Hæstiréttur íslands

Mál nr. 265/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot


                                                        

Fimmtudaginn 6. nóvember 2008.

Nr. 265/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Eiríkur Elís Þorláksson hdl.)

 

Kynferðisbrot.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa reynt að hafa samræði við Y og sett fingur inn í kynfæri hennar, og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga, sbr. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í meirihluta héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna, var talið að af framburði vitna, niðurstöðu alkóhólrannsóknar í málinu, svo og framburð Y sjálfrar, yrði að telja að ölvunarástand Y og svefndrungi gæti ekki skýrt það hvers vegna hún spornaði ekki við athöfnum X og kallaði á hjálp. Þá var ekki talið að svefndrungi og ölvun hefðu orðið til þess að Y skildi ekki þýðingu athafna ákærða. Hefði X því mátt ætla að Y hefði verið meðvituð um atlot hans og ekki verið þeim mótfallin. Með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 þótti ákæruvaldið ekki hafa fært fullnægjandi sönnur fyrir því að X hefði af ásetningi framið þau brot sem honum var gefið að sök. Var X því sýknaður.

                                  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2008 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. apríl 2008.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 4. mars sl., er höfðað af ríkissaksóknara 5. október 2007 á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...],  „fyrir nauðgun, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 26. ágúst 2007, að [...], reynt að hafa samræði við Y og sett fingur inn í kynfæri hennar, en við þetta notfærði ákærði sér það að Y gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu Y, kt. [...] , er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. september 2007 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

II

Málavextir

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á Blönduósi barst tilkynning til lögreglu klukkna 12:20 sunnudaginn 26. ágúst 2007 þess efnis að nauðgun hefði átt sér stað á Z. Tilkynnandi var Y en brotið kvað hún hafa verið framið á heimili sínu. Í framhaldi af tilkynningunni fór lögregla áleiðis til Z í þeim tilgangi að flytja kæranda á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar og skoðunar. Klukkustund eftir að tilkynningin barst hittu lögreglumenn kæranda á heimili hennar og ræddu við hana. Um klukkan 13:35 héldu lögreglumenn af stað til Akureyrar með Y en eftir um 20 mínútna akstur barst tilkynning frá sjúkrahúsinu á Akureyri þess efnis að þar yrði ekki hægt að taka á móti Y vegna slyss sem læknar þyrftu að sinna. Af þeim sökum var snúið við og haldið til Reykjavíkur með viðkomu á Z þar sem Y hafði fengið vitnið A til að koma með sér til Reykjavíkur. Um klukkan 17:20 var Y komin á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota. Þar var framkvæmd venjubundin skoðun og sýni tekin, m.a. til rannsóknar á alkóhóli. Ákærði var handtekinn klukkan 15:50 þennan dag og tekin af honum framburðarskýrsla. Dagana 3. og 4. september voru teknar lögregluskýrslur af kæranda og vitnunum A og B.

