Hæstiréttur íslands

Mál nr. 222/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting
  • Res Judicata
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. febrúar 2005.

Nr. 222/2004.

Gunnar Jón Jónasson

(Jón Egilsson hdl.)

gegn

Þórði Þórðarsyni

(Karl Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Res judicata. Frávísun máls frá héraðsdómi.

G krafði Þ um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir af hálfu Þ. Hafði Þ verið sakfelldur með dómi Hæstaréttar í nóvember 2000 fyrir vísvitandi og refsiverða líkamsárás á G er leiddi til umrædds líkamstjóns sem talið var Þ til sakar vegna gáleysis. Í dómi Hæstaréttar var talið að háttsemi G hefði ekki verið vítalaus umrætt sinn og því rétt að hann bæri tjón sitt að 1/3 hluta sjálfur en Þ bætti honum tjónið að 2/3 hlutum. Hins vegar var talið að framsetning kröfugerðar G væri svo ruglingsleg og í innbyrðis ósamræmi að ekki samræmdist fyrirmælum í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hefði G við meðferð málsins ekki náð að skýra nægilega þau atriði er lytu að innborgunum, höfuðstól og vaxtaútreikningi stefnukröfunnar. Vegna þessa annmarka á málatilbúnaði G varð ekki komist hjá að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2004. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.856.250 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. og 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. ágúst 1999 til 30. september 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla síðargreindu laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt að teknu tilliti til innborgana 150.000 króna miðað við 21. febrúar 2001 og 2.500.000 króna miðað við 8. júlí 2002. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 10. ágúst 2004. Hann krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var gagnáfrýjandi með dómi Hæstaréttar 2. nóvember 2000, sem birtur er í dómasafni réttarins fyrir það ár bls. 3396, sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 8. ágúst 1999 gripið um og snúið upp á hægri þumalfingur aðaláfrýjanda og brotið hann. Var háttsemi gagnáfrýjanda heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að aðilarnir hafi þá ráðist hvor gegn öðrum með ryskingum, höggum og spörkum og hafi háttsemi hvors um sig verið orðin slík að telja mætti hana vísvitandi árás á líkama hins, svo sem um ræðir í upphafsorðum 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í því efni breyti engu hvor hafi stofnað til átakanna. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, en upptök átaka voru ekki rakin frekar til annars þeirra en hins. Sérstaklega var tilgreint að aðaláfrýjandi hafi fyrir gáleysi gagnáfrýjanda orðið fyrir áverkanum í lok átakanna, en ekki eftir þau eins og hann heldur nú fram. Er ekkert fram komið í málinu sem haggar niðurstöðu Hæstaréttar um málsatvik, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður við hana miðað við úrlausn í máli þessu.

Með dómi héraðsdóms í umræddu sakamáli hafði gagnáfrýjandi verið dæmdur til greiðslu bóta samtals að fjárhæð 271.636 krónur, eða 21.636 krónur vegna útlagðs lækniskostnaðar, 150.000 krónur í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, og 100.000 krónur vegna kostnaðar aðaláfrýjanda við að halda fram bótakröfu sinni. Í framangreindum dómi Hæstaréttar var tekið fram að við yfirlýsingu gagnáfrýjanda um áfrýjun héraðsdómsins hafi þess ekki verið getið að málskot hans ætti að taka til þessarar einkaréttarkröfu, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 11. gr. laga nr. 37/1994. Í samræmi við það hafi ekki verið að því vikið í áfrýjunarstefnu að áfrýjun gagnáfrýjanda tæki til niðurstöðu um einkaréttarkröfuna, svo sem annars hefði orðið að gera samkvæmt c. lið 2. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1994. Vegna þessa gæti skaðabótakrafa aðaláfrýjanda ekki komið til úrlausnar að efni til, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991. Að þessu gættu var niðurstaða héraðsdóms um bótakröfu aðaláfrýjanda staðfest, að öðru leyti en því að kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga var vísað frá vegna formgalla.

