Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðasamningur
|
|
Mánudaginn 14. október 2013. |
|
Nr. 476/2013.
|
Ice-Balt Invest ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) Glitnir hf. og GLB Holding ehf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Straumborg ehf. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Kærumál. Nauðasamningur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar tekin var til greina krafa S ehf. um staðfestingu nauðasamnings á grundvelli frumvarps sem samkvæmt yfirlýsingu umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum hafði verið samþykkt af lánardrottnum félagsins með tilteknu hlutfalli atkvæða eftir höfðatölu og kröfufjárhæðum og án þess að reyndi á ágreiningsatkvæði. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að þessi niðurstaða umsjónarmannsins væri ekki á rökum reist og hafi því við meðferð kröfu S ehf. fyrir héraðsdómi ranglega verið lagt til grundvallar að ekki hafi þurft að telja með ágreiningsatkvæði eftir reglu 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að ná fram þeim úrslitum að frumvarp félagsins teldist samþykkt. Af þeim sökum hafi I ehf., G hf. og GH ehf., ekki gefist tilefni til að leggja mat á hvort forsendur væru til að bera upp andmæli eftir 4. og 5. tölulið 58. gr. laganna gegn kröfu S ehf. Frumvarp S ehf. að nauðasamningi hafi að auki í ýmsum atriðum ekki verið í samræmi við það sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991 og ýmsir skilmálar í viðauka sem frumvarpinu fylgdi verið í ósamræmi við ákvæði laganna. Hefði því borið samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 38. gr. laganna að synja félaginu um heimild til nauðasamningsumleitana. Af því leiddi að dómstólum bæri að hafna af sjálfsdáðum kröfu S ehf. um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 57. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 8. og 12. júlí 2013, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. og 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2013, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr., sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings og honum gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins óskaði varnaraðili 7. febrúar 2013 eftir heimild til að leita nauðasamnings. Með beiðni hans fylgdi frumvarp að nauðasamningi ásamt yfirlýsingum atkvæðismanna um meðmæli, vottorð úr fyrirtækjaskrá, samþykktir félagsins, ársreikningur þess og skattframtal fyrir árið 2011, álitsgerð löggilts endurskoðanda og skrá um eignir félagsins og skuldir. Varnaraðila var veitt þessi heimild með úrskurði héraðsdóms 15. sama mánaðar. Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gaf út innköllun til lánardrottna varnaraðila og lauk kröfulýsingarfresti 3. apríl 2013. Innan hans bárust þrettán samningskröfur frá tólf lánardrottnum að fjárhæð samtals 38.280.220.406 krónur, þar á meðal frá sóknaraðilanum Ice-Balt Invest ehf. að fjárhæð 3.725.335.332 krónur, Glitni hf. að fjárhæð 5.324.216.739 krónur og GLB Holding ehf. að fjárhæð 948.251.760 krónur. Samkvæmt skrá, sem umsjónarmaðurinn gerði um lýstar samningskröfur, sættu kröfur sóknaraðilanna Ice-Balt Invest ehf. og Glitnis hf. andmælum af hálfu varnaraðila auk lýstra krafna tveggja annarra lánardrottna, ALMC hf. og SPB hf., en þær tvær kröfur námu samtals 2.976.948.705 krónum. Óumdeildar kröfur voru á hinn bóginn níu að tölu og alls að fjárhæð 26.253.719.630 krónur. Meðal þeirra var fyrrnefnd krafa sóknaraðilans GLB Holding ehf., en af hinum kröfunum átta voru tvær í höndum eins lánardrottins, Íslandsbanka hf.
Umsjónarmaðurinn hélt fund 15. maí 2013 til atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp. Varnaraðili breytti á fundinum upphaflegu frumvarpi sínu, sbr. 47. gr. laga nr. 21/1991, en að því gerðu leitaði hann eftirgjafar á 55% af fjárhæð samningskrafna. Á fundinum gerði umsjónarmaðurinn grein fyrir skrá um samningskröfur ásamt því að varnaraðili hefði þegar mótmælt áðurnefndum fjórum kröfum, sem umsjónarmaðurinn kvaðst mundu fara með sem „ágreiningskröfur við atkvæðagreiðslu um frumvarpið“, eins og sagði í fundargerð. Andmæli komu að öðru leyti ekki fram gegn kröfum, sem taldar voru í skránni, eða að atkvæðisréttur fylgdi þeim. Þessu næst fór fram atkvæðagreiðsla um frumvarpið og tóku þátt í henni allir, sem höfðu lýst kröfum við nauðasamningsumleitanirnar. Að lokinni atkvæðagreiðslunni færði umsjónarmaðurinn í fundargerð að eftir höfðatölu hafi frumvarpið verið „samþykkt með 67% atkvæða“, en eftir kröfufjárhæðum hafi 68,95% atkvæða fallið því til samþykkis „og taldist það því þegar vera samþykkt við þessa atkvæðagreiðslu.“ Þá var því bætt við að ekki hafi reynt „á vægi ágreiningsatkvæða við atkvæðagreiðsluna en ef talning hefði farið fram samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 52. gr. gjaldþrotaskiptalaga hefði frumvarpið talist samþykkt með 96.53% eftir fjárhæðum en 89% eftir höfðatölu.“
Varnaraðili beindi til héraðsdóms 17. maí 2013 kröfu um staðfestingu nauðasamnings á grundvelli framangreinds frumvarps. Þeirri kröfu fylgdi yfirlýsing umsjónarmannsins frá 16. sama mánaðar, þar sem meðal annars var greint þannig frá úrslitum atkvæðagreiðslu um frumvarpið að samþykkir því hafi verið „atkvæðismenn sem fóru með 67% atkvæða eftir höfðatölu og 68,95% atkvæða eftir kröfufjárhæðum“, ágreiningsatkvæði hafi verið „fjögur og vógu þau 31,41% miðað við kröfufjárhæðir og 33,36% miðað við höfðatölu“, en einn atkvæðismaður hafi ekki greitt atkvæði og hafi því verið „farið með atkvæði hans sem synjunaratkvæði.“ Frumvarpið hafi þannig verið samþykkt án þess að reyndi á ágreiningsatkvæði.
Krafa varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings var tekin fyrir í héraðsdómi 31. maí 2013 og var sótt þing af hálfu sóknaraðila, sem mótmæltu henni. Mál þetta var þingfest af þessu tilefni í sama þinghaldi og því frestað til 14. júní 2013, en í þinghaldi þann dag voru lagðar fram greinargerðir aðilanna og var málið síðan munnlega flutt. Með hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila tekin til greina.
II
Varnaraðili breytti sem áður segir upphaflegu frumvarpi sínu að nauðasamningi á fundi með lánardrottnum 15. maí 2013 og leitaði hann upp frá því eftir 55% eftirgjöf af hverri samningskröfu. Til samþykkis þurfti frumvarpið því að hljóta 60% atkvæða, bæði eftir höfðatölu atkvæðismanna og fjárhæðum krafna þeirra, sbr. 49. gr. laga nr. 21/1991. Meðal atkvæðismannanna átta um frumvarpið, sem ekki fóru með ágreiningsatkvæði, var sóknaraðilinn GLB Holding ehf. einn um að greiða ekki atkvæði með því, en sjö samþykktu það. Af þeim fjórum lánardrottnum, sem fóru með ágreiningsatkvæði, voru sóknaraðilarnir Ice-Balt Invest ehf. og Glitnir hf. ásamt SPB hf. andvígir frumvarpinu, en ALMC hf. var því fylgjandi. Samkvæmt þessu voru eftir kröfufjárhæðum greidd með frumvarpinu 66,11% atkvæða, sem ágreiningur var ekki um, og eitt ágreiningsatkvæði, sem nam 2,84%, en gegn því var eitt atkvæði, sem ekki var ágreiningur um og svaraði til 2,48% atkvæða eftir kröfufjárhæðum, og þrjú ágreiningsatkvæði, sem námu alls 28,57%. Eftir höfðatölu voru greidd til samþykkis frumvarpinu sjö atkvæði, sem ágreiningur stóð ekki um, og eitt ágreiningsatkvæði, en gegn því var eitt atkvæði, sem ekki var ágreiningur um, og þrjú ágreiningsatkvæði.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 skal við talningu atkvæða um frumvarp að nauðasamningi fyrst í stað litið til þess hvort önnur atkvæði en ágreiningsatkvæði nægi ein til úrslita. Við slíka talningu átti eftir framansögðu með réttu að líta svo á að 66,11% atkvæða eftir kröfufjárhæðum hafi fallið til samþykkis frumvarpi varnaraðila, en sjö atkvæði af tólf eftir höfðatölu eða 58,33% þeirra. Gagnstætt því, sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum lagði til grundvallar í fundargerð frá fundinum 15. maí 2013 og yfirlýsingu sinni 16. sama mánaðar, nægðu önnur atkvæði en ágreiningsatkvæði þannig ekki ein til úrslita um frumvarpið. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 hefði því umsjónarmanninum þessu næst borið að leitast við að jafna ágreining um kröfur og atkvæðisrétt og telja atkvæði eftir atvikum á ný, en til þess kom ekki. Eftir 4. mgr. sömu lagagreinar hefði að endingu átt að telja með ágreiningsatkvæði, sem féllu til samþykkis frumvarpinu, en virða önnur að vettugi. Í slíkri talningu hefði frumvarp varnaraðila talist samþykkt með nægilegum fjölda atkvæða, bæði eftir kröfufjárhæðum og höfðatölu.
Við meðferð kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings fyrir héraðsdómi var ranglega lagt til grundvallar að ekki hafi þurft að telja með ágreiningsatkvæði eftir fyrrgreindri reglu 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 til að ná fram þeim úrslitum að frumvarp hans teldist samþykkt. Af þeim sökum gafst sóknaraðilum ekki tilefni til að leggja mat á hvort forsendur væru til að bera upp andmæli eftir 4. eða 5. tölulið 58. gr. sömu laga gegn kröfu varnaraðila. Vegna þessa væru efni til að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar ef ekki kæmi annað til, sem um ræðir hér á eftir.
III
Í hinum kærða úrskurði er tekið orðrétt upp frumvarp varnaraðila að nauðasamningi, sem atkvæði voru greidd um á fundi 15. maí 2013, ásamt viðauka, sem fylgdi því og skoða átti sem „óaðskiljanlegan hluta“ frumvarpsins samkvæmt því, sem þar sagði. Í ýmsum atriðum var þetta frumvarp ekki í samræmi við það, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991. Þannig kom fram í upphafi 1. greinar frumvarpsins að lánardrottnum varnaraðila, sem færu með samningskröfur, byðist greiðsla með þeim hætti, sem þar var lýst í fjórum töluliðum. Í þeim fyrsta sagði að lánardrottnum varnaraðila væru „boðnar allar eignir félagsins til uppgjörs krafna þeirra“. Í framhaldi af þessu var þó hvergi rætt um slíkt afsal eigna varnaraðila, heldur sagt að „greiðsla“ færi þannig fram að „45% samningskrafna verður skilmálabreytt og tekur skilmálabreytingin gildi þegar nauðasamningur hefur verið endanlega staðfestur.“ Skilmálabreytingin, sem samkvæmt þessu skyldi skoðast sem greiðsla, átti að fela í sér að samningskröfum yrði „breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára ... en félagið mun greiða niður breytanlega lánið eftir því sem unnt er á lánstímanum.“ Ekki var nánar skýrt hvað átt væri við með breytanlegu láni, en tekið var þó fram að yrði það ekki greitt að fullu „á gjalddaga“, sem ekki var tilgreindur nánar, yrði „eftirstöðvum þess ... breytt í hlutafé í Straumborg“. Skilmálar þessa láns kæmu fram í viðauka með frumvarpinu. Í 2. tölulið 1. greinar sagði síðan að með „staðfestingu á nauðasamningnum munu samningskröfuhafar fella niður 55% af samningskröfum sínum“ og í 3. tölulið að með „framangreindri afskrift 55% samningskrafna og skilmálabreytingu 45% þeirra samningskrafna sem eftir standa, telst hafa farið fram fullnaðar uppgjör á öllum samningskröfum“. Eftir þessu orðalagi virðist annars vegar sem ætlast hafi verið til að lánardrottnar varnaraðila tækju á sig skuldbindingu um að fella niður eða afskrifa kröfur sínar að 55 hundraðshlutum, en nauðasamningur, sem eðli máls samkvæmt leggur skyldur á herðar skuldara, felur ekki í sér slíkar aðgerðir lánardrottins samkvæmt fyrirmælum X. kafla laga nr. 21/1991, sbr. einkum 2. mgr. og 5. mgr. 60. gr., 62. gr. og 1. mgr. 63. gr. laganna. Hins vegar leiddi af tilvitnuðum orðum að svonefnd skilmálabreyting á 45% af samningskröfum teldist endanlegt uppgjör á þeim, þrátt fyrir að engin greiðsla hafi farið fram, og virðist því hafa átt að líta svo á að nauðasamningurinn teldist að fullu efndur með því einu að hann kæmist á.
Í fyrrnefndum viðauka, sem fylgdi frumvarpi varnaraðila að nauðasamningi, voru tilgreindir skilmálar þess svonefnda breytanlega láns, sem rætt var um í frumvarpinu, og var tekið fram að þeir væru „órjúfanlegur hluti nauðasamningsins“. Í lið 3.4 í viðaukanum sagði meðal annars eftirfarandi: „Eignist lántaki kröfu á hendur lánveitanda á lánstímanum er hvorum aðila heimilt, hvenær sem er eftir að slík krafa verður greiðslukræf, að skuldajafna slíkri kröfu að hluta eða öllu leyti til lækkunar á hlutdeild viðkomandi lánveitanda í láninu, enda þótt gjalddagi breytanlega lánsins sé ókominn.“ Í lið 7.1 voru svofelld fyrirmæli: „Eftirfarandi tilvik teljast hvert um sig vera vanefnd ... að því gefnu að 65% lánveitenda (eftir fjárhæð og höfðatölu miðað við staðfestar samningskröfur á þeim tíma) samþykki að um vanefnd sé að ræða: a) Lántaki vanefnir skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum, b) Bú lántaka er tekið til gjaldþrotaskipta, c) Fjárnám eða kyrrsetning er gerð í eign lántaka, eða d) Krafist er nauðungarsölu á eign skuldara. Vanefnd samkvæmt framangreindu telst vera vanefnd á nauðasamningnum, en um réttaráhrif vanefnda á nauðasamningnum fer samkvæmt 62. gr. gþl.“ Þá sagði í lið 9 í viðaukanum: „Að undanskilinni gr. 8 að ofan, þá skulu allar breytingar á skilmálum þessum samþykktar af lántaka og 75% af öllum lánveitendum (eftir fjárhæð og höfðatölu miðað við staðfestar samningskröfur á þeim tíma) og verða slíkar breytingar ekki gerðar nema með skriflegum hætti.“ Fyrstnefnda ákvæðið, sem hér var getið, fól í sér brot gegn 4. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 og grunnreglum um jafnræði lánardrottna við skuldaskil samkvæmt þeim lögum. Ákvæðið í lið 7.1 í viðaukanum, sem hér var getið í annan stað, fól í sér óheimila takmörkun á úrræðum, sem hver lánardrottinn nýtur fyrir sitt leyti samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laga nr. 21/1991 vegna vanefnda á skuldbindingum samkvæmt nauðasamningi, og var það jafnframt andstætt ófrávíkjanlegum fyrirmælum 2. mgr. sömu lagagreinar um áhrif nýrra nauðasamningsumleitana skuldara eða gjaldþrotaskipta á búi hans. Þá hafði ákvæðið í lið 9 í viðaukanum, sem getið var í þriðja lagi hér að ofan, í raun að geyma heimild til breytinga á nauðasamningi, sem er alls ósamrýmanleg ákvæðum laga nr. 21/1991. Þegar vegna þessara atriða voru slíkir annmarkar á frumvarpi varnaraðila að nauðasamningi að héraðsdómi hefði borið samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 að synja honum um heimild til nauðasamningsumleitana. Af því leiðir að dómstólum ber að hafna af sjálfsdáðum kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 57. gr. sömu laga.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi handa hverjum þeirra fyrir sig eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Straumborgar ehf., um staðfestingu nauðasamnings.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum, Ice-Balt Invest ehf., Glitni hf. og GLB Holding ehf., hverjum fyrir sig samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2013.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 15. febrúar 2013 í málinu N-2/2013, var Straumborg ehf., kt. [...], Akralind 8, Kópavogi, veitt heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína. Var Jón Auðunn Jónsson hrl. skipaður umsjónarmaður með nauðasamningnum.
Með bréfi til dómsins mótteknu 17. maí sl. krafðist Bjarnfreður Ólafsson hdl. þess, fyrir hönd Straumborgar ehf., að nauðasamningur félagsins yrði staðfestur. Með bréfinu fylgdi eftirfarandi frumvarp að nauðasamningi:
„1. gr.
