Print

Mál nr. 466/2013

B ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson hrl.) og A gegn B ehf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)
Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Gjafsókn
  • Sérálit

Dómsatkvæði

 

A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda B ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir […] 2010 er hann vegna missti meðvitund ofan í tanki […] vegna eituráhrifa frá gufu lakkefnis. Hann krafðist þess jafnframt að viðurkenndur yrði réttur hans til bóta úr slysatryggingu launþega, sem B ehf. hafði á slysdegi hjá VÍ hf. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að miða yrði við að A hefði farið í tankinn í því skyni að gegna þar vinnu sinni þótt hann hefði ekki fengið um það bein fyrirmæli. Var talið að B ehf. hefði ekki farið að ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim og bæri hann því skaðabótaábyrgð á tjóni A. Vegna stórkostlegs gáleysis A, sem hafði ekki notað tiltækan öryggisbúnað, var hins vegar talið að hann skyldi bera tjón sitt að þriðjungi sjálfur. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur A til bóta úr slysatryggingu launþega að 2/3 hlutum með vísan til þess að A hefði orðið fyrir utanaðkomandi eitrun örfáum mínútum eftir að hann fór í tankinn og hefði því verið um slys að ræða í skilningi 8. greinar skilmála sem um vátrygginguna giltu, en VÍ hf. þótti ekki hafa sýnt fram á að tiltekið undanþáguákvæði skilmálanna ætti við í málinu

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2013. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 15. júlí 2013. Hann krefst þess að viðurkennd verði með dómi óskert skaðabótaskylda aðaláfrýjanda á líkamstjóni sem hann varð fyrir […] 2010. Hann krefst þess jafnframt að viðurkenndur verði réttur sinn til bóta vegna líkamstjónsins úr slysatryggingu launþega, sem aðaláfrýjandi hafði á slysdegi hjá stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði úr hendi stefnda, en úr hendi aðaláfrýjanda og stefnda fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.  

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru ítarlega raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir nánar varð gagnáfrýjandi fyrir líkamstjóni við störf sín á verkstæði aðaláfrýjanda […] 2010. Gagnáfrýjandi var ófaglærður og hafði þá starfað hjá aðaláfrýjanda um 10 mánaða skeið en starfsemi hans felst aðallega í að smíða […] til […] og kom fram hjá aðaláfrýjanda við flutning málsins fyrir Hæstarétti að á þessum tíma hefði gagnáfrýjandi unnið við smíði fjögurra eða fimm slíkra […]. Auk gagnáfrýjanda unnu á verkstæðinu D fyrirsvarsmaður og eigandi aðaláfrýjanda og jafnframt verkstjóri á staðnum og F bróðir hans. Þá um morguninn hafði gagnáfrýjandi unnið ofan í tanki eins slíks […], sem var um 15.000 lítrar að rúmmáli, við að sprauta grjótmassa (tektyl) á afturgafl hans. Mun þeirri vinnu hafa lokið um klukkan 9.40 en við hana notaði hann súrefnisgrímu. Skömmu fyrir hádegi fór gagnáfrýjandi aftur ofan í tankinn en þá með grímu sem ekki var tengd súrefni. Voru þeir F þá einir á verkstæðinu og miða málsaðilar við að gagnáfrýjandi hafi verið í tankinum í sjö eða átta mínútur uns F fór að athuga með hann. Kallaði hann til gagnáfrýjanda en fékk ekkert svar og leit hann þá ofan í tankinn og sá gagnáfrýjanda liggja þar meðvitundarlausan. Hringdi hann í verkstjórann sem gerði Neyðarlínu viðvart, en fór sjálfur ofan í tankinn, dró gagnáfrýjanda að opi tanksins og færði súrefnisbarka að vitum hans. Samkvæmt lögregluskýrslu var haft eftir F að aðaláfrýjandi hefði farið ofan í tankinn rétt tæpum hálftíma áður en hjálparlið kom á vettvang, sem var klukkan 12.09. Gagnáfrýjandi var endurlífgaður af sjúkraflutningsmönnum og því næst fluttur á spítala. Um hádegið var vinnueftirlitinu tilkynnt um slysið og kom starfsmaður þess á vettvang í kjölfarið. Eins og nánar greinir í héraðsdómi er um málsatvik einkum deilt hverjar hafi verið vinnureglur á verkstæðinu og hvort þær hafi verið kynntar gagnáfrýjanda, auk þess sem dregin er í efa fullyrðing hans um að hafa greint sinn farið ofan í tankinn til að ljúka við að setja grjótmassa á blett við flotmæli á gafli tanksins.

II

Samkvæmt skýrslum gagnáfrýjanda og F hjá lögreglu, sem teknar voru þegar eftir atvik, verður við það miðað að gagnáfrýjandi hafi farið í tankinn í því skyni að gegna þar vinnu sinni þótt hann hafi ekki fengið bein fyrirmæli um að sinna þessu verki meðan verkstjórinn var fjarverandi. Ekki verður fallist á með gagnáfrýjanda að það eitt að verkstjóri hafi ekki verið á staðnum er atvikið varð feli í sér ófullnægjandi verkstjórn. Eins og greinir í héraðsdómi verður á hinn bóginn ekki séð að gagnáfrýjanda hafi verið kynnt sérstaklega sú regla, sem aðaláfrýjandi segir að gilt hafi á verkstað, að ekki mætti fara í tank fyrr en degi eftir að hann hafði verið sprautaður að innanverðu. Er ósannað að aðaláfrýjandi hafi fengið fullnægjandi leiðbeiningar um hversu stórhættuleg umrædd efni voru í raun við þessar aðstæður. Þannig fór aðaláfrýjandi ekki að ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim. Eru þær reglur sem að þessu síðastgreinda lúta nægilega raktar í héraðsdómi. Vegna þessarar saknæmu vanrækslu sinnar ber aðaláfrýjandi skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda.

Fram er komið að gagnáfrýjandi notaði ekki tiltækan öryggisbúnað á verkstað sem komið hefði í veg fyrir tjón. Þá ákvað hann upp á sitt eindæmi að fara niður í tankinn þótt honum hafi mátt vera ljóst að af því gat stafað hætta. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður talið að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn þannig að hann beri tjón sitt að þriðjungi sjálfur vegna þeirrar kröfu sem hann gerir á hendur aðaláfrýjanda.

III

Er áðurnefndur tjónsatburður varð var í gildi kjarasamningsbundin slysatrygging launþega sem aðaláfrýjandi hafði keypt hjá stefnda. Gerir gagnáfrýjandi kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til bóta úr þeirri tryggingu. Í 8. grein skilmála tryggingarinnar segir: „Með hugtakinu slys er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans.“ Stefndi hafnar þessari kröfu gagnáfrýjanda einkum með þeim rökum að umrædd grein skilmálanna eigi ekki við þar sem tjónsatvik hafi ekki verið skyndilegt heldur fyrirsjáanleg afleiðing háttsemi sem gagnáfrýjandi hafi kosið að viðhafa. Að þessu frágegnu vísar hann til greinar 9 í skilmálunum þar sem segir meðal annars: „Félagið greiðir ekki bætur vegna slyss: ... 9.10 Af völdum eitraðra lofttegunda, nema eitrunin hafi orðið skyndilega og án vilja vátryggðs.“ Samkvæmt því komi áhættutaka gagnáfrýjanda í veg fyrir bætur honum til handa, eða í öllu falli hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem leiða eigi til brottfalls ábyrgðar félagsins, sbr. einnig 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Af því sem fram er komið um málsatvik var ástæða þess að gagnáfrýjandi fór í tankinn sú að hann vildi sinna vinnu sinni. Taldi hann sér það óhætt þar sem efnið í tankinum væri orðið snertiþurrt. Ekkert er fram komið í málinu er bendir til þess að tjónið megi rekja til sjúkdóms eða innra ástands í líkama gagnáfrýjanda áður en hann fór inn í tankinn, heldur varð hann skyndilega fyrir utanaðkomandi eitrun örfáum mínútum síðar. Verður því talið að um slys hafi verið að ræða í skilningi 8. greinar vátryggingarskilmálanna. Samkvæmt framansögðu hefur stefndi heldur ekki sýnt fram á að undanþáguákvæði í grein 9.10 í skilmálum hans eigi við. Verður því tekin til greina krafa gagnáfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu vegna líkamstjóns þess er hann hlaut í slysinu umrætt sinn. Á hinn bóginn sýndi gagnáfrýjandi af sér stórkostlegt gáleysi eins og að framan er rakið, þannig að lækkuð verður ábyrgð um þriðjung með vísan til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004.

