Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/2002


Lykilorð

  • Útlendingur
  • Atvinnuréttindi


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002.

Nr. 315/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Eysteini Gunnari Guðmundssyni

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Útlendingar. Atvinnuréttindi.

E var ákærður fyrir brot gegn lögum nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa ráðið níu erlenda menn í vinnu án atvinnuréttinda á Íslandi. Talið var sannað að E hefði komið fram sem fyrirsvarsmaður E ehf. við umrædda útlendinga. Með vísan til gagna málsins, framburðar vitna og þess að umræddir útlendingar voru að störfum í K þegar þeir voru handteknir var talið að þeir hefðu verið ráðnir til starfa í skilningi 4. gr. lagafram sem fyrirsvarsmaður E ehf. við umrædda útlendinga. Með vísan til gagna málsins, framburðar vitna og þess að umræddir útlendingar voru að störfum í K þegar þeir nr. 133/1994. Var E sem fyrirsvarsmaður E ehf. talinn hafa staðið að ráðningu þessara manna og þar með gerst brotlegur við 4. gr. laga nr. 133/1994. Var honum gerð sekt fyrir þá háttsemi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ekki yrði fullyrt hversu lengi mennirnir voru við störf í K auk annarra vankanta á rannsókn málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvalds, en til vara að héraðsdómur verði felldur úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar fyrir fjölskipuðum dómi, skipuðum dómurum, sem ekki hafa dæmt í málinu áður, og til þrautavara að héraðsdómur verði mildaður sem lög leyfa.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og sakarkostnað staðfest.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til forsendna héraðsdóms, þar á meðal þess að ekki verði fullyrt hversu lengi hinir útlendu menn höfðu verið að störfum á vegum ákærða, þótt ljóst sé að mennirnir voru við störf í Kópavogi miðvikudaginn 7. nóvember 2001, eins og í héraðsdómi nánar greinir. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til röksemda héraðsdóms þykir mega fallast á að refsing ákærða sé þar hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt í ríkissjóð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdómi Reykjaness 8. maí 2002.

Mál þetta er höfðað með ákæru Sýslumannsins í Kópavogi útgefinni 27. nóvember s.l. gegn Eysteini Gunnari Guðmundssyni, kt. 070253-4299, Engjaseli 86, Reykjavík „fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu 30. ágúst 2001 til 28. október 2001, sem fyrirsvarsmaður Eystrasaltsviðskipta ehf., kt. 600700-3080, ráðið í vinnu til sín 9 útlendinga þá:

Albertas Dalikas, f. 21. ágúst 1963,

Antanas Jasas, f. 28. maí 1968,

Vaidotas Sarkauskas, f. 30. júní 1978,

Gintaras Marcius, f. 7. október 1966,

Saulius Casnauskis, f. 27. mars 1962,

Rimantas Montrimas, f. 5. mars 1962,

Romas Sarkauskis, f. 11. apríl 1957,

Erlandas Kacinskas, f. 17. júní 1976,

Kazys Grincevisius, f. 3. janúar 1947,

alla með ríkisfang í Litháen, til starfa við byggingavinnu að Kórsölum 5, Kópavogi, þar sem þeir störfuðu til 7. nóvember s.l., þrátt fyrir að enginn þeirra væri með atvinnuréttindi á Íslandi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133 frá 1994, um atvinnuréttindi útlendinga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

   Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að ríkissjóði verði gert að greiða allan sakarkostnað og þar með talda þóknun verjanda við rannsókn og flutning málsins. Til vara krefst ákærði þess að honum verði dæmd svo mild refsing sem frekast er kostur að lögum og að sakarkostnaði verði þá skipt. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna.

   Máli þessu var vísað frá héraðsdómi án kröfu í úrskurði sem kveðinn var upp þann 13. febrúar sl. Hæstiréttur Íslands felldi frávísunarúrskurðinn úr gildi með dómi þann 15. mars sl. Var málið því flutt að nýju fyrir héraðsdómi þann 19. apríl og dómtekið í framhaldi af því.

   Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af ákærða. Fyrir dóminn komu sem vitni Magnús Árnason og Magnús Kristinsson starfsmenn Húsaness ehf. og Margeir Þorgeirsson fyrirsvarsmaður sama félags. Að auki gaf Gitana Ziliute vitnaskýrslu en hún er skráður stjórnarmaður í Eystrasaltsviðskiptum ehf. samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár. Einnig báru vitni Darijus Sukiliauskas og Laura Jotautaite túlkar á litháísku en Darius annaðist túlkun við skýrslugjöf hjá lögreglu og þau bæði komu að þýðingu vegabréfa yfir á íslensku. Rannsóknarlögreglumennirnir Gylfi Gylfason, Hallur Gunnar Erlingsson og Þórir Steingrímsson báru og vitni ásamt Páli Ástþóri Jónssyni aðstoðarvarðstjóra í lögreglunni í Kópavogi.

I.

   Málavextir eru í stuttu máli þeir að lögreglunni í Kópavogi mun hafa borist ábending frá útlendingaeftirlitinu þann 6. nóvember 2001 um hugsanlega ólöglega starfsemi útlendinga við nýbyggingu að Kórsölum 5 í Kópavogi. Var talið að um 7-8 menn væri að ræða og að hugsanlegt væri að fyrirtæki sem héti Eystrasaltsviðskipti ehf. hefði menn þessa í vinnu og hefði stuðlað að komu þeirra til landsins. Á grundvelli þessarar ábendingar fóru lögreglumenn á staðinn um klukkan 12:10 miðvikudaginn 7. nóvember 2001 og handtóku þar 9 lítháíska ríkisborgara sem þar voru og fluttu þá á lögreglustöð til yfirheyrslu vegna gruns um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Eru þetta þeir níu menn sem nafngreindir eru í ákæruskjali. Enginn þessarra manna hafði dvalar- eða atvinnuleyfi á Íslandi. Byggingaraðili að Kórsölum 5 er Húsanes ehf. Tveir starfsmenn þess félags hittust fyrir á byggingarstað þegar hinir erlendu ríkisborgarar voru handteknir, þeir Magnús Árnason flokkstjóri hjá Húsanesi ehf. og Magnús Kristinsson starfsmaður sama félags. Kemur fram í lögregluskýrslu að þeir hafi tjáð lögreglu að hinir handteknu menn væru ekki á vegum Húsaness ehf. heldur Eystrasaltsviðskipta ehf. sem væri undirverktaki að verkinu. Hafði annar þessarra manna samband við ákærða í máli þessu og kom hann á vettvang. Segir í lögregluskýrslu að ákærði hafi staðfest að umræddir níu útlendingar væru á staðnum á sínum vegum en ekki Húsaness ehf. Voru hinir níu litháísku ríkisborgarar færðir á lögreglustöð til skýrslutöku. Vegabréf mannanna voru haldlögð í þágu rannsóknar málsins og fram kemur í lögregluskýrslu að þegar skýrslugjöf hafi verið lokið hafi þeim verið ekið á dvalarstaði sína sem hafi annars vegar verið í verbúðum við Gufunesveg í Grafarvogi og hins vegar á gistiheimili að Ránargötu 10, Reykjavík. Var hinum handteknu skipaður réttargæslumaður og var hann viðstaddur skýrslutökur af þeim fyrir lögreglu. Með bréfi dagsettu 16. nóvember 2001 sendi sýslumaðurinn í Kópavogi afrit rannsóknargagna málsins til Útlendingaeftirlitsins ásamt vegabréfum mannanna níu. Í bréfi Útlendingaeftirlitsins til Eystrasaltsviðskipta ehf. sem dagsett er 4. desember 2001 kemur fram að fjórum þeirra manna sem ákærða er gefið að sök að hafa haft í vinnu var boðið að hverfa af landi brott án þess að til þess kæmi að þeim yrði brottvísað og þeir hafi þegið þau málalok. Komið hefur fram undir rekstri málsins að sama átti við um hina fimm sem tilgreindir eru í ákæruskjali. Ekki var tekin framburðarskýrsla fyrir dómi af þessum mönnum áður en þeir hurfu af landi brott en í málinu liggja fyrir skýrslur sem teknar voru af mönnunum hjá lögreglu.