Lánardrottnum sem fara með samningskröfur („lánardrottnar“) er boðin greiðsla samningskrafna sinna með eftirfarandi hætti:
1. Lánardrottnum félagsins eru boðnar allar eignir félagsins til uppgjörs krafna þeirra eins og þær standa þegar heimild er veitt til nauðasamningsumleitana, að frádregnum kostnaði við undirbúning nauðasamnings, nauðasamningsumleitanir og uppgjör nauðasamnings sem og umsýslukostnaði. Greiðsla mun fara þannig fram að 45% samningskrafna verður skilmálabreytt og tekur skilmálabreytingin gildi þegar nauðasamningur hefur verið endanlega staðfestur. Skilmálabreytingin mun fela það í sér að umræddum samningskröfum verður breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára („breytanlega lánið“), en félagið mun greiða niður breytanlega lánið eftir því sem unnt er á lánstímanum. Hafi breytanlega lánið ekki verið greitt að fullu á gjalddaga mun eftirstöðvum þess verða breytt í hlutafé í Straumborg á gjalddaga. Skilmálar breytanlega lánsins fylgja frumvarpi þessu sem viðauki I og skal litið á lánaskilmála breytanlega lánsins sem óaðskiljanlegan hluta frumvarps þessa. Verði frumvarpið samþykkt skal líta á breytanlega lánið sem óaðskiljanlegan hluta nauðasamningsins.
2. Með staðfestingu á nauðasamningnum munu samningskröfuhafar fella niður 55% af samningskröfum sínum.
3. Með framangreindri afskrift 55% samningskrafna og skilmálabreytingu 45% þeirra samningskrafna sem eftir standa, telst hafa farið fram fullnaðar uppgjör á öllum samningskröfum á hendur Straumborg.
4. Þrátt fyrir ofangreint mun félagið halda eftir eignum til þess að mæta umdeildum og skilyrtum samningskröfum, en greiðsla samkvæmt nauðasamningi vegna slíkra krafna mun fara fram svo fljótt sem auðið er eftir að skilyrði hefur komið fram eða leyst hefur verið með endanlegum hætti úr ágreiningi aðila.
2. gr.
Engir vextir verða greiddir vegna krafna lánardrottna frá þeim degi sem nauðasamningur telst kominn á og þar til greiðsla á sér stað samkvæmt 1. gr.
3. gr.
Trygging verður ekki sett fyrir greiðslum samkvæmt framangreindu.
4.gr.
Að því marki sem þörf er á heimildum frá Seðlabanka Íslands til einstakra greiðslna verða þær ekki inntar af hendi fyrr en slík heimild hefur verið fengin.“
Meðfylgjandi ofangreindu frumvarpi er neðangreindur viðauki I.
„VIÐAUKI I
BREYTANLEGT LÁN
1.1 Straumborg ehf., kt. [...], Akralind 8, 201 Kópavogi (hér eftir nefnt „lántaki“), hefur náð nauðasamningum við kröfuhafa sína í samræmi við 3. þátt laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (hér eftir „gþl.“), en nauðasamningurinn hefur hlotið endanlega staðfestingu dómstóla í skilningi 60. gr. gþl. (hér eftir „nauðasamningurinn“). Samkvæmt nauðasamningnum skulu kröfuhafar fella niður 55% samningskrafna, sbr. 1. mgr. 29. gr. gþl., en eftirstöðvum samningskrafnanna (hér eftir „samningskröfurnar“) verður skilmálabreytt og skulu samningskröfurnar eftirleiðis eingöngu lúta þeim skilmálum sem fram koma að neðan.
1.2 Lánaskilmálar þessir eru órjúfanlegur hluti nauðasamningsins og taka gildi við staðfestingu nauðasamningsins samkvæmt framangreindu.
2. SKILMÁLABREYTING OG TILGANGUR
2.1 Frá og með staðfestingu nauðasamningsins telst öllum samningskröfunum hafa verið breytt í breytanlegt lán sem lúta skal eingöngu skilmálum þessum. Lánsfjárhæð hins breytanlega láns samkvæmt skilmálum þessum er í íslenskum krónum og er fjárhæð þess miðað við 15. febrúar 2013 (þegar félaginu var veitt heimild til þess að leita nauðasamninga) kr. 12.371.489.020 (hér eftir „lánið“). Hver eigandi samningskröfu (hver um sig „lánveitandi“, en sameiginlega „lánveitendur“) á því kröfu á hendur lántaka samkvæmt skilmálum þessum sem svarar til fjárhæðar samningskröfunnar í eigu viðkomandi lánveitanda fyrir staðfestingu nauðasamningsins, að teknu tilliti til eftirgjafar samkvæmt nauðasamningnum og eftir atvikum framsals samkvæmt grein 8.
2.2 Komi til þess að áður óþekktar eða skilyrtar kröfur á hendur lántaka skuli efndar samkvæmt nauðasamningnum skulu lánaskilmálar þessir gilda um þann hluta slíkra krafna sem eftir stendur að lokinni niðurfellingu samkvæmt nauðasamningnum og skal höfuðstóll lánsins hækka sem því nemur.
2.3 Í viðauka I við skilmála þessa er að finna yfirlit yfir heildarfjárhæð lánsins og sundurliðun sem sýnir hlutdeild hvers lánveitanda í láninu. Lántaki skal uppfæra yfirlitið í viðauka I m.t.t. hækkunar höfuðstóls samkvæmt gr. 2.1 að ofan og framsals samkvæmt grein 8.
3. ENDURGREIÐSLA
3.1 Gjalddagi lánsins er 15. maí 2016.
3.2 Lántaka skal heimilt að greiða lánið í heild eða hluta hvenær sem er fyrir gjalddaga. Eins fljótt og unnt er í kjölfar staðfestingar nauðasamningsins, og a.m.k. á sex mánaða fresti eftir staðfestingu nauðasamningsins, skal stjórn lántaka ákveða hvort og þá að hvaða marki greitt verði af láninu, allt eftir mati stjórnar á greiðslugetu lántaka hverju sinni. Allar slíkar greiðslur skulu greiddar til lánveitenda í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í láninu á þeim tíma þegar greiðslan á sér stað (pro rata), sbr. þó ákvæði greinar 3.5.
3.3 Við mat stjórnar lántaka á því hvort greitt verði af láninu, skal stjórnin miða við það að lántaki greiði að jafnaði af láninu sem nemur öllu reiðufé í eigu lántaka að frádregnum áætluðum umsýslukostnaði, ráðgjafarkostnaði og öðrum rekstrarkostnaði og reiðufé sem félaginu ber að halda eftir vegna óþekktra, skilyrtra og umdeildra krafna samkvæmt grein 3.5.
3.4 Eignist lántaki kröfu á hendur lánveitanda á lánstímanum er hvorum aðila heimilt, hvenær sem er eftir að slík krafa verður greiðslukræf, að skuldajafna slíkri kröfu að hluta eða öllu leyti til lækkunar á hlutdeild viðkomandi lánveitanda í láninu, enda þótt gjalddagi breytanlega lánsins sé ókominn. Skuldajöfnun samkvæmt þessari grein 3.3 er óháð greiðslum af láninu að öðru leyti.
3.5 Endurgreiðsla lánsins samkvæmt 3. gr. skal fara fram í íslenskum krónum (ISK) eða erlendum gjaldeyri að því marki sem Seðlabanki Íslands hefur heimilað endurgreiðslu lánsins. Fari greiðsla fram í erlendum gjaldeyri samkvæmt ákvæði þessu skal þess gætt að allir lánveitendur fái greitt í sama gjaldeyri í samræmi við hlutdeild í láninu á þeim degi þegar greiðsla fer fram (pro rata). Greiðslur í erlendum gjaldeyri skulu miða við skráð sölugengi viðkomandi gjaldeyris hjá Seðlabanka Íslands á þeim degi þegar greiðsla fer fram.
3.6 Við endurgreiðslu lánsins samkvæmt 3. gr. skal tekið tillit til þekktra skilyrtra og umdeildra krafna þannig að lántaki haldi eftir fjárhæð sem miðast við greiðsluskyldu í samræmi við ýtrustu kröfur kröfuhafa slíkra krafna, að teknu tilliti til niðurfellingar samkvæmt nauðasamningnum. Skal því fjárhæð sem jafngildir greiðsluskyldu vegna slíkra krafna, eins og þær hefðu verið samþykktar við nauðasamningsumleitanir sem óskilyrtar og óumdeildar kröfur, lögð inn á vörslureikning í eigu lántaka í hvert sinn sem endurgreiðsla lánsins á sér stað samkvæmt þessari 3. gr. Að því marki sem krafa sem verið hefur skilyrt eða umdeild hlýtur staðfestingu sem samningskrafa á hendur lántaka skal lántaki greiða eiganda kröfunnar þá fjármuni sem greiddir hafa verið inn á vörslureikninginn vegna hennar, þannig að viðkomandi kröfuhafi verði í sömu stöðu og hefði hann verið lánveitandi samkvæmt samningi þessum þegar við staðfestingu nauðasamningsins. Að því marki sem staðfest verður að krafa sem verið hefur skilyrt eða umdeild sé ekki gild samningskrafa á hendur félaginu, þ. á m. að því marki sem ekki verður fallist á ýtrustu kröfur viðkomandi kröfuhafa, skal það fjármagn sem lagt hefur verið inn á vörslureikninginn vegna slíkrar kröfu teljast eign félagsins og koma til útgreiðslu samkvæmt grein 3.2.
3.7 Við hverja endurgreiðslu samkvæmt 3. gr. skilmála þessara skal lántaki halda eftir 1% af endurgreiðslunni til þess að mæta mögulegum óþekktum kröfum sem kunna að koma til síðar og falla undir nauðasamninginn.
3.8 Á gjalddaga lánsins skal öllum eftirstöðvum lánsins breytt í hlutafé í lántaka á genginu 1, þannig að hver ein króna af eftirstöðvum lánsins breytist í eina krónu að nafnverði hlutafjár í lántaka. Skal stjórn lántaka þá hækka hlutafé um þá fjárhæð sem samsvarar öllum eftirstöðvum lánsins og afhenda lánveitendum nýja hluti í lántaka í réttu hlutfalli við eignarhlut þeirra í láninu á gjalddaga (pro rata).
3.9 Skal lántaki teljast hafa efnt skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum að fullu þegar hinir nýju hlutir hafa verið skráðir á nafn viðkomandi lánveitanda í hlutaskrá lántaka. Hinir nýju hlutir skulu allir njóta sömu réttinda í lántaka, nema viðkomandi lánveitandi samþykki annað, og veita réttindi samkvæmt samþykktum lántaka um leið og hlutafjárhækkunin hefur verið skráð.
4. VEXTIR
5. SÉRSTAKAR SKULDBINDINGAR
5.1 Lántaki skal ekki taka á sig nýjar fjárhagslegar skuldbindingar (aðrar en fjárhagslegar skuldbindingar í tengslum við daglegan rekstur) nema með samþykki a.m.k. 65% lánveitenda (eftir fjárhæð og höfðatölu miðað við staðfestar samningskröfur á þeim tíma).
5.2 Lántaka er óheimilt að greiða út arð til hluthafa á lánstímanum.
5.3 Lántaki skuldbindur sig til þess að láta endurskoða ársreikninga félagsins á lánstímanum.
6. KOSTNAÐUR
Lántaki greiðir engin gjöld til lánveitenda vegna lánsins eða endurgreiðslu þess.
7. VANEFNDATILVIK VANEFNDAÚRRÆÐI
7.1 Eftirfarandi tilvik teljast hvert um sig vera vanefnd („vanefnd“), að því gefnu að 65% lánveitenda (eftir fjárhæð og höfðatölu miðað við staðfestar samningskröfur á þeim tíma) samþykki að um vanefnd sé að ræða:
a) Lántaki vanefnir skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum,
b) Bú lántaka er tekið til gjaldþrotaskipta,
c) Fjárnám eða kyrrsetning er gerð í eign lántaka, eða
d) Krafist er nauðungarsölu á eign skuldara.
Vanefnd samkvæmt framangreindu telst vera vanefnd á nauðasamningnum, en um réttaráhrif vanefnda á nauðasamningnum fer samkvæmt 62. gr. gþl.
8.1 Lántaka er óheimilt að framselja skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum nema með samþykki allra lánveitenda sem lántaka er kunnugt um hverju sinni.
8.2 Hverjum einstökum lánveitanda er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálum þessum til þriðja aðila, að því gefnu að framseljandi afhendi lántaka tilkynningu þar að lútandi, í því formi sem fram kemur í viðauka II við lánaskilmála þessa og undirritaða af hálfu framseljanda og framsalshafa. Framsal réttinda og/eða skuldbindinga af hálfu lánveitanda samkvæmt lánaskilmálum þessum skal ekki hafa gildi gagnvart lántaka nema farið hafi verið að framangreindum reglum þessarar greinar 8.1.
9. ÖNNUR ÁKVÆÐI
Að undanskilinni gr. 8 að ofan, þá skulu allar breytingar á skilmálum þessum samþykktar af lántaka og 75% af öllum lánveitendum (eftir fjárhæð og höfðatölu miðað við staðfestar samningskröfur á þeim tíma) og verða slíkar breytingar ekki gerðar nema með skriflegum hætti.
10. LÖG OG LÖGSAGA
10.1 Um skilmála þessa gilda íslensk lög.
10.2 Komi upp ágreiningur milli aðila um framkvæmd eða túlkun skilmála þessara skal mál vegna slíks ágreinings rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
VIÐAUKI I
Sundurliðun á kröfum samkvæmt breytanlega láninu.
|
Samningskröfur |
||
|
Kröfuhafi |
Upphæð ísk. * |
|
|
Arion |
6.703.899.966 kr. |
54,2% |
|
Landsbankinn hf. |
2.603.872.027 kr. |
21,0% |
|
GLB Holding ehf. |
442.301.102 kr. |
3,6% |
|
Íslandsbanki hf. |
1.099.139.883 kr. |
8,9% |
|
MMF íslensk verðbréf |
120.769.738 kr. |
1,0% |
|
MMF MP Bank (Jupiter) |
90.015.486 kr. |
0,7% |
|
MMF Byr (Íslandsbanki) |
61.171.557 kr. |
0,5% |
|
RBI |
1.078.070.537 kr. |
8,7% |
|
LBI hf. |
62.081.266 kr. |
0,5% |
|
Pillar |
110.167.458 kr. |
0,9% |
|
Samtals |
12.371.489.020 kr. |
100% |
|
Óvissar umdeildar, skilyrtar- og ágreiningskröfur |
||
|
Kröfuhafi |
Upphæð ísk.* |
|
|
Glitnir |
1.936.182.732 kr. |
|
|
IBI |
1.432.113.222 kr. |
|
|
ALMC |
489.537.900 kr. |
|
|
Icebank (SPB hf.) |
845.687.363 kr. |
|
|
RBI |
567.089.550 kr. |
|
|
Samtals |
5.270.610.767 kr. |
|
|
Samtals alls |
17.642.099.787 kr. |
|
* M.v. gengi Seðlabanka Íslands 15.02. 2013.“
Var boðað til þinghalds þann 31. maí sl. með auglýsingu í Lögbirtingablaði þann 23. maí sl. Til þinghaldsins mættu sóknaraðili og varnaraðilar. Málinu var frestað til framlagningar greinargerða aðila 14. júní sl. Var málið munnlega flutt þann sama dag og rekið til úrskurðar að honum loknum.
Sóknaraðili krafðist þess að framlagt frumvarp að nauðasamningi yrði staðfest auk þess sem hann krafðist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar kröfðust þess að kröfu sóknaraðila yrði hafnað en til vara krafðist varnaraðili Ice-Balt Invest ehf. þess að viðauka I við viðauka I yrði breytt.
Var málið tekið til úrskurðar að málflutningi loknum. Í bréfi umsjónarmanns sóknaraðila til dómsins, dagsettu 16. maí sl., segir m.a. að fundur með atkvæðismönnum til atkvæðagreiðslu um frumvarpið hafi verið haldinn að Bíldshöfða 20, Reykjavík, 15. maí sl. en til hans hafi verið boðað í auglýsingu um innköllun í Lögbirtingablaði og jafnframt með ábyrgðarbréfi til allra þekktra kröfuhafa. Að gættum lögmæltum undirbúningi hafi verið gengið til atkvæða um frumvarpið og hafi atkvæði fallið þannig.
