Hæstiréttur íslands

Mál nr. 317/2014


Lykilorð

  • Ærumeiðingar


                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 317/2014.

 

Ásmundur Ásmundsson

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Kristni E. Hrafnssyni

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

Ærumeiðingar.

Á höfðaði mál á hendur K vegna ummæla í blaðagrein hins síðarnefnda þar sem fram kom meðal annars að Á væri þekktastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra. Krafðist Á þess að ummælin yrðu ómerkt og að K yrði dæmdur til refsingar vegna þeirra. Þá krafðist hann miskabóta úr hendi K og fjárhæðar til að standa straum af birtingu dómsins í dagblaði. Blaðagrein K var liður í ritdeilu aðila vegna nýráðins rektors Listaháskóla Íslands, en K hafði gagnrýnt ráðninguna á opinberum vettvangi og Á svarað þeirri gagnrýni með blaðagrein af sinni hálfu. K tjáði sig í kjölfarið um grein Á og höfðu hin umdeildu ummæli verið viðhöfð í þeirri grein. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að grein Á sjálfs hefði verið hvassyrt og að hann hefði í ljósi hennar mátt eiga von á viðlíka viðbrögðum frá K. Tjáningarfrelsið væri rýmra þegar svo háttaði til en þegar ummæli væru viðhöfð án nokkurrar forsögu eða tilefnis af hálfu þess sem þau beindust að. Leggja yrði til grundvallar að fyrrgreind ummæli K hefðu beinst að umdeildu verki Á sem sýnt hefði verið á sýningu í Nýlistasafninu, en umrætt verk hefði verið fjarlægt úr sýningarrými safnsins þar sem margir hefðu talið það brjóta gegn sæmdarrétti höfunda annars verks. K hefði með ummælum sínum lýst afstöðu sinni til þessa umdeilda verks og yrði að játa honum heimild til að láta þá afstöðu í ljós. Þá yrði að telja að listamenn, sem kysu að sýna verk sín opinberlega og taka þátt í opinberri umræðu á sínu fagsviði, yrðu að þola að um þá væri fjallað með opinskárri og gagnrýnni hætti en annars. Var því ekki talið að K hefði farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis og hann sýknaður af kröfum Á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. mars 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 30. apríl 2014 og var áfrýjað öðru sinni 9. maí sama ár. Áfrýjandi krefst þess að ómerkt verði ummælin: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna“ sem stefndi viðhafði um sig í grein í Morgunblaðinu 8. maí 2013 og honum gerð refsing fyrir þau. Einnig krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2013 til 23. júní sama ár og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og 150.000 krónur til að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ásmundur Ásmundsson, greiði stefnda, Kristni E. Hrafnssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

                Mál þetta, sem var dómtekið 3. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ásmundir Ásmundssyni, Ljósvallagötu 16 í Reykjavík á hendur Kristni E. Hrafnssyni, Mjóstræti 4 í Reykjavík. Málið var þingfest 23. maí sl. þar sem stefndi mætti til þinghalds en stefnubirtingarvottorð er ekki meðal gagna málsins.

                Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli sem stefndi viðhafði um stefnanda í blaðagrein í Morgunblaðinu 8. maí 2013 verði dæmd dauð og ómerk: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna.“

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir að hafa viðhaft og birt opinberlega ofangreind ærumeiðandi ummæli um stefnanda á nefndum stað, en brot stefnda varði við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. sömu laga, eða til vara við 234. gr. sbr. 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. laganna.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna með vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. maí 2013 til 23. júní s.á. en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 150.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði sbr. 2. gr. 241. gr. laga nr. 19/1940.

                Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að refsi- og fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málsatvik

                Stefndi, Kristinn E. Hrafnsson, er myndlistarmaður og hefur starfað við listgrein sína um árabil. Í ferilskrá hans kemur fram að hann hafi auk þess verið stundakennari við Listaháskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskólann. Þá hefur hann tekið þátt í opinberri umræðu um myndlist og tengt efni, með greinarskrifum og fyrirlestrum og gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samtök listamanna. Hann átti m.a. sæti í undirbúningsstjórn fyrir stofnun Listaháskóla Íslands og sat í stjórn skólans í um 10 ár.

