Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2015
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
- Lífeyrisréttur
- Kröfugerð
- Sakarefni
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. janúar 2016. |
|
Nr. 193/2015.
|
Þórólfur Antonsson (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Þórey S. Þórðardóttir hrl.) |
Lífeyrissjóður. Lífeyrisréttur. Kröfugerð. Sakarefni. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi.
Í ársbyrjun 1997 var lífeyrissjóðnum L skipt upp í tvær fjárhagslega sjálfstæðar deildir, A-deild og B-deild. Í desember það ár kaus Þ að greiða framvegis iðgjöld til A-deildar, en lífeyrisréttindin sem hann hafði áður áunnið sér stóðu á hinn bóginn eftir í B-deild. Í málinu krafðist Þ viðurkenningar á því að mánaðarlaun til viðmiðunar við útreikning á lífeyrisrétti hans úr B-deild L hefði í nóvember 2013 numið fjárhæð mánaðarlauna fyrir fullt starf hans þann mánuð. Reisti hann kröfu sína á því að hann ætti samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins rétt á að velja að lífeyrir sinn úr B-deildinni tæki þegar til kæmi mið af launum fyrir sama starf og hann hafði gegnt þegar iðgjöld hefðu verið greidd vegna hans til þeirrar deildar, en samkvæmt vottorði vinnuveitanda hans var starfið það sama og hann hefði gegnt frá árinu 1996. Taldi Þ að skilyrði 1. mgr. 74. gr. samþykkta fyrir L um að slíkur valréttur væri aðeins á hendi þeirra, sem hæfu töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi „sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma“, ætti ekki stoð í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 og væri L því óheimilt að neita honum um þetta val. Í dómi Hæstaréttar kom fram að valrétturinn samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna væri veittur sjóðfélögum í L sem hæfu töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi. Hvorki við uppsögu dóms þessa né við höfðun málsins hefði Þ fullnægt þessu frumskilyrði til að geta notið þessa valréttar, enda lægi ekki annað fyrir en að hann gegndi enn því starfi sem hann tengdi þennan ætlaða rétt sinn við og væri að svo komnu alls óvíst hvort hann myndi enn gera það þegar hann kynni að öðru leyti að öðlast rétt til að hefja töku lífeyris. Hefði Þ lagt málið fyrir dómstóla í þeim búningi að í raun væri borin upp við þá lögspurning sem andstæð væri meginreglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hefði Þ ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni enda væri ekki komið að því að ákveða þyrfti lífeyri honum til handa. Var málinu því af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að viðurkennt verði að viðmiðunarlaun til útreiknings á mánaðarlegum lífeyrisrétti hans í B-deild stefnda hafi verið 596.761 króna í nóvember 2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins hefur áfrýjandi, sem er fæddur 1957, gegnt starfi fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun frá 1988 og hafa á starfstíma hans verið greidd iðgjöld vegna hans til stefnda til að afla lífeyrisréttinda. Þegar áfrýjandi tók við þessu starfi giltu um stefnda lög nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Með I. kafla laga nr. 141/1996 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins, sem tóku að þessu leyti gildi 1. janúar 1997, voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 29/1963 og voru þau að því búnu endurútgefin sem lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frá gildistöku þessara breytinga hefur stefndi starfrækt tvær fjárhagslega sjálfstæðar deildir, A- deild og B-deild, sbr. 2. mgr. 1. gr. síðastnefndu laganna. Þeir sem hafa gerst sjóðfélagar í stefnda eftir þessar breytingar hafa orðið aðilar að A-deild hans, en þeir sem voru sjóðfélagar fyrir þann tíma áttu upp frá því aðild að B-deild, að frátöldum þeim sem greiddu iðgjöld til stefnda eða áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu í árslok 1996 og tilkynntu honum fyrir 1. desember 1997 að þeir kysu að greiða framvegis iðgjöld til A-deildar, sbr. 4. gr. laga nr. 1/1997.
Fyrir liggur í málinu að stefndi stóð gagnvart eldri sjóðfélögum, sem gátu samkvæmt framansögðu valið milli deilda innan hans, að ítarlegri kynningu á báðum kostum. Með tilkynningu 17. nóvember 1997 greindi áfrýjandi frá því að hann vildi eiga aðild að A-deild stefnda og er óumdeilt að það hafi gengið eftir með því að iðgjöld af launum hans hafi frá og með desember á því ári verið greidd til þeirrar deildar. Lífeyrisréttindi sem áfrýjandi hafði áður áunnið sér stóðu á hinn bóginn eftir í B-deild stefnda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997.
Samkvæmt lögum nr. 29/1963 var aðalreglan sú að fjárhæð ellilífeyris til sjóðfélaga í stefnda skyldi reiknuð sem hundraðshluti af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót eftir kjarasamningum fyrir fullt starf í þeirri stöðu sem sjóðfélagi gegndi síðast. Á þeim tíma sem byrjað var að greiða iðgjöld fyrir áfrýjanda til stefnda var hundraðshluti þessi 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld voru greidd fyrir, sbr. 6. mgr. 12. gr. laganna eins og hún var orðin samkvæmt 4. gr. laga nr. 47/1984. Skyldi fjárhæð lífeyrisins, sem þannig var fundin, taka breytingum í framtíðinni til samræmis við breytingar á launum fyrir sömu stöðu á hverjum tíma. Eftir 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 er aðalreglan sú að grunnfjárhæð ellilífeyris úr B-deild stefnda er reiknuð á sama hátt og að framan greinir eftir launum fyrir fullt starf í stöðunni, sem sjóðfélagi gegndi við starfslok, en samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar fylgir fjárhæð lífeyris á hinn bóginn ekki síðari breytingum á þeim launum eftir að sjóðfélagi byrjar töku hans, heldur meðalbreytingum á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt mánaðarlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Frá þessu er þó unnt að víkja samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997, sem skipuð er meðal ákvæða um lagaskil í IV. kafla þeirra, en þar er mælt svo fyrir að sjóðfélagar, sem fengu greiddan lífeyri frá stefnda við gildistöku laganna eða hefja síðar töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi, geti þrátt fyrir 3. mgr. 24. gr. laganna valið um hvort fjárhæð lífeyrisins taki í framtíðinni breytingum eftir því ákvæði eða fylgi samkvæmt eldri reglunni breytingum á launum fyrir stöðuna, sem sjóðfélagi gegndi síðast. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti deila aðilarnir ekki um að í 35. gr. laga nr. 1/1997 séu sérreglur um lagaskil og taki þær eingöngu til sjóðfélaga í stefnda sem eigi aðild að B-deild hans.
