Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 25. apríl 2012. |
|
Nr. 251/2012.
|
A (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn B og C (Sveinbjörn Sveinbjörnsson hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdómur þar sem hafnað var kröfu A um að felld yrði úr gildi lögræðissvipting sem hún sætir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2012, sem barst héraðsdómi 2. apríl sama ár og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi lögræðissvipting sem hún sætir samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 1997. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni fengið lögræði, en til vara að hún verði aðeins svipt áfram þeim réttindum sem nauðsynlegt er. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaður úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar þóknanir skipaðs verjanda sóknaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Sveinbjörns Sveinbjörnssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur til hvors.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2012.
Með beiðni, dagsettri og móttekinni 17. nóvember 2011, gerði A, kt. [...], [...],[...], þá kröfu að úrskurðað verði að fella skuli niður lögræðissviptingu sem hún hefur þurft að sæta frá 25. febrúar 1997 þegar kveðinn var upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. L-6/1997. Til vara gerir sóknaraðili þær kröfur að lögræðissviptingin sem hún hefur þurft að sæta verði felld niður að hluta þannig að sóknaraðili verði aðeins svipt þeim réttindum sem nauðsynlegt er. Þá gerði sóknaraðili kröfu um að Sigurður Sigurjónsson hrl. yrði skipaður talsmaður hennar við meðferð málsins og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðilar eru C, kt. [...], og B, kt. [...], bæði til heimilis að [...],[...]. Varnaraðilar eru foreldrar sóknaraðila og voru sóknaraðilar í fyrrgreindu máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. L-6/1997 þegar sóknaraðili var svipt lögræði. Kröfur varnaraðila eru að synjað verði um aðal- og varakröfu sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar úr ríkissjóði.
Aðild sóknar- og varnarmegin byggir á 7., sbr. 15. gr., lögræðislaga nr. 71/1997.
Mál þetta var þingfest 10. janúar 2012 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 16. mars 2012. Sigurður Sigurjónsson hrl. var skipaður talsmaður sóknaraðila en Sveinbjörn Sveinbjörnsson hdl. var skipaður talsmaður varnaraðila.
Málavextir:
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að upphaf málsins sé það að sóknaraðili hafi verið svipt lögræði með fyrrnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. febrúar 1997 í kjölfar þess að hún hafi leiðst út í óreglu og fíkniefnaneyslu. Varnaraðilar þessa máls, sem séu kjörforeldrar sóknaraðila, hafi staðið að þeirri kröfu.
Frá því að sóknaraðili hafi verið svipt lögræði hafi hún verið vistuð á [...] þar sem hún haldi heimili í dag. Aðstæður hennar hafi breyst mikið frá því sem lýst sé í framangreindum úrskurði og hafi sóknaraðili leitað eftir aðstoð við að leggja fram kröfu um niðurfellingu lögræðissviptingarinnar. Um rétt sinn hafi hún aflað sér upplýsinga á internetinu sem hún noti mikið í tómstundum. Hafi sóknaraðili leitað aðstoðar lögmanns með aðstoð D sem sé réttindagæslumaður fatlaðra á [...] og í [...].
Sóknaraðili haldi heimili í leiguíbúð sinni í [...] á [...] og sjái sjálf um allar daglegar þarfir sínar þótt hún hafi stuðning af því verndaða umhverfi sem hún búi í. Í gegnum árin hafi sóknaraðili stundað ýmis störf á [...] s.s. í garðyrkju, listasmiðju, við flokkun pósts á staðnum, í versluninni á staðnum og sinni hún núna ræstingum á [...].
Segir að sóknaraðili sé trúlofuð E, kt. [...],[...] á [...]. Hafi þau átt í sambandi síðastliðin 5 ár og í 4 ár hafi sóknaraðili búið með E á [...], en hann hafi flutt á [...] fyrir nokkru. Fái sóknaraðili lögræði sitt aftur vilji hún flytjast frá [...] og til E sem búi núna í foreldrahúsum, en hún hafi lagt inn umsókn um úthlutun leiguhúsnæðis á [...] á vegum [...] og bíði afgreiðslu þeirrar umsóknar. Hafi sóknaraðili oftlega dvalið hjá E hjá foreldrum hans í helgarleyfum sínum. Hugur sóknaraðila standi til þess að stunda nám í [...]skóla [...] á [...], en hún hafi lokið fornámi í [...]skólanum í [...] áður en hún var svipt lögræði.
Kemur fram að sóknaraðili geri sér grein fyrir ástæðum lögræðissviptingarinnar á sínum tíma en að hún telji þær aðstæður ekki eiga við í dag, enda hafi hún þroskast mikið síðan og vilji hefja nýtt líf. Kveðst hún óska eftir því að lögræðissviptingin verði felld niður með vísan til 15. gr. lögræðislaga nr.71/1997, en kveðst gera sér grein fyrir því að hún þurfi aðstoðar með, en þá aðstoð hyggist hún sækja til félagsþjónustu [...]. Um meðferðaraðila vísar sóknaraðili til [...] í [...], F heilsugæslulæknis í [...] og G geðlæknis sem hafi haft sóknaraðila lengi til meðferðar.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að ástæður þess að sóknaraðili var upphaflega svipt lögræði sínu hafi verið að hún væri þroskaheft, persónuleikatrufluð, dómgreindarbiluð, haldin geðklofa og hneigðist til útigangs með óreglufólki og fíkniefnaneyslu, auk þess að hún kynni ekki með fé að fara og eyddi jafnóðum öllu fé sem hún kæmist yfir. Hafi varnaraðilar talið og telji enn nauðsynlegt að hún sé vistuð áfram á [...], en þar sé það aðhald og eftirlit sem henni sé æskilegt. Vísa varnaraðilar til þess að það sé álit F læknis að sóknaraðili þurfi töluvert aðhald og eftirlit til að geta sinnt daglegu lífi svo að hún lendi ekki í óæskilegum aðstæðum. Þá telji G geðlæknir að sóknaraðili hafi átt góð ár á [...] enda fengið þar mikla stýringu og aðhald. Báðir meðferðaraðilarnir, F og G, telji að sóknaraðili geti ekki haft fulla stjórn á fjármálum sínum.