                Stefnandi er einnig starfandi myndlistarmaður. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga á ríflega 20 ára starfsferli sínum. Þá hefur hann verið virkur þátttakandi í félags- og hagsmunamálum listamanna á sama tíma og hafa honum verið falin trúnaðarstörf fyrir myndlistarmenn. Hann hefur átt sæti í stjórn Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Sambands íslenskra myndlistarmanna, Styrktarsjóðs Richard Serra og Nýlistasafnsins og situr nú í myndlistarráði.

                Þann 29. apríl 2013 skrifaði stefndi blaðagrein í Morgunblaðið sem bar yfirskriftina „og/eða um ráðningu rektors við Listaháskóla Íslands“. Í greininni er gagnrýnd ákvörðun stjórnar Listaháskólans um ráðningu rektors við skólann og skorað á stjórnina að svara þeim gagnrýnisatriðum sem stefndi setur fram í greininni. Stjórn skólans svarar stefnda með aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 4. maí. Sama dag birtist grein eftir stefnanda undir fyrirsögninni „Góður drengur/rétt manneskja“, sem einnig er svar við grein stefnda. Í greininni er lýst velþóknun á ákvörðun stjórnar háskólans um ráðningu rektorsins. Þar er hins vegar hvössum orðum beint að stefnda, m.a. staðhæft að grein stefnda sé skrifuð af annarlegum hvötum og/eða kjánaskap. Þá er stefndi gagnrýndur fyrir að setja sig á háan hest gagnvart nýjum rektor og skoðanir hans sagðar gamaldags módernískar og hafa lítið vægi nú þar sem þörf sé á þverfaglegri nálgun. Þá er grein stefnda sögð dónaleg og að í henni sé vegið harkalega og ósmekklega að starfsheiðri rektors. Stefndi svarar enn með grein í sama blaði 8. maí þar sem ummælin sem stefnt er vegna í þessu máli er að finna. Fyrirsögn þeirrar greinar er „Þverfræði“. Þar er stefnandi nefndur „hinn þverfaglegi Ásmundur Ásmundsson“. Stefndi kynnir stefnanda jafnframt þannig að hann hafi í áraraðir reynt að komast í stöður sem aðrir hafi verið hæfari til að gegna og hafi alla jafna boðað málssókn vegna ráðninganna í hótunarbréfum, sem þó hafi ekki verið fylgt eftir. Þá er rakið að stefnandi hafi setið í nefndum á vegum Sambands íslenskra myndlistamanna og síðast verið valinn í myndlistarráð. Þá segir orðrétt: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna og er það sennilega skýringin á setu hans í myndlistarráði fyrir SÍM.“

                Skömmu eftir birtingu síðastnefndu greinarinnar var stefnda birt stefna máls þessa þar sem krafist er ómerkingar fyrri hluta setningarinnar auk kröfu um refsingu, greiðslu miskabóta og kostnaðar við birtingu dómsniðurstöðu.

                Aðilar málsins gáfu skýrslu fyrir dómi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir ómerkingarkröfuna á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans með ummælum sínum í grein í Morgunblaðinu 8. maí sl. Þar fullyrði hann meðal annars að stefnandi hafi í áraraðir reynt að komast í stöður sem aðrir hafi verið hæfari til að gegna og þegar stefnandi hafi ekki verið ráðinn hafi hann sent hótunarbréf og boðað málssóknir. Þessum orðum stefnda, sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, geti stefnandi í sjálfu sér setið undir þótt undan þeim svíði eðlilega. Stefnandi geti hins vegar ekki setið undir þeirri fullyrðingu stefnda að hann sé þekktur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna en með þeim ummælum vegi stefndi að virðingu, æru og starfsheiðri stefnanda, sem myndlistarmanns, myndlistarkennara og baráttumanns fyrir réttindum myndlistarmanna. Stefnandi geri enga tilraun til að útskýra ummælin í greininni heldur láti við það sitja að fullyrða í einu víðlesnasta blaði landsins, sem lesið sé af öllum þorra almennings, að stefndi eyðileggi listaverk annarra. Ummælin veki þau hughrif hjá almennum lesanda að stefndi sé maður sem sé kunnur eða alræmdur fyrir að skemma listaverk annarra listamanna. Stefnandi sé starfandi listamaður og hafi auk þess verið virkur þátttakandi í félags- og hagsmunamálum listamanna um tveggja áratuga skeið. Hin umstefndu ummæli séu til þess fallin að skaða starfsheiður hans og orðspor í listaheiminum og með þeim sé vegið að æru hans og virðingu. Ummælinu séu meira ærumeiðandi en ella fyrir stefnanda í ljósi stöðu hans og atvinnu í listaheiminum.

