Hæstiréttur íslands
Mál nr. 776/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Kröfugerð
- Vanreifun
|
|
Fimmtudaginn 3. desember 2015. |
|
Nr. 776/2015. |
Sigurður Örn Sigurðsson og Aðalheiður Jacobsen (Sigurður
Sigurjónsson hrl.) gegn Grímsnes- og Grafningshreppi (Óskar Sigurðsson
hrl.) |
Kærumál.
Frávísunarúrskurður staðfestur. Kröfugerð. Vanreifun.
S og A kröfðust
þess aðallega að sveitarfélaginu G yrði gert að þola riftun kaupsamninga á
tveimur lóðum í landi Ásgarðs í Grímsnesi og endurgreiðslu kaupverðs og
gatnagerðargjalda lóðanna. Byggðu þau kröfu sína meðal annars á niðurstöðum í
dómum Hæstaréttar í málum nr. 222/2012 og 82/2014, um að lóðir sem G hafði selt
á sama svæði væru haldnar galla í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup
vegna eftirfarandi vanefndar. Talið var að stefna S og A í héraði uppfyllti
ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan
málatilbúnað vegna vanreifunar á stefnufjárhæð. Breytti þar engu um þótt S og A
hefðu reynt að bæta úr annmörkunum með framlagningu nýs skjals fyrir Hæstarétti
sem þau kváðu stafa frá G, þar sem skjalið var hvorki í frumriti né staðfestu
eftirriti, sbr. lokamálsliður 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem G
hafði mótmælt því að skjalið væri frá sér komið. Var úrskurður héraðsdóms um
frávísun málsins því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur
Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur
hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu
málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust
réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6.
nóvember 2015 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila.
Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og
lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau
málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst
staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í
hinum kærða úrskurði lýtur mál þetta að sölu varnaraðila á tveimur lóðum sem
félög í eigu annars sóknaraðila munu hafa keypt, annars vegar með kaupsamningi
31. mars 2006 og hins vegar 12. apríl sama ár. Með kaupsamningnum 31. mars 2006
voru auk fyrrgreindrar lóðar, sem mál þetta snýst um, seldar þrjár aðrar lóðir
og var umsamið kaupverð lóðanna fjögurra 14.059.265 krónur ásamt gatnagerðargjöldum
að fjárhæð 7.112.000 krónur. Með kaupsamningnum 12. apríl 2006 var seld önnur
lóð auk þeirrar, sem deilt er um í málinu, og var umsamið kaupverð beggja
lóðanna 8.152.265 krónur ásamt gatnagerðargjöldum að fjárhæð 2.844.800 krónur.
Fjárhæð dómkröfu sóknaraðila er 11.730.875 krónur en engin grein er fyrir því
gerð í stefnu hvernig sú fjárhæð er reiknuð og verður henni samkvæmt framangreindu
ekki fundin stoð í áðurgreindum kaupsamningum.
Sóknaraðilar hafa
lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal sem þau kveða að stafi frá varnaraðila og hafi
að geyma upplýsingar um verð þeirra lóða sem deilt er um í málinu. Skjalið er
hvorki í frumriti né staðfestu eftirriti, sbr. lokamálslið 2. mgr. 145. gr.
laga nr. 91/1991, og hefur varnaraðili mótmælt því að skjalið sé frá sér. Gegn
andmælum hans hafa sóknaraðilar samkvæmt þessu ekki bætt úr annmörkum á stefnu
að því er varðar reifun stefnufjárhæðar, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga
nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði
úrskurður staðfestur.
Sóknaraðilum verður
gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í
dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sigurður Örn Sigurðsson og Aðalheiður Jacobsen, greiði óskipt varnaraðila, Grímsnes- og
Grafningshreppi, samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. nóvember 2015.
Mál þetta, sem tekið var til
úrskurðar 17. september sl., er höfðað með stefnu birtri 27. mars 2015.
Stefnendur eru Sigurður Örn
Sigurðsson, kt. [...] og Aðalheiður Jacobsen, kt. [...], Byggðarhorni
40, 801 Selfossi, en stefndi er Grímsnes-og Grafningshreppur kt. [...], Borg í Grímsnesi, en fyrirsvarsmaður stefnda er
Ingibjörg Harðardóttir, kt. [...] Björk 2, 801
Selfossi sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.
Dómkröfur stefnenda eru aðallega að
stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 12.04.2006 vegna
lóðarinnar nr. 18, sem er 4.813 m2, land nr. 199024 og að stefnda verði gert að
þola riftun kaupsamnings dags. 31.03.2006 vegna lóðarinnar nr. 24, sem er 4.984
m2, land nr. 199050, í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum 11.730.875
króna [sic.] ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr.
l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20.01.2014 til greiðsludags.
