Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Afleiðusamningur
- Skuldajöfnuður
- Réttindaröð
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 26. apríl 2012. |
|
Nr. 212/2012.
|
Þrotabú Flugvals ehf. (Svanhvít Yrsa Árnadóttir hdl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Afleiðusamningur. Skuldajöfnuður. Réttindaröð. Dráttarvextir.
G hf. lýsti kröfu við slit þrotabús F ehf. á grundvelli fimm afleiðusamninga sem málsaðilar gerðu með sér haustið 2008. Ágreiningur var með aðilum um hvort G hf. hefði efnt samningana fyrir sitt leyti á gjalddögum þeirra 7. og 9. október 2008, en á fyrrnefndum degi hafði Fjármálaeftirlitið skipað bankanum skilanefnd samkvæmt heimild í lögum nr. 125/2008. Hélt þrotabú F ehf. því fram að G hf. hefði ekki efnt samningana fyrir sitt leyti en hinn síðarnefndi bar því við að hann hefði staðið við samningana með skuldajöfnuði samkvæmt heimild í markaðsskilmálum bankans, sem F ehf. hefði gengist undir. Talið var að G hf. hefði samkvæmt skilmálunum verið heimill skuldajöfnuður, eins og atvikum málsins var háttað, og var kröfu G hf. því skipað í réttindaröð við slit þrotabús F ehf. sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2012, þar sem kröfu varnaraðila að fjárhæð 106.967.316 krónur var skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að kröfu hans að fjárhæð 106.967.316 krónur verði skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Flugvals ehf., greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2012.
Þetta mál, sem barst dóminum, 9. maí 2011, með bréfi skiptastjóra í þrotabúi Flugvals ehf. var þingfest 1. júlí það ár og tekið til úrskurðar 21. febrúar 2012.
Sóknaraðili, Glitnir banki hf., kt. 550500-3530, krefst þess að viðurkennd verði krafa hans, númer 2 í kröfuskrá varnaraðila, að fjárhæð 106.967.316 krónur svo og að henni verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, þrotabú Flugvals ehf., kt. 511006-0230, krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Málavextir
Ágreiningur málsaðila snýst um uppgjör fimm samninga um afleiður, þar af fjögurra samninga um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti og eins samnings um framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Samningarnir fjórir varða viðskipti samningsaðila með gjaldeyri bæði í upphafi og lok samningstímans. Í upphafi hvers samnings eiga sér stað stundarviðskipti (auðkennd sem fyrri hluti) þar sem gjaldeyrir er seldur gegn íslenskum krónum og samtímis er samið um framvirk kaup á sömu fjárhæð erlends gjaldeyris við lok samnings (auðkennd sem síðari hluti) gegn greiðslu íslenskra króna. Uppgjör þessarar samningstegundar ræðst af þróun gengis íslenskrar krónu og þess erlenda gjaldmiðils sem samið var um í hverjum samningi fyrir sig.
Samningur um framvirk gjaldmiðlaviðskipti felur í sér loforð á samningsdegi þar sem seljandi lofar að selja og kaupandi að kaupa fyrir fram ákveðið magn af einum gjaldmiðli á fyrir fram ákveðnu gengi fyrir annan gjaldmiðil á ákveðnum degi í framtíðinni. Samningur sóknaraðila og Flugvals tengdist gengi myntkörfu. Uppgjör þessa samnings ræðst af þróun gengis íslenskrar krónu og þeirra gjaldmiðla sem voru í myntkörfunni.
Flugval ehf. og sóknaraðili áttu, á árinu 2008, í umfangsmiklum afleiðu- og gjaldeyrisviðskiptum. Af þeim sökum undirritaði fyrirsvarsmaður Flugvals ehf., 20. desember 2007, almenna skilmála vegna markaðsviðskipta við sóknaraðila. Samkvæmt 10. gr. þeirra gilda einnig um viðskipti málsaðila ákvæði Almennra skilmála um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og Almennra skilmála um skiptasamninga, sem gefnir eru út af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, í febrúar 1998, 1. útgáfa, (SFF skilmálar).
Samanlagt gerðu sóknaraðili og Flugval 71 samning um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti, 34 samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti, 49 samninga um gjaldmiðlaviðskipti og tvo valréttarsamninga. Allir þessir samningar voru gerðir upp að frátöldum þeim samningum sem þetta mál er sprottið af og krafa sóknaraðila byggist á.
Af þessum óuppgerðu samningum voru tveir undirritaðir 30. september 2008, báðir um framvirk kaup og sölu á gjaldeyri. Í fyrri samningnum, númer SW70673, með lokagjalddaga 7. október 2008, skuldbatt Flugval sig til að afhenda 18.544.909 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 31.599.689 japönskum jenum við upphaf samningstíma. Við lok samningstíma skyldi varnaraðili selja sóknaraðila 31.599.689 japönsk jen og kaupa 18.544.909 íslenskar krónur.
