Hæstiréttur íslands
Mál nr. 516/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2017, sem mun hafa verið birtur varnaraðila 14. sama mánaðar, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 17. maí 2017 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í 24. gr. laga nr. 13/1984 segir að úrskurðir, sem kveðnir eru upp samkvæmt lögunum, sæti kæru til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum laga um meðferð sakamála. Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er svo fyrir mælt að í skriflegri kæru til héraðsdómara skuli greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru varnaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum, sem kæran er reist á, en eftir fortakslausum fyrirmælum laganna stoðar ekki að þær komi fram í greinargerð sem fylgir kærunni. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á henni að ekki verður hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Eftir þessum málsúrslitum eru ekki efni til að dæma kærumálskostnað.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2017
Með bréfi ríkissaksóknara 8. júní 2017 var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðila um að úrskurðað yrði um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins 17. maí 2017, um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands. Um þetta er vísað til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 17. maí 2017, um að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst þess að fyrrnefnd ákvörðun dómsmálaráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. júlí sl.
I.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að forsaga málsins sé sú að með ákvörðun innanríkisráðuneytisins (nú dómsmálaráðuneytið), dagsettri 1. september 2016, hafi verið fallist á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda frá 27. október 2015, um framsal varnaraðila, sem sé pólskur ríkisborgari, til fullnustu refsinga samkvæmt fjórum nánar tilgreindum dómum héraðsdómstólsins í [...] í Póllandi. Í framhaldi þess hafi varnaraðili krafist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um skilyrði framsals, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984, sbr. mál nr. R-328/2016. Þann 26. október 2016 hafi innanríkisráðuneytinu borist bréf frá pólskum dómsmálayfirvöldum þar sem upplýst var að héraðsdómstóllinn í [...] hefði sameinað dóma í máli varnaraðila og til stæði að senda íslenskum yfirvöldum breytta framsalsbeiðni ásamt frekari gögnum þar að lútandi. Með bréfi, dagsettu 5. desember 2016, hafi innanríkisráðuneytinu borist breytt framsalsbeiðni, útgefin 17. nóvember 2016, en breytingin fól í sér að sameinaðar voru refsingar í þremur af fjórum dómum sem lágu til grundvallar framsalsbeiðninni. Í ljósi breytinga sem gerðar hefðu verið á fyrrgreindri framsalsbeiðni og nýrra gagna sem með henni fylgdu hafi innanríkisráðuneytið talið rétt að kynna varnaraðila þau og taka mál hans aftur til skoðunar. Mál nr. R-328/2016, sem var til meðferðar hjá héraðsdómi á þeim tíma, hafi í kjölfarið verið fellt niður við fyrirtöku þess 13. desember 2013 að ósk ríkissaksóknara.
Af hálfu ríkissaksóknara greinir frá því að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dagsett 17. maí 2017, sem varnaraðili krefjist nú úrskurðar um, varði beiðni pólskra dómsmálayfirvalda frá 17. nóvember 2016 um framsal hans til fullnustu tveggja refsidóma í Póllandi en framsalsbeiðnin sé útgefin af héraðsdómi í [...] í Póllandi. Annars vegar sé um að ræða dóm í máli nr. [...], uppkveðnum 23. september 2004, þar sem varnaraðili hafi verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir rán í félagi, þ.e. brot gegn 1. mgr. 280. gr. og 2. mgr. 157. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna, sem sé sambærilegt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómurinn hafi orðið endanlegur 30. september 2004. Með úrskurði sama dómstóls 7. júní 2006 hafi varnaraðila verið gert að afplána refsinguna vegna skilorðsrofs.