Samþykkir frumvarpinu hafi verið atkvæðismenn sem fóru með 67% atkvæða eftir höfðatölu og 68,95% atkvæða eftir kröfufjárhæðum. Ágreiningsatkvæði hafi verið fjögur og vógu þau 31,41% miðað við kröfufjárhæðir og 33,36% miðað við höfðatölu. Einn atkvæðismaður hafi ekki greitt atkvæði en í meðfylgjandi skrá um atkvæðagreiðslu sé farið með atkvæði hans sem synjunaratkvæði. Til samþykktar frumvarpinu hafi þurft atkvæði 60% samningskröfuhafa, bæði að höfðatölu og eftir fjárhæðum. Ekki hafi því reynt á ágreiningsatkvæðin. Ef atkvæðin hefðu verið talin samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991, hefði niðurstaðan orðið sú að frumvarpið hefði verið samþykkt með 89% atkvæða að höfðatölu og 96,5% eftir fjárhæðum. Þá segir að meðan á nauðasamningsumleitunum stóð hafi umsjónarmaður fylgst náið með rekstri félagsins. Strax daginn eftir uppkvaðningu úrskurðarins hafi félagið efnt til umfangmikillar kynningar fyrir umsjónarmann, um sögu félagsins, þróun, samninga þess við lánardrottna sína og aðdraganda þess að stjórn þess ákvað að leita nauðasamninga við lánardrottna sína. Afhent hafi verið ítarleg gögn um félagið og umsjónarmanni veittur aðgangur að öllum þeim upplýsingum sem honum hafi verið þörf á til að framkvæma þær athuganir sem honum sé uppálagt að framkvæma í 43. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ekkert hafi komið fram við þá skoðun sem hafi gefið til kynna að þær upplýsingar sem veittar hafi verið héraðsdómi samhliða beiðni um heimild til að leita nauðasamninga væru ekki réttar og fullnægjandi. Gögn um fjárhag félagsins gáfu ekki til kynna að neitt óeðlilegt hefði átt sér stað í rekstri félagsins á síðustu misserum fram að því að nauðasamningsumleitanir hófust. Á meðan á þeim stóð hafi umsjónarmaður fylgt stjórn félagsins og starfsmönnum eftir í öllum athöfnum og verið mjög vel upplýstur um öll þau mál er varði hagsmuni félagsins. Umsjónarmaður hafi fundað með endurskoðanda félagsins og jafnframt með fulltrúum flestra kröfuhafa. Á þeim fundum hafi komið fram að samstarf félagsins og kröfuhafa þess hafi verið einstaklega gott og náið allt frá kerfishruninu í lok árs 2008.
Þá segir í bréfinu að frá því að nauðasamningsumleitanir hófust hafi ýmislegt á daga félagsins drifið. Helst megi þar nefna að Norvest Latvia, sem sé dótturfélag Straumborgar, hafi selt 90,5% eignarhlut sinn í SIA Solvina til SIA Norfolk í byrjun mars sl. Umsamið söluverð hafi numið 12.750.000 evrum og samkvæmt samningi aðila eigi það allt að vera uppgreitt fyrir næstu áramót. Tvær kaupsamningsgreiðslur hafi þegar verið inntar af hendi og nemi þær samtals 4.275.000 evrum. Þann 7. mars sl. hafi verið gerður samningur á milli Straumborgar og Landsbankans um kaup bankans á öllu hlutafé félagsins í Lindum Resources ehf. og á kröfu Straumborgar á það félag. Efndadagur kaupanna hafi verið 3. apríl sl. og hafi nánar skilgreint kaupverð þessara eigna numið 3.992.927.195 krónum. Krafa Landsbankans á hendur félaginu hafi verið tryggð með veði í undirliggjandi eignum Linda Resources ehf. og hafi andvirðið því gengið til greiðslu inn á þá kröfu.
Enn fremur segir í bréfinu að í samningnum sé ákvæði þess efnis að ef ávinningur fáist af erlendum eignum Linda Resources, þá muni hann ganga til greiðslu á ótryggðri kröfu bankans á hendur félaginu, sem lækki þá sem því nemi. Enn fremur hafi Straumborg ehf. fengið greiddar út óveðsettar eignir félagsins að fjárhæð 467.355.723 krónur.
Í apríl sl. hafi Straumborg ehf. selt allt hlutafé sitt í Norvik Banka en það hafi numið 17,34% af heildarhlutafé þess félags. Söluverð hlutafjárins hafi verið 1 Latti. Tilgangur sölunnar hafi fyrst og fremst verið sá að fá nýjan aðila inn í hluthafahóp bankans, aðila sem hafi styrkt eiginfjárstöðu hans nægilega til að hann héldi áfram starfsleyfi sínu. Með því hafi verið unnið að því að bjarga kröfu Straumborgar ehf. á hendur bankanum samkvæmt víkjandi láni að fjárhæð 2.000.000 evra.
Þá segir enn fremur að Straumborg hafi átt kröfu á hendur félagi að nafni Dartwill ltd. samkvæmt lánssamningi. Krafan hafi verið seld og nam söluverðið 350.000 evrum. Allar þessar ráðstafanir hafi verið gerðar með heimild stjórnar Straumborgar ehf. og umsjónarmanns og að höfðu samráði við stærstu kröfuhafa félagsins. Hafi umsjónarmaður komið að öllum þessum samningum frá upphafi til enda. Þess er að lokum getið í bréfi umsjónarmanns að honum sé ekki kunnugt um nein þau atvik sem hindrað gætu staðfestingu nauðasamningsins samkvæmt ákvæðum 57. og 58. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður varnaraðila.
Varnaraðili Ice-Balt Invest ehf.
Ice-Balt Invest ehf. gerir kröfu um að staðfestingu á nauðasamningi sóknaraðila verði synjað en til vara að viðauka I við viðauka I með frumvarpinu verði breytt á þá lund að krafa varnaraðila verði þar tilgreind að fjárhæð 1.676.400.899 krónur. Þá er þess krafist að öðrum fjárhæðum í viðauka I við viðauka I verði breytt til samræmis þannig að þær verði 45% af lýstum kröfum. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að samkvæmt 57. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 skuli héraðsdómari, án kröfu lánardrottna, hafna kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef nánar tiltekin atvik eða ástæður eru fyrir hendi, sem nánar eru upp talin í 1.3. tölulið 1. mgr. Samkvæmt 58. gr. laganna geti héraðsdómari að auki hafnað kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef nánar tiltekin atvik eða ástæður eru fyrir hendi, sem nánar eru upp talin í 1.6. tölulið 1. mgr. þeirrar greinar. Varnaraðili telji að hafna beri staðfestingu vegna þess að fyrir hendi séu atvik eða ástæður sem lýst er í framangreindum lagaákvæðum og verður það nánar reifað í greinargerð þessari.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 57. gr. gjaldþrotaskiptalaga skuli héraðsdómari hafna kröfu um staðfestingu nauðasamnings ef hann hefði átt að synja um heimild skuldarans til að leita nauðasamnings í öndverðu skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Varnaraðili telji að fyrir hendi séu atvik sem lýst sé í 3. og 5. tölulið. Segir varnaraðili að í beiðni sóknaraðila til dómsins 9. janúar sl. sé vísvitandi farið með rangt mál um mikilsverð atriði og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna staðfestingu á frumvarpi sóknaraðila til nauðasamnings. Þau atriði sem varnaraðili geri sérstaklega athugasemdir við í beiðni sóknaraðila séu eftirfarandi:
1. „Sóknaraðili fullyrðir að hann hafi ekki samþykkt kröfu varnaraðila. Við ritun beiðninnar var krafa varnaraðila byggð á gerðardómi sem upp var kveðinn 10. júlí 2009 og hafði fullt gildi í lögskiptum aðila og var aðfararhæfur skv. 13. gr. laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989. Engu breytir um réttmæti kröfunnar þó varnaraðili hafi kosið í tengslum við nauðasamningsumleitanir sóknaraðila að rifta þeim kaupum aðila sem ákveðin voru með gerðardóminum og breyta kröfu sinni í skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila. Þess vegna skiptir það engu máli þó sóknaraðili hafi ekki „samþykkt” kröfuna. Varnaraðila er kunnugt um að sóknaraðili hafi borið fyrir sig að honum væri óheimilt að efna kröfuna vegna reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál en það á hins vegar ekki að fela það í sér að sóknaraðila sé heimilt að virða kröfu varnaraðila að vettugi. Þó vill varnaraðili benda á að framangreindar reglur hafa aldrei staðið í vegi fyrir efndum enda liggur fyrir að Seðlabanki Íslands hafði skuldbundið sig til að veita undanþágu frá reglunum, sbr. bréf bankans, dags. 1. júní 2010, og þrjú bréf varnaraðila til lögmanns sóknaraðila, dags. 9. júní 2010, 13. apríl 2011 og 31. júlí 2012 er öll fylgdu kröfulýsingu varnaraðila. Ljóst er því að sóknaraðila bar við nauðasamningsumleitanir sínar að upplýsa héraðsdómara um að hann stæði í skuld við varnaraðila og að hann hafi ekki greitt inn á þá skuld til samræmis við greiðslur til annarra lánardrottna sinna eða haldið eftir hlutfallslegri greiðslu á sérgreindum reikningi til að mæta skuldbindingum sínum við sóknaraðila.
2. Sóknaraðili fullyrðir í ársreikningi sínum fyrir árið 2011 (undirnóta nr. 17), sem hann lagði fram með beiðni sinni um heimild til að leita nauðasamninga, að gerðardómur í máli aðila kvæði á um að leysa ætti úr varnarmálsástæðum sóknaraðila við fullnustu dómsins. Þetta er rangt enda ekki orð um það í dómsorði gerðardómsins. Dómkrafan stendur því óhögguð enda hefur sóknaraðili ekki freistað þess að fá hann ógiltan með dómi eftir reglum 12. gr. laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989. Þá er alveg sérstök ástæða til að vekja athygli héraðsdóms á að áritun löggilts endurskoðanda á reikning sóknaraðila er með fyrirvara vegna kröfu varnaraðila með tilvísun til þess að um sé að ræða ágreining „regarding put option agreement”. Endurskoðandinn vísar því til ágreiningsmáls vegna söluréttarsamnings þó ágreiningurinn hafi löngu áður verið til lykta leiddur með gerðardóminum og virðist því stjórn sóknaraðila ekki hafa kynnt dóminn fyrir endurskoðandanum. Augljóslega er því ársreikningur sóknaraðila rangur að þessu leyti.
3. Sóknaraðili fullyrðir að hann hafi gert svokallaðan kyrrstöðusamning við lánardrottna sína, dags. 9. apríl 2010. Þetta er rangt enda hefur varnaraðili ekki gert slíkan samning við sóknaraðila og var aldrei boðið að gerast aðili að honum. Krafa varnaraðila er fyrir löngu í gjalddaga fallin en í dómsorði var kveðið á um gjalddaga hennar 25. júlí 2009. Sóknaraðili leyndi því héraðsdómara að honum var frá og með þeim degi skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta skv. ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 enda þá ljóst að hann gat ekki staðið í skilum með greiðslu á gjalddaga kröfunnar og ekkert sem benti til að úr fjárhagserfiðleikum sóknaraðila myndi rætast. Varnaraðili hefur ekki séð „kyrrstöðusamning” þennan og hann er ekki meðal gagna málsins. Augljóst er að ekki verður leyst úr kröfu sóknaraðila nema samningurinn verði lagður fyrir dóminn og er skorað á sóknaraðila að gera það.
4. Sóknaraðili upplýsir að nú hafi flestar eignir verið seldar og telur varnaraðili ljóst að verulegt andvirði þeirra hefur runnið til lánardrottna sóknaraðila annarra en varnaraðila en a.m.k. er um að ræða 19.000.000 evrur (u.þ.b. 3.135.000.000 krónur), sem hann hefur greitt á árinu 2012 samkvæmt upplýsingum í ársreikningi hans fyrir árið 2011 undirnótu 19, á bls. 25. Hann hefur því gróflega mismunað lánardrottnum sínum og hefur því ekki upplýst héraðsdóm um að fyrir hendi séu atvik sem leiða muni til þess að við gjaldþrotaskipti verði krafist riftunar á öllum slíkum greiðslum til lánardrottna, þvert á móti fullyrðir hann að honum sé ekki kunnugt um slíkar ráðstafanir.
5. Sóknaraðili fullyrðir að fyrirliggjandi frumvarp að nauðasamningi skili vænlegustu útkomunni fyrir alla kröfuhafa félagsins. Fullyrðing þessi er sett fram til héraðsdóms gegn betri vitund enda ljóst að varnaraðili mun bera mjög skertan hlut frá borði ef nauðasamningurinn verður samþykktur vegna þess að nauðasamningurinn gerir einungis ráð fyrir að sóknaraðili fá greiðslu af fjármunum sóknaraðila eins og þeir eru nú í réttu hlutfalli við kröfur annarra lánardrottna eins og þær eru nú eftir að sóknaraðili hefur selt flestar eignir sínar og greitt andvirði til annarra lánardrottna.
6. Sóknaraðili fullyrðir í beiðni sinni að engar ráðstafanir hafi átt sér stað sem hugsanlegt sé að rifta skv. 33. gr., sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991. Varnaraðili hefur ekki haft tök á að kanna réttmæti þessarar fullyrðingar en vill sérstaklega benda á að augljóslega muni hann við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila krefjast þess að greiðslum til annarra lánardrottna verði rift, a.m.k. að því marki að jafnræði allra verði tryggt. Þá kemur fram í ársreikningi sóknaraðila að hann hafi á árinu keypt eigin hlutabréf að nafnverði 300.000 krónur og greitt tengdum aðilum umtalsverðar fjárhæðir í laun og stjórnunarkostnað.
7. Í yfirliti eigna, dags. 9. janúar 2013, sem sóknaraðili lagði til héraðsdóms með beiðni sinni um heimild til nauðasamningsumleitana, fullyrðir sóknaraðili að hann eigi eignir að fjárhæð eða verðmæti 4.891.677.957 krónur. Samkvæmt eignalista, dags. 14. maí 2013, sem sóknaraðili hefur lagt fram með beiðni sinni til héraðsdóms um staðfestingu nauðasamnings, fullyrðir hann aftur á móti að hann eigi eignir að fjárhæð eða verðmæti 4.645.221.672 krónur. Mismunur upp á 246.456.285 krónur hefur ekki verið skýrður. Þá telur sóknaraðili að hann eigi 350.770.608 krónur á „escrow” reikningi hjá Glitni banka hf. en samkvæmt upplýsingum frá lögmanni bankans eru þeir fjármunir eyrnamerktir bankanum vegna málaferla þeirra.“
Héraðsdómara hafi í öndverðu borið að hafna beiðni sóknaraðila um heimild til að leita nauðasamnings vegna þess að hann hafi ekki lagt fram ársreikninga sína fyrir árin 2009 og 2010, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991. Þessa ársreikninga hefur sóknaraðili heldur ekki lagt til ársreikningaskrár þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu samkvæmt 109. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 og bar héraðsdómara að sjálfsdáðum að gæta að því að við þessar aðstæður er skylt skv. 82. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að taka bú sóknaraðila til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili telur að til staðar sé rökstuddur grunur um að upplýsingar af hendi sóknaraðila séu vísvitandi rangar eða villandi og að ástæða sé til að draga verulega í efa að sóknaraðili muni efna nauðasamning þann sem krafist er staðfestingar á. Varnaraðili byggir á að nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila sé villandi vegna þess að í því segir að samningskröfuhafar felli niður 55% af samningskröfum sínum. Það sem út af standi, þ.e. 45% samningskrafna, verði hins vegar skilmálabreytt, en skilmálabreytingin feli í sér að umræddum samningskröfum verði breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára. Þá segir „Hafi breytanlega lánið ekki verið greitt að fullu á gjalddaga mun eftirstöðvum þess vera breytt í hlutafé í Straumborg á gjalddaga“. Varnaraðili telur að framangreint sé villandi vegna þess að enginn möguleiki sé fyrir sóknaraðila að efna greiðsluskyldu sína samkvæmt skuldabréfinu enda námu samþykktar kröfur við nauðasamningsumleitanir sóknaraðila samtals kr. 38.280.220.406 kr. meðan allar eignir sóknaraðila, fáist þær allar innheimtar, nemi kr. 4.294.451.064. Því liggur fyrir, að sóknaraðili mun ekki geta efnt að greiða það lán en sérstaklega er vísað til þess að skv. ákvæði 7.1 í viðauka við frumvarp til nauðasamnings, sem eru skilmálar hins breytanlega láns, er tiltekið að vanefni sóknaraðili skuldbindingar sínar samkvæmt lánasamningnum, teljist það ekki vanefnd nema 65% lánveitenda, að fjárhæð og höfðatölu, miðað við staðfestar samningskröfur, samþykki að um vanefnd sé að ræða. Sóknaraðili gerir því beinlínis ráð fyrir að geta vanefnt nauðasamning sinn í óþökk 35% kröfuhafa.
