Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2004
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2005. |
|
Nr. 320/2004. |
Síldarvinnslan hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Þorkeli Arnarssyni (Gunnar Sæmundsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.
Þ, sem starfaði sem vélstjóri á fiskiskipinu B, sem S hf. átti og gerði út, var sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti 31. október 2002, en skipið hafði verið selt úr landi í september sama árs. Eftir að skipinu var siglt utan 18. september fór Þ í frí, en tók í fyrri hluta október við starfi vélstjóra í afleysingum á öðru skipi S hf. þar sem hann starfaði til áramóta. Ekki var farið fram á vinnuframlag Þ frá áramótum til loka uppsagnarfrests 31. janúar 2003. Þ taldi laun sín frá því að síðustu veiðiferð B lauk til loka uppsagnarfrests eiga að miða við meðallaun hans á skipinu á tímabilinu frá 1. janúar 2002 til síðustu veiðiferðar þess. Talið var að 22. gr. sjómannalaga ætti ekki við um lögskipti aðila þar sem Þ hafi ekki nýtt rétt sinn til að rifta samningi aðila þegar B var selt úr landi. Væri ósönnuð sú staðhæfing að Þ hafi verið lofað skiprúmi á því skipi sem kom í stað B. Fyrir störf sem vélstjóri í afleysingum á skipi S hf. hafi Þ tekið hlut af afla viðkomandi skips, en fyrir janúarmánuð 2003 hafi hann fengið greitt með sama hætti og hefði hann átt rétt á aflahlut sem vélstjóri á skipinu sem kom í stað B. Var fallist á að framangreint launauppgjör væri í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning, sem Þ tók laun eftir. Hafi S hf. því gert upp við Þ með fullnægjandi hætti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi var vélstjóri á fiskiskipinu Barða NK 120, sem áfrýjandi átti og gerði út. Síðasta veiðiferð skipsins var farin í ágúst 2002 áður en það var afhent nýjum eiganda í Namibíu. Lauk henni 3. september 2002 og var skipið tekið af íslenskri skipaskrá 10. sama mánaðar. Vann stefndi um borð við að undirbúa skipið í hendur kaupanda þar til því var siglt utan 18. september.
Áfrýjandi keypti annað fiskiskip í stað Barða, sem kom til landsins 10. október 2002. Fékk það sama nafn og eldra skipið. Kveður áfrýjandi íslenskan vélstjóra hafa starfað á þessu skipi allt frá því að það var tekið í notkun 1989 og einnig meðan erlendur útgerðarmaður átti skipið og gerði það út. Hafi stefnda og öðrum skipverjum verið ljóst að þessi vélstjóri yrði áfram á nýja skipinu og því yrði einn vélstjóranna á hinu eldra að víkja og yrði ekki ráðinn á nýja skipið. Hafi það orðið hlutskipti stefnda, enda hafi hann verið yngstur vélstjóranna. Eftir að stefndi lauk störfum í Barða fór hann í frí, en tók síðan við starfi vélstjóra í afleysingum á öðru skipi áfrýjanda, Beiti NK 123 í fyrri hluta október 2002. Var hann á skipinu til áramóta þegar fastráðinn vélstjóri kom aftur til starfa. Áfrýjandi sagði upp ráðningarsamningi stefnda 31. október 2002 með þriggja mánaða uppsagnarfresti og lauk ráðningarsambandi aðilanna 31. janúar 2003. Ekki var farið fram á vinnuframlag stefnda frá áramótum til loka uppsagnarfests.