Hins vegar sé um ræða dóm nr. [...], uppkveðnum 9. september 2016, þar sem sameinaðar hafi verið refsingar varnaraðila í málum nr. [...],[...] og [...] og honum gert að sæta samanlagt tveggja ára fangelsi vegna dómanna. Dómurinn hafi orðið endanlegur 11. október 2016. Samkvæmt dómi í máli nr. [...], uppkveðnum 25. nóvember 2005, hafi varnaraðili verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi, fyrir hilmingu, þ.e. brot gegn 1. mgr. 291. gr. pólsku hegningarlaganna, sem sé sambærilegt 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómurinn hafi orðið endanlegur 6. mars 2006. Með úrskurði héraðsdómsins 20. júní 2007 hafi varnaraðila verið gert að afplána refsinguna vegna skilorðsrofs. Með dómi í máli nr. [...], uppkveðnum 8. september 2006, hafi varnaraðili verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir rangar sakargiftir, þ.e. fyrir brot gegn 1. mgr. 270. gr. og 235. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna, sem séu sambærileg 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómurinn hafi orðið endanlegur 15. september 2006. Með úrskurði 5. desember 2007 hafi varnarðila verið gert að afplána refsinguna vegna skilorðsrofs. Þá hafi varnaraðili verið dæmdur í 14 mánaða fangelsi, fyrir þjófnað úr bifreið, þ.e. fyrir brot gegn 1. mgr. 279. gr. pólsku hegningarlaganna, sem sé sambærilegt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með dómi í máli nr. [...], uppkveðnum 22. september 2006. Dómurinn hafi orðið endanlegur 29. september 2006.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að í framsalsbeiðninni, dagsettri 17. nóvember 2016, greini frá því að varnaraðili hafi komið sér undan fullnustu fangelsisrefsinga í heimalandi sínu. Dómstóllinn í [...] hafi ákveðið að fresta fullnustu refsinga þann 14. nóvember 2007 í máli nr. [...] og þann 26. október 2016 í máli nr. [...]. Á sama tíma hafi dómstóllinn ákveðið að gefa út eftirlýsingu á hendur varnaraðila. Þá komi fram í framsalsbeiðninni að þann 1. september 2015 hafi lögregluyfirvöld í Póllandi upplýst héraðsdómstólinn í [...] að varnaraðili væri staðsettur á Íslandi.
Hinn 6. febrúar 2017 hafi varnaraðila verið kynnt hin breytta framsalsbeiðni hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og fylgigögn með henni, m.a. bréf frá pólskum yfirvöldum um sameiningu dóma í máli hans. Aðspurður kvaðst hann kannast við þá dóma. Varnaraðila hafi meðal annars verið kynnt að nú væri óskað eftir framsali á honum til fullnustu á þeim tveimur dómum héraðsdómsins í [...] sem fyrr séu greindir. Aðspurður kvaðst varnaraðili vera búinn að kynna sér hinn nýja dóm í máli nr. [...] og ekki hafa neinar spurningar hvað hann varðaði. Þá kvaðst hann einnig vera búinn að kynna sér hina breyttu framsalsbeiðni og fylgigögn hennar. Varnaraðili kvaðst hafna beiðninni og mótmæla framsali. Þá hafi honum m.a. verið kynnt 7. gr. laga nr. 13/1984 og hann sérstaklega spurður út í breyttar aðstæður.
Samkvæmt sakarvottorði hafi varnaraðila verið gerð sekt vegna brota á umferðarlögum hér á landi. Hann eigi engin ólokin mál hjá lögreglu. Ríkissaksóknari hafi sent ráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals þann 29. mars 2017. Að mati embættisins hafi skilyrði laga nr. 13/1984 verið uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. um tvöfalt refsinæmi og lágmarksrefsingu, 5. mgr. 3. gr. varðandi grunnreglur íslenskra laga, og 8.–10. gr. varðandi bann við endurtekinni málsmeðferð, fyrningu og meðferð annarra mála hérlendis, sem og 12. gr. laganna sem fjalli um formskilyrði.