Til vara gerð [sic.]
sú krafa að stefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings dags. 12.04.2006
vegna lóðarinnar nr. 18, sem er 4.813 m2, land nr. 199024 og að stefnda verði
gert að þola riftun kaupsamnings dags. 31.03.2006 vegna lóðarinnar nr. 24, sem
er 4.984 m2, land nr. 199050, í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og
Grafningshreppi. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða
stefnendum 11.730.875 króna [sic.] ásamt
dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá
þingfestingu máls þessa til greiðsludags.
Verði fallist á aðal- eða varakröfu
stefnenda munu stefnendur gefa út afsal til stefnda fyrir lóðunum nr. 18 og 24
í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Til þrautavara er gerð sú krafa að
stefnda verði gert að greiða stefnendum skaðabætur að álitum ásamt
dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá
þingfestingu máls þess [sic.] til greiðsludags.
Þá er gerð sú krafa að stefndi verði
í öllum tilvikum dæmdur til þess að greiða stefnendum málskostnað að skaðlausu
að mati réttarins.
Stefndi gerir í málinu eftirfarandi
dómkröfur:
Aðallega að máli þessu verði vísað
frá dómi.
Til vara að stefndi verði sýknaður
af öllum kröfum stefnenda.
Til þrautavara að kröfur stefnenda
verði stórlega lækkaðar.
Í öllum tilvikum er
krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum í samræmi
við síðar framlagðan málskostnaðarreikning, auk virðisaukaskatts af
málflutningsþóknun.
Í þessum þætti málsins er
frávísunarkrafa stefnda tekin til úrlausnar. Stefnendur krefjast þess að
frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.
Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var
gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Málavextir
Mál
þetta varðar tvær lóðir í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og
Grafningshreppi, annars vegar lóð nr. 18 og hins vegar lóð nr. 24. Stefnendur
eru eigendur beggja lóðanna og eru lóðirnar sameign þeirra.
Með
kaupsamningi, dags. 31. mars 2006, seldi stefndi Byggingafélaginu Geysi ehf.
framangreinda lóð nr. 24 ásamt lóðum nr. 2, 4 og 48. Samkvæmt samningnum var
kaupverð lóðanna kr. 14.059.265 og gatnagerðargjöld kr. 7.112.000. Ekki er
kaupverð og gatnagerðargjald tilgreint sérstaklega eftir lóðum. Stefndi gaf út
afsal til Byggingafélagsins Geysis ehf. vegna lóðar nr. 24 þann 27. október
2008, en ekki er kaupverðs getið í afsalinu.
Með
kaupsamningi, dags. 12. apríl 2006, seldi stefndi SÖS ehf. framangreinda lóð
nr. 18 ásamt lóð nr. 20. Samkvæmt samningnum var kaupverð lóðanna var samtals
kr. 8.152.265 og gatnagerðargjöld kr. 2.844.800. Ekki er kaupverð og
gatnagerðargjald sundurgreint eftir lóðum í kaupsamningnum. Stefndi gaf út
afsal til SÖS ehf. vegna lóðar nr. 18 þann 27. október 2008, en ekki er
kaupverðs getið í afsalinu.
Með
afsali, dags. 4. desember 2008, seldi og afsalaði SÖS ehf. lóðum nr. 2, 4, 24,
28 og 48 til Hornáss ehf., en ekki er kaupsverðs getið í afsalinu og er það
ekki sundurgreint eftir lóðum.
Með
afsali, dags. 4. desember 2008, seldi og afsalaði SÖS ehf. lóðum nr. 18 og 20
til Hornáss ehf., en ekki er kaupsverðs getið í afsalinu og er það ekki
sundurgreint eftir lóðum.
Þann
30. október 2009 seldi Hornás ehf. stefnanda Sigurði Erni lóðir nr. 18, 24 og
48 með kaupsamningi sama dag. Segir í kaupsamningi að kaupverð lóðanna sé kr.
4.500.155 fyrir lóð nr. 18, kr. 4.3385.920 fyrir lóð nr. 24 og kr. 1.873.740
fyrir lóð nr. 48, eða samtals kr. 10.759.815. Segir jafnframt að
gatnagerðargjöld af hverri lóð nemi samtals kr. 1.422.400, eða samtals kr.
4.267.200.
Þann
30. október 2009 gaf Hornás ehf. út afsal til stefnda Sigurðar Arnar fyrir
lóðum nr. 18, 24 og 48, en hvorki var kaupverðs getið né það sundurgreint eftir
lóðum.