Í málinu krefst stefndi launa á biðtíma eftir að síðustu veiðiferð Barða lauk til þess dags, sem honum var sagt upp, auk launa á þriggja mánaða uppsagnarfesti til 31. janúar 2003. Kveðst hann krefjast efndabóta samkvæmt 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 fyrir allt tímabilið, sem felist í mismun á þegar greiddum launum fyrir þennan tíma og meðallaunum hans á Barða á tímabilinu 1. janúar til 5. september 2002. Málavextir og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga á skipverji rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip missir rétt til að sigla undir íslenskum fána nema um annað hafi verið sérstaklega samið. Um greiðslu á kaupi fer þá samkvæmt því, sem segir í 25. gr. laganna. Vísar stefndi í fyrrnefndu lagagreinina til stuðnings kröfu sinni og heldur fram að ekki hafi verið um annað samið. Þá hafi hann sem yfirmaður notið þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 9. gr. sjómannalaga.
Áfrýjandi kveðst hafa reynt að finna stefnda skiprúm á öðru skipi. Allar stöður hafi hins vegar verið mannaðar og því einungis um að ræða störf í afleysingum. Þegar ljóst var að ekki yrði unnt að tryggja stefnda fast skiprúm hafi honum verið sagt upp.
Stefndi nýtti ekki rétt sinn samkvæmt 22. gr. sjómannalaga til að rifta samningi aðila þegar skipið, sem hann starfaði á, var selt úr landi. Þess í stað fór hann til starfa á öðru skipi áfrýjanda og samþykkti þannig í verki breytingu á ráðningarsamningi sínum. Er fram komið að hann hafi haft vilja til að starfa áfram í þágu áfrýjanda þrátt fyrir að hafa misst skiprúm sitt á Barða. Er ósönnuð sú staðhæfing hans að honum hafi verið lofað skiprúmi á hinu nýja skipi áfrýjanda. Að svo komnu á 22. gr. sjómannalaga ekki við um lögskipti aðilanna og var áfrýjanda heimilt að segja upp ráðningarsamningi stefnda. Liggur ekki annað fyrir en að launauppgjör við hann hafi verið í samræmi við ráðningarsamninginn og kjarasamning, sem hann tók laun eftir. Fyrir störf um borð í Beiti tók hann hlut af afla skipsins, en fyrir janúarmánuð 2003 var stefnda greitt með sama hætti og hefði hann átt rétt á aflahlut sem vélstjóri á hinu nýja skipi, Barða. Þau laun voru hærri en launin fyrir jafnlangan tíma á Beiti og verður fallist á með áfrýjanda að hann hafi gert upp við stefnda með fullnægjandi hætti.
Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Síldarvinnslan hf., er sýkn af kröfu stefnda, Þorkels Arnarssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 6. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. mars sl., var höfðað 8. júlí 2003.
Stefnandi er Þorkell Arnarsson, kt. 190564-4959, Reyrengi 3, Reykjavík.
Stefndi er Síldarvinnslan hf., kt. 570269-7479, Hafnarbraut 6, Neskaupstað.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.643.413 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 1.417.989 frá 15.11.2002 til 15.02.2003 og af kr. 2.643.413 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst stefnandi þess að stefnukrafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
I.
Stefnandi var 2. vélstjóri og 1. vélstjóri í afleysingum um nokkurra ára skeið á Barða NK-120, skipaskrárnúmer 1536, 508 brúttórúmlesta frystitogara í eigu og útgerð stefnda. Vinnutilhögun um borð var með þeim hætti að stefnandi vann um borð tvær veiðiferðir og var eina veiðiferð í landi. Hver veiðiferð var um einn mánuður.
Stefnandi kveður umræður um mögulega sölu á Barða hafa verið á kreiki um tveggja ára skeið og hafi stefnanda grunað að hver veiðiferð gætið orðið sú síðasta. Í veiðiferð skipsins í ágúst 2002 hafi yfirvélstjórinn svo tjáð honum að skipið hefði verið selt til útlanda og veiðiferðin yrði sú síðasta.
Þann 3. september 2002 var skipinu lagt við bryggju og byrjað að undirbúa það fyrir sölu. Hinn 10. sama mánaðar var skipið tekið af skipaskrá. Hinn 18. september 2002 var skipinu siglt af stað til nýrrar heimahafnar í Namibíu en stefnandi hafði starfað um borð í skipinu við að gera það tilbúið til afhendingar.