Að lokum kemur fram í greinargerð ríkissaksóknara að dómsmálaráðuneytið hafi ákveðið að verða við framsalsbeiðninni með ákvörðun frá 17. maí 2017. Fram komi í forsendum ráðuneytisins að niðurstaða ríkissaksóknara um skilyrði framsals sæti ekki endurskoðun. Ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. laga nr. 13/1984 og metið þær svo að ekki þættu nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Einnig hafi ráðuneytið vísað til þess að varnaraðili hefði hlotið refsidóm fyrir hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það sem svo að þau hefðu hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Þá hafi varnaraðili viðurkennt að kannast við fyrrnefnd dómsmál og væri það mat ráðuneytisins að varnaraðila hafi mátt vera það fyllilega ljóst að pólsk dómsmálayfirvöld myndu krefjast afplánunar hans.
Enn fremur hafi ráðuneytið tekið fram í forsendum sínum að engin gögn hefðu komið fram í málinu sem leiddu til þess að rökstudd ástæða væri til að ætla að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda og meðfylgjandi gögn þættu ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Loks hafi ráðuneytið tekið fram í forsendum sínum að samkvæmt athugasemdum við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 væru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð framsalsmáls.
Ákvörðun ráðuneytisins hafi verið kynnt varnaraðila þann 29. maí 2017 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þann sama dag hafi hann krafist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984. Varnaraðili hefur sætt farbanni vegna málsins síðast með úrskurði 26. júní sl. og rennur núgildandi farbann út 18. september nk.
II.
Sóknaraðili gerir þá dómkröfu að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins dagsett 17. maí 2017, verði staðfest, enda séu öll skilyrði fyrir því að framselja varnaraðila til Póllands uppfyllt í málinu. Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum vísar sóknaraðili til álitsgerðar sinnar frá 29. mars 2017 og ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 17. maí 2017. Sóknaraðili meti hvort skilyrði framsals séu uppfyllt en dómsmálaráðuneytið taki ákvörðun um hvort framsal skuli heimilað, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1984, og hafi lagt mat á hvort mannúðarákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 ætti við um aðstæður varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili sé pólskur ríkisborgari sem dæmdur hafi verið fyrir refsiverða háttsemi í heimalandi sínu en samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 sé heimilt að framselja mann sem í erlendu ríki sé grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þessu til stuðnings bendir sóknaraðili á að samkvæmt framsalsbeiðni í máli varnaraðila, sem gefin hafi verið út 17. nóvember 2016, sé nú óskað eftir framsali á hendur honum til fullnustu refsinga vegna dóma sem hann hlaut í Póllandi árin 2004 og 2016 í málum nr. [...] og [...].
Sóknaraðili byggir á því að skilyrði framsals samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Sú háttsemi sem varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir geti varðað við 252., 254., 148., og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreint skilyrði sé því uppfyllt. Skilyrði um dæmda lágmarksrefsingu samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé einnig uppfyllt en óskað sé eftir framsali varnaraðila til fullnustu tveggja dóma þar sem honum hafi í báðum tilvikum verið gerð tveggja ára fangelsisrefsing. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé framsal óheimilt sé rökstudd ástæða til að ætla að niðurstaða dóms þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, um refsiverða háttsemi eða um lögfulla sönnun sakar. Ekkert slíkt sé fram komið í málinu.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að í 9. gr. sömu laga sé kveðið á um að framsal sé óheimilt, sé sök eða dæmd refsing fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Varnaraðili hafi verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára fyrir rán í félagi, þann 23. september 2004, í máli nr. [...]. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 skuli pólsk lög gilda um rof á fyrningarfresti í málinu. Í framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda sé meðal annars vísað til 3. mgr. 15. gr. þarlendra laga um fullnustu refsinga þar sem fram komi að ákvörðun um að fresta fullnustu fresti ekki fyrningu refsingarinnar, nema í þeim tilvikum er dómfelldi hafi komið sér undan refsingu. Sóknaraðili bendir á að með ákvörðun dómara 14. nóvember 2007 í máli nr. [...] hafi verið ákveðið að fresta fullnustu fangelsisrefsingar yfir varnaraðila uns til hans hefði náðst. Að mati sóknaraðila verði við það að miða að þá hafi fyrningarfrestur vegna framangreinds dóms rofnað og sé refsing sem varnaraðila hafi verið dæmd með dómi í því máli þess vegna ófyrnd samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sameiginleg refsing sem varnaraðila hafi verið dæmd 9. september 2016 í máli nr. [...] sé einnig ófyrnd samkvæmt því lagaákvæði. Þá séu skilyrði 8. gr. laga nr. 13/1984 um bann við endurtekinni málsmeðferð einnig uppfyllt að mati sóknaraðila, sbr. sakarvottorð varnaraðila, og enn fremur standi 10. gr. laganna ekki í vegi fyrir framsali, þar sem ekkert ólokið sakamál eða óafplánuð fangelsisrefsing sé til meðferðar hér á landi gagnvart varnaraðila.