   Þann 15. nóvember 2001 var ákærði boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu. Tilnefndi ákærði Jón Einar Jakobsson hdl. sem verjanda sinn og var hann viðstaddur skýrslutökuna. Var honum kynnt tilefni skýrslutökunnar og að hann væri yfirheyrður vegna gruns um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Kvaðst ákærði vera eigandi og stjórnandi Eystrasaltsviðskipta ehf. og sæi hann um daglegan rekstur félagsins og væri síðan með fólk í vinnu hjá sér. Kvað ákærði að skráning Gitana Ziliuté sem fyrirsvarsmanns félagsins hjá Hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands væri röng og einnig skráning Stefáns Stefánssonar, þar sem ákærði hafi tekið sæti þeirra í apríl 2001 þó tilkynning þar að lútandi hefði ekki verið send Hlutafélagaskrá. Ákærði kvaðst hafa annast samninga milli Eystrasaltsviðskipta ehf. og Húsaness ehf. Hann sé rafverktaki og sjái fyrst og fremst um raflagnir fyrir Húsanes ehf. en samstarfið hafi þróast út í það að hann hafi útvegað félaginu menn þegar þá vantaði. Hafi ákærði verið mikið í Litháen og hafi menn þaðan sótt mikið í að fá vinnu hjá honum Kvað ákærði að það væri eftirsóknarvert fyrir þessa menn að koma til landsins því þeir taki inn árslaun í heimalandi sínu á tveimur mánuðum hér. Ákærði sagði aðspurður að ráðningarsamningur hafi verið gerður þegar mennirnir hafi fengið atvinnuleyfi en liggi það ekki fyrir hafi þeir fengið vinnu til að eiga fyrir farinu til baka og eins til að eiga fyrir mat. Þegar ákærða voru sýnd vegabréf þeirra níu manna sem handteknir voru að Kórsölum 5, Kópavogi tók hann til hliðar vegabréf Vaidotas Sarkauskas, Gintaras Marcius og Romas Sarkauskis og kvað þessa menn ekki hafa verið í vinnu. Aðspurður kvað hann hina sex hafa verið í vinnu að Kórsölum 5. Kvaðst hann ekki geta lagt fram nafnalista yfir þessa menn en sagði lögregluna hafa tekið þá alla og vera með vegabréf þeirra. Ákærði kvað þá ekki vera með atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi. Þeir hafi komið hingað á eigin vegum og hafi haft samband við ákærða. Að sögn ákærða séu þeir flestir frá litlu þorpi sem heiti Telsai. Þar þekki allir alla og þar hafi það spurst út að ákærði gæti útvegað mönnum vinnu hér á landi. Varðandi ráðningarkjör kvað ákærði þau vera frá 682 krónum upp í 1.200 krónur á tímann. Kvað ákærði mennina alla dvelja nú á gistiheimili við Ránargötu 10 og að hann hefði útvegað þeim þetta húsnæði. Sumir þeirra hefðu áður dvalið í húsnæði við Eiðsvík í Gufunesi en ákærði kvaðst vera með það húsnæði á leigu. Kvað hann aðbúnað mannanna vera þannig að þeir hafi aðgang að eldhúsi, í hverju herbergi sé rúm, fataskápur og vaskur og síðan hafi þeir aðgang að sameiginlegu baðherbergi. Ákærði kvað launauppgjöri hagað svo að mennirnir fengju borgað mánaðarlega og gefinn hafi verið út launaseðill. Á honum kæmi fram unnir tímar og útborguð laun. Ekki hefði komið fram fullt nafn launamannsins. Ákærði mundi ekki hvort nafn Eystrasaltsviðskipta ehf. kom fram á launaseðlum. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær hver og einn umræddra mann hafi komið til landsins. Þeir hafi allir verið verkamenn og hafi þeir unnið sem aðstoðarmenn við raflögn. Kvaðst ákærði hafa verið búinn að sækja um atvinnuleyfi fyrir fjóra af þessum níu mönnum og að hann hefði verið búinn að fá samþykki frá verkalýðsfélagi vegna þeirra og pappírarnir komnir í útlendingaeftirlitið. Umsóknir vegna tveggja annarra hafi verið í vinnslu en hinir hafi átt að fara til síns heima. Kemur og fram hjá ákærða við skýrslutökuna að hann hafi séð aumur á þessum útlendingum vegna bágra aðstæðna þeirra heima fyrir og hafi það oft ráðið miklu um að hann tæki þá í vinnu.