Einn dómenda, Viðar Már Matthíasson, telur að gagnáfrýjandi eigi að bera helming tjóns síns sjálfur og eigi einungis rétt til helmings bóta úr slysatryggingu aðaláfrýjanda hjá stefnda. Hann telur einnig að þessi skipting á ábyrgð eigi að hafa áhrif á málskostnaðarákvörðun. 

Eftir þessum málsúrslitum verða aðaláfrýjandi og stefndi dæmdir til greiðslu málskostnaðar eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal óraskaður um skaðabótaskyldu aðaláfrýjanda, B ehf.

Viðurkenndur er að 2/3 bótaréttur gagnáfrýjanda, A, úr hendi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., úr slysatryggingu launþega aðaláfrýjanda hjá stefnda vegna líkamstjóns sem gagnáfrýjandi hlaut í slysi […] 2010.

Aðaláfrýjandi og stefndi greiði óskipt samtals 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 1.800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2013

Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […], gegn B ehf., […] og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 20. júní 2012.

Stefnandi, A, krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda B ehf., vegna líkamstjóns er stefnandi hlaut í vinnuslysi þann […] 2010, á […]verkstæði stefnda, B ehf., í […] og að viðurkenndur verði réttur stefnanda til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi B ehf., hafði á slysdegi hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna líkamstjónsins.

Þá krefst stefnandi þess, í báðum tilvikum, að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi B ehf. krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að réttur stefnanda til bóta úr slysatryggingu launþega, sem stefndi B ehf. hafði á slysdegi hjá stefnda Vátryggingafélags Íslands hf., verði aðeins viðurkenndur að hluta vegna þess líkamstjóns er stefnandi hlaut […] 2010. Í báðum tilvikum krefst stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., málskostnaðar úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Málavextir

Í […] 2010 hóf stefnandi störf á verkstæði stefnda B ehf., í […]. Starfsemi stefnda felst aðallega í því að smíða […] til […]. Að morgni […] 2010 vann stefnandi ofan í tanki […], sem smíðaður hafði verið á verkstæðinu, við að sprauta grjótmassa (tektyl) á afturgafl tanksins. Efnið sem sprautað var á tankinn var samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins af gerðinni Wunderboyseal Black sem inniheldur m.a. leysiefnin hrábensín, xýlen, tólúen og metanol og notaði stefnandi súrefnisgrímu við þá vinnu. Þeirri vinnu var lokið um kl. 9.40 um morguninn en skömmu fyrir hádegi þennan sama dag fór stefnandi aftur ofan í tankinn, að eigin sögn með grímu sem ekki var tengd súrefni, og missti hann þá meðvitund ofan í tankinum. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði E læknis á slysa og bráðadeild Landspítala -Háskólasjúkrahúss, dags. 10. desember 2010, varð stefnandi fyrir eituráhrifum vegna gufu frá lakkefni. Einnig liggur fyrir bréf starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar frá 23. júní 2011 en þar kemur fram að stefnandi hlaut taugaskaða við slysið og ekki sé enn ljóst að hvaða leyti sá skaði gangi til baka. Síðan segir í bréfinu: „Helsti vandi hans nú eru svefntruflanir og mikill kvíði, skert einbeiting og minni. Einnig hefur hann skert úthald og kraftminnkun auk ósjálfráðara kippa í hægri hlið líkamans. Við endurlífgunina brotnaði hryggjarliður og er A enn með verki vegna þess.“

Þegar atvik gerðust störfuðu hjá fyrirtækinu, auk stefnanda, D, fyrirsvarsmaður og eigandi stefnda B ehf. og F, bróðir áðurnefnds D. Þegar slysið varð voru stefnandi og F einir á vinnustaðnum. Ágreiningur er á milli aðila um tilefni þess að stefnandi fór í umrætt sinn ofan í […].

Í greinargerð stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. kemur fram að […] líkir þeim sem stefnandi var að vinna við umræddan dag hafi verið framleiddir um áratuga skeið hjá stefnda B ehf. Verklag við framleiðsluna er fastmótað. Tankur hvers […] er gerður úr þremur tveggja metra löngum hólkum sem eru um 1,6 metrar í þvermál. Í upphafi er rafsoðinn gafl á fyrsta hólkinn þá er rafsoðið skilrúm á opna endann og síðan er næsti hólkur soðinn á. Þannig sé tanknum raðað saman þar til einungis er eftir að setja síðari gaflinn á og loka tankinum. Áður er tankinum er lokað er hann kláraður að innan, suðusár grunnuð með grunnmálningu og rýmið sprautað með klæðandi grjótmassa. Þannig er tryggt að einungis sé eftir að vinna við lokagaflinn sjálfan eftir að tankinum hefur verið lokað. Mannop sem notað er til að komast ofan í tankinn eftir að honum er lokað er fyrir ofan þann gafl sem síðast er settur á.

Í frumskýrslu lögreglu frá […] 2010, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að borist hafi tilkynning um að maður væri meðvitundarlaus ofan í tanki á […]verkstæði stefnda B ehf. Í skýrslunni er haft eftir áðurnefndum F að stefnandi hafi farið ofan í […] um klukkan 11.40 til að mála yfir suður inni í honum og hafi það átt að taka litla stund. Þegar F hafi hætt að heyra í stefnanda fór hann ofan í tankinn og sá þar stefnanda meðvitundarlausan. F dró stefnanda að mannopi, þar sem farið er ofan í tankinn, en þar hafi loftblásari verið sem blés ofan í […]. Því næst hafi hann hringt í hjálp. F sagði að stefnandi hefði verið með grímu ofan í tankinn, en ekki súrefnisgrímu eins og þeir noti nánast alltaf. Að sögn F hafi stefnandi bara rétt ætlað ofan í […] og mála yfir suðu inni í honum fyrir hádegismatinn.

Í skýrslu sem stefnandi gaf hjá lögreglu þann 6. janúar 2011 sagði hann frá því að á starfstíma hans hjá stefnda hefði hann aðallega unnið við smíði stórra tanka, […] fyrir […]. D hafi verið yfirmaður hans og verkstjóri á staðnum. Hann kveðst hafa verið að klára einn tankinn að innan, en eftir hafi verið að sprauta við op þar sem hæðarmælir átti að vera. Þessi hluti sé alltaf síðasta verkið. Hafi þeir hætt að vinna inni í tankinum fyrr um morguninn og hafist handa við að setja rafmagn og ljós á tankinn. Síðan er bókað eftir stefnanda: „Í hádeginu taldi ég að eiturgufurnar voru búnar að leysast upp og því ákvað ég að fara ofan í tankinn til þess að klára að sprauta hann. Ég ákvað að taka ekki grímuna og loftlungað því ég hélt að allt væri óhætt. Þegar ég fer niður byrja ég að sprauta fyrir opið fyrir hæðarmælinn og klára það, byrja að ganga til baka og skyndilega missi ég meðvitund. Næsta sem ég man var þegar ég vaknaði nokkrum dögum síðar á sjúkrahúsinu.“ Aðspurður hvort honum hafi verið kunnugt um öryggisreglur varðandi eiturefnin sem hann var að meðhöndla, kvað stefnandi svo ekki vera, fyrr en Vinnueftirlitið hefði haft samband við hann nokkrum vikum síðar og greint honum frá því hversu mikið eitur þetta hafi verið. Engar öryggisreglur hafi verið á vinnustaðnum, „nema þetta hefðbundna, hjálmur, skór með stáltá og annað. „ D gerði mjög lítið úr þessu efni og lakki sem fer á tankanna en þetta er allt víst baneitrað.“ Stefnandi var jafnframt spurður hvort honum hafi verið kunnugt um að nota [ætti] grímu og loftlunga við störf í tankinum þegar eiturefni voru meðhöndluð. Því svaraði stefnandi neitandi og sagði að það væri ekki vegna eiturefnanna heldur hafi hann haldið að það væri vegna úðans sem myndi sprautast á þá við störfin.

Þann 23. febrúar 2011 tók lögreglan skýrslu af F. Þar kemur fram að hann hafi verið að vinna í ljósabúnaði fyrir utan tankinn en stefnandi að sprauta hann að innan. Hafi stefnandi svo komið upp úr tankinum og tilkynnt D um verklok. Þegar D hafi farið af verkstað hafi stefnandi farið ofan í tankinn án þess að vera með súrefnisgrímu og taldi F að stefnandi hefði farið að sækja einhvern hlut. Hafi F þótt þetta taka langan tíma og því hafi hann kíkt ofan í tankinn og þá hafi hann séð stefnanda liggja þar meðvitundarlausan. Furðaði F sig á því að stefnandi hefði farið ofan í tankinn án súrefnisgrímu því að sögn F þekkti stefnandi reglurnar og mátti ekki fara ofan í tankinn án slíkrar grímu.