Þá telur sóknaraðili að mannúðarástæður 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi ekki við í tilviki varnaraðila. Sóknaraðili vísar til þess að dómsmálaráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á aðstæður hans í ákvörðun sinni frá 17. maí 2017, með tilliti til þeirra sjónarmiða sem sem fram koma í 7. gr. laga nr. 13/1984. Við það mat hafi ráðuneytið haft til hliðsjónar að umrædd 7. gr. sé undantekningarákvæði sem túlka beri þröngt og jafnframt að ekki megi beita 7. gr. nema í alveg sérstökum tilfellum því annars missi framsalskerfið gildi sitt í alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála. Varnaraðili hafi hlotið refsidóma í Póllandi fyrir hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Einnig hafi varnaraðili viðurkennt að kannast við dómsmálin og telur sóknaraðili að varnaraðila hafi mátt vera fyllilega ljóst að pólsk dómsmálayfirvöld myndu krefjast afplánunar hans. Þá hafi varnaraðili heldur ekki lagt fram frekari gögn eða upplýsingar til rökstuðnings því að aðstæður hans eigi undir undantekningarákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984.
Með vísan til alls þess er að framan greinir teljist efnisskilyrði framsals vera fyrir hendi í málinu að mati sóknaraðila. Þá séu formskilyrði 12. gr. laga nr. 13/1984 einnig uppfyllt, enda komi fram í framsalsbeiðni og fylgigögnum hennar þær upplýsingar og þau gögn sem krafist sé samkvæmt 2. og 4. mgr., auk þess sem hún hafi verið borin fram eftir diplómatískum leiðum, sbr. 1. mgr. 12. gr. sömu laga.
III
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 17. maí 2017 verði felld úr gildi og byggir í fyrsta lagi á því að sökin sé fyrnd og því sé framsal óheimilt samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að fella eigi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins niður vegna mannúðarástæðna á grundvelli 7. gr. sömu laga.
Hvað fyrri málsástæðu varnaraðila varðar vísar hann til þess að í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 sé kveðið á um að framsal sé óheimilt sé sökin fyrnd samkvæmt íslenskum lögum. Í 2. mgr. 9. gr. laganna sé að finna undantekningarákvæði þar sem kveðið sé á um að berist beiðni um framsal frá ríki sem taki þátt í Schengen-samstarfinu skuli lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests. Ljóst sé að Pólland taki þátt í Schengen-samstarfinu og því eigi lög þess ríkis um rof fyrningarfrests við í málinu. Hvort sökin sé fyrnd ákvarðist þó af íslenskum lögum. Varnaraðili telur að refsidómarnir sem hann hafi hlotið á árunum 2004-2006 séu fyrndir samkvæmt íslenskum hegningarlögum. Refsing samkvæmt dómi nr. [...] hafi fyrnst árið 2009 samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samkvæmt hinum dómunum á árunum 2007, 2009 og 2010 á grundvelli 1. og 2. tl. 1. mgr. sama lagaákvæðis.