Í síðari samningnum, númer SW70693, með lokagjalddaga 7. október 2008, skuldbatt Flugval sig til að afhenda 18.321.672 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 288.825,92 Bandaríkjadölum við upphaf samningstíma. Við lok samningstíma skyldi Flugval selja sóknaraðila, 288.825,92 Bandaríkjadali og kaupa 18.321.672 íslenskar krónur.
Hinn 7. október 2008 gerðu Flugval og sóknaraðili með sér þrjá samninga til viðbótar um framvirk kaup og sölu á gjaldeyri. Í fyrsta samningnum, númer SW71591, með lokagjalddaga 9. október 2008, skuldbatt Flugval sig til að afhenda 21.497.850 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 380.816,45 Bandaríkjadölum við upphaf samningstíma. Við lok samningstíma skyldi Flugval selja sóknaraðila, 380.816,45 Bandaríkjadali og kaupa 21.497.850 íslenskar krónur.
Í öðrum samningnum, númer SW71639, með lokagjalddaga 9. október 2008, skuldbatt Flugval sig til að afhenda 49.245.492 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 538.855,79 evrum við upphaf samningstíma. Við lok samningstíma skyldi Flugval selja sóknaraðila, 538.855,79 evrur og kaupa 49.245.492 íslenskar krónur.
Í þriðja samningnum, númer FX330860, með lokagjalddaga 9. október 2008, skuldbatt Flugval sig til að kaupa á gjalddaga samningsins 130.809.755 íslenskar krónur gegn sölu sóknaraðila á myntkörfu (GVT) 715.472,05. Vegna þessa síðastnefnda samnings bendir varnaraðili á að GVT sé ekki eiginleg mynt, heldur vísitala sem byggist á gengi margra erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Því sé aðeins unnt að eiga viðskipti með GVT án afhendingar gjaldmiðla.
Hinn 7. október 2008, sama dag og síðarnefndu samningarnir þrír voru undirritaðir, ritaði stjórn Glitnis banka hf. Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem stjórnin kveðst telja fjárhagslega stöðu bankans uppfylla skilyrði 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þann dag ákvað Fjármálaeftirlitið að grípa inn í rekstur sóknaraðila á grundvelli laga nr. 125/2008 og skipaði sóknaraðila skilanefnd. Hinn 14. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið jafnframt þá ákvörðun að flytja hluta af starfsemi sóknaraðila yfir í nýjan banka sem stofnaður hafði verið. Tekið er fram í lokamálslið 1. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningnum flytjist ekki yfir til Nýja Glitnis banka hf.
Á gjalddögum samninganna, 7. og 9. október 2008, héldu báðir samningsaðilar að sér höndum þannig að hvorugur efndi sína skyldu samkvæmt samningunum með því að afhenda umsamdar myntir. Í málinu eru ekki gögn um frumkvæði að efndum fyrr en sóknaraðili sendi Flugvali, 29. september 2010, áskorun um efndir samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili bauð þá ekki fram þær efndir að hann afhenti Flugvali íslenskar krónur gegn því að Flugval afhenti honum þær myntir sem um var samið í hverjum samningi. Þess í stað vísaði sóknaraðili til 1. mgr. 4. gr. markaðsskilmála sinna og reiknaði út verðmæti greiðslu Flugvals í íslenskum krónum á gjalddaga miðað við gengi Seðlabankans á þeim myntum. Frá þessari fjárhæð dró hann þá fjárhæð í krónum sem honum bar að greiða Flugvali á gjalddögum samninganna. Samkvæmt þeim útreikningi skuldaði Flugval sóknaraðila 71.631.217 kr. í höfuðstól og 30.724.158 kr. í dráttarvexti.
