Hæstiréttur íslands
Mál nr. 107/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudagurinn 10. apríl 2003. |
|
Nr. 107/2003. |
Ísbyggð ehf. (Gunnar Sólnes hrl.) gegn Margréti Magnúsdóttur Jónasi GestssyniSigurjóni Jónssyni (Garðar Garðarsson hrl.) Jóni Erlingssyni ehf. og Vinnslustöðinni hf. (Enginn) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem máli Í á hendur M, J, S, JE og V var vísað frá dómi. Var talið óljóst hvert ætlað tjón Í væri, og að á engan hátt yrði ráðið hver væri grundvöllur skaðabótakröfu hans. Þá væri heldur ekki að finna nokkra tilvitnun til lagaákvæða eða réttarreglna sem Í byggði málatilbúnað sinn á, nema tilvísun til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þóttu þeir annmarkar vera á reifun málsins af hálfu Í og röksemdir félagsins fyrir kröfum þess með þeim hætti að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi með vísan til e. og f. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilarnir Margrét Magnúsdóttir, Jónas Gestsson og Sigurjón Jónsson krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
Varnaraðilarnir Jón Erlingsson ehf. og Vinnslustöðin hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ísbyggð ehf., greiði varnaraðilum, Margréti Magnúsdóttur, Jónasi Gestssyni og Sigurjóni Jónssyni, hverju um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. febrúar sl., var þingfest 13. nóvember sl.
Stefnandi er Ísbyggð ehf., Síðumúla 33, Reykjavík.
Stefndu eru Margrét Magnúsdóttir, Suðurgötu 26, Sandgerði, Jónas Gestsson, Hálsaseli 1, Reykjavík, Sigurjón Jónsson, Suðurgötu 26, Sandgerði, Jón Erlingsson ehf. og Vinnslustöðin hf., bæði til heimilis að Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum.
Stefnandi krefst þess að öll hin stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum skaðabætur að fjárhæð 22.161.524 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 25. maí 2001 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. IV. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. ágúst 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndu, Margrét, Jónas og Sigurjón krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, með hliðsjón af 131. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu, Jón Erlingsson ehf. og Vinnslustöðin hf., krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu, Margrétar, Jónasar og Sigurjóns, og krefst stefnandi þess að henni verið hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar.
Málsatvik.
Stefndu, Margrét, Jónas og Sigurjón voru eigendur alls hlutafjár í Jóni Erlingssyni ehf., sem átti togarann Hauk GK. Var ákveðið að selja togarann og auglýstu forráðamenn félagsins hann til sölu, m.a. í Morgunblaðinu 27. september 2000 og var þar tekið fram að allar nánari upplýsingar veittu stefndu, Jónas eða Sigurjón í tilgreindum símanúmerum. Starfsmenn skipamiðlunarinnar Bátar og Kvóti, sem rekin er af stefnanda, hófust á sama tíma handa um að koma togaranum í sölu ásamt aflahlutdeildum og aflamarki hans, sem og öðrum eignum félagsins. Aðila greinir hins vegar á um hvort það var gert að frumkvæði forráðamanna stefnda, Jóns Erlingssonar ehf. Að tilhlutan Báta og Kvóta gerði Eyjanes ehf., kauptilboð í togarann ásamt fylgifé, veiðarfærum og veiðileyfi, og hljóðaði tilboðið upp á 800 milljónir króna. Stefndi, Jón Erlingsson ehf., samþykkti kauptilboðið með ákveðnum skilyrðum sem kaupandi átti að fullnægja, en tókst ekki. Tilboðið féll því niður.
Starfsmenn Báta og Kvóta leituðu þá til Odda hf., Patreksfirði og upplýstu forráðamenn félagsins um að Jón Erlingsson ehf. vildi selja aflaheimildir, bát og veiðarfæri og hugsanlega rekstur félagsins eða hlutabréf þess. Framkvæmdastjóri félagsins, Sigurður Viggósson átti í framhaldinu viðræður við fjármálastjóra og prókúruhafa stefnda, Jóns Erlingssonar ehf., en þær leiddu ekki til samninga.
Í málinu liggur fyrir sölutilboð á aflaheimildum sem stefnandi kom á framfæri við stefnda, Vinnslustöðina hf., dags. 11. janúar 2001, en ekki kemur þar fram hver sé eigandi þeirra.
Á vormánuðum 2001 fengu stefndu, Margrét, Jónas og Sigurjón kauptilboð frá Þorbirni hf. í Grindavík í allt hlutafé félagsins, en ekki gekk saman með aðilum. Í maí sama ár tókust hins vegar samningar milli stefnda, Vinnslustöðvarinnar hf. og stefndu, Margrétar, Sigurjóns og Jónasar, um kaup Vinnslustöðvarinnar hf. á öllu hlutafé í Jóni Erlingssyni ehf. Kaupsamningur var undirritaður 18. maí 2001 og var kaupverð 110.000.000 krónur. Sama dag var undirritaður samningur milli stefnda Jóns Erlingssonar ehf. og stefndu, Margrétar, Jónasar og Sigurjóns um kaup þeirra síðarnefndu á fasteign, hlutafé og rekstareignum þess fyrrnefnda.
Mál milli sömu aðila um sömu kröfur og í máli þessu var höfðað fyrir Héraðsdómi Suðurlands 22. nóvember 2001 og kveðinn upp úrskurður um frávísun málsins án kröfu 10. júní 2002.
Málsástæður og lagarök stefndu, Margrétar, Jónasar og Sigurjóns fyrir frávísunarkröfu.