Stefndi festi kaup á nýju skipi í stað Barða NK-120 sem fékk sama nafn en skipaskrárnúmerið 1976. Kveður stefndi Vigni Lúðvíksson vélstjóra hafa fylgt skipinu og hafi stefnanda og öðrum vélstjórum á gamla Barða verið það ljóst frá upphafi. Vegna þessa hafi ekki verið pláss um borð fyrir stefnanda.
Stefnandi kveðst hins vegar hafa verið þess fullviss að hann fengi starf á nýja skipinu enda hafi yfirvélstjóri gamla Barða gefið honum loforð þar að lútandi byggt á upplýsingum frá Freysteini Bjarnasyni framkvæmdastjóra stefnda. Hann hafi því ekki rift ráðningu sinni eins og hann átti kost á samkvæmt 22. sjómannalaga heldur ákveðið að hinkra við.
Stefndi kveður ástæðu þess að stefnanda var ekki sagt upp störfum þegar Barði eldri var afhentur nýjum eigendum vera þá að stefnandi hafi óskað eftir að honum yrði fundið nýtt starf á öðru skipi stefnda. Stefnandi hafi því hinn 18. september, þegar skipinu var siglt af stað til nýrrar heimahafnar, að eigin ósk farið í frí en komið hafi verið að fríi hjá honum. Reynt hafi verið að finna stefnanda pláss á öðrum skipum stefnda en án árangurs. Einungis hafi fundist fyrir hann afleysingapláss vegna fæðingarorlofs vélstjóra á Beiti NK-123 og hafi stefnandi farið til starfa á því skipi eftir að hann kom úr fríinu um miðjan október.
Hinn 31. október 2002 var stefnanda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. nóvember s.á. Skömmu síðar eða hinn 11. nóvember 2002 landaði nýi Barði fyrsta afla sínum á Neskaupstað. Stefnandi var áfram við störf á Beiti eftir að honum var sagt upp og starfaði þar fyrstu tvo mánuði uppsagnarfrestsins, þ.e. nóvember og desember 2002. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda síðasta mánuð uppsagnarfrestsins eða í janúar 2003 og voru stefnanda greidd laun sem svöruðu til aflahlutar 2. vélstjóra á nýja Barða fyrir þann mánuð.
Með bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 10. febrúar 2003 var þess krafist að stefndi greiði stefnanda laun á biðtímanum þ.e. frá 18. september 2002 er Barði eldri var afhentur nýjum eigendum og til þess tíma að stefnanda var sagt upp störfum 1. nóvember 2002 og laun í uppsagnarfresti í nóvember og desember 2002 og í janúar 2003. Var krafan um efndabætur samkvæmt 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 fyrir allt tímabilið: mismun á þegar greiddum launum í biðtíma og uppsagnarfresti og meðallaunum stefnanda á Barða eldri tímabilið 1. janúar til 5. september 2002.
II.
Stefnandi byggir á að þegar hann hafi ráðið sig sem vélstjóra á Barða hafi verið ljóst að skipinu yrði haldið úti til fiskveiða og hafi það verið forsenda af hans hálfu að svo yrði gert. Þá sé ljóst að hann hafi notið þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga enda yfirmaður í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna.
Stefnandi hafi ekki rift ráðningu sinni á Barða eins og honum hafi verið heimilt samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga. Hefði hann rift ráðningunni hefði hann eignast bótarétt miðað við 3ja mánaða meðallaun, sbr. 25. gr. laganna. Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 187/2001: Útgerðarfélag Akureyringa hf. gegn Bergi Bergssyni. Ákvörðun hans um að rifta ekki ráðningunni hafi byggst á því að hann hafi haft vilyrði fyrir áframhaldandi vélstjórastarfi á nýja Barða. Þá sýni það að stefndi hafi ekki sagt stefnanda upp skipsrúmssamningi fyrr en 1. nóvember 2002 að stefndi hafi haft stefnanda í huga hvað framtíðaráform snerti. Þar sem stefndi hafi ekki sagt stefnanda upp með lögboðnum 3ja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga, hafi stefndi orðið skuldbundinn til að greiða stefnanda laun á biðtíma hans frá 4. september til 31.10.2002, þ.e. frá þeim tíma sem stefndi hætti útgerð Barða eldri og þar til stefnanda var sagt upp störfum, sbr. 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga. Einungis verði því deilt um útreikning launa stefnanda á tímabilinu. Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 197/2001: Engilbert Ómar Steinsson gegn Bergi-Huginn ehf.