Í skýrslu D hjá lögreglu þann 12. desember 2010, er haft eftir honum, að þegar nýir starfsmenn byrji skýri hann vel út fyrir þeim að verkið sé hættulegt ef ekki er rétt staðið að málum. Þennan dag hafi allt verið klárt varðandi þann […] sem verið var að ljúka vinnu við, en þó hafi verið eftir að leggja rafmagn undir tankinn. Hafi hann beðið stefnanda og bróður sinn að leggja rafmagn í rör undir tankinn á meðan hann skytist út í búð en þar hafi hann verið þegar bróðir hans hringdi í hann og lét vita af slysi stefnanda. Hafi stefnandi ekkert erindi átt ofan í tankinn þar sem hann átti að vera að leggja rafmagnið undir tankinum. Stefnandi hafi verið í vinnu hjá honum í níu mánuði og alltaf notað hlífðargalla og ferskloftsgrímu. Þá sagði D að allt hafi verið orðið klárt og hafi stefnandi ekki mátt fara ofan í tankinn. Aðspurður hvort stefnanda hafi verið kunnugt um öryggisreglur varðandi vinnu í tankinum kvað D stefnanda hafa vitað það, enda búinn að vinna hjá honum í níu mánuði.

Fyrir liggur skýrsla Vinnueftirlits ríkisins en starfsmaður þess kom samdægurs á slysstað og rannsakaði þar aðstæður og ástæður slyss stefnanda og kemur þar fram að áðurnefndir D og F hafi upplýst um tildrög slysins.

Í skýrslunni, í kafla sem ber heitið „vinnubrögð og starfshættir“, segir:

„Þegar slysið varð var A að ganga frá málningu inni í […]. […], sem eru í raun […], eru smíðaðir hjá fyrirtækinu. Verklag við smíði […] er þannig að valsaður er sívaningur úr stáli og endar síðan rafsoðnir á. […] sem slysið varð í er á einum öxli með stórum hjólum, dráttarbeisli og búinn vökvadælu. Stærð tanksins er um 15 þúsund lítrar. Til að auðvelda málningarvinnu, og forðast uppsöfnun á eldfimum eða sprengifimum efnum, eru […] málaðir að mestu áður en fremri gaflinn er soðinn á. Við aftari gaflinn er mannop sem notað er til áfyllingar og til þess að komast ofan í tækið til að ljúka málningarvinnu. Þegar búið var að sjóða fremri (síðari) gaflinn í þarf að fara ofan í tækið og ljúka málningarvinnunni. Þennan dag hafði A lokið við að mála fremri gaflinn. Við þá vinnu notaði hann ferskloftsgrímu sem að jafnaði er notuð þegar verið er að mála […] að innanverði. Rétt fyrir hádegið þurfti hann að fara ofan í tankinn og ljúka við að mála yfir suður. Hann fór þá inn í […] án ferskloftsgrímu, taldi ekki þörf á notkun grímu þar sem verkið tæki mjög stuttan tíma. A varð fyrir efnaáhrifum og/eða súrefnisskorti þannig að hann missti meðvitund inn í […]. Sjúkraflutningamenn sem komu á staðinn náðu A út úr […]. Engin loftræsting hafði verið notuð í […] eftir málningarvinnuna um morguninn. Þegar eftirlitsmaður kom á staðinn var búið að koma fyrir loftræstibúnaði, blásara og barka sem var dregin inn í […]. Gasmæling sem þá fór fram sýndi eðlilegt magn súrefnis og engar sprengifimar lofttegundir.“

Þá segir í skýrslu Vinnueftirlitsins að orsök slyssins megi rekja til fjögurra neðangreindra atriða: […] var ekki nægilega loftræstur eftir málningarvinnuna fyrr um morguninn, öryggisblað fyrir efnið sem stefnandi var að mála með var ekki til á vinnustaðnum, ekki lá fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir er varða umræddan verkþátt og farið var niður í […] án ferskloftsgrímu. Þá gaf Vinnueftirlitið stefnda B ehf. fyrirmæli um úrbætur í fimm neðangreindum liðum.

1.       Atvinnurekandi ber ábyrgð á gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði. Við gerð hennar skal haft samráð við öryggistrúnaðarmann og öryggisvörð/nefnd fyrirtækisins og skal henni lokið fyrir veittan frest. Skal áætlunin kynnt í kjölfarið öllum starfsmönnum fyrirtækisins og tryggt að henni verði framfylgt við dagleg störf.

2.       Fyrir öll varúðarmerkt efni skal útvega öryggisblöð. Öryggisblöð skulu vera aðgengileg fyrir starfsmenn svo þeir geti ætíð haft nægjanlegar upplýsingar til að tryggja öryggi sitt og heilsu. Til viðbótar skal gera skriflegar verklagsreglur um vinnu með hættuleg/varasöm efni.

3.       Fara skal yfir öryggisatriði með starfsmönnum vegna vinnu við málun inni í tönkum, sjá til þess að þeir séu vel upplýstir um efnahættur og fylgja eftir ýtrustu öryggisráðstöfunum við vinnuna.

4.       Þegar vinna þarf í lokuðu rými skal gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir og vinnan skipulögð, undirbúin og framkvæmd þannig að hún ógni ekki öryggi og heilsu starfsmanna.

5.       Áður en vinna hefst í lokuðu rými skal leggja mat á þá hættu sem fyrir hendi er. Nauðsynlegar upplýsingar skulu liggja fyrir um þau efni og mengun sem til staðar eru.

Með bréfi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 17. febrúar 2011, var hafnað bótaskyldu félagsins, vegna slyss stefnanda, þar sem ekki hefði verið um slys að ræða í skilningi slysahugtaks vátryggingarréttar og að stefnandi hefði valdið slysi sínu af stórkostlegu gáleysi sem leiða ætti til þess að bótaréttur hans félli niður, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þessari afstöðu stefnda skaut stefnandi til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem í áliti sínu, dags. 30. ágúst 2011, í málinu nr. 307/2011, taldi að rekja mætti tjón stefnanda til stórkostlegs gáleysis hans. Telja yrði að hann hafi ekki farið eftir verklagsreglum sem í gildi voru hjá vinnuveitanda þannig að rétt væri að fella niður ábyrgð tryggingafélagsins.

Með bréfi dags. 29. ágúst 2011 var þess farið á leit við stefnda B ehf., að hann tæki afstöðu til bótaskyldu vegna tjóns stefnanda. Lögmaður stefnda B ehf. svaraði með bréfi dags. 20. september 2011 og hafnaði bótaskyldu með vísan til röksemda úrskurðarnefndarinnar og afstöðu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu auk stefnanda, D og F.

Málsástæður og lagarök stefnanda

I. Skaðabótaskylda stefnda B ehf.

Stefnandi byggir á því að tjón hans sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Slysið megi rekja til þess að honum var falið að vinna með hættuleg efni við erfiðar og varhugaverðar vinnuaðstæður, í lokuðum […], án þess að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi hans. Nánar tiltekið er á því byggt að slysið verði rakið til ófullnægjandi loftræstingar í […] og ófullnægjandi verkstjórnar stefnda, sem sinnti ekki leiðbeiningar-, upplýsinga- og varúðarskyldu sinni gagnvart stefnanda, sem er ófaglærður, með því að veita honum ekki þær leiðbeiningar og þjálfun, sem stefnanda var nauðsynleg til að geta unnið við smíði og málun […] á hættulausan máta. Verði stefndi af þessum sökum að bera ábyrgð á líkamstjóni stefnanda, sem af slysinu hlaust, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum og saknæmu aðgæsluleysi starfsmanna sinna.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanrækt að framfylgja lögboðnum skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en augljós orsakatengsl séu milli þessarar vanrækslu og slyss stefnanda, sbr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 17. gr., 37. gr., 42. gr., 46. gr., og VIII. kafli laganna. Með vísan til þessara afdráttarlausu lagafyrirmæla, hinna varhugaverðu vinnuaðstæðna og hættulegu efna sem stefnanda var gert að vinna með og í ljósi þess að stefnandi er ófaglærður og hafði ekki unnið lengi hjá stefnda, hvíldi sérstaklega rík skylda á stefnda að tryggja öryggi stefnanda og annarra starfsmanna, með því að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir slysahættu. Stefnandi telur einsýnt að stefndi hafi látið þetta undir höfuð leggjast, með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist.

