Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2002
Lykilorð
- Sjómaður
- Kjarasamningur
|
|
Fimmtudaginn 10. október 2002. |
|
Nr. 129/2002. |
Skinney-Þinganes hf. (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) gegn Gunnari Þorlákssyni (Björn L. Bergsson hrl.) |
Sjómenn. Kjarasamningur.
G var ráðinn á skipið Húnaröst frá september til loka árs 1999 en S gerði skipið út til síldveiða frá Höfn í Hornafirði. Áður en ráðningartíma G lauk var skipinu haldið til Hafnar vegna jólafrís í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings. Í tengslum við þetta var G skráður af skipinu 18. desember 1999. Óumdeilt var að aflaverðmæti, sem komið hefði í hlut G fyrir desembermánuð, náði ekki fjárhæð kauptryggingar og greiddi S því G laun miðað við kauptryggingu frá 1. til 20. desember, er jólafrí hófst. G taldi sig hins vegar eiga rétt á að fá laun, sem svari kauptryggingu, til loka mánaðarins, er ráðningartíma hans lauk, auk tengdra greiðslna. Reisti G kröfu sína á ákvæði 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga. Talið var að líta bæri til 1. mgr. 27. gr. sömu laga, og lögskýringargagna sem það ákvæði varða, þar sem áréttuð sé sú grundvallarregla vinnuréttar að launþegi eigi ekki rétt til launa nema hann inni af hendi vinnu eða sé reiðubúinn til þess. Samkvæmt þessu geti skipverji, sem skráður hafi verið af skipi án þess að ráðningartíma hans sé lokið, ekki átt rétt til launa í frítíma sínum nema sérstaklega sé samið um það í kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Þá varð ekki annað ráðið af ákvæði kjarasamningsins en að miðað væri við það grunnsjónarmið að kauptrygging verði ekki greidd nema fyrir vinnu, sem innt sé af hendi á þeim tíma sem skipverji sé lögskráður, þó þannig að fjárhæð hennar sé reiknuð hlutfallslega miðað við fjölda lögskráningardaga innan kauptryggingartímabils. Samkvæmt þessu gat G ekki notið réttar til kauptryggingar fyrir það tímabil sem deilt var um í málinu. Sama gilti um kröfu stefnda um greiðslu starfsaldursálags og hlífðarfatapeninga. Krafa G um fæðisgreiðslur var tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að sér verði dæmdir dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.264 krónum frá 15. nóvember 1999 til 15. janúar 2000 og af 45.145 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var dómtekið í héraði að loknum munnlegum málflutningi 7. september 2001. Var héraðsdómur kveðinn upp á dómþingi 30. október sama árs eftir að aðilarnir höfðu lýst því yfir að þeir teldu óþarft að málið yrði flutt á ný og dómarinn lýst sig sammála því.
I.
Stefndi var ráðinn ýmist sem háseti eða stýrimaður á Húnaröst SF 550 frá september til loka árs 1999, en áfrýjandi gerði skipið út til síldveiða frá Höfn í Hornafirði. Ekki er ágreiningur um að það hafi verið heimahöfn skipsins. Áður en ráðningartíma stefnda lauk var skipinu haldið til Hafnar vegna jólafrís í samræmi við sérákvæði um skipverja á síldveiðiskipum í grein 6.05. í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, en samkvæmt því skyldi skipverjum tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá 20. desember til 2. janúar. Í tengslum við þetta var stefndi skráður af skipinu 18. desember 1999. Í málinu er óumdeilt að aflaverðmæti, sem komið hefði í hlut stefnda fyrir desembermánuð, náði ekki fjárhæð kauptryggingar eftir grein 1.04. í áðurnefndum kjarasamningi. Greiddi því áfrýjandi stefnda laun miðað við kauptryggingu frá 1. til 20. desember, er jólafrí hófst.
Stefndi vill ekki una við fyrrgreinda greiðslu launa fyrir desember 1999. Hann telur sig eiga rétt á að fá laun, sem svari kauptryggingu, til loka mánaðarins, er ráðningartíma hans lauk, en af þessum sökum eigi hann ógreiddar frá áfrýjanda 31.242 krónur. Þá telur stefndi sig eiga rétt á að fá fyrir sama tímabil starfsaldursálag samkvæmt grein 1.08. í áðurnefndum kjarasamningi, 625 krónur, og hlífðarfatapeninga eftir grein 1.07. í samningnum, 1.731 krónu. Auk þess krefst stefndi greiðslu mismunar þeirrar fjárhæðar, sem hann fékk greidda fyrir fæði í október 1999 og fyrir fyrstu nítján daga desember sama árs samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. greinar 1.09. í kjarasamningnum, og þeirrar fjárhæðar, sem hann telur sig eiga að fá greidda fyrir fæði sama tímabil samkvæmt 1. tölulið greinarinnar. Óumdeilt er að sá mismunur nemur samtals 7.380 krónum. Loks krefst stefndi greiðslu orlofs af öllu framangreindu að fjárhæð 4.167 krónur.