III

Framburður ákærða og vitna

Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði hitt Y, sem hann kannaðist við sem íbúa á Z, í samkvæmi umrædda nótt. Þau hefðu talað aðeins saman en hann mundi ekki um hvað. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og kvaðst muna eftir atburðum þótt hann myndi ekki eftir því hvað var sagt. Ákærði kvað Y hafa verið undir áhrifum áfengis en hann taldi ekki að hún hafi verið ofurölvi. Ákærði kvaðst hafa hitt B, bróður Y, í  samkvæmi fyrr um kvöldið og kvaðst hafa rætt aðeins við hann. Ákærði bar að Y hafi átt frumkvæði að því að þau fóru heim til hennar en hún hafi boðið honum heim til sín og hann hafi í framhaldi af því ekið henni og B heim til hennar. Þegar þangað var komið hafi þau sest inn í stofu og hann hafi fengið sér áfengi úr vodkaflösku sem hann hafði meðferðis. Ákærði taldi að Y hefði einnig fengið sér áfengi en hann mundi ekki hvort B gerði það en taldi svo ekki vera. Í stofunni hafi þau verið í um það bil 30 mínútur en ekki setið saman heldur hvert í sínum stól eða sófa. Ákærði kvaðst lítið hafa talað við kæranda í stofunni en hún og B hafi talað meira saman. Ákærði kvaðst ekki muna hversu lengi þau sátu þarna í stofunni en á einhverjum tímapunkti hafi Y farið inn í svefnherbergi. Hann og B hafi þá verið eftir í stofunni og rætt eitthvað saman í fáar mínútur en síðan hafi B einnig farið. Skömmu eftir það hafi hann farið inn í herbergi til Y en hann sagðist ekki muna hvað klukkan var þá. Hann hafi lagst upp í rúmið hjá henni og látið vel að henni með því að strjúka henni en það hafi henni ekki líkað illa. Ákærði kvað hana hafa verið vakandi á þessum tíma en það hafi hann merkt á því að hún hafi hjálpað til við alla hluti, t.d. hafi hún sjálf klætt sig úr bol sem hún var í, lyft upp rassinum til að komast úr gallabuxunum, lyft sér upp þannig að hann gæti hneppt frá brjóstahaldara hennar sem hún hafi farið sjálf úr. Í framhaldi af þessu hafi hann klætt sig úr fötunum. Honum hafi ekki risið hold og því hafi hann ekki getað haft samfarir við hana en hann kvaðst hafa sett fingur í leggöng Y. Ákærði bar að á þessum tíma hafi Y tvímælalaust verið vakandi og engan mótþróa veitt, þvert á móti hafi hún glennt í sundur fætur sína. Ákærði kvaðst ekki hafa talað neitt við Y á þessum tíma og þá mundi hann ekki hvort hún gaf frá sér einhver hljóð. Síðan er ákærði spurður að því hvort Y hafi snert hann eitthvað sérstaklega en hann neitaði því. Aðspurður að því hvort hún hefði á einhvern hátt tekið þátt þessum kynmökum svaraði ákærði: „Nei, það var bara eins og þetta væri eitthvað feimnismál eitthvað eða eitthvað ég veit það ekki.“ Hann kvaðst ekki hafa merkt annað en að Y hafi fengið kynferðislega fullnægingu. Það hvarflaði hins vegar ekki að ákærða að hún væri sofandi eða áfengisdauð. Ákærði taldi að athafnir þeirra hefðu staðið yfir í 15 mínútur eða svo og eftir þetta hafi hann sofnað. Ákærði taldi að Y hafi verið með augun lokuð allan þann tíma sem á þessu stóð. Hann sagðist síðan hafa vaknað um morguninn þegar menn, sem hann ekki þekkti, vísuðu honum út úr húsinu. Að mati ákærða voru áfengisáhrif hans og Y svipuð og þau höfðu verið í samkvæminu fyrr um kvöldið. Ákærði kvaðst ekki áður hafa átt nein kynferðisleg samskipti við Y. Hann kvaðst hins vegar hafa skilið heimboð hennar þannig að hún vildi eiga slík samskipti við hann og ályktaði sem svo vegna þess að þau höfðu verið í samkvæmi sem hún hafi viljað fá hann úr og heim til sín. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við neinn kynferðislegan áhuga af hendi Y fyrr þetta kvöld og þau hefðu ekki rætt kynlíf nema þá í einhverju gríni.