Með
yfirlýsingu dagsettri 7. maí 2012 voru framangreindar lóðir nr. 18 og 24, ásamt
fleiri lóðum, gerðar að óskiptri sameign stefnenda þannig að hvort um sig ætti
50%.
Framangreind
félög, sem voru í eigu stefnenda, munu ýmist vera gjaldþrota eða rekstri þeirra
verið hætt.
Óþarft
er að gera frekari grein fyrir málavöxtum til úrlausnar á kröfu stefnda um
frávísun málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnendur
vísa til þess að Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp dóma hinn 19. desember
2012 í málinu nr. 222/2012 og hinn 6. nóvember 2014 í málinu nr. 82/2014. Í
báðum málunum hafi verið til úrlausnar ágreiningur vegna lóðarkaupa af stefnda
í Ásborgum, í Ásgarðslandi Grímsnesi. Í máli þessu sé einnig um að ræða sölu
lóða af hálfu stefnda. Stefnendur vísa til þess að við sölu lóða nr. 18 og nr.
24 hafi af hálfu stefnda verið tilteknir ákveðnir kostir við lóðirnar. Stefndi
hafi síðar tekið uppá því einhliða að breyta nýtingu og skipulagi svæðisins
þegar stefndi hafi tekið ákvörðun um að heimila að lóðir á svæðinu væri lagðar
undir rekstur veitinga- og gististaða auk skemmtanahalds. Stefnendur vísa til
þess að með þessu hafi stefndi brotið á samningsskyldum hans við lóðarhafa sem
virða beri honum til sakar, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup. Hafi gerðir stefnda falið í sér eftirfarandi vanefnd á
kaupsamningsskyldum sínum í skilningi 2. mgr. 20. gr. laganna. Þar með hafi
verið til staðar skilyrði til að rifta kaupsamningunum skv. 1. mgr. 42. gr.
laga nr. 40/2002.
Með
háttsemi stefnda hafi brostið allar forsendur fyrir kaupum að lóðunum,
fasteignin sé haldin galla í skilningi laga um fasteignakaup, sökum
eftirfarandi vanefndar stefnda. Stefnendur byggja á því að þeim sé heimilt að
beina kröfugerð beint á hendur stefnda vegna eftirfarandi vanefndar hans.
Stefnendur hafi um það val að hverjum þau beini kröfugerð sinni. Í máli þessu
hafi stefnendur valið að beina kröfugerð að þeim aðila er með háttsemi sinni
hafi valdið stefnendum tjóni.
Stefnendur
vísa til heimildarákvæðis 45. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignarkaup sem þeir
kveða að heimili aðila að hafa uppi beina kröfu, eins og hér um ræði, en slíkt
eigi við þegar fasteign sé gölluð. Í málinu liggi fyrir að vegna eftirfarandi
vanefndar af hálfu stefnda séu lóðirnar haldnar galla í skilningi laga nr.
40/2002. Hafi það verið staðfest með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr.
222/2012 og nr. 82/2014.
Stefnendur
vísa einnig til þess að þeir eigi beina kröfu á hendur stefnda samkvæmt
meginreglum kröfuréttar, enda hafi stefndi ekki efnt samningsskyldur sínar með
réttum hætti. Sé stefnendum því heimilt að ganga inn í kröfur sem viðsemjandi
þeirra og fyrri viðsemjendur hans eigi á hendur stefnda, samkvæmt meginreglum
kröfuréttar. Krafa stefnenda lúti að því að stefnda verði gert að þola riftun
vegna eftirfarandi vanefndar og endurgreiða þeim kaupverð lóðanna og
gatnagerðargjöld.
Hafi
stefndi brotið gegn samningsskyldum sínum samkvæmt kaupsamningum þegar hann
hafi einhliða breytt allri nýtingu þess skipulagða svæðis er um ræði. Stefndi
hafi hlutast til um að breyta og raska grundvelli og forsendum stefnenda fyrir
kaupunum. Stefndi hafi beitt sér fyrir breyttum forsendum frá því að hann hafi
gengist undir skyldur sem kaupsamningar hafi lagt honum á herðar. Fyrir vikið
séu fasteignirnar haldnar galla vegna eftirfarandi vanefndar af hálfu stefnda.
Af
hálfu stefnenda hafi það verið ákvörðunarástæða fyrir lóðarkaupum, að um
friðsælt íbúðahverfi væri að ræða. Breytingar á skipulagi hafi leitt til
stóraukningar á umferð ferðamanna og vegfarenda, sem verði að komast ferða
sinna, oftast með stórum langferðabifreiðum, sem ekið sé hringinn í hverfinu.