Þá byggir stefnandi á að uppsögn á skipsrúmssamningi stefnanda þann 1. nóvember 2002 með þriggja mánaða fyrirvara sé ákvöð er skuldbindi stefnda til að greiða stefnanda laun frá 1. nóvember 2002 til 31. janúar 2003. Vísar stefnandi til Hrd. 1990:1276.
Byggir stefnandi á að hann eigi rétt til launa úr hendi stefnda tímabilið 4. september 2002 til 31. janúar 2003 og að laun hans á tímabilinu eigi að miðast við meðaltals tekjur sem hann hafði sem vélstjóri á Barða eldri. Vísar stefnandi til Hrd. nr. 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. og að fordæmisgildi þess dóms hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 214/2001: Gísli Ingólfsson gegn Bergi-Hugin ehf. Þá vísar stefnandi einnig til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 319/2002: Sjólaskip hf. gegn Hans Schröder en í þeim dómi sé lagt að jöfnu að endanlega sé hætt að gera út skip til fiskveiða og því að skipi sé breytt í flutningaskip. Þá taki Hæstiréttur af allan vafa um að ákvæði kjarasamninga geymi engar reglur um launarétt sjómanna að þessu leyti.
Byggir stefnandi á að með hliðsjón af framanröktu megi telja ljóst að hann eigi rétt til meðallauna samkvæmt 27. gr. sjómannalaga frá því að Barði eldri hætti veiðum og þar til ráðningu hans lauk að undangenginni uppsögn 31. janúar 2003. Einungis geti verið um að ræða ágreining um útreikning launa stefnanda í biðtíma og uppsagnarfresti.
Stefnandi byggir á að sjómannalög séu túlkuð á þann veg að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skipsrúm nema um annað sé sérstaklega samið. Telji stefndi að stefnandi hafi verið ráðinn á öll skip stefnda eða til útgerðarinnar sem slíkrar beri hann sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu enda beri honum að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi, skipsrúmssamningi, sbr. áskilnað 6. gr. sjómannalaga, sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 294/2000: Úlfar Hauksson gegn Samherja hf.
Þar sem ráðning stefnanda hafi verið bundin við Barða eldri liggi beinast við að miða laun hans í biðtíma og í uppsagnarfresti við meðallaun hans á skipinu áður en það var selt. Engu breyti um þá niðurstöðu að stefnandi hafi farið stöku veiðiferð á öðrum skipum stefnda enda dragist þær tekjur sem hann hafði þannig frá meðallaunarétti hans, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 189/2001: Útgerðarfélag Akureyringa hf. gegn Reyni Sigurðssyni.
Fyrst beri til þess að líta að þó að stefnanda hafi ekki borið að draga úr tjóni stefnda með því að vinna á öðrum skipum en því sem hann var beinlínis ráðinn á, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 294/2000 þá taldi stefnandi lengstum að stefndi myndi gera við hann nýjan skipsrúmsamning um vélstjórnarstörf á nýja Barða. Að öðrum kosti hefði hann slitið ráðningu sinni á Barða eldri við afhendingu skipsins til hinna nýju eigenda með heimild í 22. gr. sjómannalaga. Hefði hann valið að fara þá leið hefðu þau laun sem hann hefði aflað sér annars staðar frá fyrstu þrjá mánuðina eftir riftunina ekki verið dregin frá meðalbótum sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 197/2001: Engilbert Ómar Steinsson gegn Bergi-Hugin ehf.