Vitnið Y kvaðst hafa byrjað að neyta áfengis um klukkan 01:30 þessa nótt heima hjá C, vinkonu sinni. Þar hafi hún drukkið þrjú til fjögur glös af tvöföldum vodka. Um klukkan hálfþrjú hafi hún, C og D farið á skemmtistaðinn E. Þar kvaðst hún hafa drukkið önnur þrjú til fjögur glös af sama áfengi. Hún kvaðst hafa hitt ákærða á skemmtistaðnum og þau hafi talað eitthvað lítillega saman en hún mundi ekki um hvað. Hún sagðist hafa verið á skemmtistaðnum þar til klukkan var um 04:00 og farið þaðan í samkvæmi. Vitnið Y kvaðst hafa verið orðin mjög drukkin á þessum tíma. Hún sagðist ekki hafa neytt áfengis í samkvæminu þar sem hún hafi staldrað stutt við. Hún hafi ákveðið að fara heim til sín ásamt B, bróður sínum, og ákærða. Þau hafi ætlað sér að halda drykkju áfram heima hjá henni. Hún kvaðst hafa drukkið eitt eða tvö glös af einfaldri áfengisblöndu heima hjá sér en hún mundi ekki hvort ákærði neytti þar áfengis en hann hafi verið með áfengisflösku með sér. Hún mundi raunar ekki eftir að hafa séð ákærða neyta áfengis þetta kvöld en hann hafi engu að síður verið ölvaður. Þau þrjú hafi spjallað eitthvað í stofunni heima hjá henni. Bróðir hennar hafi brugðið sér frá til að tala í síma og þegar hann kom til baka hafi hann beðið um að fá að gista í aukaherberginu. Á þessum tímapunkti hafi ákærði legið í sófa í stofunni með lokuð augun en hún hafi ekki kannað hvort hann var sofandi.  Vitnið taldi að þegar þarna var komið hafi klukkan verið um 06:00 og hún hefði ákveðið að fara inn í rúm að sofa og sofnað strax en þegar þetta var hafi hún verið mjög drukkin. Vitnið bar að hún hefði lagst í rúmið alklædd en hún hafi verið í peysu, gallabuxum og nærfötum. Hún kvaðst ekki muna hvort hún lokaði dyrunum að herbergi sínu þegar hún lagðist til svefns. Það næsta sem hún muni sé að hún hafi verið með peysuna yfir höfðinu en ákærði hafi verið að klæða hana úr peysunni. Þá hafi hún tekið eftir því að hún var ber að neðan. Ákærði hafi þá strokið henni um allan líkamann og farið með hendurnar inn í kynfæri hennar, einnig hafi hann reynt að setja lim sinn inn í hana. Þegar þetta gerðist hafi ákærði verið hálf krjúpandi og hann hafi kysst hana. Hún hafi þá snúið höfðinu frá honum og náð að snúa sér á hliðina þannig að bakið snéri í ákærða sem hafi haldið áfram að reyna eitthvað. Hún sagðist ekki hafa verið með fullri meðvitund frá því að hún vaknaði við að ákærði var að klæða hana úr peysunni og þar til ákærði hætti athöfnum sínum, heldur hafi hún dottið út á milli. Hún sagði að það hefði hvarflað að sér að kalla á bróður sinn, sem hún taldi vera í kallfæri, og biðja hann um hjálp en hún hafi bara ekki getað það vegna hræðslu án þess þó að ákærði hafi verið ógnandi. Vitnið bar að hún hefði ekki getað komist undan ákærða vegna ölvunar en hún hafi ekki haft stjórn á líkama sínum, en þetta stjórnleysi tengdi hún ekki við sjúkdóm þann sem hún væri haldin. Að sögn vitnisins sýndi hún enga tilburði til þess að ýta ákærða frá sér eða gera honum með einhverjum hætti skiljanlegt að þetta væri eitthvað sem hún vildi ekki. Vitnið sagðist ekki geta gert sér grein fyrir því hve langur tími leið frá því að hún sofnaði og þar til ákærði kom inn í rúm til hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa getað spornað á móti því sem ákærði var að gera vegna ölvunar. Það næsta sem hún mundi eftir var að hún vaknaði við símann og þá hafi ákærði verið við hlið hennar ber að ofan en með sæng yfir sér en fötin hans hafi legið á gólfinu. Hún kvaðst hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis þegar hún vaknaði en þá hafi klukkan verið um 11:30.  Hún hafi farið á fætur og haldið til vinnu sinnar og í framhaldi af því hafi hún hringt í lögregluna. Eftir það hafi hún hringt í vin sinn og beðið hann um að koma ákærða af heimili hennar. Vitnið kannaðist ekki við að hafa gefið ákærða í skyn að hún vildi hafa við hann kynferðislegt samneyti. Vitnið sagðist á þessum tíma hafa tekið þunglyndislyfið Cipralex en það hafi hún gert frá árinu 2003. Hún kvaðst ekki hafa verið vöruð við að neyta áfengis með þessu lyfi og taldi að það hefði ekki haft sérstök áhrif á ástand sitt. Hún sagðist einnig hafa tekið lyfin Paxal og Levaxin. Levaxin sé skjaldkirtilslyf en Paxal sé róandi lyf. Hún kvaðst raunar ekki muna hvort hún hefði tekið Paxal þennan dag en það hafi hún tekið eftir þörfum.