Segir í greinargerð varnaraðila að framkvæmdastjóri [...], H, hafi þekkt sóknaraðila frá því hún kom á [...]. Samkvæmt umsögn hans hafi sóknaraðili sætt lagi með að komast í áfengi í vaxandi mæli upp á síðkastið, en hún sé enn haldin fíkn og muni verða í mikilli áhættu af þeim sökum um ókomna tíð eins og fram komi í umsökn I sálfræðings. Fyrstu árin á [...] hafi sóknaraðili stöðugt verið í meðferð við áfengisfíkn.
Vegna umsóknar sóknaraðila um húsnæði á [...] þá draga varnaraðilar gildi þeirrar umsóknar í efa þar sem sóknaraðili sé ólögráða og ekki hafi verið haft samband við lögráðamann hennar vegna umsóknarinnar. Vegna E, unnusta sóknaraðila, benda varnaraðilar á að E hafi verið kærður til lögreglu af framkvæmdastjóra [...] þann 26. september 2011 fyrir þjófnað og fjársvik, en ákæra hafi verið gefin út á hendur honum vegna þess þann 27. janúar 2012.
Varnaraðilar telja kröfur sóknaraðila ekki hafa verið rökstuddar nægilega og ekki hafi verið lögð fram gögn um breyttar aðstæður sóknaraðila eins og áskilið sé í 3. mgr. 15. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að félagsþjónusta [...] geti veitt sóknaraðila þann stuðning sem hún þurfi á að halda.
Í gögnum málsins er vottorð I sálfræðings þar sem fram kemur að sóknaraðili sé fötluð vegna “fetal alcohol syndrome”. Hún hafi sögu um neyslu og útigangslíf en ekki hafi tekist að veita henni meðferð fyrr en hún hafi verið svipt lögræði. Búseta hennar á [...] hafi verið farsæl. Hún sé enn haldin fíkn og muni um ókomna tíð verða í mikilli áhættu af þeim sökum. Það þurfi þó ekki að koma í veg fyrir að hún flytji frá [...] eða öðlist lögræði sitt aftur. Hún og þeir sem best þekki hana verði að meta áhættuna af því að hún fái lögræði sitt aftur. Aðstæður séu mjög breyttar frá því hún hafi komið að [...], hún sé eldri og þroskaðri og hafi nokkuð innsæi í þá áhættu sem fylgi neyslu. Allar líkur séu á að hún verði til samstarfs ef hún lendi í erfiðleikum vegna fíknarinnar, en sjálfræði muni veita henni styrkari sjálfsmynd og efla hana á þann hátt.
Fyrir liggur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 1997, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði og fjárræði. Þar segir m.a. “Ástæður beiðninnar kveða sóknaraðilar þær að varnaraðili sé þroskaheft, persónuleikatrufluð, dómgreindarbiluð, haldin geðklofa og hneigist til útigangs með óreglufólki og fíkniefnaneyslu, hún kunni ekki með fé að fara og eyði öllu fé jafnóðum sem hún komi höndum undir. Sóknaraðilar telja nauðsynlegt að varnaraðili vistist á [...] í [...], en hún hefur dvalið á [...] frá 11. mars sl, síðast á endurhæfingardeild.” Skipaður verjandi mótmælti ekki kröfunni. Svo segir í úrskurðinum: “G, sérfræðingur í geðlækningum á geðdeild Landspítala að [...], hefur gefið vottorð 10. þ.m. Þar kemur fram staðfesting á þeim atvikum sem sóknaraðilar hafa tilgreint sem ástæður fyrir kröfu sinni og auk þess að sóknaraðili sé atferlistrufluð og eigi við áfengis- og lyfjafíkn að stríða. Hún er kjördóttir sóknaraðila, kom til þeirra fimm ára gömul en hafði orðið fyrir heilasköddun í móðurkviði vegna óreglu móður. Á árinu 1995 gerði hún uppreisn gegn foreldrum sínum og lagðist út með óreglufólki og blandaði geði við útigangsfólk á verstu búllum bæjarins. Læknirinn kveður hana sinnulausa, áhugalausa, hvatvísa og lággreinda, með greindarvísitölu innan við [...]%, 75% öryrkja af þeim sökum. Hann kveður hana hafa gengist undir lyfjameðferð og atferlismótandi meðferð á sjúkrahúsinu en ekki geta borið ábyrgð á lyfjatöku, nánast þurfa gjörgæslu til að forða henni frá óreglu; hún sinni ekki athöfnum daglegs lífs, þvoi sér ekki og skipti ekki um föt ótilkvödd. Læknirinn telur varnaraðila hvorki geta haft stjórn á lífi sínu né fjármálum af framangreindum orsökum. Hann mælir eindregið með að varnaraðili verði svipt lögræði.“
Fyrir liggur vottorð F heilsugæslulæknis í [...]. Þar kemur fram að segja megi að sóknaraðili hafi bjarglegt vit í samræmi um daglegt líf en hæfni til sértækra ályktana svo sem hversu lengi kaup hennar endist til kaupa á nauðsynjavörum eða hversu mikið kaup hún hefur yfir höfuð sé henni mjög óljós. Þá séu tengsl hennar við fólk yfirborðskennd og hún iðulega sinnulaus um persónulega hirðu. Á köflum hafi hömluleysi og dómgreindarleysi verið áberandi. Það sé ljóst að sóknaraðili stríði við þroskahömlun og sé með persónuleikatruflanir sem valdi því að hún þurfi töluvert aðhald og eftirlit til að geta sinnt daglegu lífi til að lenda ekki í óæskilegum aðstæðum bæði persónulega og félagslega.
