úr efnisþætti málsins.

            Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð réttindum manns sem honum er aftrað að neyta og sem hann telur sig eiga og vera svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður í samræmi við ákvæði 83. gr. laganna. Skal héraðsdómari að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt 83. gr. laganna.

            Gerðarbeiðandi hefur lagt fram í máli þessu skjal sem sýnir ótvírætt að gerðarþoli yfirtekur umrædda fjármögnunarleigusamninga og jafnframt hefur hann lagt fram skjöl sem sýna fram á að gerðarþoli samþykkir breytingar á þeim. Þá hafa verið lögð fram gögn sem sýna vanskil gerðarþola og þá er nægilega upplýst að samningi vegna umræddrar bifreiðar hefur verið rift. Fyrir liggja nokkur fordæmi Hæstaréttar Íslands þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að sambærilegir samningar og hér er fjallað um séu leigusamningar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 652/2011 og 638/2013. Að mati dómsins hefur gerðarþola hvorki tekist að sýna fram á að hvaða leyti þeir samningar sem hann gekkst undir voru frábrugðnir þeim samningum sem þar er fjallað um né hvaða málsástæður ættu að leiða til þess að honum beri ekki að skila gerðarbeiðanda lögmætri eign sinni. Að þessu virtu verður að telja sannað að gerðarbeiðanda sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttar síns yfir eign sinni og verða kröfur hans því teknar til greina.

            Eftir þessum úrslitum verður gerðarþola gert að greiða gerðarbeiðanda 150.000 krónur í málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Gerðarbeiðanda, Lýsingu hf., er heimilað að taka vörubifreiðina Mercedes Benz Actros, fastanr. MR 633, fyrsta skráning 2004, með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola, Magnúsar Ingbergs Jónssonar, og afhenda hana Hjalta S. Mogensen hdl. f.h. gerðarbeiðanda.

            Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 150.000 krónur í málskostnað.