                Vitnið sagði að atvik þetta hefði haft þau áhrif á sig að hún ætti erfitt með svefn og þá hafi hún ekki getað sofið í svefnherbergi sínu síðan. Þá þyki henni óþægilegt að ferðast um sinn heimabæ. Hún sagðist hafa leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi. Hún hafi átt að fara í viðtal á Akureyri á þessum tíma en fengið flýtimeðferð vegna þessa atviks. Vitnið kvaðst halda að tímasetningar sem fram koma í skýrslu neyðarmóttöku væru réttar. Þá kvaðst hún nokkuð viss um að hún hefði lýst áfengisneyslu sinni þetta kvöld á réttan hátt og tímasetningum í því sambandi. Vitnið kvað að á þessum tíma hafi hún líklega verið rúm 90 kg að þyngd.

Vitnið B kvaðst hafa hitt Y, systur sína, fyrir utan barinn þetta kvöld og síðan aftur í samkvæmi í bænum. Á þessum tíma hafi honum þótt hún svolítið drukkin en ekkert „rosalega mikið“ eins og vitnið komst að orði. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða í nefndu samkvæmi og þá hafi ákærði verið mikið drukkinn. Vitnið kvaðst ekki geta gefið skýringu á því hvernig það kom til að ákærði fór með þeim systkinum heim til Y en sagði að þau hefðu bara ekki nennt að vera lengur í samkvæminu en fleiri hefðu ætlað að koma til þeirra. Ákærði hefði boðist til að skutla þeim og síðan ætlað að ná í fleiri en ekki hafi orðið af því. Þegar heim til Y var komið hefðu þau sest niður  sitt í hvern sófann og öll neytt áfengis og spjallað saman. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við að neitt kynferðislegt væri í gangi á milli ákærða og Y en hann hafi ekki heyrt þau tala saman á slíkum nótum. Hann taldi að þau hefðu verið þarna í 40 til 60 mínútur en um tíma hafi hann gengið út og talað í síma. Þegar hann hafi komið til baka hafi þau enn setið í stofunni, spjallað saman og horft á tónlistarmyndbönd. Hann hafi sest hjá þeim um stund en síðan farið að sofa. Næst hafi hann orðið var við ákærða þegar þeir fóru báðir út úr íbúðinni morguninn eftir, en þá hafi verið komnir menn í þeim tilgangi að vísa ákærða út en vitnið vissi ekki hvernig það kom til. Vitnið kvaðst hafa séð til systur sinnar daginn eftir en hann kvaðst ekki geta lýst ástandi hennar þá.

Vitnið A, vinkona Y, kvaðst hafa verið að vinna á barnum umrædda nótt og þar hafi hún hitt Y. Vitnið bar að Y hafi verið ölvuð en það sé jafnan erfitt að meta ölvunarástand hennar því hún geti verið mjög ölvuð án þess að það sjáist auðveldlega. Vitnið kvaðst hafa séð Y ofurölvi og þá lýsi það sér þannig að hún hreyfi sig mjög lítið. Jafnframt kvaðst vitnið hafa séð Y áfengisdauða en þá sofni hún einfaldlega og mjög erfitt sé að vekja hana. Að sögn vitnisins keypti Y ekki mikið áfengi á barnum en minnti þó að hún hefði keypt tvö eða þrjú glös af einföldum vodka í kók en það sé sá drykkur sem hún kaupi alltaf. Eftir að barnum var lokað hafi Y beðið eftir henni, inni í herbergi þar sem hljómsveitin var, meðan verið var að þrífa því hún hafi ætlað að aka Y í samkvæmi í bænum. Hún hafi síðan ekið Y í samkvæmi í bænum en á þessum tíma hafi Y ekki verið ofurölvi. Vitnið kvaðst hafa farið með Y á neyðarmóttökuna daginn eftir en þá hafi hún ekki verið ölvuð að mati vitnisins og heldur ekki þunn. Á leiðinni þangað hafi hún verið mjög þögul en vitnið sagði Y alla tíð hafa verið tilfinningalega bælda. Hún kvaðst ekki hafa spurt út í atburði næturinnar en sér hafi þótt það vera hennar að tjá sig um atvikið ef hún vildi. Vitnið sagði að samskipti þeirra vinkvenna væru minni í dag en áður, en sér þyki sem Y hafi drukkið meira eftir þetta en áður og þá hafi hegðun hennar á einhvern hátt breyst. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða þessa nótt og afgreitt hann með áfengi en hann hafi verið drukkinn án þess þó að hún hafi verið að velta því sérstaklega fyrir sér.