   Ákærði neitaði sök við skýrslutöku hér fyrir dómi og er framburður hans allur annar en lýst er hér að framan. Kvað ákærði að enginn þessara manna hefði verið í vinnu og að ekki hefði verið gerður neinn ráðningarsamningur við þá. Ákærði kvað þessa níu menn ekki vera á sínum vegum. Sumir þessara manna hafi komið til að kynna sér hvernig það væri að vinna á Íslandi og hefðu þeir ef til vill átt að koma til starfa seinna. Ákærði kannaðist ekki við að þessir menn hefðu verið að störfum að Kórsölum 5. Kvað hann þá hafa ætlað að sækja um atvinnuleyfi og hafi hann verið búinn að gera það fyrir þá. Þeir hafi verið staddir þarna til að kynna sér aðstæður. Þegar ákærði var spurður um það af hverju mennirnir hafi verið þarna staddir í vinnugöllum og hafi verið á leið í mat þegar þeir hafi verið handteknir, sagði ákærði að hann hefði ekki verið á staðnum og því geti hann ekki gefið skýringu á því. Kvaðst ákærði ekki trúa því að þessir menn hafi allir verið þarna. Ákærði kannaðist við að hann hefði komið á vettvang eftir að hringt hefði verið í hann, en neitaði því að hann hefði bent á þessa menn og sagt að þeir væru á hans vegum. Kvað ákærði sig aðeins hafa svarað því til að þessir menn væru ekki með atvinnuleyfi á Íslandi og að lögregla hefði aldrei spurt hann að því hvort þessir menn væru að vinna. Þegar ákærði var spurður um það hvaða hlutverki hann gengdi hjá Eystrasaltsviðskiptum ehf. kvaðst hann vinna hjá félaginu sem rafvirkjameistari. Ákærði kvaðst ekki vita hver væri framkvæmdastjóri félagsins. Ákærði neitaði því að hann væri í fyrirsvari fyrir félagið en gat ekki sagt hver stjórnaði því. Þegar ákærði var inntur eftir því hver gæfi honum fyrirmæli varðandi þau verk sem hann ætti að vinna fyrir félagið svaraði hann því til að hann væri rafvirkjameistari og sæi um allt er snéri að rafmagni og þyrfti ekki fyrirmæli frá neinum. Þegar spurt var hver segði honum frá verkefnum sem hann ætti að vinna í þágu félagsins kvað ákærði að þetta væru bara sömu verkefnin frá upphafi. Kvaðst ákærði hafa hafið störf hjá félaginu við stofnun þess og hafi hann fyrst um sinn verið framkvæmdastjóri en þegar reksturinn hafi komist á skrið hafi hann látið af þeim störfum. Einnig kom fram hjá ákærða að til hafi staðið að hann tæki við stjórn félagsins í upphafi árs en tilkynning þar að lútandi hefði aldrei verið send. Ákærði gat ekki gert grein fyrir því hver stjórnaði félaginu þrátt fyrir að vera þráspurður um það. Þegar ákærði var spurður um hverju sætti að framburður hans væri svo breyttur frá því að hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu gaf hann þær skýringar að um einhvern misskilning hefði verið að ræða og eins kvað hann að umræddir níu menn hefðu verið farnir á taugum vegna málsins og hann hafi viljað leysa það eins fljótt og hægt var. Benti ákærði á í þessu sambandi að í Litháen væri það alvarlegur hlutur að vera sviptur vegabréfi sínu og að litháarnir hafi verið mjög áhyggjufullir vegna þess að lögregla hafði lagt hald á vegabréf þeirra.