Með áðurnefndum dómi héraðsdóms var endanlega skorið úr um einn kröfulið aðaláfrýjanda, sem var fyrir lækniskostnaði, auk þess sem fallist var á kröfu um lögmannsþóknun. Kemur ekki fram í dóminum að í málinu hafi verið haldið uppi eða reynt á þær varnir af hálfu gagnáfrýjanda, sem í þessu máli eru bornar fram til stuðnings sýknukröfu, og lúta meðal annars að eigin sök aðaláfrýjanda eða áhættutöku af hans hálfu. Verður að svo vöxnu ekki fallist á með hinum síðarnefnda að með því að gagnáfrýjandi lét hjá líða í yfirlýsingu sinni um áfrýjun að skjóta jafnframt til Hæstaréttar niðurstöðu héraðsdóms um bótakröfu, sé fyrir það girt að nú verði lagður dómur á varnarástæður gagnáfrýjanda um þá bótakröfu, sem höfð er uppi í þessu máli. Eins og að framan er rakið var um að ræða vísvitandi og refsiverða líkamsárás gagnáfrýjanda á aðaláfrýjanda er leiddi til þess að hinn síðarnefndi varð fyrir líkamstjóni sem talið var hinum fyrrnefnda til sakar vegna gáleysis. Verður því ekki fallist á þau sjónarmið gagnáfrýjanda sem hann hefur uppi til sýknu af kröfu aðaláfrýjanda um bætur fyrir þessa háttsemi á grundvelli áhættutöku eða eigin sakar. Engin efni eru heldur til að verða við kröfu gagnáfrýjanda um sýknu eða lækkun bóta á grundvelli 24. gr. skaðabótalaga. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hins vegar að telja að háttsemi aðaláfrýjanda hafi ekki verið vítalaus umrætt sinn og er því rétt að hann beri tjón sitt að 1/3 hluta sjálfur, en gagnáfrýjandi bæti honum tjónið að 2/3 hlutum.

II.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er hvorki deilt um niðurstöðu dómkvadds manns um varanlegan miska og varanlega örorku aðaláfrýjanda né niðurstöðu hans um þjáningabætur. Þá er fram komið að á grundvelli ákvarðana bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota greiddi ríkissjóður aðaláfrýjanda 150.000 krónur 21. febrúar 2001 vegna miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og aftur 2.500.000 krónur 14. ágúst 2002 vegna þjáningabóta, varnanlegs miska og tímabundinnar og varnalegrar örorku. Aðaláfrýjandi kveðst reisa dómkröfur sínar á grundvelli niðurstöðu matsmanns og gerði í héraðsdómsstefnu kröfur um að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér „skuld að fjárhæð kr. 2.839.205,-, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30.09.2003.“ Í hinum áfrýjaða dómi taldi héraðsdómari að aðaláfrýjandi skyldi bera helming tjóns síns sjálfur, auk þess sem hann sýknaði gagnáfrýjanda af tveimur tilgreindum kröfuliðum. Féllst hann á með gagnáfrýjanda að framsetning dómkrafna aðaláfrýjanda væri að einhverju leyti óskýr en ekki væru þó slíkir annmarkar á málatilbúnaði hans að vísa bæri málinu frá dómi án kröfu. Var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 2.341.920 krónur, annars vegar með 4,5 % vöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum til 12. mars 2004 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, 150.000 krónum 21. febrúar 2001 og 2.512.658 krónum 14. ágúst 2002. Í áfrýjunarstefnu lýsti aðaláfrýjandi kröfu sinni þannig að um væri að ræða skaðabótakröfu „að hst. kr. 4.777.410,-. Jafnframt krafist kr. 78.840, sem er útlagður kostnaður við að staðreyna tjón áfrýjanda auk 4,5% vaxta kr. 645.609,- samtals kr. 5.501.859,- auk dráttarvaxta og málskostnaðar- og að teknu tilliti til innborgana kr. 150.000,- og 2.500.000,- með vöxtum kr. 12.658, sem gerir stefnufjárhæð áfrýjanda fyrir héraðsdómi.“ Kröfugerð aðaláfrýjanda í greinargerð hans fyrir Hæstarétti er eins og að framan greinir að höfuðstól 4.856.250 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, sbr. og 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. ágúst 1999 til 30. september 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla síðargreindu laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt að teknu tilliti til innborgana 150.000 króna miðað við 21. febrúar 2001 og 2.500.000 króna miðað við 8. júlí 2002. Þrátt fyrir framanritað kveðst aðaláfrýjandi gera sömu dómkröfur fyrir Hæstarétti og hann gerði í héraði. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að framsetning kröfugerðar aðaláfrýjanda sé svo ruglingsleg og í innbyrðis ósamræmi að ekki samræmist fyrirmælum í d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hefur aðaláfrýjandi við meðferð málsins ekki náð að skýra nægilega þau atriði er lúta að innborgunum, höfuðstól og vaxtaútreikningi stefnukröfunnar. Vegna þessa annmarka á málatilbúnaði aðaláfrýjanda verður ekki komist hjá að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2004.