Vitnið C kvað Y hafa verið heima hjá henni þetta kvöld en þær hafi farið á barinn ekki síðar en klukkan 01:00. Vitnið kvaðst ekki muna hversu lengi þær voru heima hjá henni, þó varla meira en tvær klukkustundir, en þar hafi þær neytt áfengis. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hversu mikið áfengi Y drakk en það hafi örugglega verið vodka, kannski þrjú til  fjögur glös, en um styrkleika blöndunnar kvaðst vitnið ekki geta borið. Vitnið sagði að Y hefði ekki verið mikið drukkin þegar þær fóru frá heimili hennar en hún hafi sennilega verið orðin það undir lokin, eins og þær allar, en Y hafi haldið áfram að neyta áfengis á barnum. Hversu mikil neysla hennar var þar treysti vitnið sér ekki til að segja til um. Vitnið kvaðst alltaf geta merkt þegar Y væri undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst ekki vita hvað varð um Y eftir að barnum var lokað og ekkert daginn eftir.

Vitnið D kvaðst hafa hitt Y heima hjá C, vinkonu þeirra, umrætt kvöld þar sem þær hafi fengið sér í glas. Vitnið bar að Y hafi örugglega drukkið sterkt áfengi þarna. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um áfengisáhrif Y á þessum tíma. Þær hafi síðan farið á barinn um klukkan 02:30. Þegar barnum var lokað hafi Y orðið eftir inni en þá hafi hún verið orðin „vel drukkin“, eins og vitnið komst að orði, en það kvaðst hún hafa ályktað af hegðan hennar.  Hún kvaðst ekki hafa hitt Y eftir að barnum var lokað. 

Vitnið F lögregluvarðstjóri kom að málinu í upphafi og lýsti því hver fyrstu afskipti lögreglu voru af málinu og hvernig var staðið að rannsókn þess á vettvangi. Þá greindi hann frá því að hann hefði ekið Y til Reykjavíkur á neyðarmóttökuna. Vitnið bar að sér hafi þótt Y ótrúlega róleg og yfirveguð en tók jafnframt fram að hann þekkti ekkert til hennar og því vissi hann ekki hvernig hún væri dags daglega. Vitninu þótti hún ekki bera þess merki að hún hefði verið að neyta áfengis nóttina áður. 

Vitnið G kvaðst hafa hitt Y á neyðarmóttökunni síðastliðið sumar. Þá hafi henni virst sem stúlkan hafi verið þreytt og frekar lokuð en ekki drukkin og gefið skýr svör við þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar. Vitninu þótti ekkert ótrúverðugt við það sem Y sagði henni. Vitnið bar að Y hafi skýrt frá því að hún hefði tekið lyfið Paxal á þessum tíma og eitthvert annað lyf sem hún vissi ekki hvað héti. Vitnið bar að langt væri liðið frá því að hún hefði unnið með lyf þannig að hún ætti erfitt með að segja til um hugsanlegar aukaverkanir þeirra þegar áfengis væri neytt ásamt töku lyfja. Þó sagði hún óalgengt að aukaverkanir fylgdu hormónalyfjum eins og skjaldkirtilslyfjum. Hins vegar væri þekkt að geðlyf gætu aukið áhrif sem fram koma við neyslu áfengis. Vitnið kvað erfitt að svara spurningum um hversu fljótt áfengi hverfi úr blóði og þvagi einstaklinga þar sem margir þættir geti haft áhrif á það.

