Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Neyðarvörn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 18/2011.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Bergþóru Guðmundsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

Líkamsárás. Neyðarvörn. Miskabætur.

B var sakfelld fyrir þjófnað, eignaspjöll og sérstaklega hættulega líkamsárás, og var síðastnefnda brotið talið hafa falist í því að B hafi veist að A og stungið hana tvisvar í höfuðið með hníf með þeim afleiðingum að hún hlaut skurði og kúlu á höfði. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, var refsing ákærðu ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Brot ákærðu samkvæmt eldri dómi höfðu ítrekunaráhrif í málinu og var refsing hennar tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var ákærða dæmd til að greiða J nánar tilgreindar skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en refsing verði þyngd.

          Ákærða krefst aðallega sýknu af 2. lið ákæru, en til vara refsimildunar. Þá krefst hún þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi.

          Fyrir Hæstarétti hefur brotaþoli ekki gert kröfu um breytingu á ákvæði héraðsdóms um miskabætur henni til handa.

          Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Bergþóra Guðmundsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 344.559 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. nóvember 2010, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 27. september 2010, á hendur Bergþóru Guðmundsdóttur, kt. 161161-3069, Vífilsgötu 6, Reykjavík, fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot:

  1. Þjófnað með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 2. júlí 2009, í verslun Hagkaupa í Skeifunni, stolið fatnaði og snyrtivörum samtals að verðmæti 45.513 krónur.
  2. Sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, laugardaginn 22. ágúst 2009, í íbúð [...] að [...] í Reykjavík, veist að A og stungið hana tvisvar sinnum í höfuðið með eldhúshnífi, með þeim afleiðingum að hún hlaut tvo skurði á höfði, annan 2 cm, en hinn 1 cm, og kúlu á hnakkann.
  3. Eignarspjöll með því að hafa, mánudaginn 22. febrúar 2010, í kvennafangelsinu við Kópavogsbraut 17 í Kópavogi, kveikt í fataskáp í klefa samfanga síns, B, með þeim afleiðingum að fatnaður og önnur verðmæti eyðilögðust.

Brot ákærðu samkvæmt 1. ákærulið telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, brot samkvæmt 2. ákærulið telst varða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og brot samkvæmt 3. ákærulið við 1. mgr. 257. gr. sömu laga, sbr. 135. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði dæmd til greiðslu miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2009 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.

Ákærða játar sök samkvæmt 1. og 3. ákæruliðum, en neitar sök samkvæmt 2. ákærulið. Verjandi ákærðu krefst þess að ákærða verði sýknuð af 2. ákærulið, en að öðru leyti dæmd til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að kröfu um miskabætur verði vísað frá dómi. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá laugardeginum 22. ágúst 2009, barst tilkynning klukkan 10:07 um að kona hefði verið stungin með hnífi á mótum [...] og [...] í Reykjavík. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir A, sem sat þar á stól og leituðust vegfarendur við að hlúa að henni. A var alblóðug og í miklu uppnámi. Hún reyndist vera með áverka á hnakka sem blæddi talsvert úr. Sagði hún ákærðu hafa stungið sig með hnífi í íbúð að [...]. Var A flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. C reyndist hafa umráð íbúðarinnar sem um ræðir og voru þær ákærða staddar þar er lögreglumenn bar að garði. Kemur fram að íbúðin hafi borið þess merki að neysla vímuefna hefði átt sér þar stað um langt skeið. Ákærða viðurkenndi að hafa lent í átökum við A inni í íbúðinni. Sagði hún þær hafa verið að rífast og hefði A slegið sig í höfuðið með steikarpönnu. Ákærða sagðist þá hafa stungið A í hnakkann með handfangi á matskeið. C bar í megindráttum á sama veg um atburðarásina, en sagðist telja að ákærða hefði tekið hníf úr hnífaparaskúffu og beitt honum gegn C. Rætt var við C á slysadeild og sagði hún ákærðu hafa beitt stórum hníf með silfruðu haldi. Slíkur hnífur fannst í hnífaparaskúffu í íbúðinni og var hann blautur líkt og hann væri nýþveginn. Var hnífurinn haldlagður og fylgja ljósmyndir af honum skýrslu lögreglu. Um er að ræða búrhníf úr stáli með bjúgblaði sem mældist 18,30 cm á lengd, en skefti 10 cm á lengd.