                Óumdeilt sé að listaverk séu fjárhagsleg og menningarleg verðmæti sem njóti lögbundinnar verndar eignarréttar, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 sbr. VIII. kafla þeirra, og 1. málslið 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Af því sé ljóst að sú háttsemi sem stefndi fullyrðir að stefnandi sé kunnastur fyrir, felur í sér ásökun um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem jafnframt er siðferðislega ámælisverð hegðun. Eyðilegging listaverka sé andstæðan við sköpun þeirra og fari gegn öllum grunngildum þess sem geri það að ævistarfi að skapa listaverk.

                Ummæli stefnda feli í sér ærumeiðandi aðdróttun og brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Ef ekki verður fallist á að í þeim felist ærumeiðandi aðdróttun er til vara á því byggt að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og brjóti gegn 234. gr. sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Varðandi refsikröfuna vísar stefnandi til sömu sjónarmiða og að framan greini. Ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga. Þau feli í sér ærumeiðandi aðdróttun þar sem stefnanda sé gefið að sök refsiverð og siðferðilega ámælisverð hegðun sem ekki eigi við rök að styðjast. Til vara er byggt á því að ummælin séu ærumeiðandi móðgun sem varði við 234. gr. almennra hegningarlaga.

                Miskabótakrafa stefnanda er á því reist að stefndi hafi með alvarlegum hætti veist að æru stefnanda. Með því hefur stefndi framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á enda um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði er röng og borin út og birt opinberlega gegn betri vitund stefnda. Fjárhæð miskabóta stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttunar og því að stefndi meiddi æru stefnanda af ásetningi. Fjárhæð kröfunnar sé því hófleg. Réttur stefnanda njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Öll skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993 séu til að taka kröfu stefnanda til greina.

                Krafa um birtingu dóms byggir á 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Aðdróttun stefnda sé alvarleg og stefnanda því nauðsyn að rétta hlut sinn með því að birta dómsniðurstöðu með auglýsingu í fjölmiðli. Öll lagaskilyrði séu til að taka þessa kröfu stefnanda til greina.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi vísar til þess að tjáningarfrelsið sé varið af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tjáningarfrelsið sé einn af hornsteinum lýðræðisins og í því séu fólgin mikilsverð mannréttindi. Þjóðir heims hafi þurft að berjast fyrir þessum mannréttindum um aldir og víða séu þau ekki til staðar eða verulega skert. Ísland tilheyrir vestrænum lýðræðisríkjum þar sem mannréttindi séu hvað best varin, þar með talið tjáningarfrelsið. Helstu baráttumenn aukinna mannréttinda hafi verið listamenn í víðri skilgreiningu þess orðs. Stefnandi reyni með málssókn sinni að skerða þau stjórnarskrárvörðu mannréttindi stefnda að hann fái lýst skoðunum sínum í blaðagrein.