Hæstiréttur hafi ekki slegið því föstu við hversu langt tímabil eigi að miða þegar meðalbætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga eða efndabætur samkvæmt 27. gr. lagannar séu reiknaðar. Telja verði að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 319/2002: Sjólaskip hf. gegn Hans Schröder, hafi besta fordæmisgildið en í þeim dómi sé miðað við það tímabil sem sjómaðurinn var fastráðinn hjá útgerðinni. Þá séu efndabætur reiknaðar út frá lögskráningardögum sjómannsins.
Í máli þessu sé miðað við laun stefnanda frá 3. janúar 2002 til 3. september s.á. Um sé að ræða tímabil sem sé rúmum mánuði lengra en Hæstiréttur miðaði við í máli nr. 319/2002. Heildarlaun stefnanda á tímabilinu hafi numið 4.915.240 krónum. Lögskráningardagar stefnanda á tímabilinu hafi verið samtals 156. Meðallaun stefnanda samkvæmt því nemi 31.508 krónum á dag.
Biðtími stefnanda hafi varað frá 4. september 2002 til 31. október s.á. eða í 58 daga. Laun stefnanda á biðtímanum hafi því átt að nema 58 x 31.508 krónum eða 1.827.464 krónum. Stefnandi hafi fengið greitt á þessu tímabili frá stefnda 489.739 krónur. Vangreitt því 1.337.725 krónur. Við þá fjárhæð bætist 6% glötuð lífeyrisréttindi eða 80.264 krónur eða samtals krafa vegna tímabilsins 1.417.989. Kröfu um glötuð lífeyrisréttindi byggir stefnandi á því að Hæstiréttur hafi ítrekað bætt glötuðum lífeyrisréttindum ofan á vangreidd laun, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 284/1999: Hraðfrystihúsið hf. gegn Gylfa Sigurðssyni.
Vangreidd laun stefnanda vegna september og október 2002 hafi átt að koma til greiðslu í síðasta lagi 15. nóvember 2002, sbr. ákvæði í 2. mgr. greinar 1.18. í kjarasamningi á milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.
Heildarkröfur stefnanda vegna tímabilsins 4. september 2002 til 31. október s.á nemi 1.417.989 og beri sú fjárhæð dráttarvexti frá 15. nóvember 2002.
Stefnandi hafi fengið greidd laun að fjárhæð 1.527.032 krónur tímabilið 1. nóvember 2002 til 31. janúar 2003. Meðallaun á dag hafi átt að nema 31.508 krónum eða samtals 2.835.720 krónum á þessu 90 daga tímabili. Mismunurinn nemi 1.308.688 krónum en að viðbættum 6% glötuðum lífeyrisréttindum 78.521 krónum nemi þessi fjárhæð 1.387.209 krónum. Heildarkröfur stefnanda nemi því 2.805.198 krónum og beri sú fjárhæð dráttarvexti frá 15. febrúar 2003 en þann dag voru liðnir 15 dagar frá lokum síðasta kauptryggingartímabilsins sem stefnandi var við störf hjá stefnda. Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi dómkröfu sína um 161.785 krónur vegna launa sem stefnandi hafði fengið greidd fyrir tímabilið 24.01.03 til 30.01.01.03.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi á ráðningartíma sínum fengið greitt kaup í samræmi við 27. gr. sjómannalaga nr. 34/1985 og kjarasamning vélstjóra á fiskiskipum. Kunni stefnandi að hafa átt einhvern frekari rétt hafi hann glatað honum vegna aðgerðarleysis.