Í gögnum málsins er umsögn H framkvæmdastjóra [...]. Þar segir m.a. að á þeim tíma sem sóknaraðili hafi dvalið á [...] hafi náðst góður árangur, en hann hafi þó verið sveiflukenndur. Fyrri lifnaður togi alltaf í og hún hafi ríka tilhneigingu til að sækja í það sem henni sé ekki fyrir bestu, hvort heldur það sé „vinir“ eða áfengi. Á þeim tíma sem liðinn sé síðan sóknaraðili hafi farið að bera sig eftir endurheimt lögræðis hafi komið upp atvik sem séu til þess falin að vekja ótta um það sem verður ef/þegar hún fær aftur lögræði sitt. Í vaxandi mæli hafi sóknaraðili sýnt af sér ögrandi hegðun. Hún segist ætla að búa á [...] með „fyrrum kærasta“ sem hafi haft „misgóð“ áhrif á sóknaraðila, en sá hafi verið kærður vegna þjófnaðar frá [...]. Þá hafi sóknaraðili sætt lagi með að sækja í áfengi í vaxandi mæli. Hegðun hennar gagnvart starfsfólki og öðrum vistmönnum hafi verið meira ögrandi en um langan tíma.
Þá hefur verið lagt fram vottorð G geðlæknis. Kemur fram að læknirinn hafi þekkt sóknaraðila frá því í október 1995 þegar foreldrar hennar hafi leitað til sín með hana. Í framhaldi þess hafi hann lagt hana inn á deild 12 á [...] þar sem hún hafi dvalið, ásamt ýmsum öðrum deildum, allt til 20. apríl 1997 að hún hafi flust að [...] þar sem hún hafi dvalið síðan.
Síðan segir í vottorði læknisins: „A er þroskaheft og hefur haft alvarlegar atferlistruflanir auk þess sem hún er haldin geðklofa og átt við áfengis- og lyfjafíkn að stríða. A var í frumbernsku alin upp af drykkfelldri móður og á upptökuheimili en fór til kjörforeldra þegar hún var 5 ára [...]. Hún var illa á sig komin þegar hún fór til kjörforeldra og greinilegt að uppeldið fyrstu æviárin hafði farið illa með hana og hún ennfremur borið skaða á heila vegna drykkju móður á meðgöngu. Henni sóttist alla tíð illa skólaganga og ætíð verið á eftir. Ennfremur all tíð verið mjög lygin og óábyggileg. Haustið 1995 fór hún í mikla uppreisn gagnvart foreldrum. Fór þá að sýna af sér mjög truflaða hegðun og atferli. Þá lagðist hún út með óreglufólki og virtist áhrifagjörn og lítt staðföst. Sótti þá bæði í vín, hass og amfetamín. Jafnframt fór í auknum mæli að bera á miklu sinnuleysi og áhugaleysi. Hún hætti að sinna persónulegri hirðu og varð mjög neikvæð og þver. Jafnframt fór hún að sýna af sér afar litlar tilfinningar og á köflum fór hún að sýna af sér mikla hvatvísi, hömluleysi og dómgreindarleysi. Því var hún lögð inn til rannsóknar og meðferðar á [...] haustið 1995. Við sálfræðilega rannsókn þá kom í ljós að hún er greindarskert, með greindarvísitölu rétt neðan við 70. Við rannsókn þar kom í ljós að hún er með heilaskaða af völdum áfengisneyslu móður á meðgöngu (Fetal alcohol syndrome) og jafnframt geðklofasjúkdóm. A hefur átt góð ár á [...], enda fengið þar mikla stýringu og aðhald. Að mínu mati getur hún ekki stjórnað eigin lífi vegna greindarskorts, dómgreindarleysis og geðsjúkdóms. Hún getur illa borið ábyrgð á eigin lyfjatöku og ekki haft stjórn á eigin fjármálum. Hætta er á, ef hún hefur ótakmarkaðan aðgang að fjármagni, þá sói hún öllu. Ég tel enga breytingu hafa orðið hjá A sem réttlæti það að hún fái á ný sjálfræði og fjárræði og tel því nauðsynlegt að hún verði áfram lögræðissvipt.“
Skýrslur aðila og vitna við aðalmeðferð:
Sóknaraðili gaf ekki skýrslu sjálf við aðalmeðferðina, en dómari og lögmenn fóru að [...] fyrir aðalmeðferðina og ræddu við sóknaraðila stundarlangt um aðstæður hennar og framtíðarhorfur.