Með því að tryggja stefnanda ekki fullnægjandi starfsskilyrði, telur stefnandi að stefndi hafi einnig brotið gegn 4. gr. reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, sbr. 65. gr. a, laga nr. 46/1980, sem kveður á um skyldu atvinnurekanda til að gera áhættumat á vinnustað og 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 553/2004, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum. Þá hafi stefndi látið fyrir farast að framfylgja fyrirmælum reglna nr. 429/1995, um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými, en í 2. gr. reglnanna er kveðið á um skyldu atvinnurekanda til að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir og skipuleggja og undirbúa vinnu og framkvæma hana þannig að hún ógni ekki öryggi og heilsu starfsmanna.

Í ítarlegri umsögn Vinnueftirlits ríkisins eru rakin tildrög og orsakir slyss stefnanda. Í niðurlagi umsagnarinnar er að finna fyrirmæli til stefnda um úrbætur. Með vísan til niðurstöðu Vinnueftirlitsins um orsakir slyss stefnanda og fyrirmæla um úrbætur, er augljóst að aðbúnaður og starfsskilyrði við þá vinnu sem stefndi fól stefnanda að vinna, voru óforsvaranleg. Hafi stefndi með þessu og vegna skorts á leiðbeiningum til stefnanda, þjálfun hans og verkstjórn stefnda, sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Þegar stefnandi slasaðist var hvorki fyrirsvarsmaður stefnda né annar verkstjóri á staðnum heldur einvörðungu stefnandi og bróðir fyrirsvarsmannsins en þeir eru báðir ófaglærðir. Með þessu verklagi braut stefndi gegn fyrirmælum 20.-23. gr. laga nr. 46/1980, þar sem kveðið er á um hlutverk og skyldur verkstjóra við verkframkvæmdir. Verður að ætla að hefði verkstjórn og leiðsögn stefnda verið fullnægjandi og til samræmis við þessi lagaboð, hefði stefnandi ekki slasast umrætt sinn.

Stefnandi mótmælir því harðlega sem röngu og ósönnuðu, sem haldið er fram í lögregluskýrslu D fyrirsvarsmanns stefnda og svarbréfi lögmanns hans, að stefnanda hafi verið bannað að fara eða að hann hafi farið án ástæðu aftur ofan í geyminn. Samræmist slíkt hvorki framburði stefnanda sjálfs né framburði bræðranna í skýrslu sem þeir gáfu Vinnueftirlitinu á slysdegi og heldur ekki framburði F í lögregluskýrslu skömmu eftir slysið. Hér er því um að ræða haldlausa og ótrúverðuga staðhæfingu fyrirsvarsmannsins, sem mótmælt er sem rangri og ósannaðri. Verður að skoða framburð þeirra bræðra með hliðsjón af stöðu þeirra og hagsmuna í málinu, sbr. hér 59. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefndi hefur haldið því fram að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara aftur ofan í geyminn án fullnægjandi búnaðar. Stefnandi hafnar því að svo sé, enda var honum ekki kunnugt að eiturgufur kynnu enn að vera í geyminum, rúmum tveimur klukkustundum eftir að hafa verið þar áður við málningarvinnu. Hann hefði að sjálfsögðu ekki farið ofan í geyminn hefði honum mátt vera ljóst að slíkt gæti verið hættulegt og stefnt heilsu hans og jafnvel lífi í hættu. Bent er á að F hreyfði engum athugasemdum við því þegar stefnandi fór aftur ofan í geyminn. Minntist hann ekki á bann við slíku þegar Vinnueftirlitið og lögreglan tóku af honum skýrslu á slysdegi. Staðfestir þetta að stefnandi fór ekki ofan í tankinn andstætt fyrirmælum stefnda. Staðfestir þetta að sama skapi að fyrirsvarsmaður stefnda hafði ekki upplýst stefnanda og F um hættueiginleika þeirra efna sem unnið var með eða veitt þeim þær leiðbeiningar og þjálfun, sem nauðsynlegar voru vegna vinnu þeirra með þessi efni. Á þessu saknæma aðgerðaleysi beri stefndi ábyrgð. Má auk þess benda á það sem fram kemur í umsögn vinnueftirlitsins, að ferskloftsgríma var einungis „að jafnaði“ notuð við málningarvinnu inni í […]. Verður stefnanda því ekki virt það til sakar, að skjótast inn í geyminn til að klára þar verk, með einvörðungu venjulega grímu, en ekki ferskloftsgrímu, þar sem það var augsýnilega ekki skilyrðislaus krafa frá stefnda að svo væri.

Með vísan til framangreinds má ljóst vera að með engu móti er hægt að halda því fram að heilsutjón stefnanda verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans. Vegna þessa og með vísan til 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, verður réttur hans til skaðabóta ekki skertur, hvorki að hluta né öllu leyti, jafnvel þótt talið verði að hann hafi sýnt af sér aðgæsluleysi umrætt sinn.

Þá mótmælir stefnandi sérstaklega sem röngum og ósönnuðum þeim staðhæfingum sem fram koma í bréfi lögmanns stefnda, dags. 20. september 2011, um að stefnandi hafi fengið skýr fyrirmæli um framkvæmd vinnunnar og að tiltæk hafi verið á vinnustaðnum verklagsreglur sem stefnanda hafi verið kunnugt um en ekki farið eftir. Að sama skapi er því mótmælt sem fram kemur í þessu bréfi stefnda, að fyrirsvarsmaður félagsins hafi sjálfur unnið á gólfinu og stjórnað öllum verkum sem unnin voru.

II. Bótaskylda úr launþegatryggingu B ehf. hjá Vátryggingafélagi Íslands hf.

Krafa stefnanda um viðurkenningu bótaskyldu úr kjarasamningsbundinni launþegatryggingu stefnda B ehf., hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., byggir á ákvæðum gildandi kjarasamnings VM og SA, almennum reglum vinnuréttar og skilmálum vátryggingarinnar. Um sé að ræða slys í skilningi vátryggingarinnar, sem valdið sé af skyndilegum utanaðkomandi atburði, og án vilja stefnanda. Hefur slysið valdið stefnanda alvarlegu heilsutjóni, eins og staðfest er í læknisfræðilegum gögnum málsins og óumdeilt er.

Röksemdir stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fyrir höfnun bótaskyldu úr slysatryggingu launþega eru tvíþættar. Annars vegar er á því byggt að ekki hafi verið um slys að ræða í skilningi slysahugtaks vátryggingarréttar og hins vegar að stefnandi hafi sjálfur valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi og hafi hann með því fyrirgert bótarétti sínum, sbr. 1. mgr. 90. gr. vátryggingarsamningalaga.

Samkvæmt gr. 9.10 í skilmálum slysatryggingar stefnda, greiðast ekki bætur vegna líkamstjóns sem hlýst af eitruðum lofttegundum, nema eitrun hafi orðið skyndilega og án vilja hins vátryggða. Einsýnt má vera að eitrunin var skyndileg og að stefnanda var ekki kunnugt um hana þar sem hann missir meðvitund án fyrirvara, sbr. hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 472/2011. Þá kemur fram í skýrslu hans hjá lögreglunni, að hann taldi að tankurinn hefði verið nægjanlega loftræstur eftir málningarvinnu fyrr um morguninn og taldi sér því óhætt að fara ofan í geyminn á ný til að ljúka þar vinnu sinni. Var slysið því augljóslega án vilja stefnanda.

Hvað varðar meint stórkostlegt gáleysi stefnanda, vísast eftir því sem við á til þess sem um það segir í framangreindri umfjöllun um skaðabótaábyrgð meðstefnda B ehf.

Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum taldi líkt og að framan greinir, að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við vinnu sína umrætt sinn og hefði af þeim sökum fyrirgert bótarétti sínum úr slysatryggingu launþega. Byggði nefndin þá niðurstöðu sína einkum á því að stefnandi hefði „ekki farið eftir verklagsreglum sem í gildi voru hjá vinnuveitanda“. Þessi rökstuðningur er fráleitur að mati stefnanda, enda liggur fyrir, meðal annars í umsögn Vinnueftirlitsins, að slíkar reglur voru ekki til eða tiltækar hjá stefnda á slysdegi og höfðu því eðlilega ekki verið kynntar stefnanda. Því gat hann ekki hafa brotið gegn slíkum reglum.