Í áskoruninni tók sóknaraðili oftar en einu sinni fram að hann hafi ítrekað reynt að innheimta kröfu sína á hendur Flugvali en án árangurs. Jafnframt tók sóknaraðili fram að lýsti Flugval ekki yfir því við sóknaraðila, innan þriggja vikna frá því að áskorunin yrði birt félaginu, að félagið yrði innan skamms fært um að greiða gjaldfallna skuld væri sóknaraðila heimilt að óska þess að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið sinnti áskoruninni ekki.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 9. febrúar 2011, var bú varnaraðila, að kröfu sóknaraðila, tekið til gjaldþrotaskipta og búinu skipaður skiptastjóri. Hann birti innköllun í fyrra sinn í Lögbirtingablaði, 14. febrúar 2011. Frestur til að lýsa kröfum rann út, 14. apríl 2011. Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabú varnaraðila innan frestsins með kröfulýsingu, 23. febrúar 2011, sem skiptastjóri tók við, 9. mars 2011. Með tölvuskeyti, 28. apríl 2011, sendi varnaraðili sóknaraðila kröfuskrá. Þar kom fram að kröfu sóknaraðila væri hafnað þar sem hún væri, að mati skiptastjóra, ekki réttmæt sökum gagnkvæmra vanefnda samningsaðila. Sóknaraðili mótmælti afstöðu skiptastjóra með bréfi, 2. maí 2011, og ítrekaði þá afstöðu sína á skiptafundi varnaraðila, 4. maí 2011. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining málsaðila um réttmæti kröfu sóknaraðila beindi skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms til úrlausnar, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili vísar fyrst til þess að þær samningsgerðir sem þetta mál snúist um rúmist innan tilgangs starfsemi Flugvals ehf., en samkvæmt stofngögnum félagsins hafi tilgangur þess verið hvers konar fjármálastarfsemi og allt annað sem eðlilegt væri að félagið hefði með höndum.
Krafa sóknaraðila, að fjárhæð 106.967.316 krónur, hafi stofnast á grundvelli eftirtalinna fjögurra samninga um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti og eins samnings um framvirk gjaldmiðlaviðskipti:
1) Samningur númer SW0000070673, dags. 30. september 2008, með endanlegan afhendingardag 7. október 2008, geri ráð fyrir skiptum á gjaldmiðlum bæði í upphafi og lok samningstímans. Við upphaf samningsins hafi Flugval afhent 18.544.909 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 31.599.689 japönskum jenum. Við lok samnings, á afhendingardegi, 7. október 2008, hafi Flugvali borið að afhenda sóknaraðila 31.599.689 japönsk jen gegn afhendingu (sölu) sóknaraðila á 18.478.550 íslenskum krónum.
Á afhendingardegi hafi miðgengi Seðlabanka Íslands á jenum verið 0,9869 og hafi það verið notað til að umreikna skuld Flugvals yfir í íslenskar krónur. Flugvali hafi því borið að afhenda 31.599.689 japönsk jen sem jafngildi 31.185.733 íslenskum krónum á þeim degi (31.599.689 x 0,9869), gegn afhendingu sóknaraðila á 18.478.550 íslenskum krónum. Skylda sóknaraðila til afhendingar skuldajafnist á móti skyldu varnaraðila og eftir standi nettótalan 12.707.183 íslenskar krónur í tap fyrir varnaraðila vegna þessa samnings (31.185.733-18.478.550).
2) Samningur númer SW0000070693, dags. 30. september 2008, með endanlegan afhendingardag 7. október 2008, geri ráð fyrir skiptum á gjaldmiðlum bæði í upphafi og lok samningstímans. Við upphaf samningsins hafi Flugval afhent 18.321.672 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 288.825,92 Bandaríkjadölum. Við lok samnings (á afhendingardegi, 7. október 2008) hafi Flugvali borið að afhenda 288.825,92 Bandaríkjadali gegn afhendingu (sölu) sóknaraðila á 18.236.757 íslenskum krónum.
Á afhendingardegi hafi miðgengi Seðlabanka Íslands á Bandaríkjadal verið 100,37 og hafi það verið notað til að umreikna skuld Flugvals yfir í íslenskar krónur. Flugvali hafi því borið að afhenda 288.825,92 Bandaríkjadali sem jafngildi 28.989.458 íslenskum krónum á þeim degi (288.825,92 x 100,37), gegn afhendingu sóknaraðila á 18.236.757 íslenskum krónum. Skylda sóknaraðila til afhendingar skuldajafnist á móti skyldu varnaraðila og eftir standi nettótalan 10.752.701 íslensk króna í tap fyrir varnaraðila vegna þessa samnings (28.989.458-18.236.757).
3) Samningur númer SW0000071591, dags. 7. október 2008, með endanlegan afhendingardag 9. október 2008, geri ráð fyrir skiptum á gjaldmiðlum bæði í upphafi og lok samningstímans. Við upphaf samningsins hafi Flugval afhent 21.497.850 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 380.816,45 Bandaríkjadölum. Við lok samnings, á afhendingardegi, 9. október 2008, hafi Flugvali borið að afhenda 380.816,45 Bandaríkjadali gegn afhendingu (sölu) sóknaraðila á 21.433.111 íslenskum krónum.