Vitnið Jakob Líndal Kristinsson, dósent á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, bar að erfitt væri að segja til um hver áfengisáhrif Y hefðu verið 11 til 12 klukkustundum áður en sýni voru tekin. Hann kvað niðurbrot áfengis úr líkama fólks geta verið á bilinu 0,1 til 0,25‰ á klukkustund. Ekki væri hægt að segja til um neinar reglur eftir því hvort um konu eða karl væri að ræða heldur skipti meira máli hversu oft fólk neytti áfengis. Áfengi hverfi hraðar úr líkama þeirra sem oft neyttu áfengis en þeirra sem sjaldnar gera það. Þá skipti stærð einstaklingsins máli. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort áfengisáhrif yrðu meiri ef þess væri neytt samfara inntöku lyfsins Cipralex en um það lyf hefði hann ekki upplýsingar, þó væri ekki hægt að útiloka að það lyf yrði þess valdandi að auka áhrif áfengis en almennt væri ráðlagt að neyta ekki áfengis samfara töku lyfja af þessari gerð. Vitnið bar að bein samverkun væri milli neyslu áfengis og lyfsins Paxal í þá veru að auka áhrif áfengis. Vitnið bar að áfengi greindist lengur í blóði en þvagi, þá kvað hann ekki hægt að segja til um hversu mikið magn áfengis þyrfti til að menn sofnuðu ölvunarsvefni, slíkt væri einstaklingsbundið, auk þess sem aðrir þættir hefðu þar áhrif.

Vitnið H sálfræðingur bar að Y hafi verið vísað til sín af neyðarmóttöku. Hún sagði að Y hafi verið með algeng einkenni þolenda kynferðisbrota. Þannig hafi komið fram hjá henni óboðnar hugsanir og endurminningar um það sem gerðist, hún hafi reynt að forðast vissar aðstæður og fram hafi komið líkamleg einkenni þegar hún væri minnt á atburðinn. Vitnið vonaðist til að geta unnið úr málinu með Y með frekari viðtölum. Að sögn vitnisins hefur Y verið dofin og dauf en reynt að vinna úr sínum málum. Vitnið kvaðst ekki vita hvort Y hafi verið tilfinningalega bæld áður en atburðurinn átti sér stað.

IV

Niðurstaða

                Ákærði hefur allt frá því að fyrst var tekin skýrsla af honum hjá lögreglu viðurkennt háttsemi þá sem í ákæru greinir. Að framan er rakinn í aðalatriðum framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa nýtt sér ölvunarástand og svefndrunga Y eins og honum er gefið að sök. Framburður ákærða hefur verið staðfastur og án teljandi misræmis allt frá því að tekin var af honum lögregluskýrsla sama dag og atvik máls áttu sér stað. Að mati dómsins hefur ekkert fram komið undir rekstri málsins sem er til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar hans. Framburður Y hefur einnig verið á sömu lund hjá lögreglu og fyrir dóminum og þá er ekkert teljandi misræmi í framburði hennar frekar en framburði ákærða. Er framburður hennar einn og sér því trúverðugur líkt og framburður ákærða.

Nokkurt misræmi er í framburði vitna um ölvunarástand Y en vitni eru þó sammála um að hún hafi verið undir áhrifum áfengis. B, bróðir Y, lýsti því fyrir dóminum að honum hafi þótt systir sín svolítið drukkin en ekkert rosalega mikið þegar hann hitti hana fyrir utan veitingastaðinn á Z og síðar í samkvæmi sem þau voru í áður en þau fóru ásamt ákærða heim til Y. Vitnið A lýsti því að Y hefði ekki verið ofurölvi þegar hún ók henni í samkvæmið sem áður er getið. Vitnið C sagði að Y hafi sennilega verið orðin mjög drukkin um það leyti sem veitingastaðnum var lokað. Vitnið D lýsti ölvunarástandi Y um það leyti sem veitingastaðnum var lokað á þann hátt að hún hafi verið orðin „vel drukkin“, eins og vitnið komst að orði. Þessar þrjár stúlkur eru vinkonur Y. Önnur vitni, að Y sjálfri undanskilinni, eru ekki til frásagnar um ölvunarástand hennar. Framburður vitnanna bendir því eindregið til þess að háttarlag Y hafi ekki verið eins og hún væri við það að sofna vegna ölvunar. Fyrir liggur að í blóð- og þvagsýnum, sem tekin voru á neyðarmóttöku um klukkan 17:30 þennan dag, fannst ekkert alkóhól. Sýnin voru tekin 11 til 12 klukkustundum eftir að Y fór að sofa. Að framan er rakinn framburður Jakobs Líndal dósents en hjá honum kom meðal annars fram að niðurbrot áfengis gæti verið á bilinu 0,1 til 0,25 ‰ á klukkustund. Samkvæmt því verður af alkóhólrannsókninni ekki ályktað með neinni vissu um hversu mikið magn áfengis var í blóði Y þegar hún lagðist til svefns. Þá bar vitnið F lögregluvarðstjóri að Y hafi ekki komið sér þannig fyrir sjónir sem hún hefði verið að neyta áfengis nóttina áður en hann hitti hana, um tveimur klukkustundum eftir að Y vaknaði.