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttarins, skaðabótalögum nr. 50/1993, lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá byggir hann á skilmálum slysatryggingar stefnda Vátryggingafélags Íslands hf., reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja, reglugerð nr. 553/2004, um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum og reglum nr. 429/1995, um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými.

Málsástæður og lagarök stefnda B

Stefndi B ehf. telur að stefnandi hafi án nokkurs tilefnis og með því að brjóta skýrar vinnureglur farið á eigin ábyrgð ofan í tankinn umrætt sinn, án öryggisbúnaðar sem til staðar var og skylt var að nota, vitandi um hættuleg efni, þar sem hann sjálfur hafði unnið við sprautuvinnu skömmu áður. Honum hafi verið vel kunnugt um vinnutilhögun og verklag sem gilti við sprautuvinnu inni í […], þar á meðal um skyldu til að nota til þess gerðan öryggisbúnað, svo sem súrefnisgrímu og að annar maður stæði við mannopið á meðan unnið var ofan í geyminum.

Stefndi byggir á því að sprautuvinnu inni í […] hafi verið lokið og að stefnandi hafi ekkert erindi átt þangað aftur, hafi enga heimild haft til þess og hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með því að setja ekki súrefnisgrímu á sig eins og honum bar skylda til.

Vísað er til skýrslna sem gefnar voru hjá lögreglu og vinnueftirliti um aðdraganda að atvikinu og er sérstaklega bent á að stefnandi hefur ekki getað sýnt að hann hafa átt neitt erindi niður í tankinn. Þá hafði hann frá upphafi sem starfsmaður stefnda um margra mánaða skeið farið eftir settum viðurkenndum verklagsreglum stefnda og notað samkvæmt  fyrirmælum öryggisbúnaðinn sem var til staðar og hann hafði notað fyrr um morguninn. Stefnandi fór að eigin frumkvæði og eigin ákvörðun ofan í tankinn án nokkurs öryggisbúnaðar og lét ekki vita af ferðum sínum.

Stefnandi getur ekki borið fyrir sig vankunnáttu á hættu sem fylgdi því að nota ekki öryggisbúnaðinn. Honum var frá upphafi kennt á öryggisbúnaðinn, það væri skylt að nota hann og að til þess væri ætlast að hann væri notaður ofan í tönkunum. Þá mátti hann ekki fara þangað nema með leyfi og fyrirmælum verkstjóra og þannig var einnig tryggt að annar starfsmaður væri ævinlega til staðar og til taks þegar þar var unnið. Þessar öryggisreglur þverbraut stefnandi.

Vinnueftirlitið hafði margsinnis komið til skoðunar og eftirlits á vinnustaðinn og aldrei bent á að skriflegar leiðbeiningar um öryggismál skorti. Slík ábending kom fyrst í kjölfar atviksins og var bætt úr því án tafar. Ekki hefur verið sýnt fram á að þetta atriði hafi skipt sköpum umrætt sinn. Stefnandi ber það fyrir sig að ekki hafi verið uppi skriflegar og skýrar verklagsreglur. Það kann að vera en er ekki aðalatriði málsins vegna reynslu og þekkingar stefnanda sjálfs á vinnutilhögun og nauðsyn á notkun öryggisbúnaðar. Hér er því um formreglu að ræða sem ekki hefur neina þýðingu í þessu máli.

Vísað er til glöggrar greinargerðar D, dags. 6. september 2011, um verklag, vinnutilhögun, fyrirkomulag og verkstjórn á vinnustað og einnig til áberandi merkingar á umbúðum um hættulega eiginleika málningar og efna sem notuð voru til að sprauta tankana.

Varðandi loftræstingu og mikilvægi hennar þá var loftræstingu þannig háttað þegar vinnan fór fram, að starfsmanni bar að nota súrefnisgrímu og var súrefnisslanga tengd henni. Einnig var súrefni dælt úr framenda tanksins með sér loftræstibúnaði til að skapa hringstreymi og til að fjarlægja gufur úr tankinum. Þessi öryggisbúnaður tryggir fullkomið öryggi starfsmanna. Þegar A hafði lokið vinnu sinni í tankinum, voru loftbarkar fjarlægðir, og eftir það mátti enginn fara niður í tankinn fyrr en næsta dag.

Stefnandi heldur því ranglega fram að hann hafi sjálfur verið verkstjóri á staðnum í fjarveru D, en hann fór frá verkstæðinu vegna innkaupa eftir að stefnandi lauk verkefninu og D hafði tekið það út sem gott og gilt. Þessi staðhæfing er alröng.

Stefnandi þekkti mjög vel til verka og vinnubragða við smíði […] sem var framleiðsluvara stefnda. Hann viðurkenndi í lögregluskýrslu að hafa aðallega unnið við smíði stórra tanka fyrir […]. Öll hans vinna var endurtekning á því sama, tank eftir tank, þar á meðal sprautuvinna inni í tönkunum. Hann hafði starfað hjá stefnda frá því í janúar 2010 og hafði því verulega reynslu í starfi sínu.

Þá vísar stefndi til þess að hann telji að staðsetning stefnanda þegar hann fannst við lúguopið hafi ekki verð í neinum tengslum við það að hann hafi verið að klára að sprauta þann gafl sem hafði verið sprautaður fyrr um morguninn.

Stefnandi hefur viðurkennt að eiturgufuhætta væri ofan í tanknum. Hann átti að vita að ekki væri í lagi að fara ofan í tankinn án súrefnisgrímu fyrr en sólarhring eftir sprautuvinnu, en hann fór líklega áður en klukkustund var liðin. Stefnandi viðurkennir eigið gáleysi, samanber bréf lögfræðings hans til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, dags. 19. júlí 2011  þar sem hann viðurkennir ekki stórkostlegt gáleysi, og því megi álykta að hann viðurkenni að gáleysi hans sé um að kenna.

Varðandi skýrslu Vinnueftirlitsins gerir stefndi athugsemdir því þar kemur margsinnis fram misskilningur. Þar stendur meðal annars. „Þennan dag hafi stefnandi lokið við að mála fremri gaflinn og við þá vinnu hafi hann notað ferskloftgrímu, sem að jafnaði er notuð þegar verið er að mála […] að innanverðu.“ Þarna gætir misskilnings. Stefnandi var ekki að vinna við framgaflinn eða […], aðeins afturgaflinn að innan. Áður en tankinum er lokað með afturgaflinum er hann „tektyleraður“ að innan. Sprautarinn hafði það eina verkefni að sprauta afturgaflinn að innan og þarf aldrei að fara frá mannopinu og inn í […] eftir að afturgaflinn hefur verið settur á. Samkvæmt verkbókhaldi var tankurinn „tektyleraður“ 17. september 2010 og leit þá út eins og opin tunna. Í sama kafla skýrslunnar segir „að engin loftræsting hafi verið notuð í […] eftir málningarvinnuna um morguninn“. Þarna um morguninn var afturgaflinn „tektyleraður“ að innan og því verki lokið og var D á staðnum á meðan. Bann er við því að nokkur fari ofan í tankinn fyrr en næsta dag á eftir. Þá eru öll efni gufuð upp. Vinnueftirlitið telur samt að dæla hefði átt málningargufum úr tankinum eftir sprautun, en þess var ekki þörf því það stóð ekki til að neinn færi þar niður fyrr en næsta dag.

Þá bendir stefndi á að tektylbrúsarnir sem stefnandi vann með voru allir með viðvörunum og leiðbeiningum á íslensku og viðvörunartextinn var miklu nær honum en blað uppi á vegg. Telur stefndi því að það hefði ekki komið í veg fyrir atburðinn þótt viðvaranir hefðu verið á veggjum verkstæðisins.

Stefnandi sýndi af sér stórfellt gáleysi með sjálfstæðri ákvarðanatöku og braut gegn vinnureglum stefnda, sem honum hafði verið gerð grein fyrir og gert að vinna eftir og hann hafði alltaf gert til þessa.

Í stefnu er byggt á því að ekki séu til sannanir fyrir því að stefnandi hafi ekki mátt fara ofan í tankinn. Þessari rökfræði er vísað á bug. Stefndi bendir á að miðað við aðstæður beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi fengið fyrirmæli um að fara ofan í tankinn.