                Í grein stefnda í Morgunblaðinu frá 29. apríl sl. er tilteknum athugasemdum beint að stjórn Listaháskóla Íslands og ætlaðist stefndi til þess að stjórn skólans svaraði greininni sem hún og gerði. Stefndi ætlaði sér aldrei að skiptast á skoðunum við stefnanda á opinberum vettvangi um ráðningu rektors Listaháskólans. Stefnandi kaus að stofna til þeirra skoðanaskipta á afar ósmekklegan hátt, en með greininni sem birtist í Morgunblaðinu 4. maí hæddist stefnandi að stefnda og fór um hann niðrandi orðum. Stefnandi hafi þá þegar getað gert sér fulla grein fyrir því að þessari grein yrði svarað og ekkert undan dregið. Þeir sem stofni til ritdeilna á opinberum vettvangi verði að vera undir það búnir að ásökunum þeirra og illmælgi sé svarað. Um leið og þeir gagnrýni aðra verði þeir að vera menn til að taka gagnrýni. Allt sé þetta órjúfanlegur hluti tjáningarfrelsisins. Einnig séu störf listamanna og skoðanir þeirra sífellt til umræðu á opinberum vettvangi og hafi bæði stefnandi og stefndi um langt árabil lagt verk sín og skrif í dóm annarra.

                Þá byggir stefndi á því að umdeild ummæli séu sönn. Sú kenning sé forn að stofni, upprunnin úr Rómarrétti, að ekki verði refsað fyrir sönn ummæli („exeptio veritas“). Meginreglan er því sú að ekki verður refsað fyrir sönn ummæli og megi í því sambandi m.a. vísa til athugasemda í greinargerð með ákvæði 237. gr. hegningarlaganna.

                Stefndi var með umdeildum ummælum að vísa til þeirrar miklu almennu umræðu og fjölmiðlaumræðu sem varð eftir opnun sýningar í Nýlistasafninu þar sem stefnandi sýndi verkið „Fallegasta bók í heimi“ sem var unnið úr verki listamannsins Eggerts Péturssonar „Flora Islandica.“ Stefndi sé þeirrar skoðunar að verk listamannsins Eggerts Péturssonar hafi verið eyðilagt með verknaði stefnanda. Stefndi sé ekki einn þessarar skoðunar. Listamaðurinn Eggert Pétursson taldi að níðingsverk hefði verið unnið á verki sínu og útgefandi bókarinnar krafðist þess að verkið yrði tekið af sýningunni og því eytt í vitna viðurvist. Stjórn Nýlistasafnsins fjarlægði verkið og taldi afar líklegt að sæmdarréttur listamannsins Eggerts Péturssonar hefði verið brotinn með verki stefnanda. Stefndi er sömu skoðunar og framangreindir aðilar um að höfundarheiður Eggerts Péturssonar hafi verið vanvirtur með verki stefnanda. Álit stjórnar Nýlistasafnsins byggðist á afdráttarlausu minnisblaði frá Rétti lögmannstofu. Forseti Bandalags íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir, lýsti því og í útvarpsviðtali að sæmdarréttur hefði verið brotinn á Eggerti Péturssyni. Stefndi er þeirrar skoðunar að stefnandi hafi gerst brotlegur gegn ákvæðum höfundarlaga og að sækja hefði mátt hann til ábyrgðar samkvæmt VII. kafla laganna. Stefndi telur að ekkert verk stefnanda hafi vakið jafn mikla athygli og verkið „Fallegasta bók í heimi“. Hvorki fyrr né síðar hafi stefnandi fengið jafnmikla umfjöllun meðal almennings, listamanna og í fjölmiðlum. Verkið hafi m.a. verið efni í BA-ritgerð við hugvísindasvið Háskóla Íslands og stefnandi hafi kynnt það á sérstöku námskeiði við Róttæka sumarháskólann. Stefndi telur, eins og fjölmargir aðrir, að stefnandi hafi eyðilagt verk listamannsins Eggerts Péturssonar og hann telur að umdeild ummæli sín séu sönn. Stefndi telur jafnframt að verkið „Fallegasta bók í heimi“ sé þekktasta verk stefnanda. Stefnda sé frjálst að vera þessarar skoðunar og nýtur skoðun hans verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

                Stefndi var í góðri trú er hann svaraði grein stefnanda í Morgunblaðsgrein sinni. Hann var þeirrar trúar að ummæli sín byggðust á staðreyndum. Hann var jafnframt að lýsa upplifun sinni á verki stefnanda sem hann taldi vera eyðileggingu á verki listamannsins Eggerts Péturssonar. Hann var jafnframt þeirrar trúar að þetta væri þekktasta verk stefnanda. Stefndi þekkir ekkert verk stefnanda sem er frægara en „Fallegasta bók í heimi“.