Í síðari málslið 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 er mælt fyrir um að setja skuli ákvæði í samþykktir stefnda um hvernig vali sjóðfélaga milli framangreindra tveggja kosta verði háttað og innan hvaða tíma hann þurfi að tilkynna stefnda ákvörðun sína. Í samræmi við þetta hefur stjórn stefnda kveðið á um það í 72. gr. samþykkta fyrir hann, sbr. og 7. gr. laganna, að ellilífeyrir, örorkulífeyrir og makalífeyrir úr B-deild hans skuli breytast í samræmi við meðaltalsbreytingar sem verða eftir útreikningi Hagstofu Íslands á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því að lífeyrir er ákveðinn þegar taka hans hefst. Í 1. mgr. 74. gr. samþykktanna segir síðan eftirfarandi: „Þrátt fyrir ákvæði 72. greinar geta þeir, sem fengu lífeyri úr sjóðnum í desember 1996 eða hefja töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma, ákveðið að í stað breytinga skv. 72. grein fylgi lífeyririnn breytingum á þeim launum, sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast“. Þá segir í 76. gr. samþykktanna: „Sjóðfélagi, sem hefur töku lífeyris úr B-deild í beinu framhaldi af starfi sem greitt var af til deildarinnar þar til taka lífeyris hófst, skal eigi síðar en þremur mánuðum eftir að taka lífeyris hefst tilkynna sjóðnum hvort um lífeyri hans skuli fara eftir 72. grein eða 74. grein. Berist slík tilkynning ekki skal farið eftir 72. grein. Velji sjóðfélagi 72. grein með slíkri tilkynningu eða ef engin tilkynning berst skal upphæð lífeyris frá og með upphafi á töku lífeyris ráðast af ákvæðum þeirrar greinar og er það val bindandi upp frá því.“
Stefndi beindi bréfi til áfrýjanda 10. október 2007 þar sem sagði að það væri sent til að upplýsa hvaða viðmiðunarlaun yrðu lögð til grundvallar lífeyrisréttindum hans í B-deild stefnda. Vísað var til þess að meginreglan væri sú að lífeyrir úr þeirri deild reiknist af þeim launum sem iðgjald hafi síðast verið greitt af til stefnda, en sú fjárhæð tæki síðan breytingum eftir meðalhækkun launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Hafi „viðmiðunarlaun sjóðfélaga sem hættir eru að greiða til B-deildar“ verið skráð samkvæmt upplýsingum frá launagreiðanda, en fyrir áfrýjanda hafi iðgjald síðast verið greitt til deildarinnar 31. desember 1997 og viðmiðunarlaun hans þá verið 123.872 krónur. Svaraði sú fjárhæð til 304.951 krónu í október 2007 að gættri meðalhækkun samkvæmt útreikningi hagstofunnar. Væri réttindahlutfall áfrýjanda 17,596% og myndi hann samkvæmt því eiga rétt til mánaðarlegs ellilífeyris að fjárhæð 53.659 krónur. Þessu svaraði áfrýjandi með bréfi 16. október 2007, þar sem hann lét þess meðal annars getið að hann gegndi enn sama starfi og á árinu 1997 þegar hann hafi valið að greiða iðgjöld framvegis til A-deildar stefnda. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu í því starfi væru orðin 473.741 króna og óskaði hann eftir því að sú fjárhæð yrði samkvæmt 74. gr. samþykkta fyrir stefnda lögð til grundvallar við ákvörðun lífeyrisréttar hans, en eftir fyrrgreindu réttindahlutfalli myndi hann þannig eiga rétt á mánaðarlegum ellilífeyri að fjárhæð 83.359 krónur úr B-deild stefnda. Í svarbréfi stefnda 22. október 2007 var þeirri ósk hafnað með þeim rökum að ákvæði 74. gr. samþykkta hans, sem ættu stoð í 35. gr. laga nr. 1/1997, næðu aðeins til sjóðfélaga sem byrji töku lífeyris úr B-deild í beinu framhaldi af starfi sem iðgjald væri greitt af til deildarinnar. Með því að greiðslu iðgjalda fyrir áfrýjanda til B-deildar hafi verið hætt hafi réttur til lífeyris úr deildinni slitnað „úr tengslum við þau laun sem greidd eru fyrir viðkomandi starf“. Áfrýjandi felldi sig ekki við þessa afstöðu stefnda og leitaði 10. mars 2008 eftir ákvörðun stjórnar hans, sem í framhaldi af því hafnaði ósk áfrýjanda. Hann ítrekaði síðan þetta erindi með bréfi 21. mars 2013, þar sem hann krafðist þess að stjórn stefnda myndi endurskoða fyrri afstöðu sína og viðurkenna „rétt hans til að mega njóta réttar til lífeyrisgreiðslna miðað við svokallaða eftirmannsreglu“. Þessu hafnaði stjórn stefnda á nýjan leik 13. maí 2013.