Varnaraðili byggir á því að pólsk lög eigi þó við um rof fyrningarfrests, nánar tiltekið 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga. Varnaraðili hafi flust til Íslands árið 2006 og var eftirlýsing á hendur honum gefin út þann 14. nóvember 2007. Í bréfi ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins, dagsettu 1. júní 2016, sé ákvæðið túlkað á þann hátt að frestun á fullnustu fangelsisrefsingar rjúfi ekki fyrningarfrest nema að sá sakfelldi hafi komið sér undan afplánun. Lengist þá fyrningarfrestur um allt að 10 ár. Að mati varnaraðila sé inntak ákvæðisins gríðarlega óskýrt og ætti því að túlka það varnaraðila í hag. Einnig hafi ekki verið lögð fram þýðing á því frá löggiltum túlki. Svo virðist fremur vera að ríkissaksóknari þýði og túlki ákvæðið á þennan hátt en að mati varnaraðila segi ákvæðið í raun að fyrningarfrestur geti ekki verið lengri en 10 ár. Þrátt fyrir að fallist yrði á að varnaraðili hefði komið sér undan afplánun og fyrningarfresturinn væri því 10 ár, séu refsidómarnir samt sem áður fyrndir, enda fallið á árunum 2004-2006.
Þá hafnar varnaraðili því einnig alfarið að hann hafi verið að koma sér undan afplánun heldur fluttist hann til Íslands í leit að betra lífi. Hann hafi gert pólskum yfirvöldum grein fyrir þeim fyrirætlunum sínum og ferðast aftur til Póllands eftir að hann settist að á Íslandi. Það sé því ekki fyrr en með beiðni pólska dómsmálaráðuneytisins um framsal á varnaraðila þann 17. desember 2015 sem pólsk yfirvöld hafi í raun farið fram á að varnaraðili afplánaði þá refsidóma sem hann hefði hlotið. Beiðnin sé rökstudd þannig að lögreglan í [...] hafi sent bréf til dómstólsins þar í borg um að varnaraðila væri að finna á Íslandi og að hann ynni á bílaleigunni Hertz. Ekki sé á nokkurn hátt útskýrt hvernig lögreglan hafi komist á snoðir þeirra upplýsinga og megi því að mati varnaraðila draga þá ályktun að hún hafi allan tímann búið yfir þeim. Megi telja nánast útilokað að lögreglan í [...] hafi skyndilega fengið upplýsingar um varnaraðila, hvar hann væri búsettur og hjá hvaða fyrirtæki hann starfaði um það bil níu árum eftir að varnaraðili hafi flust frá Póllandi.
Varnaraðili bendir á að það sé ekki fyrr en nú, þegar dómarnir séu nálægt því að fyrnast á grundvelli þessa 10 ára fyrningarfrests, sem 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga geri ráð fyrir, að pólsk yfirvöld óski eftir því að varnaraðili sitji þá af sér. Hvorki sé nánari skýringar að finna á ákvæðinu né hvenær aðili teljist hafa flúið afplánun. Þar af leiðandi er því alfarið mótmælt af hálfu varnaraðila að hann hafi flúið fullnustu þessara dóma. Varnaraðili byggir á því að hinn nýi dómur héraðsdómsins í [...], í máli nr. [...], dagsettur 9. september 2016, þar sem ákveðið hafi verið að sameina dóma yfir varnaraðila, geti ekki markað nýjan fyrningarfrest eða rofið fyrningarfrest á einhvern hátt. Ljóst sé að með þessum dómi hafi pólsk yfirvöld verið að bregðast við því að þeir refsidómar, sem varnaraðili hlaut á árunum 2004-2006, hafi verið að fyrnast. Því hafi þeir tekið upp á því að kveða upp nýjan dóm til að fá nýjan fyrningarfrest. Að mati varnaraðila sé þetta gróft brot á réttlátri málsmeðferð varnaraðila, sbr. 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem orðið hafi að lögum nr. 62/1994, en Pólland sé einnig aðili að sáttmálanum. Þá mótmælir varnaraðili því að hægt sé að sameina refsidóma með nýjum dómi tíu til tólf árum eftir að þeir hafi fallið, að varnaraðila fjarstöddum og án hans vitundar, enda sé það alvarlegt brot á áðurnefndu ákvæði Mannréttindasáttmálans að slíkur dómur hafi í för með sér nýjan fyrningarfrest eða rjúfi fyrningarfrest á nokkurn hátt.