Stefndu kveða að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 2002 hafi Héraðsdómur Suðurlands vísað frá dómi án kröfu, sama ágreiningsefni og hér er til úrlausnar. Þrátt fyrir þann úrskurð höfði stefnandi mál þetta með stefnu, nánast orðréttri þeirri sem hið fyrra mál hafi byggt á. Eins og sjá megi af samanburði á stefnunum, skeiki aðeins nokkrum setningum og þær örfáu setningar sem við bætist séu að engu leyti til þess fallnar að bæta úr ofangreindum annmörkum.
Samkvæmt e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 skuli í stefnu greina svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggi á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst og skuli þessi lýsing vera þannig að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Samkvæmt f-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga skuli stefna jafnframt innihalda tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Í stefnu málsins séu málsástæður og samhengi þeirra meira en lítið óljóst. Stefnandi byggi á því að stefndu hafi bakað sér tjón með því að fela öðrum aðilum að ganga frá umræddri sölu og nefni kröfu sína skaðabótakröfu. Engu að síður geri stefnandi enga tilraun til að sýna fram á hvert tjón sitt sé og krefjast bóta fyrir það, heldur byggi kröfufjárhæðin á þóknun samkvæmt verðskrá stefnanda sjálfs fyrir vinnu sem aldrei hafi verið innt af hendi. Með engu móti sé ljóst hvort krafist sé skaðabóta innan eða utan samninga eða á hverju krafan byggi í raun og veru, enda vísi stefnandi í málsástæðum sínum ekki til neinnar laga-eða réttarreglu og tíni ekki til nein lagarök, utan þess að vitna til 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnan sé því langt frá því að uppfylla skilyrði e- og f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, enda séu málsástæðurnar óljósar og samhengi þeirra fullkomlega óljóst og þær engu studdar tilvísun í lagaákvæði eða réttarreglur. Af kröfugerð stefnanda verði með engu móti ráðið hver grundvöllur kröfugerðar hans sé og ekkert í málinu sem rennt geti stoðum undir kröfugerðina.
Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir höfnun frávísunarkröfu.
Stefnandi kveður að mál þetta sé nýtt og frábrugðið því sem dómurinn hafi vísað frá dómi með úrskurði 10. júní 2002. M.a. kveður stefnandi að leiðrétt hafi verið í stefnu þessa máls sú fullyrðing sem fram kom af hans hálfu í fyrra máli, að Fiskistofa legði mat á verðmæti aflahlutdeilda og aflamarks. Hann kveður að um einfalda skaðabótakröfu sé að ræða og krafan sé um 2% þeirra verðmæta sem skiptu um hendur, í samræmi við gjaldskrá stefnanda.
Niðurstaða.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi allra stefndu sem nemi 2% af þeim verðmætum sem ,,hann hafi fengið til sölumeðferðar hjá stefnda, Jóni Erlingssyni ehf.” Þótt fyrir liggi í málinu að stefndu, Margrét, Jónas og Sigurjón seldu hlutabréf sín í Jóni Erlingssyni ehf. til stefndu, Vinnslustöðvarinnar hf. verður ekki glögglega ráðið af stefnu hvort hlutabréfin eru þau verðmæti sem stefnandi telur sig hafa fengið til sölumeðferðar, eða einhver önnur. Þá er fjárhæðin, 1.108.076.219 krónur, sem stefnufjárhæð er reist á, alveg órökstudd og sett fram án sundurliðunar. Í stefnu er ekki vísað til neinna skjala til stuðnings henni, nema þess að ,,söluverðmæti” aflahlutdeilda og aflamarks Jóns Erlingssonar ehf., hafi verið staðfest af fyrirtækinu Bátar og Búnaður ehf., kt. 410467-0119, Barónsstíg 5, Reykjavík. Eitt gagn er að finna í skjölum málsins frá því fyrirtæki, dómskjal nr. 22, og ber það yfirskriftina ,,Fyrirspurn” og er þar vissulega greint frá verði á aflahlutdeildum í aflamarkskerfi í maí 2001. Skjal þetta skýrir þó ekki grundvöll stefnukröfunnar. Þá hefur stefnandi enga grein gert fyrir því hvers vegna kröfum er beint að Vinnslustöðinni hf. í máli þessu.
Samkvæmt framangreindu er alveg óljóst hvert meint tjón stefnanda er, og á engan hátt ráðið hver grundvöllur skaðabótakröfu stefnanda er. Þá er ekki heldur að finna nokkra tilvitnun til lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, nema tilvísun til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Þegar allt framangreint er virt þykja þeir annmarkar vera á reifun málsins af hálfu stefnanda og röksemdir hans fyrir kröfum sínum með þeim hætti að óhjákvæmilegt þykir að vísa málinu frá dómi með vísan til e- og f-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þegar litið er til þess að mál milli sömu aðila og um sömu kröfur hefur áður verið höfðað og því vísað frá dómi, þykir rétt í ljósi úrslita málsins og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefndu, Margréti Magnúsdóttur, Jónasi Gestssyni og Sigurjóni Jónssyni hverju fyrir sig 70.000 krónur í málskostnað, en Jóni Erlingssyni ehf. og Vinnslustöðinni hf., hvoru fyrir sig 50.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefndu, Margréti Magnúsdóttur, Jónasi Gestssyni og Sigurjóni Jónssyni hverju fyrir sig 70.000 krónur í málskostnað, en Jóni Erlingssyni ehf. og Vinnslustöðinni hf., hvoru fyrir sig 50.000 krónur í málskostnað.