I

Mál þetta var höfðað 27. mars 2003 og dómtekið 26. febrúar 2004.

Stefnandi er Gunnar Jón Jónasson, kt. [...], Einihlíð 13, Hafnarfirði en stefndi er Þórður Þórðarson, kt. [...], Vaðlaseli 2, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.839.205 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30. september 2003 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

II

Málavextir eru þeir að aðilar máls þessa voru staddir á veitingahúsi aðfaranótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 og varð sundurorða.  Leiddi það til átaka milli þeirra á veitingahúsinu sem lauk á skömmum tíma með því að þeir voru skildir að og stefnanda vísað þaðan út.  Nokkru síðar yfirgaf stefndi veitingahúsið og hitti stefnanda fyrir utan og kom þar aftur til átaka milli þeirra og voru þeir enn á ný skildir að.  Í átökum aðila hlutu þeir báðir áverka og brotnaði hægri þumalfingur stefnanda í þeim.

Stefnandi kærði stefnda fyrir líkamsárás og var hann í kjölfarið ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sbr. mál nr. S-345/2000, ákæruvaldið gegn Þórði Þórðarsyni.  Í ákæru greinir að höfðað sé opinbert mál á hendur stefnda fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 í Austurstræti í Reykjavík, gripið um hægri þumalfingur stefnanda og snúið upp á fingurinn með þeim afleiðingum að fingurinn brotnaði.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2000 var talið sannað að stefndi hefði gripið um fingur stefnanda og brotið hann og hafi honum mátt vera ljóst að fingurbrot gæti hlotist af þessum aðförum hans.  Var stefndi því dæmdur fyrir þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir og hlaut hann 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvo ár.  Þá var hann dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þá var hann dæmdur til að greiða stefnanda lögmannskostnað vegna bótakröfu og meðferðar málsins samtals að fjárhæð 100.000 krónur og útlagðan lækniskostnað samtals að fjárhæð 21.636 krónur. 

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp dóm í málinu 2. nóvember 2000 sbr. mál nr. 248/2000.  Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að stefndi hefði með vísvitandi árás valdið stefnanda slíku tjóni á líkama sem um ræðir í 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Hins vegar þótti varhugavert að telja sannað að stefndi hefði af ráðnum hug snúið upp á fingur stefnanda og var því metið stefnda til gáleysis að fingur stefnanda brotnaði í átökunum.  Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að stefndi gerðist sekur um brotið í átökum við stefnanda, en upptök þeirra átaka voru ekki frekar rakin til stefnda en stefnanda.   Var stefndi með dómi Hæstaréttar dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár.  Miskabótakröfu stefnanda var vísað frá dómi vegna vanreifunar en staðfest var niðurstaða héraðsdóms um bætur vegna lögmannskostnaðar og lækniskostnaðar samtals að fjárhæð 121.636 krónur.

Í kjölfar áverkans leitaði stefnandi til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur.  Við skoðun á slysadeild kom í ljós aflögun á hægri þumalfingri með vægri bólgu.  Röntgenmynd sýndi mölbrot á nærkjúku við kjúkulið þumalfingursins með tilfærslu og aflögun.  Að ósk Sjóvá-Almennra trygginga hf. var þess farið á leit að Guðmundur Björnsson læknir kynnti sér fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn varðandi stefnanda og legði mat á varanlegar afleiðingar áverkans.  Í örorkumati hans sem dagsett er 18. október 2000 kemur fram  að stefnandi hafi hlotið fingurbrot þegar snúið hafi verið upp á hægri þumalfingur hans.  Gerð hafi verið aðgerð daginn eftir og brotið rétt og fest með innri festingu.  Hafi hann verið í gifsumbúðum í 6 vikur, síðan í sjúkraþjálfun og hafi ástand verið að mestu óbreytt um allnokkurt skeið.  Sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegum meinum vegna slyssins.  Læknismeðferð og þjálfun teljist lokið og er það mat læknisins að tímabært sé að meta varanlega og læknisfræðilega örorku og sé hún hæfilega metin 10%.