Á afhendingardegi hafi miðgengi Seðlabanka Íslands á Bandaríkjadal numið 105,42 og hafi það verið notað til að umreikna skuld Flugvals yfir í íslenskar krónur. Flugvali hafi því borið að afhenda 380.816,45 Bandaríkjadali sem jafngildi 40.145.670 íslenskum krónum á þeim degi (380.816,45 x 105,42), gegn afhendingu sóknaraðila á 21.433.111 íslenskum krónum. Skylda sóknaraðila til afhendingar skuldajafnist á móti skyldu varnaraðila og eftir standi nettótalan 18.712.559 íslenskar krónur í tap fyrir varnaraðila vegna þessa samnings (40.145.670-21.433.111).
4) Samningur númer SW0000071639, dags. 7. október 2008, með endanlegan afhendingardag 9. október 2008, geri ráð fyrir skiptum á gjaldmiðlum bæði í upphafi og lok samningstímans. Við upphaf samningsins hafi Flugval afhent 49.245.492 íslenskar krónur gegn afhendingu sóknaraðila á 538.855,79 evrum. Við lok samningsins, á afhendingardegi 9. október 2008, hafi Flugvali borið að afhenda 538.855,79 evrur gegn afhendingu (sölu) sóknaraðila á 49.113.472 íslenskum krónum
Á afhendingardegi hafi miðgengi Seðlabanka Íslands á evrum verið 144,27 og hafi það verið notað til að umreikna skuld Flugvals yfir í íslenskar krónur. Flugvali hafi borið að afhenda 538.855,79 evrur sem jafngildi 77.740.724 íslenskum krónum á þeim degi (538.855,79 x 144,27), gegn afhendingu sóknaraðila á 49.113.472 íslenskum krónum. Skylda sóknaraðila til afhendingar skuldajafnist á móti skyldu varnaraðila og eftir standi nettótalan 28.627.252 íslenskar krónur í tap fyrir varnaraðila vegna þessa samnings (77.740.724-49.113.472).
5) Samningur númer FX0000330860, dags. 7. október 2008, með afhendingardag 9. október 2008, hafi gert ráð fyrir kaupum á íslenskum krónum gegn afhendingu á myntkörfu (GVT) við lok samningstímans. Við lok þessa samnings hafi Flugvali borið að kaupa 130.809.755 íslenskar krónur gegn afhendingu (sölu) sóknaraðila á 715.472,05 myntkörfueiningum. Á afhendingardegi hafi gengi Seðlabanka Íslands á þessari myntkörfu (GVT) verið 181,6678 og hafi það verið notað til að umreikna skyldu sóknaraðila yfir í íslenskar krónur. Flugval skyldi þannig kaupa 130.809.755 íslenskar krónur, gegn afhendingu (sölu) Glitnis banka á 715.472,05 gengisvísitölueiningum sem jafngildi 129.978.233 íslenskum krónum á þeim degi (GVT 715.472,05 x 181,6678). Skylda Flugvals til kaupa skuldajafnist á móti skyldu sóknaraðila til afhendingar og eftir standi nettótalan 831.522 íslenskar krónur í tap fyrir Flugval vegna þessa samnings (ISK 130.809.755-129.978.233).
Samkvæmt framangreindu nemi höfuðstóll kröfu sóknaraðila 71.631.217 kr. Við þá fjárhæð bætist dráttarvextir á hvern samning frá lokadegi hans til úrskurðar um töku bús Flugvals ehf. til gjaldþrotaskipta, 9. febrúar 2011, samtals 35.336.099 kr. Heildarkrafa Glitnis banka hf. nemi því 106.967.316 kr. og sundurliðist með dráttarvöxtum á þennan hátt:
Samningur um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti SW0000070673
Höfuðstóll kr. 12.707.183
Dráttarvextir til 9. febrúar 2011 kr. 6.285.367
Samtals kr. 18.992.550
Samningur um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti SW0000070693
Höfuðstóll kr. 10.752.701
Dráttarvextir til 9. febrúar 2011 kr. 5.318.619
Samtals kr. 16.071.320
Samningur um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti SW0000071591
Höfuðstóll kr. 18.712.559
Dráttarvextir til 9. febrúar 2011 kr. 9.218.939
Samtals kr. 27.931.498
Samningur um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti SW0000071639
Höfuðstóll kr. 28.627.252
Dráttarvextir til 9. febrúar 2011 kr. 14.103.516
Samtals kr. 42.730.768
Samningur um gjaldmiðlaviðskipti FX0000330860
Höfuðstóll kr. 831.522
Dráttarvextir til 9. febrúar 2011 kr. 409.658
Samtals kr. 1.241.180
Sóknaraðili byggir heimild sína til skuldajöfnunar á 4. gr. markaðsskilmála sinna. Markaðsskilmálarnir geri ráð fyrir því að séu afleiðuviðskipti ekki gerð upp samkvæmt efni sínu á gjalddaga skuli skyldur aðila samkvæmt hverri afleiðu jafnast hvor á móti annarri með skuldajöfnuði. Sóknaraðili jafni því skuldbindingum aðila saman, samkvæmt sérhverjum samningi, á gjalddaga hans. Með slíkum skuldajöfnuði hafi sóknaraðili efnt samningsskuldbindingar sínar.
