Hæstiréttur íslands

Mál nr. 683/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                              

Miðvikudaginn 14. nóvember 2012.

nr. 683/2012:

 

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

X var gert að sæta farbanni þar til dómur gengi í máli hans á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. nóvember 2012, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi „á meðan mál hans er til meðferðar“ en þó eigi lengur en til föstudagsins 21. desember 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími og eigi lengur en til 1. desember 2012. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 21. desember n.k. kl. 16.00.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. nóvember 2012.

Dóminum hefur borist krafa ríkissaksóknara þess efnis að X, [...], [...], ríkisfangslaus frá Palestínu, verði gert að sæta áframhaldandi farbanni  á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Vesturlands, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. febrúar 2013, kl. 16:00.

Verjandi mótmælir kröfunni og kveðst ekki telja lagaskilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. uppfyllt í málinu. Þá krefst verjandi málskostnaðar í þessum þætti málsins. 

Í greinargerð segir að Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot framin á árinu 2011 á [...] gagnvart tveimur unglingsstúlkum, annarri fæddri [...], þá 14 ára að aldri, og hinni fæddri [...], þá 13 ára að aldri, sem ákærða var treyst fyrir til kennslu og uppeldis sem stuðningsfulltrúi við grunnskólann [...] og sem leiðbeinandi í [...]. Í ákæru eru brot ákærða talin varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sakfellingardómur í máli ákæruvaldsins gegn ákærða hafi verið kveðinn upp hinn 23. mars sl. Hann hafi verið ómerktur með dómi Hæstaréttar sem kveðinn hafi verið upp í gær, 8. nóvember, þar sem ekki hafi verið séð að ákæran hefði verið þýdd úr íslensku yfir á arabísku eða túlkur hefði við meðferð málsins þýtt hana orðrétt  fyrir ákærða. Þá hafi skýrslur brotaþola og annarra vitna, sem teknar voru fyrir dómi í samræmi við a lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, ekki verið þýddar. Hafi Hæstiréttur lagt fyrir Héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar að nýju frá þingfestingu þess. Hafi héraðsdómur á grundvelli framangreinds dóms lagt fyrir ákæruvaldið að láta þýða umrædd gögn og sem stendur vinni ákæruvaldið að því að fá gögnin þýdd.

Ákærði hafi sætt farbanni samfellt frá 10. nóvember sl. sbr. úrskurði Héraðsdóms Vesturlands í málum nr. R-30/2011, 36/2011, 1/2012, 3/2012, 5/2012, 9/2012 og R-19/2012. Ákærði sé frá sjálfstjórnarsvæði Palestínu en sé án ríkisfangs. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi dvalarleyfi hans runnið út 30. nóvember 2011. Ákærði hafi takmörkuð tengsl við Ísland og ríkissaksóknari telji að raunhæf hætta sé á því að hann muni fara af landi brott og koma sér undan málsókn eða eftir atvikum fullnustu refsingar. Sé áframhaldansi farbann því talið nauðsynlegt svo unnt sé að ljúka meðferð málsins fyrir héraðsdómi.

Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 23. mars sl. var ákærði sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum og dæmdur til tveggja ára fangelsisrefsingar. Var dómi þessu áfrýjað til Hæstaréttar Íslands en málinu vísað heim til meðferðar frá þingfestingu eins og fyrr greinir. Ákærði er án ríkisfangs og hefur takmörkuð tengsl við Ísland. Er fallist á það með ríkissaksóknara að þau skilyrði sem greinir í b-lið 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi. Með vísan til þess ákvæðis og 1. mgr., sbr. 2. mg. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er fallist á að efni séu til að verða við kröfu um farbann. Verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina þó þannig að farbanninu verður markaður tími til 21. desember nk. kl. 16:00 Þá verða verjanda ákvörðuð þóknun að fjárhæð 20.000 krónur sem greiðist úr ríkissjóði.

Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð.

Kærða, X, [...], ríkisfangslausum manni frá Palestínu, er bönnuð för frá Íslandi, á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Vesturlands, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. desember nk., kl. 16:00. Málskostnaður verjanda hans í þessum þætti málsins Ragnars Aðalsteinssonar hrl. að fjárhæð 20.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.