Lögmaður stefnanda óskaði þess þann 6. febrúar 2001 að Sigurjón Sigurðsson læknir mæti varanlega og tímabundna örorku, miskastig og tímalengd þjáningarbóta vegna afleiðinga líkamsárásarinnar á heilsu stefnanda.  Í matsgerð læknisins, sem dagsett er 26. september 2001, kemur fram að þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi stefnandi enn töluverð einkenni frá þumlinum sem lýsi sér sem verkir við álag, kulvísi og töluvert skert hreyfing.  Nú sé það langur tími liðinn frá því að áverkinn hafi átt sér stað að ekki sé hægt að vænta frekari bata og því tímabært að meta varanleika skaðans.

Við mat á tímabundinni örorku kveðst matsmaður styðjast við frásögn stefnanda á því að hann hafi sama og ekkert verið frá vinnu vegna afleiðinga áverkans og er það því mat hans að tímabundin örorka sé engin.  Við mat á tímalengd þjáningabóta kveðst matsmaður styðjast við tímabilið frá áverkadegi og þar til sjúkraþjálfun lauk um miðjan október eða tvo og hálfan mánuð og á því tímabili hafi stefnandi ekki verið rúmfastur.  Við mat á miska kveðst matsmaður styðjast við miskatöflur örorkunefndar frá 1999 og sé miskinn 10% og varanleg örorka 10%.

Stefnandi fékk Jón Erling Þorláksson tryggingafræðing til að reikna út fjárhæð bóta miðað við niðurstöðu matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis.  Í útreikningum hans miðar hann við að stöðugleikapunktur sé 23. október 1999 þegar tímabil þjáningabóta ljúki.  Varðandi viðmiðunartekjur miðar hann við skattframtöl áranna 1997, 1998 og 1999.   Tekjur séu aðallega laun en nokkur hluti sé reiknað endurgjald, tekjur af atvinnurekstri og ökutækjastyrkur umfram kostnað.   Við bæti hann svo 6% launatekna vegna framlags í lífeyrissjóð.  Þannig reiknar tryggingafræðingurinn tjónsfjárhæð:

 

                     Laun            Annað      Vísitala           Laun               Annað            Alls

                                                           182,9___________________________________

1997        2.686.913         40.000       155,8          3.154.277          46.958       3.201.235

1998        3.271.837       523.615       170,4          3.511.849        562.026       4.073.874

1999        2.257.954       100.000       182,0           2.269.120       100.495       2.369.614

                                                          Meðaltal     2.978.415        236.493      3.214.908

       6%           178.705

Þjáningabætur á dag rúmliggjandi                                                1.300

                                    á fótum                                                700

Miskabætur 100% miski                                                           4.000.000

Lánskjaravísitala frá 1. júlí 1993  3282/4401

Tekjur                                                                                          3.214.908

6%                                                                                                   178.705

Samtals                                                                                        3.393.613

 

Veikur en á fótum 76 daga  53.200  með vísitölu                                                 71.340

Miskabætur 400.000 með vísitölu                                                                        536.380

Vextir 4,5% frá slysdegi til útreikningsdags                                            90.320

Örorka 10% árlegt tap 339.361

Margföldunarstuðull 11,845                                                                             4.019.691

vextir 4,5% frá 23. október 1999 til útreikningsdags                                        555.290

Reiknaðar bætur með vöxtum til útreikningsdags                                        5.273.023

 

Á grundvelli ákvörðunar bótanefndar, sbr. lög nr. 69/1995 um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, greiddi ríkissjóður stefnanda þann 18. maí 2000, 271.636 krónur ásamt vöxtum eða samtals 274.890 krónur á grundvelli niðurstöðu fyrrgreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2000.  Þann 31. júlí 2002 var stefnanda enn á ný greiddar bætur úr ríkissjóði að fjárhæð 2.500.000 krónur og var sú greiðsla jafnframt byggð á ákvörðun bótanefndar.

Í máli þessu er ágreiningur um bótaskyldu stefnda og fjárhæð bóta teljist bótaskylda vera fyrir hendi.

III

Stefnandi kveður að við úrlausn þessa máls verði meðal annars að hafa til hliðsjónar ákvæði 1.-2. tölulið 116. gr. laga nr. 91/1991 en bótaábyrgð stefnda hafi verið staðfest með dómi.  Hafi ekkert réttlætt verknað stefnda þegar hann hafi gripið um fingur stefnanda og mölbrotið hann.  Skipti að mati stefnanda engu máli hvor aðilanna byrjaði átök þau sem enduðu með líkamstjóni stefnanda og verði ekki lögð eigin sök á stefnanda.