II
Í máli þessu, sem áfrýjandi höfðaði 7. febrúar 2014, leitar hann sem áður segir viðurkenningar á því að mánaðarlaun til viðmiðunar við útreikning á lífeyrisrétti hans úr B-deild stefnda hafi í nóvember 2013 numið 596.761 krónu. Samkvæmt launaseðli áfrýjanda fyrir þann mánuð var þetta á þeim tíma fjárhæð mánaðarlauna fyrir fullt starf hans sem samkvæmt vottorði Veiðimálastofnunar 18. september 2014 „er í grundvallaratriðum það sama og hann hefur gegnt frá árinu 1996.“ Í málinu byggir áfrýjandi á því að hann eigi samkvæmt áðurgreindri 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 rétt á að velja að lífeyrir sinn úr B-deild stefnda taki þegar til kemur mið af launum fyrir sama starf og hann gegndi þegar iðgjöld voru greidd vegna hans til þeirrar deildar, enda séu þau laun mun hærri en viðmiðunarlaun hans í desember 1997 framreiknuð eftir meðaltalshækkun launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Byggir áfrýjandi og á því að fyrrgreint skilyrði í 1. mgr. 74. gr. samþykkta fyrir stefnda um að slíkur valréttur sé aðeins á hendi þeirra, sem hefji töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi „sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma“, eigi ekki stoð í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 og sé stefnda því óheimilt að neita áfrýjanda um þetta val.
Sá valréttur samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997, sem að framan er getið, er veittur sjóðfélögum í stefnda sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi. Hvorki við uppsögu dóms þessa né við höfðun málsins fullnægði áfrýjandi þessu frumskilyrði til að geta notið þessa valréttar, enda liggur ekki annað fyrir en að hann gegni enn því starfi hjá Veiðimálastofnun, sem hann tengir þennan ætlaða rétt sinn við, og er að svo komnu alls óvíst hvort hann muni enn gera það þegar hann kann að öðru leyti að öðlast rétt eftir ákvæðum II. kafla sömu laga til að hefja töku lífeyris. Þótt stjórn stefnda hafi sem fyrr segir tvívegis hafnað óskum áfrýjanda um að þá þegar yrði viðurkennt að fjárhæð lífeyris honum til handa úr B-deild stefnda myndi á síðari stigum verða ákveðin á grundvelli launa, sem áfrýjandi kynni við starfslok að njóta fyrir núverandi starf sitt, og kröfugerð áfrýjanda sé meðal annars reist á því að lagastoð bresti fyrir þeirri afstöðu stefnda, hefur áfrýjandi lagt mál þetta fyrir dómstóla í þeim búningi að í raun er borin upp við þá lögspurning sem andstæð er meginreglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki verður ekki fram hjá því litið að áfrýjandi getur ekki að réttu lagi talist hafa nokkra lögvarða hagsmuni af því að fá hrundið ákvörðun stjórnar stefnda um að hafna ósk hans í bréfi 16. október 2007 um að lífeyrisréttindi hans yrðu ákveðin á grundvelli fjárhæðar, sem á þeim tíma var greidd í laun fyrir starf hans, eða að fá viðurkennt að viðmiðunarlaun til útreiknings á mánaðarlegum lífeyrisrétti hans hafi í nóvember 2013 numið þeirri fjárhæð sem greinir í dómkröfu hans, enda var á hvorugu því tímamarki fremur en nú komið að því að ákveða þyrfti lífeyri honum til handa. Að þessu gættu verður ekki hjá því komist að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þórólfi Antonssyni (kt. [...]), Bergþórugötu 31, Reykjavík, gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (kt. [...]), Engjateigi 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu þann 7. febrúar 2014.
Dómkröfur stefnanda eru, að ákvörðun stefnda um lífeyrisrétt stefnanda í B-deild í október 2007 verði ógilt og viðurkennt verði að viðmiðunarlaun til útreiknings mánaðarlegs lífeyrisréttar stefnanda í B-deild stefnda hafi verið 596.761 króna í nóvembermánuði 2013.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað með tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Ágreiningsefni og málsatvik
Stefnandi hefur starfað sem fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun síðan árið 1988 og starfar þar enn. Þennan tíma hefur hann verið virkur sjóðfélagi stefnda. Stefnandi átti aðild að B-deild stefnda allt þar til henni var lokað fyrir nýja sjóðfélaga um áramót 19961997. Upp frá því hefur stefndi rekið tvær deildir samhliða, B-deild og A-deild. Stefnanda, eins og öllum starfsmönnum ríkisins sem tilheyrðu B-deild um áramótin 19961997, var gefinn kostur á að velja um það fyrir 1. desember 1997 hvorri deild hann vildi framvegis eiga aðild að. Til að kynna sér málið fékk stefnandi eins og aðrir þáverandi sjóðfélagar sendan kynningarbækling heim frá stefnda, sem ætlað var að skýra helstu reglur hvorrar deildar um sig sem gætu haft áhrif á val sjóðfélaga. Stefnandi kynnti sér málið og tók þá ákvörðun að eiga framvegis aðild að A-deild sjóðsins.
Þann 10. október 2007 fékk stefnandi sent yfirlit frá stefnda um B-deildar inneign sína. Þar kemur fram hvaða viðmiðunarlaun yrðu lögð til grundvallar lífeyris- réttindum hans úr B-deild. Samkvæmt því yrði lífeyrir hans reiknaður af þeim launum sem síðast var greitt af til B-deildar auk meðalhækkunar launa opinberra starfsmanna samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Viðmiðunarlaunafjárhæð sú er skilgreind var í bréfinu nam 304.951 krónu. Stefnandi gat ekki fallist á þessa afstöðu og sendi stefnda bréf þann 16. október 2007, þar sem hann mótmælti forsendum útreikninganna og rakti að raunlaun hans á þeim degi næmu 473.741 krónu sem miða bæri við, sbr. m.a. 74. gr. samþykkta stefnda. Stefndi svaraði með bréfi, dags 22. október 2007, þar sem kröfu stefnanda var hafnað þar sem sjóðurinn liti svo á að ekki væri lagaheimild fyrir henni og var vísað til 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Jafnframt vísaði stefndi til þess að hin svokallaða eftirmannsregla taki aðeins til sjóðfélaga sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi, sbr. 74. gr. samþykkta stefnda. Vísaði stefndi til þess að ákvæði þetta næði ekki yfir réttindi sjóðfélaga sem ekki væru virkir greiðendur í B-deild við upphaf lífeyristöku. Byggði stefndi afstöðu sína á því að rétturinn í B-deild slitni úr tengslum við laun sem greidd séu fyrir viðkomandi starf eftir að hætt er að greiða til B-deildar. Því væri ekki lagaheimild til að miða lífeyrisrétt stefnanda í B-deild við dagvinnulaun stefnanda eins og þau voru í október 2007 þ.e. á þeim tíma sem bréfaskipti málsaðila áttu sér stað.