Varnaraðili C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að áhyggjur varnaraðila af niðurfellingu lögræðissviptingar væru þær að þau teldu að sóknaraðili myndi ekki valda því að hafa sitt sjálfræði. Þó að sóknaraðili segist munu standa sig og ekki fara í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu þá treysti þau því ekki að fenginni þeirri reynslu af sóknaraðila að það sé ekki vel að marka það sem hún segi. Það fari oft ekki saman orð og efndir hjá sóknaraðila. Ekki hafi það komið sérstaklega til tals að sóknaraðili flytjist á annan stað, enda telji þau að ekki sé annar staður til eins og [...], nema e.t.v. í þéttbýli þar sem sóknaraðili ætti auðveldara með að komast í það sem þau vilji halda henni frá með því að hafa hana á [...]. Þau hafi gengið í gegnum það að leita að sóknaraðila á börum [...] og sækja hana á hina ýmsu staði. Þau treysti sér alls ekki til að ganga gegnum það aftur. Þau telji að sóknaraðili muni ekki höndla sitt sjálfræði. Sóknaraðili hafi komið til þeirra árið 1982, þá 5 ára gömul. Hún hafi komið til þeirra á vegum barnaverndaryfirvalda [...]. Þá hafi hún verið á heimili fyrir börn á [...]. Áður hafi verið leitað til annarra í fjölskyldunni með að koma henni til hjálpar. Hana hafi þá vantað megnið af tönnum, hún hafi verið vannærð, ekki haft neinar neglur, hún hafi sýnt spastískar hreyfingar og misst allt þvag. Þau hafi tekið ákvörðun um að reyna að styðja við sóknaraðila, en áður hafi verið gerðar margar tilraunir til að hafa hana hjá móður en það hafi ekki gengið. Þau hafi lesið með sóknaraðila allan grunnskólann. Svo hafi sóknaraðili farið í [...]skólann í [...] og svo í [...]skólann í [...]. Þar hafi sóknaraðili strax lent á eftir og jafnaldrar hennar hafi farið framúr henni. Á þessum tíma hafi sóknaraðili byrjað að fara í öfuga átt við vini og kunningja. Strax 17-18 ára gömul hafi sóknaraðili verið farin að láta sig hverfa yfir heila nótt og þá verið í slagtogi með útigangsfólki. Þá hafi hún verið hætt í skóla og sagst vilja búa á Rauðakrossheimili eða Hjálpræðishernum eða hvar sem er. Ári seinna hafi sóknaraðili látið sig hverfa alveg vikum saman. Þá hafi hún ekki verið í neinu sambandi við þau. Áður hafi hún verið lögð inn, en svo fengið vinnu í þvottahúsi. Hafi hún búið hjá varnaraðilum, sem hafi ekið henni í vinnu og sótt hana í vinnu og vaktað hana allan sólarhringinn. Þau hafi svo ekki getað það og þá hafi sóknaraðili látið sig hverfa. Þá hafi hún lagst í óreglu og þau hafi vitað að hún væri í eiturlyfjum og verið misnotuð 17-18 ára gömul. Hafi þau iðulega leitað til lögreglu sem hafi hjálpað þeim að hafa upp á henni og bent þeim á hvar hún væri og hafi þau reynt að fara að sækja hana. Hún hafi frekar viljað umgangast þetta fólk og sofa undir bát einhversstaðar á [...] eða einhverstaðar. Hún hafi þá ekki viljað koma með þeim og það hafi endað með því að G geðlæknir hafi lagt sóknaraðila inn. Svo hafi hún verið á heimili á [...]. Á endanum hafi hún svo farið á [...] eftir lögræðissviptinguna. Þetta ástand óttist varnaraðilar að verði aftur ef sóknaraðili endurheimti lögræði sitt. Þau treysti sér ekki til að sjá aftur um sóknaraðila á þennan hátt. Kvaðst varnaraðili ekki sjá fyrir sér hver myndi standa í því að sækja sóknaraðila til [...] ef hún færi þar í óreglu, ef hún byggi á [...]. Sjálfræðissviptingin væri ekki aðalatriði í sínum huga ef sóknaraðili væri sjálf sátt við að vera áfram á [...]. Kvaðst varnaraðili telja að sóknaraðili myndi sofa fram undir hádegi og fara svo út að ganga og koma svo heim og fara aftur að sofa. Taldi varnaraðili að sóknaraðila yrði mjög erfitt að fá vinnu á [...]. Á [...]sé hugsað um að dagurinn gangi eðlilega fyrir sig og að sóknaraðili hafi eitthvað fyrir stafni. Það sjái varnaraðili ekki fyrir sér á [...]. Ekki kvaðst varnaraðili telja að sóknaraðili gæti séð um fjármál sín, enda eyði hún öllu fé sem hún komi höndum yfir, m.a. í spilakassa en hún sé veik fyrir slíku. Í dag hafi sóknaraðili mjög góðan stuðning en það myndi ekki verða á [...], en þar væri ekki um að ræða sólarhringsumsjón. Taldi varnaraðili að lítið myndi sóknaraðili hafa samband við þau foreldra sína ef hún fengi lögræði sitt aftur en hún hafi lítið viljað hafa samband við þau hin seinni ár og einkum eftir að hún hafi kynnst E unnusta sínum. Þá hafi strax dregið úr því að hún kæmi til þeirra, enda hafi þau ekki viljað að þau væru bæði hjá þeim saman til að setjast upp. Þau séu hins vegar meira en velkomin í heimsóknir. Lýsti varnaraðili því að þegar hann hafi talað við sóknaraðila í síma þá hafi sóknaraðili ekki sagt neitt í símann, en þagað.
Kvaðst varnaraðili telja að sóknaraðila liði vel á [...] og þar vildi hún í rauninni vera enda væru vinir hennar og jafningjar þar. Hún eigi í raun enga vini utan [...] að frátöldum tengslum við fólk sem sé ekki æskilegur félagsskapur fyrir hana.