Meginniðurstöður vinnueftirlitsins eru fjórar. Í fyrsta lagi er nefnt að tankurinn hafi ekki verið nægilega loftræstur eftir málningarvinnuna fyrr um morguninn. Þetta hefði ekki átt að koma að sök þar sem enginn mátti fara þar niður fyrr en næsta dag nema með súrefnisgrímu og með leyfi verkstjóra. Liðir tvö og þrjú eru almenns eðlis og formreglur sem Vinnueftirlitið gerði engar athugasemdir við fyrri úttektir og upphefja ekki aðgæsluskyldu stefnanda eða þekkingu hans og reynslu við málningarvinnuna. Þá er í fjórða lagi nefnt að stefnandi fór niður í […] án ferskloftsgrímu, en það er sá þáttur sem skipti mestu máli, og stefnandi ákvað sjálfur að gera.

Stefndi hafnar bótaskyldu í málinu. Tekið er undir röksemdir úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum og afstöðu VÍS þar sem félagið hefur skyldutryggt starfsmenn sína með lögbundinni slysatryggingu.

Þegar stefnandi var í vinnu hjá stefnda var hann […] ára að aldri. Það er ekki hægt að reikna með að maður á hans aldri og með hans reynslu viti ekki af þeirri hættu sem fylgir því að vinna með málningarefni í þröngu rými. Hafi hann ekki vitað af því þá hefði hann mátt finna fyrir þeirri miklu stækju sem málningarefnin gefa frá sér meðan þau eru að þorna. Stefndi hafnar öllum rökum og málsástæðum stefnanda, laga- og reglugerðartilvísanir stefnanda eiga ekki við og er þeim hafnað.

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að slysið verði alfarið rakið til stórkostlegs gáleysis stefnanda og ákvarðana sem á engan hátt voru á ábyrgð stefnda. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara ofan í […] mettaðan af eiturgufum, vitandi að engin lofthreinsun hefði farið fram eftir að hann lauk við sprautuvinnuna. Hættan á alvarlegu slysi hafi því hlotið að vera honum ljós. Hvorki stefndi né starfsmenn hans hafi þannig valdið slysinu eða átt sök á því. Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar beri stefndi því ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Ekki hafi heldur verið orsakatengsl á milli slyssins og meints skorts á skriflegum fyrirmælum límdum upp á veggi. Stefndi byggir á því, að verkstjórn, vinnutilhögun og aðstæður á vinnustað hafi verið í fullu samræmi við allar þær reglur, sem um þau atriði gildi. Verkið hafi ekki verið áhættusamt meðan fylgt var fyrirmælum og öryggisreglum. Það hafi verið einfalt og öllum ljóst, hvernig það yrði best og öruggast unnið. Meint tjón stefnanda megi þannig rekja til eigin sakar og gáleysis stefnanda.

Stefndi vísar til skaðabótalaga, almennu skaðabótareglunnar, reglna skaðabótaréttar um sönnum tjóns og sönnunarbyrði og reglna skaðabótaréttar um eigið gáleysi og eigin sök, orsakatengsl og sennilega afleiðingu, en byggir málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum 21. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggir sýknukröfu sína á því að atburðurinn sem olli meðvitundarleysi stefnanda verði ekki skilgreindur sem slys samkvæmt 9., sbr. 8. gr. vátryggingaskilmála nr. SÞ20 sem stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á en um er að ræða slysatryggingu sem stefndi B ehf. tók fyrir stefnanda og aðra starfsmenn sína. Bótasvið slysatryggingar launþega er skilgreint í 9. gr. skilmála nr. SÞ20 og kemur þar fram að stefndi greiði bætur vegna slyss er vátryggður verður fyrir, ef það leiðir til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku eða tímabundins missis starfsorku. Hugtakið slys er síðan skilgreint í 8. gr. vátryggingarskilmálanna og hljóðar sú skilgreining svo: „Með hugtakinu slys er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans.“

Stefndi byggir á því að sá atburður sem olli meðvitundarleysi stefnanda og hann tengir núverandi einkenni sín við hafi orðið þegar stefnandi fór ofan í rými þar sem fyrir voru eitraðar lofttegundir. Engin skyndilegur utanaðkomandi atburður kemur að atburðarás þessari. Stefnandi fór sjálfur ofan í rýmið og hinar eitruðu lofttegundir voru þar áður en hann fór þangað.

Framangreind skilgreining á hugtakinu slys er almennt viðurkennd í skaðabóta- og vátryggingarrétti og hefur verið staðfest af Hæstarétti Íslands og Hæstarétti Danmerkur í mörgum dómum. Þá má einnig benda á að hugtakið slys er skilgreint með sama hætti og í vátryggingarskilmálum í lögum, t.d. í 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Stefndi byggir einnig á því að óháð framangreindri skilgreiningu hugtaksins slyss sé samkvæmt almennum málskilningi ekki unnt að teygja merkingu þessa orðs svo langt að hugtakið taki til tjónsatburðar í máli þessu.

Auk almennrar afmörkunar bótasviðs tryggingarinnar er sérákvæði í gr. 9.10 í skilmálunum þar sem réttur vátryggðs til greiðslu bóta vegna slysa af völdum eitraðra lofttegunda er takmarkaður enn frekar. Þar segir að stefndi greiði ekki bætur vegna slyss af völdum eitraðra lofttegunda nema eitrunin hafi orðið skyndilega og án vilja vátryggðs. Með þessari hlutrænu ábyrgðartakmörkun eru atvik lík því sem varð þann […] 2010 því sérstaklega undanþegin greiðsluskyldu. Eitrunin var ekki skyndileg og ekki án vilja. Stefnandi hafði sjálfur unnið að því fyrr um daginn að sprauta grjótmassa inn í lokuðu rými. Eiturefnin voru þannig inni í tankinum með vitund og vilja stefnanda og voru þar fyrir er stefnandi fór ofan í rýmið, en urðu ekki skyndilega til þar meðan á veru hans þar stóð.

Þá byggir stefndi á því að reglur skaðabótaréttar um áhættutöku leiði einnig til sýknu stefndu í máli þessu enda tók stefnandi með atferli sínu mikla áhættu. Stefnandi vissi að eitraðar lofttegundir hefðu verið ofan í tankinum en að eigin sögn taldi hann að þær væru gufaðar upp. Stefnandi ákvað að fara ofan í tankinn án öryggistækja sem voru til staðar og hann hafði ætíð notað við þessa vinnu og án þess að setja fyrst loftræstingu af stað.

Að lokum byggir stefndi sýknukröfu sína á stórfelldu gáleysi stefnanda, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Stefnandi hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hafa vitað að eiturgufur væru í tankinum. Stefnandi hafði unnið í 10 mánuði við samskonar vinnu og ætíð notað ferskloftsgrímu eins og honum var uppálagt að gera og ætíð loftræst rýmið meðan á vinnu stóð, auk þess sem til þess var ætlast að enginn ynni einn inni í tanki án þess að hafa sér mann til aðstoðar fyrir utan mannopið. Öll nauðsynleg tæki voru við höndina og stefnandi tók það alfarið upp hjá sjálfum sér að fara inn í tankinn í umrætt sinn. Allt framangreint víkur svo mjög frá þeirri hegðan sem ætlast má til af góðum og gegnum einstaklingi með sömu reynslu og vitneskju og stefnandi hafði að ekki er annað hægt en að meta háttsemi stefnanda til stórfellds gáleysis.

Þá hafnar stefndi því alfarið að háttsemi stefnanda réttlætist af því að ekki hafi verið til staðar skriflegt áhættumat, áætlun um öryggi og heilbrigði eða öryggisblöð fyrir hættuleg efni. Til staðar var verklag sem starfsmönnum var kennt og tryggði öryggi þeirra og hafði stefnandi fram að þessum degi fylgt því verklagi. Þá var til staðar allur nauðsynlegur öryggisbúnaður og voru hættuleg efni merkt í bak og fyrir sem slík. Stefnandi kaus að hunsa það verklag sem honum hafði verið kennt og hann hafði notað með góðum árangri. Stefnandi kaus að nota ekki öryggisbúnað sem var við höndina og fara ofan í lokað rými, sem hann var nýbúinn að úða með efnum sem hann vissi að væru hættuleg þrátt fyrir að þar hljóti að hafa verið stæk lykt sem sviðið hefur undan í augu og öndunarveg.

Verði ekki fallist á sjónarmið stefndu sem leiða til sýknu er gerð sú krafa til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og vísast um rökstuðning til umfjöllunar hér að framan um áhættutöku og sýknu á grundvelli ofangreinds ákvæðis laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Kröfur stefndu um málskostnað eru reistar á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda B ehf. á almennu skaðabótareglunni, að slys hans verði rakið til þess að honum hafi verið falið að vinna með hættuleg efni við erfiðar og varhugaverðar aðstæður án þess að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi hans. Byggir hann á því að bæði loftræsting og verkstjórn hafi verið ófullnægjandi. Óumdeilt er að stefnandi varð fyrir líkamstjóni í umrætt sinn.