Atvinnurekstur á svæðinu hafi gjörbreytt hverfinu. Stefndi hafi frá
upphafi kynnt að fasteignirnar væru
gæddar þeim kostum að vera í kyrrlátu umhverfi í skipulagðri íbúðabyggð. Þær
hafi síðan verið sviptar þeim eiginleika eftir kaupin fyrir tilstuðlan stefnda
sem hafi látið innleiða þar atvinnurekstur.
Áður
hafi því verið lýst að stefndi hafi gefið jákvæða umsögn vegna umsóknar
Grímsborga ehf. um rekstrarleyfi fyrir nærliggjandi fasteignir í andstöðu við
fyrirmæli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og
þágildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Verði að virða athafnir
stefnda sveitarfélaginu til sakar og telja að gerðir þess hafi leitt til
eftirfarandi vanefndar á kaupsamningum, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup.
Gerðir
stefnda hafi þannig brotið í bága við fyrirmæli 1. tl.
4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um að sveitarstjórn skuli staðfesta að
staðsetning sé innan marka, sem reglur og skipulag segi til um, en
deiliskipulag hafi gert ráð fyrir íbúðabyggð í Ásborgum. Stefndi hafi hins
vegar breytt íbúðarsvæði yfir í atvinnusvæði og eins og sjá megi í gögnum
málsins. Sbr. 2. og 6. tl. hafi ekki aðeins
nýtingarmöguleikum lóða stefnenda verið breytt yfir í atvinnurekstur heldur
einnig nýtingu íbúðarhúsa á svæðinu, sem þegar hafi verið reist án þess að
byggingarleyfi þ.a.l. hefðu verið útgefin, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr.
73/1997, sbr. einnig umsögn byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og
Flóahrepps 28.05.2010. Jákvæð umsögn stefnda hafi verið andstæð þessu
lagaákvæði. Stefnandi telur ljóst að virða beri til sakar þessar athafnir
stefnda í tengslum við samningsskyldur, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr.
40/2002 og að gerðir hans hafi falið í sér eftirfarandi vanefnd á kaupsamningum
þeirra í skilningi 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Beri því að taka kröfu stefnenda
um riftun kaupsamninga til greina.
Með
dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 222/2012, frá 19. desember 2012 og 6.
nóvember 2014 í máli nr. 82/2014 hafi verið tekist á um samkynja málefni. Í
málunum hafi Hæstiréttur Íslands fallist á aðalkröfu lóðarhafa um riftun
kaupsamnings við Grímsnes- og Grafningshrepp og endurgreiðslu kaupverðs og
gatnagerðargjalda. Athafnir Grímsnes- og Grafningshrepps hafi verið virtar
sveitarfélaginu til sakar og talið að gerðir þess hafi falið í sér eftirfarandi
vanefnd á kaupsamningsskyldum. Dómarnir séu eru vísbending um úrlausn á
ágreiningsefni milli stefnenda og stefnda í máli þessu og verði lagðir til
grundvallar við úrlausn þessa máls. Kveðast stefnendur hafa beðið úrlausnar
Hæstaréttar í málunum í því skyni að leita úrlausna og samkomulags við stefnda,
en stefndi hafi hins vegar hafnað öllum samningum við stefnendur og telji
framangreinda dóma Hæstaréttar í engu leysa úr
ágreiningi á milli aðila í þessu máli.
Stefnendur
kveða aðalkröfu sína annars vegar byggja á því að stefnendum sé heimilt að hafa
uppi beina kröfu á hendur stefnda á grundvelli heimildarákvæðis 45. gr. laga
nr. 40/2002 um fasteignakaup. Stefnendur kveðast reisa kröfugerð sína í
varakröfu á því að fasteignin teljist gölluð í skilningi fasteignakaupalaga
vegna eftirfarandi vanefndar stefnda. Stefnendum sé á grundvelli
heimildarákvæðis 45. gr. fasteignakaupalaga heimilt að ganga inn í kröfur sem
fyrri viðsemjendur hans kunni að hafa átt á hendur stefnda vegna vanefnda stefnda
gagnavart þeim. Sökum háttsemi stefnda sé fasteignin haldin eftirfarandi
vanefnd og um leið galla. Beri stefnda að þola riftun og endurgreiða söluverð
lóðanna og um leið gatnagerðargjöld. Af þessum sökum verði stefnda gert að
greiða stefnendum fjárhæð sem nemi kaupverði lóðanna auk gatnagerðargjalda,
samtals 11.730.875 krónur. Jafnframt verði stefnda gert að þola riftun á
kaupsamningi um lóðirnar nr. 18 og nr. 24 í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes-
og Grafningshreppi.