                Verði ekki á það fallist að ummæli stefnda hafi verið sönn þá lýsi þau þó skoðun hans sem byggi á gildisdómi. Gildisdómar lýsi huglægu mati stefnda sem honum sé frjálst að lýsa. Huglægt mat stefnda telst ekki brot á tjáningarfrelsi og er ekki refsivert að íslenskum lögum.

                Krafa stefnanda felst í því að stefndi verði látinn greiða sektir, settur í fangelsi og látinn greiða miskabætur. Allt séu þetta dómkröfur sem heyri fortíðinni til og gætu hafa komið til einhverra álita snemma á síðustu öld. Dómkröfur stefnanda séu í öllum atriðum í ósamræmi við tilefnið, tíðarandann og dóma Hæstaréttar og mannréttindadómstóls Evrópu.

Stefnandi byggir refsikröfur sínar í fyrsta lagi á 235. gr. almennra hegningarlaga og vill fá stefnda dæmdan til greiðslu sektar eða fangelsi allt að einu ári. Eins og rakið hafi verið hér að framan sé það í fyrsta lagi meginregla íslensks réttar að ekki verði dæmd refsing fyrir sönn ummæli. Í öðru lagi hafi Hæstiréttur Íslands og mannréttindadómstóll Evrópu markað þá stefnu að gildisdómar sem hafa að geyma huglægt mat séu varðir af tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómkröfu stefnanda sé þess krafist að hluti setningar sé dæmdur ómerkur og refsað vegna hans. Setninguna verði að skoða í fullu samhengi, ekki aðeins fyrri hlutann, heldur einnig þann seinni. Í heild hafi setningin verið svohljóðandi: Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna og er það sennilega skýringin fyrir setu hans í myndlistarráði fyrir SÍM. Hér er stefndi að lýsa skoðunum sínum og telur sennilegt að tiltekið athæfi hafi leitt til setu stefnanda í myndlistaráði. Í þessu felast engar aðdróttanir. Slíkar hugrenningar eru ekki refsiverðar samkvæmt íslenskum rétti.

                Til vara vísi stefnandi til 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. sömu laga. Aftur vilji stefnandi sekta stefnda eða koma honum í fangelsi allt að einu ári. Til þess að svo megi verða þarf stefndi að hafa meitt æru stefnanda. Sýnt hefur verið fram á að slíkar ásakanir eigi ekki við rök að styðjast. Þvert á móti hafi stefndi haldið því fram að stefnandi hafi orðið kunnastur fyrir tiltekið athæfi sem stefnandi hafi gengist við og hljóti að vera stoltur af. Ekki sé undir  neinum kringumstæðum hægt að refsa stefnda fyrir skoðanir hans, skoðanir sem margir aðrir deila með honum og hafa verið umfjöllunarefni á opinberum vettvangi.

                Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum eina milljón króna í miskabætur. Spyrja megi hver hinn eiginlegi miski sé; er það að hafa svarað blaðagrein stefnanda eða að hafa talið hann kunnastan fyrir að eyðileggja listaverk annarra, þ.e. listamannsins Eggerts Péturssonar? Krafa um miskabætur fyrir að skapa „Fallegustu bók í heimi“ og gera ritdeilu sem stefnandi stofnaði til að féþúfu sé að mati stefnda algjörlega andstætt ákvæði laga um tjáningarfrelsi og beri að sýkna stefnda af þeirri kröfu. Að sama skapi beri að sýkna stefnda af kröfu um 150 þúsund krónur til að birta forsendur og niðurstöðu dóms.