Varnaraðili byggir á því að þeir refsidómar sem hann hafi hlotið á árunum 2004-2006 í Póllandi séu þannig fyrndir samkvæmt íslenskum hegningarlögum. Þrátt fyrir að fallist yrði á 10 ára fyrningarfrest, samkvæmt 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga, þá væru þeir samt fyrndir, enda hafi síðasti refsidómur yfir varnaraðila fallið árið 2006 eða fyrir ellefu árum. Að mati varnaraðila beri því sökum þessa að hafna framsali á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984.
Fyrrnefnd ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að framselja varnaraðila til Póllands, sem byggð sé á álitsgerð ríkissaksóknara, dagsettri 29. mars 2017, sé einnig haldin verulegum efnisannmarka, sem varnaraðili telur að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar. Þá mótmælir varnaraðili túlkun sóknaraðila á 3. mgr. 15. gr. pólskra fullnustulaga um að frestun á afplánun fangelsisrefsingar rjúfi fyrningarfrest í þeim tilvikum er dómfelldi komi sér undan afplánun og að í þeim tilvikum lengist fyrningarfrestur um allt að tíu ár. Jafnframt mótmælir varnaraðili þeirri túlkun sóknaraðila sem fram komi í álitsgerð hans, dagsettri 29. mars 2017, um að ákvæðið feli í sér að fyrningarfrestur hafi rofnað með ákvörðun dómara 14. nóvember 2007 í máli nr. [...], þar sem ákveðið hafi verið að fresta fullnustu fangelsisrefsingar yfir varnaraðila uns til hans hefði náðst. Ekki hafi verið lögð fram íslensk þýðing á ákvæðinu en að mati varnaraðila feli síðari málsliður þess í sér að fyrningarfresturinn geti þó ekki verið lengri en 10 ár. Í álitsgerðinni sé með öllu skautað framhjá orðalagi 3. mgr. 15. gr. pólskra fullnustulaga og hvergi minnst á 2. málslið ákvæðisins. Þá komi hvergi fram í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda að fullnustu refsingar verði frestað uns til varnaraðila hefði náðst. Niðurstaða ráðuneytisins sé því haldin verulegum annmarka hvað þetta varði sem eigi að mati varnaraðila að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar. Þá mótmælir varnaraðili því að ráðuneytið hafi ekki lagt sjálfstætt mat á það hvort dómarnir væru fyrndir heldur látið við það sitja í ákvörðun sinni að vísa til álitsgerðar sóknaraðila þar um.
Þá byggir varnaraðil í öðru lagi á því að hafna beri framsali á grundvelli mannúðarástæðna samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984. Þar sé kveðið á um að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal mæli mannúðarástæður gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Að mati varnaraðila sé full ástæða til að beita ákvæði 7. gr. laganna í málinu. Varnaraðili hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 2006. Hann sé hér með fasta vinnu og hafi aldrei þurft á fjárhagslegri aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum að halda. Hann sé í sambúð með unnustu sinni og leigi þau íbúð að [...] Reykjavík. Þá hafi þau einnig gert kauptilboð í ákveðna fasteign þar og vonist til að geta sest hér að til langs tíma og hugað að barneignum. Varnaraðili eigi auk þess fleiri ættingja hér en systir hans hafi einnig búið á landinu í 10 ár.
Varnaraðili bendir á að hann hafi aldrei gerst sekur um saknæma háttsemi hér á landi á þessu tíu ára tímabili að undanskildu því að hafa tvisvar gerst brotlegur við umferðarlög. Varnaraðili sé því allt annar maður en hann hafi verið þegar hann framdi þau brot sem hann var dæmdur fyrir af pólskum dómstólum á árunum 2004-2006. Ljóst sé að meira en tíu ár séu liðin frá því að varnaraðili framdi brotin en hann sé einungis þrítugur í dag og hafi því verið 19 ára þegar að síðasti refsidómurinn féll yfir honum. Eins og fram komi í dómum yfir varnaraðila hafi brotin verið framin á árunum 2004-2005 eða þegar hann var 17-18 ára gamall og enn á barnsaldri.