Stefnandi leitaði til stjórnar Bandalags háskólamanna með bréfi dags 12. nóvember 2007 og óskaði eftir að bandalagið skoðaði málið fyrir hann. Var honum bent á að leggja málið fyrir stjórn stefnda sem hann og gerði með bréfi dags. 10. mars 2008. Í því bréfi skoraði stefnandi á stjórn stefnda að úrskurða í málinu um það hvort B-deildar réttindi hans bæri ekki að reikna út frá hæstu grunnlaunum sem stefnandi hefði haft um starfsævina. Um ári síðar eða 13. febrúar 2009 barst svar frá stjórn stefnda þar kynnt var að erindi stefnanda hafi verið synjað í atkvæðagreiðslu í stjórn.
Í kjölfarið leitaði stefnandi til stjórnar Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) og fór fram á að félagið myndi kanna með ítarlegum hætti hvort bera ætti ágreining hans undir dómstóla. Af hálfu félagsins var ákveðið að afla lögfræðilegs álits til að greina réttarstöðu þeirra sem völdu á sínum tíma milli A-deildar og B-deildar stefnda. Niðurstaða þeirrar álitsgerðar varð sú að 74. gr. samþykkta stefnda sem kvæði á um að einungis þeir sem greiddu í B-deild sjóðsins við upphaf töku lífeyris gætu miðað við eftirmannsregluna, ætti sér ekki fullnægjandi lagastoð í 35. gr. laga nr. 1/1997. Stefnda var í kjölfarið sent bréf þann 21. mars 2013, þar sem þess var krafist að stefndi endurskoðaði afstöðu sína og viðurkenndi að stefnandi ætti rétt til lífeyris- greiðslna miðað við svokallaða eftirmannsreglu. Þann 14. ágúst 2013 barst bréf frá stefnda þar sem greint er frá því að málið hafi verið tekið fyrir á fundi stjórnar stefnda 13. maí 2013 þar sem farið var yfir málið og stjórnin komist að þeirri niðurstöðu að hafna öllum kröfum stefnanda með vísan til þess að 35. gr. laga nr. 1/1997 ætti ekki við um aðra en virka greiðendur í B-deild. Stefnandi fellst ekki á þessi sjónarmið stefnda og því var mál þetta höfðað.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafist er ógildingar á ákvörðun stefnda dags 22. október 2007 sem staðfest hafi verið af stjórn stefnda 13. febrúar 2009. Í kröfunni felist að viðurkennt verði að skilyrði 74. gr. samþykkta stefnda um að sjóðsfélagar þurfi að hafa verið virkir greiðendur í B-deild við upphaf töku lífeyris til að fá að njóta réttar til að ákveða að lífeyrir þeirra fylgi breytingum á þeim launum, sem á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, sé óskuldbindandi fyrir stefnanda. Fjárkrafa stefnanda byggi á útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingarstærðfræðings. Útreikningar byggi á áunnu hlutfalli lífeyrisréttar hans í B-deild og síðustu greiddu launum til B-deildar, sbr. bréf dags 10. október 2007. Réttindahlutfall stefnanda sé 17,596%. Mánaðarlaun stefnanda fyrir fullt starf í dagvinnu í nóvembermánuði 2013 hafi verið 596.761 króna. Mánaðarlegur eftirlauna- og örorkulífeyrisréttur stefnanda í nóvembermánuði 2013 sé fenginn með því að margfalda laun stefnanda, 596.761 krónu, með áunnu réttindahlutfalli hans í B-deild, 17,596, er geri alls 105.006 krónur.
Stefnandi byggi á því að stefnda sé ekki stætt á að miða lífeyrisrétt stefnanda við laun hans 31. desember 1997 með vísan til 74. gr. samþykkta stefnda. Það ákvæði eigi ekki stoð í ákvæðum laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í 74. gr. samþykkta stefnda sé bætt við efnislegu skilyrði um rétt til að njóta eftirmannsreglu sem ekki sé að finna í 35. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Ákvæði 35. gr., sem sé heimildarákvæði 74. gr. samþykkta stefnda, sé eftirfarandi: „Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Setja skal nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um þessa ákvörðun.“
Ákvæði 74. gr. samþykkta stefnda sé eftirfarandi: ,,Þrátt fyrir ákvæði 72. greinar geta þeir, sem fengu lífeyri úr sjóðnum í desember 1996 eða hefja töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma, ákveðið að í stað breytinga skv. 72. gr. fylgi lífeyririnn breytingum á þeim launum, sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast eða upphaflegur lífeyrir er miðaður við með öðrum hætti skv. 55. gr. Val lífeyrisþega skv. þessu ákvæði tekur einnig til makalífeyrisréttar og er bindandi fyrir hann með sama hætti.“
Í ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um eftirmannsregluna sé ekki að finna það skilyrði sem sett sé í 74. gr. samþykkta stefnda um að til þess að sjóðfélagar fái að njóta eftirmannsreglunnar þurfi þeir að hafa verið virkir greiðendur í B-deild við upphaf töku lífeyris. Hvorki sé hægt að leiða af ákvæðinu né lögskýringagögnum að sjóðfélagar í þessu samhengi séu þeir einir sem séu virkir greiðendur til B-deildar fram að lífeyristöku. Með því að setja það skilyrði í 74. gr. samþykktar hafi stefndi skert réttindi stefnanda án lagaheimildar með þeim afleiðingum að hann hafi ekki val um hvort áunnin réttindi hans í B-deild sjóðsins skuli reiknast í samræmi við 24. gr. eða 35. gr. laga nr. 1/1997. Í 35. gr. sé að finna almenna reglu sem kveði á um réttindi allra sjóðfélaga og að stefndi hafi ekki heimild til að takmarka þau réttindi. Sé þar kveðið með skýrum hætti á um að setja skuli nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu skuli háttað og innan hvaða tímamarka þeim beri að tilkynna sjóðnum um ákvörðun sína.