Stefndi mótmælir sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum um að stefnanda hafi verið lofað plássi á Barða nýrri. Vélstjórum á Barða hafi verið frá upphafi ljóst að Vignir Lúðvíksson vélstjóri myndi fylgja skipinu við yfirtöku þess. Fyrir hafi jafnframt legið að einn vélstjóranna yrði að víkja og hafi það komið í hlut stefnanda. Stefnandi hafi haft huga á áframhaldandi starfi hjá stefnda en tilvísun hans til 22. gr. sjómannalaga og dóms Hæstaréttar nr. 187/2001 ásamt útlistun á því hvers vegna hann hafi ekki nýtt sér heimildir greinarinnar til að krefjast lausnar úr starfi séu staðfesting á því. Reynt hafi verið að koma á móts við stefnanda þar að lútandi en ekki hafi legið fyrir á hvaða skipi eða skipum stefnda það gæti orðið. Stefnandi hafi því í raun talið sig vera í starfi hjá útgerðinni en ekki á ákveðnu skipti. Að öðrum kosti hefði honum borið að gera athugasemdir við að vera færður á annað skip.
Stefndi mótmælir launakröfum stefnanda og útreikningi þeirra sem röngum. Stefndi hafi tekið sér frí um miðjan september 2002 eftir að Barði eldri hafði verið afhentur nýjum eigendum, enda hafi þá verið komið að fríi hans samkvæmt vinnumynstri vélstjóranna. Að frí afloknu hafi stefnandi farið um borð í Beiti og verið þar til áramóta er einn af föstum vélstjórum skipsins kom úr fæðingarorlofi. Síðasta mánuð uppsagnarfrestsins hafi stefnandi fengið greidd laun sem svöruðu til aflahlutar 2. vélstjóra á Barða nýrri án þess að krafa væri gerð um vinnu af hans hendi. Hafi það verið gert með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 326/2000 og telur stefndi sig með því hafa uppfyllt greiðsluskyldur sínar við stefnanda samkvæmt 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Ákvæði um lengd uppsagnarfrests séu í 9. gr. sjómannalaga. Í 27. og 28. gr. séu ákvæði um kaupgreiðslur á ráðningartímanum og útreikning kaups. Telur stefndi sig hafa í einu og öllu farið að framangreindum reglum og gert upp við stefnanda laun í uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjarasamnings.
Í dómi Hæstaréttar 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000 Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. hafi verið dæmd meðallaun miðað við ráðningardaga. Að því leyti sé það mál fordæmisgefandi. Í máli nr. 326/2000 hafi vélstjóra verið sagt upp þegar skipinu sem hann var á hafi verið lagt og kvóti skipsins fluttur á annað skip. Við útreikning meðallauna í dómi Hæstaréttar hafi reiknuð meðallaun/meðaltekjur miðað við ráðningardaga en ekki lögskráningardaga eins og gert sé í þessu máli. Geti þar verið verulegur munur á eins og nánar verður vikið að í varakröfu.
Stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum 31. október 2002 með þriggja mánaða fyrirvara og greitt honum kaup til starfsloka 31. janúar 2003. Telur stefndi því að hann hafi uppfyllt skyldur sínar við stefnanda samkvæmt kjarasamningi og 9. og 27. gr. sjómannalaga. Þá hafi stefnandi engar kröfur gert fyrr en eftir að hann lét af störfum hjá stefnda og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna tómlætis.
Varakröfu sína byggir stefndi á reikna beri meðallaun/meðaltekjur miðað við ráðningardaga en ekki laun/tekjur miðað við lögskráningardaga. Mótmælir stefndi þeim fullyrðingum í stefnu að útreikningur meðallauna skuli vera á þann veg að reikna beri laun fyrir liðinn tíma miðað við lögskráningardaga og dagkaup á lögskráningardag skuli margfaldað með 90 til að finna út meðallaun fyrir 3 mánuði samkvæmt 27. og 28. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Verði talið að stefnandi geti átt rétt til frekari greiðslna úr hendi stefnda skv. 27. gr. sjómannalaga byggir stefndi á því að væntingar stefnanda hafi verið þær að fá starf á nýja Barða og hafi væntingar um tekjur því verið í samræmi við það.