Varnaraðili byggir á 2. tl. 1. mgr. 57. gr. og 3. tl. 58. gr. laganna og telur að sóknaraðili hafi, frá því hann var dæmdur til að greiða varnaraðila kröfu hans með gjalddaga 25. júlí 2009, greitt öðrum lánardrottnum verulegar fjárhæðir. Um þetta vísar varnaraðili annars vegar til yfirlýsingar sóknaraðila í ársreikningi sínum vegna ársins 2011, á bls. 25, undirnótu 19, en þar kemur fram að hann hafi í febrúar og ágúst 2012 greitt lánardrottnum sínum, öðrum en varnaraðila, 19.000.000 evrur og hins vegar til eignalista þeirra, sem sóknaraðili hefur lagt fram, dags. 14. maí 2013 og dags. 14. maí 2013, en þar kemur fram að 350.770.608 krónur hafi verið lagðar til hliðar inn á „escrow“ reikningi hjá Glitni banka hf., sem var aðili kyrrstöðusamningsins og telur varnaraðili að öðrum aðilum samningsins og lánardrottnum hafi verið greiddar samsvarandi fjárhæðir. Með þessu hafi kröfuhöfum verið mismunað í því skyni að þeir sem þannig hafa fengið greiðslur umfram varnaraðila hafi af þessum sökum greitt atkvæði með frumvarpi sóknaraðila til nauðasamnings. Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá skilaði sóknaraðili síðast inn ársreikningum fyrir rekstrarárið 2008 og þá nam eigið fé hans í árslok 12.417.626.000 krónum. Þær upplýsingar eru í engu samræmi við ársreikning sóknaraðila sem hann hefur lagt fram vegna 2011 og má því með réttu gera ráð fyrir að slíkar greiðslur til annarra lánardrottna en varnaraðila hafi numið verulegum fjárhæðum umfram þær 19.000.000 evrur sem sóknaraðili hefur viðurkennt að hafa greitt öðrum. Skorað er á sóknaraðila að leggja fram ársreikninga sína vegna rekstraráranna 2009 og 2010.
Varnaraðili byggir á 3. tl. 1. mgr. 57. gr. laganna og telur að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum sóknaraðila hafi ranglega talið að í frumvarpi sóknaraðila fælist 55% eftirgjöf samningskrafna og að því bæri, samkvæmt reglu 49. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, að telja frumvarpið samþykkt með því að fleiri en 60% allra atkvæðismanna eftir bæði höfðatölu og fjárhæðum krafna þeirra hafi samþykkt það. Að mati varnaraðila bar umsjónarmanni að leggja til grundvallar hver raunveruleg eftirgjöf skulda fælist í frumvarpinu og meta hana með sjálfstæðum hætti. Að mati sóknaraðila hefði það mat með réttu átt að leiða til þess að umsjónarmaður hefði átt að telja að með frumvarpinu fælist 88,8% eftirgjöf skulda og því hafi frumvarpið í raun verið fellt á fundi samningskröfuhafa 31. maí 2013. Byggt er á því að samkvæmt eignalista sóknaraðila telur hann eignir sínar vera hinn 14. maí 2013 að verðmæti kr. 4.645.221.672. Samningskröfur eru hins vegar að fjárhæð kr. 38.280.220.406. Við mat á því hve hátt hlutfall krafna sóknaraðili býðst til að borga ber síðan að draga frá framangreindum eignum þá „eign“, sem tilgreind er að fjárhæð 350.770.608 krónur á „escrow“ reikningi í Glitni banka hf. enda er hún eyrnamerkt bankanum og eru eignirnar þá til mats að fjárhæð 4.294.451.064 krónur og skuldir því umfram eignir til mats að fjárhæð 33.284.228.126 (38.280.220.406 4.645.221.672 350.770.608). Eignir þær sem sóknaraðili býður fram til nauðasamnings eru því 11,2 % af skuldunum (en þá á reyndar eftir að draga frá áhrif þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er 10.000.000 króna hlutafjáreignar sem fyrir er í sóknaraðila).
Samkvæmt niðurlagi 1. töluliðar 1. gr. frumvarpsins er viðauki I, sem hefur að geyma texta breytanlegs láns, óaðskiljanlegur hluti þess. Í texta þessa breytanlega láns er tiltekið í grein 3.1 að gjalddagi þess sé 15. maí 2016 og síðan segir í grein 3.8 að á gjalddaga þess skuli öllum eftirstöðvum lánsins breytt í hlutafé í sóknaraðila á genginu 1. Með breytingu á kröfum sínum í hlutafé í sóknaraðila öðlast því lánardrottnar hans eingöngu hlutfallslegt óbeint tilkall til þessara eigna sóknaraðila. Því er ljóst að eftirgjöf skulda samkvæmt frumvarpinu ber að meta 88,8%. Engu getur stoðað sóknaraðila að vísa til þess að hann hafi skv. grein 3.2 heimild til að greiða breytanlega lánið fyrr, enda er það algerlega á hans valdi að gera það og um það hafa lánardrottnarnir ekkert að segja en jafnvel þótt þetta ákvæði hefði nú einhverja þýðingu þá er jafn ljóst að ef svo ólíklega vildi til að sóknaraðili nýtti sér þessa heimild sína þá tæki hann fjármuni til útgreiðslu af framangreindum eignum sínum og eignir hans sem til reiðu væru fyrir ˂nýja hluthafa˃ eftir breytingu breytanlega lánsins í hlutafé myndu minnka að sama skapi.
Varnaraðili telur að horfa verði til þess að í raun skiptir það engu máli hvað sóknaraðili hefur tilgreint í frumvarpi sínu til nauðasamnings um eftirgjöf krafna, þegar framangreint er virt. Hann hefði eins getað boðið að 100% samningskrafna yrði breytt í breytanlegt skuldabréf þegar virt er með hvaða hætti greiðslu þess er háttað á gjalddaga 15. maí 2016. Þess vegna var alveg nauðsynlegt fyrir umsjónarmann að kveða á um að tilskilið atkvæðamagn væri í samræmi við það sem sóknaraðili væri raunverulega að bjóða til greiðslu.
Varnaraðili telur að við mat á tilskildu atkvæðamagni hafi umsjónarmanni borið að horfa til þess er fram kemur í beiðni sóknaraðila um heimild til nauðasamningsumleitana, dags. 9. janúar 2012, undir fyrirsögninni „Röksemdir fyrir samþykki fyrirliggjandi frumvarps“, en þar segi:
„Nauðasamningsfrumvarpið gerir ráð fyrir því að allar eignir félagsins verði greiddar út til kröfuhafa eins hratt og verða má frá því að nauðasamningur er formlega staðfestur og mun greiðslan nema að lágmarki 14% af samningskröfum. Kröfuhafar munu svo afskrifa kröfur að því marki sem það er unnt, en ef kröfuhafar félagsins færu þá leið að afskrifa kröfur á hendur félaginu í meira mæli á þessum tímapunkti myndi stofnast til skattskuldbindingar hjá félaginu sjálfu sem gerði það að verkum að það væri nauðbeygt að leita gjaldþrotaskipta. Eftirstöðvum samningskrafna, þ.e. 46% samningskrafna, verður skilmálabreytt.“
Af þessu megi sjá að sóknaraðili gerði á þeim tíma einungis ráð fyrir að greiða 14% af samningskröfum sínum. Til að komast hjá skattskuldbindingum sé frumvarpi til nauðasamnings þó þannig stillt upp að 45% samningskrafna sé umbreytt í breytanlegt lán, sem verði svo að þremur árum liðnum umbreytt í verðlaust hlutafé. Þá hafa fyrirsvarsmenn sóknaraðila lýst því yfir að eftir þá umbreytingu í hlutafé verði félaginu slitið. Því liggur fyrir að nauðasamningsfrumvarpið gerir ráð fyrir mun frekari afskrift en um þau 55% sem það kveður á um.
Þegar framangreint sé virt er ljóst að leggja verður til grundvallar að frumvarp sóknaraðila til nauðasamnings hafi verið fellt á fundi með atkvæðamönnum 15. maí 2013 þar sem það náði ekki tilskildu 88,8% hlutfalli bæði að fjárhæðum og atkvæðafjölda, sbr. 49. gr. laga nr. 21/1991, en fram kemur í bréfi umsjónarmanns til héraðsdóms, dags. 16. maí 2013, að samþykkir frumvarpinu hafi verið atkvæðismenn sem fóru með 67% atkvæða eftir höfðatölu og 68,95% atkvæða eftir kröfufjárhæðum.
Þá telur varnaraðili að fundur haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi þann 15. maí 2013 hafi verið haldinn of seint, eða eftir að fjórar vikur höfðu liðið frá lokum kröfulýsingarfrests, sem var þann 3. apríl 2013, sem kveðið er á um í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 21/1991. Þá liggur fyrir að kröfuskrá var ekki lögð fram fyrr en á sjálfum kröfuhafafundinum, sem varnaraðili telur í andstöðu við 4. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991. Þá liggur jafnframt fyrir að varnaraðila, var aldrei send formleg tilkynning um afstöðu umsjónarmanns til kröfu hans líkt og áskilið er að skuli gerast með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara fyrir kröfuhafafund, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili vísar og til 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna og telur að sóknaraðili hafi frá því hann var dæmdur til að greiða varnaraðila kröfu hans með gjalddaga 25. júlí 2009 greitt öðrum lánardrottnum verulegar fjárhæðir, sbr. það sem að framan er rakið, og hann hafi því rýrt svo fjárhagsstöðu sína af ásetningi varnaraðila til tjóns.
Með vísan til allra atriða sem að framan eru rakin telur varnaraðili verulegar líkur færðar fyrir því að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur og vísar til 6. tl. 58. gr. laganna.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á að í viðauka I við viðauka I með frumvarpinu sé kveðið á um að krafa varnaraðila verði samkvæmt breytanlega láninu að fjárhæð kr. 1.432.113.222. Varnaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 3.725.335.332 krónur. 45% þeirrar fjárhæðar er kr. 1.676.400.899. Þess er krafist að sóknaraðili breyti viðauka I við viðauka I þessu til samræmis enda kann það að varða varnaraðila nokkru að fá hlutabréf í sóknaraðila til samræmis við þá fjárhæð. Þá er þess krafist að öðrum fjárhæðum í viðauka I við viðauka I verði breytt til samræmis þannig að þær verði 45% af lýstum kröfum. Skoraði varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram kyrrstöðusamning við lánardrottna sína, aðra en varnaraðila, dags. 9. apríl 2010.
Varnaraðilar Glitnir hf. og GLB Holding ehf.
Varnaraðilar Glitnir hf. og GLB Holding ehf. krefjast þess að kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings frá 15. maí 2013 verði hafnað. Þá krefjast varnaraðilar þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðilum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins en til vara að hver málsaðili verði látinn bera sinn hluta málskostnaðar, að því gefnu að fallist verði á aðalkröfu sóknaraðila.
Varnaraðilar segja málsatvik þau að sóknaraðili hafi gert kyrrstöðusamning við kröfuhafa sína, þ.m.t. varnaraðila þessa máls, þann 9. apríl 2010. Þar sem ágreiningur hafi verið á milli sóknar- og varnaraðila Glitnis um kröfu hins síðarnefnda, gerðu aðilar með sér sérstakt samkomulag um að leggja þann ágreining fyrir dómstóla. Munnlegur málflutningur fór fram um réttmæti kröfu Glitnis fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. maí sl. og er beðið niðurstöðu dómsins.
Með bréfi dags. 9. janúar sl. hafi sóknaraðili óskað eftir heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína í samræmi við ákvæði 3. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 5. febrúar 2013, hafi sóknaraðila verið veitt heimild til að leita nauðasamnings og Jón Auðunn Jónsson, hrl. skipaður til að gegna stöðu umsjónarmanns með framkvæmd nauðasamningsumleitananna.
Innköllun vegna nauðasamningsumleitana sóknaraðila hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu og birtist hún þar í fyrra sinn þann 6. mars 2013. Var þar skorað á kröfuhafa sóknaraðila að lýsa kröfum fyrir umsjónarmanni innan fjögurra vikna frá birtingu innköllunarinnar. Varnaraðilar urðu við þeirri áskorun og lýstu kröfum á hendur sóknaraðila með kröfulýsingum dags. 3. apríl 2013. Krafa varnaraðila Glitnis hf. byggist á samningi um framvirk verðbréfaviðskipti og er að fjárhæð kr. 5.324.216.739. Krafan er auðkennd númer 13 á kröfuskrá sóknaraðila. Líkt og fram kemur í kröfuskrá var fjárhæð kröfunnar samþykkt eins og henni var lýst en tilgreint að um ágreiningskröfu væri að ræða. Krafa varnaraðila GLB Holding ehf. byggist á víxli, útgefnum af sóknaraðila með auðkennið STBO 08 1019, og er krafan að fjárhæð kr. 948.251.760. Krafan er auðkennd númer 6 á kröfuskrá sóknaraðila og hefur hún verið samþykkt af sóknaraðila eins og henni var lýst. Þann 15. maí 2013 hafi sóknaraðili haldið fund með atkvæðismönnum til atkvæðagreiðslu um nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila. Hafi frumvarpið hlotið samþykki 68,95% atkvæðismanna að fjárhæð en 66,67% að höfðatölu. Sóknaraðili og umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hans hafi talið að 60% samþykki nægði til samþykktar frumvarpinu og taldi það því samþykkt. Varnaraðilar hafi mótmælt þeirri afstöðu sóknaraðila, þar sem fyrir lægi að mögulegar endurheimtur sóknaraðila væru 11,09% til 17,49% miðað við áætlanir félagsins.
Þann 31. maí 2013 hafi Héraðsdómur Reykjaness tekið fyrir kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings. Varnaraðilar, ásamt Ice-Balt Invest ehf., hafi mótmælt staðfestingu nauðasamnings og er ágreiningsmál þetta rekið vegna þess ágreinings á grundvelli 2. mgr. 167. gr., sbr. 3. mgr. 56. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðilar byggja kröfu sína bæði á 57. gr. og 58. gr. gjaldþrotalaga.
Í 57. gr. gþl. séu tæmandi talin upp tilvik sem dómara ber að gæta að sjálfdáðum og leiði til þess að hafna beri kröfu um staðfestingu nauðasamnings. Ákvæðið orðast svo:
„Héraðsdómari skal hafna kröfu skuldarans um staðfestingu nauðasamnings ef:
1. synja hefði átt um heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu skv. 1. mgr. 38. gr. eða hún hefur þegar fallið niður skv. 41. gr.,
2. fyrir liggur að skuldarinn hafi boðið atkvæðismanni ívilnun til að fá ráðið atkvæði hans eða staðið að öðru misferli í því skyni,
3. staðið hefur verið svo ranglega að innköllun eða tilkynningum til lánardrottna, meðferð krafna þeirra, fundi um frumvarp að nauðasamningi eða atkvæðagreiðslu um það að það kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.“
Varnaraðilar telja að á grundvelli 1. og 3. tl. framangreinds ákvæðis 57. gr. beri héraðsdómara að hafna kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings. Telja þeir að við mat á því hvort skilyrði 1. tl. 1. mgr. 57. gr. séu til staðar þurfi að horfa til þess hvort eitthvert skilyrða 38. gr. laganna séu uppfyllt. Varnaraðilar telji að svo sé, enda sé til staðar rökstuddur grunur um að upplýsingar af hendi sóknaraðila séu vísvitandi rangar eða villandi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 38. gr., og að ástæða sé til að draga verulega í efa að sóknaraðili muni efna nauðasamning þann sem krafist er staðfestingar á, sbr. 5. tl. 1. mgr. 38. gr. Hvað varði fyrra atriðið, 3. tl. 1. mgr. 38. gr. gþl., þá telji varnaraðilar að nauðasamningsfrumvarp sóknaraðila sé villandi að því leyti að í því segi að samningskröfuhafar felli niður 55% af samningskröfum sínum. Því sem út af standi, þ.e. 45% samningskrafna, verði hins vegar skilmálabreytt, en skilmálabreytingin feli í sér að umræddum samningskröfum verði breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára. Þá segi: „Hafi breytanlega lánið ekki verið greitt að fullu á gjalddaga mun eftirstöðvum þess vera breytt í hlutafé í Straumborg á gjalddaga“. Varnaraðilar telji að framangreint sé villandi á þann hátt að ætla mætti að við niðurfellingu 55% samningskrafna og umbreytingu þeirra krafna sem eftir standa í vaxtalaust lán, ætti sóknaraðili að vera í stakk búinn til að efna hið skilmálabreytta vaxtalausa lán, eða 45% samningskrafna sinna. Svo sé þó ekki raunin, enda námu samþykktar kröfur við nauðasamningsumleitanir sóknaraðila samtals 38.280.220.406 krónum, meðan eignir sóknaraðila, fáist þær allar innheimtar, nemi 4.294.451.064 krónum, (4.645.221.672, sbr. fylgiskjal við fskj. nr. 27, merkt með fyrirsögninni „Eignir 14.5.2013, að frádregnum 350.770.608 kr. sem er eign varnaraðila Glitnis, verði fallist á kröfu hans). Það athugist að þær tölur er sóknaraðili miði við á fylgiskjali nr. 27 sýna aðrar tölur en þær er sóknaraðili sendi varnaraðila daginn áður, 13. maí 2013. Þannig virðast eignir hafa hækkað sem nemur 41.823.404 krónur á einum degi. Miðað við framangreint geti sóknaraðili því einungis efnt 11,22% (eignir (4.294.451.064 kr.) / skuldum (38.280.220.406 kr.)) krafna sinna, en ekki 45% líkt og ætla megi, miðað við lestur frumvarps að nauðasamningi sóknaraðila.
