Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Réttargæslumaður
- Brotaþoli
|
|
Þriðjudaginn 8. júlí 2014. |
|
Nr. 468/2014.
|
Ákæruvaldið (enginn) gegn X (Þyrí Steingrímsdóttir hrl.) |
Kærumál. Réttargæslumaður. Brotaþoli.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var synjað um skipun réttargæslumanns.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2014 þar sem brotaþola var synjað um skipun réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess er krafist að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa tiltekinn lögmann réttargæslumann brotaþola.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2014.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 20. maí 2014, á hendur X, kt. [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 27. apríl 2013, í bifreið utan við [...] í Kópavogi, slegið A, barnsmóður sína og unnustu, í andlitið, síðan ekið með hana að [...] í Kópavogi, þar sem hann stöðvaði bifreiðina, reif í hár A, sló höfði hennar í stýri bifreiðarinnar, dró hana út úr bifreiðinni og fleygði henni í götuna, tók hana upp og henti utan í bifreiðina og aftur í götuna, allt með þeim afleiðingum að A hlaut glóðarauga og mar yfir hægra augnloki, mar hægra megin á enni, eymsli yfir hálslið, mar á brjóstkassa vinstra megin, mar á báðum upphandleggjum og mar á hægri handlegg.
Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Í þinghaldi 2. júlí 2014 neitaði ákærði sök, en kvaðst þó kannast við að hafa slegið brotaþola eitt högg í andlit með flötum lófa í umrætt sinn. Hann hafnaði fram kominni bótakröfu.
Af hálfu brotaþola og lögmanns hennar, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., er þess krafist að lögmaðurinn verði skipaður réttargæslumaður brotaþola, sbr. 41. og 42. gr. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu brotaþola er krafan einkum rökstudd með því að ákærðu og brotaþolar séu tengdir aðilar, en þau hafi áður verið í sambúð. Hafi þau dvalið í [...] á sambúðartímanum og verið nýflutt hingað til lands er þau atvik urðu sem leiddu til ákæru í málinu.
Ákæruvaldið tekur undir kröfu brotaþola, með framangreindum röksemdum.
Af hálfu ákærða er kröfunni andmælt. Hefur ákærði einkum vísað til þess að þau brotaþoli hafi ekki verið í sambúð í nokkurn tíma er atvikið átti sér stað.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal lögregla eftir ósk brotaþola tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist m.a. að broti gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn. Jafnframt er það skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Eftir að mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til að tilnefna réttargæslumann samkvæmt framangreindu lagaákvæði skipar dómari brotaþola réttargæslumann samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008.
Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök er í ákæru talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir í málinu bera ekki með sér að brotaþoli hafi í umrætt sinn orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, svo sem í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 greinir. Ákærði og brotaþoli eru fyrrverandi sambýlisfólk, en af gögnum málsins verður ráðið að sambúð þeirra hafi verið lokið á þeim tíma sem um ræðir, en þau áttu þá ekki sameiginlegt heimili. Í málinu liggur fyrir bótakrafa brotaþola, sem í ákæru greinir, og nýtur hún aðstoðar lögmanns við að fylgja þeirri kröfu eftir fyrir dóminum. Að mati dómsins er ekki komið fram að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Samkvæmt framansögðu þykja ekki uppfyllt skilyrði þess að brotaþola verði skipaður réttargæslumaður í málinu og verður kröfu þar um því hafnað.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu brotaþola, A, um að henni verði skipaður réttargæslumaður í máli þessu.