Með tilvísun til stefnu um að brugðist hafi væntingar stefnanda um að hann fengi vélstjórastöðu á nýja Barða gerir stefndi með tilvísun til framangreindra Hæstaréttardóma kröfu um að stefnda verði einungis gert að greiða stefnanda kr. 354.592 sem sé mismunur á tekjum stefnanda í uppsagnarfresti kr. 1.688.817 og tekjum Jóns Stefánssonar vélstjóra kr. 2.043.409, sem var ásamt stefnanda á Barða eldri og fluttist yfir á nýja Barða. Væri sú niðurstað í samræmi við að væntingar stefnanda hefðu ræst.
Verði ekki fallist á framangreint og talið að stefnandi eigi rétt á viðbótargreiðslu fyrir allt tímabilið frá því Barði eldri hætti veiðum og var seldur og til ráðningarloka gerir stefndi kröfu um að honum verði ekki gert að greiða stefnanda hærri fjárhæð en sem nemi kr. 586.267 sem eru meðalmánaðartekjur stefnanda á tímabilinu 3. janúar 2002 til 3. september s.á. (4.915.240/ 8 mán) eða 614.405 x 4,5 mán eða samtals kr. 2.764.823 að frádregnum launagreiðslum á tímabilinu sem námu kr. 2.278.556.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda enda hafi hann ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á hvernig hann hafi eignast kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna að þessu leyti. Þá kveði 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga aðeins á um rétt til kaups til þess dags er ráðningu lýkur en ekki er kveðið á um að við kaup skuli bæta framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
Stefndi gerir kröfu um að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá 10. mars 2003, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 319/2002.
III.
Stefnandi var vélstjóri á frystitogaranum Barða NK-120, skipaskrárnúmer 1536. Var vinnutilhögun stefnanda þannig að hann vann tvær veiðiferðir og var eina í landi.
Í sjómannalögunum er út frá því gengið að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skipsrúm. Stefndi gerði ekki skriflegan ráðningarsamning við stefnanda svo sem útgerðarmanni er skylt samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ber stefndi því sönnunarbyrgði fyrir því að um það hafi verið samið að stefnandi gegndi afleysingastörfum á skipum útgerðarinnar en honum hefur ekki tekist slík sönnun. Verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið ráðinn í skipsrúm á Barða NK-120, skipaskrárnúmer 1536, þ.e. Barða eldri.
Í sjómannalögum er ekki að finna ákvæði sem takmarkar rétt sjómanna til að krefjast launa við ákveðinn tíma. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi með nokkrum hætti afsalað sér tilkalli til launa þeirra sem hann krefur stefnda um í máli þessu. Verður því ekki fallist á að stefnandi hafi glatað rétti til að hafa launakröfuna uppi vegna aðgerðarleysis.
Stefndi hætti útgerð Barða 4. september 2002, vegna sölu skipsins og var skipið tekið af skipaskrá þann 10. s.m. Stefndi nýtti sér ekki rétt sinn samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga til að krefjast lausnar úr skipsrúmi og stefndi sagði stefnanda ekki upp störfum fyrr en með bréfi dagsettu 31. október 2002. Tók uppsögnin gildi 1. nóvember s.á. og var uppsagnarfrestur 3 mánuðir. Var ráðningarsambandi aðila því ekki slitið fyrr en með uppsögninni. Hins vegar þykir það að stefndi ákvað að hætta útgerð skipsins ígildi þess að hann viki stefnanda úr skiprúmi. Þykir því verða við það að miða að fyrirkomulag það sem hafði gilt um vinnutilhögun stefnanda hafi fallið úr gildi, enda engar veiðiferðir farnar lengur. Er því ekki á það fallist að stefnandi hafi verið í launalausu fríi eftir að útgerð skipsins var hætt.