Varnaraðilar telja að engu skipti að ógreiddum greiðslum breytanlega lánsins verði breytt í hlutafé á gjalddaga, enda einsýnt að það hlutafé sé verðlaust enda engin verðmæti eftir í félaginu og það með neikvætt eigið fé. Þá hafi fyrirsvarsmenn sóknaraðila lýst því yfir að félaginu verði slitið eftir þá umbreytingu.
Hvað varði seinna atriðið, 5. tl. 1. mgr. 38. gr. gþl., þá telji varnaraðilar að ástæða sé til að draga í efa að skuldarinn muni efna nauðasamning sinn. Eins og áður segi þá geri nauðasamningur sóknaraðila ráð fyrir afskrift 55% samningskrafna en umbreytingu 45% samningskrafna í breytanlegt lán. Fyrir liggi, eins og áður segi, að sóknaraðili muni ekki geta efnt það umbreytta lán, enda megi ætla að endurheimtur félagsins nemi að hámarki 11,22%. Raunar hafi fyrirsvarsmenn sóknaraðila sjálfir lýst því yfir fyrir dómnum að þeir muni ekki efna lánið að fullu, sbr. beiðni sóknaraðila til héraðsdóms um heimild til nauðasamningsumleitana, dags. 9. janúar sl. Í þessu sambandi vilji varnaraðilar jafnframt vekja athygli á að samkvæmt ákvæði 7.1 í viðauka við frumvarp til nauðasamnings sóknaraðila, sem séu skilmálar hins breytanlega láns, sé tiltekið að vanefni sóknaraðili skuldbindingar sínar samkvæmt lánasamningnum, teljist það ekki vanefnd nema 65% lánveitenda að fjárhæð og höfðatölu, miðað við staðfestar samningskröfur, samþykki að um vanefnd sé að ræða. Sóknaraðili virðist því gera ráð fyrir að geta vanefnt nauðasamning sinn í óþökk 35% kröfuhafa.
Varnaraðilar telja að héraðsdómara beri að hafna staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila með vísan til 3. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl. þar sem ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um nauðasamning sóknaraðila. Þannig hafi sóknaraðili og umsjónarmaður talið við nauðasamningsumleitanir sóknaraðila að til samþykkis nauðasamnings sóknaraðila þyrfti samþykki 60% samningskröfuhafa að fjárhæð og höfðatölu, sbr. 1. mgr. 49. gr. gþl. Varnaraðilar mótmæli því, enda liggi fyrir að endurheimtur sóknaraðila nema um 11,22% eins og áður hefur komið fram. Í 1. mgr. 49. gr. gþl. komi fram að frumvarp að nauðasamningi teljist samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða, og jafnframt 60 hundraðshluta atkvæða eftir höfðatölu allra atkvæðismanna. Varnaraðilar telja að við þetta mat sé nauðsynlegt að horfa til þess er fram komi í beiðni sóknaraðila um heimild til nauðasamningsumleitana, dags. 9. janúar sl., undir fyrirsögninni „Röksemdir fyrir samþykki fyrirliggjandi frumvarps“, en þar segi: „Nauðasamningsfrumvarpið gerir ráð fyrir því að allar eignir félagsins verði greiddar út til kröfuhafa eins hratt og verða má frá því að nauðasamningur er formlega staðfestur og mun greiðslan nema að lágmarki 14% af samningskröfum. Kröfuhafar munu svo afskrifa kröfur að því marki sem það er unnt, en ef kröfuhafar félagsins færu þá leið að afskrifa kröfur á hendur félaginu í meira mæli á þessum tímapunkti myndi stofnast til skattskuldbindingar hjá félaginu sjálfu sem gerði það að verkum að það væri nauðbeygt að leita gjaldþrotaskipta. Eftirstöðvum samningskrafna, þ.e. 46% samningskrafna, verður skilmálabreytt.“ Af þessu megi sjá að sóknaraðili gerði á þeim tíma einungis ráð fyrir að greiða 14% af samningskröfum sínum. Til að komast hjá skattskuldbindingum sé frumvarpi til nauðasamnings þó þannig stillt upp að 45% samningskrafna sé umbreytt í breytanlegt lán, sem verði svo að þremur árum liðnum umbreytt í verðlaust hlutafé. Þá hafi fyrirsvarsmenn sóknaraðila lýst því yfir að eftir þá umbreytingu í hlutafé verði félaginu slitið. Því liggi fyrir að nauðasamningsfrumvarpið geri ráð fyrir mun frekari afskrift en um þau 55% sem það kveður á um.
Fyrir liggi að endurheimtur í bú sóknaraðila nemi um 11,22% eins og áður hefur komið fram. Miðað við að það séu endurheimtur sóknaraðila telja varnaraðilar að til samþykkis nauðasamningsfrumvarps sóknaraðila hafi því þurft að minnsta kosti samþykki 88,78% atkvæðismanna að fjárhæð og höfðatölu, sbr. 1. mgr. 49. gr. gþl. Miðað við þær forsendur liggi fyrir að frumvarpið hafi ekki hlotið nægjanlegt samþykki, enda hafi það hlotið samþykki 68,95% atkvæðismanna að fjárhæð og 66,67% að höfðatölu í fyrri umferð, sbr. 2. mgr. 52. gr. gþl., en samþykki 96,39% atkvæðismanna að fjárhæð og 87,50% að höfðatölu í seinni umferð, sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl. Það athugist að í bréfi umsjónarmanns til héraðsdóms á dskj. nr. 2 sé ranglega tiltekið að í seinni umferð hafi frumvarpið verið samþykkt með 89% atkvæða. Vísast nánar til framlagðs útreiknings atkvæðagreiðslu á fskj. nr. 31.
Þá segja varnaraðilar að það athugist að áðurnefnd áætlun um endurheimtur sóknaraðila miðist einungis við þau gögn er sóknaraðili hafi látið varnaraðilum í té. Telja varnaraðilar óforsvaranlegt af hálfu sóknaraðila að óska eftir heimild til nauðasamningsumleitana, svo og að krefjast staðfestingar nauðasamnings sem kveði á um tiltekna afskrift krafna, þegar engin áætlun liggi fyrir um endurheimtur í bú sóknaraðila, eins og framkvæmdastjóri sóknaraðila bókaði sérstaklega um á kröfuhafafundi sóknaraðila. Varnaraðilar telji einmitt að aðilum eins og sóknaraðila, sem óski eftir heimild til að leita nauðasamnings, beri að gæta varúðar við ákvörðun endurheimtuhlutfalls og frekar miða við þá verstu niðurstöðu heldur en þá mögulegu bestu.
Til viðbótar við að rangt hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um frumvarp sóknaraðila þá telji varnaraðilar að önnur skilyrði 3. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl. séu jafnframt uppfyllt. Þannig hafi fundur verið haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi þann 15. maí 2013, eða eftir að fjórar vikur höfðu liðið frá lokum kröfulýsingarfrests, sem var þann 3. apríl 2013, sem kveðið er á um í 1. mgr. 48. gr. gþl. Þá liggi fyrir að kröfuskrá hafi ekki verið lögð fram fyrr en á sjálfum kröfuhafafundinum, sem varnaraðilar telji í andstöðu við 4. mgr. 46. gr. gþl., sem kveði á um að kröfuhöfum skuli gefinn kostur á að kynna sér kröfuskrá og kröfulýsingar með hæfilegum fyrirvara áður en fundur verði haldinn. Þá liggi jafnframt fyrir að varnaraðila, Glitni hf., var aldrei send formleg tilkynning um afstöðu umsjónarmanns til kröfu hans líkt og áskilið sé að skuli gerast með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara fyrir kröfuhafafund, sbr. 3. mgr. 46. gr. gþl.
Í samræmi við framangreint hafi ranglega verið staðið að atkvæðagreiðslu nauðasamnings sóknaraðila og að atriðum er varði tilkynningar og upplýsingagjöf til kröfuhafa. Beri héraðsdómara því að hafna kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 3. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl.
Þá byggja varnaraðilar á 58. gr. gþl. en þar sé talið upp í sex liðum atvik sem héraðsdómari geti hafnað kröfu um staðfestingu nauðasamnings á, að því gefnu að einhver sem eigi lögmætra hagsmuna að gæta mótmæli staðfestingu nauðasamningsins. Fyrir liggi að varnaraðilar eigi lögmætra hagsmuna að gæta, enda eigi þeir kröfur á hendur sóknaraðila.
Varnaraðilar telja að héraðsdómara beri að hafna kröfu sóknaraðila um samþykki nauðasamnings á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 58. gr. gþl., enda séu verulegar líkur færðar fyrir því að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Nauðasamningur sé endurskipulagningarráðstöfun sem ætlað sé að koma skikk á fjárhag skuldara, þá með það fyrir augum að viðkomandi félag eða einstaklingur komist hjá gjaldþrotaskiptum. Uppsetning nauðasamnings sóknaraðila sé ekki í samræmi við það markmið, enda tilgangur með nauðasamningi sóknaraðila að færa niður kröfur á hendur félagi sem ætlað er að verði að lokum slitið. Fyrir liggi að jafnvel þótt nauðasamningur sóknaraðila verði samþykktur, þá nemi skuldir hans 17.226.099.183 krónum eða 45% af samþykktum kröfum samkvæmt kröfuskrá sóknaraðila að fjárhæð 38.280.220.406 krónur. Eignir sóknaraðila nemi hins vegar einungis að hámarki 4.294.451.064 krónum, eða 24,9% af skuldum sóknaraðila eftir nauðasamning. Þannig liggi fyrir að sóknaraðili sé bæði ógjaldfær og ógreiðslufær í skilningi gjaldþrotalaga, jafnvel þótt nauðasamningur sóknaraðila verði staðfestur. Nauðasamningur sóknaraðila leiðir því ekki til þess að sóknaraðili verði fær til að greiða skuldir sínar. Þannig geri sóknaraðili sjálfur, eins og áður hafi komið fram, ekki ráð fyrir því að greiðsla nemi lítinn hluta af breytanlega láninu. Af þessu leiði að sóknaraðili mun ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Beri því að hafna staðfestingu hans með vísan til 6. tl. 1. mgr. 58. gr. gþl.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Verði hins vegar fallist á kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings er þess krafist til vara að hver málsaðili verði látinn bera sinn hluta málskostnaðar.
Málsástæður sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að staðfestur verði nauðasamningur hans á grundvelli frumvarps um nauðasamning sem samþykkt var á fundi kröfuhafa sóknaraðila þann 15. maí 2013 og að hafnað verði kröfum varnaraðila. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði in solidum gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu auk álags að mati dómsins.
Sóknaraðili gerir athugasemdir við málsatvikalýsingu varnaraðila og segir að fyrir liggi að allir kröfuhafar með óumdeildar kröfur hafi greitt atkvæði með nauðasamningi sóknaraðila á kröfuhafafundinum sem haldinn var þann 15. maí sl., að undanskildu GLB Holding ehf., sem sé dótturfélag varnaraðila Glitnis hf. í málinu. Sóknaraðili kveðst vísa að meginstefnu til málsatvikalýsingar í greinargerð varnaraðila Glitnis hf., en telur rétt að leiðrétta ákveðnar rangfærslur sem fram kom í málsatvikalýsingu varnaraðila. Bendir sóknaraðili á að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, þar sem upp var kveðinn úrskurður um heimild til að leita nauðasamnings, var kveðinn upp 15. febrúar 2013 en ekki 5. febrúar líkt og fram komi í greinargerð varnaraðila. Þá segir að varnaraðilar byggi vísvitandi á kröfufjárhæðum sem þeir viti að séu of háar enda sé að hluta til um umdeildar kröfur að ræða, þ. á m. kröfu varnaraðila Glitnis sem hafi viðurkennt að lýst krafa sé of há. Af því leiði að útreikningur varnaraðila geti aldrei orðið réttur þar sem hann byggist á rangri forsendu. Í þessu sambandi verði ekki hjá því komist að benda á að fskj. nr. 33, sem útbúið sé af varnaraðila, geti ekki innihaldið rétta útreikninga, auk þess sem þar sé bætt við heimatilbúnum forsendum. Útreikningur varnaraðila á samþykkishlutfalli að meðtöldum ágreiningsatkvæðum sé rangur þar sem útreikningur taki ekki tillit til ágreiningsatkvæðis ALMC, sem greiddi atkvæði með frumvarpi til nauðasamnings.
Þá mótmælir sóknaraðili staðhæfingu varnaraðila um að fyrir hafi legið að mögulegar endurheimtur sóknaraðila væru á bilinu 11,09% til 17,49%. Sóknaraðili verði félag í fullum rekstri með umtalsverðar eignir eftir staðfestingu nauðasamnings og því marklaust að tala um endurheimtur sóknaraðila. Þá sé hvorki rétt að vísa til hans sem „bús“ né að vísa til endurheimtna úr búi. Hins vegar hafi sóknaraðili lagt fram yfirlit yfir eignir og skuldir þegar beiðni um heimild til að leita nauðasamnings hafi verið lögð fram í héraðsdómi líkt og lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) geri ráð fyrir. Tilgangur yfirlits yfir eignir og skuldir sé að veita kröfuhöfum upplýsingar um fjárhagsstöðu skuldara með það fyrir augum að kröfuhafar geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji mæla með, og eftir atvikum, greiða atkvæði með eða á móti endanlegu frumvarpi um nauðasamning skuldara, og eins til þess að sjá hvort tilskilið hlutfall meðmælanda sé fyrir hendi.
Að því marki sem atvikalýsingu er að finna í greinargerð Ice-Balt Invest ehf. sé henni mótmælt sem rangri. Sérstaklega sé mótmælt að atvikalýsing í greinargerð sé að verulegu leyti lýsing á hluta af ágreiningi um ágreiningskröfu Ice-Balt Invest ehf. Sóknaraðili telji ljóst að úr ágreiningsmáli um meinta kröfu varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. verði ekki leyst í þessu máli. Jafnframt sé því sérstaklega mótmælt að greinargerð sé þannig úr garði gerð að nær ómögulegt sé að greina á milli málsástæðna og málsatvika.
Taka verði fram að greinargerð varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. hafi verið komið á framfæri kl. 15.34, daginn fyrir málflutning kl. 10.00 þann 14. júní 2013, við lögmann sóknaraðila sem vitað var að væri erlendis í fríi. Svigrúm sóknaraðila til þess að vinna að vörnum hafi því verið óhóflega knappt og í algeru ósamræmi við tilmæli dómara og yfirlýsingar varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. við fyrirtöku málsins.
Sóknaraðili krefst þess að staðfestur verði nauðasamningur hans á grundvelli samningsfrumvarps, sem samþykkt hafi verið á fundi kröfuhafa þann 15. maí 2013 og hafnað verði kröfum varnaraðila.