II.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir stefndi kröfu sína um greiðslu kauptryggingar, starfsaldursálags og hlífðarfatapeninga vegna tímabilsins frá 20. desember 1999 til loka ráðningartíma síns á skipi áfrýjanda 31. sama mánaðar á ákvæði 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en þar kemur fram að skipverji taki kaup til þess dags og að honum meðtöldum, sem ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi, og skipti þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður.
Í 1. mgr. 27. gr. sjómannalaga segir að skipverji taki kaup frá og með þeim degi, sem hann komi til vinnu, en í síðari málslið 2. mgr. sömu lagagreinar segir að um vinnu skipverja fari samkvæmt kjarasamningum og öðrum ákvæðum laganna. Í lögskýringargögnum, sem varða 27. gr. sjómannalaga, er tekið fram að með þessu sé áréttuð sú grundvallarregla vinnuréttar að launþegi eigi ekki rétt til launa nema hann inni af hendi vinnu eða sé reiðubúinn til þess. Samkvæmt þessu getur skipverji, sem skráður hefur verið af skipi án þess að ráðningartíma hans sé lokið, ekki átt rétt til launa í frítíma sínum nema sérstaklega sé samið um það í kjarasamningi eða ráðningarsamningi.
Í grein 1.04. í áðurnefndum kjarasamningi segir að útgerðarmaður skuli tryggja skipverjum „lágmarkskaup fyrir hvern mánuð (30 daga) af lögskráningartímanum“ með nánar tilgreindum fjárhæðum. Eins og að framan segir var stefndi lögskráður á skip áfrýjanda til 18. desember 1999. Af þessu ákvæði kjarasamningsins verður ekki annað ráðið en að miðað sé við það grunnsjónarmið að kauptrygging verði ekki greidd nema fyrir vinnu, sem innt er af hendi á þeim tíma sem skipverji er lögskráður, þó þannig að fjárhæð hennar sé reiknuð hlutfallslega miðað við fjölda lögskráningardaga innan kauptryggingartímabils. Samkvæmt þessu getur stefndi ekki notið réttar til kauptryggingar fyrir það tímabil í desember 1999, sem deilt er um í málinu. Fer þá á sama veg um kröfu stefnda um greiðslu starfsaldursálags og hlífðarfatapeninga.
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að á þeim tíma, sem stefndi vann á skipi áfrýjanda og krafa hans um fæðisgreiðslur tekur til, hafi það verið við síldveiðar fyrir vestan land, en aflanum verið landað í heimahöfn þess. Um þetta hafa ekki verið lögð fram gögn í málinu, en ekki eru efni til annars en að leggja þetta til grundvallar. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. greinar 1.09. í fyrrnefndum kjarasamningi skal útgerðarmaður greiða nánar tilgreinda fjárhæð vegna fæðis skipverja á tilteknum skipum, þar á meðal síldveiðiskipum, sem stunda veiðar fjarri heimahöfn. Fjárhæðin er hins vegar lægri ef veiðarnar eru stundaðar á öðrum skipum, sbr. 2. og 3. tölulið greinarinnar. Skip, sem er við veiðar fyrir vestan land og á heimahöfn í Hornafirði, verður að teljast stunda veiðar „fjarri heimahöfn“ í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. greinar 1.09. í kjarasamningnum. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að stefnda beri að fá umdeildan mismun á greiðslum fyrir fæði vegna framangreindra tveggja tímabila, samtals 7.380 krónur. Áfrýjandi hefur ekki sérstaklega mótmælt kröfu stefnda um greiðslu 10,17% orlofs af þeim kröfuliðum hans, sem kynnu að verða teknir til greina. Verða stefnda því einnig dæmdar 750 krónur í orlof, eða samtals 8.130 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um staðfestingu sjóveðréttar stefnda í Húnaröst SF 550 og málskostnað eru staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Skinney-Þinganes hf., greiði stefnda, Gunnari Þorlákssyni, 8.130 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.264 krónum frá 15. nóvember 1999 til 15. janúar 2000 og af 8.130 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um staðfestingu sjóveðréttar í Húnaröst SF 550 og um málskostnað eru staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 30. október 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 7. september 2001, hefur Gunnar Þorláksson, kt. 040158-6939, Mánabraut 2, Hornafirði, höfðað með stefnu útgefinni 23. maí 2000 fyrir Héraðsdómi Austurlands gegn Skinney-Þinganesi hf. kt. 480169-2989, Krossey, Höfn í Hornafirði, og var málið þingfest á Höfn hinn 14. júní 2000.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 45.145,00 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, frá 15. nóvember 1999 til greiðsludags. Þá er þess krafist, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 15. nóvember 2000. Þá er krafist staðfestingar á sjóveðrétti fyrir tildæmdum kröfum í Húnaröst SF-550 sem er í eigu stefnda. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.
Dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Málavextir:
Málavexti kveður stefnandi vera þá, að hann hafi starfað hjá stefnda sem háseti og stýrimaður um borð í Húnaröst SF-550 við síldveiðar síðari hluta árs 1999 og hafi veiðarnar farið fram fyrir vestan land, en aflanum verið landað á Höfn í Hornafirði. Stefnandi hafi verið ráðinn út desembermánuð 1999, en þrátt fyrir það hafi stefndi greitt stefnanda kauptryggingu einungis til 20. desember 1999, en ekki til mánaðarloka, samtals að fjárhæð kr. 53.963. Byggði stefndi þessa greiðslu á því, að stefnandi hefði verið lögskráður af skipinu þann 18. desember. Stefndi hafi auk þess greitt hlífðarfatapeninga og starfsaldursálag miðað við sama tíma. Við launauppgjör hafi stefndi reiknað stefnanda fæðispeninga kr. 643 á dag fyrir mánuðina október og desember þetta ár.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfur sínar um greiðslu kauptryggingar fyrir allan desembermánuð 1999 á því, að kauptrygging sjómanna sé hluti af föstum ráðningarkjörum sjómanna. Stefnandi telji ekki skipta máli hvort lögbundnir frídagar sjómanna falli innan ráðningartímabilsins eða ekki. Stefnandi hafi aðeins greitt kauptryggingu til 20. desember 1999. Stefnandi telur, að stefnda beri að greiða stefnanda kauptryggingu út ráðningartímabilið án tillits til lögskráningar, en stefnandi var afskráður þann 18. desember 1999. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 35/1985, en samkvæmt því ákvæði taki skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum, en ráðningu hans lýkur, samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi og skiptir þá ekki máli hvort hann hefur áður verið skráður eða ekki. Stefnandi hafi verið ráðinn á skipið út desember og sé því mótmælt að ráðningarsamningi hafi verið slitið fyrir þann tíma með afskráningu eða uppsögn og beri stefnda því að greiða samningsbundna kauptryggingu út ráðningartímabilið.
Húnröst SF-550 sé í eigu stefnda og er félaginu því jafnframt stefnt til staðfestingar á sjóðveðrétti skv. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingarlaga nr. 34/1985.
Málsástæður stefnda:
Stefndi mótmælir kröfu um kauptryggingu í jólafríi skipverja sem veitt sé samkvæmt 4. mgr. greinar 6.05 í kjarasamningi. Með því samningsákvæði sé stefnda skylt að veita áhöfn frí í heimahöfn frá og með 20. desember til og með 2. janúar. Leggja verði skipi þetta tímabil og ekki sé heimilt skv. greininni að kveðja skipverja til vinnu um borð á tímabilinu. Sé það frí því launalaust sem og önnur frí fiskimanna. Samkvæmt launakerfi fiskimanna fái þeir greiddan hlut eða kauptryggingu fyrir lögskráða veru um borð, en fari í launalaus frí frá skipi að undanteknu sumarfríi. Kröfum um starfsaldursálag og hlífðarfatapeninga sé jafnframt mótmælt. Starfsaldursálag sé ekki greitt í launalausum fríum. Hlífðarfatapeningar séu kostnaðarliður sem greiðist fyrir vinnufatnað sem notaður sé við vinnu en ekki fríum.
Kröfum um fæðispeninga sé mótmælt sem röngum. Stefndi hafi greitt stefnanda fæðispeninga í samræmi við ákvæði 2. tl. greinar 1.09. í kjarasamningi þar sem um sé að ræða skip sem stundi veiðar frá heimahöfn.
Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 35/1985 tekur skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður.
Stefndi hefur haldið því fram, að þar sem stefnandi hafi verið í jólafríi samkvæmt 4. mgr. gr. 6.05 í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá og með 20. desember og til og með 2. janúar hafi stefnda ekki borið að greiða kauptryggingu fyrir þann tíma. Sé það frí launalaust sem og önnur frí fiskimanna. Samkvæmt launakerfi fiskimanna fái þeir greiddan hlut eða kauptryggingu fyrir lögskráða veru um borð en fari í launalaus frí frá skipi að undanteknu sumarfrí.
Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 2. mgr. 27. gr. getur lögskráning stefnanda ekki ráðið úrslitum um það tímamark sem miða verði við þegar ákvarðað er hvenær stefnandi tæki kaup hjá stefnda. Verður um það atriði að líta til ráðningarsambands stefnanda við stefnda sem og ákvæða kjarasamnings um rétt stefnda til launa.
Ekki er í máli þessu deilt um að ráðning stefnanda tók til alls desembermánaðar. Með hliðsjón af gr. 1.10 í kjarasamningi aðila var desembermánuður sérstakt kauptryggingartímabil. Ekki er í gr. 1.14 né í grein 6.05. í kjarasamninga aðila mælt fyrir um að hafnarfrí skerði rétt skipverja til greiðslu kauptryggingar. Bar stefnda því að greiða stefnanda kauptryggingu fyrir allt kauptryggingartímabilið, enda var um að ræða ráðningarsamband á milli málsaðila allt tímabilið.
Samkvæmt gr. 1.07. í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útgerðarmanna bar stefnanda að fá tiltekna hlífðarfatapeninga fyrir hvern mánuð. Er hér um samningsbundnar greiðslur að ræða, sem stefnda bar að greiða stefnanda og voru hluti af launakjörum stefnanda. Skiptir hér engu hvert er heiti þessara greiðslna. Þar sem ráðningarsamband stefnanda og stefnda tók til alls desembermánaðar gat stefndi ekki látið sitja við að greiða stefnda hlífðarfatapeninga að tiltölu fyrir desembermánuð heldur bar að greiða stefnanda fulla greiðslu fyrir mánuðinn og má einu gilda þó stefnandi hafi verið í hafnarfríi hluta desembermánaðar.
Þá hefur skipsverji rétt til starfsaldursálags skv. gr. 1.08. uppfylli hann þau skilyrði sem nánar eru tilgreind í greininni. Er hér einnig um að ræða samningsbundnar greiðslur sem voru hluti af launakjörum stefnanda. Gat stefndi ekki einhliða skert rétt stefnanda til þessara greiðslna jafnvel þó að stefnandi ætti rétt á hafnarfríi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings.
Engin gögn hafa verið lögð fram í máli þessu um það, hvernig kjarasamningsákvæði um fæðispeninga er almennt skýrt. Þá hefur ekki verið færð fram nein skýring á því, hvers vegna greiða skuli hærri fæðispeninga, ef skip stundar veiðar fjarri heimahöfn, en ef veiðarnar eru stundaðar nær. Verður því að skýra samningsákvæðið eftir orðanna hljóðan. Verður að telja að veiðar stundaðar fyrir vestan land, séu stundaðar fjarri Höfn í Hornafirði og þá jafnframt, að stefndi skuli greiða stefnanda fæðispeninga samkvæmt því kr. 807 á dag.
Ekki er ágreiningur með málsaðilum, um að mismunur þess, sem stefndi greiddi stefnanda í fæðispeninga og þess, sem honum samkvæmt þessu ber að greiða nemur kr. 3.936.
Þá er fallist á enda ekki ágreiningur um að stefnda bera að greiða 10,17% orlof á allar ofangreindar greiðslur, eða kr. 4.167.
Er samkvæmt þessu fallist á, að stefnda beri að greiða stefnanda kr. 45.145 (4.264+31.242+1.731+625+3.116+4.167) ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá 15. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfestur er sjóveðréttur í Húnaröst SF-550 fyrir tildæmum kröfum.
Málskostnaður í þessum þætti málsins fellur niður.
Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Skinney-Þinganes hf., greiði stefnanda, Gunnari Þorlákssyni kr. 45,145 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá 15. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfestur er sjóveðréttur í Húnaröst SF-550 fyrir tildæmum kröfum.
Málskostnaður fellur niður.