   Magnús Árnason starfar sem flokksstjóri hjá Húsanesi ehf. að Kórsölum 5 og var vitni að því þegar þeir níu menn sem tilgreindir eru í ákæruskjali voru handteknir. Kvað vitnið þessa menn hafa verið að störfum við bygginguna á vegum Eystrasaltsviðskipta ehf., en gat ekki fullyrt um það hvort þeir hefðu verið á launaskrá hjá félaginu. Kvað vitnið að hægt væri að orða það þannig að þessir menn hafi meira verið við störf til að athuga hvort þeir stæðu undir væntingum til að sækja um vinnu og hvort þeir kynnu það sem þeir sögðust kunna. Vitnið gat ekki borið um það hvað umræddir menn hefðu verið lengi að störfum við bygginguna.

   Vitnið Magnús Kristinsson, húsasmiður hjá Húsanesi ehf. vann við bygginguna að Kórsölum 5 og var viðstatt þegar handtakan fór fram. Kvað vitnið þá menn sem handteknir voru hafa verið að störfum við bygginguna en gat ekki sagt til um hversu lengi þeir hefðu starfað þar. Að sögn vitnisins höfðu mennirnir unnið almenna byggingavinnu og frekar sem aðstoðarmenn en að þeir hafi verið að vinna fagvinnu.

   Margeir Þorgeirsson byggingameistari og stjórnarformaður Húsaness ehf. bar vitni. Kvað vitnið að samskipti Húsaness ehf. og Eystrasaltsviðskipta ehf. hafi hafist í upphafi árs 2001 en þá hafi félagið komið að byggingunni sem rafmagnsverktaki. Hafi vitnið komið fram af hálfu Húsaness ehf. í samningum og samskiptum félaganna en ákærði af hálfu Eystrasaltsviðskipta ehf. Kvað vitnið að ákærði hefði sagt sér að hann væri fyrirsvarsmaður Eystrasaltsviðskipta ehf. og stjórnaði því félagi. Að sögn vitnisins hófst samstarfið með þeim hætti að ákærði sá um raflagnir í húsinu en þróaðist síðan út í það að ákærði hafi útvegað Húsanesi ehf. menn til starfa við ýmsa verkþætti þegar vantaði mannskap. Kvað vitnið að það hefði ekki fylgst sérstaklega með því hverjir það hafi verið sem störfuðu á vegum ákærða, en af hálfu Húsaness ehf. hafi verið greitt fyrir þjónustu þessarra manna samkvæmt reikningi hálfsmánaðarlega. Að sögn vitnisins hafi verið um að ræða íslenska og erlenda aðila og hafi það ekkert fylgst neitt sérstaklega með því.

   Vitnið Gitana Ziliuté er skráð stjórnarmaður í Eystrasaltsviðskiptum ehf. samkvæmt fyrirliggjandi vottorði úr Hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands. Kvaðst vitnið hafa verið framkvæmdastjóri í félaginu frá janúar 2001 til apríl 2001. Hafi hún undirritað tilkynningu þess efnis að hún léti af störfum hjá félaginu og hafi afhent ákærða og hafi hann tekið frumrit hennar og hafi hún talið að hann myndi koma tilkynningunni til skila. Að sögn vitnisins hafi það ekki starfað fyrir félagið frá apríl 2001.