Sóknaraðili byggir heimild sína til skuldajafnaðar jafnframt á almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð samrættra krafna, eins og hér eigi við, sem og 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þar sem kröfurnar séu samrættar miðist skuldajöfnuður við gjalddaga hvers samnings. Teljist slíkt ekki nægja styðst sóknaraðili við langa og átölulausa markaðsvenju við uppgjör afleiðusamninga hér á landi sem og erlendis.
Sóknaraðili tekur fram að krafa hans sé umreiknuð yfir í íslenskar krónur á gjalddaga samkvæmt heimild í 7. gr. markaðsskilmála sóknaraðila og 2. gr. SFF skilmála. Við umreikning fjárhæða í íslenskar krónur sé notað skráð gengi Seðlabanka Íslands, en samkvæmt 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands skuli nota það gengi til viðmiðunar í samningum og dómsmálum þegar önnur gengisviðmiðun sé ekki sérstaklega tiltekin.
Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila sé miðuð við lokadag framangreindra samninga sóknaraðila og Flugvals, en það sé jafnframt gjalddagi þeirra og byggist heimild til að reikna dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar á c-lið 7. mgr. 7. gr. markaðsskilmála sóknaraðila sem og 2. gr. SFF skilmálanna. Í samræmi við þær heimildir beri krafa sóknaraðila dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, ákvæða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sérstaklega V. kafla laganna, svo og annarra reglna og venja á sviði markaðs- og verðbréfaviðskipta, ákvæða laga um Seðlabanka Íslands, einkum 19. gr. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Krafa hans um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að vanefndir samningsaðila hafi verið gagnkvæmar þar sem hvorugur hafi innt sínar greiðslur af hendi á gjalddaga enda hafi hvorugur getað það vegna þeirra aðstæðna sem skapast hefðu í bankakerfinu þegar samningarnir féllu í gjalddaga. Þar sem sóknaraðili hafi vanefnt umrædda samninga gagnvart varnaraðila geti hann ekki átt lögmæta kröfu á hendur varnaraðila, hvort sem það sé krafa reist á kröfufjárhæðum samninganna á gjalddögum þeirra eða með skuldajöfnuði.
Samkvæmt þessum umdeildu skiptasamningum hafi Flugval átt að afhenda sóknaraðila, við upphaf samningstíma, tiltekna fjárhæð í íslenskum krónum gegn afhendingu sóknaraðila á tiltekinni fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, sem séu mismunandi eftir samningum. Á gjalddaga samninganna hafi Flugval átt að afhenda sóknaraðila hina erlendu gjaldmiðla sömu fjárhæðar og sóknaraðili afhenti Flugvali í upphafi samningstíma og sóknaraðili að afhenda Flugvali íslenskar krónur að sömu krónutölu og Flugval hafði afhent í upphafi samningstímans. Eins og áður hafi verið rakið sé samningurinn, þar sem samningsandlag sé GVT myntkarfa, ólíkur að því leyti að aðeins sé unnt að eiga viðskipti með GVT án afhendingar gjaldmiðla.
Af þessu sé ljóst að sóknaraðili hafi skuldbundið sig á gjalddaga til að leggja íslenskar krónur inn á bankareikning Flugvals og það félag hafi skuldbundið sig til að standa við sinn hluta samningsins með því að hafa tiltækar á gjalddaga þær erlendu myntir sem við áttu á tilgreindum bankareikningi. Það þýði að greiðslurnar tvær séu ótengdar.
Á gjalddaga tveggja fyrrnefndu samninganna, 7. október 2008, hafi sóknaraðili átt að greiða varnaraðila samtals 36.866.581 krónu en varnaraðili að greiða sóknaraðila annars vegar 31.599.689 japönsk jen og hins vegar 288.825,92 Bandaríkjadali. Hvorugur málsaðila hafi innt neina greiðslu af hendi á gjalddaga og því hafi vanefndin verið gagnkvæm. Þá hafi samningsaðilar ekki heldur lagt neinar greiðslur inn á bankareikninga eftir gjalddaga.
Á gjalddaga þriggja síðarnefndu samninganna, 9. október 2008, hafi sóknaraðili átt að greiða Flugvali samtals 201.553.097 krónur en Flugval að greiða sóknaraðila 380.816,45 Bandaríkjadali, 538.855,79 evrur og 715.472,05 einingar í myntkörfu (GVT). Sömu sögu sé að segja um þessi viðskipti og hin fyrrnefndu, hvorugur málsaðila hafi innt nokkra greiðslu af hendi.