Ástæða þess að varnaraðili hafi flust hingað til lands var sú að hann iðraðist gjörða sinna. Hann hafi því viljað flytja burt og hefja nýtt líf þar sem hann gæti tekið upp heiðarlegan og góðan lífsmáta. Það hafi hann og gert og því sé ljóst að varnaraðili sé ekki ótíndur glæpamaður. Þessi brot sem hann hafi verið dæmdur fyrir séu dæmi um bernskubrek frekar en eitthvað annað. Það væri því gríðarlega ósanngjarnt og ómannúðlegt að fara að framselja varnaraðila til pólskra yfirvalda, einhverjum 12-13 árum eftir að hann framdi brotin, þar sem varnaraðila yrði gert að sitja í pólsku fangelsi sem ekki séu þekkt fyrir mikla mannúð. Að mati varnaraðila sé því í raun ótrúlegt að dómsmálaráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að beita 7. gr. laga nr. 13/1984 að öllum málsatvikum virtum.
IV.
Í málinu gerir varnaraðili þá kröfu fyrir dóminum að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dagsett 17. maí 2017, um að fallast á kröfu pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja hann til Póllands. Eins og rakið hefur verið að framan hafa pólsk dómsmálayfirvöld krafist framsals varnaraðila á grundvelli tveggja dóma sem hann hlaut árin 2004 og 2016 í málum nr. [...] og [...]. Með hinum síðarnefnda dómi voru refsingar sem varnaraðili hlaut með þremur dómum úti í Póllandi árin 2005-2006 í málum nr. [...],[...] og [...] sameinaðar. Varnaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að fella skuli ákvörðun ráðuneytisins úr gildi þar sem dómarnir séu fyrndir samkvæmt 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 og að það brjóti gegn ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð að sameina refsingar úr eldri dómum með nýjum dómi eins og gert hafi verið með dómi í máli nr. [...]. Þá byggir varnaraðili jafnframt á því í þessu sambandi að íslensk þýðing á 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga, sem mæli fyrir um rof fyrningar, hafi ekki verið lögð fram í málinu og að túlkun sóknaraðila á ákvæðinu standist ekki. Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að mannúðarástæður 7. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum eigi við í málinu og því beri að synja um framsal á varnaraðila.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1984 kemur fram að þann mann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum. Þá kemur fram í 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laganna að framsal til fullnustu á dómi sé aðeins heimilt ef refsing samkvæmt dómi sé minnst fjögurra mánaða fangelsi. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að framsal sé óheimilt sé sök eða dæmd refsing fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Þá er mælt fyrir um það í 2. mgr. 9. gr. laganna að berist beiðni um framsal frá ríki sem taki þátt í Schengen-samstarfinu þá skuli lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests.
Eins og að framan hefur verið rakið hlaut varnaraðili fjóra refsidóma úti í Póllandi á árunum 2004-2006. Í fyrsta lagi hlaut hann dóm í máli nr. [...] hinn 23. september 2004 þar sem hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára. Í gögnum málsins liggur fyrir úrskurður héraðsdómsins í [...], dagsettur 7. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að afplána refsinguna sökum skilorðsrofs. Jafnframt liggur fyrir í málinu ákvörðun sama dómstóls, dagsett 14. nóvember 2007, þar sem ákveðið var að fresta fullnustu refsingar samkvæmt dóminum yfir varnaraðila uns til hans hefði náðst. Í öðru lagi hlaut varnaraðili dóm í máli nr. [...] þann 9. september 2016, þar sem refsingar í málum nr. [...], [...] og [...] voru sameinaðar og honum gert að sæta samanlagt tveggja ára fangelsi vegna dómanna.