   Gylfi Gylfason rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn sem vitni. Kvaðst vitnið hafa farið á vettvang að Kórsölum 5, Kópavogi ásamt vitnunum Halli og Þóri. Kvað vitnið að þeir hafi komið á vettvang um hádegisbil og hafi menn þá verið að tínast inn úr nýbyggingunni inn í kaffiskúr og hafi verið að búa sig undir að fara að snæða hádegisverð. Þegar vitnið hafi komið inn í skúrinn hafi þar verið tveir íslendingar og nokkrir erlendir menn. Kvað vitnið að Magnús Kristinsson smiður hjá Húsanesi ehf. hafi verið á staðnum og hafi hann upplýst um að þessir erlendu menn væru þarna á vegum Eystrasaltsviðskipta ehf. Hafi Magnús síðan hringt í ákærða og hafi hann komið á staðinn skömmu síðar. Kvað vitnið ákærða hafa bent á níu erlenda menn og kveðið þá vera á sínum vegum. Hafi þessir menn verið handteknir vegna gruns um að þeir störfuðu hér án atvinnu- og dvalarleyfa og færðir á lögreglustöð til skýrslutöku. Komið hafi í ljós að menn þessir hafi allir verið litháískir ríkisborgarar. Áður en mennirnir hafi verið færðir á lögreglustöð þá hafi þeim að eigin ósk verið fylgt niður í kjallara nýbyggingarinnar þar sem þeir hafi farið úr vinnugöllum og í yfirhafnir sínar sem þar hafi verið geymdar. Vitnið kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða við rannsókn málsins og við þá skýrslutöku hafi ákærði sagst vera fyrirsvarsmaður og stjórnandi Eystrasaltsviðskipta ehf. Kvað vitnið að ákærði hefði verið spurður hvers vegna vottorð hlutafélagaskrár tilgreindi Gitana Ziliuté sem stjórnarmann félagsins og hafi ákærði þá sagt að hún hafi látið af því starfi í apríl 2001 og þá hafi ákærði tekið við því hlutverki og væri þetta skráð í bækur félagsins. Kvað vitnið að ákærði hefði fengið að skoða vegabréf þeirra níu manna sem handteknir höfðu verið og hafi ákærði viðurkennt við skýrslutökuna að sex þessarra manna hefðu verið við störf á vegum Eystrasaltsviðskipta ehf. þegar handtaka fór fram. Ákærði hafi tekið til hliðar vegabréf þriggja manna og sagt að þeir hefðu ekki verið í vinnu. Vitnið kvaðst einnig hafa yfirheyrt Magnús Árnason og hafi honum með sama hætti verið sýnd vegnabréf þeirra manna sem handteknir voru til að hann gæti tengt saman nöfn og andlit þar sem vitnið hafi ekki þekkt mennina með fullu nafni.

   Í vitnisburði Halls Gunnars Erlingssonar rannsóknarlögreglumanns kom fram að hann hefði verið á vettvangi þegar hinir níu litháísku ríkisborgarar voru handteknir. Segist vitninu frá með sama hætti og vitninu Gylfa um atburði á vettvangi. Kvaðst vitnið einnig hafa farið á vettvang daginn áður en handtakan átti sér stað og hafi það gengið um nýbygginguna og reynt að tala þar við menn, en gengið illa, þar sem útlendingarnir hafi átt erfitt með að tjá sig, þannig að hann skildi. Að sögn vitnisins geti það ekki fullyrt að það hafi við þetta tækifæri séð alla þá menn sem handteknir voru en var nokkuð visst um að einhverjir þeirra sem hann sá við vinnu daginn áður voru í hópi þeirra sem handteknir voru. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt skýrslutöku af ákærða fyrir lögreglu og staðfesti að ákærði hefði sagst vera stjórnandi Eystrasaltsviðskipta ehf. og að hann hefði viðurkennt að flestir þessara manna hafi verið í vinnu hjá því félagi. Kvaðst vitnið muna eftir að ákærði hafi undanskilið þrjá þeirra sem handteknir voru og sagt þá ekki vera í vinnu heldur til reynslu.

II.