                Til vara krefst stefndi þess, gangi dómur honum í óhag, að refsing í formi sektar eða fangelsisvistar verði felld niður og að miskabótakrafa stefnanda og aðrar fjárkröfur verði lækkaðar verulega. Varakröfur sínar byggi stefndi á þeim sjónarmiðum sem rakin eru að framan og aðilaskýrslu stefnda og að hann hafi í blaðagrein ekki ætlað að meiða eða hnekkja virðingu stefnanda. Þvert á móti telji stefndi að hann hafi með svargrein sinni vakið athygli á stefnanda, svo sem hann hafi sóst eftir.

                Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til 73. gr. stjórnarskrárinnar sbr. lög 33/1944 með síðari breytingum, enn fremur til 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994, til höfundarlaga nr. 73/1972 og til almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Í máli þessu er deilt um lögmæti ummæla sem stefndi viðhafði um stefnanda í blaðagrein þann 8. maí sl. Grein þessi er hluti ritdeilu milli aðila sem hófst með grein stefnda þann 29. apríl. Þeirri grein svaraði stefnandi með grein sem birtist 4. maí og stefndi svarar svo með þeirri grein þar sem umdeild ummæli birtust þann 8. maí. Fleiri urðu greinar aðila ekki en 4. maí, sama dag og grein stefnanda birtist, birtist á sama stað svargrein stjórnar Listaháskóla Íslands við grein stefnda frá 29. apríl. Í öllum tilvikum birtust skrif aðila í aðsendum greinum í Morgunblaðinu.

                Í fyrri grein stefnda skrifar hann um nýlega ráðningu á rektor Listaháskóla Íslands og gagnrýnir stjórn skólans fyrir val á rektor. Í svargrein stefnanda er stjórn skólans einnig gagnrýnd en á öðrum forsendum, auk þess sem hluta þeirrar gagnrýni má skilja sem gagnrýni á stjórnina á þeim tíma sem stefndi átti sæti í henni. Hins vegar er ákvörðun stjórnar um ráðningu nýs rektors varin og sögð byggja á víðsýni og sýna hugrekki. Í greininni segir m.a. um stefnda að greinarskrif hans séu skrifuð af annarlegum hvötum eða kjánaskap. Stefnandi kveður stefnda, í fyrri grein sinni, hafa sett sig á háan hest gagnvart nýráðnum rektor og hann hafi hæðst að henni. Hann segir gamaldags módernískar hugmyndir stefnda hafi lítið vægi nú á tímum þverfaglegrar nálgunar. Þá kveður hann stefnda hafa veist harkalega að starfsheiðri rektors með ósmekklegum dónaskap sem honum væri sæmst að biðjast afsökunar á. Af framangreindu má ráða að grein stefnanda er nokkuð hvassyrt. Mátti hann eiga von á því að hún kallaði fram viðbrögð af líku tagi. Sú varð raunin. Í grein stefnda, sem birtist fjórum dögum síðar, er stefnandi uppnefndur þverfræðingur og fyrirsögn greinarinnar, þverfræði, vísar að líkum til hans. Þá er stefnanda sýnd sú stílfræðilega vanvirða að vísað er til hans sem ráðsmannsins eða myndlistarráðsmannsins í stað þess að nefna hann nafni en undir grein stefnanda segir að höfundur sé myndlistarmaður og sitji í stjórn myndlistarráðs. Þá eru umstefnd ummæli látin falla eftir að stefnandi hefur verið kynntur með fremur óvirðulegum hætti. Í umdeildum ummælum er staðhæft að stefnandi sé þekktastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra og það talið sennilegasta skýringin á setu hans í myndlistarráði fyrir SÍM.