Kveða
stefnendur aðalkröfu sína hins vegar byggja á því að stefnendum sé heimilt að
hafa uppi beina kröfu á hendur stefnda á grundvelli almennra reglna
kröfuréttarins þar sem stefndi hafi ekki með réttum hætti efnt samningsskyldur
sínar. Í málinu liggi fyrir að viðsemjandi stefnenda og þeir sem leiði rétt
sinn frá honum hafi byggt á ákvæðum kaupsamninga sem stefndi hafi verið aðili
að, sbr. kaupsamninga dags. 31. mars 2006 um lóð nr. 24 og dags. 12. apríl 2006
um lóð nr. 18. Í þeim kaupsamningum og öðrum gögnum sem leiða megi frá stefnda
lýsi stefndi yfir tiltekinni notkun á umræddum lóðum. Með háttsemi sinni hafi
stefndi brotið gegn samningsskyldum sínum, fasteignin sé haldin galla vegna
eftirfarandi vanefndar af hálfu stefnda. Beri stefnda að þola riftun og
endurgreiða söluverð lóðanna og um leið gatnagerðargjöld. Af þessum sökum verði
stefnda gert að greiða stefnendum fjárhæð sem nemi kaupverði lóðanna auk
gatnagerðargjalda, samtals 11.730.875 krónur. Jafnframt verði stefnda gert að
þola riftun á kaupsamningum vegna lóðanna nr. 18 og nr. 24 í Ásborgum í
Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Stefnendur
kveða kröfugerð sína um upphafsdag dráttarvaxta frá 20. janúar 2014 byggja á
því að með bréfi lögmanns stefnenda dags. 20. desember 2013 hafi verið lýst
yfir riftun. Því sé gerð krafa til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða
dráttarvexti af kaupverði lóðanna og gatnagerðargjöldum frá þeim degi þegar
mánuður var liðinn frá því stefnandi hafi rift kaupunum. Kaupverð og
gatnagerðargjöld séu ágreiningslaus og því ástæðulaust að tilgreina þau með
sérstökum hætti.
Stefnendur
kveða tölulega fjárkröfu í aðal- og varakröfu í krónum sundurliðast svo:
Kaupverð lóðar nr. 18 4. 500.155
Kaupverð lóðar nr. 24 4. 385.920
Samtals kaupverð lóða 8.886.075
Gatnagerðargjöld lóð nr. 18 1.422.400
Gatnagerðargjöld lóð nr. 24 1.422.400
Samtals gatnagerðargjöld 2.844.800
Samtals kaupverð og gatnagerðargjöld 11.730.875
Um varakröfu sína
benda stefnendur á að hún sé eins og greini í aðalkröfu að því undanskildu að
verði ekki fallist á miða beri upphafsdag dráttarvaxta 30 dögum eftir
dagsetningu riftunaryfirlýsingar verði upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við
þingfestingardag máls þessa.
Þá segja stefnendur
að verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnenda skuli stefnandi [sic.] gefa út afsal til stefnda fyrir lóðunum nr. 18 og 24
í Ásborgum í Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Þrautavarakröfu sína
kveða stefnendur byggja á því að stefndi hafi með saknæmum hætti vanefnt
skyldur sínar með því að víkja frá samningsskuldbindingum sínum. Stefnendur
hafi leitt rétt sinn á samningsskuldbindingum stefnda sem stefndi hafi síðar
brugðið einhliða. Fasteignir þær er um ræði séu haldnar galla vegna
eftirfarandi vanefndar stefnda. Beri stefndi fulla bótaskyldu á því tjóni er
stefnendur hafi orðið fyrir vegna þessa. Áætlanir stefnenda um að byggja
heilsárs íbúðarhúsnæði séu fyrir borð bornar vegna hinnar saknæmu háttsemi
stefnda. Af þessum sökum verði stefnda gert að greiða stefnendum tjón þeirra.
Lóðirnar nýtist stefnendum ekki eins og lagt hafi verið upp með, enda allar
forsendur fyrir kaupum þeirra brostnar. Stefndi sé því skaðabótaskyldur vegna
tjóns stefnenda. Beri að meta tjón stefnenda að álitum að mati réttarins.
Af hálfu stefnenda
er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins og laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup, einkum 12., 18., 20., 42. og 45. gr. laganna. Þá vísar stefnandi
til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 43. gr. Varðandi
málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst
byggja frávísunarkröfu sína á eftirfarandi málsástæðum.
1. Kröfugerð.
Stefndi kveður
dómkröfur stefnenda ganga gegn grundvallarreglum einkamálaréttarfars um glöggan
málatilbúnað, skýra, ótvíræða og framkvæmanlega kröfugerð.