Vitnið F heilsugæslulæknir í [...] kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi verið heimilislæknir sóknaraðila þann tíma sem hún hafi verið á [...]. Kvað vitnið sóknaraðila mynda yfirborðsleg tengsl og ekki ná að mynda neinar dýpri samræður um hennar mál. Kvaðst vitnið telja sóknaraðila það þroskaskerta að mjög tvísýnt sé að hún geti sinnt sínum málum sjálf. Þetta mætti þó segja um ýmsa aðra á [...] sem þó væru ekki lögræðissviptir. Ekki kvaðst vitnið geta alfarið útilokað að sóknaraðili gæti séð um sig sjálf með stuðningi, en fyrri saga hennar í [...] bendi þó ekki til þess. Sóknaraðili þurfi utanumhald þannig að hún leiti ekki í félagsskap sem hún ráði ekki við. Vitnið kvað sóknaraðila vera greinda með þroskahömlun og persónuleikabrenglun. Hún hafi ekki verið greind þunglynd við komu en þeim læknum hafi þótt hún þurfa á þunglyndislyfjum að halda öðru hverju. Vitnið kvað sóknaraðila ekki gera sér grein fyrir kostnaði við daglegt líf, en ekki gæti hann fullyrt með getu hennar að öðru leyti gagnvart því að sjá um fjármál sín. Vitnið kvaðst vera hálfhræddur um að sóknaraðili myndi láta önnur sjónarmið en þau sem réttust yrðu talin ráða sínum högum. Myndi sóknaraðili líklega vilja sækja þangað sem fjörið er mest. Kvað vitnið sóknaraðila hafa verið á antabusmeðferð meira og minna til að geta farið til Reykjavíkur. Hvorki væri sóknaraðili áfengissjúklingur né fíknisjúklingur, en væri henni rétt vín þá drykki hún það. Kvaðst vitnið telja hættu á að undir áhrifum yrði sóknaraðili fengin til hluta sem henni væru ekki til góðs. Væri hætta á að hún yrði misnotuð gegn greiðslu í víni. Vitnið staðfesti vottorð sitt sem liggur fyrir í málinu.
Vitnið I sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa þekkt sóknaraðila frá þeim tíma sem hún flutti á [...]. Hann hafi þá verið því meðmæltur að hún flytti þangað vegna erfiðleika sem hún hafi átt við að etja í [...], vegna neyslu. Hafi vitnið fylgst með henni síðan. Hafi sóknaraðili búið við góð lífsgæði á [...] og notið þar mikillar og góðrar verndar og hún getað lifað sínu lífi án þess að vera fyrir framan þær freistingar sem hún hafi ekki staðist í þéttbýlinu. Taldi vitnið mjög miklar líkur til þess að lífsgæði sóknaraðila myndu breytast og rýrna við að flytja frá [...] og að hún myndi eiga erfitt með að höndla það frelsi sem hún fengi við niðurfellingu lögræðissviptingarinnar. Væri þetta byggt á reynslunni. Séu líkur til að sóknaraðili muni lifa áhættusömu lífi. Sóknaraðili hafi metnað og ásetning en svo yrðu aðstæður þannig að hún ætti erfitt með að axla þá ábyrgð sem fylgdi frelsinu. Á margan hátt hafi sóknaraðili staðið sig vel á [...]. Mætti gera ráð fyrir að sóknaraðili myndi leita eftir aðstoð ef hún lenti í vandræðum. Hjá sóknaraðila hafi komið fram miklir veikleikar við opnar aðstæður. Kvaðst vitnið telja að ef sóknaraðili myndi flytja á stað þar sem væri jafnmikið aðhald og á [...] þá gætu lífsgæði hennar haldist. Ef hún myndi missa það aðhald, s.s. með því að fara í sjálfstæða búsetu, þá myndu hennar lífsgæði rýrna. Ekki kvaðst vitnið vilja taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili ætti að fá að velja það sjálf að lifa áhættusömu lífi. Ekki kvaðst vitnið geta séð fyrir sér nein úrræði fyrir sóknaraðila á [...]. Sóknaraðili þurfi aðstæður þar sem slæmar freistingar og félagsskapur sé ekki fyrir hendi. Sóknaraðili sé í þó nokkurri áhættu með að vera ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum sjálf þar sem hún meti dómgreind sína svo að hún geti axlað ábyrgð sem hún geti svo ekki axlað. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að sóknaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fjárhag sjálf. Væri hætt við að sóknaraðili myndi taka ákvarðanir sem væru henni óheillavænlegar, s.s. með því að umgangast fólk sem leiði hana inn í neyslu og hún myndi lenda í alls kyns misnotkun s.s. kynferðislegri og fjárhagslegri. Sólarhringsumsjón þyrfti til að koma í veg fyrir þetta. Hún ætti jafnvel erfitt með að fara eftir leiðbeiningum og aðstoð ef hún hefði frelsi til að hunsa það.