   Vörn ákærða hér fyrir dómi hefur meðal annars byggst á því að taka hefði þurft skýrslur fyrir dómi af þeim mönnum sem ákæruvaldið telur að hafi verið hér að störfum á vegum ákærða. Dómurinn fellst á það með ákærða að saksókn í máli þessu er áfátt um þetta atriði. Þrátt fyrir það að ákæruvaldið tæki þá ákvörðun að ákæra ekki menn þessa og að útlendingaeftirlitið byði þeim að fara af landi brott svo ekki kæmi til brottvísunar, hefði ákæruvaldinu verið kleift að neyta heimildar c. liðar 74. gr. a í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til að leita eftir heimild dómara til að kalla menn þessa fyrir dóm til skýrslugjafar. Þar sem þetta var ekki gert verður við úrlausn máls þessa horft fram hjá skýrslum þeim sem menn þessir gáfu fyrir lögreglu þar sem ákærða hefur ekki gefist færi á að láta gagnspyrja þá, eins og hann á skýlausan rétt til.

   Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst ákærði vera fyrirsvarsmaður Eystrasaltsviðskipta og jafnframt eigandi félagsins. Hér fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum að þessu leyti og kvaðst nú aðeins vinna sem rafvirkjameistari hjá félaginu en kvaðst þó stjórna öllu er lyti að rafmagni. Ákærði gat ekki sagt hver væri þá stjórnandi félagsins, eða frá hverjum hann tæki við fyrirmælum varðandi þau verkefni sem hann ynni fyrir félagið. Vitnið Gitana sem skráð er stjórnarmaður í félaginu í hlutafélagaskrá kvaðst hafa látið af störfum hjá félaginu í apríl 2001 og jafnframt að ákærði hafi veitt viðtöku tilkynningu þess efnis og að vitnið hafi talið að hann kæmi tilkynningunni til skila. Ákærði bar sjálfur fyrir dóminum að rætt hefði verið um það að hann tæki við þessu hlutverki innan félagsins en kvað aldrei hafa orðið af því. Vitnið Margeir, fyrirsvarsmaður Húsaness ehf., kvað ákærða hafa tjáð sér að hann væri í fyrirsvari fyrir Eystrasaltsviðskipti ehf. og hafi ákærði komið fram fyrir hönd Eystrasaltsviðskipta í samskiptum við Húsanes ehf. Að sögn vitnisins fólust samskipti félaganna í fyrstunni í að ákærði hafi séð um raflagnir að Kórsölum 5 en á síðari stigum hafi ákærði útvegað menn til starfa fyrir Húsanes ehf. við ýmsa verkþætti. Þegar horft er til þess sem að framan er rakið varðandi framburð vitna um stöðu ákærða innan Eystrasaltsviðskipta ehf. og eins þess að skýringar ákærða á breyttum framburði sínum hér fyrir dómi verða að teljast ótrúverðugar, er það mat dómsins að komin sé fram fullnægjandi sönnun þess að ákærði hafi varðandi þá erlendu menn sem taldir eru upp í ákæruskjali komið fram sem fyrirsvarsmaður Eystrasaltsviðskipta ehf. og verði honum gerð refsiábyrgð vegna þessa að öðrum skilyrðum uppfylltum.