Í fyrsta lagi séu
málavextir og atvik í stefnu reifuð með röngum hætti. Leiði sá brestur á reifun
staðreynda málsins til þess að allur málatilbúnaður stefnenda sé rangur.
Stefnendur krefjist riftunar á kaupsamningum um tvær lóðir í Ásborgum í Grímsnesi,
lóða nr. 18 og 24. Báðar lóðirnar hafi verið hluti af stærri viðskiptum, annars
vegar kaupsamningi frá 31. mars 2006, þegar Byggingafélagið Geysir ehf., hafi
keypt þrjár lóðir nr. 2, nr. 24 og nr. 28 og hins vegar kaupsamningi frá 12.
apríl 2006 þegar SÖS ehf. hafi keypt lóðir nr. 18 og nr. 20. Í dómkröfum sé
þess krafist að stefnda verði gert að þola riftun á nefndum kaupsamningum auk
þess sem krafist sé endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar.
Riftun sem
vanefndaúrræði í kröfurétti byggist á því að aðilar verði eins settir og
samningar hefðu aldrei verið gerðir. Ef kröfugerð stefnenda væri tekin til
greina, þá væri tveimur kaupsamningum um samtals fimm lóðir í landi Ásborga í
Grímsnesi rift, stefnda gert að greiða stefnendum tiltekna upphæð en stefndi
fengi í engu til baka andvirði samninganna sem hann hafi látið af hendi. Verði
að líta til þess í fyrsta lagi að samningar um lóðasölurnar í öndverðu hafi
verið um samtals fimm lóðir en hafi ekki verið sjálfstæðir samningar um tvær
lóðir eins og atvikalýsing í stefnu byggi á. Fyrirvaralaust sé krafist riftunar
á umræddum kaupsamningum sem hafi lotið að mun umfangsmeira söluandlagi en
tilgreint sé í stefnu. Í öðru lagi geri kröfugerð stefnenda ekki ráð fyrir að
stefndi fái til baka það endurgjald sem hann hafi látið af hendi. Ekki sé
krafist riftunar á afsölum vegna lóðanna, en þau séu sjálfstæðir löggerningar
óháð þeim kaupsamningum sem stefnendur krefjast riftunar á. Ef fallist væri á
kröfu stefnenda um riftun kaupsamninga um lóðirnar stæðu afsölin áfram sem
sjálfstæðir löggerningar og stefndi fengi ekki umráðarétt söluandlagsins.
Kveður stefndi kröfugerð þessa algjöra markleysu og á henni þeir annmarkar að
andstætt sé grundvallarreglum einkamálaréttarfars, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 5.
desember 2007 í máli nr. 612/2007.
2. Aðild.
Stefndi kveður að
miðað við kröfugerð stefnenda hefði verið óhjákvæmilegt að Byggingafélagið
Geysir ehf. og SÖS ehf., aðilar samninga þeirra sem krafist sé riftunar á og
núverandi eigendur hinna lóðanna þriggja nr. 2, nr. 24 og nr. 28, ættu aðild að
málinu og fyrrnefndum aðilum væri gert að þola riftun á þeim kaupsamningum sem
krafist sé riftunar á, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varði þetta óhjákvæmilega sjálfkrafa frávísun málsins.
3. Vanreifun.
Þá kveður stefndi
lýsingu stefnenda á atvikum málsins í stefnu vera haldna verulegum og
alvarlegum annmörkum þar sem kaupsamningar um lóðirnar hafi falið í sér kaup á
fimm lóðum en ekki tveimur. Fyrri samningurinn hafi verið um þrjár lóðir, þar
sem lóðarverð sé tilgreint kr. 14.059.265 og gatnagerðargjöld kr. 7.112.000.
Seinni samningurinn sé um tvær lóðir að fjárhæð 8.152.265 og gatnagerðargjöld
að fjárhæð kr. 2.844.800. Í stefnu sé engin grein gerð fyrir heildarandvirði
kaupsamninganna eða hvernig kaupverð lóðanna sé ákvarðað eða reiknað út. Ljóst
sé að það sé ekki hlutfallslegt kaupverð lóðanna að tiltölu í kaupsamningi né
raunverulegt söluverð þeirra í öndverðu. Með þessum málatilbúnaði sé
stefnufjárhæðin með öllu órökstudd og röng miðað við málatilbúnað stefnenda sjálfra.
Sé því óhjákvæmilegt að mati stefnda að vísa frá dómi kröfu stefnenda um
endurgreiðslu meints kaupverðs sem og riftunarkröfu.