Í ákvörðun stefnda, sem rökstudd hafi verið 22. október 2007, sé kynnt að réttindi þeirra sem ekki séu virkir greiðendur í B-deild við upphaf lífeyristöku taki mið af launum sem síðast hafi verið greitt af til B-deildar og taki breytingum frá þeim tíma til samræmis við meðalbreytingar sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. b-lið 1. mgr. 56. gr. samþykkta stefnda. Þannig virðist stefndi leggja til grundvallar að sama regla eigi við um réttindi stefnanda í B-deild og þeirra sem eigi geymd réttindi hjá B-deildinni sem ekki greiði til stefnda þar sem þeir hafi látið af því starfi sem veitti þeim rétt til aðildar að stefnda, en séu ekki byrjaðir að taka lífeyri. Þetta ákvæði eigi ekki við um stefnanda þar sem hann hafi ekki hætt í starfi því sem veitti honum aðild að B-deild sjóðsins, hann sé enn í sama starfi og eigi virk réttindi í B-deild stefnda, þrátt fyrir að hann greiði nú til A-deildar. Réttindi hans séu því ekki „geymd“ enda sé samband stefnanda og lífeyrissjóðsins órofið. Umfjöllun í kynningarefni breyti ekki réttarstöðu stefnanda heldur gildi sett lög um þau efni.
Í tilefni af þeim grundvallarbreytingum sem gerðar hafi verið á stefnda með setningu laga nr. 1/1997 um skiptingu í tvær deildir hafi lögin falið í sér nokkur lagaskilaákvæði og tengd sérákvæði í IV. kafla laganna. Þannig hafi stjórn stefnda verið falið, með 35. gr. laga nr. 1/1997, að ákveða í samþykktum innan hvaða tímamarka sjóðfélagi skyldi tilkynna sjóðnum hvort hann kysi að lífeyrir hans færi samkvæmt eftirmannsreglunni. Nánari útfærslu á þessum tímamörkum sé að finna í 75.-78. gr. samþykkta stefnda. Stefnandi hafi í samræmi við tilmæli stefnda tekið ákvörðun um að réttindi hans myndu framvegis myndast í A-deild. Stefnandi hafi hins vegar ekki tekið ákvörðun um það að um réttindi hans í B-deild myndi fara samkvæmt 1. mgr. 56. gr. samþykkta stefnda við upphaf töku hans á lífeyri. Hann hafi aldrei verið inntur eftir slíkri ákvörðun enda sé hvorki í lögum nr. 1/1997 né í samþykktum stefnda kveðið á um að réttindi sjóðfélaga, sem hafi ákveðið að hætta greiðslum til B-deildar og greiða til A-deildar, skyldu reiknast á grundvelli 1. mgr. 56. gr., eins og um sé að ræða geymd réttindi starfsmanns sem látið hafi af störfum áður en til töku lífeyris komi. Engin heimild sé fyrir slíku, hvorki í lögum nr. 1/1997 né í samþykktum stefnda.
Stjórn stefnda hafi í raun tekið sér lagasetningarvald. Stjórnin sé samkvæmt ákvæði 6. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins skipuð átta mönnum, skipuðum af ráðherra, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, stjórn Bandalags háskólamanna og stjórn Kennarasambands Íslands. Samkvæmt 7. gr. sömu laga setji stjórn sjóðsins honum samþykktir í samræmi við ákvæði þeirra laga og ákvæði annarra laga um lífeyrissjóði eftir því sem við eigi. Þær samþykktir verði að eiga sér stoð í lögum en sú sé ekki raunin í þessu tilviki. Stefnandi líti svo á að ofangreind ákvörðun stjórnar stefnda sé í andstöðu við meginreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um þrískiptingu ríkisvaldsins og að löggjafarvaldið skuli liggja hjá Alþingi.
Þrátt fyrir að viðurkennt sé í íslenskri réttarframkvæmd að löggjafinn geti framselt hluta valds síns til handhafa framkvæmdavaldsins með skýrri lagaheimild til setningar reglugerða um afmörkuð efni telji stefnandi að löggjafanum sé óheimilt að framselja vald til stjórnar stefnda, sem þar að auki standi utan framkvæmdavalds, hvað þá heldur til að skerða áunnin lífeyrisréttindi manna umfram lagaheimildir.
Stefndi hafi farið út fyrir lagaheimild sína og með því skert áunnin réttindi stefnanda verulega. Mikill munur sé á útreikningum á áunnum réttindum stefnanda í B-deild eftir því hvort þau séu reiknuð samkvæmt eftirmannsreglunni í 35. gr. laga nr. 1/1997 eða hvort tekið sé mið af þeim launum sem síðast hafi verið greitt af til deildarinnar sem síðan taki breytingum til samræmis við meðalbreytingar sem hafi orðið á föstum launum opinberra starfsmanna í samræmi við 24. gr. eins og stefndi byggi á. Útreikningar Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings staðfesti þetta en samkvæmt þeim séu réttindi stefnanda 11.326.000 krónum lægri en þau sem hann ætti væri hann talinn njóta heimildar 35. gr. laga nr. 1/1997. Með ákvörðun sinni hafi stefndi skert stjórnarskrárvarinn rétt stefnanda, sbr. 72. gr. stjórnarskrár. Samkvæmt því sé eignarréttur friðhelgur, hann megi ekki skerða nema almenningsþörf krefji og til þess þurfi lagafyrirmæli. Engin almannaþörf knýi á um þá skerðingu er stefndi hafi haldið fram. Ákvæði 74. gr. samþykkta stefnda sé enn fremur í andstöðu við 1. mgr. 1. gr. laga nr. 1/1997, en þar segi að hlutverk sjóðsins sé að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum þessara laga.
Byggt sé á lögum nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, á 2. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988.
Málsástæður og lagrök stefnda
Málavextir liggi fyrir, en gera þurfi þó grein fyrir aðdraganda þess að stefnandi hafi staðið frammi fyrir vali um að hætta að greiða til B-deildar og hefja greiðslur til A-deildar stefnda í nóvember 1997. Stefnandi hafi óskað eftir aðild að A-deild með umsókn dags 17. nóvember 1997. Síðustu greiðslur til B-deildar fyrir dagvinnu hafi verið í nóvember 1997 og hafi stefnandi hafið greiðslur til A-deildar í desember 1997.