Y hefur staðfastlega haldið því fram að hún hafi ekki getað spornað við háttsemi ákærða vegna ölvunar sinnar. Í framburði hennar fyrir dóminum kom fram að hún hefði vaknað þegar ákærði var að klæða hana úr peysunni en hún hafi ekki spornað við háttsemi ákærða og ekki kallað eftir hjálp vegna hræðslu við ákærða, án þess þó að ákærði hafi verið ógnandi. Hún kvaðst ekki hafa verið með fullri meðvitund frá því að hún vaknaði við að ákærði var að klæða hana úr peysunni og þar til ákærði hætti athöfnum sínum, heldur hafi hún dottið út á milli. Liggur þannig fyrir að hún var að minnsta kosti ekki án meðvitundar allan þann tíma sem ákærði leitaði á hana. Að mati dómsins verður að leggja til grundvallar framburð vitna um ölvunarástand Y og verður þá að miða við að hún hafi ekki komið þannig fyrir sjónir að hún hafi verið ofurölvi þegar hún fór að sofa. Af þeim sökum er ekki unnt að ætla að ákærði hafi getað átt von á því að hún svæfi ölvunarsvefni þegar hann fór inn í svefnherbergi til hennar. Þá verður að leggja til grundvallar framburð Y þess efnis að hún hafi verið með nokkurri meðvitund meðan ákærði leitaði á hana. Að þessu virtu þykir ölvunarástand hennar og svefndrungi ekki geta skýrt það hvers vegna hún spornaði ekki við athöfnum ákærða og kallaði ekki eftir hjálp en fyrir liggur að bróðir hennar var í næsta herbergi. Þá verður einnig að telja að svefndrungi og ölvun hafi ekki orðið til þess að hún skildi ekki þýðingu athafna ákærða. Þykir því ekki unnt að hafna framburði ákærða um að Y hafi sýnt þau viðbrögð sem hann hefur lýst. Verður í ljósi þessa að líta svo á að ákærði hafi mátt ætla að Y hafi verið meðvituð um atlot hans og ekki verið þeim mótfallin.

Þegar framangreint er virt og með vísan til meginreglu 45. gr. laga nr. 19/1991, þykir ákæruvaldið ekki hafa fært fullnægjandi sönnur fyrir því að ákærði hafi af ásetningi framið brot það sem honum er í ákæru gefið að sök og því ber að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 ber að vísa bótakröfu Y frá dómi.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að leggja allan sakarkostnað á ríkissjóð. Rannsóknari hefur ekki lagt fram yfirlit um sakarkostnað og verður því að ætla að enginn sakarkostnaður hafi fallið á málið við meðferð þess hjá lögreglu. Málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns teljast til sakarkostnaðar en þau þykja hæfilega ákveðin 300.000 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalag verjanda við aðalmeðferð málsins. Þóknun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns þykir hæfilega ákveðin 175.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í málið af hálfu þess lögmanns sem í fyrstu var réttargæslumaður í málinu en um það mun vera samkomulag á milli lögmannanna. Málsvarnarlaun og þóknun innifela virðisaukaskatt.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Halldór Halldórsson dómstjóri, Arnfríður Einarsdóttir og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómsformanns en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa dráttar.

DÓMSORÐ

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Sakarkostnaður, þar með talin 300.000 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 175.000 króna þóknun réttargæslumanns, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun og þóknun innifela virðisaukaskatt.

Bótakröfu Y er vísað frá dómi.

 

Sératkvæði Sveins Sigurkarlssonar héraðsdómara.