Ennfremur sé
þrautavarakrafa stefnenda um skaðabætur með öllu vanreifuð. Hvorki sé sýnt fram
á að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni né að stefndi hafi sýnt af sér saknæma
og ólögmæta háttsemi. Sé þrautavarakrafan með öllu ódómtæk að mati stefnda.
Vísast um þetta efni til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d-liðar.
4. Tilvitnaðri réttarreglu verði aldrei
beitt um atvikin.
Stefndi kveður að
með vísan til dóms Hæstaréttar 17. apríl 2015 í máli nr. 267/2015 varði það
frávísun máls ef réttarregla sú sem byggt er á geti ekki átt við um málsatvik
með þeim hætti sem krafist sé. Sprangkröfu verði
aðeins beitt með vanefndaúrræðum sem feli í sér efndaheimildir, t.d. skaðabætur
og afslátt, en ekki gagnkvæmnisheimildir sem miði að því að losa aðila undan
efndum samnings, eins og riftun. Það leiði einfaldlega af eðli þess
réttarsambands sem um sé að ræða en ekkert samningssamband hafi nokkurn tíma
stofnast milli stefnenda og stefnda. Ef riftun ætti að vera möguleg sem
vanefndaúrræði í tilviki sem þessu þyrfti að rifta öllum kaupsamningum og
afsölum sem gerð hafi verið frá því hið upprunalega framsal lóðanna frá stefnda
hafi átt sér stað. Þyrftu og allir samningsaðilar þessara samninga að eiga
aðild að málinu, a.m.k. yrði að gera þeim að þola dóm þessa efnis. Verði af
þessum ástæðum einnig að vísa máli þessu frá dómi að mati stefnda.
Forsendur og niðurstaða
Fyrsta málsástæða
stefnda til stuðnings kröfu um frávísun varðar kröfugerð stefnenda. Telur
stefndi að kröfugerð stefnenda gangi gegn grundvallarreglum einkamálaréttarfars
um glöggan málatilbúnað, skýra, ótvíræða og framkvæmanlega kröfugerð. Báðar
lóðirnar sem um ræði hafi verið hluti af stærri viðskiptum, þ.e. um fleiri
lóðir, en í dómkröfum sé krafist riftunar á kaupsamningunum í heild sinni.
Vísar
stefndi til þess að riftun byggi á því að aðilar verði eins settir og samningur
hefði aldrei verið gerður. Væri hins vegar fallist á kröfur stefnenda þá væri
með því rift tveimur kaupsamningum um samtals fimm lóðir og stefnda gert að
greiða stefnendum tiltekna fjárhæð, en stefndi fengi ekki andvirði samninganna
sem hann hafi látið af hendi. Samningarnir hafi verið um fimm lóðir en ekki
hafi verið gerðir sjálfstæðir samningar um þessar tvær tilteknu lóðir, eins og
atvikalýsing í stefnu byggi þó á. Án nokkurs fyrirvara sé krafist riftunar á
umræddum samningum sem hafi þó lotið að mun umfangsmeiri viðskiptum en aðeins
um þessar tvær tilteknu lóðir. Þá geri kröfugerð stefnenda ekki ráð fyrir að
stefndi fái til baka það sem hann hafi látið af hendi, en í því sambandi vísar
stefndi sérstaklega til þess að ekki sé krafist riftunar á afsölum sem út hafi
verið gefin, en þau muni standa áfram sem sjálfstæðir löggerningar þrátt fyrir
að fallist yrði á kröfur stefnenda og fengi þannig stefndi ekki umráð lóðanna.
Sé kröfugerð stefnenda þannig markleysa og andstæð grundvallarreglum
einkamálaréttarfars.
Í
dómkröfum stefnenda er þess krafist að stefnda verði gert að þola riftun
umræddra kaupsamninga, vegna þessara tveggja umræddu lóða. Verður ekki talið að
krafan beinist að kaupsamningunum í heild sinni, enda það sérstaklega tekið
fram í dómkröfum með orðalaginu „vegna lóðarinnar nr. 18“ og „vegna lóðarinnar
nr. 24“. Verður þannig ekki fallist á að krafa stefnenda lúti að riftun á mun
umfangsmeira söluandlagi en sem stefndi hafi látið af hendi. Þá verður heldur
ekki fallist á að kröfugerð stefnenda geri ekki ráð fyrir því að stefndi fái
til baka það endurgjald sem hann hafi látið af hendi, en í kröfugerð stefnenda
segir berum orðum að „verði fallist á aðal- eða varakröfu stefnenda munu
stefnendur gefa út afsal til stefnda fyrir lóðunum nr. 18 og 24 í Ásborgum í
Ásgarðslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi“ og þannig er í dómkröfum stefnenda
gert ráð fyrir því að stefndi fái umráð söluandlagsins. Verður af sömu ástæðum
heldur ekki fallist á að sú staðreynd að riftunarkrafa stefnenda beinist ekki
einnig að afsölum geti staðið því í vegi að kröfur stefnenda í málinu verði
teknar til efnismeðferðar.