Með lögum nr. 141/1996 hafi verið gerðar verulegar breytingar á stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Vegna umfangsins hafi lögin verið endurútgefin sem lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Breytingin hafi einkum falist í því að stofnuð hafi verið ný deild, A-deild LSR, og þangað greiði allir nýir sjóðfélagar. Eldra kerfi sé kallað B-deild LSR og hafi verið lokað fyrir nýjum launagreiðendum og sjóðfélögum í árslok 1996. Sjóðfélagar sem hafi verið greiðendur í sjóðinn hafi þurft að velja á milli þess að halda óbreytt áfram að ávinna sér réttindi í B-deild eða hefja greiðslur til A-deildar. Umfangsmiklar kynningar hafi átt sér stað á lagabreytingunum, fjölmennir fundir hafi verið haldnir um allt land og bæklingar sendir til allra sjóðfélaga.
Eftir breytinguna starfi stefndi í tveimur fjárhagslega sjálfstæðum deildum, A-deild og B-deild, og skipti deildirnar með sér rekstrarkostnaði í hlutfalli við umfang hvorrar deildar í rekstri sjóðsins, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 1/1997. Réttindi milli deildanna séu alfarið aðgreind og byggð upp með ólíkum hætti. Samkvæmt ákvæðum laganna leiki enginn vafi á því til hvaða deildar viðkomandi ákvæði vísi og því séu í lögunum tilgreindir sjóðfélagar án aðgreiningar milli deilda. Jafnframt séu sögulegar skýringar á þessu þar sem eldri lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963 hafi verið breytt með lögum nr. 141/1996 en þar sé aðeins rætt um sjóðfélaga. Deildirnar séu með aðgreint réttindakerfi og því taki eitt og sama lagaákvæðið ekki til beggja deildanna þegar komi að efnislegum réttindum. Því sé augljóst af samhengi efnisins í hverju lagaákvæði við hvaða sjóðfélaga sé átt hverju sinni.
Réttindi í B-deild safnist upp sem prósenturéttindi og reiknist síðan við upphaf lífeyristöku sem hlutfall af viðmiðunarlaunum. Tvær reglur gildi um það með hvaða hætti lífeyrir taki breytingum eftir að lífeyristaka sé hafin. Meginreglan sé að lífeyrir hækki samkvæmt meðalbreytingum sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 (meðaltalsregla). Hins vegar sé sérregla í 35. gr. laganna sem veiti þeim sjóðfélögum sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi val um að lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verði á launum sem á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf sem sé til viðmiðunar á lífeyri (eftirmannsregla). Líkt og skýrt komi fram í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 141/1996 hafi helsta breytingin á réttindum í B-deildinni lotið að framkvæmd eftirmannsreglunnar og upptöku meðaltalsreglu sem skyldi verða meginreglan. Eftirmannsreglan hafi í raun verið gerð að undantekningarreglu og sé eingöngu valkostur fyrir þá er völdu að vera áfram í B-deild og virkir sjóðfélagar við starfslok. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu segi m.a. um helstu breytingar:
„Helsta breyting, sem í frumvarpi þessu er lögð til á réttindum í B-deildinni, lýtur að framkvæmd svokallaðrar eftirmannsreglu. Lagt er til að í stað þess að miða lífeyri við þau laun sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er sjóðfélagi gegndi síðast verði breytingar á lífeyri miðaðar við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Lífeyrisréttur við upphaf lífeyristöku verði eftir sem áður reiknaður samkvæmt launum við starfslok. Á þennan hátt verður þessi breytta regla jafnverðmæt fyrir sjóðfélaga þegar á heildina er litið. Núverandi sjóðfélögum verði þó gefinn kostur á að velja um óbreytta eftirmannsreglu.“
Í ofangreindri tilvitnun sé fjallað um hvernig breytingarnar muni snúa að þeim sem verði í B-deild og af samhenginu sé ljóst að með „núverandi sjóðfélögum“ sé átt við sjóðfélaga sem séu í B-deild við starfslok og sé 35. gr. lagaskilaákvæði við 24. gr. laganna sem sé í III. kafla laganna og fjalli sá kafli eingöngu um B-deild. Í þeim kafla sé ítrekað talað um sjóðfélaga og ljóst að þar sé ávallt átt við sjóðfélaga í B-deild.
Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 141/1996, megi glöggt sjá að ein helsta ástæða fyrir þeim miklu breytingum sem gerðar hafi verið á lífeyrissjóðakerfi ríkisstarfsmanna hafi verið örðugleikar við framkvæmd hinnar svokölluðu eftirmannsreglu. Með lögunum hafi eftirmannsreglan því verið gerð að undantekningarreglu þar sem hún hafi þótt erfið í framkvæmd.
Í 35. gr. laganna sé vísað með beinum hætti til ákvæða sem eigi aðeins við um B-deild og því hafi ákvæðinu af hálfu stefnda ætíð verið beitt með þeim hætti að það taki aðeins til réttinda í B-deild. Stefndi telji ekki unnt að túlka ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 á annan hátt en svo að eingöngu sé átt við virka greiðandi sjóðfélaga í B-deild. Þegar settar hafi verið samþykktir í kjölfar lagabreytinganna hafi enginn vafi verið í huga stjórnar stefnda á því að ákvæði 35. gr. laganna tæki aðeins til B-deildar. Samþykktirnar hafi verið staðfestar af ráðherra og ákvæðið var nánar útfært í svohljóðandi 74. gr. samþykkta stefnda: „Þrátt fyrir ákvæði 72. greinar geta þeir, sem fengu lífeyri úr sjóðnum í desember 1996 eða hefja töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma, ákveðið að í stað breytinga skv. 72. grein fylgi lífeyririnn breytingum á þeim launum, sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast eða upphaflegur lífeyrir er miðaður við með öðrum hætti skv. 55. grein. Val lífeyrisþega skv. þessu ákvæði tekur einnig til makalífeyrisréttar og er bindandi fyrir hann með sama hætti.“
Ljóst sé að það væri í andstöðu við tilgang laganna ef ákvæði 35. gr. væri túlkað svo að það ætti við um bæði virka greiðendur í A-deild og B-deild. Túlka beri ákvæði laga til samræmis við lögskýringargögn og tilgang laganna og þegar það sé gert sé það mat stefnda að ekki sé unnt að túlka ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 á annan hátt en að eingöngu sé átt við virka greiðendur í B-deild stefnda við starfslok. Kynningarefni sem gefið hafi verið út og sent til allra sjóðfélaga beri það með sér að þeir sem kynnt hafi breytingarnar með lögum nr. 141/1996 hafi gert sér grein fyrir því að þeir sem kysu að flytja sig í A-deild ættu geymd réttindi í B-deild og myndu þar með fyrirgera vali um viðmið samkvæmt eftirmannsreglu 35. gr. laga nr. 1/1997. Þessum skilaboðum hafi verið komið skýrt á framfæri við sjóðfélaga.