Varnaraðili telur augljóst að vegna hruns íslenskra banka, sóknaraðila þeirra á meðal, hafi hvorugur málsaðila getað staðið við sinn hluta samninganna. Með hliðsjón af því, sem og öðrum ástæðum sem að framan séu raktar, beri að hafna kröfum sóknaraðila vegna vanefnda hans.
Varnaraðili byggir í öðru lagi á því að sóknaraðili hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt áðurnefndum gjaldmiðlaskiptasamningum frá og með 7. október 2008. Þegar af þeirri ástæðu geti hann ekki reist rétt sinn á framangreindum skiptasamningum og átt kröfu á hendur varnaraðila vegna nettunar á samningum milli aðila (skuldajöfnun).
Um viðskipti aðila hafi gilt almennir skilmálar vegna markaðsviðskipta sóknaraðila og viðskiptamanna hans, dags. 20. desember 2007. Í 10. gr. skilmálanna sé vísað til þess að ákvæði Almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og Almennra skilmála fyrir skiptasamninga, útgefinna af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998, gildi einnig um viðskiptin eftir því sem við eigi. Í grein 9.4 í síðarnefndu skilmálunum sé kveðið á um að við gjaldþrot samningsaðila gjaldfalli allir skiptasamningar milli samningsaðila án sérstakrar tilkynningar þar um. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt áðurnefndum skiptasamningum frá og með 7. október 2008.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 7. október 2008, um skipan skilanefndar fyrir sóknaraðila komi fram að eftirlitið telji skilyrði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki uppfyllt, „í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Glitnis banka hf., kerfislegs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið, enda telur Fjármálaeftirlitið önnur úrræði þess ekki líkleg til að bera árangur“. Meðal forsendna fyrir skipan skilanefndar hafi verið þær líkur sem taldar voru á því að sóknaraðili gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. núgildandi VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum um fjármálafyrirtæki.
Þá vísar varnaraðili til þess að 24. nóvember 2008 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur veitt sóknaraðila heimild til greiðslustöðvunar. Í greiðslustöðvunarúrskurðinum segi meðal annars að sóknaraðili hafi verið ófær um að mæta greiðsluskuldbindingum sínum gagnvart lánardrottnum.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili sýnt fram á, með óyggjandi hætti, að sóknaraðili hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt skiptasamningunum þegar Fjármálaeftirlitið greip inn í starfsemi hans 7. október 2008.
Varnaraðili byggir í þriðja lagi á því að sóknaraðila sé ekki heimilt að skuldajafna kröfum sínum á móti kröfum varnaraðila. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr., sbr. c-lið 3. gr., almennra skilmála vegna markaðsviðskipta sóknaraðila og Flugvals, skyldi sóknaraðili tilkynna Flugvali í síma, með tölvupósti eða með símbréfi að hann hefði gjaldfellt kröfur samkvæmt samningunum. Að þessu hafi sóknaraðili ekki gætt. Þá vísar varnaraðili einnig til þess að samkvæmt d-lið 7. mgr. 7. gr. sömu skilmála hafi sóknaraðila verið heimilt, en ekki skylt, eftir að skuldbindingar viðskiptamanns hafi verið gjaldfelldar, að umreikna vanefndar kröfur í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur á gjaldfellingardegi eða eftir atvikum á gjalddaga kröfu.
Af framangreindu sé ljóst að svokölluð nettun eigi sér einungis stað eftir að krafan hafi verið gjaldfelld, en þá séu báðar kröfurnar komnar í íslenska mynt. Þar sem sóknaraðila hafi láðst að tilkynna Flugvali um gjaldfellinguna eða að kröfunum yrði skuldajafnað sé honum með öllu óheimilt að skuldajafna kröfum milli aðila.
Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um uppgjör afleiðusamninga. Hann mótmælir því sérstaklega að það uppgjör sem sóknaraðili hafi lagt fram sé í samræmi við markaðsvenju.
Varnaraðili byggir allar framangreindar málsástæður sínar á því að sóknaraðili hafi verið ógjaldfær frá og með 7. október 2008, en sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli alfarið á sóknaraðila. Að mati varnaraðila eigi því málsástæður um ógjaldfærni og gagnkvæma vanefnd við um alla samninga sem þetta mál sé sprottið af, óháð því hvort endanlegur gjalddagi var 7. eða 9. október 2008.