                Af gögnum málsins og framburði aðila fyrir dómi má ráða að ummæli stefnda vísa til umdeilds verks stefnanda sem sett var upp á sýningunni Koddu í Nýlistasafninu í apríl 2011. Stefnandi stýrði sýningunni í félagi við tvo aðra einstaklinga. Saman eru þau skrifuð höfundar að verkinu „Fallegasta bók í heimi“ sem sett var upp á sýningunni. Í verkið er notað eintak af bókinni Flora Islandica smurð með matvælum. Flora Islandica er höfundarverk Eggerts Péturssonar myndlistarmanns og Ágústs H. Bjarnasonar. Bókin var gefin út í 500 tölusettum eintökum árið 2008. Mikil umræða varð um sýningu þessa, einkum vegna umrædds verks. Eggert Pétursson myndlistarmaður lýsti því sem níðingsverki í viðtali í útvarpinu þann 23. apríl 2011, kvaðst afar ósáttur við meðferðina á verki sínu og taldi þetta skólabókardæmi um brot á sæmdarrétti. Í fréttatilkynningu frá stjórn Nýlistasafnsins sem birtist 20. apríl er tilkynnt sú ákvörðun stjórnar að fjarlægja verkið úr sýningarrými safnsins. Er sú ákvörðun rökstudd með því að verkið brjóti að öllum líkindum gegn höfundarétti höfunda bókarinnar. Í minnisblaði frá lögmanni, dags. sama dag, til stjórnar safnsins er komist að sömu niðurstöðu.

                Í aðilaskýrslu stefnda fyrir dómi lýsti hann því nánar að hann hefði fyrst og fremst átt við þetta verk þegar hann kvað stefnda vera kunnan af því að eyðileggja listaverk annarra listamanna. Fleirtalan vísi bæði til þess að fleiri en einn höfundur voru að bókinni sem notuðu var í umdeilt verk en að auki hafi átök staðið um fleiri verk á umræddri sýningu, m.a. notkun á ljósmyndum eftir Jónas Björgvinsson, sem að sögn stefnda hafi lyktað með því að þær hafi verið fjarlægðar af sýningunni og úr sýningarskrá.

                Stefnandi kvaðst kannast við mikla umræðu um listsýninguna, einkum verkið „Fallegasta bók í heimi“. Hann kvaðst þó aldrei hafa heyrt það áður að einhver hafi talið að í verkinu fælist eyðilegging á listaverki.

                Svo sem að framan greinir er óhætt að slá því föstu að umdeild ummæli stefnda vísa fyrst og fremst til verks stefnanda „Fallegasta bók í heimi“, sem sýnt var á listasýningu um tveimur árum áður en ummælin birtust. Það hefur ekki sérstaka þýðingu í málinu þótt listamaður sé notað í fleirtölu og vísi að einhverju leyti til annarra umdeildra verka sem sýnd voru á Koddu á sama tíma, svo sem stefndi bar í skýrslutöku fyrir dómi.

                Kjarni þessa máls snýst um það hvort stefndi hafi að lögum rétt til að tjá sig með þeim hætti sem hann gerði með umdeildum ummælum í grein í Morgunblaðinu frá 8. maí sl. Vegast þar á annars vegar sjónarmið um tjáningarfrelsi stefnda og hins vegar réttur stefnanda til æruverndar, en hvoru tveggja nýtur verndar samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

                Það er óumdeilt að ummæli stefnda voru látin falla sem svar við grein stefnanda sem aftur var svar við fyrri grein stefnda. Eru þau því látin falla í ritdeilu milli aðila. Það skiptir máli varðandi niðurstöðu þessa máls þar sem almennt verður að játa mönnum rýmra frelsi til tjáningar í slíkum samskiptum heldur en þegar ummæli falla án forsögu eða tilefnis af hálfu þess sem þau beinast að.