Krafa sóknaraðila um að staðfestur verði nauðasamningur hans byggist á því að heimild til nauðasamningsumleitana hafi verið réttilega aflað, sbr. úrskurð um heimild til að leita nauðasamnings upp kveðinn þann 15. febrúar 2013. Þá hafi samningsfrumvarp verið samþykkt með tilskildum meirihluta kröfuhafa á fundi þann 15. maí 2013, sbr. bréf umsjónarmanns með nauðasamningi til héraðsdóms Reykjaness dags. 16. maí 2013. Í bréfinu komi fram að 67% atkvæða eftir höfðatölu og 68,95% atkvæða eftir kröfufjárhæðum hafi verið samþykk frumvarpinu, en að meðtöldum ágreiningsatkvæðum sem féllu til samþykkis frumvarpinu, sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl., hafi samþykkið numið 89% að höfðatölu og 96,5% eftir fjárhæðum og því beri að staðfesta nauðasamninginn. Krafa sóknaraðila um að hafna verði kröfu varnaraðila byggist á eftirfarandi:
Sóknaraðili byggir á því að fara verði að gjaldþrotalögum varðandi gerð og staðfestingu nauðasamnings og að hagfræðilegar vangaveltur varnaraðila um virði eigna sóknaraðila breyti engu þar um. Frumvarp að nauðasamningi sé samningsboð til kröfuhafa í þeim tilgangi að tryggja gjaldfærni skuldarans og forða honum frá gjaldþroti, bæði skuldara og kröfuhöfum til góða. Í tilfelli sóknaraðila sé um að ræða 55% afskriftir krafna og breytt form greiðslu þess sem eftir stendur, þannig að breytanlegt lán verði gert fyrir 45% samningskrafna sem eftir atvikum megi greiða að fullu á gjalddaga með útgáfu hlutafjár. Áður en kröfuhafa gefist tækifæri til þess að greiða atkvæði með eða á móti nauðasamningi skuldara fái kröfuhafar aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, þ.m.t. eigna- og skuldastöðu, með það fyrir augum að kröfuhafi geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort hann taki því samningsboði sem fyrir hann sé lagt, sbr. t.d. 35. og 36. gr. gþl. Vilji kröfuhafi ekki samþykkja það samningsboð, óháð því á hverju sú skoðun hans sé reist, sé kröfuhafa frjálst að greiða atkvæði gegn frumvarpi til nauðasamningsins. Ef nauðasamningur sé samþykktur bindi hann alla kröfuhafa skuldara sem ekki séu undanskildir áhrifum hans, þ.m.t. þá kröfuhafa sem greiða atkvæði gegn samþykki nauðasamnings, líkt og varnaraðilar kusu að gera í máli þessu. Gjaldþrotalögin kveði beinlínis á um að minnihluti kröfuhafa sem hafi greitt atkvæði gegn frumvarpi um nauðasamning verði bundinn við samþykktan samning engu að síður, sbr. X. kafla gþl. Verði kröfur varnaraðila teknar til greina myndi það leiða til þess að 3,47% kröfuhafa, sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl., fengju ráðið hvort nauðasamningur sóknaraðila yrði staðfestur. Heildarmat kröfuhafa á aðstæðum ráði afstöðu þeirra gagnvart frumvarpinu. Það mat geti eðli málsins samkvæmt verið mismunandi, sem leiðir svo til þess að mismunandi atkvæði verði greidd. Gjaldþrotalögin kveði svo á um hvaða atkvæðamagn þurfi til samþykkis samnings, sbr. 49. gr. gþl. Óánægja varnaraðila og eigin hugmyndir um verðmæti eigna og rekstrar breyta ekki skýrum ákvæðum gþl. Því eiga andmæli varnaraðila að því er varði verðmæti eigna sóknaraðila sér enga stoð í lögum.
Varnaraðilar byggi á því að héraðsdómara beri að hafna kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings annars vegar, i) vegna atriða sem dómara beri að meta af sjálfsdáðum, sbr. 57. gr. gþl., og hins vegar, ii) vegna mótmæla varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 58. gr. gþl. Röksemdafærsla varnaraðila lúti þó að meginstefnu til að hugleiðingum þeirra um verðmæti eigna sóknaraðila sem hvorki eigi sér stoð í gþl. né raunveruleikanum og hins vegar að meintum formgöllum sem engin áhrif höfðu á atkvæðagreiðslu. Í fyrsta lagi skuli þess getið að endurheimtur er hugtak sem ekki hafi þýðingu í nauðasamningskafla gjaldþrotalaganna. Hvergi sé gerður áskilnaður um það í gþl. að yfirlit um áætlaðar endurheimtur sé sett fram í nauðasamningsferlinu. Hins vegar sé skuldurum samkvæmt 3. tl. 34. gr. gþl. gert skylt að setja fram nákvæma talningu eigna og skulda í beiðni sinni til þess að leita nauðasamninga, sem miðist þá við þann dag þegar beiðnin er lögð fyrir héraðsdóm. Tilgangurinn með fyrrgreindu yfirliti sé að upplýsa kröfuhafa um fjárhagsstöðu skuldara og þá hvaða eignum hann hafi yfir að ráða, og hvaða skuldbindingar hvíla á honum. Þetta sé gert með það fyrir augum að kröfuhafar geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir vilji greiða atkvæði með eða á móti nauðasamningnum. Í tilfelli sóknaraðila samþykkti tilskilinn meirihluti frumvarpið og því ber að staðfesta það.
Í öðru lagi byggja varnaraðilar á því að héraðsdómara beri að hafna staðfestingu nauðasamningsins þar sem ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um frumvarp sóknaraðila á fundi kröfuhafa, sem haldinn var þann 15. maí sl. Byggja varnaraðilar afstöðu sína á óskilgreindu hugtaki um endurheimtur. Sóknaraðili hafnar málsástæðu varnaraðila, enda sé hún ekki í samræmi við ákvæði 49. gr. gþl., en þar segi: „Frumvarp að nauðasamningi telst samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum á að nema samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60 hundraðshluta þeirra atkvæða, og jafnframt 60 hundraðshluta atkvæða með höfðatölu allra atkvæðismanna. ...“ Samkvæmt skýrum texta lagaákvæðisins teljist frumvarp samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöfin nemur samkvæmt frumvarpinu. Samþykkishlutfall miðað við fjárhæðir miðist eingöngu við efni frumvarps skuldara og þá eftirgjöf sem þar komi fram, en miðist hvorki við huglæga afstöðu einstakra kröfuhafa um meintar endurheimtur, né hugmyndir þeirra um virði eigna skuldara og rekstrar, líkt og varnaraðilar byggja á í greinargerðum sínum. Enga lagastoð sé að finna í gþl. fyrir afstöðu varnaraðila. Ef löggjafinn hefði ætlað verðmæti eigna að ráða samþykkishlutfalli, en ekki efni frumvarps, þá hefði verið kveðið á um það í gþl. Auk þess þyrfti þá að kveða á um verðmatsaðferðir sem skuldari ætti að viðhafa til þess að finna út verðgildi eigna og rekstrar, kveða á um þann tímapunkt sem verðmat miðaðist við og kveða á um hverjir væru ábyrgir fyrir slíku mati. Eflaust þyrfti að kveða á um ýmis önnur atriði, en ekkert slíkt er í gþl. og alveg ljóst að það væri ekki í verkahring varnaraðila ef svo væri.
Með hliðsjón af skýru orðalagi 49. gr. gþl. og líkt og fram komi í bréfi umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum, Jóns Auðuns Jónssonar hrl., dagsettu þann 16. maí 2013, þurfti til samþykktar frumvarpinu atkvæði 60% samningskröfuhafa, bæði að höfðatölu og eftir fjárhæðum. Óumdeilt sé í málinu að yfir 60% atkvæða atkvæðismanna fékkst á kröfuhafafundi þann 15. maí sl., enda greiddu 67% eftir höfðatölu og 68,95% eftir fjárhæðum atkvæði með frumvarpi um nauðasamning. Ef ágreiningsatkvæði séu ekki talin með þá sé samþykkishlutfall 89% eftir höfðatölu og 96,5% eftir fjárhæðum, sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl. Um þetta vísist til bréfs umsjónarmanns frá 16. maí 2013. Rétt sé að taka fram að útreiknuð hlutföll varnaraðila eru röng sökum þess að ekki var tekið tillit til jákvæðs atkvæðis ALMC. Þótt gþl. innihéldu ákvæði í samræmi við hugmyndir varnaraðila, þá hefði nauðasamningur sóknaraðila einnig hlotið samþykki tilskilins meirihluta atkvæðismanna, enda samþykktu atkvæðismenn að fjárhæð 96,5% og að höfðatölu 89% (88,88%) nauðasamninginn. Varnaraðili beiti ákvæði 49. gr. gþl. með röngum hætti í greinargerð sinni og haldi því fram að frumvarpið hefði þurft samþykki 88,78% atkvæðismanna að fjárhæð og höfðatölu. Ákvæði 49. gr. gþl. sé hins vegar skýrt hvað þetta varði, þ.e. að frumvarp teljist samþykkt ef því er greitt sama hlutfall atkvæða eftir fjárhæðum krafna atkvæðismanna og eftirgjöf af samningskröfum nemur samkvæmt frumvarpinu, þó að lágmarki 60%. Samþykkishlutfall miðað við höfðatölu miðist hins vegar alltaf við 60% samþykki atkvæðismanna óháð eftirgjöf, sbr. orðalag 49. gr. gþl., þ.e. „... og jafnframt 60 hundraðshluta atkvæða eftir höfðatölu allra atkvæðismanna. ...“.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að frumvarp til nauðasamnings hafi verið skýrt, og ljóst sé að sóknaraðili verði ávallt í stöðu til þess að efna nauðasamninginn samkvæmt efni sínu. Frumvarp sóknaraðila sé með einföldu sniði og ekki á nokkurn hátt villandi. Samkvæmt frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að kröfuhafar gefi eftir 55% samningskrafna sinna og skilmálabreyti 45% af samningskröfum í vaxtalaust þriggja ára lán með breytirétti í hlutafé að lánstíma loknum. Fullyrðingum varnaraðila um að frumvarpið sé villandi eða óskýrt sé því alfarið hafnað af hálfu sóknaraðila. Ljóst sé að ef sóknaraðili hefur ekki greitt lánið að fullu á gjalddaga, verði það greitt að fullu með breytingu eftirstandandi krafna í hlutafé. Sóknaraðili verði því ávallt í stöðu til þess að efna samningsskuldbindingu sína að fullu. Fullyrðingum varnaraðila Glitnis varðandi verðmæti hlutafjár og fjárhagslega stöðu sóknaraðila á gjalddaga lánsins sé hafnað sem röngum og ósönnuðum, enda sé ógerlegt að segja til um fjárhagslega stöðu sóknaraðila að þremur árum liðnum. Rétt sé að benda á að varnaraðili Ice-Balt Invest ehf. óski sérstaklega eftir breytingum á kröfufjárhæð sökum vænts verðmætis hlutafjár.
Í fjórða lagi byggi varnaraðilar mótmæli sín á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 58. gr. gþl., er kveði á um heimild dómara til þess að synja staðfestingu nauðasamnings ef verulegar líkur séu taldar á því að skuldari muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn hljóti staðfestingu. Þessu sé alfarið hafnað og vísast til ofangreindrar umfjöllunar er varði efni frumvarps sóknaraðila. Varnaraðilar hafi í engu sýnt fram á hvernig nokkrar líkur geti verið á því að sóknaraðili vanefni nauðasamninginn. Beinlínis sé kveðið á um það í skilmálum breytanlega lánsins að eftirstöðvar þess, ef einhverjar verða, verði greiddar með hlutafé í félaginu. Því síður hafi verið sýnt fram á að verulegar líkur séu á því að sóknaraðili vanefni nauðasamninginn, eins og áskilið sé í áðurnefndu lagaákvæði, en sönnunarbyrðin hvílir að fullu á varnaraðila, sbr. Hrd. 241/1995.
Sóknaraðili byggir á því að ef ágallar hafi verið á málsmeðferð þá valdi það ekki því að kröfu um staðfestingu nauðasamnings verði synjað, nema því aðeins að svo ranglega hafi verið staðið að málum að það kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, sbr. skýrt orðalag 3. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl. Sóknaraðili hafni fullyrðingum varnaraðila að því er varði ágalla á atkvæðagreiðslu, tímasetningu fundar, framlagningu kröfuskrár og tilkynningu um afstöðu umsjónarmanns á þeim grundvelli að þær skorti lagastoð. Þá hafi nefnd atriði engin áhrif haft á niðurstöðu atkvæðagreiðslu, hvað þá að þau hafi skipt sköpum. Ljóst sé að kröfuhafafundur var haldinn utan fjögurra vikna frests frá lokum kröfulýsingarfrests. Ástæður þess voru að unnið var að gerð nauðasamningsins kröfuhöfum til hagsbóta og í samráði við þá. Auk þess hafi þurft að leita samþykkis Seðlabanka Íslands fyrir gerð nauðasamningsins og fékkst það einum degi fyrir kröfuhafafund sem haldinn var þann 15. maí sl. Fundartími hafði engin áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslu, enda sé því ekki einu sinni haldið fram af varnaraðilum. Einnig bendir sóknaraðili sérstaklega á að kröfuhafar, þ.m.t. varnaraðilar, hafi engum mótmælum hreyft við fundartíma kröfuhafafundarins áður en þeir gengu til atkvæðagreiðslu um frumvarpið.
Að því er varði ágalla á atkvæðagreiðslu, framlagningu kröfuskrár og tilkynningu um afstöðu umsjónarmanns þá hafi umkvartanir varnaraðila ekki lagastoð. Varðandi ágalla, þá vísist til umfjöllunar að ofan. Varðandi framlagningu kröfuskrár, þá bendir sóknaraðili á að 4. mgr. 46. gr. gþl. kveði á um að skuldara skuli gefinn kostur á að kynna sér kröfulýsingar og kröfuskrá með hæfilegum fyrirvara, en ekki kröfuhöfum líkt og varnaraðilar haldi fram, en samkvæmt 4. tl. 2. mgr. 48. gr. gþl. skuli kynna kröfuskrá á kröfuhafafundi eins og réttilega hafi verið gert. Varðandi tilkynningu um afstöðu umsjónarmanns, þá hafi verið í tilfelli varnaraðila um að ræða samningskröfu lýsta af atkvæðismanni og því ætti 3. mgr. 46. gr. ekki við.
Sóknaraðili mótmælir vísan varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. til 1. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl., sbr. 3. tl. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Sóknaraðili byggir á því að krafa varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. geti ekki verið tekin til greina nema að rökstuddur grunur hafi verið í upphafi um að upplýsingar sóknaraðila hafi verið vísvitandi rangar eða villandi. Sóknaraðili mótmæli því að þær upplýsingar sem veittar voru hafi verið rangar eða villandi. Þá liggi fyrir að dómskipaður var umsjónarmaður með nauðasamningi sóknaraðila, en engar athugasemdir hafi verið gerðar við hans störf. Í bréfi umsjónarmanns til héraðsdóms Reykjaness þann 16. maí 2013 segir orðrétt: „Afhent voru ítarleg gögn um félagið og umsjónarmanni veittur aðgangur að öllum þeim upplýsingum sem honum var þörf á til að framkvæma þær athuganir sem honum er uppá lagt að framkvæma í 43. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ekkert kom fram við þá skoðun sem gaf til kynna að þær upplýsingar sem veittar voru héraðsdómi samhliða beiðni um heimild til að leita nauðasamninga væru ekki réttar og fullnægjandi.“ Sóknaraðili hafi veitt héraðsdómi gögn í samræmi við lög og bestu vitund. Þetta hafi dómskipaður umsjónarmaður staðfest og byggi sóknaraðili á því að varnaraðili Ice-Balt Invest ehf. beri alla sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum um annað. Sé þeim öllum mótmælt sem röngum og ósönnuðum, en til glöggvunar sé vikið að hverri og einni fullyrðingu:
- „Það liggur fyrir að krafa IB er ágreiningskrafa og ekki dregur úr ágreiningi að IB hafi talið sig hafa breytt eðli kröfunnar í skaðabótakröfu. Þá var krafan tilgreind sem ágreiningskrafa í kröfuskrá sem send var héraðsdómi með beiðni um nauðasamnings-umleitanir. Efnisleg deila um réttmæti ágreiningskröfu verður hvorki rakin né leidd til lykta í máli þessu. Þá er vakin athygli á því að meint krafa IB er samkvæmt þeirra fullyrðingu frá miðju ári 2009, en þó hefur ekki verið farið fram á aðför þrátt fyrir órökstuddar fullyrðingar um aðfararhæfi í greinargerð.
- Fullyrðingu um að ársreikningur sé rangur er mótmælt sem rangri og ósannaðri.
- Fullyrðing um að rangt sé að gerður hafi verið kyrrstöðusamningur við lánardrottna er alröng. Það liggur fyrir að slíkur samningur var gerður, en breytir ekki þeirri staðreynd að ágreiningur er um kröfu IB sem ekkert samkomulag hefur náðst um.
- Fullyrðing um að sóknaraðila hafi verið skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta er alröng, enda hefur sóknaraðili alla tíð verið í góðu sambandi við kröfuhafa og lagt sig fram um að semja við þá um það sem útistandandi er hverju sinni.
- Áskorun varnaraðila um afhendingu kyrrstöðusamnings til úrlausnar kröfu sinnar hefur ekkert með mál þetta að gera og þ.a.l. mun sóknaraðili ekki leggja fram þann samning.
- Vangaveltur IB um mögulegar riftanlegar ráðstafanir er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Hins vegar tryggir 32. gr. gþl. rétt til riftunar ef svo ber undir.