Vitnið D réttindagæslumaður fatlaðs fólks á [...] og í [...] kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi fyrst kynnst sóknaraðila á síðasta ári. Kvað vitnið endurheimt lögræðis vera mikilvæga fyrir sjálfsmynd sóknaraðila. Á [...] séu félagslegar íbúðir og ýmsir möguleikar fyrir sóknaraðila að fá húsnæði. Ekkert gat þó vitnið fullyrt hvernig gengi að fá húsnæði fyrir sóknaraðila. Væri mikilvægt fyrir sóknaraðila að fá þá talsmann. Mikill stuðningur sé í boði á vegum sveitarfélagsins, allt að því allan sólarhringinn. Mögulegt sé að búa til heilmikið net í kringum sóknaraðila með stuðningi. Því fylgi talsverð frelsissvipting að vera á [...] vegna staðsetningar. Ekkert kvaðst vitnið geta sagt til um það hvað gerðist ef sóknaraðili fengi aftur lögræði sitt. Í [...] búi margir fatlaðir einstaklingar með stuðningi. Vitnið kvað erfitt að svara því hvort sóknaraðili gæti fengið sama aðhald á [...] og á [...], en um sé að ræða ólík samfélög. Vitnið kvaðst telja jákvætt fyrir sjálfsmynd sóknaraðila að fá lögræði sitt, en vitnið þekki ekki sóknaraðila nægilega vel til að leggja á það mat hvort sóknaraðili sé fær um að ráða sjálf persónulegum högum sínum og fé. Sóknaraðili geri sér grein fyrir að hún þurfi stuðning, en vitnið geti ekki lagt mat á það hvað myndi gerast ef sóknaraðili fengi lögræði sitt aftur.
Vitnið H framkvæmdastjóri [...] kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að á [...] fái sóknaraðili aðstoð við heimilishald og almennt aðhald. Sé fylgst með því að hún sinni sínu, fái að borða, þrífi sig o.fl. Þá sé fylgst með fjármálum sóknaraðila og haldið utan um þau. Henni sé skammtað fé á debetkort svo hún hafi fé til ráðstöfunar. Ansi oft þurfi að vekja sóknaraðila á morgnana. Lýsti vitnið því hvernig dagurinn gengur fyrir sig á [...] hjá sóknaraðila. Oftlega þurfi að veita sóknaraðila aðhald með að mæta á tilsettum stað og tíma til að sinna sínu. Þurfi að passa að sóknaraðili mæti þar sem hún eigi að vera. Hún þurfi mikið aðhald en ella fari hún bara heim að sofa eða í tölvuna. Sóknaraðili hafi talsvert frjálsræði á [...] og meira en hún hafi áður haft. Fyrstu misserin hafi verið mun meira aðhald en það hafi trosnað m.a. vegna vilja starfsmanna til að treysta henni, en það hafi þó farið mis vel. Hafi hún t.d. farið í drykkju þegar hún hafi fengið að fara til [...]. Samband sóknaraðila og E unnusta hennar hafi fyrst haft jákvæð áhrif á hennar líf að mati vitnisins, en þeirra samband hafi ekki alltaf verið gott og samskipti þeirra hafi ekki haft jákvæð áhrif á sóknaraðila þegar á hafi liðið. Telji vitnið samband þeirra ekki heppilegt. E sé sjálfur ekki mikið burðugri en sóknaraðili. Eftir að E fór að vera með sóknaraðila hafi hún farið að stunda vinnu sína verr og verið latari við verk sín. Vitnið kvaðst hafa þekkt sóknaraðila allar götur frá því að hún hafi komið á [...] og séu samskipti þeirra mikil og góð. Sé milli þeirra gagnkvæm vinátta og virðing. Vitnið kvaðst telja að það myndi skerða lífsgæði sóknaraðila að hún fengi lögræði sitt. Veruleg hætta sé að á hún myndi umgangast fólk sem gerði henni ekki gott, en hún hafi alla tíð haft ríka tilhneigingu til þess. Hún sæki í félagsskap sem sé henni ekki góður og uppbyggilegur. Sóknaraðili nái ekki að halda utan um sín fjármál og það myndi verða verulegt áhyggjuefni. Það væri verulegt áhyggjuefni að sóknaraðili færi í drykkju og þesslega neyslu. Það myndi ekki gerast alveg strax, en vitnið kvaðst telja líklegt að sóknaraðili myndi leiðast út í óreglu. Sóknaraðili hafi þó tekið miklum framförum á [...] og margt gott hafi áunnist. Kvaðst vitnið óttast að því yrði fórnað ef sóknaraðili fengi sjálfræði sitt. Þegar vitnið hafi fengið að fara á [...] eða til [...] hafi hún verið við ótæpilega drykkju og farið á bak við hann. Hún hafi þó skilað sér sjálf aftur á [...], en hún skili sér ekki endilega á réttum tíma. Vitnið kvaðst vera nánast viss um að sóknaraðili myndi ekki fara eftir leiðbeiningum, ráðum og aðhaldi sem hún myndi fá á [...] hjá þeim sem myndu veita henni liðveislu. Vitnið kvað sóknaraðila hafa skilning á því hvað hlutir kosta, en að hún eyði því sem hún komi höndum yfir. Vitnið myndi ekki treysta sóknaraðila til að sjá um fé sitt og kappkosta að láta enda ná saman á mánaðamótum í stað þess að sólunda því strax. Hafði vitnið enga trú á því að sóknaraðili myndi geta séð um fé sitt þannig að fara vel með og eiga fyrir leigu, rafmagni og hita o.þ.h. Kvaðst vitnið telja mjög ólíklegt að sóknaraðili myndi sjálf sjá um matseld. Getulega séð geti sóknaraðili séð um lyf sín sjálf, en það sé þó vel fylgst með því.