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um dráttarvexti sem rangri og ósannaðri. Varnaraðili vísar í fyrsta lagi til þess að samkvæmt 7. mgr. 7. gr. almennra skilmála sem giltu um viðskipti aðila skuli viðskiptamaður greiða dráttarvexti frá og með þeim degi sem honum berst útreikningur bankans. Eins og að framan sé rakið hafi Flugvali ekki borist tilkynning frá sóknaraðila um gjaldfellingu samninganna eða einhvers konar skuldajafnaðaruppgjör innan eðlilegs og sanngjarns frests í samræmi við framangreinda skilmála. Það hafi fyrst verið, tveimur árum síðar, með bréfi sóknaraðila til varnaraðila, 29. september 2010, að varnaraðila barst krafa frá sóknaraðila. Verði að öllu eða einhverju leyti fallist á kröfu sóknaraðila vegna höfuðstólsfjárhæðar eftirstöðva samninganna, krefst varnaraðili þess að dráttarvextir verði ekki lagðir á fyrr en frá dómsuppsögu. Vegna þessarar kröfu sinnar vísar varnaraðili til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 7. gr. laganna.
Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað vísar varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls er sprottinn af fimm samningum sem sóknaraðili, Glitnir banki hf., og félagið Flugval ehf. gerðu með sér haustið 2008: Fjórum samningum um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti og einum samningi um framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Ágreiningslaust er að samningarnir komust á og hvert efni þeirra er.
Í fyrrgreindu samningunum fjórum hafa tvær dagsetningar þýðingu í hverjum samningi um sig, upphafsdagur og gjalddagi. Á upphafsdegi afhendir lánastofnunin viðskiptavini tiltekna fjárhæð í erlendum gjaldmiðli sem hann greiðir fyrir með íslenskum krónum. Á gjalddaga afhendir viðskiptavinurinn bankanum sömu fjárhæð í þeim erlenda gjaldmiðli sem samið var um og bankinn greiðir fyrir með íslenskum krónum. Endurgjald bankans ræðst af þróun íslensku krónunnar gagnvart þeim erlendu gjaldmiðlum sem hann afhendir viðskiptavini sínum á upphafsdegi hvers samnings og þeirri breytingu sem verður á þeirri gengisvísitölu sem fimmti samningurinn er bundinn.
Óumdeilt er að báðir aðilar inntu sínar greiðslur af hendi á upphafsdegi allra fjögurra samninganna um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Hins vegar er ágreiningur með málsaðilum um það hvort sóknaraðili hafi efnt samningana fyrir sitt leyti á gjalddögum þeirra. Varnaraðili lítur svo á að sóknaraðili hafi verið ógjaldfær á gjalddögum samninganna. Vegna þessarar ógjaldfærni hafi hann ekki getað efnt samningana með reiðufé. Honum hafi því ekki heldur verið heimilt að efna sinn hluta skuldbindingarinnar með skuldajöfnuði. Þar sem hann hafi ekki efnt, og hafi ekki heldur getað efnt, geti hann ekki átt neina kröfu á hendur varnaraðila enda þótt varnaraðili hafi ekki heldur efnt sína skuldbindingu samkvæmt samningunum.
Sóknaraðili kveðst hafa staðið við sinn hluta margnefndra samninga með skuldajöfnuði eða nettun. Heimild sína til þess byggir hann á 4. gr. markaðsskilmála sinna sem fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi undirritað. Ákvæði 4. gr. ber fyrirsögnina „Skuldajöfnun (nettun) samninga“. Í 1. mgr. segir að séu skuldbindingar viðskiptamanns gjaldfelldar samkvæmt 7. gr. skilmálanna sé sóknaraðila heimilt, en ekki skylt, að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem falli undir skilmálana þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig af gjaldeyris- og verðbréfaviðskiptum, þar með talið afleiðusamningum, sé gert upp í einu lagi. Við slíka skuldajöfnun sé heimilt að umreikna allar skuldbindingar yfir í íslenskar krónur. Í 2. mgr. 4. gr. stendur: „Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður einnig að kominn sé á skriflegur samningur við bankann í samræmi við III. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 með síðari breytingum, um að skyldur samningsaðila, samkvæmt afleiðu, skuli jafnast hver á móti annarri með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu, þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Ákvæði, sem samsvara ákvæðum III. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, eru nú í V. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Í 7. gr. markaðsskilmála sóknaraðila er fjallað um vanefndir og heimild bankans til þess að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns. Í c-lið 7. mgr. 7. gr. segir: „Kröfur í krónum skulu bera dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.“
Í d-lið 7. mgr. 7. gr. segir: „Bankanum er heimilt að umreikna vanefndar kröfur í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur á gjaldfellingardegi eða eftir atvikum á gjalddaga kröfu. Ber þá að greiða dráttarvexti í samræmi við (c) lið hér að ofan.“
Af 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmála sóknaraðila verður ekki dregin önnur ályktun en að skuldajöfnuður hafi verið heimill við gjaldfellingu vegna fyrirsjáanlegrar vanefndar svo og við vanefnd eftir að samningur var fallinn í gjalddaga. Þykir ekki standa í vegi skuldajafnaðar samkvæmt 2. mgr. að ekki sé þar tekið fram sérstaklega að heimilt sé að umreikna allar skuldbindingar yfir í íslenskar krónur eins og tekið er fram í 1. mgr. 4. gr. enda er tekið fram í d-lið 7. mgr. 7. gr. markaðsskilmálanna að bankanum sé heimilt að umreikna vanefndar kröfur í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur á gjalddaga kröfu. Það stendur því alls ekki í vegi skuldajafnaðar að greiðslur hvors samningsaðila um sig hafi ekki verið í sama gjaldmiðli. Enda þótt heimildin til að umreikna kröfuna yfir í íslenskar krónur hefði ekki verið skjalfest var sóknaraðila skuldajöfnuður heimill þar sem krafa Flugvals á hendur sóknaraðila var tæk til réttra efnda á kröfu sóknaraðila á hendur Flugvali og því sambærileg henni í merkingu hugtaksins skuldajöfnuður.