Stefnandi fékk ekki lengur greiddan aflahlut eins og ráðningarkjör hans gerðu ráð fyrir eftir að stefndi hætti útgerð skipsins, enda ekki lengur um hann að ræða. Lækkuðu laun stefnanda uppfrá því verulega frá því sem verið hafði. Vísar stefnandi einkum til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 326/2000 til stuðnings kröfu sinni um að hann eigi rétt til launa frá því að stefndi hætti útgerð skipsins til loka uppsagnarfrests sem miðist við meðallaun þau sem hann hafði haft.
Óumdeilt er að stefnandi var ráðinn upp á aflahlut og ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann héldi óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki.
Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar voru atvik með hliðstæðum hætti og í máli þessu að öðru leyti en því að útgerð skips var hætt skömmu eftir uppsögn en það hafði í för með sér að áfrýjandi fékk ekki lengur greiddan hlut af afla þess og laun hans lækkuðu verulega. Var slík breyting í raun á samningsbundnum kjörum launþega á uppsagnarfresti talin andstæð almennum reglum vinnuréttar og krafa áfrýjanda um meðallaun undanfarinna mánaða talin eiga rétt á sér að atvikum virtum og með hliðsjón af 27. gr. sjómannalaga.
Er fallist á það með stefnanda að tilvitnaður dómur Hæstaréttar í málinu nr. 326/2000 feli í sér fordæmi sem hér beri að líta til og að sömu sjónarmið eigi við þó að breytingu á launakjörum megi rekja til þess að útgerð skips hafi verið hætt áður en til uppsagnar kom. Er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki þurft að þola þær skerðingar á launum sem hann varð fyrir vegna stöðvunar á útgerð skipsins enda hafi stefnda verið í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum þannig að þær færu saman við starfslok stefnanda. Með vísan til þess og með hliðsjón af 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga, svo og dómafordæmum Hæstaréttar í málum nr. 326/2000, nr. 319/2002 og 292/2002, þykir krafa stefnanda um meðallaun frá því að útgerð skipsins var hætt eiga rétt á sér. Ekki þykir koma til álita að miða meðallaun stefnanda við laun vélstjóra á nýja Barða enda ekki um eins skip að ræða. Heldur verður miðað við laun stefnanda á tímabilinu 03.01.2002 til 03.09.2002 en ágreiningslaust er að það tímabil sé lagt til grundvallar útreikningi meðallauna.
Með hliðsjón af dómafordæmi Hæstaréttar í málinu nr. 319/2002, Sjólaskip hf. gegn Hans Schröder, verður útreikningur meðallauna stefnanda miðaður við lögskráningardaga en ekki þykja næg efni til að leggja aðrar forsendur til grundvallar útreikningi á meðallaunum stefnanda á svokölluðum biðtíma.
Lögskráningardagar stefnanda á tímabilinu frá 03.01.2002 til 03.09.2002 voru 156 og heildarlaun 4.915.240. Meðallaun stefnanda samkvæmt því voru 31.508 krónur á dag. Samkvæmt því hefðu laun stefnanda frá 4. september 2002 til 31. október s.á. numið kr. 1.827.464 (58 x 31.508). Til frádráttar koma kr. 489.739 sem stefnandi fékk greiddar frá stefnda. Mismunur kr. 1.337.725. Á uppsagnartímanum hefðu laun stefnanda numið kr. 2.835.720 (90 x 31.508). Til frádráttar koma kr. 1.688.817 sem stefnandi fékk greiddar frá stefnda. Mismunur kr. 1.146.903. Samtals bera stefnda því kr. 2.484.628 vegna vangreiddra launa. Stefnandi krefst auk þess 6% vegna glataðra lífeyrisréttinda. Verður sú krafa tekin til greina þar sem að skylda stefnda til greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalds er kjarasamningsbundin og því hluti af launakjörum stefnanda. Samtals er stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.633.706. Rétt þykir að dráttarvextir greiðist frá 10. mars 2003, þegar mánuður var liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu.
Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara en endurflutningur málsins var talinn óþarfur.
Dómsorð:
Stefndi, Síldarvinnslan hf., greiði stefnanda, Þorkeli Arnarssyni, 2.633.706 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. mars 2003 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.