Vitnið G geðlæknir kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa fyrst haft kynni af sóknaraðila áður en hún var svipt lögræði. Fyrst á stofu og svo eftir að hún var lögð inn á geðdeild á deild 12. Hafi vitnið haft af henni margra ára kynni í framhaldinu. Vitnið hafi hitt sóknaraðila oft framan af en sjaldnar hin síðari ár og síðast árið 2009. Ekki væri neinn möguleiki á að greind og dómgreind sóknaraðila hafi tekið neinum breytingum síðan. Hann hafi greint hana og verið með hana í meðferð. Ekki kvaðst vitnið telja að nein breyting hefði orðið á veikindum sóknaraðila. Hún væri með heilaskaða, svokallað „alcohol fetal syndrome“, sem væri vegna drykkju móður á meðgöngu. Þá þroskist heilinn ekki eðlilega og nái ekki eðlilegri stærð. Það komi niður á heilastarfsemi. Hafi sóknaraðili sýnt mörg merki þess og vantaði mikið á tengingar í heilastarfsemi hennar. Þá sé sóknaraðili mjög neðarlega í greind milli 60 og 70 og hefði ekki komist gegnum skóla nema fyrir mikinn stuðning heima fyrir. Hún hafi stundum getað villt um fyrir fólki því hún hafi góðan orðaforða og málfar og njóti þess úr sínu uppeldi. Vitnið kvaðst vera því andvígur að sóknaraðili fengi lögræði sitt endurheimt vegna hættu á að hún leitaði til fyrra lífernis, en hún hafi verið mjög óreglusöm, bæði í áfengi og eiturlyfjum og hafi eiginlega horfið inn í hóp útigangsfólks í [...] áður en hún fór austur. Það hafi verið mjög erfitt og hún hafi hvorki haft innsæi né dómgreind til að átta sig á því hvar hún væri stödd. Hennar hagsmunir séu að vera áfram á [...], en ef hún færi þaðan þá þyrfti hún að vera á stað þar sem væri þjónusta og eftirlit. Hún geti ekki farið beint af [...] og leigt sér húsnæði. Það væri dæmt til að mistakast. Vitnið kvaðst telja sóknaraðila ófæra um að ráða persónulegum högum sínum og fé sínu. Þeir eiginleikar sóknaraðila sem ráði þessu mati sínu geti ekki breyst. Vitnið kvað aðalhættuna vera þá að sóknaraðili færi í áfengis- og fikniefnaneyslu með slæmum félagsskap og færi til [...] líkt og fyrrum. Vitnið staðfesti vottorð sitt sem fyrir liggur í málinu.
Niðurstaða:
Í máli þessu gerir sóknaraðili þær kröfur að lögræðissvipting sú sem hún hefur sætt allt frá 25. febrúar 1997 verði felld úr gildi. Um niðurfellingu lögræðissviptingar er fjallað í 15. gr. lögræðislaga nr.71/1997. Kemur fram í 1. mgr. 15. gr. laganna að nú telji sá sem aðild geti átt að slíku máli, að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi og þá getur hann borið fram um það kröfu að sviptingin verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti. Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir að krafa skuli studd gögnum um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta ef unnt er. Skilyrði þess að lögræðissvipting verði felld úr gildi er þannig að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi.
Í málinu liggur fyrir úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 1997, þar sem tilgreindar eru ástæður þess að sóknaraðili var svipt lögræði sínu.
Dómari hitti sóknaraðila að máli daginn sem aðalmeðferð málsins fór fram, ásamt lögmönnum beggja aðila, föður sóknaraðila, réttindagæslumanni fatlaðra á [...] og í [...] og framkvæmdastjóra [...]. Var að mati dómsins augljóst að sóknaraðili býr við andlega skerðingu. Var sameiginlegt mat dómsins og lögmanna að ástæðulaust væri að sóknaraðili gæfi formlega skýrslu fyrir dóminum.
Fyrir liggur vottorð I sálfræðings, þar sem segir að sóknaraðili sé fötluð vegna “alcohol fetal syndrome” og hafi sögu um neyslu og útigangslíf en ekki hafi tekist að veita henni meðferð fyrr en eftir lögræðissviptingu. Kemur fram að sóknaraðili sé enn haldin fíkn og muni um ókomna tíða verða í mikilli áhættu af þeim sökum. Aðstæður hennar séu breyttar en þeir sem best þekki til hennar, sem og hún sjálf, verði að meta áhættuna af því að hún endurheimti lögræði sitt. Í framburði vitnisins við aðalmeðferðina kom fram það mat hans að mjög miklar líkur væru til þess að lífsgæði sóknaraðila myndu breytast og rýrna við að flytja frá [...] og að hún myndi eiga erfitt með að höndla það frelsi sem fylgja myndi niðurfellingu lögræðissviptingarinnar. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að sóknaraðili væri fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé. Væri hætta á að hún myndi fara í neyslu og vera misnotuð af óvönduðu fólki.
Í vottorði F heimilislæknis sóknaraðila kom fram að segja mætti að sóknaraðili hafi bjarglegt vit til daglegs lífs, en hæfni til sértækra ályktana væri mjög óljós. Borið hafi á hömluleysi og dómgreindarleysi, en sóknaraðili sé með þroskahömlun og persónuleikatruflanir sem valdi því að hún þurfi töluvert aðhald og eftirlit til að lenda ekki í óæskilegum aðstæðum bæði persónulega og félagslega. Í framburði vitnisins við aðalmeðferðina kom fram að sóknaraðili myndi yfirborðsleg tengsl og ekki náist neinar dýpri samræður við hana um sín mál. Hún sé það þroskaskert að mjög tvísýnt sé að hún geti sinnt sínum málum sjálf. Kvað hann sóknaraðila ekki gera sér grein fyrir kostnaði við daglegt líf en hann gæti a.ö.l. ekki lagt mat á hæfni hennar til að sinna fjármálum sínum. Kvað vitnið sóknaraðila vera í hættu á að verða misnotuð gegn greiðslu í víni, en væri henni rétt vín þá drykki hún það, þó svo hún væri hvorki áfengis- né fíknisjúklingur. Hún þyrfti utanumhald þannig að hún leiti ekki í félagsskap sem hún ráði ekki við.