Kveður stefnandi að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti bakað stefnanda það líkamstjón sem leitt hafi til örorku hans.  Hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi unnið líkamstjón stefnanda af gáleysi.  Hér sé byggt á almennu skaðabótareglunni og skipti engu um bótaskyldu og bótafjárhæð þótt verkið hafi verið unnið af gáleysi.  Hafi hvorki Hæstiréttur né Héraðsdómur Reykjavíkur  talið varnaðarsjónarmið eða tilfinningaleg sjónarmið réttlæta gerðir stefnanda sbr. 1. og  4. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga.

Hafi verið búið að skilja aðila í sundur þegar stefnandi hafi tekið þá ákvörðun að grípa í hægri hönd stefnanda og brjóta fingur hans.  Með þessu atferli sínu beri stefnandi, á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, bótaábyrgð á því líkamstjóni sem hann hafi valdið stefnanda.  Beri honum því að greiða skaðabætur fyrir atvinnu­tjón, sjúkrakostnað, varanlegan miska, varanlega örorku og annað fjártjón og sérstakar bætur fyrir miska samkvæmt heimild í 26. gr. skaðbóta­laganna vegna ólögmætrar meingerðar sbr. 1. gr. og 3.-7. gr. skaðabóta­laganna.

Eins og málið sé vaxið skuli tekið mið af aðferðinni við tjónið og þær þjáningar og afleiðingar sem verknaðurinn hafi haft í för með sér.  Sé enginn hæfari til að meta það tjón en héraðsdómari, sem hafi komist að því í sakamálinu að miskabætur væru hæfilega metnar 150.000 krónur og sé gerð krafa til sömu fjárhæðar nú og hafi ríkissjóður greitt stefnanda þá fjárhæð.

Séu bætur fyrir 10% varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, 10% varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. og þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaganna samtals að fjárhæð 5.273.023 krónur miðað við 30. september 2002.

Þá sé útlagður kostnaður vegna reiknings fyrir örorkumatsgerð Sigurjóns Sigurðssonar 56.430 krónur sem greiddur hafi verið 5. október 2001 og vegna reiknings Jóns Erlings Þorlákssonar 22.410 krónur sem greiddur hafi verið 2. október 2002.

Þessu til frádráttar komi svo innborgun frá ríkissjóði 150.000 krónur vegna refsimiska og 2.500.000 krónur vaxtareiknað miðað við 30. september 2002 að fjárhæð 2.512.658 krónur.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til almennu sakarreglunnar.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar hann til laga nr. 50/1988.  Um varnarþing vísar hann til 32. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að hann sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda.  Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sínu í átökum við stefnda og hafi hann gengið sjálfviljugur til þeirra átaka.  Með dómi Hæstaréttar hafi því verið slegið föstu að báðir aðilar máls þessa hefðu ráðist hvor gegn öðrum með höggum og spörkum og þar með báðir framið vísvitandi árás á líkama hins.  Sé ljóst að upptök þeirra átaka verði ekki síður rakin til stefnanda en stefnda.  Af meginreglum skaðabótaréttar um áhættutöku og niðurlagsákvæði 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281 leiði, að við þessar aðstæður beri stefndi ekki skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi krefji hann um í máli þessu.  Með því að ráðast gegn stefnda hafi stefnandi tekið áhættu af því að verða fyrir tjóni og falli því niður réttur hans til skaðabóta.

Skipti í þessu sambandi engu máli að stefndi hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum fyrir sinn þátt í átökunum enda séu skilyrði til að sakfella stefnda fyrir slíkt brot önnur en skilyrði skaðabótaréttar.  Af dómi Hæstaréttar blasi við að háttsemi stefnda hafi í engu verið frábrugðin háttsemi stefnanda og komi beinlínis fram að stefnandi hafi framið vísvitandi árás á líkama stefnda.

Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi á grundvelli meginreglna skaðabótaréttar um eigin sök tjónþola og fyrrgreinds ákvæðis Mannhelgisbálks Jónsbókar að bera tjón sitt sjálfur.  Eins og fram komi í dómi Hæstaréttar hafi áverki stefnanda verið metinn stefnda til gáleysis og lagt til grundvallar að hann hefði orðið í átökum milli aðilanna.  Beri stefnandi fulla ábyrgð á átökunum og afleiðingum þeirra og leiði það til sýknu.

Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á ákvæði 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem segi að lækka megi eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt megi telja eða álíta verði að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna.  Sé ljóst að það yrði stefnda afar þungbært fjárhagslega að þola dóm um skyldu til að greiða stefnanda hina umkröfðu fjárhæð.  Auk þess telur stefndi ósanngjarnt að stefnandi geti krafið stefnda um bætur fyrir tjón sem hafi orðið í átökum milli aðila sem stefnandi hafi fremur átt upptökin að.  Þá sé á það bent að stefnda hafi þegar verið gerð refsing vegna þátttöku sinnar í átökum aðila.

Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi þegar fengið 2.771.636 krónur greiddar frá íslenska ríkinu á grundvelli laga nr. 69/1995.  Hafi ríkisféhirðir krafið stefnda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, sem hafi hafnað kröfunni á þeim forsendum að hann beri ekki skaðabótaábyrgð  gagnvart stefnanda.  Þá hafi stefndi enn fremur bent á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 69/1995 þeirri afstöðu sinni til stuðnings.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda að fullu felist í henni krafa um lækkun á fjárkröfum stefnanda.  Byggi sú krafa á sömu málsástæðum og sýknukrafan um áhættutöku stefnanda og hans eigin sök auk 24. gr. skaðabótalaga.  Sé ljóst að mati stefnda að stefnandi eigi að bera meginhluta tjóns síns sjálfur.

Verði stefndi talinn bera ábyrgð á tjóni stefnanda mótmæli hann útreikningi kröfunnar.  Telur hann að útreikningur dómkröfu og frádráttarliðir séu ruglingslegir sem jafnvel gæti leitt til frávísunar málsins ex officio.

Eftir því sem stefndi komist næst sé hluti höfuðstóls stefnukröfunnar 4,5% vextir.  Þessum kröfuháttum sé mótmælt enda geri stefnandi ekki kröfu um skaðabótavexti af höfuðstól dómkröfunnar hvorki samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga né öðrum lagaákvæðum.  Séu af höfuðstól stefnukröfunnar 645.610 krónur vegna vaxta sem ekki sé krafist í dómkröfu.

Af útreikningi tryggingafræðingsins sjáist að til grundvallar tekjuviðmiði samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi verið lagðar árstekjur áranna 1997, 1998 og 1999.  Sé það andstætt ákvæðinu enda segi þar að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag.

Kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga mótmælir stefndi sérstaklega.  Sé hvorki lagagrundvöllur fyrir kröfunni né efnisrök fyrir því að taka hana til greina.  Sé fráleitt að hægt sé að krefja stefnda um miskabætur í ljósi málavaxta. 

Þá mótmælir stefndi kröfu um greiðslu á útlögðum kostnaði vegna útreiknings Jóns E. Þorlákssonar enda sé hann óþarfur og á verksviði lögmanna að reikna út bótakröfur skjólstæðinga sinna.

Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 sbr. og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V

Eins og fram kemur í 116. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til og verður krafa sem dæmd hefur verið að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól.  Þá hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað.

Eins og rakið hefur verið var stefndi, með dómi Hæstaréttar, í máli nr. 248/2000, uppkveðnum 2. nóvember 2000, dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Í því ákvæði segir, að hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, varði það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum ef sérstakar málsbætur eru.  Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda mætti rekja til gáleysis stefnda.  Þar sem upptök átakanna þóttu ekki frekar verða rakin til stefnda en stefnanda var beitt refsilækkunarákvæði 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga þar sem segir að ef líkamsárás er unnin í áflogum eða átökum milli þess sem henni veldur og þess sem misgert er við sé heimilt að lækka refsingu eða jafnvel láta hana falla niður ef verknaður á undir 217. gr.

Af þessu er ljóst að með dómi Hæstaréttar var stefndi dæmdur fyrir að hafa valdið stefnanda tjóni á líkama hans með vísvitandi líkamsárás og voru afleiðingar árásarinnar taldar honum til sakar vegna gáleysis.  Er því með dóminum búið að slá því föstu að stefndi hafi með saknæmum hætti valdið stefnda tjóni sem hann beri skaðabótaábyrgð á.  Kemur sú niðurstaða því ekki til endurskoðunar í þessu máli sbr. tilvitnað ákvæði 116. gr. laga um meðferð einkamála.