   Að mati dómsins er það ótvírætt að þeir níu menn sem nafngreindir eru í ákæruskjali eru litháískir ríkisborgarar og að enginn þeirra hefur atvinnuréttindi á Íslandi. Má ráða þetta af gögnum málsins, framburði ákærða sjálfs hér fyrir dómi og eins af vegabréfum þessarra manna, en afrit þeirra hafa verið lögð fyrir dóminn. Þegar virtir eru framburðir þeirra lögreglumanna sem stóðu að handtöku þessarra manna verður að telja fram komið að þegar þeir voru handteknir voru þeir að störfum við Kórsali 5, Kópavogi. Báru lögreglumenn um það að mennirnir hefðu allir verið í vinnufötum og hafi þeir, áður en haldið var á lögreglustöð, fengið heimild til að fara úr vinnufötunum og í önnur föt sem þeir hafi geymt í nýbyggingunni. Einnig verður að horfa til framburðar þeirra starfsmanna Húsaness ehf. sem viðstaddir voru handtöku mannanna. En samkvæmt þeim framburði voru þessir menn að störfum við bygginguna og höfðu verið um einhvern tíma, þó vitnin gætu ekki fullyrt um það hversu lengi þeir hefðu starfað. Skiptir hér ekki máli þó vitnið Magnús Árnason hafi borið það að þessir menn hafi ekki verið í vinnu heldur til reynslu, svo unnt væri að sannreyna hvað þeir kynnu fyrir sér. Ekki verður séð að heimilt sé samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að komast fram hjá skyldu til þess að afla erlendum mönnum atvinnuleyfis, með þeim hætti sem vitnið vísar hér til. Verður því á því byggt að menn þessir hafi verið við störf. Kemur enda fram í 4. gr. laganna að óheimilt sé að ráða útlendinga til vinnu, hvort heldur sé um langan eða skamman tíma, án þess að þeir hafi áður aflað sér tilskilinna leyfa. Er það mat dómsins þegar gögn málsins eru virt og framburður vitna og þá sérstaklega það sem rakið var hér síðast að þeir níu litháísku ríkisborgarar sem handteknir voru að Kórsölum 5, Kópavogi þann 7. nóvember 2001 hafi verið þar ráðnir til starfa í skilningi 4. gr. laga nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga. Í ljósi þessa er það og mat dómsins að ákærði hafi sem fyrirsvarsmaður Eystrasaltsviðskipta ehf. staðið að ráðningu þessarra manna og hafi hann með háttsemi sinni gerst brotlegur við 4. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og beri því að refsa honum fyrir þá háttsemi, sbr. 15. gr. sömu laga.

   Ekki verður fullyrt hversu lengi þessir menn höfðu verið að störfum á vegum ákærða og virðist ekki hafa verið gerð alvarleg tilraun af hálfu ákæruvaldsins til að sýna fram á það. Einnig hefur rannsókn málsins verið ábótavant varðandi það hvað mönnum þessum var greitt í laun og hvernig tryggingamálum þeirra var háttað. Ennfremur er ekkert upplýst um hvort og hvernig laun þessarra manna voru gefin upp gagnvart skattyfirvöldum. Einnig hefur ekkert komið fram um það hvort ákærði hafi haft fleiri menn í vinnu, sem hafi haft tilskilin leyfi, eins og hann hefur raunar haldið fram. Rannsókn málsins verður einnig að telja ábótavant varðandi atvik að baki komu manna þessarra til landsins. Kom með óbeinum hætti fram við meðferð málsins að þessir erlendu menn hafi búið í húsnæði sem hafi verið á vegum Eystrasaltsviðskipta ehf. Ekki virðist hafa farið fram rannsókn á þessum þætti málsins. Ekki verður fram hjá því horft að ekki er útilokað að málið hefði verið mun betur upplýst að þessu leyti ef teknar hefðu verið skýrslur af þessum mönnum fyrir dómi.

   Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum á tímabilinu frá árinu 1975 til dagsins í dag verið gert að greiða sekt tólf sinnum fyrir brot á refsilögum og skiptir það ekki máli um refsiákvörðun í þessu máli.

   Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 300.000,- króna sekt og hefur þá verið höfð hliðsjón af því að vankantar voru á rannsókn máls þessa og þeirri staðreynd, að ekki hefur verið upplýst hversu lengi viðkomandi menn voru við störf. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði sæta 34 daga fangelsi.

   Í ljósi þessarrar niðurstöðu ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað og eru þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jóns Einars Jakabssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur og er þá tekið tillit til starfa verjanda vegna málsins á rannsóknarstigi.

   Málið sótti fyrir ákæruvaldið Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi.

   Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, greiði 300.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella 34 daga fangelsi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar hdl. 250.000 krxt-indent:1.0cm;line-height: 150%'>