Þá
hefur stefndi vísað til 18. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings frávísunarkröfu
sinni. Kveður hann að óhjákvæmilega hefði stefnendum borið að stefna jafnframt
Byggingafélaginu Geysi ehf. og SÖS ehf., ásamt núverandi eigendum lóða nr. 2,
nr. 24. og nr. 48. Eins og fram kemur í greinargerð stefnda hafa bæði umrædd
félög verið úrskurðuð gjaldþrota og afskráð og var svo komið áður en mál þetta
var höfðað. Eins og að ofan greinir telur dómurinn ekki að riftunarkröfur
stefnenda beinist að kaupsamningunum í heild sinni, heldur varði þær aðeins
lóðir nr. 18 og nr. 24. Var því ástæðulaust að stefna eigendum þeirra í málinu.
Verður ekki fallist á að vísa málinu frá á grundvelli 18. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi
hefur til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísað til þess að málið sé vanreifað
af hálfu stefnenda að því er varðar fjárhæð þá sem krafist er greiðslu á. Í
stefnu er gerð grein fyrir fjárkröfum stefnenda á þann veg að þær samanstandi
af kaupverði hvorrar lóðar fyrir sig og gatnagerðargjöldum hvorrar lóðar fyrir
sig. Eins og að framan er rakið voru lóðir þessar seldar með tveimur
kaupsamningum. Voru aðrar lóðir jafnframt seldar í sömu kaupsamningum og var
aðeins tilgreint heildarkaupverð og heildarfjárhæð gatnagerðargjalda, en ekki
var tilgreint hvert væri kaupverð og gatnagerðargjald hverrar lóðar fyrir sig.
Í stefnu er hins vegar tilgreint nákvæmlega hvert stefnendur telji vera
kaupverð hvorrar lóðar og gatnagerðargjald hvorrar lóðar fyrir sig, án þess að
gerð sé nokkur grein fyrir því hvernig þær fjárhæðir eru fundnar, en ljóst er
að þær eiga sér ekki stoð í kaupsamningum og afsölum vegna lóðanna. Er þannig
stefnufjárhæðin órökstudd og er málatilbúnaður stefnenda hvað þetta varðar á þann
veg að dóminum er ófært að taka afstöðu til fjárhæðarinnar og stefnda örðugt um
varnir hvað varðar fjárhæðina. Er þetta í andstöðu við e lið 1. mgr. 80. gr.
laga nr. 91/1991. Er óhjákvæmilegt að vísa aðal- og varakröfu stefnenda frá
dómi af þessum sökum.
Stefndi
hefur jafnframt vísað til þess, frávísunarkröfu sinni til stuðnings, að
réttarreglu þeirri sem stefnendur vísa til verði ekki beitt um tilvikið.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður aðal- og varakröfu stefnenda vísað
frá dómi vegna vanreifunar á stefnufjárhæð. Að mati dómsins er óþarft að taka
sérstaklega afstöðu til síðastgreindrar málsástæðu stefnda vegna
frávísunarkröfunnar, en ljóst er hins vegar að yrði á hana fallist gæti það
mögulega leitt til sýknu í málinu.
Stefndi
hefur jafnframt krafist frávísunar á þrautavarakröfu stefnenda um að þeim verði
dæmdar skaðabætur að álitum úr hendi stefnda. Vísar stefndi til þess að krafan
sé vanreifuð og hvorki sé sýnt fram á að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni né
að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Verður fallist á
þetta með stefnda, en engin grein er gerð fyrir umfangi ætlaðs tjóns í stefnu
og er dóminum ófært að leggja mat á það á grundvelli málatilbúnaðar stefnenda.
Er krafan þannig ekki tæk til efnisúrlausnar.
Samkvæmt
framansögðu verður máli þessu vísað frá dómi.
Rétt
er að stefnendur greiði stefnda málskostnað og er hann ákveðinn kr. 1.384.150
kr. að virtu málskostnaðaryfirliti stefnda og hefur þá verið litið til
virðisaukaskatts.
Sigurður G. Gíslason
héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Sigurður Örn
Sigurðsson og Aðalheiður Jakobsen, greiði stefnda, Grímsnes- og
Grafningshreppi, in solidum
kr. 1.384.150 í málskostnað.