- Fullyrðing um að nauðasamningur skili ekki vænlegustu útkomu er röng og í ósamræmi við skoðun sóknaraðila og yfirgnæfandi meirihluta kröfuhafa. Það er svo undir IB komið hvernig það heldur meintri kröfu sinni til haga gagnvart sóknaraðila og mun staða þeirra ráðast af niðurstöðu hugsanlegs dómsmáls. Greiðslugeta sóknaraðila nægir til þess að mæta mögulegum kröfum varnaraðila IB.
- Ekki verður séð að vangaveltur IB um riftunarkröfur sínar hafi nokkuð með skilyrði 1. mgr. 38. gr. gþl. að gera. Sama gildir um vangaveltur IB um eignir sóknaraðila.“
Vísan Ice-Balt Invest ehf. til 2. mgr. 35. gr. gþl.: Fullyrðingu Ice-Balt Invest ehf. um að upplýsingaskyldu hafi ekki verið sinnt sé mótmælt sem rangri. Það liggi fyrir að ársreikningur sóknaraðila fyrir árið 2011 var lagður fram með beiðni um heimild til að leita nauðasamninga. Ársreikningurinn innihélt fjárhagsupplýsingar sóknaraðila fyrir árin 2010 og 2011.
Málsástæðum Ice-Balt Invest ehf. um efndir nauðasamningsins sé mótmælt þar sem þær séu án lagastoðar og í ósamræmi við gerðan samning, sbr. umfjöllun að ofan.
Vísan Ice-Balt Invest ehf. til 2. tl. 1. mgr. 57. gr. og 3. tl. 58. gr. gþl. sé mótmælt. Gjaldþrotalögin hafi að geyma sérstök ákvæði sem fjalli um meðferð ágreiningskrafna. Gert sé ráð fyrir því að slíkar kröfur geti verið fyrir hendi auk þess sem sérstök ákvæði fjalli um jafnræði kröfuhafa. Viðkomandi ákvæði tryggi rétt aðila eins og Ice-Balt Invest ehf. og geti málsástæða þess ekki verið rétt nema skuldarar væru neyddir til þess að greiða aðilum fyrir það eitt að segjast eiga þá kröfur. Eðli málsins samkvæmt geti málsástæða Ice-Balt Invest ehf. ekki staðist. Þá verði að hafa í huga að aðili sem sé með ágreiningskröfu er ekki í sambærilegri stöðu og aðili sem eigi óumdeilda kröfu og eigi því ekki rétt til sömu meðferðar.
Varðandi málsástæðu Ice-Balt Invest ehf. og vísan til 3. tl. 1. mgr. 57. gr. gþl. um samþykkishlutfall, vísist til umfjöllunar að ofan. Varðandi málsástæður um fundartíma, framlagningu kröfuskrár og tilkynningu um afstöðu umsjónarmanns vísast til umfjöllunar að ofan.
Sóknaraðili mótmælir vísan Ice-Balt Invest ehf. til 2. tl. 1. mgr. 58. gþl. Ítrekað sé að krafa Ice-Balt Invest ehf. sé ágreiningskrafa og óvíst um greiðsluskyldu yfir höfuð. Það eitt að skuldari greiði ekki til aðila sem telji sig eiga kröfu, á meðan greitt er til þeirra sem eigi óumdeildar kröfur, verði ekki til þess að litið verði svo á að skuldari sé að rýra fjárhagsstöðu sína af ásetningi. Enda geri lögin beinlínis ráð fyrir því að greiðslur séu ekki inntar af hendi til ágreiningskröfuhafa fyrr en leyst hafi verið úr ágreiningnum. Þá sé eftir atvikum gert ráð fyrir því að skuldari haldi til hliðar fjárhæðum til að mæta slíkum ágreiningskröfum, sem sóknaraðili muni gera eftir staðfestingu nauðasamningsins. Ef fullyrðing Ice-Balt Invest ehf. um aðfararhæfi kröfu sinnar eigi við rök að styðjast þá hefði það verið hægur leikur fyrir Ice-Balt Invest ehf. að knýja á um greiðslu slíkrar kröfu hvenær sem er frá miðju ári 2009. Enda á sóknaraðili, líkt og áður hefur komið fram, nægar eignir til þess að mæta meintri kröfu.
Varðandi málsástæðu Ice-Balt Invest ehf. og vísan til 6. tl. 1. mgr. 58. gr. gþl. um að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur, vísast til umfjöllunar að ofan.
Varakrafa Ice-Balt Invest ehf.: Sóknaraðili bendir á að þegar fyrir liggi hvort, og þá að hvaða fjárhæð, krafa Ice-Balt Invest ehf. sé fyrir hendi muni hún falla undir lánssamninginn sem óumdeild krafa í samræmi við gþl. Þá árétti sóknaraðili að samkvæmt skilmálum lánasamningsins verði haldið eftir fjárhæðum til þess að mæta umdeildum kröfum.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðilar hafi haft uppi kröfur, staðhæfingar og mótbárur sem þeir vissu eða máttu vita að væru rangar eða haldlausar og er því krafist álags á málskostnað að mati dómsins. Vísast um þetta til ofangreindrar umfjöllunar um rangar staðhæfingar og lagaskýringar. Sóknaraðili vísar til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þá er jafnframt vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. XXI. kafla laganna.
Forsendur og niðurstöður:
Verða málsástæður varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. fyrst raktar hér. Varnaraðili byggir á því að dómara hafi, með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991, borið að hafna beiðni sóknaraðila um heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína í öndverðu og því beri að hafna kröfu varnaraðila um að frumvarp að nauðasamningi verið staðfest nú.
Sóknaraðili sótti um heimild til þess að leita nauðasamninga við lánardrottna sína þann 9. janúar sl. Lagði sóknaraðili þá fram þau gögn sem áskilið er í 7. gr. laganna. Var ársreikningur fyrir rekstrarárið 2011 lagður fram og skattframtal en í ársreikningnum komu fram rekstrar- og eignatölur fyrir árið 2010. Þá lagði sóknaraðili fram staðfest endurrit frá ríkisskattstjóra, móttekið 4. febrúar sl., fyrir árið 2011. Gerði dómarinn ekki athugasemdir við framlagningu þessara gagna og krafði ekki um ársreikninga áranna þar á undan. Verður þessari málsástæðu varnaraðila hafnað.
Telur varnaraðili að sóknaraðili hafi gefið dómnum villandi upplýsingar um kröfu sína á hendur félaginu en í beiðni sóknaraðila hafi dómurinn ekki verið upplýstur um að sóknaraðili stæði í skuld við varnaraðila og að hann hefði ekki greitt inn á þá skuld til samræmis við greiðslur til annarra lánardrottna sinna eða haldið eftir hlutfallslegri greiðslu á sérgreindum reikningi til að mæta skuldbindingum sínum við varnaraðila.
Í lista sem fylgdi beiðni sóknaraðila til dómsins var yfirlit eigna og skulda þann 9. janúar 2013. Voru eignir upptaldar eftir greiðslu veðsettra eigna samtals 4.891.677.957 krónur, skuldir eftir greiðslu veðsettra eigna samtals 25.481.186.757 krónur og óvissar og ágreiningskröfur samtals 11.5186.847.804 krónur. Þar á meðal var krafa varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. tilgreind 3.103.400.997. Telur dómurinn að krafa varnaraðila hafi verið nægjanlega tilgreind til að fullnægja skilyrðum 2. mgr. 7. gr. laganna. Þá liggur fyrir að um ágreiningskröfu er að ræða og er sá ágreiningur ekki til úrlausnar í þessu máli, né ágreiningur um heimild til fullnustu þeirrar kröfu. Að auki hafði það ekki áhrif á úrlausn málsins þótt fram hafi komið í ársreikningi sóknaraðila að hann hafi greitt til tveggja kröfuhafa 19.000.000 evra í febrúar og ágúst 2012. Er það hlutverk umsjónarmanns með nauðasamningi að kanna í bókhaldi félagsins hvort kröfuhöfum sé eða hafi verið mismunað. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili segir sóknaraðila fullyrða í ársreikningi sínum fyrir árið 2011 að gerðardómur í máli aðila kvæði á um að leysa ætti úr varnarmálsástæðum sóknaraðila við fullnustu dómsins. Þetta sé rangt enda ekki orð um það í dómsorði gerðardómsins. Dómkrafan standi því óhögguð enda hafi sóknaraðili ekki freistað þess að fá dóm gerðardóms ógiltan eftir reglum 12. gr. laga nr. 53/1989. Í ársreikningi félagsins segir um ofangreinda kröfu: „Félagið á í deilu varðandi söluréttarsamning við Ice-Balt Invest ehf. (IBI). Úrskurður íslensks gerðardóms frá 10. júlí 2009, sem leysti að hluta úr deilu milli félagsins og IBI varðandi söluréttarsamning í tengslum við hluti í Norvik Banka í Lettlandi, liggur fyrir. Samkvæmt úrskurðinum skal félagið greiða IBI 9.545.955 LVL. Þá skal félagið greiða 8,75% ársvexti á áðurnefnda upphæð frá og með 25. júlí 2009. Að mati félagsins má færa gild rök gegn fullnustu dómsins. Íslenski gerðardómurinn úrskurðaði að fjallað skuli um hluta varnar Straumborgar í tengslum við hugsanlega fullnustu dómsins og komst ekki að niðurstöðu um þær. Að mati félagsins ber að túlka úrskurðinn þannig að félagið ætti ekki að þurfa að greiða vexti af fjárhæðinni sem IBI var úrskurðuð meðan hindranir eru í vegi sölunnar. Hlutur félagsins í JSC Norvik Banka er metinn á 0,32 af eigin fé. Ef þessi skuld og tilheyrandi hlutir í JSC Norvik Banka hefðu verið bókfærð, þá hefði eigið fé félagsins í árslok 2011 verið lægra um 1.889 kr. og skuldir þess hærri um 2.168 kr.“
Í beiðni sóknaraðila þann 9. janúar sl. segir í skýringum á fyrirliggjandi frumvarpi að þess beri að geta að tilteknar kröfur hafi verið gerðar á hendur félaginu sem félagið hafi ekki samþykkt, en þar sé einkum um að ræða kröfur Glitnis banka hf., Ice-Balt Invest ehf. og SPF hf. Þá sé einnig hugsanlegt, þótt það sé ólíklegt, að aðrar kröfur komi fram frá Raiffeisen International og ALMC hf., en þær kröfur myndist við ákveðin skilyrði. Líklegt þyki að niðurstaða varðandi slíkar kröfur verði ekki fengin nema með atbeina dómstóla. Félagið muni því halda eftir eignum til þess að mæta umdeildum og skilyrtum samningskröfum, en komi síðar í ljós að félagið eigi fjármuni umfram það sem nauðsynlegt sé til að þess að mæta slíkum kröfum, muni félagið greiða það sem umfram sé hlutfallslega til samningskröfuhafa.
Það er ekki hlutverk dómsins við skoðun á því hvort sóknaraðili fullnægi skilyrðum laga um heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína, að túlka niðurstöður hliðsetts dómstóls eða leysa úr ágreiningi um túlkun á dóms- eða úrskurðarorði. Krafa varnaraðila var tilgreind sem ágreiningskrafa í beiðni skuldara og gaf sóknaraðili nægjanlega skýringu á því hvernig verði farið með hana, verði frumvarp að nauðasamningi staðfest. Verður þessum málsástæðum varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi gert svokallaðan kyrrstöðusamning við lánardrottna sína þann 9. apríl 2010 og byggir á því að varnaraðila hafi aldrei verið boðið að gerast aðili að honum. Þá sé krafa varnaraðila löngu gjaldfallin og hafi sóknaraðili ekki getað greitt kröfuna á gjalddaga og því borið að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta skv. ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Telur varnaraðili að ekki verði leyst úr kröfu sóknaraðila nema kyrrstöðusamningurinn verði lagður fyrir dóminn.
Í ársreikningi sóknaraðila er tekið fram að samkomulag hafi verið gert við hluthafa og lánardrottna og í því falist að allir lánadrottnar hafi samþykkt að greiða 3,85% álagsvexti frá 2 janúar 2009 til janúar 2013. Telur dómurinn að hafi slíkur samningur verið gerður, þá sé hann hluti af eðli rekstrarstöðu sóknaraðila á hverjum tíma og ekkert sem gefi dóminum ástæðu til að draga þær upplýsingar í efa né að álykta svo að verið væri að mismuna lánardrottnum. Þá breytir sá samningur engu um réttarstöðu varnaraðila og úrræði hans til að fá fullnustu samkvæmt dómi gerðardóms. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili byggir á því að með greiðslur til lánardrottna, 19.000.000 evra, hafi lánardrottnum verið gróflega mismunað.
Í ársreikningi sóknaraðila kemur fram að hann hafi greitt ofangreinda fjárhæð til tveggja lánardrottna í febrúar og ágúst 2012. Sé um riftanlega ráðstöfun að ræða þá hefur skiptastjóri þrotabús heimildir samkvæmt 32. gr. laga nr. 21/1991 til að krefjast riftunar slíkra greiðslna svo og skuldarinn sjálfur. Er þessi regla sett þrotabúinu eða skuldaranum til hagsbóta og þá til að gætt sé jafnræðis milli lánardrottna. Verður ekki séð, þrátt fyrir þessar upplýsingar sóknaraðila, að það hafi átt að synja beiðni hans um heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili segir fullyrðingu sóknaraðila, um að nauðasamningur skili vænlegustu útkomunni fyrir alla kröfuhafa félagsins, ranga. Varnaraðili muni bera mjög skarðan hlut frá borði ef frumvarp að nauðasamningi verði staðfest þar sem nauðasamningurinn geri einungis ráð fyrir því að varnaraðili fái greiðslu af fjármunum sóknaraðila eins og þeir séu nú í réttu hlutfalli við kröfur annarra lánardrottna eins og þær séu nú, eftir að sóknaraðili hafi selt flestar eignir sínar og greitt andvirði til annarra lánardrottna.
Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að kröfuhöfum verði mismunað komist nauðasamningur á milli sóknaraðila og lánardrottna hans. Fari sóknaraðili ekki eftir því frumvarpi sem lagt hefur verið fram, ef staðfest verður, hafa lánardrottnar úrræði til að fá nauðasamningnum rift. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.
Varnaraðili segir sóknaraðila fullyrða í beiðni sinni að engar ráðstafanir hafi átt sér stað sem hugsanlegt sé að rifta skv. 33. gr., sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ekki haft tök á að kanna réttmæti þessarar fullyrðingar en vilji sérstaklega benda á að við gjaldþrotaskipti gæti hann krafist riftunar á greiðslum til annarra kröfuhafa, a.m.k. að því marki að jafnræðis yrði gætt. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili telji fram í ársreikningi sínum hlutabréfakaup og launagreiðslur.
Ofangreindar varnir varnaraðila er ekki að finna í 38. gr. né 57. gr. laga nr. 21/1991. Verður því að hafna þeim.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili telji fram í beiðni til dómsins eignir að fjárhæð 4.891.677.957 krónur en samkvæmt eignalista 14. maí 2013 hafi eignir aftur á móti verið taldar upp að verðmæti 4.645.221.672 krónur. Mismunurinn hafi ekki verið skýrður. Þá telji sóknaraðili fram 350.770.608 krónur á „escrow“ reikningi hjá Glitni banka hf., en þeir fjármunir séu eyrnamerktir bankanum vegna málaferla þeirra.
Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991 er tekið fram að skuldari skuli sundurliða eignir og skuldir sínar. Það gerði sóknaraðili. Uppfyllti hann að þessu leyti skilyrði fyrir því að fá heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína. Þó svo að eignir skuldara séu minni en skuldir, veldur það því ekki að synja beri um heimild til nauðasamningsumleitana. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili telur að hafna hefði átt beiðni sóknaraðila í öndverðu þar sem hann lagði ekki fram ársreikninga sína fyrir árin 2009 og 2010, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili lagði fram ársreikning fyrir rekstrarárið 2011 staðfest af ríkisskattstjóra. Framtalsskil voru ekki komin fyrir rekstrarárið 2012, er sóknaraðili lagði fram beiðni sína til dómsins 9. janúar 2013. Þá er ársreikningur sóknaraðila áritaður af endurskoðendum félagsins. Uppfyllt sóknaraðili því 3. tl. 1. mgr. 35. gr. laganna. Þá er ekki áskilið í 2. mgr. að leggja skuli fram þrjú undanfarin ár, eins og varnaraðili telur, þó svo að talað sé um „síðustu ársreikninga“ en atvik geta verið þau að félag sé ekki nema tveggja ára og liggur þá í hlutarins eðli að ekki er til nema einn ársreikningur. Í framlögðum ársreikningi fyrir rekstrarárið 2011 eru rekstrartölur ársins 2010 og telur dómurinn skilyrði 3. tl. 1. mgr. 35. gr. laganna uppfyllt. Þá liggur fyrir yfirlýsing endurskoðanda félagsins, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Verður því að hafna þessari málsástæður varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að frumvarp sóknaraðila sé villandi og gefi rangar upplýsingar um eigna- og skuldastöðu sóknaraðila og að fyrir liggi að sóknaraðili muni ekki geta efnt frumvarpið. Þá muni breyting á kröfum í hlutafé, verði 45% af kröfum ekki greiddar, ganga í berhögg við 35% kröfuhafa.