Þegar atvik gerðust var stefnandi ofan í tankinum. Stefnandi byggir á því að hann hafi þá verið við vinnu sína og verið að sprauta við op þar sem hæðarmælir átti að vera. Stefndi byggir hins vegar á því að öll vinna inni í tankinum hafi þá verið yfirstaðin og hafi stefnandi því ekki átt neitt erindi aftur ofan í tankinn. Í frumskýrslu lögreglu vegna slyssins er skráður framburður F samstarfsmanns stefnanda. Hann er einnig bróður fyrirsvarsmanns stefnda og starfar enn hjá stefnda B ehf. Skýrslan er rituð um tveimur klukkustundum eftir að atvik málsins gerðust. Kemur þar fram að F hafi sagt lögreglu að stefnandi hafi farið ofan í […] (tankinn) um kl. 11.40, hann hafi ætlað að mála yfir suðu inni í honum og hafi það átt að taka skamma stund. Stefnandi hafi þá verið með grímu en ekki súrefnisgrímu. Í skýrslu sem F gaf hjá lögreglu þann 23. febrúar 2011 var framburður hans á þann veg að hann hafi séð stefnanda fara ofan í tankinn án þess að vera með súrefnisgrímu og taldi að hann hefði farið ofan í til að sækja eitthvað. Framburður hans var á sama veg í skýrslu sem hann gaf við aðalmeðferð málsins en hann gat aðspurður ekki gefið skýringu á þeim framburði sem hafður var eftir honum í frumskýrslu lögreglu. Hann sagði jafnframt að hann drægi í efa að stefnandi hafi farið ofan í tankinn til að mála þar sem búnaður til þess hafi ekki verið í tankinum. Einnig taldi hann á grundvelli þess sem hann heyrði til stefnanda í tanknum að hann hafi allan tímann verið í aftari enda hans, þ.e. við mannopið. Framburð F verður að skoða með hliðsjón af tengslum hans við stefnda B ehf. og fyrirsvarsmann hans. Þá verður að líta til þess að ósamræmi er milli þess framburðar sem lögregla skráði eftir honum á slysdegi en sá framburður sem hann gaf síðar er að mestu leyti í samræmi við framburð D. Þá er sá framburður sem starfsmenn Vinnueftirlitsins skráðu eftir F og D á slysdegi í samræmi við þann framburð sem bókaður var eftir F af lögreglu þann dag.

Engin gögn liggja fyrir um það hvort tankurinn hafi verið skoðaður með hliðsjón af því hvort þar hafi verið gríma eða búnaður sem stefnandi hafi notað við vinnu. Í málflutningi sínum við aðalmeðferð málsins byggði stefndi B ehf. á því að búnaðurinn hefði ekki verið í tankinum eftir atvikið og taldi það styðja málatilbúnað sinn um að stefnandi hafi ekki átt erindi ofan í tankinn starfs síns vegna í umrætt sinn. Stefnandi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni og er undir það tekið af hálfu dómsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Þá telur dómurinn það ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að hæðarmælir er á fremri gafli tanksins en stefnandi fannst meðvitundarlaus við aftari gafl tanksins, við mannop sem hann fór niður um.

Jafnframt hafnar dómurinn því alfarið að líta til þess málatilbúnaðar stefnda B ehf. að stefnandi kunni að hafa verið að sækjast eftir vímu þegar hann fór ofan í tankinn enda ekkert komið fram sem styður það.

Stefndi B ehf. byggir á því að það hafi verið í bága við fyrirmæli D sem verkstjóra að fara ofan í tankinn í umrætt sinn þar sem hann hafi gefið stefnanda og F fyrirmæli um að vinna í rafmagni á meðan hann væri í burtu. Stefnandi bar hins vegar um það í skýrslu sinni fyrir dómi að þeir hefðu átt að klára tankinn. Í skýrslu F fyrir dómi kom fram að það kæmi fyrir að hæðarmælir væri settur síðastur í tankinn og þá væri hann sprautaður með „tektyl“ en taldi hins vegar að í þessu tilviki hefði verið búið að sprauta hann fyrr um morguninn. Með hliðsjón af þessu og því samræmi sem er á milli framburðar stefnanda um aðdraganda atviksins og þess framburðar sem bókaður var eftir F á slysdegi, bæði í skýrslu lögreglu og vinnueftirlits, og aðstæðna þegar sá framburður var skráður verður á því byggt að erindi stefnanda ofan í tankinn hafi verið tengt starfi hans.

Í framburði D og F fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi verið búinn að tilkynna um verklok, að bannað væri að fara ofan í tankana í sólarhring eftir að þeir hefðu verið málaðir að innan og að aldrei hafi verið farið ofan í tankana án súrefnisgrímu. Stefnandi kannaðist hins vegar ekki við að hafa tilkynnt um verklok eða að sú regla hefði gilt að ekki væri farið ofan í tankana í sólarhring eftir að sprautun væri lokið. Þá kom fram hjá honum að hann hefði áður farið ofan í tanka án súrefnisgrímu. F sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann hefði vitað að stefnandi væri að leggja sig í hættu með því að fara ofan í tankinn án súrefnisgrímu. Spurður að því af hverju hann hefði ekkert sagt þegar stefnandi fór aftur ofan í tankinn sagði hann að það hefði ekki verið hans að gefa stefnanda fyrirmæli, heldur einungis D. Með hliðsjón af framburði F og verður ekki talið að stefnandi hafi farið ofan í tankinn án vitneskju F. Við aðalmeðferð málsins kvaðst D aðspurður hafa sagt starfsmönnum Vinnueftirlitsins hundrað sinnum að að stefnandi hafi ekki mátt fara ofan í tankinn eftir að sprautun var lokið þrátt fyrir að það hafi það ekki verið skráð í skýrslu Vinnueftirlitsins. Þá er óumdeilt að þegar atvikið gerðist voru ekki fyrir hendi skriflegar leiðbeiningar um þessi atriði. Sú staðreynd að F gerði ekki athugasemd við það þegar stefnandi fór aftur ofan í tankinn, né er það bókað eftir honum í skýrslu lögreglu og vinnueftirlits frá slysdegi að þessi háttsemi stefnanda hafi verið gegn leiðbeiningum yfirmanns, styður það að þessar reglur hafi a.m.k. ekki verið algildar og verður því ekki á þeim byggt.

Óumdeilt er að fyrr um morguninn hafði stefnandi verið að sprauta tankinn að innan með grjótmassa eða „tektyl“. Er á því byggt af hálfu stefnanda að það tjón sem hann varð fyrir verði rakið til notkunnar efnisins fyrr um morguninn. Meðal gagna málsins er ljósmynd af brúsa/umbúðum undan efninu og ljósmynd sem sýnir að sprauta sem notuð er við vinnuna er skrúfuð á brúsann. Þá sést að á brúsanum koma fram leiðbeiningar um efnið. Þar stendur að efnið erti húð, innöndum gufu geti valdið sljóleika og svima, varast skuli innöndum úða, nota skuli viðeigandi hlífðarhanska og aðeins megi nota efnið á vel loftræstum stað. Loks segir: „Athugið sérstakar ráðleggingar/öryggisleiðbeiningar.“ Óumdeilt er að ekki voru frekari skráðar leiðbeiningar á vinnustaðnum um meðferð efnisins.

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er það atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustað, hann skal gera starfsmönnum ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kann að vera bundin við starf og sjá um að þeir fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma starf þannig að ekki stafi hætta af. Stefnandi byggir á því að orsakatengsl séu milli vanrækslu stefnda á að fara eftir lögboðnum skyldum sínum samkvæmt lögunum og tjóns stefnanda.