Kynningarbæklingur hafi verið sendur til allra sjóðfélaga við stofnun A-deildar. Hann hafi einkum verið ætlaður til þess að sjóðfélagar gætu áttað sig á mun milli deildanna og til að tryggja að sjóðfélagar tækju upplýsta ákvörðun um val á milli þess að halda áfram að ávinna sér réttindi í B-deild eða flytja sig yfir í nýtt réttindakerfi, A-deild, en þar sé útlistun á eftirmannsreglu og meðaltalsreglu og tilgreint sérstaklega hverjir geti ekki valið milli reglnanna. Þar segi á bls. 6: „Þeir, sem eiga geymd réttindi hjá B-deildinni, þ.e. hafa greitt iðgjald en eru hættir störfum sem veitt hafa þeim aðild að sjóðnum án þess að vera byrjaðir að taka lífeyri, fara sjálfkrafa á meðaltalsregluna. Þetta á jafnframt við um lífeyrisgreiðslur úr B-deild til þeirra, sem fært hafa sig úr B-deild í A-deild.“ Einnig sé á bls. 12 útlistun á því eftir hvaða reglu lífeyrir úr B-deild stefnda reiknast, þar sem segi: „Lífeyrisþegar við árlok 1996 og þeir sjóðfélagar sem verða áfram í B-deild sjóðsins og fá þaðan lífeyri í beinu framhaldi af starfi sem veitir þeim rétt til aðildar að deildinni, geta valið eftir hvorri reglunni þeir taka lífeyri. Lífeyrir úr B-deild sjóðsins, til þeirra sem færa sig yfir í A-deildina, fer eftir meðaltalsreglunni. Sama á við um lífeyri þeirra sem eiga geymd réttindi hjá B-deild.“ Á sömu síðu nr. 12, segi svo: „Réttur hjá B-deildinni fer þá eftir því hversu lengi sjóðfélagi hefur greitt til sjóðsins og þeim launum, sem greidd eru fyrir starf hans, þegar tilfærsla milli deilda á sér stað. Frá þeim tíma fylgir fjárhæð áunnins réttar hjá B-deildinni meðalbreytingum sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu.“ Víðar í kynningarbæklingnum, t.d. bls. 18, komi skýrt fram að þeir sem flytji sig yfir í A-deild eigi geymd réttindi í B-deild og um þau réttindi fari samkvæmt þeim reglum sem gildi um geymd réttindi, svo sem að réttindin fylgi meðaltalsreglu.
Það hafi því legið skýrt fyrir árið 1997 þegar stefnandi hafi valið hvort hann greiddi í A-deild eða héldi sig við gamla kerfið og greiddi í B-deild að með því tækju greiðslur hans úr B-deild breytingum samkvæmt meðaltalsreglu. Megi ljóst vera að ætlun löggjafans hafi verið að réttindi í B-deild stefnda slitnuðu úr tengslum við þau laun sem greidd hafi verið fyrir viðkomandi starf eftir að hætt hafi verið að greiða til B-deildar. Eftir breytingarnar með lögum nr. 141/1996 hafi verið lagt upp með það sem meginreglu að lífeyrisgreiðslur úr B-deild tækju breytingum eftir meðaltalsreglu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Eftirmannsreglan sem tilgreind sé í 35. gr. laganna sé sérregla sem aðeins taki til þeirra sem séu virkir greiðendur til B-deildar við upphaf lífeyristöku. Stefndi sé ekki virkur greiðandi í B-deild þar sem hann hafi valið að flytja sig í A-deild en eiga geymd réttindi í B-deild og með því vali hafi hann fyrirgert rétti um val á eftirmannsreglu um réttindi í B-deild.
Yrði krafa stefnanda tekin til greina fæli það í sér að hann ætti rétt til launaviðmiðs á greiðslur úr B-deild stefnda samkvæmt 35. gr. laga nr. 1/1997 (eftirmannsreglu) vegna greiðslna í A-deild. Þá leiddi það til þess að sjóðfélagar sem tapað hefðu aðild að B-deild, t.d. með því að hætta greiðslum til deildarinnar í lengri tíma en ár, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997, gætu hafið störf síðar og greitt til A-deildar og þar með virkjað rétt til launaviðmiðs skv. 35. gr. laganna (eftirmannsreglu). Raunar mætti ætla að áhrifin gengju lengra og fælu í sér að allir sjóðfélagar sem greiddu til A-deildar við starfslok ættu val um eftirmannsreglu á geymd réttindi í B-deild. Hefði þetta verið ætlun löggjafans vakni samhliða spurning um hvers vegna 35. gr. laganna sé staðsett í kafla sem beri yfirskriftina „Lagaskil og sérákvæði“. Ef aðilar sem greiða til A-deildar ættu rétt til launaviðmiðs samkvæmt eftirmannsreglu á geymd réttindi í B-deild hefði legið beinast við að staðsetja ákvæðið sem sérstaka málsgrein undir 24. gr. laganna. Krafa stefnanda feli í sér túlkun og framkvæmd á 35. gr. laganna sem sé í hrópandi ósamræmi við tilgang löggjafans með lokun B-deildar, upptöku meðaltalsreglu sem meginreglu fyrir breytingar á lífeyrisgreiðslum úr B-deild og stofnun nýrrar deildar með aðgreindan fjárhag og réttindaávinnslu.