Í málinu er ekki deilt um afleiðingar fingurbrotsins á heilsu stefnanda.  Þá er ekki deilt um niðurstöðu matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis.  Verður hún því lögð til grundvallar útreikningi bótafjárhæðar í málinu.  Stefnandi fól Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi að reikna út tjón hans miðað við niðurstöðu matsgerðar um örorku stefnanda og eru útreikningar tryggingafræðingsins byggðir á skaðabótalögunum nr. 50/1993 og dagsettir 30. september 2002.  

Fallast verður á það með stefnda að framsetning dómkrafna stefnanda er að einhverju leyti óskýr en ekki þykja þó slíkir annmarkar á málatilbúnaði hans að það leiði til frávísunar málsins án kröfu. 

Stefnandi krefst þjáningabóta með vísan til 3. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993 sbr. lög nr. 37/1999 og er þeirri kröfu ekki andmælt sérstaklega eða útreikningi hennar.  Þegar tjónþoli er veikur án þess að vera rúmfastur skal greiða 700 krónur í þjáningarbætur fyrir tímabil frá því að tjón verður þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt.  Stefnandi slasaðist 8. ágúst 1999 og af gögnum málsins verður ráðið að heilsufar hans hafi orðið stöðugt 23. október 1999 þegar sjúkraþjálfun hans lauk.  Samkvæmt því er tímabil þjáningabóta 76 dagar eða samtals 53.200 krónur og með vísitölu 3282/4401, sbr. 15. gr. skaðabótalaganna  er fjárhæð þjáningabóta 71.340 krónur.

Stefnandi gerir kröfu um bætur fyrir 10% varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á grundvelli niðurstöðu matsgerðar og hefur þeirri kröfu ekki verið andmælt sérstaklega.  Við mat á bótum fyrir varanlegan miska skal líta til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði og til þeirra erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola.  Að teknu tilliti til aldurs stefnanda og niðurstöðu matsgerðar sem ekki hefur verið mótmælt, eru bætur fyrir varanlegan miska hæfilega metnar 400.000 krónur eða 536.380 krónur með vísitölu sbr. 15. gr. skaðabótalaganna..

Eins og rakið er í 6. gr. skaðabótalaganna á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku ef líkamstjón veldur varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag, leiðrétt samkvæmt launavísitölu og margföldunarstuðli í samræmi við aldur tjónþola sem tilgreindur er í ákvæðinu. 

Í kröfugerð sinni miðar stefnandi við meðaltekjur áranna 1997, 1998 og 1999 og er niðurstaðan meðaltekjur að fjárhæð 3.214.908 krónur.  Stefndi hefur mótmælt þeirri viðmiðun og telur að rétt sé að miða útreikning við meðaltekjur áranna 1996,1997 og 1998.  Vegna áskorunar stefnda lagði stefnandi fram nýja útreikninga á meðaltekjum vegna áranna 1996, 1997 og 1998 og er niðurstaðan úr þeim útreikningi mun hærri meðaltekjur eða 3.709.668 krónur og verður því miðað við þann útreikning sem stefnandi byggir kröfu sína á.  Útreikningi kröfunnar hefur ekki verið andmælt að öðru leyti og verður því útreikningur stefnanda lagður til grundvallar þessum kröfulið.  Samkvæmt honum er árlegt tekjutap stefnanda 339.361 króna og margföldunarstuðull 6. gr. skaðabótalaganna miðað við aldur stefnanda 11,845.  Þannig verða bætur vegna varanlegrar örorku hæfilega metnar 4.019.691 króna.

Þá gerir stefnandi kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaganna.  Samkvæmt því ákvæði er heimilt að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni, greiða miskabætur til þess sem misgert er við.  Með vísan til þess sem slegið hefur verið föstu, að tjón stefnanda verði rakið til gáleysis stefnda og að öðru leyti með hliðsjón af atvikum málsins er ekki fullnægt skilyrði ákvæðisins að stefndi hafi valdið tjóni á heilsu stefnanda með ásetningi eða stórfelldu gáleysi.  Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið.