Í fyrirliggjandi skýrslu Vinnueftirlitsins um atvikið kemur fram, eins og áður hefur verið rakið, að rekja megi orsök þess til fjögurra atriða. Þótt gera megi ráð fyrir að þar skipti miklu máli að stefnandi fór niður í tankinn án ferskloftsgrímu og að tankurinn var ekki nægilega loftræstur eftir þá vinnu sem fór fram fyrr um morguninn verður að telja að einnig skipti máli að ekki var til öryggisblað fyrir það efni sem notað var og að ekki lá fyrir skriflegt áhættumat og áætlun varðandi þennan verkþátt en leiðbeiningar á brúsanum gerðu beinlínis ráð fyrir frekari upplýsingum eins og rakið hefur verið. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins sagði D að hann hafi ekki talið vera ástæðu til að senda stefnanda á námskeið vegna vinnu með hættuleg efni þar sem hann hafði sjálfur farið og hann væri alltaf á staðnum til að leiðbeina starfsmönnum. Bæði í skýrslu hans og F kom fram að D hafi munnlega verið með viðvaranir vegna hættu sem gæti skapast við vinnu þeirra en þó kom ekki fram hjá þeim að hann hafi sérstaklega varað við hættu á eitrun eða súrefnisskorti. Óumdeilt er að D var ekki á staðnum þegar atvikið gerðist. Stefnandi bar um það bæði í skýrslu sinni hjá lögreglu og við aðalmeðferð málsins að hann hafi haldið að efnið væri búið að leysast upp og að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því þá hvað efnið væri hættulegt. Þá sagði hann í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann hefði snert efnið áður en hann fór ofan í tankinn til að kanna hvort að það væri orðið þurrt. Af því sem fram hefur komið í máli þessu má ráða að hvergi hafi verið aðgangur að skriflegum leiðbeiningum um það hvernig vinnu skyldi hagað þegar efnið var notað við aðstæður sem þessar. Ekki verður talið að munnlegar aðvaranir fyrirsvarsmanns stefnda B ehf. komi í stað þeirra. Það er mat dómsins að slysið megi rekja til þess að í starfsemi stefnda B ehf. var ekki farið að ákvæðum laga nr. 46/1980. Óumdeilt er að hvorki lá fyrir hættumat samkvæmt 65. gr. a, sbr. og reglugerð nr. 553/2004 um verndum starfsmanna vegna hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum og reglum nr. 429/1995 um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými, né heldur lá fyrir öryggisblað vegna hættulegs efnis, sbr. 2. mgr. 50. gr. laganna. Þá verður að telja að ekki hafi við starfsemina verði beitt vinnuaðferðum sem tryggja að starfsmenn séu varðir á fullnægjandi hátt gegn mengun af völdum efna, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna, að því leyti að tankurinn var ekki loftræstur í kjölfar þess að hann var málaður um morguninn. Verður að telja að með gerð áhættumats og aðgangi stefnanda að öryggisblaði vegna efnisins hefði hann haft aðgang að upplýsingum um efnið og notkun þess miðað við þær aðstæður sem voru fyrir hendi á vinnustaðnum. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir tjón eða minnka líkur á því og auðvelda þannig stefnanda að gera sér grein fyrir hættu á tjóni. Loftræsting tanksins hefði einnig haft þau áhrif að hætta á tjóni hefði minnkað. Samkvæmt 23. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 46/1980, ber verkstjóra að tryggja að öryggis sé gætt innan þess starfssviðs sem hann stjórnar. Með því að tryggja stefnanda ekki fullnægjandi upplýsingar um notkun efnisins við þær aðstæður sem voru á vinnustaðnum og vanrækja loftræstingu tanksins eftir að málningarvinnan hafði farið fram verður að telja að einnig hafi verið brotið gegn þeim lagaákvæðum. Með hliðsjón af þessu verður að telja að orsakatengsl séu á milli framangreindar vanrækslu og þess tjóns sem stefnandi var fyrir og er það því niðurstaða dómsins að stefndi B ehf. sé bótaskyldur vegna tjóns stefnanda.

Stefndi B ehf. byggir á því að líta beri til eigin sakar stefnanda, sbr. 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993. Þrátt fyrir að verulega hafi skort á að stefndi B ehf. hafi farið eftir lögum nr. 46/1980 í starfsemi sinni, eins og rakið er hér að framan, verður einnig að telja að stefnandi hafi eftir um tíu mánaða starf mátt gera sér grein fyrir að gæta þyrfti allrar varúðar við meðferð efnisins. Hann notaði í mesta lagi venjulega grímu, það er ekki ferskloftsgrímu, þegar hann fór ofan í tankinn í umrætt sinn. Hann lýsti því í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði haldið að eiturgufurnar væru búnar að leysast upp og var því ljóst að einhver hætta hefði a.m.k. verið til staðar og gæti hugsanlega enn verið. Þá hafði hann fyrir augum þær leiðbeiningar sem standa á brúsanum m.a. um að efnið megi aðeins nota á vel loftræstum stað. Þá verður ekki fram hjá því litið að í bréfi stefnanda, dags. 19. júlí 2011, til Fjármálaeftirlitsins vegna kæru á ákvörðun úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, segir: „Ljóst þykir að umbj. minn sýndi af sér gáleysi þegar hann fór niður í […] í umrætt sinn án þess að vera með ferskloftsgrímu en við það sýndi hann ekki þá varfærni, umhyggju og aðgæslu sem honum þar að gera.“ Það er niðurstaða dómsins, með hliðsjón af öllu framangreindu, að stefnandi hafi með háttsemi sinni sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sbr. 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993 og verði því vegna eigin sakar að bera tjón sitt að þriðjungi sjálfur.

Krafa stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., byggir á því að stefndi B ehf. hafi á slysadegi verið með kjarasamningsbundna launþegatryggingu hjá félaginu. Því er ómótmælt að trygging var fyrir hendi þegar atvik gerðust. Stefnandi byggir á því að um slys hafi verið að ræða í skilningi vátryggingarinnar og það hafi valdið stefnanda alvarlegu heilsutjóni en stefndi byggir vörn sína á því að atvikið falli ekki undir þá skilgreiningu sem byggt er á í skilmálunum, það er að með hugtakinu slys sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans, sbr. gr. 8 og gr. 9.10 í skilmálum stefnda. Þá byggir hann sýknukröfu sína einnig á því að um áhættutöku hafi verið að ræða af hálfu stefnanda. Eins og rakið hefur verið liggur í fyrsta lagi fyrir að stefnanda var ljóst að einhver hætta gat skapast vegna notkunnar efnisins og í öðru lagi hafi hann dregið þá ályktun að ekki væri hætta fyrir hendi af tveimur atriðum, annars vegar vegna þess tíma sem liðinn var frá því að sprautað var og hins vegar hafi hann snert efnið og talið það vera þurrt. Er því ósannað að stefnanda hafi verið ljós sú áhætta sem hann tók. Með hliðsjón af þessu er því hafnað að sýkna beri stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., vegna áhættutöku. Þá kemur til skoðunar hvort um slys hafi verið að ræða samkvæmt gr. 8. og gr. 9.10 í skilmálum stefnda. Hefðbundið er í íslenskum rétti að byggja á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í gr. 8. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að tjónið hafi orðið vegna undirliggjandi ástands stefnanda. Þrátt fyrir þá niðurstöðu að telja að stefnandi hefði með hliðsjón af atvikum öllum átt að gæta meiri varkárni og það talið honum til stórkostlegs gáleysis þá hefur ekkert komið fram um að hann hafi með fullri vitneskju og vilja farið inn í þessar aðstæður en samkvæmt framburði hans hjá lögreglu vissi hann af efnunum en taldi að þau væru búin að leysast upp. Verður því ekki talið að atvik hafi gerst að vilja stefnanda. Ljóst er að eituráhrif efnanna minnka eftir því sem tíminn líður frá notkun þeirra og gerði stefnandi ráð fyrir að aðstæður væru orðnar aðrar en þær voru fyrr um morguninn þegar hann fór aftur ofan í tankinn. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á að um skyndilegan utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða sem hafi valdið slysinu. Er stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu stefnanda.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi B ehf. bæti stefnanda tjónið að 2/3 hlutum en stefnandi beri sjálfur tjón sitt að 1/3 hluta.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefndi B ehf. dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 kr. í málskostnað, er renni í ríkissjóð. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Með vísan til 3. mgr. framangreinds ákvæðis er felldur niður málskostnaður milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.

Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari málsins töldu að ekki væri vegna þess þörf á því að málið yrði flutt að nýju.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hrl., af hálfu stefnda B ehf. flutti málið Valgeir Kristinsson hrl. og af hálfu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., flutti málið Jón Eðvald Malmquist hdl.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda B ehf. að 2/3 hlutum vegna líkamstjóns vegna slyss sem stefnandi, A, varð fyrir á verkstæði stefnda B ehf., að […], þann […].

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfu stefnanda.

Stefndi, B ehf., greiði stefnanda, 800.000 kr., í málskostnað er renni í ríkissjóð.

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fellur niður.