Fyrir liggur læknisvottorð Steinunnar G.H. Jónsdóttur, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 22. ágúst 2009, þar sem kemur fram að A hafi við komu á sjúkrahús verið með meðvitund, en í geðshræringu og líklega undir áhrifum slævandi lyfja eða áfengis. Hún hefði verið með kúlu ofarlega á hnakka og tvö sár þar við. Annað sárið hefði virst vera skurðsár, 2 cm að lengd, en hitt 1 cm að lengd. Útlit sáranna benti til þess að hvasst áhald hefði verið notað við árásina sem hún hafi orðið fyrir. Voru sárin saumuð, en frekari meðferðar reyndist ekki þörf. Í gögnum málsins er að finna ljósmyndir sem teknar voru af áverkum A á slysadeild.

Þá er í gögnum málsins skýrsla Jóns Aðalsteins Jóhannssonar læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærðu eftir handtöku 22. ágúst 2009. Kemur fram að ákærða var með ferskt u.þ.b. 0,5 cm langt sár á höfði sem blæddi úr. Var sárið saumað með 1 til 2 sporum. Ljósmyndir af áverkanum fylgja skýrslunni.

Við aðalmeðferð málsins sagði ákærða þær A hafa verið að rífast í umrætt sinn og hefði það endað með slagsmálum. Ákærða sagði A hafa veist að sér þar sem hún sat í stól og slegið sig með buffhamri og steikarpönnu. Þá hefði A stungið sig með einhverju oddhvössu í hvirfilinn. Áður hefði A ógnað henni með hnífi. Ákærða sagðist hafa risið á fætur og gripið það næsta sem fyrir varð til að verja sig, en það hefði reynst vera hnífur. Hún hefði stungið A tvívegis með hnífnum. Þegar þetta gerðist hefði A setið á rúmi og hallað sér að C sem hún var að tala við. Ákærða sagðist aðeins hafa verið að svara fyrir sig og hefði hún unnið verkið í sjálfsvörn. Aðspurð sagði ákærða það ekki vera rétt sem hún hefði sagt við skýrslutöku hjá lögreglu, að hún hefði verið að hefna sín á A.

A sagði þær ákærðu hafa verið að kýta og hefði það orðið til þess að hún réðst á ákærðu með steikarpönnu og buffhamri að vopni. A sagðist hafa slegið ákærðu með pönnunni í höfuðið og sennilega líka með buffhamrinum. Hún tók fram að þær þrjár sem voru í íbúðinni hefðu allar verið undir miklum áhrifum lyfja. Þær hefðu verið að steikja kjöthakk og beikon í pönnunni sem hún sló ákærðu með. Hefði ákærða orðið að tína kjötið úr hári sínu á eftir. A sagðist hafa sagt við ákærðu að hún væri ekki hrædd við ofbeldi, en síðan sest á rúmið og farið að reima skóna sína. Þá hefði ákærða sagt við hana: „Ég skal sýna þér hvað ofbeldi er.“ Hún hefði fundið að hún fékk þrjú högg á höfuðið, sem síðar reyndust vera hnífsstungur. Við þetta hefði hún fengið tvö sár á höfuðið og hnífurinn farið í gegnum höfuðbeinið. A sagði áverka á höfði ákærðu tilkominn af því er hún sló hana með buffhamrinum. Hún hefði ekki stungið ákærðu í höfuðið með neinu oddhvössu. A tók fram að þær ákærðu væru góðar vinkonur í dag. Þær hefðu rætt þetta atvik sín á milli og bæri hún ekki kala til ákærðu vegna málsins.  

Við aðalmeðferð málsins upplýsti sækjandi að vitnið C væri nú látin. Lögregla tók skýrslu af C í kjölfar atviksins hinn 22. ágúst 2009. Var skýrsla vitnisins jafnframt tekin upp á hljóð- og myndband og er sú upptaka meðal gagna málsins. Mun dómari taka skýrsluna til greina sem sönnunargagn, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Við skýrslutökuna greindi C svo frá að ákærða og A hefðu verið gestkomandi hjá henni þennan dag og hefðu þær farið að kýta. Að því hefði komið að A hefði gripið sleif eða hníf og ógnað ákærðu, en ekkert hefði orðið frekar úr því. Síðan hefði það gerst að A hefði gripið pönnu af eldavélinni og slegið ákærðu með henni, þar sem hún sat í stól. Ákærða hefði reiðst við þetta og ráðist á A, sem þá var sest á rúmið. Þær hefðu tekist eitthvað á, en það fjarað út og ákærða sest aftur í stólinn. A hefði farið að tala um að yfirgefa íbúðina. Sagðist C hafa setið í rúmi sínu og A hálfkropið yfir henni þar, þegar hún hefði skyndilega orðið þess vör að ákærða stóð hjá A. Hún hefði fundið fyrir einhverju eins og kaffi hefði hellst yfir hné hennar, en síðan séð að þetta var blóð frá A. Hún hefði ekki séð hvað ákærða gerði A. Þá hefði hún ekki tekið eftir neinu í höndum ákærðu.