Verði frumvarp að nauðasamningi staðfest, liggur það í hlutarins eðli að þeir kröfuhafar sem ekki hafa veitt frumvarpinu samþykki sitt, verða að lúta vilja tilskilins fjölda lánardrottna er ljá frumvarpinu samþykki sitt, sbr. 2. tl. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991. Að mati dómsins er frumvarpið skýrt og tilgreint hvernig verði staðið við það. Er það hluti af efndum frumvarpsins, komi til þess að breyta breytanlegu láni í hlutafé. Verður ekki tekið undir þessa málsástæðu varnaraðila.
Varnaraðili vísar til 2. tl. 1. mgr. 57. gr. og 3. tl. 58. gr. laga nr. 21/1991 og telur að með því að sóknaraðili hafi greitt lánardrottnum í febrúar og ágúst 2012 19.000.000 evra, hafi hann mismunað kröfuhöfum. Vísar hann til þess að eignastaða sóknaraðila hafi minnkað miðað við framlagða eignalista og að fjárhæðir hafi verið lagðar til hliðar inn á reikning hjá Glitni banka hf. sem hafi verið aðili að kyrrstöðusamningi sóknaraðila við lánardrottna sína.
Dómurinn telur að, þrátt fyrir þá staðreynd að sóknaraðili hafi greitt á árinu 2012 til lánardrottna fjárhæðir sem hann telur fram í ársreikningi sínum og lagt til hliðar fjárhæðir á bankareikning, hafi ekki verið sýnt fram á að þær greiðslur falli undir ívilnun í skilningi 2. tl. 1. mgr. 57. gr. né 3. tl. 58. gr. laganna. Verður þeirri málsástæðu því hafnað.
Varnaraðili byggir á því að með því að breyta 45% krafna í breytanlegt lán, sem síðar verði heimilt að breyta í hlutafé í félaginu, felist í raun 88,8% niðurfelling skulda og því hafi tilskilið hlutfall kröfuhafa ekki náðst við greiðslu atkvæða með frumvarpinu á fundi 15. maí sl. Hafi frumvarpið því í raun verið fellt.
Í skrá um lýstar kröfur atkvæðismanna kemur fram að 67% atkvæðismanna hafi greitt frumvarpinu samþykki sitt að höfðatölu og 68,95% að fjárhæðum. Að slepptum ágreiningskröfum veittu 89% atkvæðismanna samþykki sitt að höfðatölu og 96,53% að fjárhæðum. Í 2. mgr. 52. gr. laganna segir að við talningu atkvæða skuli fyrst litið til þess hvort önnur atkvæði en ágreiningsatkvæði skv. 3. mgr. 50. gr. nægi ein til úrslita þótt öll ágreiningsatkvæðin yrðu talin með. Ef svo er ráðast úrslit atkvæðagreiðslu án frekari aðgerða. Við talningu atkvæða, þar með ágreiningsatkvæða, hlaut frumvarpið samþykki tilskilins fjölda að höfðatölu og fjárhæðum, miðað við þá niðurfellingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir að frumvarpið verði túlkað með þeim hætti er varnaraðili gerir, að breyting breytanlega lánsins í hlutafé teljist niðurfelling skulda, náðist 89% samþykki lánardrottna að höfðatölu og 96,53% af fjárhæðum. Hlaut frumvarpið samkvæmt þessu nægjanlegan fjölda samþykktra atkvæða á hvorn veginn sem litið er á efndir frumvarpsins. Þá þarf ekki nema 60% samþykki að höfðatölu skv. 49. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 95/2010. Sá fjöldi veitti frumvarpinu samþykki sitt. Mat varnaraðila á eignum sóknaraðila skiptir engu við mat á því hvort skilyrði laga séu uppfyllt, þegar krafa um heimild til nauðasamningsumleitana er veitt eða krafa um staðfestingu frumvarps kemur fram. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili byggir á því að fundur til að greiða atkvæði um frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi þann 15. maí sl. hafi verið haldinn of seint, en fjórar vikur voru þá löngu liðnar frá lokum kröfulýsingarfrests, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi kröfuskrá ekki verið lög fram fyrr en á sjálfum kröfuhafafundinum sem sé í andstöðu við 4. mgr. 46. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi varnaraðila aldrei verið send formleg tilkynning um afstöðu umsjónarmanns til kröfu varnaraðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna.
Í 1. mgr. 48. gr. laganna segir að fund skuli halda til að greiða atkvæði um frumvarp skuldarans að nauðasamningi innan fjögurra vikna frá því kröfulýsingarfresti er lokið. Fundur var þó ekki haldinn fyrr en um sex vikum eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Í 3. tl. 57. gr. laganna segir að héraðsdómari skuli hafna kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings hafi verð staðið svo ranglega að innköllun eða tilkynningu til lánardrottna, meðferð krafna þeirra, fundi um frumvarp að nauðasamningi eða atkvæðagreiðslu um það að það kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Þrátt fyrir að tímafresti skv. 1. mgr. 48. gr. hafi ekki verið fylgt, verður ekki séð af gögnum málsins að það hafi skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Þá gaf umsjónarmaður þá skýringu að þörf hafi verið á lengri fresti vegna kröfuhafa erlendis svo og að svar við erindi til Seðlabanka Íslands hafi þurft að liggja fyrir. Þá skal skuldaranum gefinn kostur á að kynna sér skrár skv. 1. og 2. mgr., kröfulýsingar og fylgigögn með þeim með hæfilegum fyrirvara áður en fundur verður haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp hans. Verður þessum málsástæðum varnaraðila því hafnað.
Varðandi 3. mgr. 46. gr. laganna þá var krafa varnaraðila talin til samningskrafna við atkvæðagreiðslu og átti 3. mgr. 46. gr. laganna því ekki við varðandi þetta. Þó svo hafi verið er ekki um slíkan formgalla að ræða að synja beri staðfestingu nauðasamnings. Þó svo að 3. mgr. hafi átt við verður ekki séð að það hafi valdið varnaraðila réttarspjöllum. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðili byggir á að 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna eigi við í málinu og að sóknaraðili hafi, frá því hann var dæmdur til að greiða varnaraðila kröfu með gjalddaga 25. júlí 2009, greitt örðum lánardrottnum verulegar fjárhæðir og með því rýrt þannig fjárhagsstöðu sína af ásetningi varnaraðila til tjóns.
Krafa varnaraðila er ágreiningskrafa og lýsti varnaraðili því fyrir dóminum að hann hafi ekki gert reka að því að innheimta kröfuna. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fjármunum verði haldið til hliðar til að mæta slíkum kröfum, verði úr þeim leyst. Engin gögn né viðhlítandi rök hafa verið færð fyrir þessari málsástæðu varnaraðila og ber að hafna henni.
Varnaraðili telur, með vísan til 6. tl. 58. gr. laganna og allra atriða sem rakin eru í málatilbúnaði hans, verulegar líkur færðar fyrir því að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur.
Dómurinn tekur ekki undir þessa málsástæðu varnaraðila og öllu frekar telur dómurinn skýrt í frumvarpinu hvernig skuli staðið að efndum. Verður ekki annað séð en félaginu verði það kleift. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.
Varakrafa varnaraðila.
Varnaraðili gerir þá varakröfu að viðauka I við viðauka I verði breytt í þá veru að í stað þess að þar sé krafan tilgreind að fjárhæð 1.432.113.222 krónur, skuli hún tilgreind að fjárhæð 1.676.400.899 krónur.
Ekki eru lagaskilyrði til að dómurinn taki afstöðu til þessarar kröfu. Ber því að hafna henni.
Varnaraðilar, Glitnir hf. og BLB Holding ehf., byggja kröfu sína á 1. tl 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. og 5. tl. 38. gr., laga nr. 21/1991 og telja að frumvarp sóknaraðila sé villandi á þann hátt að ætla mætti að við niðurfellingu 55% samningskrafna og umbreytingu þeirra krafna sem eftir standi í vaxtalaust lán, ætti sóknaraðili að vera í stakk búinn að efna hið skilmálabreyta vaxtalausa lán, eða 45% samningskrafna sinna. Vísa varnaraðilar til skulda- og eignastöðu sóknaraðila og samkvæmt henni sé fyrirséð að sóknaraðili geti því einungis efnt 11,22% krafna sinna.
Ekki eru skilyrði í lögum nr. 21/1991 um að eignastaða skuldara sé í sama hlutfalli og þær greiðslur sem boðnar eru í frumvarpi skuldara. Þá hafa varnaraðilar ekki sýnt fram á að hlutir í sóknaraðila verði verðlausir að samningstímanum loknum. Verður því að hafna þessari málsástæðu varnaraðila.
Varnaraðilar byggja á því að ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um frumvarp sóknaraðila og að sóknaraðili hafi haldið því fram að einungis 60% atkvæðismanna að höfðatölu þurfi til að frumvarp verði samþykkt að öðrum skilyrðum uppfylltum og vísa til 3. tl. 1. mgr. 57. gr. laganna.
Í 49. gr. laga nr. 21/1991, sem breytt var með 12. gr. laga nr. 95/2010, var hlutfalli að höfðatölu í ákvæðinu breytt þannig að ávallt væri 60% hlutfall að höfðatölu nægjanlegt, þó aldrei minna, hvert sem hlutfall niðurfellinga skulda er. Er því hlutfall atkvæðismanna sem samþykktu frumvarpið nægjanlegt og verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað. Breytir þar engu þó svo varnaraðilar telji að endurheimtuhlutfall krafna verði minna en tilgreint sé í frumvarpinu.
Varnaraðilar byggja á því að fundur um frumvarpið hafi verið haldinn of seint. Vísast um það til rökstuðnings hér að ofan varðandi varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. Af sömu ástæðu er þessari málsástæðu varnaraðila hafnað.
Varnaraðilar byggja einnig á því að skilyrði 4. mgr. 46. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt né 3. mgr. 46. gr.
Vísast um þetta til fyrri rökstuðnings að ofan varðandi varnaraðila Ice-Balt Invest ehf. Af sömu ástæðu er þessari málsástæðu varnaraðila hafnað.
Varnaraðilar byggja á 6. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna þar sem verulegar líkur hafi verið færðar fyrir því að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Því til sönnunar benda þeir á að þó svo að nauðasamningurinn verði staðfestur þá nemi skuldir sóknaraðila 17.226.099.183 krónum en eignir skuldara séu einungis að hámarki 4.294.451.064 krónur eða 24,9% af skuldum sóknaraðila eftir nauðasamning. Þannig liggi fyrir að sóknaraðili sé bæði ógjaldfær og ógreiðslufær í skilningi gjaldþrotalaga, jafnvel þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Af þessu leiði að sóknaraðili muni ekki standa í skilum þótt nauðasamningurinn verði staðfestur. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Í frumvarpi sóknaraðila sem lagt var fyrir dóminn er tilgreint að allar eigur félagsins verið boðnar til uppgjörs krafna þeirra eins og þær standa þegar heimild var veitt til að leita nauðasamnings samkvæmt frumvarpinu að frádregnum kostnaði við undirbúning, nauðasamningsumleitanir og uppgjör nauðasamnings sem og umsýslukostnað. Greiðsla muni fara þannig fram að 45% samningskrafna verði skilmálabreytt og taki skilmálabreytingin gildi þegar nauðasamningur hefur verið endanlega staðfestur. Skilmálabreytingin muni fela það í sér að umræddum samningskröfum verði breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára, en félagið muni greiða niður breytanlega lánið eftir því sem unnt sé á lánstímanum. Hafi breytanlega lánið ekki verið greitt að fullu á gjalddaga muni eftirstöðvum þess verða breytt í hlutafé í Straumborg á gjalddaga. Þá segir í 4. gr. frumvarpsins að þrátt fyrir ofangreint muni félagið halda eftir eignum til þess að mæta umdeildum og skilyrtum samningskröfum, en greiðsla samkvæmt nauðasamningi vegna slíkra krafna muni fara fram svo fljótt sem auðið sé eftir að skilyrði hafi komið fram eða leyst hafi verið með endanlegum hætti úr ágreiningi aðila.
Telur dómurinn frumvarpið skýrt og þrátt fyrir að hluti kröfuhafa sé ósáttur við hugsanlega niðurstöðu að samningstímanum loknum, hefur tilskilinn fjöldi kröfuhafa að fjárhæðum og höfðatölu samþykkt frumvarpið efnislega. Þó svo að þeir kröfuhafar sem veittu frumvarpinu ekki samþykki sitt, séu ósáttir við efni frumvarpsins, leiðir það ekki til þess að synjað verði um staðfestingu frumvarpsins.
Eins og rakið hefur verið að ofan er ekkert fram komið, samkvæmt 57. gr. laga nr. 21/1991, sem veldur því að dómara beri að synja um staðfestingu frumvarpsins. Þá hafa varnaraðilar ekki sýnt fram á að skilyrði 58. gr. laganna séu fyrir hendi þannig að synja beri um staðfestingu frumvarpsins.
Voru skilyrðum 7., 35. og 36. gr. laga nr. 21/1991 fullnægt er beiðni barst dóminum 9. janúar sl. Þá verður ekki annað séð en að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hafi uppfyllt skilyrði laga við framkvæmd nauðasamningsumleitananna. Á fundi með kröfuhöfum 15. maí sl. var frumvarp sóknaraðila samþykkt með 67% atkvæðismanna að höfðatölu og 68,95% að fjárhæðum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að ekkert standi í vegi fyrir því að staðfestur verði nauðasamningur sóknaraðila við lánardrottna sína.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Staðfestur er svofelldur nauðasamningur sóknaraðila, Straumborgar ehf., kt. [...] þannig:
1. gr.
Lánardrottnum sem fara með samningskröfur („lánardrottnar“) er boðin greiðsla samningskrafna sinna með eftirfarandi hætti:
8. Lánardrottnum félagsins eru boðnar allar eignir félagsins til uppgjörs krafna þeirra eins og þær standa þegar heimild er veitt til nauðasamningsumleitana, að frádregnum kostnaði við undirbúning nauðasamnings, nauðasamningsumleitanir og uppgjör nauðasamnings sem og umsýslukostnaði. Greiðsla mun fara þannig fram að 45% samningskrafna verður skilmálabreytt og tekur skilmálabreytingin gildi þegar nauðasamningur hefur verið endanlega staðfestur. Skilmálabreytingin mun fela það í sér að umræddum samningskröfum verður breytt í vaxtalaust breytanlegt lán til þriggja ára („breytanlega lánið“), en félagið mun greiða niður breytanlega lánið eftir því sem unnt er á lánstímanum. Hafi breytanlega lánið ekki verið greitt að fullu á gjalddaga mun eftirstöðvum þess verða breytt í hlutafé í Straumborg á gjalddaga. Skilmálar breytanlega lánsins fylgja frumvarpi þessu sem viðauki I og skal litið á lánaskilmála breytanlega lánsins sem óaðskiljanlegan hluta frumvarps þessa. Verði frumvarpið samþykkt skal líta á breytanlega lánið sem óaðskiljanlegan hluta nauðasamningsins.
9. Með staðfestingu á nauðasamningnum munu samningskröfuhafar fella niður 55% af samningskröfum sínum.
10. Með framangreindri afskrift 55% samningskrafna og skilmálabreytingu 45% þeirra samningskrafna sem eftir standa, telst hafa farið fram fullnaðar uppgjör á öllum samningskröfum á hendur Straumborg.
11. Þrátt fyrir ofangreint mun félagið halda eftir eignum til þess að mæta umdeildum og skilyrtum samningskröfum, en greiðsla samkvæmt nauðasamningi vegna slíkra krafna mun fara fram svo fljótt sem auðið er eftir að skilyrði hefur komið fram eða leyst hefur verið með endanlegum hætti úr ágreiningi aðila.
2. gr.
Engir vextir verða greiddir vegna krafna lánardrottna frá þeim degi sem nauðasamningur telst kominn á og þar til greiðsla á sér stað samkvæmt 1. gr.
3. gr.
Trygging verður ekki sett fyrir greiðslum samkvæmt framangreindu.
4. gr.
Að því marki sem þörf er á heimildum frá Seðlabanka Íslands til einstakra greiðslna verða þær ekki inntar af hendi fyrr en slík heimild hefur verið fengin.
Þá er viðauki I óaðskiljanlegur hluti nauðasamningsins.
Málskostnaður fellur niður.