Ljóst er að skilyrði 1. mgr. 3. gr. og 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 eru uppfyllt í málinu, enda hlaut varnaraðili tveggja ára fangelsi með báðum dómunum í málum nr. [...] og [...], sem framsalskrafa pólskra yfirvalda byggist á. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fellur fangelsi eða hælisvist sem dæmd hefur verið niður, ef fullnusta dóms er ekki byrjuð innan tíu ára, ef refsing er fangelsi lengur en eitt ár og allt að fjórum árum. Þá er mælt fyrir um það í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ekki er þörf á því að skjali sem aðili máls byggir á fylgi þýðing á íslensku ef dómari telur sér fært að þýða það. Í framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda frá 17. nóvember 2016 er að finna enska þýðingu á 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga sem dómari telur sig fullfæran um að þýða. Ákvæðið verður ekki skilið á annan hátt en að það feli í sér að fyrningu verði ekki frestað nema í þeim tilvikum er dómfelldi hafi komið sér undan afplánun refsingar. Þá megi sá tími er fyrningu verði frestað ekki vara lengur en í tíu ár, sbr. síðari málslið ákvæðisins. Að mati dómsins gerir það að verkum að fyrningarfrestur getur lengst um allt að tíu ár í þessum tilvikum. Þrátt fyrir fullyrðingar varnaraðila um hið gagnstæða liggur ekkert fyrir í málinu um að pólskum yfirvöldum hafi verið kunnugt um dvöl varnaraðila hér á landi og verður því litið svo á að hann hafi reynt að koma sér undan afplánun refsingar með dvöl sinni hér.
Að mati dómsins verður að telja að fyrningarfrestur vegna dóms í máli nr. [...] hafi verið rofinn með ákvörðun héraðsdómsins í [...] hinn 14. nóvember 2007, þar sem ákveðið var að fresta fullnustu refsingar samkvæmt dóminum yfir varnaraðila uns til hans hefði náðst, sbr. 3. mgr. 15. gr. pólskra laga um fullnustu refsinga, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984. Á það verður því fallist með sóknaraðila að refsing í málinu sé ófyrnd samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir jafnframt ljóst að refsing samkvæmt dómi í máli nr. [...] er ófyrnd með vísan til sama lagaákvæðis. Varnaraðili hefur enn fremur ekkert fært fram í málinu sem sýnir fram á að sameining dóma í málum nr. [...], [...] og [...] með þeim dómi, hafi verið í andstöðu við pólsk lög eða ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Málsástæða hans í þessa veru er vanreifuð og verður henni hafnað. Að framangreindu virtu kemur 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 því ekki í veg fyrir að varnaraðili verði framseldur til Póllands.
Varnaraðili byggir einnig á því að 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi að koma í veg fyrir að fallist verði á kröfu sóknaraðila um að framselja hann til Póllands. Dómsmálaráðuneytið hefur í ákvörðun sinni, dagsettri 17. maí 2017, fjallað um undanþáguákvæði fyrrnefndrar 7. gr. en ákvæðið mælir fyrir um að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal mæli mannúðarástæður gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður. Með ákvörðun ráðuneytisins var að mati dómsins tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður fyrrgreinds lagaákvæðis ættu að leiða til þess að kröfu um framsal yrði hafnað. Mat ráðuneytisins var að ekki væru nægar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Þetta mat ráðuneytisins verður ekki endurskoðað, enda telur dómurinn engar líkur hafa verið leiddar að því af hálfu varnaraðila að það hafi ekki farið fram með réttum og málefnalegum hætti eða að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar hafi þar ekki verið virtar. Ekki eru því efni til þess að mati ráðuneytisins verði hnekkt í málinu.
Samkvæmt öllu framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila og verður kröfu hans því hafnað. Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans til Póllands verður því staðfest.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og er hún ákveðin 550.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dagsett 17. maí 2017, um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Gríms Más Þórólfssonar hdl. 550.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.