Sækjandi málsins upplýsti við aðalmeðferðina að jafnhliða höfðun sakamáls á hendur ákærðu hefði verið gefin út ákæra á hendur A fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í umrætt sinn veist að ákærðu og slegið hana í höfuðið með steikarpönnu, með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á höfuð, sem að framan greinir. Ákæra hafi hins vegar verið afturkölluð á síðari stigum, þar sem málið var ekki talið líklegt til sakfellis, en A hafði ekki notið réttarstöðu sakbornings við skýrslutökur hjá lögreglu vegna málsins.

Niðurstaða

Ákærða játar sök samkvæmt 1. og 3. ákærulið. Við skýrslutöku hjá lögreglu 16. apríl 2010 hafði B uppi refsikröfu á hendur ákærðu vegna þeirrar háttsemi sem í 3. ákærulið greinir. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærða er sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í þessum ákæruliðum og eru brot hennar rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærða hefur viðurkennt að hafa stungið A tvisvar sinnum í höfuðið með hnífi svo sem í 2. ákærulið greinir, en heldur því fram að hún hafi unnið verkið í neyðarvörn og að sýkna eigi af þeim sökum, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Af framburði ákærðu og vitnanna A og C, sem að framan er rakinn, verður ráðið að atlaga A var yfirstaðin þegar ákærða veittist að henni með hnífnum. Var því ekki um það að ræða að verkið hefði verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra árás, sem var byrjuð eða yfirvofandi, svo sem í 12. gr. almennra hegningarlaga greinir. Verður því ekki fallist á það með ákærðu að verknaður hennar hafi réttlæst af neyðarvörn. Sannað er með játningu ákærðu, sem er í samræmi við gögn málsins að öðru leyti, að ákærða er sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í 2. ákærulið. Ákærða stakk A ítrekað í höfuð með hnífi og var árás hennar stórhættuleg. Verður ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærða er fædd í nóvember 1961 og á hún sér allnokkurn sakaferil, allt aftur til ársins 1992. Frá því ári til ársins 1999 hlaut ákærða 7 refsidóma fyrir skjalafals og ýmis auðgunarbrot. Árið 1998 var hún dæmd í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás. Hinn 14. júní 2001 var ákærða í Hæstarétti Íslands dæmd í 12 ára fangelsi fyrir manndráp og rán. Ákærðu var hinn 12. júní 2008 veitt reynslulausn í 3 ár á 1440 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt síðastnefndum dómi. Með brotum samkvæmt 1. og 2. ákæruliðum rauf ákærða skilorð reynslulausnarinnar. Var henni gert að afplána eftirstöðvar refsingarinnar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2009.

Í máli þessu er ákærða sakfelld fyrir þjófnaðarbrot, eignaspjöll og sérstaklega hættulegra líkamsárás. Brot ákærðu samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar hafa ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 71. gr., 1. mgr. 218. gr. b. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Sem fyrr segir var atlaga ákærðu að A stórhættuleg og gat hending ráðið því að ekki hlutust alvarlegri afleiðingar af. Þótt A hafi áður slegið ákærðu í höfuðið með steikarpönnu og hugsanlega buffhamri gat það ekki gefið ákærðu tilefni til jafn hættulegrar árásar svo að virða megi henni til málsbóta við refsiákvörðun. Refsing verður tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Af hálfu A er þess krafist að ákærða verði dæmd til greiðslu miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta og bóta vegna málskostnaðar. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 400.000 krónur ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir. Inga Lillý Brynjólfsdóttir héraðsdómslögmaður var tilnefnd réttargæslumaður brotaþola við lögreglurannsókn málsins, en við aðalmeðferð málsins var Brynjólfur Eyvindsson héraðsdómslögmaður skipaður réttargæslumaður í hennar stað. Verður ákærða dæmd til greiðslu þóknunar réttargæslumanna.

Ákærða verður dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 62.750 krónur. Þá verður ákærða dæmd til að greiða þóknun réttargæslumannanna Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur og Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanna, 75.300 krónur til hvors um sig. Loks greiði ákærða 125.548 krónur í annan sakarkostnað. Þóknun lögmanna er tiltekin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærða, Bergþóra Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákærða greiði A miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2009 til 27. nóvember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 62.750 krónur og þóknun réttargæslumannanna Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur og Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanna, 75.300 krónur til hvors um sig. Ákærða greiði 125.548 krónur í annan sakarkostnað.