                Ég er ósammála þeirri ályktun meirihluta dómsins að sýkna ákærða vegna þess að hann hafi ekki haft ásetning til þess að nýta sér ölvun og svefndrunga Y í þeim tilgangi að hafa við hana kynmök sem hún gat ekki spornað við vegna ástands síns. Við þá lýsingu sem fram kemur á ölvunarástandi Y og atvikalýsingu að öðru leyti í dómi meirihlutans geri ég ekki athugasemdir svo langt sem hún nær en tel rétt að leggja áherslu á fáein atriði eins og það að Y var búin að neyta mikils áfengis um nóttina að sögn vitna og allt fram til kl. 06.00 um morguninn og að ákærða hafi verið um þetta kunnugt. Þá er óumdeilt að Y hafði ekki með neinum hætti gefið ákærða til kynna að hún hefði áhuga á einhverju kynferðislegu samneyti við ákærða hvorki áður en hún fór að sofa umrædda nótt né í annan tíma. Ákærði sagði sér til afsökunar að hann væri ekki vanur því að vera boðinn heim til konu í ,,partý” án þess að slíkt væri í boði. Tel ég að ákærði geti alls ekki réttlætt framkomu sína gangvart brotaþola með því að draga slíka ályktun. Er dómari því þeirrar skoðunar að ósannað sé að ákærði hafi haft nokkurt réttlætanlegt tilefni til þess að fara á eftir brotaþola sem farin var að sofa án þess að gefa nokkurt tilefni í orðum eða athöfnum til þess ákærði mætti ætla að hugur hennar stæði til að hann hefði kynmök við hana. Er ég sömu skoðunar og meirihluti dómenda um að framburður Y sé í öllum greinum mjög trúverðugur og á það einnig við um lýsingu hennar á ástandi sínu meðan á kynmökunum stóð en hún kvaðst ekki hafa verið með fullri meðvitund frá því að hún vaknaði við að ákærði var að klæða hana úr peysunni og þar til ákærði hætti athöfnum sínum heldur hafi hún dottið út á milli. Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir það að Y hafi af og til á meðan á þessu stóð komist til meðvitundar leysi það ákærða ekki undan ábyrgð á framkomu sinni. Tel ég engin rök hníga að því að vefengja þá lýsingu Y að henni hafi komið til hugar að kalla eftir hjálp bróður síns sem var í kallfæri en það hafi hún ekki gert vegna hræðslu eða ölvunar. Ákærði hefur sjálfur sagt fyrir dóminum að eftir að hann lagðist upp í rúm Y hafi hún hvorki opnað augun né heyrst frá henni hósti eða stuna svo hann muni. Hann hafi ekkert sagt við hana og hún ekki látið vel að honum eða snert hann að eigin frumkvæði. Eins og rakið er í dómi meirihlutans þá benti framburður vitna eindregið til þess að háttarlag Y hafi um nóttina verið eins og hún væri við það að sofna vegna ölvunar. Er ég þeirrar skoðunar að ölvunarástand Y og svefndrungi sé skýring á því það hvers vegna hún spornaði ekki við athöfnum ákærða eða kallaði á hjálp. Vitnið Jakob Líndal Kristinsson dósent á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, bar fyrir dóminum að erfitt væri að segja til um hver áfengisáhrif Y hefðu verið 11 til 12 klukkustundum áður en sýni voru tekin. Hann kvað niðurbrot áfengis úr líkama fólks geta verið á bilinu 0,1 til 0,25‰ á klukkustund. Samkvæmt þessu segir niðurstaða þeirrar rannsóknar sem fram fór  á vínandamagni í blóði Y nánast ekki neitt um ölvunarástand hennar þegar umrætt atvik átti sér stað og stendur því ekki í vegi fyrir sakfellingu að vínandi hafi ekki mælst.

Með vísan til þess sem ég hef rakið tel ég engan vafa leika á um ásetning ákærða til þess að fremja þann verknað sem hann hefur gengist við að öðru leyti en því að hann hafi ekki haft ásetning til að brjóta gegn Y. Er það því niðurstaða mín, að ákæruvaldið hafi fært fram í málinu sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða eins og tilskilið er í 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Tel ég því að það beri að sakfella hann  fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Þar sem meiri hluti dómenda vill sýkna ákærða tel ég ekki þörf á að taka afstöðu til refsingar ákærða, skaðabóta né sakarkostnaðar.