Í umsögn H, framkvæmdastjóra [...], sem liggur fyrir, kemur fram að fyrri lifnaður sóknaraðila togi alltaf í og að hún hafi ríka tilhneigingu til að sækja í það sem henni sé ekki fyrir bestu, hvort sem það sé óæskilegur félagsskapur eða áfengi. Hún hafi í vaxandi mæli sætt lagi að sækja í áfengi, en að undanförnu hafi komið upp atvik sem séu til þess fallin að vekja ótta um framhaldið ef hún endurheimti lögræði sitt. Í framburði vitnisins við aðalmeðferð kom fram að á [...] þurfi sóknaraðili talsvert aðhald til að sinna venjulegu daglegu lífi. Taldi vitnið að það myndi skerða lífsgæði sóknaraðila að hún endurheimti lögræði sitt og veruleg hætta sé á að hún myndi umgangast fólk sem geri henni ekki gott, en til þess hafi hún ríka tilhneigingu og sæki hún í félagsskap sem sé henni hvorki góður né uppbyggilegur. Hún myndi ekki ná að halda utan um sín fjármál. Kvaðst vitnið telja mjög líklegt að sóknaraðili myndi leiðast út í óreglu.
Í vottorði G geðlæknis, sem liggur fyrir, segir að sóknaraðili sé þroskaheft með alvarlegar atferlistruflanir, auk þess að hún sé haldin geðklofa og hafi átt við að stríða áfengis- og lyfjafíkn. Hún sé greindarskert og með heilaskaða af völdum „alcohol fetal syndrome“. Að mati geðlæknisins geti hún ekki stjórnað eigin lífi vegna greindarskorts, dómgreindarleysis og geðsjúkdóms. Engin breyting hafi orðið hjá henni sem réttlæti það að hún fái á ný lögræði sitt og því sé nauðsynlegt að hún sé áfram svipt lögræði. Í framburði vitnisins við aðalmeðferð kom fram að þeir eiginleikar sóknaraðila sem valdi þessu mati séu þess eðlis að þeir geti ekki breyst. Sóknaraðili sé með heilaskaða og hafi hún sýnt mörg merki þess. Sé hún mjög neðarlega í greind milli [...]. Kvaðst vitnið vera því andvígur að sóknaraðili fengi lögræði sitt vegna hættu á að hún leiddist til fyrra lífernis, en hún hafi verið mjög óreglusöm, bæði í áfengi og eiturlyfjum og eiginlega horfið inn í hóp útigangsfólks í [...]. Hún hafi hvorki haft innsæi né dómgreind til að átta sig á stöðu sinni. Hennar hagsmunir liggi í því að vera áfram á [...]og hún hafi enga burði til að fara þaðan og leigja sér húsnæði. Kvaðst vitnið telja sóknaraðila ófæra um að ráða persónulegum högum sínum og fé.
Vitnið D réttindagæslumaður fatlaðra lýsti því að ýmis úrræði væru fyrir fatlað fólk á [...]en treysti sér ekki til að fullyrða hvernig gengi að útvega sóknaraðila húsnæði á [...]. Vitnið kvaðst ekkert geta sagt til um það hvað myndi gerast ef sóknaraðili fengi aftur lögræði sitt eða hvort sóknaraðili væri fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé sínu, en það hefði jákvæð áhrif á sjálfsmynd sóknaraðila að endurheimta lögræði sitt.
Í skýrslu varnaraðila, C, föður varnaraðila, kom fram að áður en til lögræðissviptingar kom hafi sóknaraðili verið lögst út í óreglu með útigangsfólki í [...] og hafi varnaraðilar lítt eða ekki fengið rönd við reist. Taldi varnaraðili einsýnt eða mjög hætt við að allt myndi sækja í sama farið ef sóknaraðili fengi lögræði sitt aftur.
Í málinu liggur ekki fyrir neitt gagn sem rennir raunhæfum stoðum undir það að aðstæður og hagir sóknaraðila hafi breyst svo frá því að hún var svipt lögræði sínu, að ástæður lögræðissviptingarinnar séu ekki lengur fyrir hendi. Þá hefur enginn þeirra sem fyrir dóminn kom við aðalmeðferð borið um það á afgerandi hátt að ástæður lögræðissviptingarinnar séu ekki lengur fyrir hendi.
Þvert á móti hefur komið fram, bæði í gögnum málsins, sem og í framburði fyrir dóminum, að aðstæður og hagir sóknaraðila séu þannig að full efni séu enn til að álíta að hún sé hvorki fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé sínu. Ber þar hæst framburð og vottorð G geðlæknis sem hefur talað mjög skýrt um þetta, en jafnframt ber að líta til umsagna I sálfræðings, F læknis, H framkvæmdastjóra [...], ásamt því að ekki verður litið framhjá greinargerð og framburði varnaraðila um þetta. Er þetta í samræmi við mat dómsins á sóknaraðila eftir viðræður við hana.
Er því óhjákvæmilegt að hafna bæði aðal- og varakröfu sóknaraðila.
Málskostnaður, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, ásamt aksturskostnaði og útlögðum kostnaði, svo sem í úrskurðarorði greinir.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, A, um að felld verði niður lögræðissvipting sem hún sætir samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 25. febrúar 1997 í málinu nr. L-6/1997, er hafnað.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 382.147, greiðist úr ríkissjóði, ásamt aksturskostnaði hans, kr. 7.089, sem og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Sveinbjörns Sveinbjörnssonar hdl., kr. 238.450, ásamt útlögðum kostnaði hans, kr. 88.762.