Krafa stefnanda um útlagðan kostnað vegna örorkumatsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis að fjárhæð 56.430 krónur hefur ekki verið andmælt sérstaklega enda óhjákvæmilegur kostnaður við að staðreyna örorku stefnanda.  Hins vegar verður að fallast á það með stefnda að útlagðan kostnað vegna þeirrar ákvörðunar stefnanda að njóta liðsinnis tryggingafræðings við útreikning kröfu sinnar, verði hann að bera sjálfur og verður stefndi því sýknaður af þeirri kröfu.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið er útreiknað fjártjón stefnanda vegna áverkans samtals að fjárhæð 4.683.840 krónur ef frá eru taldar þær bætur sem honum voru dæmdar í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar að fjárhæð 121.636 krónur sem honum hafa þegar verið greiddar úr ríkissjóði.

Stefndi krefst þess að bætur verði felldar niður eða lækkaðar á grundvelli 24. gr. skaðabótalaga þar sem segir að lækka megi eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt megi telja eða álíta verði að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna.  Stefndi hefur engin haldbær gögn lagt fram til stuðnings þessari kröfu sinni og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. 

Eins og komið hefur fram fékk stefnandi áverkann í átökum við stefnda og var það niðurstaða Hæstaréttar að átökin hafi fyrir gáleysi stefnda leitt til þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir.  Þá var það og niðurstaða Hæstaréttar að upptök átaka aðila væru ekki frekar rakin til stefnda en stefnanda og eins og segir í dómi Hæstaréttar var samræmi í frásögn vitna sem báru um átök aðila um að þeir hafi ráðist hvor gegn öðrum með ryskingum, höggum og spörkum eftir að fundum þeirra bar saman.  Hafi þá háttsemi þeirra hvors um sig verið orðin slík að hana megi telja vísvitandi árás á líkama hins og var það mat Hæstaréttar að engu breytti hvor hafi stofnað til átakanna.  Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum virðist sem hending ein hafi ráðið hvor þeirra slasaðist eins alvarlega og raun ber vitni og með þeirri háttsemi sinni að taka þátt í átökunum tók stefnandi þá áhættu að verða fyrir tjóni og þykir hann því hafa fyrirgert rétti til fullra bóta úr hendi stefnda þótt ekki verði fallist á það með stefnda að stefnandi hafi fyrirgert öllum bótarétti með háttsemi sinni sbr. tilvísun hans til Mannhelgisbálks Jónsbókar, 13. Kap. um váðaverk. 

Þegar virtur er þáttur aðila hvors um sig í þeim atburði sem leiddi til tjóns stefnanda þykir hæfilegt að stefnandi beri tjón sitt að hálfu og stefndi bæti honum það að hálfu.  Eftir stefndur þá skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda að höfuðstól 2.341.920 krónur. 

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt á 4,5% vöxtum af kröfu sinni svo sem hann gerir ráð fyrir í útreikningi kröfunnar, þar sem hann geri ekki kröfu um skaðabótavexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga.  Eins og krafa stefnanda er fram sett að þessu leyti er ljóst að innifalið í höfuðstól kröfu hans eru vextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga sem stefnandi hefur látið tryggingafræðing reikna út. Eins og málið liggur fyrir dóminum verður kröfugerð stefnanda ekki skilin á annan veg en að hann krefjist 4,5% vaxta á kröfu sína samkvæmt 16. gr. skaðabótalaganna þannig:  Af bótum vegna þjáninga og varanlegs miska frá 8. ágúst 1999 til 30. september 2003  og af bótum vegna varanlegrar örorku frá 23. október 1999 til 30. september 2003.  Er krafa stefnanda í samræmi við ákvæði 16. gr. skaðabótalaganna og verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.  Þá skulu dráttarvextir reiknaðir frá dómsuppsögudegi, sbr. 2. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001.

Til frádráttar kröfu stefnanda koma greiðslur sem stefnandi hefur fengið inn á tjón sitt frá ríkisféhirði, samtals að fjárhæð 2.662.658 krónur, en stefnandi dregur þá fjárhæð frá kröfufjárhæðum sínum og hefur sú fjárhæð ekki sætt andmælum.

Með hliðsjón af atvikum máls þessa þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Egilsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Heimir Örn Herbertsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi Þórður Þórðarson, greiði stefnanda, Gunnari Jóni Jónassyni, 2.341.920 krónur með 4,5% vöxtum af 303.860 krónum frá 8. ágúst 1999 til 23. október 1999, af  2.313.705 krónum frá þeim degi til 12. mars 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 2.341.920 krónum frá 12. mars 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 150.000 krónum þann 21. febrúar 2001 og 2.512.658 krónum þann 14. ágúst 2002.

Málskostnaður fellur niður.