Skuldajöfnuður einnar kröfu við aðra samsvarar greiðslu. Enda þótt sá, sem vill nýta sér heimild sína til að greiða skuld með skuldajöfnuði, kunni að vera ófær um að greiða hana með reiðufé verður honum ekki meinað af þeim sökum að efna skyldu sína með skuldajöfnuði. Því þykir ekki þurfa að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili var ógjaldfær á gjalddaga samninganna eða hvort staða hans jafngilti því að hann væri gjaldþrota.
Eins og áður segir verður ekki annað séð af 2. mgr. 4. gr. markaðsskilmála sóknaraðila en skuldajöfnuður hafi verið honum heimill hvort heldur sem var við gjaldfellingu fyrir gjalddaga eða á gjalddaga. Þar sem sóknaraðili beitti ekki skuldajöfnuði fyrr en samningarnir voru fallnir í gjalddaga verður ekki litið svo á að honum hafi borið að senda varnaraðila tilkynningu um gjaldfellingu samkvæmt 4. mgr. 7. gr., sbr. c-lið 3. gr. markaðsskilmála sóknaraðila.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili megi gera afleiðusamningana upp með skuldajöfnuði en hefur ekki mótmælt útreikningi sóknaraðila. Samkvæmt útreikningnum stóð varnaraðili í skuld við sóknaraðila á gjalddaga allra samninganna fimm. Því verður fallist á að sóknaraðili eigi rétt á greiðslu þess höfuðstóls sem hann krefst í kröfulýsingu sinni og fyrir dómi.
Sóknaraðili krefst dráttarvaxta frá gjalddaga hvers samnings um sig. Gjalddagi samninganna var ákveðinn fyrir fram og þeir féllu í gjalddaga. Þar sem skuldajöfnuður sóknaraðila byggðist ekki á gjaldfellingu gildir ekki það ákvæði 7. mgr. 7. gr. markaðsskilmálanna að viðskiptamaður greiði dráttarvexti frá þeim degi sem honum berst útreikningur bankans. Þar sem skuldajöfnuður var báðum samningsaðilum heimill frá gjalddaga samninganna þykir það ekki hafa þýðingu fyrir kröfu sóknaraðila um dráttarvexti þótt ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýni fram á að sóknaraðili hafi reynt að innheimta kröfu sína á hendur Flugvali fyrr en tæpum tveimur árum eftir gjalddaga, en hann heldur því fram að það hafi ítrekað verið reynt.
Með vísan til d-liðar, sbr. c-lið 7. mgr. 7. gr. markaðsskilmála sóknaraðila, og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, verður fallist á að sóknaraðila beri dráttarvextir af höfuðstól kröfu sinnar frá gjalddaga samninganna þar til Flugval ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili hefur ekki heldur mótmælt útreikningi sóknaraðila á dráttarvöxtum af höfuðstól og því verður fallist á þá fjárhæð sem sóknaraðili krefst.
Varnaraðili mótmælti því ekki, yrði fallist á kröfu sóknaraðila, að hún nyti stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því verður einnig fallist á þá kröfu sóknaraðila.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Glitnis banka hf., að fjárhæð 106.967.316 krónur, er viðurkennd í þrotabú Flugvals ehf., svo og að hún njóti stöðu sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili, þrotabú Flugvals ehf., greiði sóknaraðila 600.000 kr. í málskostnað.