                Þá er það óumdeild meginregla að sönn ummæli séu að jafnaði refsilaus jafnvel þótt þótt þau meiði æru þess sem um er fjallað. Í málinu byggir stefndi á því að ummæli hans séu sönn og honum hafi því refsilaust verið heimilt að viðhafa þau. Að framan er því lýst til hvaða atvika ummælin vísa. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu, m.a. vegna þess að í ummælunum sjálfum komi hvergi fram til hvaða atvika sé verið að vísa. Að mati dómsins verður að telja, með hliðsjón af þeim gögnum sem fram hafa verið lögð, að flestir sem fylgjast að einhverju marki með umfjöllun um listir hafi mátt geta sér til um tilefnið, þótt nokkuð hafi verið liðið frá umdeildri sýningu. Sýningin vakti almenna athygli og mikið var um hana fjallað í fjölmiðlum. Í ítarlegri grein eftir Helga Snæ Sigurðsson, blaðamann Morgunblaðsins, sem birtist í blaðinu 28. apríl 2011, er hún sögð líklega vera umræddasta sýning hér á landi í seinni tíð, einkum vegna þessa verks stefnanda. Önnur gögn málsins styðja þessa ályktun blaðamannsins, m.a. sú staðreynd að stjórn Nýlistasafnsins sá ástæðu til að skerast í leikinn og fjarlægja verkið úr sýningarrými safnsins ásamt fræðilegri umfjöllun sem farið hefur fram um verkið.

                Hvað sannleiksgildi ummælanna varðar liggur fyrir að deilan að baki ummælunum snýst um það hvort verk stefnanda feli í sér eyðileggingu á höfundarverki Eggerts Péturssonar og Ágústs H. Bjarnasonar. Stefndi heldur því fram að svo sé. Hann vísar til álits fjölmargra sem telja að verk stefnanda brjóti gegn sæmdarétti höfunda Flora Islandica með því að hafa breytt verkinu og valdið með því spjöllum á því. Í fréttatilkynningu stjórnar Nýlistasafnsins segir að í sæmdarrétti felist að öðrum sé óheimilt án leyfis að afbaka og/eða afskræma og/eða breyta höfundarverki og því lýst yfir að stjórnin telji umrætt verk brjóta gegn þessum rétti. Svo sem að framan er rakið er ljóst að fleiri hafa talið verk stefnanda fela í sér brot gegn höfundarréttarvernduðu efnið einmitt á þann hátt að verk sem nýtur þess réttar hafi verið afbakað eða breytt þannig að fari í bága við ákvæði höfundarlaga. Að mati dómsins verður að setja ummæli stefnda í samhengi við framangreindar deilur um Koddu og verkið „Fallegasta bók í heimi“. Stefnandi hélt því fram fyrir dómi að hann hefi aldrei heyrt þá skoðun látna í ljós að verk hans fæli í sér eyðileggingu listaverks fyrr en með greindum ummælum stefnanda. Með hliðsjón af gögnum málsins er sá framburður stefnanda ótrúverðugur. Fram er komið að stefndi og margir fleiri álitu verk stefnanda brjóta gegna höfundarétti listmanns með því að afbaka eða afskræma verk hans. Ummæli stefnda, þótt hann velji annað orðalag, lýsa þessari afstöðu til gerningsins. Þá afstöðu er honum fullheimilt að láta í ljósi. Þá verður almennt að telja að listamenn sem kjósa að sýna verk sín opinberlega og taka þátt í opinberri umræðu á sínu fagsviði, verði að hlíta því að um þá sé fjallað með opinskárri og gagnrýnni hætti en annars væri. Opinber umræða um listsköpun og listamenn er hluti af mikilvægri þjóðfélagsumræðu sem á erindi við almenning. Af þeim sökum er mönnum játað rýmra tjáningarfrelsi á þessu sviði. Að þessu virtu og í ljósi þess að ummælin eru látin falla í ritdeilu þar sem stefnandi hafði látið býsna hörð orð falla í garð stefnda verður ekki talið að með ummælum sínum hafi stefndi meitt æru stefnanda né móðgað hann þannig að í því felist brot gegn 235. eða 234. gr. almennra hegningarlaga.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið er stefndi sýkn af kröfu stefnanda. Þá verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af atvikum málsins og umfangi þess fyrir dómi er hann hæfilega ákveðinn 430.000 krónur.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

Dómsorð:

                Stefndi, Kristinn E. Hrafnsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Ásmundar Ásmundssonar. Stefnandi greiði stefnda 430.000 krónur í málskostnað.