Telji dómurinn stefnanda, sem eigi geymd réttindi í B-deild, eiga rétt til launaviðmiðs samkvæmt 35. gr. laga nr. 1/1997 (eftirmannsreglu) þá mótmæli stefndi sem ósönnuðu því launaviðmiði sem stefnandi geri kröfu um. Engin gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi í nóvember 2013 gegnt sama starfi og hann gerði í nóvember 1997 þegar hann hafi síðast greitt iðgjöld til B-deildar stefnda. Í málinu liggi aðeins fyrir fullyrðing af hálfu stefnanda um að núverandi starf og launaröðun séu tæk til viðmiðunar til greiðslu lífeyris fyrir það starf sem stefnandi hafi greitt síðast af til B-deildar. Þessi fullyrðing sé ekki studd gögnum og sé henni mótmælt af stefnda sem ósannaðri.
Stefndi vísi til laga nr. 141/1996 er breyttu lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963, síðar endurútgefin sem lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en einkum sé vísað til 24. og 35. gr. þeirra laga. Þá sé vísað til samþykkta stefnda, einkum 74. gr. Varðandi málskostnaðarkröfu vísist til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laganna. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og krafa um greiðslu er jafngildi virðisaukaskattsgreiðslu af málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða
Málsatvik liggja fyrir, auk þess sem ekki er ágreiningur um framsetningu á dómkröfu stefnanda, en í þinghaldi 15. maí sl. féll stefndi frá frávísunarkröfu í málinu. Ágreiningur málsaðila afmakast við það álitaefni hvort stefnandi, sem í lok árs 1997 valdi að greiða eftirleiðis í A-deild stefnda í stað B-deildar, eigi þrátt fyrir skýra reglu um hið gagnstæða í 74. gr. samþykkta fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, rétt til að hefja lífeyristöku til samræmis við svonefnda eftirmannsreglu í 35. gr. laga nr. 1/1997, svo sem kröfugerð stefnanda miðar við, en ákvæði 35. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Setja skal nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um þessa ákvörðun.“
Nánar tiltekið snýst ágreiningur aðila einkum um lögskýringu á því hvort ofangreint ákvæði skírskoti til allra sjóðfélaga Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, eins og stefnandi byggir dómkröfu sína á, eða hvort það eigi eingöngu við um þá sjóðfélaga sem eru virkir sjóðfélagar í B-deild stefnda við töku lífeyris, eins og stefndi byggir sýknukröfu á.
Af hálfu stefnanda er einkum byggt á því, að þrátt fyrir reglu 74. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um hið gagnstæða gefi framangreint ákvæði, túlkað einfaldri orðskýringu, til kynna að allir virkir sjóðfélagar og þar á meðal stefnandi, eigi þess kost að velja að lífeyrisgreiðslur verði miðaðar við eftirmannsreglu, en lokamálsliður lagaákvæðisins heimili stefnda ekki þá takmörkun á réttindum stefnanda sem felist í 74. gr. samþykkta hans, en þar segir:
,,Þrátt fyrir ákvæði 72. greinar geta þeir, sem fengu lífeyri úr sjóðnum í desember 1996 eða hefja töku lífeyris úr B-deild sjóðsins í beinu framhaldi af starfi sem greitt er af til deildarinnar til þess tíma, ákveðið að í stað breytinga skv. 72. gr. fylgi lífeyririnn breytingum á þeim launum, sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast eða upphaflegur lífeyrir er miðaður við með öðrum hætti skv. 55. gr. Val lífeyrisþega skv. þessu ákvæði tekur einnig til makalífeyrisréttar og er bindandi fyrir hann með sama hætti.“
Af hálfu stefnda er byggt á því að ekki sé um að ræða misræmi á milli 35. gr. laga nr. 1/1997 og reglunnar í ofangreindri 74. gr. í samþykktum, líkt og stefnandi haldi fram. Ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 taki, þrátt fyrir almennt orðalag, einungis til B-deildar lífeyrissjóðsins, eins og leiða megi af innbyrðis skýringu á lögunum og markmiðum með þeim, en fyrirkomulag um aðgreiningu sjóðanna tveggja hafi verið kynnt ítarlega fyrir sjóðfélögum. Ákvæði 35. gr. sé lagaskilaákvæði við 24. gr. laganna, sem sé í III. kafla þeirra og fjalli sá kafli eingöngu um B-deild. Þar sé ítrekað talað um sjóðfélaga en ljóst að þar sé ávallt einungis átt við sjóðfélaga í B-deild sem hafi upphaflega verið eina deild sjóðsins. Ekki sé því unnt að túlka ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 á annan hátt en svo að eingöngu sé þar átt við virka greiðandi sjóðfélaga í B-deild. Væri það jafnframt í andstöðu við yfirlýstan tilgang laganna, um aðgreiningu sjóðanna tveggja og um afnám eftirmannsreglu sem almenns valkosts, ef ákvæði 35. gr. væri túlkað svo að það ætti við um bæði virka greiðendur í A- og B-deild.
Er það mat dómsins að með vísan til framangreinds verði að fallast á ofangreinda túlkun stefnda á 35. gr. laga nr. 1/1997, sem felur í sér að þar sem stefnandi eigi geymd réttindi í B-deild, en hætti að greiða í þann sjóð þar sem hann hafi valið sjálfviljugur að flytja sig í A-deild með þeirri réttindabreytingu sem því fylgi, hafi stefnandi fyrirgert rétti um val á eftirmannsreglu um geymd réttindi hans í B-deild. Er þar af leiðandi, eins og hér stendur á, ekki unnt að fallast á stefnukröfur stefnanda eins og þær eru settar hér fram.
Með vísan til alls ofangreinds ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.
Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að ákvörðun um málskostnað falli niður.
Málið flutti Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnanda, en Þórey S. Þórðardóttir hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnda.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, Þórólfs Antonssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.